Sóknarfæri í sjávarútveg

 

VilhelmThorsteinssonEA_170211Vonandi hafa andstæðingar íslensks sjávarútvegs farið það rækilega fram úr sér með framlögðum lagafrumvörpum á vorþingi, að umræðan geti færst yfir á skynsamlegar nótur í framtíðinni.  Umræður um það hvernig við sem þjóð getum hámarkað arðsemi sjávarútvegs og hvernig sá arður geti nýst þjóðinni allri sem best.

Það liggja mikil tækifæri í sjávarútvegi og sóknarfærin eru mörg.  Við höfum séð hvernig vinnsla á uppsjávarfiski hefur blómstrað og skilað gríðarlegum verðmætum fyrir þjóðarbúið.  Mikil samþjöppun hefur átt sér stað þar sem útgerð og vinnsla hefur sameinast til að ná sem mestum verðmætum úr veiddum afla.  Því miður hefur þróun botnfiskvinnslu ekki verið á sömu lund, en mikil pólitísk óvissa ásamt fjárhagslegum erfiðleikum sjávarútvegsfyrirtækja hafa hamlað fjárfestingu og þróun.

Fersk flök á erlendan markað

Sú afurð sem skilað hefur mestri arðsemi í botnfiskvinnslu eru ferskar (ófrosnar) afurðir úr þorski og ýsu.  Sá markaður er erfiður og að mörgu leyti flókinn, enda líftími afurða stuttur.  Ólíkt frystum fiski sem afhentur er eftir hendinni úr frystiklefa, hafa menn aðeins einhverja daga til að veiða, framleiða, flytja og selja afurðina.  Til þess að það sé mögulegt þarf náið samstarf í gegnum alla virðiskeðjuna.  Kaupendur þessara afurða  eru veitingahús og stórverslanir, sem eru tilbúnir að greiða hátt verð fyrir góða vöru, en gera mikla kröfu um afhendingaröryggi.  En hvernig er hægt að tryggja réttu gæðin, innan þröngs tímaramma og um leið tryggja kaupendum afhendingu allt árið um kring?

Stjórn virðiskeðjunnar

Í fyrsta lagi þarf að tryggja gæði afla við veiðar.  Fiskinn þarf að blóðga strax, þvo og kæla síðan með ískrapa niður í ca -1°C.  Ef fiskur er blóðgaður strax og kældur síðan hratt er hægt að tefja feril dauðastirðnunnar um nærri tvo sólarhringa og rannsóknir hafa sýnt að  engir skemmdarferlar hefjast fyrr en dauðstirðnun er afstaðin.  Ný tækni býður  upp á að vinna fiskinn á sama hitastigi, -1°C þar til honum er pakkað í einangraðar umbúðir sem tryggja rétt hitastig mun betur en eldri gerðir.  Munurinn er slíkur að hægt er að tala um líftíma frá veiðum í allt að 15 daga.  Slíkt gefur erlendum viðskiptavinum  svigrúm upp á allt að 10 daga til að koma vörunni á borð neytanda.

Í viðtali við Fiskifréttir sagði Gestur Geirsson framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja (14. Júlí 2011) að 70 prósent af ,,flugfiski" sem framleiddur er á Dalvík væri fluttur út með skipum.  Fiskinum er þá ekið landleiðina til Reykjavíkur, eða Seyðisfjarðar þar sem honum er skipað út til flutnings á markaði í Evrópu.  Í þessu felst veruleg hagræðing þar sem flutningur með flugi kostar um 250 kr/kg en aðeins 83 kr/með skipinu.  Framleiðandinn sparar því 166 kr/kg sem á endanum skilar sér til vinnslu og veiða, og þar af leiðandi til hagkerfisins og þjóðarinnar. 

Frystihúsið á Dalvík er talið vera það fullkomnasta í heimi í vinnslu botnfiskafla.  Það ásamt góðri stjórn virðiskeðjunnar frá veiðum til markaðar gerir þeim kleift að hámarka virði þess afla sem þeir framleiða.  Rétt er að geta þess að þúsundir tonna af hráefni Dalvíkinga kemur sem ferskur fiskur erlendis frá, úr Barentshafi og frá Grænlandsmiðum. 

Ljóst er að mikið vantar upp á að meginþorri  frystihúsa á Íslandi hafi þá tækni, þekkingu og skipulag sem Samherji virðist búa yfir í dag.  En þar er rétt að taka á málum og gera bragabót á.  Íslensku þjóðinni, sem eiganda auðlindarinnar, kemur það við hvernig staðið er að framleiðslu og markaðssetningu á íslenskum fiski.

Stjórn fiskveiða

En mikilvægast af öllu er að stjórnvöld geri það sem þarf til að hámarka verðmætasköpun í sjávarútvegi.  Stefnumótun stjórnvalda í nýtingu sjávarauðlindarinnar þarf að snúast um að hámarka verðmætasköpun.   Ólíkt því sem lagafrumvörpin síðan í vor endurspegluðu, þarf að setja lög og reglur sem hámarka arðsemi, þjóðinni allri til heilla.  Lagasetning í sjávarútvegi á ekki að þóknast þröngum hugmyndafræðilegum markmiðum stjórnmálamanna.  Verst er þó þegar ráðamenn láta stjórnast af tilfinningum einum saman, firrtir allri skynsemi og framtíðarsýn.  Slíkum vinnubrögðum þarf að linna svo hægt sé að þróa íslenskan sjávarútveg áfram til góðs fyrir þjóðina.  Það er sérstaklega mikilvægt fyrir sjávarbyggðir eins og Vestfirði.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband