Grein í BB um Flateyri og kvótann

Krossriddarar

Krossriddarar gegn kvótakerfinu fara mikinn þessa dagana og flest telja þeir málstað sínum til framdráttar, nú síðast raunarleg staða Flateyringa við gjaldþrot fiskvinnslunnar Eyrarodda.  Þeim dugar að slá fram frösum eins og „Guggan var gul" en lítið ber á rökum eða hlutlægri umræðu.  Rétt er að benda á nokkrar staðreyndir þessa máls og reynt að skauta eins og mögulegt er fram hjá tilfinningum eða pólitískum skoðunum.  Og í upphafi vill höfundur taka því fram að hann hefur engra hagsmuna að gæta í sjávarútvegi, annarra en að vera Íslendingur, og fyrst og fremst íbúi í sjávarþorpi á Vestfjörðum.

Kvótakerfið

Kvótakerfið var sett á 1984 eftir gengdarlausa aukningu í sóknargetu flotans, langt umfram veiðiþol fiskistofna.  Um pólitísk mistök var að ræða þar sem stjórnvöld stóðu fyrir stórfeldum innflutningi skuttogara.  Árið 1981 náði þorskafli Íslendinga nýjum hæðum, rúmlega 460 þúsund tonnum, þrátt fyrir að vísindamenn okkar hefðu birt hina svokölluðu „svörtu skýrslu" um slæmt ástand fiskistofna.  Í krafti aukinnar sóknargetu var 460 þúsund tonna afla náð, en þessum miklu veiðum fylgdi sóun með kostnaði og slæmri meðferð afla.  Tap útgerðar var mikið og endalausar gengisfellingar höfðu dunið yfir þjóðina til að reyna að rétta afkomuna af.  Við þessar aðstæður var kvótakerfið sett á og í því fólst að útgerðin fengi nýtingarréttinn og tækju við þeim beiska kaleik að skera niður skipastólinn á sinn kostnað.  Það var hinsvegar ekki fyrr en 1990 að framsal var leyft að kvótakerfið fór að skila hagsæld í íslenskum sjávarútveg, þökk sé Jóhönnu Sigurður og Steingrími J. fyrir þá ákvörðun en þau sátu í ríkisstjórn á þessum tíma.  Rétt er að geta þess að kvótakerfið hefur ekkert með heildarveiði að gera og ekki sett til að efla veiðistofna.  Það geta allir kynnt sér ef þeir lesa um upphaf og tilurð kvótakerfisins.  Til að árétta þetta er hér birt orð Steingríms Hermannssonar frá upphafi níunda áratugar síðustu aldar, úr bók um Gunnar Thoroddsen, en rétt að halda því til haga að Steingrímur var aldrei mikill kvótamaður.

„Áköf sókn í auðlindina olli líka vandræðum. Sigrar í landhelgismálum höfðu ýtt undir þá bágbilju að nú gætu Íslendingar stundað sjóinn einir af eins miklu kappi og þeim væri frekast unnt. Í öllum sjávarplássum kröfðust menn fleiri báta og fleiri skipa og ætíð var hátíð þegar nýr togari sigldi inn fjörðinn. Fáir láðu fólki að vilja vinna á heimaslóðum og byggja upp blómlegt samfélag en grundvöllurinn var ekki fyrir hendi. Þegar á heildina var litið voru ofveiði og offjárfesting að sliga útveginn. Þetta vissu ráðamenn en að vinda ofan af vandanum var hægara sagt en gert" (bls. 513)

Með kvótakerfinu var nýtingarrétturinn settur í samkeppnisumhverfi samkvæmt markaðsbúskap.  Þeir sem best myndu standa sig fengju að veiða, og þeir sem síður gerðu það myndu gefast upp.  Þetta er grundvallaratriði til að mynda fiskveiðiarð sem þjóðin þarf nauðsynlega að fá út úr sinni mikilvægustu atvinnugrein.  Hinn möguleikinn var að láta stjórnmálamenn ráða því hvað yrði veitt, af hverjum, hvenær og hvernig.  Reyndar hafa stjórnmálamenn verið með puttann í þessu frá upphafi, í nafni réttlætis og sanngirni, en allt það brölt hefur kostað sjávarútveginn og þjóðina mikla fjármuni.

Aðgangur að auðlindinni

Frá árinu 1981 til dagsins í dag hefur þorskveiði dregist saman um rúmlega 60%, niður í tæplega 180 þúsund tonn.  Farið hefur verið eftir ráðleggingum fiskifræðinga og veiðar skornar niður til að styrkja veiðistofna, enda mun það borga sig margfalt til baka í framtíðinni.  Stærri stofn skilar ekki bara meiri afla, heldur verður kostnaður á sóknareiningu miklu minni og þar af leiðir arður af greininni.  Hinsvegar skyldi engan undra að við slíkan samdrátt taki einhverstaðar í og skapi erfiðleika hjá þeim byggðum sem treyst hafa á veiðar úr þessum stofnum.  Þrátt fyrir það hafa margir nýir aðilar komið inn í greinina og með nýjum aðferðum og mörkuðum komið sér fyrir með uppkaupum á aflaheimildum frá öðrum sem ekki hafa náð að fóta sig í samkeppninni.  Hér er nauðsynlegt að halda því til haga að alltaf verður nauðsynlegt að takmarka aðganginn að auðlindinni, hvort sem það er gert með markaðsbúskap (aflahlutdeildarkerfi) eða með þjóðnýtingu (ríkisforsjá).  Þeir sem ekki skilja umræðu um takmörkun á sókn í endurnýjanlega auðlind, geta ekki gert sig gildandi í þessari umræðu.

Flateyri

Saga Flateyrar er ekki áfellisdómur yfir kvótakerfinu, þó andstæðingar þess noti tækifærið málstað sínum til framdráttar.  Á níunda áratug síðustu aldar þraut Hjálmi h/f örendið og við rekstrinum tók Hinrik Kristjánsson, en kvótinn og togarinn fóru til Ísafjarðar.  Hinrik sameinaðist Básfelli h/f, í upphafi nýrrar aldar, en dró sig út úr því samstarfi og stofnaði fyrirtækið Kamb h/f um reksturinn á Flateyri.  Mikið var keypt af aflaheimildum sem fluttar voru frá öðrum landshlutum til Ísafjarðarbæjar.  Þrátt fyrir stór orð um samfélagslega ábyrgð ákvað Hinrik að selja allan kvótann, sem hafði hækkað í verði á þessum tíma, þar sem ódýrt fjármagn flæddi nú yfir alla bakka.  Taumleysi í fjárfestingum og áhættusækni hækkaði kvótaverð úr öllu samhengi og mönnum var lánað til þessara kaupa án mikillar fyrirhyggju.  Kaupendur voru aðallega fyrirtækin Hraðfrystihúsið Gunnvör og Álfsfell í Ísafjarðarbæ og Jakob Valgeir í Bolungarvík.  Allt eru þetta fyrirtæki í eigu aðila sem komið hafa inn i sjávarútveg eftir kvótasetningu og töldu sig þurfa meiri aflaheimildir fyrir reksturinn.

Í stuttu máli fer Flateyrarkvótinn fyrst til Ísafjarðar.  Síðan er keyptur nýr kvóti frá öðrum landshlutum til þorpsins, og að lokum er sá kvóti seldur innanbæjar og til Bolungarvíkur.  Ekki skal gert lítið úr þeim erfiðleikum sem Flateyringar standa frammi fyrir í dag og eiga þeir alla samúð höfundar.  Það er hinsvegar vonlaust að tryggja að aflaheimildir haldist óbreyttar um aldur og ævi.  Hvaða kerfi sem sett verður á mun ekki geta tryggt óbreytt ástand á öllum stöðum.  Enda viljum við það alls ekki því það myndi einfaldlega koma í veg fyrir eðlilega þróun og algerlega útiloka nýliðun í greininni.  Gamli tíminn þar sem ein fjölskylda átti nánast öll atvinnutæki í bænum verður ekki grátin hér og ekki talin eftirsóknarverður.

Fiskveiðiarður

Mikil þróun hefur átt sér stað í Íslenskum sjávarútvegi frá kvótasetningu og sérstaklega eftir að framsal var heimilað.  Skipum hefur fækkað og þrátt fyrir niðurskurð í aflaheimildum hefur arðsemin aukist mikið þar sem framlegð hefur farið úr 5% í 25% á þessum tíma.  Talið er að 15% framlegð þurfi til að skila útgerðinni á núlli.  Staðir sem liggja vel að veiðum eins og Bolungarvík hefur verið að sækja í sig veðrið og er það gott.   Í fiskvinnsluhúsunum hefur starfsmönnum fækkað um helming með betri tækni, bættu skipulagi og nýjum mörkuðum.  Sjávarútvegur á ekki að fjölga störfum í greininni, heldur þvert á móti að bæta framlegð og arðsemi.  Með aukinni arðsemi munu skapast afleidd störf hjá fyrirækjum eins og t.d. 3X Technolgy, sem hefur það að markmiði sínu að fækka störfum í fiskiðnaði með bættri tækni.  Það er hinsvegar ekki nóg að skapa arð af fiskveiðum heldur þarf hann að dreifast með sanngjörnum hætti til eigenda auðlindarinnar, íslensku þjóðarinnar.  Það er umræða morgundagsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Gunnar er ekki tímabært að fara að opna augun fyrir því að þetta dæmi reiknisfiskifræðinganna og fiskihagfræðinganna er alls ekki að ganga upp?

Sjá hér að neðan:

http://www.youtube.com/watch?v=dnP8dNxurXg&feature=player_embedded#!

http://www.youtube.com/watch?v=ZKYX-p81Kbk&feature=related

Sigurjón Þórðarson, 21.1.2011 kl. 09:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.12.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband