Stjórnarskrá og auðlindir

Er nauðsynlegt að setja inn ákvæði í stjórnarskrá um auðlindir og umhverfismál?

Mörg ríki Evrópu hafa sett slík ákvæði í sínar stjórnarskrár.  Í Noregi er lögð áhersla á rétt allra til að njóta heilnæms umhverfis og náttúru og vernda fjölbreytni og grósku.  Að ekki skuli gengið á rétt komandi kynslóða í nýtingu á náttúruauðlindum.  Einnig er lögð áhersla rétt borgara fyrir upplýsingar um ástand og fyrirhugaðar framkvæmdir.  Í Finnlandi er lögð áhersla á ábyrgð á umhverfinu og að þjóðararfurinn sé á ábyrgð allra en í stjórnarskrá ESB er talað almennt um að náttúruvernd sé á háu stigi og hluti af stefnu sambandsins.  Frakkar eru með svokallaðan umhverfissáttmála í sinni stjórnarskrá sem leggur ábyrgð á almenning að taka þátt í að framfylgja umhverfisstefnunni ásamt rétti hans til upplýsinga um umhverfismál.  Í Svissnesku stjórnarskránni segir ,, Sambandsríkið skal móta meginreglur um fiskveiðar og skotveiðar í því augnamiði að vernda fjölbreytni fiskjar, villibráðar og fugla"

Allt eru þetta almennar reglur sem ekki útiloka skynsamlega nýtingu auðlinda og varla það sem margir ræða um hér á landi.  Í tillögu frá árinu 2000 lagði auðlindanefnd til að tekið væri upp nýtt ákvæði í stjórnarskrá um að náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti yrðu lýstar þjóðareign; og var tillagan svo hljóðandi: ,,Náttúruauðlindir og landsréttindi, sem ekki eru háð einkaeignarrétti, eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar"

Hér er rétt að staldra við og velta fyrir sér hver sé tilgangurinn með því að setja slík ákvæði inn í stjórnarskrá.  Ætlum við að nota stjórnarskrána til að leysa áratuga pólitíska deilu, eða ætlum við að setja grundvallarreglur um umhverfis og auðlindamál?

Það er grundvallarmál að við hámörkum nýtingu fiskistofna, göngum ekki á þá með ofveiði og rányrkju.  Ekkert er því til fyrirstöðu að setja ákvæði um slíkt inn í stjórnarskrá, sem myndi þá væntanlega koma í veg fyrir að stjórnmálamenn ákveði auknar veiðar til að afla sjálfum sér stundar vinsælda, þó það gengi gegn þeirri vísindalegu þekkingu sem veðþol væri byggt á!  Einnig liggur það fyrir að þjóðin hefur umráðarétt yfir auðlindinni, þar sem yfirvöld setja lög og reglur um hvernig auðlindin skuli nýtt og heldur úti eftirliti með að þeim reglum sé hlýtt.  Þá er ekki annað eftir en að tryggja að þjóðin njóti ávaxtanna, fiskveiðiarðsins, sem skynsamleg fiskveiðistjórnun skapar.

Allir sem til fiskveiða þekkja vita að um endurnýjanlega auðlind er að ræða og nauðsynlegt að takmarka aðganginn að henni.  Á Íslandi höfum við, að mestu, notað aðferðir samkeppni þegar kemur að ákvörðun um hver skuli veiða.  Hluti veiðanna er að vísu stjórnað af stjórnvöldum, svokölluð skipulagsleið.  Almennt er litið svo á að um meiri sóun sé að ræða með pólitískum afskiptum af því hver skuli veiða, í stað þess að láta þann sem gerir það á hagkvæmasta hátt um það.

Þessi umræða þarf að liggja utan stjórnarskrár, en hægt er að hnykkja á því að þjóðin eigi auðlindina og hafi ráðstöfunarréttin yfir henni, en það má ekki setja í stjórnarskrá að hún, þjóðin, megi ekki nýta auðlindina á sem hagkvæmastan hátt.

Ef farið verður að sáttatillögu hagsmunaaðila og Alþingis frá því í sumar, samningaleið, þá verður aflahluta úthlutað til tiltekins tíma, t.d. 25 ára.  Þannig getur þá útgerðarmaður afskrifað skip, frystahús og kvóta á tilteknum tíma.  Sama fyrirkomulag er með nýtingu á orkuauðlindum og aðeins deilt um hversu langan tíma eigi að taka í afskriftir.

Þjóðin þarf að koma sér saman um þetta með það takmark í farteskinu að hámarka arðsemi auðlinda og tryggja eðlilega dreifingu afraksturs til þjóðarinnar.  Eins og niðurlag tillögurnar frá árinu 2000 hljómar þá kemur það ekki í veg fyrir hagkvæma nýtingu á auðlindum: ,, Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt og á grundvelli sjálfbærrar þróunar og skal arði af þeim varið til þess að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti"

Spurningin er hvort margir þeir sem vilja setja ákvæði um umhverfis- og auðlindarmál vilja gera það til að þjóna þröngum hagsmunum sínum eða skoðunum.  Þá er betra heima setið en af stað farið enda er stjórnarskráin sáttmáli þjóðarinnar, en ekki tæki til að leysa pólitísk dægurmál.

Það allavega ljóst að miðað við umræðuna stefna Íslendingar á nýjar slóðir miðað við nágrana sína í stjórnarskrármálum ef þeir trúa því að deilumál um nýtingu auðlinda verði leyst með texta í grundvallarskrá stjórnskipunar og mannréttinda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 285730

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband