Grein úr Þjóðmál

 

John Maynard Keynes, Almenna kenningin um atvinnu vexti og. Sjötíu árum síðar

Það er athyglisvert að rifja upp rúmlega sjötíu ára verk Keynes um „Almennu kenningarinnar um atvinnu,vexti og peninga" í ljósi umræðu um skuldasöfnun vestrænna ríkja í dag.

Bókin hafði mikil áhrif  á sínum tíma og höfundurinn , hagfræðingurinn John Maynard Keynes, hefur verið talinn einn af áhrifamestu einstaklingum síðustu aldar og bók hans talin  það rit sem mest áhrif hefur haft á þróun þjóðfélaga í Evrópu á síðustu öld..

John Maynard Keynes fæddist í Cambridge á Englandi 1883, sonur hagfræðings og prófessors við Cambridge háskóla, John Neville Keynes. Hann fékk fyrsta flokks menntun frá Eton og Cambridge en áhugamálin lágu víða. Hann féll illa að staðlaðri fyrirmynd hagfræðinga samtímans enda margt sem fangaði hug hans, t.d. listir, en hann gekk undir gælunafninu ,,listvinurinn" meðal samnemanda sinna í Eton og Cambride.  Sem ungur maður stundaði hann embættismannastörf fyrir bresk yfirvöld, m.a. hjá landstjóranum á Indlandi. 

Hann var mikilvirkur í listalífi Lundúna, og í vinfengi við marga þekktustu listamenn landsins í gegnum svokallaðan Bloomsburry hóp. Þar kynntist hann meðal annars Virginíu Wolf, George Bernhard Shaw og Duncan Grant listmálara en við hann átti Keynes í ástarsambandi framan af ævi.

Þegar heimsstyrjöldin fyrri skall á var hann kallaður til starfa hjá breska fjármálaráðuneytinu sem tryggði honum stöðu í nefnd sem fór til Parísar til að ganga frá Versalasamningunum við uppgjöf  Þjóðverja eftir fyrri heimstyrjöldina. Eftir heimkomu þaðan gagnrýndi hann einstrengingslegar kröfur sigurvegaranna, Frakka, Breta og Bandaríkjamanna, og varaði við gríðarlegum stríðsskaðabótum sem Þjóðverjum var gert að greiða.  Hann taldi að þær myndu einungis ýta undir ofstæki og skapa jarðveg fyrir öfgahópa. Friðarsamningunum gerði hann skil í bók sinni ,, Hagrænu afleiðingar friðar"(e. Economic consequences of the Peace) og eftir seinni heimstyrjöldina voru viðvaranir Keynes hafðar að leiðarljósi  við uppgjöf  Þjóðverja Eftir seinni heimsstyrjöldina fór hann fyrir  bresku sendinefndinni á ráðstefnu í Bretton Woods í New Hampshire í Bandaríkjunum. Það var á þeirri ráðstefnu sem lögð voru drög að stofnun Alþjóða gjaldeyrisjóðsins og Alþjóðabankans, sem voru hugarfóstur Keynes.  Á ráðstefnunni var gerður sáttmáli um að auka milliríkjaverslun með því að draga úr viðskiptahindrunum landa á milli, en til að það tækist varð að draga úr verndarstefnu milli ríkja.  Þrátt fyrir að Keynes hefði ekki náð fram sínum helstu markmiðum á ráðstefnunni, sbr. sérstakan gjaldmiðil sem ætti að nota í uppgjöri á milliríkjaviðskiptum og að Bretar hefðu þurft að gefa töluvert eftir af sínum samningsmarkmiðum, eru ákvarðanir sem teknar voru í Bretton Woods taldar hafa haft mikil áhrif á hagkerfi heimsins.

Í ræðu sem Keynes flutti á breska þinginu í desember 1945, hálfu ári áður en hann lést, sagði hann eftirfarandi um Bretton Woods samkomulagið:

,,tillögur varðandi gjaldmiðla og viðskipti eru  miðaðar við að halda jafnvægi, með því að leyfa ýmsar verndarráðstafanir þegar þeirra er þörf og banna þær, þegar þeirra er ekki þörf. Það sem einkennir þessar fyrirætlanir er að tengja saman helstu kosti verslunarfrelsis við óheillavænlegar afleiðingar laissez-faire. Enda tekur það ekki beinlínis tillit til varðveislu jafnvægis og treystir einvörðungu á ferli blindra afla. Hér er því um tilraun að ræða þar sem við notum það sem við höfum lært af reynslu samtíðarinnar og skilgreiningu nútímans, en ekki til að hnekkja, heldur til að efla visku Adams Smiths"[1].

Það er þó fyrir bókina ,,Almennu kenningarinnar um atvinnu, vexti og peninga" sem  Keynes verður fyrst og fremst minnst.  Bókin hefur oft verið kölluð upphaf  þjóðhagfræði en þar leit höfundur yfir heildarsviðið, allt hagkerfið, í stað þess að einblína á einstakar atvinnugreinar, fyrirtæki eða heimili við útskýringar á virkni hagkerfisins.

Bókin kom út í skugga kreppunnar miklu, sem í kjölfar verðfallsins á Wall Street 1929 setti hagkerfi heimsins á hliðina.  Í  kjölfar kreppunnar fylgdi mikið atvinnuleysi sem olli sárri fátækt í Bandaríkjunum og víðar á Vesturlöndum.  Á þessum tíma þekktust atvinnuleysisbætur ekki og kröppum kjörum alþýðu fylgdi mikil ólga þar sem öfgafullum stjórnmálaöflum óx fiskur um hrygg. 

Klassískir hagfræðingar (íhaldsmenn), höfðu boðað afskiptaleysi stjórnvalda ( ,,laissez fair") allt frá dögum Adam Smith og vildu margir kenna ófullkomleika þeirrar stefnu um kreppuna og getuleysi (viljaleysi) stjórnvalda til að taka á málum. Í framhaldi af verðfallinu 1929 varð sjóðþurrð hjá bönkum sem olli mikilli skelfingu og fólk þyrptist í banka til að taka út peninga.  Þetta var fyrir þá tíð að seðlabankar tryggðu bönkum ávallt nægilegt fjármagn til að greiða út innistæður.

Þrátt fyrir að Keynes teldi sig tilheyra borgarastéttinni og aðhylltist auðhyggju (kapítalisma) taldi hann að frjálshyggjan hefði siglt í strand og aðferðir íhaldsmanna dygðu ekki til að koma efnahagskerfinu upp á sporið að nýju.  Hann taldi sig reyndar vera að bjarga auðhyggjunni með hugmyndum sínum, en gagnrýni hans á ríkjandi stefnu frjálshyggju og afskiptaleysi var hörð og óvægin.

Hann trúði því að með aðgerðum sínum gætu stjórnvöld komið hjólum efnahagslífsins á stað aftur og benti sérstaklega á vangetu íhaldsmanna til að leysa atvinnuleysi og gagnrýndi hugmyndir þeirra um að hagkerfið væri ávallt í jafnvægi við full afköst, en það taldi Keynes  að gæti alls ekki staðist.

Keynes hélt því fram að laun breyttust með öðrum hætti en vörur vegna hugmynda launþega um réttlæti, með  samtakamætti og stéttaátökum kæmu þeir í veg fyrir launalækkun.  Hinsvegar þegar ríkið eykur framkvæmdir og umsvif sín í hagkerfinu og bætir við peningamagn í umferð, valdi það verðbólgu sem lækki raunlaun og fyrirtæki sjái sér hag í að ráða fólk í vinnu.  Þannig að framleiðsla aukist með minkandi atvinnuleysi og einnig valdi þessi innspýting ríkisins inn í hagkerfið aukinni bjartsýni á framtíðina sem auki fjárfestingu og  hagvöxt.  Sérstaklega eigi þetta við á krepputímum en afskiptaleysi stjórnvalda á slíkum óvissutímum sýni aðeins hversu máttvana klassísk hagfræði er til að takast á við slíkan vanda.  Það var meðal annars haft eftir honum að það gæti borgað sig fyrir ríkið að láta verkamenn moka skurði og síðan fylla þá upp aftur.

Segja má að í þessu kristallist ágreiningur Keynes við klassíska hagfræðinga, sem höfnuðu pólitísku inngripi í hagkerfið og vildu láta markaðinn leysa hagfræðileg mál.  Keynes aftur á móti vildi nota auðhyggjuna eftirspurnarmegin í hagkerfinu (gefa fyrirtækjum gott svigrúm) til að framleiða á sem hagkvæmasta hátt, en pólitík til að dreifa afrakstrinum framboðsmegin (ríkið auki hlutdeild sína í hagkerfinu) þar sem gæðunum er útdeilt. 

En Keynes vildi ganga lengra og lagði til ,,félagslega fjárfestingu" þar sem ríkið ætti að auka hlutdeild sína í hagkerfinu með beinum fjárfestingum í atvinnulífinu .  Hann taldi sig ekki vera að leggja til sósíalisma með þessu heldur væri þetta eina leiðin til að koma á jafnvægi fullrar atvinnu og hámarks framleiðslu, sem hann taldi frjálshyggjuna ófæra um að gera. 

Bók Keynes um Almennu kenninguna hafði mikil áhrif í heimi hagfræðinnar og á hið pólitíska andrúmsloft.  Margt af  því sem þar kemur fram hefur eflaust hljómað vel í eyrum stjórnmálamanna eins og réttlæting á peningaprentun, aukna skattlagningu og áhrif stjórnmálamanna á framboðshlið hagkerfisins.  Einnig eru viðbrögð klassískra hagfræðinga, en hugmyndir þeirra höfðu verið ráðandi á Vesturlöndum um langt skeið, skiljanleg.  Bókin réðst harkalega að kenningum frjálshyggjumanna og dregur þá oft sundur og saman í háði enda textinn einharður og miskunnarlaus.

Hugmyndafræði Keynes var tekið fagnandi á Vesturlöndum og voru notaðar sem lausn á kreppu eftir seinni heimstyrjöldina og í kjölfarið fylgdi mesta hagvaxtarskeið mannkynssögunnar.  Margir urðu hinsvegar til að gagnrýna þessar kenningar og fór þar félagi og samtímamaður hans Austurríkismaðurinn Fredrik Ágúst von Hayak einna fremstur í flokki.  Einnig deildi Milton Friedman prófessor við Chicago háskóla ákaft á kenningar Keynes, en hann hafði aðra skýringu á kreppunni miklu sem hann skýrði með mistökum Seðlabanka Bandaríkjanna að tryggja ekki bönkum nægt lausafé og auka þannig peningamagn í umferð.  Á sama hátt varaði hann við lausbeislaðri peningamálastefnu og auknum ríkisafskiptum sem leiða myndu til verðbólgu og skuldasöfnunar ríkissjóðs.  Aðrir kennismiðir í anda Keynes höfðu fundið út að hægt væri að draga úr atvinnuleysi með því að auka verðbólgu og þar með var komin lausn sem bæði myndi  auka hagvöxt og velsæld í heiminum.

Efnahagserfiðleikar þrengdu að Vesturlöndum á sjöunda áratugnum, þar sem bæði verðbólga og atvinnuleysi fóru úr böndunum ásamt meiri viðskiptahalla en áður hafði þekkst.  Keynes lifði ekki þessa daga en margir hafa bent á að ósanngjarnt sé að gera kenningar hans að blóraböggli í því máli. Það varð þó til þess að íhaldsmenn náðu aftur vindi í segl sín og nýir tímar tóku við með Thatcher og Reagan.  Fram að 2008  má segja að ríkjandi kenningar í hagfræði væru ný-Keynesismi og ný-klassísk, þó nefna megi peningastefnu (Monetarisma) með Milton Friedman í fararbroddi.   

Ástand efnahagsmála Vesturlanda upp úr 2008 hafa orðið til þess að rykið hefur verið dustað af kenningum Keynes sem eins og áður segir deildi hart á viðbrögð við verðfallinu á Wall Street 1929 og kerppu sem fylgdi í kjölfarið. Bandaríski seðlabankinn gerði á þeim tíma þau grundavallarmistök að tryggja ekki inneign sparifjáreiganda og koma þannig í veg fyrir sjóðþurrð banka og þeirri keðjuverkun gjaldþrota sem því fylgdi.[2]  Bankann skorti ekki völd eða getu til þess að útvega bönkum fjármuni með tryggingu í útlánum enda var það eitt helsta hlutverk hans.  Hefði Seðlabanki Bandaríkjanna stöðvað útstreymi úr bönkunum og komið í veg fyrir bylgju bankagjaldþrota hefði kreppan aldrei náð þeim hæðum sem raunin varð.  Peningamagn í Bandaríkjunum dróst saman um þriðjung frá því í júlí 1929 til mars 1933, og tveir þriðju þess samdráttar urðu eftir að Bretar féllu frá gullfæti til að tryggja enska pundið. [3]

Segja má að ríki Vesturlanda hafi brugðist við með ólíkum hætti eftir hrunið 2008 og þar sem lögð var áhersla á koma í veg fyrir bankaáhlaup þar sem ríkisvaldið tryggði inneignir í bönkum og getu þeirra til að standa við útgreiðslur, kæmi til þess.  Í framhaldi hafa Vesturlönd, með Bandaríkin í broddi fylkingar gripið til Keynsisma með því að dæla peningum inn i hagkerfið með peningaprentun og lágum stýrivöxtum.

Hingað til hafði skuldasöfnun Bandaríkjanna aðalega verið bundin við stríðskostnað, fyrir utan kostnaðinn við „New Deal" Roosevelts, einmitt eftir kreppuna miklu.  Í upphafi tuttugustu aldar voru  skuldir ríkisins (Federal Debt) innan við 10% af þjóðarframleiðslu. Eftir kreppuna miklu og „New Deal" jukust skuldir mikið en það var þó í seinni heimstyrjöldinni sem þær náðu nýjum hæðum, eða 122% af þjóðarframleiðslu.  Næstu 35 árin lækkuðu skuldir umtalsvert sem hlutfall af þjóðarframleiðslu þar til Regan hóf lokaorustuna í kalda stríðinu og opinberar skuldir fóru yfir 60% af þjóðarframleiðslu.  Stríðið gegn hryðjurverkamönnum kostuðu hinsvegar sitt en fyrst tók steininn úr eftir 2008 þegar Obama, samkvæmt Keynesiskum ráðum, hóf stjórnlausa penngaprentun til að auka eftirspurn í hagkerfinu í viðleitni sinni til að minnka atvinnuleysi og auka hagvöxt í Bandaríkjunum.[4]

Á sínum tíma gagnrýndi Milton Friedman kenningar Keynes harkalega, fyrst undir merkjum peningahyggju (monetarism) en síðan undir merkjum ný-klassískrar hagfræði.   Magn peninga í umferð hefur orðið mörgum hagfræðingnum umhugsunarefni í gegnum aldirnar og er peningamagnskenningin (quantity theory of money) að minnsta kosti 500 ára gömul og gæti verið komin frá tíma Confuciusar. [5]  Adam Smith velti þessu máli fyrir sér og líkti peningamagni við fljót sem rynni í árfarveg og ef of mikið magn væri látið í hann (árfarveginn) þá myndi eðlilega fljóta yfir bakkana. [6]

Samkvæmt klassísku módeli þá eru laun og verðlag fullkomlega breytilegt.  Ef ríkið eykur umsvif sín er tvennt sem getur gerst.  Við aukin umsvif eykst eftirspurn eftir peningum og vextir hækka.  Við hærri vexti draga fyrirtæki úr fjárfestingum sínum og eina breytingin er að ríkið fær nú stærri sneið af hagkerfinu.  Ef ríkið hinsvegar eykur peningamagn í umferð til að halda niðri vöxtum þá hækkar verðlag og verðbólga en engin breyting verður á framleiðslu.  Hinsvegar þarf að greiða niður fjárlagahalla (eða vexti af ríkisskuldabréfum) í framtíðinni sem étur upp hagvaxtaraukningu við aukin umsvif.

Samkvæmt kenningum klassískra hagfræðinga er ekki hægt að stækka hagkerfið til lengri tíma með aukinni eftirspurn.  En hægt er að hafa áhrif á framboðshliðina, t.d. með skattalækkunum, sem eykur vinnuvilja fólks, peningamagn í umferð og sparnað.  Vextir lækka og fyrirtæki fjárfesta í nýjum atvinnutækjum og þjóðarframleiðsla eykst.

Keynesísk hagfræði gerir hinsvegar ráð fyrir að nafnvirði launa breytist ekki og sú verðbólga sem myndist við aukin umsvif ríkisins ásamt auknu peningamagni lækki því raunverulegan launakostnað.  Vextir lækki og fyrirtæki bæti við starfsfólki vegna launalækkunar og betri vaxtakjara.  Seinni árin hafa komið fram kenningar sem brúa þetta bil og vilja halda því fram að Keynesískri aðferðir geti virkað til skamms tíma þó þær geri það ekki til lengri tíma.[7]

Fram á sjöunda áratuginn trúðu menn mjög á kenningar Keynes og renndu hugmyndir nýsjálenska hagfræðingsins Phillis frekari stoðum undir þær.  Þessar hugmyndir sýndu að hægt væri að velja á milli verðbólgu og atvinnuleysis og væri um neikvæð tengsl að ræða.  Hægt væri með öðrum orðum að minnka atvinnuleysi með hæfilegri verðbólgu.  Á áttunda áratugnum fór þetta  úr böndunum þar sem bæði verðbólga og atvinnuleysi jukust jöfnum höndum um alla Vestur Evrópu og Bandaríkin.  Það var einmitt Friedman sem benti á veilur í Phillis-kúrfunni þar sem honum hafði láðst að gera greinarmun á peningalaunum og raunverulegum kaupmætti launa.

Það verður fróðlegt að líta um öxl þegar rykið hefur sest í því pólitíska umróti sem kreppa iðnríkja hefur valdið, en margir telja að meginorsök hennar hafi verið of ódýrt fjármagn sem grafið hafi undan varkárni og ráðdeild.  Hvort Keynesísk úrræði vestrænna stjórnmálamanna duga til að leysa málið eða hvort varnaðarorð klassískra hagfræðinga hafi verið rétt.  Um þetta er tekist á í dag, sérstaklega í Bandaríkjunum en þróun mála í íslensku hagkerfi er einnig áhugaverð ef skoðuð í þessu ljósi.  Ljóst má þó vera að skuldavandi vestrænna ríkja er gríðarlegt vandamál sem ekki sér fyrir endann á.  Víða er frjálshyggju, eða ný-frjálshyggju (óskilgreint hugtak)  kennt um þær ógöngur sem hagkerfi vestrænna þjóða er komið í, en spurning hvort þar sé verið að hengja bakara fyrir smið og nær sé að leita að sökudólgnum í sósíalisma  .Ljóst má vera að rætur vandans liggja í óábyrgri fjármálastjórn vestrænna ríkja, þar sem þjónusta hefur verið aukin við íbúa, langt umfram tekjuaukningu, og bilið verið fjármagnað með lántökum. 


[1] ,The balance of Payments of the United States",The Economic journal, Vol.LVI.júni 1946,bls 185-186. þýðing Haraldur Jóhannsson í Heimskreppa og Heimsviðskipti (1975)

[2] Þorvaldur Gylfason (1990)

[3] Friedman (1982)

[4] http://www.usgovernmentspending.com/spending_chart_1900_2016USp_12s1li011lcn_H0f_US_Federal_Debt_Since_#copypaste

[5] Begg (2000)

[6] Haraldur Jónsson (2000)

[7] Beggs (2000)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 8
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 285738

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband