Háskerðingur

 

Skaflinn upp á HraftinnuskerÍ júlíbyrjun gengum við hjónin Laugaveginn með félögum okkar í Hallgrími bláskó, í rigningu og roki mest allan tíman.  Það var svona eins og konan sagði, „það sá ekki á milli augna" þar til síðasta daginn á leiðinni úr Emstrum í Þórsmörk.  Um miðjan ágúst hinsvegar vorum við hjónin stödd í bústað við Apavatn og veðurspáin fyrir Fjallabak með allra besta móti.  Það var því ekkert annað að gera en rífa sig upp fyrir allar aldir, kl. sex, og drífa sig af stað upp á hálendið í leit að góðu útsýnisfjalli.

HöskuldarskáliÍsland skartaði sínu fegursta þennan morgun og leiðin lá norður upp með vesturbakka Þjórsá.  Síðan í austur að Hrauneyjum áður en við héldum inn á Landmannaleið.  Þetta er lengri leið en vegurinn malbikaður og ferðamenn lausir við rykið sem fylgir heitum og þurrum sumardögum.  Fljótlega eftir að komið er framhjá Landmannahelli liggur afleggjari í suður upp að Hrafntinnuskeri, en þangað var ferðinni heitið.

Það er bara gaman að aka þessa leið á jeppa, allavega á þurrum vegi, en hann getur orðið ansi slæmur í bleytu.  Pokahryggir eru víða brattir og þegar ofar er komið þarf að aka yfir ís, en útsýnið er strax orðið áhugavert.

FjallabakVið lögðum bílnum undir fyrsta jökulsporði Hrafntinnuskers þó skotfæri virtist vera alla leið að Höskuldarskála.  Ísinn var sléttur eins og malbik og gjóskan í honum gerir hann stamann og auðveldan til aksturs.  En við vorum komin til að ganga og njóta fegurðar sem Hallgrímingar misstu af fyrr um sumarið.  Það er fljótgengið yfir skerið og í skálann en þar tók á móti okkur sami skálavörður og í júlí.  Hann sagði okkur að þetta væri þriðji blíðviðrisdagur sumarsins, upplagður göngudagur en hann ætti ekki heimangengt.  Nota þyrfti slíkan dag til að mála og undirbúa skálann fyrir háfjallaveturinn, en hann stendur í um þúsund metra hæð og er hæsti ferðaskáli landsins.

LeiðavísarVið höfðu ætlað að gistaÁ toppnum en skálinn var full bókaður og því ekki pláss fyrir okkur.  En veðrið var með allra besta móti, ekki skýhnoðri á himni, tuttugu stiga hiti og norðan gola.  Háskerðingur blasir við í suðri og virtist fullkomið fjall til að sigra þennan daginn.  Skálarvörðurinn ráðlagði okkur að ganga vestan megin við Nafnlausa fjallið, suður dalverpi milli fjallana og stefna síðan upp á Háskerðing.

Fjallabak og JökulgilÞað er drjúg en gleðirík ganga frá Höskuldarskála að rótum Háskerðings.  Ólíkt göngunni fyrr í sumar sem virtist vera endalaus upp og niður gil, mikinn hluta á snjó, var vegurinn þurr og þægilegur en það sem mestu máli skipti var útsýnið sem alls staðar blasti við.  Fyrir Laugavegsgönguna Hallgríms var höfundur óþreytandi að lýsa allri þeirri fegurð Fjallabak og Torfajökullsem biði okkar  og þegar gengið var í sudda og fimmtíu metra skyggni hraut oft af vörum hans „þið ættuð bara að vita hvað er fallegt hérna í góðu veðri"  Þetta var eins og gamall frasi og því hætti maður fljótlega og gafst upp fyrir aðstæðum, arkaði forarvilpur í rigningu og roki þar sem ímyndunaraflið réði ekki lengur við að rifja upp fegurð svæðisins.

Grillir í HofsjökulEn hér var annað uppi á teningnum.  Hvert sem litið var blasti augnkonfektið við og þegar brekkan upp Háskerðing var klifin bættist við útsýnið í hverju spori.  Jökultungur og Hofsjökull birtust eins og fjólubláir Háskerðingurdraumar, óraunveruleg fegurðin sem opnaðist fyrir göngumönnum var eins og úr öðrum heimi.  En guð hjálpi manni þegar upp er komið á slíkum degi!  Nú var komið logn og nú tók veislan við fyrir alvöru.  Fyrst ber að nefna fyrri sigra en þeir eru margir sýnilegir frá þessu 1.278 metra fjalli.

HitahverirÍ suðri blasir Rjúpnafell við yfir Þórsmörk.  Eitt af bröttum en skemmtilegum fjöllum að klífa.  Hekla í vestri, hattlaus eins og árið 2007 þegar við Stína gengum á hana.  Kerlingafjöll í norðri með Snækoll hæstan, en þessi ljósu og sérkennilegu líparítfjöll eru miðja Íslands.  Hlöðufellið er stórt og mikið fjall og rís sunnan Langjökuls.  Fjallið er eitt besta útsýnisfjall sem höfundur Í sól og sumarylhefur klifið og er áberandi kennileit á Langjökulssvæðinu.  Háalda rís í norðri og austar má sjá Brennisteinsöldu og í toppinn á Bláhnjúk sem lúrir yfir Landmannalaugum.  í austri er Vatnajökull og þar minnir Örævajökull og tvær ferðir á Hvannadalshnjúk.  Sveinstindur ber við jökulinn þar sem hann trónir yfir Langasjó.  Nokkur móða var yfir austrinu og því erfitt að greina Kristínartinda yfir Morsárjökli.  Það virðist örstutt á Löðmundur en hann höfum við hjónin gengið tvisvar sinnum.  Löðmundur er all sérstakt fjall, myndaður úr móbergi með nokkra strýtulagaða toppa.  Eyjafjallajökull er í vestri en hann hefur ummyndast síðan bloggari gekk á hann fyrir nokkrum árum á skíðum.  Þegar gengið er smá spöl að suðurbrún Háskerðings blasir Mælifell við yfir Mælifellssandi. 

MælifellÚtsýnið er ótrúlegt og bloggara varð hugsað til þess að þetta yrði aldrei toppað!  Allar fjallgöngur yrðu hjóm eftir þá sjónarveislu sem hér blasti við ferðamanni.  Allir meginjöklar landsins liggja að fótum fjallamanns, hvítir og fallegir og hafa jafnað sig eftir ósköpin sem dundu yfir í eldsumbrotum Eyjafjallajökuls og í Grímsvötnum, og spúðu gjóskulagi yfir þá.  Í fyrra voru þessi jöklar svartir!  Hér mátti sjá Langjökul, Hofsjökul, Vatnajökul, Mýrdalsjökul, Eyjafjallajökul og að sjálfsögðu Torfajökul sem lúrir upp af Jökulgili við Fjallabak.  Það er ekki gott að segja hvort var tilkomumeira, að horfa í austur yfir líparítfjöllin að Fjallabaki, með alla sína regnbogaliti, eða Jökultungur í vestri.  Jökultungur eru eins og af öðrum heimi en þar liggur Laugavegurinn niður í Þórsmörk.  Hér og þar rísa upp keilulaga gróin móbersfjöll sem eru einkennandi fyrir svæðið.  Mest áberandi er Hattfell sem er áberandi kennileiti þegar Laugavegur er genginn.  Álftavatn virðist vera innan seilingar og enn neðar má sjá grilla í Markafljótsgljúfur.  Hofsjökull með Arnarfell hið mikla og -litla sem halda um Þjórsárver í norðri og jökulskerin Hásteina nálægt toppi.  Mýrdalsjökull liggur við fætur fjallamanns, friðsæll með þolinmóða Kötlu í toppi.  Fjallið sem heldur öllum á tánum en stórgos úr því fjalli gæti sett heiminn á annan endann.  Upp af Eyjafjallajökli trónir Goðasteinn og minnir á fyrri kynni.  Jökullinn hefur algerlega umbreyst þar sem Gígjökull er nánast horfin og er ekki svipur hjá sjón miðað við fyrir gos.  Jökultungur og Álftavatn

Góðir vinir mínir fóru til Ástralíu til að sjá einn rauðan klett.  Þau hafa aldrei séð það sem reynt er að lýsa hér að framan.  Það er erfitt að skilja slíkar áherslur en þetta svæði er einstakt í veröldinni.  Hvergi á jarðkringlunni eru til staðir sem jafnast á við líparítfjöllin að Fjallabaki, né leiðina niður Jökultungur niður í Þórsmörk.  Málið er bara að hitta á rétta veðrið til að njóta þess.  Á þessum slóðum þarf svolitla heppni til þess.  Ferðalangur sem hittir á slíkan dag á þessum slóðum mun aldrei gleyma því sem fyrir augu ber og verður ekki samur á eftir.

LaugavegurinnVið kvöddum skálavörðinn áður en við héldum yfir Hrafntinnusker áleiðis í bílinn sem beið okkar neðan við jökulsporðinn.  Gönguferðin tók um sjö tíma, enda staldrað við á toppi Háskerðings.  Þessi ótrúlegi dagur kallaði upp í hugann gamalt Bítlalag enda hafði þetta allt verið svo óraunverulega fallegt; „Lucy in the sky with dimonds"

Líparítfjöll


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 285616

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband