Grein í Fiskifréttum

 

Sjávarútvegur - undirstaða atvinnulífs

Guyamas SonoraUndirritaður dvaldi um árabil í Mexíkó þar sem hann starfaði við uppbyggingu á stóru sjávarútvegsfyrirtæki.  Á sama tíma gafst tækifæri til að kynnast starfsemi bandarískra fyrirtækja í bílaiðnaði og bera saman ólíka aðferðafræði við stjórnun og starfsmannahald.  Í fiskvinnslunni var starfsmannavelta um 70%, fólk var rekið áfram af verkstjóra sem stjórnaði því með harðri hendi við erfiðar og óþrifalegar aðstæður.  Starfsöryggi var ekkert og engin starfsþjálfun, enda gæðavandamál í framleiðslu viðvarandi.  Í bílaiðnaðinum var starfsmannavelta um 2%, enginn verkstjóri gekk um gólfin en fólkið fékk hinsvegar mikla starfsþjálfun sem dugði til að kenna þeim starfið til hlítar. 

Ánægðir starfsmenn borga sig

Það var augljóst að starfsfólki leið vel, var ánægt með starf sitt og skilaði því svo vel að gallatíðni var 0% í framleiðslunni.  Ýmsar þarfir voru uppfylltar; íþróttaaðstaða fyrir börn starfsmanna, hádegismatur framreiddur og reglulega boðið upp á skemmtanir og uppákomur með starfsmannafélaginu.  Það var ekki endilega af umhyggju sem Bandaríkjamenn komu betur fram við starfsmenn sína, heldur sú einfalda staðreynd að það borgaði sig.

Þó aðstæður hér á Íslandi séu betri en í Mexíkó þykir fiskvinnsla ekki aðlaðandi starfsgrein.  Um þriðjungur starfsmanna í fiskvinnslu á Íslandi eru af erlendu bergi brotinn, sem segir sína sögu um að Íslendingar vilja ekki vinna i þessari atvinnugrein.  Menntunarstig í greininni er lágt og ungt fólk sér ekki mikil tækifæri í sjávarútvegi.  Er þetta einhverskonar náttúrulögmál eða er hægt að breyta þessu?  Er ekki nauðsynlegt að laða að hæfileikaríkt og velmenntað fólk til starfa í undirstöðu atvinnugrein þjóðarinnar?  Getum  við lært af Bandaríkjamönnum á þessu sviði?

Á dögunum var haldin sjávarútvegsráðstefna þar sem kynntar voru stefnur og straumar í íslenskum sjávarútvegi; staða hans, tækifæri og ógnanir.  Meðal annarra var Helgi Anton Eiríksson forstjóri Iceland Seafood International með erindi undir heitinu  „Samkeppnisstaða íslenskra sjávarafurða - Er Ísland enn með forskot?" 

Íslenskur fiskur og þýskir bílar
bmwHelgi benti á árangur Þjóðverja í bílaiðnaði, en þrátt fyrir há laun í Þýskalandi hafa Þjóðverjar náð yfirburðastöðu á þessum markaði.  Neytendur eru einfaldlega tilbúnir að greiða hærra verð fyrir þýska bíla, sérstaklega ef þeir eru framleiddir í Þýskalandi.

Íslendingar eru stórveldi í sjávarútvegi og eru 17. umsvifamesta fiskveiðiþjóð heimsins með um 2% af framboði af villtum fiski sem skilaði okkur 220 milljarða tekjum 2010, tæpan helming af gjaldeyristekjum þjóðarinnar af vöruútflutningi.  Getum við náð árangri í sjávarútvegi eins og Þjóðverjar í bílaiðnaði?  Hvað þarf til að ná slíkum árangri sem myndi skila greininni miklum virðisauka og bæta verðmætasköpun þjóðarinnar?

Helgi telur að greinin þurfi að markaðasetja Ísland sem sjávarútvegsþjóð og fjárfesta í kynningu á íslenskum fiski.  Hann benti á að starfinu ljúki ekki eftir veiðar og frumvinnslu heldur þurfi að sinna markaðsmálum betur.  Nauðsynlegt sé að laða ungt vel menntað fólk í greinina ásamt því að bæta þjálfun og menntun starfsmanna.  Greinin þarf að ákveða hvert hún vill fara og hvernig á að komast þangað.

Eigum að vera bestir í heimi í fiski

Við þurfum gott starfsfólk í mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar og nota þann slagkraft sem yfirburðastaða á markaði veitir okkur til að borga betri laun í fiskvinnslu.  Sem betur fer eru kjör sjómanna góð í dag en þörf er á hæfu starfsfólki fyrir alla virðiskeðjuna, allt frá veiðum til neytenda.  Íslendingar eiga að vera bestir í heimi þegar kemur að veiðum, vinnslu og markaðssetningu á fiski.  Hærri laun í fiskvinnslu dreifa betur fiskveiðiarði, styrkja nærsamfélagið og gera hugmyndir um auðlindaskatt óþarfar.

Grundvöllurinn til að feta þessa braut er að viðhalda öflugu markaðshagkerfi við fiskveiðastjórnun og fylgja ráðleggingum Hafró við nýtingu auðlindarinnar.  Að hægt sé að gera langtíma áætlanir og tengja saman veiðar og markaðsstarf.   Staðla gæðakröfur fyrir íslenskan fisk og styðja við menntun, rannsóknir og þróun á sviði sjávarútvegs.  En fyrst og fremst þarf að stöðva þau niðurrifsöfl sem nú ríða röftum í íslenskri pólitík og vilja draga íslenskan sjávarútveg aftur að mexíkóskum aðstæðum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Finnst þér virkilega að Hafró hafi verið með uppbyggilegar ráðleggingar í nýtingu auðlindarinnar.  Þoskveiði leifð á rúmlega 1/3 af þeim afla sem var veiddur að meðaltali á ári frá 1950 - 1984.

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 28.10.2011 kl. 02:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 285729

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband