Grein í Fiskifréttum

 

Ósátt um aflamarkskerfið

Umræðan um sjávarútveginn hættir seint að koma greinarhöfundi á óvart og hefur valdið heilabrotum um hvers vegna hún snýst sjaldnast um það sem skiptir mestu máli; að sjávarútvegsstefnan hámarki hag íslensku þjóðarinnar.  Hvað veldur því að fólk er tilbúið að kippa stoðum undan sjávarútvegsstefnu sem er hagkvæm og hámarkar verðmætasköpun og byggir á markaðsbúskap, að mestu leyti?  Í viðtali í áramótablaði Viðskiptablaðsins sagði utanríkisráðherra að nauðsynlegt væri að ljúka málinu og þar þyrftu útgerðarmenn að koma til móts við stjórnvöld til að leysa málið.  Til að leysa málið!  Í því samhengi skiptir engu hvort þjóðin standi verr eftir breytingarnar, heldur aðeins að stjórnarflokkarnir geti haldið andlitinu eftir ábyrðalausar yfirlýsingar.

Pólitíkin og lýðskrumið

Ef við gefum okkur að álitsgjafar ríkisstjórnarflokkanna taki pólitík fram yfir þjóðarhag þá skýrist málið.  En hvað vakir fyrir almenningi sem ætti að láta sig varða um mikilvægustu auðlind þjóðarinnar og standa vörð um hagsmuni sína með því að tryggja hagkvæman sjávarútveg.  Hvernig er hægt með lýðskrumið eitt að vopni að valda svo mikilli andstöðu við skynsamlegt fiskveiðistjórnarkerfi, sem hefur sýnt sig að hefur komið í veg fyrir sóun og skapað mikla arðsemi í gegnum tíðina?

Það er enn furðulegra að hægt sé að sannfæra íbúa við sjávarsíðuna að skattur á útgerðina sé eitthvað réttlætismál, og því hærra sem veiðigjaldið sé, því meira réttlæti.  Veiðigjald er ekkert annað en skattur á sjávarbyggðir og mun draga enn frekar úr þrótti þessara samfélaga.  Minna fjármagn verður eftir í heimabyggð og ríkiskassinn fitnar á þeirra kostnað.  En hvers vegna er þá umræðan með þessum hætti?

Að skipta fiskveiðiarðinum rétt

Það er nauðsynlegt að reka íslenskan sjávarútveg með hagkvæmum hætti, eftir leikreglum markaðskerfis, og alls ekki með ráðstjórn og miðstýringu.  Enginn ráðherra, hversu góður sem hann er, getur haft þær upplýsingar sem markaðurinn hefur, og því verður honum ómögulegt að taka ákvarðanir sem stuðla að hagkvæmni og koma í veg fyrir sóun.  Til að sjá slíkt ráðslag þarf ekki að líta langt, og dugar að horfa til Noregs, sem þrátt fyrir tvöfalda veiði skilar sömu arðsemi, í krónum talið, og íslenskur sjávarútvegur.

En það er ekki nóg að skapa arð, það þarf að skipta honum rétt.  Og þar stendur hnífurinn einmitt í kúnni!  Við erum ekki að skipta fiskveiðiarðinum með sanngjörnum og réttum hætti.  Fiskveiðiauðlindin er sameign þjóðarinnar.  Það þýðir ekki að greinin eigi að standa undir byggðastefnu eða rétt sé að skattleggja hana út í hafsauga.  En það þarf að gefa spilin rétt.  Það má með sanni segja að sjómenn séu nokkuð vel settir með sitt hlutaskiptakerfi, enda laun sjómanna mjög góð í dag.  Það er fiskverkafólk sem ber skarðan  hlut frá borði. 

Stundum þarf að lesa góða skáldsögu til að skilja nútímann.  Í sögunni „Hjarta mannsins" eftir Jón Kalman er lýsing á því sem gæti verið Ásgeirsverslun á nítjándu öldinni.  Kjör og hagir verkafólks eins og þeim er lýst í sögunni eru þyngri en tárum tekur.  En hefur þetta breyst svo mikið?  Að sjálfsögðu hefur þetta breyst til batnaðar, en sú breyting hefur engan veginn haldið í við aðra þróun í landinu.  Þrátt fyrir að sjávarútvegur sé mikilvægasta atvinnugrein þjóðarinnar eru fiskvinnslustörf með því lélegasta sem hægt er vinna við, og hefur þurft að flytja inn vinnuafl frá austur Evrópu í stórum stíl til að manna frystihús.

Undanfarin ár hafa margir útgerðarmenn tekið vel fjármögnuð fyrirtæki úr Kauphöll, með skuldsettri yfirtöku.  Sum þessara fyrirtækja sitja upp í dag með skuldir upp fyrir rjáfur og eru ekkert annað en vaxtaþrælar.  Slík fyrirtæki skila ekki því sem þau þyrftu að gera, hvorki til nærsamfélagsins né starfsmanna og því  alls ekki í stakk búin til að dreifa eðlilegum arði af auðlindinni til þjóðarinnar..

Bæta þekkingu og kjör fiskvinnslufólks

Fyrir sjávarútveginn væri miklu vænlegra að setja sér mannauðsstefnu þar sem reynt væri að auka þekkingu og getu starfsmanna, sem vonandi skilaði sér í hagkvæmari rekstri til lengri tíma litið.  Hækka síðan launin verulega og bæta aðbúnað starfsmanna og gera fiskvinnslustörf meira aðlaðandi.  Með auknum tekjum myndi nærsamfélagið blómstra og slíkt er mun gæfulegri leið en ríkið leggi auðlindagjald á sjávarútveginn.  Það þarf að jafna aðstöðu „eigenda" auðlindarinnar og þeirra sem vilja starfa við hana.  Það óréttlæti sem svo augljóslega blasir við í dag þarf að víkja.  Það verður aldrei sátt um sjávarútveginn meðan menn reka þetta eins og nú sé nítjánda öldin.  En það þarf ekki að eyðileggja gott fiskveiðistjórnunarkerfi til að deila arðinum af vel reknum sjávarútvegi. 

 

Gunnar Þórðarson

Fyrrverandi formaður Sjómannafélags Ísfirðinga


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband