Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sri Lanka og tsunami

StrandstöðÞegar flóðbylgjan, tsunami, skall á Sri Lanka í desember 2004, var eyðileggingin mikil og manntjónið skelfilegt. Um 30.000 mans fórust og rúmlega 80% af hafnarmannvirkjum eyðilagðist  og þrír fjórðu af strandveiðiflotanum, um 32.000 bátar lentu í tjóni.

Allsstaðar að úr heiminum þustu að hjálparstofnanir til að bæta skaðann og meðal annars til að byggja upp bátaflota landsmanna. Niðurstaðan var sú að mun fleiri bátar eru nú á Sri Lanka en fyrir flóðbylgjuna, sem væri hið besta mál ef veiðistofnar við strendur landsins væru ekki ofnýttir.

Það var mikill handagangur í öskjunni eftir tsunami hér í Colombo. Óteljandi samtök frá öllum heimshornum streymdu að til að „hjálpa" heimamönnum í erfiðleikunum. Margir komu inn í landið á ferðamannapassa sem gildir í stuttan tíma. Ein saga er af Ítölskum hjálparsamtökum sem höfðu einmitt komið inn í landið sem ferðamenn, en gengu um í vestum með risaáletrunum að framan þar sem stóð ,,Aid from Italy" Einn þeirra birtist í ráðuneyti landamæra með 19 vegabréf og heimtaði áritun til þriggja mánaða, enda væru þeir hér til að hjálpa.

FiskibátarMálið er auðvitað þegar svona gerist að stjórnsýsla viðkomandi ríkis fer úr límingunum. Hún er nú ekki beysin fyrir en við það sem skapaðist eftir náttúruhamfarirnar voru þær algerlega lamaðar. Endalaus erindi frá NGOs (non government organizations) um þetta og hitt og kröfur um alls kyns fyrirgreiðslu og skipulag sem kerfið réði ekki við. Þannig verða einmitt til vitlausrar ákvarðanir sem ekki verða til góðs þegar til lengri tíma er litið. T.d. öll bátakaupin sem stofnanir um allan heim stóðu fyrir. Málið er að það vantaði ekki báta heldur að byggja upp skipulagskerfi og gera íbúana sjálfbjarga. Allir vilja fá báta gefins og þegar markaðurinn er tekin úr sambandi og einstaklings ,,skipulagið" á að ráða verður þetta allt saman allsherjar vitleysa. Vinur minn benti mér einmitt á einfalt dæmi frá Afríkulandi þangað sem heilu gámarnir af fötum voru flutt til sem hjálpargögn. Þeir aðilar sem voru í að selja ódýr föt á svæðinu urðu umsvifalaust gjaldþrota, þar sem engin gat keppt við gjafaföt. Málið er ekki svona einfalt og ekki má rústa því sem fyrir er.

Það er gaman að segja frá því að Íslendingar féllu ekki í þess gryfju hér í landi. Þeir tóku ekki þátt í bátavitleysunni og kunnu fótum sínum forráð. ÞSSÍ er enn ekki búin að klára þær 50 milljónir sem ríkisstjórnin lét stofnunni í hendur til aðstoðar vegna flóðanna, þó að það sé langt komið. Hinsvegar er hægt að fullyrða að peningunum hefur verið vel varið og munu styrkja þau svæði sem verst fóru út úr tsunami, fiskimannasamfélögin. Reyndar var töluverður þrýstingur frá aðilum í íslensku samfélagi sem vildu senda úreldingarbáta til Sri Lanka sem neyðaraðstoð.

Það var gerð skoðun á því fyrir stuttu hvaða svæði fengu mesta athygli og þar með aðstoð eftir flóðin. Það voru ekki þau sem mest þurftu á því að halda, sem flest eru á austurströnd eyjarinnar. Heldur voru það svæði sem voru í innan 100 kílómetra VEGA lengdar frá 5 stjörnu hótelum. Þetta göfuga fólk sem endalaust var í fölmiðlum til að koma sinni stofnun á framfæri, vildi vera í tiltölulega stuttu færi frá notalegu hóteli. Fimm tíma vinnudagur og svo að hittast og ræða málin og njóta lífsins. Svæðin norðar og austar höfðu ekki upp á slíkan lúxus að bjóða.

Uxakerra Þetta er svona svipað og með Greenpeace og Vatíkanið. Þetta snýst ekkert um það sem virðist í fyrstu heldur einstaklingshyggju mannsins. Eðlilega í sjálfu sér, en það er gott að sjá í gegnum lýðskrumið. Dettur einhverjum í hug að 30 milljón króna flug Flugleiða á kostnað ríkissjóðs með slasaða Svía til síns heima hafi snúist um manngæsku? Að Svíar hafi ekki getað flutt þetta fólk sjálfir? En fjölmiðlarnir brugðust ekki og Íslenska þjóðin sat tárvot yfir fréttunum. Sennilega hefði þetta verið öðru vísi ef farþegarnir hefðu verið Tælendingar.

Á ströndinni

 

Mount LaviniaVið skruppum félagarnir, undirritaður, Ron, Dan og Árni, á ströndina við gamla landstjórabústaðinn, Hotel Mount Lavinia, á laugardeginum. Það er ótrúlega fallegt þarna þar sem við sátum á fiskiveitingastaðnum Seafood Cove, sem er í strákofa á ströndinni undir Mount Lavinia. Það rifjast upp sagan af breska landsstjóranum sem átti í ástarsambandi við hina portúgölsk ættuðu Lavinia og lét gera jarðgöng frá slotinu í híbýli hennar, til að auðvelda samverustundir við sína heittelskuðu.  

Við fengum aldrei nóg af rækjunum sem boðið er upp á og pöntuðum hvern skammtinn á fætur öðrum. Við sátum á meðan húmið lagðist yfir og þegar dimmt var orðið mátti sjá tunglið sem nú er 1. kvartil með 33% fyllingu. Ströndin við Mount LaviniaFullt tungl verðu á þriðjudaginn 28. ágúst, og þá verður hátíð hér á Sri Lanka. Upp í Kandy verður haldin ein mesta hátíð Búddista í heiminum þennan dag þegar tunglið er fullt. Kandy skipar mikilvægan sess meðal búddista í heiminum og koma þeir víða að til að taka þátt í þessari hátíð.

Þegar við fórum voru þjónarnir að koma nýjum og ferskum fiski fyrir á borði við inngangan. Fiskurinn var spiklandi nýr og sérlega lystugur. Þetta er örugglega góður staður til að borða á eitthvert kvöldið. Njóta sólarlagsins, hlusta á bárugjálfrið á ströndinni og gæða sér á fyrsta flokks fisk, smokkfisk og rækju.

Dan bauð síðan upp á drykk á klúbbnum sínum þar sem inngönguskilyrði er að vera með meistarapróf og sinna starfi því tengdu. Sjálfur er hann starfandi lögfræðingur en margar starfsgreinar koma að þessum klúbbi. Hér gengur allt út á klúbba og er sjálfsagt um breska arfleið að ræða.

RækjaVið litum aðeins við á Krikket klúbbnum til að athuga hvort við rækjumst á friðargæslufólkið (SLMM), en átta Íslendingar starfa við það hér í Colombo. Við enduðum kvöldið á Swimming Club en umsóknin mín um inngöngu er nú í framkvæmd. Á meðan nýt ég gestrisni Árna en þarna er ekki hægt að greiða með peningum og er reikningurinn færður á klúbbfélagann.

Sunnudagurinn er frátekinn fyrir golf og eins gott fyrir mig að byrja að æfa af krafti og ná niður forgjöfinni. Ég er að vonast eftir því að vinir mínir á Íslandi heimsæki mig hingað einhvern daginn og fyrir golfáhugamenn er Sri Lanka paradís. Frábærir vellir og aðstæður eins góðar og hugsast getur

Fiskur á Sri Lanka

 

 

 

 

 

Sefood Cove Resturarnt

Ron and Dan


Kvöldganga í Viktoríugarðinum

HnúfubakurÞað hafa verið viðburðaríkir dagar í vinnunni og um margt að hugsa. Langir vinnufundir í hafrannsóknarstofnun Sri Lanka, enda er þeir helstu samstarfsaðilar ICEIDA hér í landi. Mér varð hugsað til Flosa vinar míns sem er sérstakur aðdáandi Hafró á Íslandi. Honum hefði örugglega líkað að kynnast annarri slíkri stofnun þó að í Asíu væri. Ég mun seinna segja meira frá því hvað þetta gengur út á en læt það liggja milli hluta að svo stöddu. En þetta eru spennandi verkefni, og ef vel tekst til, mörgum til góðs.

Eftir langan vinnudag í gær fórum við vinnufélagarnir tveir í Krikket klúbbinn í Colombo. Krikket er þjóðaríþrótt Sri Lankanbúa, enda fyrrverandi nýlenda Breta. Ég veitti athygli vegvísi sem benti til hinna ýmsu krikket valla heimsins og fjarlægðar þangað. Það kom á óvart að svipuð vegalengd er til Melbourne og London héðan frá krikketklúbbinum í Colombo.

 

KrikkedSeinnipartinn í dag hafði ég mælt mér mót við félaga minn Dan til að njóta kvöldgöngu  í Viktoríugarðinum. Þetta var notaleg rólegheita ganga og þegar leiðin lá fram hjá ráðhúsi borgarinnar sem stendur við garðinn, sagði hann mér sögu úr síðustu sveitarstjórnarkosningum. Málið er að í Colombo urðu múslímar sigurvegarar og sá sem fyrir þeim fór var bílstjóri á tú tú, þríhjólavögnum, sem allt morar af hér í borginni. Maðurinn er bæði ó-læs og skrifandi en er samt orðinn borgarstjóri. Hann mætir í vinnu á hverjum degi en hefur ekki hugmynd um hvað hann á að gera eða hvernig halda á um stjórnartaumana. Borgin líður fyrir óstjórnina og meðal annars þessi fallegi garður sem er í hálfgerðri niðurníðslu.

 

Bróðir Dans, Stanley, er fyrrverandi varnarmálaráðherra Sri Lanka en er nú á eftirlaunum. Það sem merkilegra er að hann er heims þekktur listmálari og verk hans prýða söfn í London, París og New York. Dan sýndi mér um daginn þykka bók um listamanninn og verk hans og verð ég að viðurkenna að ég varð töluvert heillaður. Þegar eiginkonan kemur hingað í september er fyrirhuguð heimsókn til Stanley´s, til að hitta hann og skoða málverkin hans með berum augum.

Eftir kvöldgönguna tók ég sundsprett hér á þriðju hæðinni á Hyde Park, en laugin er opin út til suðurs. Þegar ég kom upp úr vatninu eftir hressandi sundsprett var orðið dimmt og smá rönd kominn á Dantunglið hægra megin. Það segir okkur að máninn sé vaxandi og innan tveggja vikna verður hann fullur. Þá er hátíð í bæ en hér er opinber frídagur þegar fullt tungl er.


Siglingar um Sri Lanka

  Siglingaleiðin

kortSri  Lanka er gríðarlega mikilvægt fyrir siglingar um suður Asíu. Ef litið er á landakort sést vel hve vel eyjan liggur við siglingaleiðum um þessar slóðir. Hvort sem horft er til suður odda Afríku, eða austur hluta heimsálfunar. Rauðahaf,  Arabíuhafsins eða Bengalflóa. Tæland, Malasíu, Víetnam, Filippseyjar, Indónesíu eða Ástralíu. Svo ekki sé talað um ósköpin þar sem Sri Lanka liggur vel fyrir Kína og Japan til að koma afurðum sínum til þessara landa eða Evrópu, og eða til að draga hráefni að sér.

Flutningar eru miklir hér um og er þá verið að skipa upp vöru af skemmri leiðum sem síðan er skipað um borð í stærri skip til að sigla með lengri leiðir. Safna saman í höfninni í Colombo og umskipa til frekari flutninga annað.

 

 

ColomboHöfnin

Höfnin í Colombo er risastór á Íslenskan mælikvarða og til stendur að rúmlega tvöfalda afkastagetu hennar.  Kínverjar ætla að fjármagna risa höfn hér sunnar á eyjunni sem verður umskipunarhöfn fyrir þetta svæði jarðarinnar, enda hafa þeir mikilla hagsmuna að gæta. En tvennt er þó sem Sri Lankanbúar hafa áhyggjur af varðandi þennan mikilvæga þátt í hagkerfi landsins.

Í fyrsta lagi eru það átökin við Tamil Tígrana sem dregið hafa úr áhuga útgerða til að nota hafnir á Sri Lanka til umskipunar.  Fyrir nokkrum mánuðum síðan reyndu Tígrarnir að sigla hraðskreiðum bátum fylltum sprengiefni inn í höfnina. Sjóherinn náði rétt í tíma að skjóta bátana niður þegar örstutt var eftir að þessari mikilvægu lífæð flutninga.

SriÉg sat um daginn á gömlum enskum klúbbi á efstu hæð á virðulegu hóteli við höfnina. Þetta er eini staðurinn þar sem vel sést yfir hafnarsvæðið, enda er stranglega bannað að taka myndir þar. Það er ótrúlega gaman að fylgjast með athafnalífinu í höfninni þegar verið er að umskipa gámum úr nokkrum risa flutningaskipum. Fjórir risa kranar voru að afferma gríðarstórt gámaflutningaskip á sama tíma. Síðan eru urmull af landkrönum sem taka gámana og stafla þeim upp hér og þar sjálfvirkt.  Sjóherinn er einmitt staðsettur þarna í höfninni og því er öryggisgæsla mikil á svæðinu. Það er þó svolítið skondið að hægt er að fara á Google Earth og skoða höfnina í smáatriðum, þó sú mynd sé að sjálfsögðu ekki í tíma. Kannski Tígrarnir hafi ekki aðgang að netinu!

Sundið milli Indlands og Sri Lanka

Dell IslandHitt atriðið sem Sri Lankanbúar hafa áhyggjur af er ráðagerðir Indverja um að dýpka eyðið milli Indlands og eyjarinnar. Það myndi stytta siglingaleiðir verulega og draga úr mikilvægi landsins sem umskipunarstaður. Þetta er gríðarmikil framkvæmd ef af verður þar sem lágmarks dýpt verður 20 metrar og breiddin einir 200 metrar. Þarna eru mikilvægustu fiskimið Sri Lanka en reyndar helsta átakasvæði við Tamil Tígra, en þeirra landsvæði er einmitt á norð-austur hluta eyjarinnar.

 

 

Blokkin heima

Hyde ParkAð lokum læt ég fylgja með mynd af þakinu sem ég skokka um á morgnana. Mér reiknast til að hringurinn sé um 100 metrar að lengd. Neðst í horninu til hægri er Viktoria garðurinn þar sem framtíðarhlaup mín verða. Ef ég ætla að halda í við vin minn Ívar gengur ekki að vera skokkarinn á þakinu.


Fílagarðurinn

Munaðarlausir fílar

FílabaðUpp í fjallahéraðinu Kandy er merkilegur garður sem heitir Elephant Orphanage, eða fíla-munaðarleysingjahælið.  Garðurinn var stofnaður um 1950 og þangað hafa Sri Lankanbúar flutt fíla sem hafa einhverra hluta vegna ekki getað séð sjálfir um síg í náttúrunni. Munaðarlausir kálfar eða fílar sem hafa orðið fyrir einhverskonar slysi. Einn fíllinn í garðinum hafði stigið á jarðsprengju og misst framan af öðrum framfætinum. Fórnarlamb stríðsins á Sri Lanka og hefði ekki komist af nema fyrir þennan merkilega garð. Augljóst er þó á þessum fíl að hann hefur ekki jafnað sig og það eru ekki bara erfiðleikar með gang sem hrjá hann heldur líður honum augljóslega illa. Á Íslandi hefðum við aflífað hann án umhugsunar en hér gengur það ekki upp. Sri Lankan búar eru flestir Budda trúar og samkvæmt henni má ekki deyða dýr. Það er í lagi með fiska en alls engin dýr, og eru kjúklingar þar meðtaldir. Það er því ekki mikið af svína- eða kjúklingabúum á Sri Lanka enda kemur 74% af dýrapróteini úr neyslu fisks hér í landi, sem er töluvert mikið. Þeir láta örugglega Múslimana og Tamilana um sláturféð.

Budda

SnákurHversvegna Budda trúar  vilja ekki deyða dýr en hika ekki við að drepa hvorn annan er saga að segja frá. Gott dæmi um grimmd átrúanda Budda er úr seinni heimstyrjöldinni en Japanir þóttu einstaklega grimmir á vígvellinum og hikuðu ekki við að drepa sjálfan sig og aðra. Hinsvegar með dýrin kemur til af praktískum ástæðum.  Þeir trúa því að þegar jarðvist manna lýkur muni þeir endurfæðast í  dýralíkama. Hagi þeir sér illa verða þeir að pöddu en annar gætu þeir endað sem fugl eða fíll. Þannig að ef þeir drepa dýr gætu þeir verið að aflífa ættingja sinn. Það er hinsvegar á hreinu þegar menn eru drepnir hverjir þeir eru.  Slíkt liggur ekki fyrir með dýrin og því vilja þeir ekki taka áhættuna og láta jafnvel flækingshundana í friði.

Ferðin til Kandy

Það voru þeir Ron og Dan sem sóttu mig snemma á laugardagsmorgun til að sýna mér fílagarðinn og svolítið af Sri Lanka. Ég verð að viðurkenna að fjögurra tíma keyrsla hvora leið var töluvert erfið. Eftir fyrstu tvo kílómetrana kom ekkert á óvart. Svona hálfgerður grautur af mannlífi sem  ekki hægt að kalla áhugavert. Mikið af fólki sem býr við erfið kjör og lítið gaman að horfa upp á það.

KókoshneturHinsvegar var hressandi að að drekka úr kókoshnetu sem allstaðar eru til sölu við þjóðveginn. Pálmatré eru merkileg fyrir margar sakir. Úr rótunum eru búin til lif, bolirnir eru frábær smíðaviður og blöðin eru fléttuð í þök ásamt því að vera góður matur fyrir fíla. Kókoshneturnar eru notaðar með margvíslegum hætti. Vökvinn úr þeim er einstaklega svalandi og mjög hollur. Kókósinn er notaður mikið í matar- og sælgætisgerð. Ef kókósinum og safanum er hrært saman i blandara verður til kókosmjólk sem meðal annars er notuð í karrírétti. Skelin utanum kókósinn er notuð sem grillkol og ysta lagið sem er mjög trefjaríkt er notað til að flétta reipi. Strandveiðamenn á Sri Lanka nota einmitt slík reipi við veiðarnar en konurnar sjá um að flétta þau meðan þeir sækja sjóinn.

Í hádeginu fengum við okkur karrírétt  á notalegum veitingastað upp af ánni þar sem fílarnir eru baðaðir. Þar sáum við bændur úr nágreninu koma og baða alla fjölskylduna og húsdýrin líka. Beljurnar voru vandlega skrúbbaðar að framan sem aftan og hundurinn þveginn líka. Ég velti því fyrir mér hvort einhver drykki vatnið neðar í ánni en allt vatn í Colombo er hreinsað og klórblandað.

Þrífættur fíllMér var svolítið brugðið þegar ég upptvötaði að karríréttirnir innihéldu allir mismunandi tegundir af fiski. Við höfðum einmitt séð nokkra fisksala á leiðinni upp eftir en þar liggur fiskurinn til sölu á tréborðum, niður skorin, í 30°C og sólskyni.  Engin ís eða kæling og guð einn veit hversu marga daga hann liggur. Þetta er stórt vandamál hér í landi enda þó að fiskurinn sé eldaður og allar bakteríur drepnar eru próteinin að engu orðin og gagnlaus eftir þessa meðferð. Ég átti svolítið erfitt með mig en sit hér enni heill heilsu og hreystin uppmáluð þrátt fyrir fiskinn.

 

Ávextir á laugardegi 

Á heimleiðinni keyptum við ferskt Rampodin en sá ávöxtur vex á trjánum við þjóðvegin á þessum slóðum. Við keyptum síðan annan ávöxt, sem ég man ekki nafnið á, sem er með hörðum gulum berki með hárbeittum göddum þannig að ekki er hægt að taka á honum Ramputanberhentur. Hann er hvítur að innan með stórum svörtum steinum og bragðast frábærlega. Það fylgir hinsvegar böggull skammrifi þar sem hann lyktar eins og gömul hlandskál. Sú lykt er reyndar af berkinum og hverfur þegar hann er fjarlægður. Á meðan geymi ég ávöxtinn úti  á svölum í plastpoka til fyrramáls þannig að Pam geti verkað hann fyrir mig.

Það var gott að eiga rólegt laugardagskvöld hér heima í íbúð og horfa á sjónvarp. Í morgun fór ég upp á þak, 12 hæð, til að skokka og kláraði 10 kílómetra. Kannski heimsmet í þakhlaupi þó ég efist nú um það. Ég hef séð þetta í Amerískum bíómyndum og  get alveg mælt með því. Hringurinn er svona 100 metrar þannig að fjöldinn er um 100 hringir.

 

 


Vearing Prada

1001 nótt1001 nótt

Það er mikið að gera í vinnunni þessa daganna. Margir hlutir sem þarf að koma sér inn í og læra nýja aðferðafræði.  Það er því langur vinnudagur og minni tími til að blogga. Yfir því verður ekki kvartað enda með því reiknað og vonast til þess. Allt sem ég vonaðist til í þessu starfi var að takast á við krefjandi og áhugaverð störf og eru engin vonbrigði með það ennþá.

Ég er ósköp glaður að hafa vinnukonu þessa dagana. Koma þreyttur heim að skínandi hreinni íbúð með öllum fötum samanbrotnum og röðuðum inn í skáp. Kvöldmaturinn bíður inn í ískáp og bara að skella honum inn í örbylgjuofninn. Ég þarf að sjálfsögðu að greiða henni laun en hún er vel að þeim kominn. Reyndar var ég mjög heppinn að ráða Pam, sem talar ensku reiðbrennandi og því auðvelt að eiga við hana samskipti.

Sumir vina minna hafa komið að máli við mig og fundist líf mitt vera eins og í Þúsund og einni nótt. Þetta er auðvitað meðfæddur glannaskapur í mér þegar ég lýsi hlutunum og besta að koma þessu niður á jörðina.

Eins og ég sagði er vinnukonan á mínum vegum og ég greiði henni laun. Ég bý í stórri og notalegri íbúð á sjöundu hæð, sem myndi vera svipað stór á Íslandi fyrir fjögurra manna fjölskyldu. Það  er reiknað með að fjölskylda mín geti verið hér og búið hjá mér en við erum fjögur í heimili á Ísafirði. Öryggið við að búa í svona íbúðarblokk þar sem fylgst er með öllum sem inn koma er nauðsynlegt. Allir erlendir erindrekar búa við þessar aðstæður hér og telst þetta vera standard. Sá sem gegnir stöðu sendiherra hér er einmitt að flytja úr stóru húsi í dýrasta hverfi borgarinnar í slíkt íbúðarhótel vegna öryggis en hann er með 14 ára dóttur sína með sér. Það má ekki gleyma því að á Sri Lanka eru herlög í gildi sem geta haft alvarlegar afleiðingar ef menn gæta sín ekki.

Sendiráðið hefur svo bíla til að skutla okkur til og frá vinnu og þangað sem við þurfum að fara vegna vinnu. Í dag fer ég að skoða fíla og þá er notast við einkabíla. Bílarnir eru algerlega nauðsynlegir í umhverfi eins og Colombo. Það er ekki fyrir hvern sem er að rata um rangala borgarinnar og lítið vit í að eyða dýrmætum tíma okkar í það. Bílstjórarnir leysa ekki okkar verkefni hér á Sri Lanka.

Þannig að við skulum koma okkur út úr ævintýrinu og inn í raunheima þó það sé ekki eins skemmtilegt að segja frá þeim.

PradaVearing Prada

Eitt er það sem fylgir því að búa í hitabeltinu er að maður fer aldrei í jakka. Stutterma skyrta er venjulegur klæðaburður karlmanna og alls ekki bindi. En það er galli á gjöf Njarðar því að nú vantar vasana til að geyma allt smádótið. Myndavél, farsíma, gleraugu, sólgleraugu o.s.fr. Við berum því töskur eins og konurnar heima. Við hefðum kannski átt að gera minna grín að eiginkonunum hvað þetta varðar því  ,,We are vearing Prada„

 

Fílaskoðun

Fílar 016Það er snemma morguns 11. ágústs og framundan ferð að skoða fíla með Ron og Dan. Sú ferð verður skráð seinna. Þetta eru góðir vinir Shirans, tengdasonar míns og hafa tekið mér sem fjölskdumeðlim síðan ég kom hingað. Samstarfsmaður minn hér sagði að ég hefði komist jafn vel inn í samfélagið hér á viku og venjulega gerist á einu ári. Þökk sé Auri og hennar móttökum þegar ég kom hingað.


Lífið í Colombo

Starfið á Sri Lanka 

tuk tuk 1Það væri auðvelt að miskilja skrif mín á þann hátt að lítið væri að gera í vinnunni og ég væri ekki sinna störfum fyrir forseta vorn og þjóð. En það er misskilningur og rétt að benda á að störf okkar hér eru flókin og vandasöm þannig að mestur tími minn hefur farið í að setja mig inn í málin. Í grófum dráttum gengur starfið út á að bæta lífsgæði fólks hér í sjávarútvegi, sem eru með fátækustu stéttum landsins. Þá erum við að tala um fátækt þar sem fólk hefur minna en 2 $ á dag í laun. Ekki spurningu um hvort foreldrar hafi efni á að kaupa fartölvu fyrir börnin sín.

Reyndar varð mér alveg um og ó þegar ég leit yfir þau verkefni sem ég á að bera ábyrgð á í starfi mínu og vissi varla hvar átti að byrja. Svo notuð séu myndhvörf þá má líkja þessu við að ætla sér að éta fíl og vita ekki hvar eigi að byrja. Bíta aðeins í rófuna eða naga hann í hnéð? Til að ráða betur við þetta mun ég fara á laugardaginn í boði Dan, lögfræðings Aury, til að skoða fíla. Eins gott að vita hvernig þessar skepnur líta út áður ég fer fræðilega að skera þær niður í steikur.

Ég mun semsagt láta það bíða aðeins að fjalla um starfið og segja frá því þegar ég er kominn betur inn í málin, frekar en að bulla eitthvað sem lítið mark er á takandi. Útskýra umhverfið og lífið hér til að byrja með og láta aðal atriðið sæta afgangi í bili.

Pólitíkin

Í pólitíkinni eru það stríðið og verðbólgan sem eru efst á baugi. Síðan 2003 - 2004 hefur verð á nauðsynjum hækkað mikið. Brauðið úr 3 kr. í 14 kr, 100 gr. af mjólkurdufti úr 80 kr. í 103 kr. og bensín úr 48 kr ltr í 70 kr. Kostnaður vegna varnarmála hefur farið úr 30 milljörðum kr. í 80 milljarða síðan 2003 en harðnandi átök við Tamila hafa þar mest áhrif.

Umferðin

Tuk tukÉg hef áður sagt frá því hvernig forsetin ferðast um en eðlilegar ástæður liggja fyrir slíkum ferðamáta. Það sem Tamilarnir hafa reynt að stilla sig inná er að mæta þessum bílalestum og sprengja sig upp um leið og þeir mæta bílnum sem forsetinn, eða einhver annar háttsettur embættismaður, er í. Þetta hefur verið reynt hér reglulega og hefur því miður oft kostað líf óbreyttra borgara. Til að útiloka þessa aðferð var ákveðið fyrir nokkrum mánuðum að allar götur í Colombo yrðu einstefnugötur. Engin kynning var gerð á þessu heldur vöknuðu menn upp einn daginn við breytinguna. Það var mikil handagangur í öskjunni næstu daganna á eftir þegar menn reyndu að rata í vinnuna eftir nýja kerfinu. En flestir eru þó á því að þetta sé til bóta. Umferðin gengur betur fyrir sig og flæðið er betra.

Það ver mikið búið að hræða mig á umferðinni hér í Colombo þar sem hún væri algjörlega vitfirrt og ruddaleg. Sri Lanka er með vinstri umferð að gömlum og góðum enskum sið sem gerir þetta svolítið erfiðara en umferðin er ekki svo slæm. Reyndar rennur hún ótrúlega ljúflega og stundum fimlega. Ökumenn eru eins og klettaklifrari sem er með öll skilningarvit á fullu við að stýra í gegnum öngþveitið og þar með heyrnina. Flautið er engin ruddagangur eða frekja. Það er stanslaust verið að gefa merki til næsta bílstjóra til að láta vita afsér en þetta hefur ekkert með dónaskap að gera. Ég ætla fljótlega að hefja akstur hér í borginni, algerlega óragur við að kasta mér út í öngþveitið óreiðuna sem virðist ríkja á götum bæjarins. Þetta er miklu betra en það lítur út fyrir að vera.

Það er rétt að segja frá fyrirbæri sem heitir túk túk og eru þriggja hjóla faratæki og eru notaðir hér sem leigubílar. Allar götur eru fullar af þessum fyrirbærum sem eru einskonar blanda af bíl og mótorhjóli. Allt tilheyrir þetta neðanjarðarhagkerfi þar sem engin ökumælir er og ekkert gefið upp til skatts. Verðið fyrir þjónustan ræðst af útliti (ríkur - fátækur) og hörku viðskiptavinarins í að prútta um verðið. Þessi tæki taka lítið pláss og henta því vel, sérstaklega þegar haft er í huga að engin opinber bílastæði eru í borginni.

Klúbbarnir

Picture 010Ég fór á Rótarýfund hjá Rotary Club of Colombo West í gær. Skemmtilegur fundur og maturinn eins og á fjögurra gafla veitingahúsi í París. Byrjað var á að hylla þjóðfánann en það er reyndar gert á hverjum morgni á öllum stofnunum á Sri Lanka. Síðan var ég látin koma upp og kynna mig og minn litla klúbb á Ísafirði. Ég notaði tækifærið og montaði mig af tengslum mínum við Sri Lanka og þeim ávexti sem af þeim hafa sprottið. Ritari og forseti klúbbsins buðu mér inngöngu og yrði hún afgreidd á stjórnarfundi nú í ágúst. Fundarstaðurinn er á Cinnamon hótelinu sem er í tveggja mínútna fjarlægð frá vinnustaðnum. Svona álíka langt eins og var að heiman yfir á Hótel Ísfjörð, þar sem Rótarýklúbbur Ísafjarðar fundar.

Um kvöldið var mér boðið út að borða á Colombo Swimming Club og gengið frá boði um inngöngu. Það er fínasti klúbbur bæjarins og er í tveggja mínútna gang frá skrifstofunni.

 

Hyde Park Corner

Picture 007Mér var bent á það í gær af vini mínum að í London stendur karlinn á kassanaum á Hyde Park Corner og heldur ræður yfir vegfarendum. Ég bý einmitt á Hyde Park Corner og má líkja blogginu mínu við að ég standi á kassa við hina rafrænu þjóðbraut og láti móðan mása. Besta mál ef einhver hefur gaman af því, þó ekki væri annar en ég sjálfur.

 

 

 

Vedda þjóðflokkurinn

innfæddirÍ dag 9. ágúst er alþjóðadagur innfæddra. Á Sri Lanka eru um eitt þúsund innfæddir, Vedda þjóðflokkurinn, og búa þeir í Oya National Park á austurströnd eyjarinnar. Tæplega 19% þeirra eru læsir og rúmlega 58% eru atvinnulausir. 41% vinna við landbúnað en tæp 9% hafa framfæri af veiðum. Tæp 2% vinna við ferðaþjónustu en það gæti aukist ef þeir byggju ekki á miðju átakasvæði. Vedda þjóðflokkurinn var fjölmennastur um þar síðustu aldamót þegar þeir voru 5000. Þeim hefur stöðugt fækkað síðan.


Klúbbar og kveðjustund

  Klúbbar í Colombo

Royal Colombo Golf ClubÞá er komið að klúbbunum hér í Colombo. Í gær var mér boðið til hádegisverðar í Royal Colombo Golf Club. Eftir stutt spjall við Club Captain var ekkert því til fyrirstöðu að gerast meðlimur. Nú er bara að byrja að æfa af kappi og ná niður forgjöfinni. Það er auðvelt þegar maður byrjar með fullt hús stiga.

Næst er það Rotaryklúbbur hér í borg. Á miðvikudag er mér boðið á fund á Cinnamon Grand hótel. Ég veit enn ekki hvað klúbburinn heitir en það verður gefið upp seinna.

Síðan er það Swiming Club of Colombo, sem er gamall enskur fyrirmannaklúbbur. Ekki er hægt að sækja um inngöngu, frekar en í Rótarý, heldur verður að mæla með þér af meðlim. Eitt af skilyrðum fyrir inngöngu er að viðkomandi komi ekki frá þjóð sem háð hefur styrjöld við Breta síðustu 100 árin. Ég heyrði einmitt sögu af því þegar bjóða átti Þóri Hinrikssyni í klúbbinn að honum var neitað vegna Þorskastríðsins. Það þurfti að beygja til reglur og tala menn til svo hann gæti orðið meðlimur. Vonandi hafa Bretar fyrirgefið Íslendingum þessa smán þannig að ég fái nú inngöngu í þennan rómaða klúbb.

Aury kvödd

GoflvöllurÍ gærkvöldi var svo komið að kveðjustundinni fyrir Aury. Vinir hennar buðu til veislu á Trans Asia hótelinu hér í Colombo. Enn eitt glæsihótelið, með lifandi indverskri tónlist í anddyrinu og flottheitin yfirgengileg. Allar tegundir af ferskum fiski, rækjum og humar lá á ís utan við veitingastaðinn, sem var tælenskur.

Þegar við förum út að borða þá er tilgangurinn ekki að borða sig saddan eða fá næringu. Þó það sé reyndar megin tilgangur með því að matast, per se. Hugmyndin er að njóta matarins og upplifa eitthvað sérstakt eða notalegt. Láta leika við bragðlaukana og ekki síður að tryggja umhverfi og félaga sem lætur manni líða vel. Hér var allt þetta fyrir hendi og skortir lýsingarorð til að útskýra upplifunina.

 

Tælenskur matur

Frænka ShriansMér dettur helst í hug að nota myndhvörf og maður ímyndi sér að hann ætli í gönguferð upp á Himmelbjerg í Danmörku. Lítill hóll sem ku vera grasi vaxinn og varla að maður taki eftir hækkuninni á leiðinn upp á toppinn sem er í um 200 metra hæð. En ferðin er raunverulega farin í heiðskýru upp á Hlöðufell, Snækoll eða verður ganga um Hornvík. Það sem fyrir augun ber er svo ótrúlega fallegt og upplifunin svo sterk að lýsingarorð skortir. Nema þá helst í bundnu máli. Ég treysti mér ekki til að yrkja um tælenska matinn í gærkvöldi en bragðlaukarnir fóru í íslenska fjallgöngu í björtu hlýju sumarveðri á Fróni. Það var dekrað við þá, þeim endalaust komið á óvart og þeim strokið og stundum fengu þeir hressilegt nudd.

Hópurinn var skemmtilegur og áfram fékk ég að njóta þess að vera í ,,fjölskyldunni" og vera tekið sem slíkum. Mikið spurt um Jón Gunnar, sameiginlegan erfingja okkar Aury og minnið í símanum mínum er að fylllast af númerum vina minna í Colombo.


Pólitík í hitabeltinu

Mount Lavinia

Hotel Mount Lavinia

Eftir heimsóknir til ættingja Aury og skoðun á húsinu hennar í Colombo var farið á Mount Lavinia Hotel þar sem við áttum stefnumót við Ron og Dan.

Þetta glæsilega hótel var byggt af landstjóra Breta á Sri Lanka, Sir Thomas Maitland, snemma á nítjándu öld. Hótelið heitir í höfuð á hjákonu hans sem hann byggði hús fyrir við hliðina á landstjórasetrinu og lét reyndar gera leynigöng á milli til að auðvelda heimsóknir í dyngju hennar. Lavinia var af portúgölskum ættum en Portúgalar voru fyrstir til að leggja Sri Lanka undir sig sem nýlendu. Þeir náðu reyndar aldrei hálendinu í Kandy undir sig frekar en Hollendingar seinna en Bretunum tókst að ljúka því verki árið 1815.

Hótelið er stórglæsilegt, byggt við ströndina í útjaðri Colombo og eftir góðan sundsprett í lauginni fengum við okkur hádegisverð á hlaðborði hússins, sem var dæmigerður Sri Lankan matur. Mikið af karrý, bæði fiskur og kjöt með hrísgrjónum og fersku salati. Útsýnið yfir ströndina er stórfenglegt og utan við gluggan rugguðu pálmatrén rólega í vestan golunni. Í fjarska mátti sjá World Trade Center turnana þar sem hafði skokkað fyrr um morguninn.

Meiri heimsóknir

Aury og brúðarmærÍ eftirmiðdaginn heimsóttum við Dr. K. Sivasubramaniam sem er fræðimaður á sviði fiskveiða og er sérhæfður í túnfiskum, komin á eftirlaun eftir langt starf fyrir FAO. Hugsanlega getur hann orðið að liði þegar kemur að öflun gagna fyrir meisaritgerðina sem ég stend frammi fyrir og mikill fengur í vináttu hans og væntanlegri hjálp.

Aury þekkir öll stórmennin í Colombo og eftir smá hvíld heima í íbúð er ég sóttur í kvöldverð. Nú á enn einu glæsihótelunum, Cinnamon Grand, með vini hennar og líflækni, ásamt eiginkonu. Með í för er vinkona Aury, milljarðamæringurinn Rohina sem þrátt fyrir sextíu árin heldur sér ótrúlega vel til, hlaðin skartgripum.

Hitabeltið

sunnudd 017Við kvöldverðin var mikið talað um hálendi Sri Lanka og sérstaklega Nuwara Elya þar sem Rohina á stóran og glæsilegan fjallakofa. Það er ákveðið að taka mig þangað en ég held ég bíði eftir heimsókn eiginkonunnar til Sri Lanka í þá ferð. En lýsingar þeirra á þessum dásamlega stað veita fyrirheit um skemmtilega ferð ósnortna náttúru upp í fjöllum eyjarinnar. Dýralíf er fjölskrúðugt þar með fílum, krókódílum, hlébörðum, öpum og hundruðum tegundum af fuglum. Á Sri Lanka eru yfir 540 tegundir af fuglum.

Ég reiknaði út í fljótheitum að miðað við staðsetningu Colombo, 7° Norður, er sólinn enn fyrir norðan okkur í hádegisstað. Það verður ekki fyrr en um 20. september að hún verður beint yfir höfði okkar en eftir það fer hún að halla í suður. 21. desember verður hún beint yfir 22° breiddarbaug suður í hádegisstað.

BlómÉg er sem sagt staddur í miðju hitabeltinu. Enda dýrlífið fjölskrúðugt og ekki síður flóran. Ég fór með Aury í morgunverð til vina hennar Surei og Bobby í morgun. Þau sömu og fyrsti kvöldverður minn var hjá á heimili í Colombo. Þau búa í skógi vöxnu hverfi borgarinnar þar sem skurðir og mýrlendi er sem eru ástæða þess að byggð er ekki þétt þar. Þau rækta all kyns blóm og tré og er litadýrðin ótrúleg. Stoltust eru þau þó af orkendíum sem þau hafa í bakgarðinum en þær voru reyndar ekki í blóma núna. Flestar jurtir blómstra mörgum sinnum á ári enda er lítill munur á árstíðum hvað hitastig varðar.

Sri Lanka pólitík

Blóm2Smá fréttir úr pólitíkinni hér á Sri Lanka. Ríkisstjórninni líkaði ekki hvað smávörukaupmenn hækkuðu vöruverðið og kostuðu með því verðbólgu og ólgu meðala þjóðarinnar. Þá var réðist ríkið í að opna 200 kaupfélög víðsvegar um landið til að tryggja samkeppni. Þetta er nú verðugt umhugsunarefni fyrir okkur Íslendinga hvort við getum náð niður verðbólgunni með svona handstýringu. Einhvernvegin minnir þetta á gamla tíma á Íslandi sem undirritaður saknar lítið. Ég sé þó fyrir mér að Vinstri grænir gætu tekið þetta upp í stefnuskrá og því er hugmyndinni hér með komið á framfæri.

 

Annars er pólitíkin hér í uppnámi þar sem einn stjórnarflokkurinn hefur bakkað út úr ríkisstjórn og eru atkvæði nú hníf jöfn í þinginu. Á Sri Lanka er franska mótelið notað þar sem forseti er kosinn sérstaklega og hann velur sér síðan ráðherra. Reyndar hefur hann sunnudd 021valið bræður sína til setu í mikilvægustu ráðherrastólunum, en hann treystir þeim reyndar best af öllum. Annar þeirra sem sér um varnarmál og bjó í BNA með lifibrauð sem skemmtikraftur (trúður). En það þarf ekki að vera honum til vansa þar sem miklir stjórnmálaskörungar hafa einmitt komið úr skemmtanabransanum. Regan er einn merkasti forseti Bandaríkjanna og óhætt að fullyrða að ekki veiti af Tortímanda til að stjórna fimmta stærsta hagkerfi heims, Kaliforníu. Engin venjuleg vettlingatök hafa dugað þar hingað til og ekki að sjá annað en Arnold Schwarzenegger höndli þetta vel.

 

Dagskráin

sunnudd 013Á mánudag er boðið til hádegisverðar í Konunglega golfklúbbinn sem vonandi leiðir til inngöngu síðar. Á miðvikudag er mér boðið á Rótarýfund á hótel Cinnamon Grand og bölva því nú að hafa ekki tekið með mér fána frá Rótarýklúbbi Ísafjarðar. engin


Að sprengja kultúrmúrinn

 

sendiráðiðÚti að skokka

,,Morning has broken" glymur í ipod-inum meðan ég þýt meðfram ströndinni frá Golfis hótelinu áleiðis að World Trade Center turnunum. Þetta er snemma í morgunsárið en árisulir Colombobúar eru þó mættir á þennan eina skokkstað bæjarins. Og hann er góður. Við hliðina brotar vestan aldan úr Indlandshafi á stöndinni og útifyrir sjást risa flutningaskip og olíuskip. Mér finnst gaman af slíkum skipum og sé hagvöxtinn fyrir mér. Það þarf ekki að afsaka flutningabíla á vegunum heima fyrir mér.

Eftir tvo kílómetra er komið að bannsvæði hersins og ekki annað að gera en snúa við og fara bara fleiri ferðir. Í þriðju ferð þjóta ungir menn úr róðraliði hersins framúr mér eins og ég standi kjurr. Þetta gengur ekki og nú er sprett úr spori. Ég held lengi í við þá en farinn að velta því fyrir mér hvar ég muni detta dauður niður af kappinu. En mér er borgið þar sem þeir halda á inn á bannsvæðið en ég VERÐ að snúa við. Eftir fjórar ferðir fram og til baka er ég sáttur og lít eftir bílstjóranum Kumara.

Redderingar

Þriðji dagurinn minn fór vel í Colombo. Tengdamóðir dóttur minnar sótti mig um ellefu leytið í vinnuna til að arrensera hlutum. Fyrst var farið í bankann til að opna reikning og þar voru að sjálfsögðu vinir hennar við stjórnvölin. Bankastjórinn og framkvæmdastjórinn tóku okkur út í hádegisverð á kínveskan matsölustað. Einhvernveginn var kínamaturinn betri þarna en ég hef áður fengið.

Það er nú tryggt að ég þarf aldrei að fara í biðröð í bankanum mínum þar sem ég fer beint inn til framkvæmdastjórans ef mig vanhagar um eitthvað. Reyndar kom í ljós að þetta útibú Commercial Bank þjónar einmitt sendiráði Íslands og ICEIDA.

Að komast inn í samfélagið

Það athyglisverðasta sem ég upplifði þó í gær var eftir síðdegisdrykk í klúbbhúsi atvinnulífsins með Aury og vinum hennar. Við vorum á leið út í bíl þegar umferðagatan tæmdist utan við klúbbinn. Ég gekk áleiðis að götunni en var stoppaður af hermanni með alvæpni. Allt í einu komu þrjár tvöfaldar raðir af mótorhjólum á fleygi ferð með alvopnaðan farþega að aftan. Síðan komu herjeppar og síðan brynvarður bíll og þar á eftir fleiri mótorhjól og síðan sjúkrabíll og fleiri herbílar. Þarna var varnarmálaráðherrann, bróðir forsetans, á ferð en þetta er nauðsynlegur ferðamáti æðstu manna af öryggisástæðum. Tígranir sitja stöðugt um líf þeirra og því nauðsynlegt að gæta fyllstu varúðar.

Þetta kvöld var snætt á því flottasta veitingahúsi sem ég hef komið á. Staðurinn er á indversku hóteli í miðbæ Colombo og ekkert til sparað að gera staðinn og umhverfið eins glæsilegt og hugsast getur. Aury hafði boðið fjórum góðum vinum sínum til að kynna okkur og vel fór á með hópnum. Það var einmitt þá sem ég uppgötvaði seinna undrið þennan dag. Ég hafði sprengt Kultúrmúrinn með því að fara í gegnum hann á ógnar hraða.

Milli mín og þessa fólks var bókstaflega engin spenna. Mér var tekið eins og ég væri einn af hópnum enda fjölskyldumeðlimur. Saman eigum við Aury einn einsárs gamlan og það dugar til að mér sé algjörlega treyst og komið fram við mig eins og ég hefði alist upp með þeim. Það er býsna notaleg tilfinning.

Meðan á borðhaldinu stóð spilaði indversk hjómsveit tónlist sem bókstaflega tók mann á flug. Maður sveif með tónunum sem voru ljúfir og notalegir. Meðal annars spiluðu þeir lag fyrir Aury um æskuslóðirnar í Anuradhapura þar sem móðir hennar býr nú.

Brennsla eftir veislur

Okkur var ekki til setunar boðið fram á kvöld þar sem næsti dagur yrði tekinn snemma. Ég hafði minnst á við skrifstofustjórann fyrr um daginn hvort bílstjórinn, Kumara, gæti skutlað mér um níu leitið eitthver þar sem hægt væri að skokka. Það var alveg sjálfsagt en níu væri allt of seint. Það væri ekki vit að hlaupa af stað seinna en klukkan sjö.

morgunmaturEftir hlaupið skutlaði Kumara mér í vinnuna en þar er ekki unnið á laugardögum. Ég skellti mér í sturtu sem fylgir skrifstofunni minni og næ hér þriggja tíma vinnu áður en Aury sækir mig til að hitta fleiri vini og vandamenn. Morgunmatinn hafði ég tekið með mér að heiman og læt fylgja hér með mynd af veislunni. Rauði ávöxturinn er einmitt rambutan sem ég smakkaði í fyrsta sinn í morgun og ekki olli hann mér vonbrigðum.

Í Tunguskógi

Í kvöld verður mikil veisla í Birkilaut eins og endranær á laugardegi fyrir verslunarmannahelgi. Yfirleitt hefur verið boðið upp á nautasteik en nú er brugðið útaf með austurlenskum karrýrétt. Þó ég sé fjarri góðu gamni þá veit ég að eldamennskan hjá Shiran mun gleðja bragðlauka fjölskyldu og bestu vina minna sem hafa möguleika á að mæta til þessarar veislu. Ég óska þeim og fjölskyldu minni góðrar skemmtunar og bið að heilsa.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.10.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 69
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband