Samfélagsleg ábyrgð í rækjuveiðum í Ísafjarðardjúpi

 

Undirritaður hefur haldið upp vörnum fyrir núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, sem byggt er á aflahlutdeildarkerfi þar sem heimildum er úthlutað sem hlutfalli af leyfilegum ársafla.  Kerfið viðheldur hagkvæmni og eykur verðmætasköpun í sjávarútvegi, sem er okkur Íslendingum nauðsynlegt.  Höfundi hefur oft verið legið á hálsi að ósekju að ganga erinda LÍÚ eða einstakra „kvótaeiganda" í umfjöllun sinni um málefnið, en látið það sem vind um eyru þjóta og litið á slíkt sem rökþrot í umræðunni.  Höfundur trúir því af einlægni að Íslenskur sjávarútvegur eigi að byggja á markaðsbúskap en ekki sósíalisma þar sem daglegar ákvarðanir eru teknar af stjórnmálamönnum.

Kvótakerfið, eins og önnur mannanna verk, er ekki fullkomið og ekki er hægt með reglum einum að tryggja fullkomlega réttláta nýtingu auðlindarinnar.  Þeim sem falin er ábyrgð á nýtingu aflaheimilda, og þar með lífsbjörg sjávarbyggða, geta ekki bara skýlt sér á bak við lög og reglur þar sem oft þarf að taka siðrænar ákvarðanir.  Þar sem lögin ná ekki til tekur við gildismat viðkomandi aðila um hvað sér rétt og rangt og hvað sé réttlátt og hvað ekki.  Að þó að markaðsbúskapur sé nauðsynlegur til að hámarka arðsemi þýðir það ekki afneitun á hagsmunum þeirra sem eiga mikið undir auðlindum sjávar og þegar upp er staðið þarf allt samfélagið að njóta góðs af.  Krafa er um að þeir sem hafa nýtingarrétt á auðlindinni hugi að heildarhagsmunum þeirra samfélaga sem byggja lífsviðurværi sitt á þeim.

Þetta kemur upp í hugann nú þegar ljóst er að meginhluti kvóta úr Ísafjarðardjúpi er ekið, með ærnum tilkostnaði, í burtu til vinnslu annarsstaðar.  Sem markaðshyggjumanni gæti undirritaður sætt sig við að slíkar ákvarðanir væru teknar á viðskiptalegum forsendum þar sem um verulega aukningu á verðmætasköpun væri að ræða.  En er það svo við þessa ákvörðun „eiganda" rækjukvóta í Ísafjarðardjúpi?

Samkvæmt viðtali í Mbl við einn útgerðarmanna, Aðalstein Ómar Ásgeirsson, réði úthlutun á byggðakvóta á Ísafirði þeirri ákvörðun að landa afla sínum í Súðavík en ekki heimahöfn.  Hér er því ekki um efnahagslegt mál að ræða heldur óánægju með að sveitarstjórnarmenn treysta sér ekki til að sveigja til reglur um úthlutun byggðakvóta á Ísafirði.  Hér verður ekki farið út í hvaða reglur gilda um úthlutun byggðakvóta, enda ekki á færi hæfustu manna að skilja það kerfi.  Eitt er þó ljóst að úthlutun miðar við byggðakjarna (t.d. Ísafjörð, Hnífsdal,Flateyri, Súðavík o.sf.) sem væntanlegur styrkþegi hefur landað afla sínum í, til vinnslu.

Það var sem köld vatnsgusa framan í margan Ísfirðinginn þegar kom í ljós að meginhluti útgerðamanna bæjarins ákvað að landa rækjuafla til vinnslu í Hólmavík.  1.000 tonna kvóti gerir um 250 milljóna veltu rækjuverksmiðjunnar Kampa, sem væri góð búbót fyrir atvinnulíf bæjarins.  Útsvarstekjur  bæjarins nema miljónum króna sem tapast og auk þess að tekjur Ísafjarðarhafnar gætu minnkað um á þriðju milljón á ári vegna ákvarðana þeirra um að nota ekki heimahöfn.  Allt er þetta gert vegna þess að viðkomandi útgerðarmenn fá ekki reglum um byggðakvóta sveigðar og beygðar fyrir sig.

Þetta er umhugsunarefni og ekki síst fyrir það að hér eiga í hlut stærstu atvinnurekendur bæjarins.  Þeir skirrast ekki við að taka ákvarðanir sem skaða nærsamfélag þeirra, sem ekki eru einu sinni byggðar á efanahagslegum forsendum!   Ljóst er að ef miðað væri við löndun á Ísafirði bar ekki mikið í milli aðila um verð, og því geta ákvarðanir ekki snúist um það.  Þessir útgerðarmenn beita samtakamætti sínum til tryggja þrönga hagsmuni á kostnað bæjarfélagsins.

Undirritaður er enn þeirra skoðunar að nota eigi markaðslegar forsendur við stjórnun fiskveiða á Íslandi.  Aðgerð þessara útgerðaraðila er hinsvegar til þess fallin að draga úr trúverðugleika talsmanna aflamarkskerfisins og er vatn á myllu þeirra sem vilja meiri opinber og pólitísk afskipti af rekstri útgerðar.  Ekki sé hægt að treysta gildismati rétthafa aflaheimilda og þeir beri ekki hag nærsamfélagsins sér fyrir brjósti. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 285729

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband