Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
27.7.2009 | 06:32
Hvers vegna ESB aðild?
Björn Bjarnason hefur fært fyrir því góð rök að umsókn að ESB sé ekki tímabær. Mikil pólitísk gróska sé innan sambandsins og óvissa um Lissabonsáttmálann sem setji aðildarumsókn Íslands í erfiða stöðu. En þó telur hann að óðagot Samfylkingar í málinu og ósætti stjórnarflokkanna hvað varðar ESB, sínu verra. Skilaboð stjórnarsinna eru sitt á hvað. Össur, Jóhanna og Steingrímur segja að engin tengsl séu milli ESB umsóknar og Icesave en sjávarútvegsráðherra segir málin samtvinnuð og því beri að fresta umsókn, enda sé samningsstaða Íslands vonlaus í dag. Björn er sammála Jóni Bjarnasyni og telur að bíða eigi minnsta kosti fjögur til fimm ár með umsókn.
Fyrir stuðningsmenn ESB aðildar eru vinnubrögð ríkisstjórnarinnar hörmulegar og þyngra en tárum tekur. Jóhanna er greinilega lítill leiðtogi og notar hótanir frekar en sannfæringu til að fá ráðvillta V.G. til að greiða atkvæði á alþingi málinu til brautargengis. Henni hefur algerlega mistekist að sameina menn í málinu og hefur sundrað þjóðinni með klaufaskap. Umræðan snýst ekki lengur um hvað sé þjóðinni fyrir bestu heldur eru menn komnir í pólitískar skotgrafir.
Þeir sem aðhyllast umsókn hafa bent á að aðild að ESB geti styrkt traust á Íslensku hagkerfi, sem er lífspursmál í dag. Svona eins og kýrin var hjá Bjarti í Sumarhúsum, enda tóku börnin heldur betur að braggast við að fá næringarríka mjólkina úr henni. Einnig hefur verið bent á að þrátt fyrir að upptaka evru og aðild að EMU taki all-nokkurn tíma, væri hægt að gera samning við Seðlabanka ESB um tengingu við evru og bankinn yrði sá bakhjarl sem lítil þjóð þyrfti á að halda. Aðal málið er þó að tryggja aðgang Íslendinga að lánsfé og mörkuðum og sá ávinningur sem þjóðin hefur fengið í gegnum EES tapist ekki.
En hvað vilja andstæðingar ESB aðildar? Lítið er um svör hvað það varðar og framtíðarsýn þeirra nær ekki lengra en að stöðva aðildarumsókn. Síðan reddast þetta allt! Síldin kemur!
Bloggari er sannfærður um að þjóðin muni ekki samþykkja aðild ef hagsmunir hennar í sjávarútvegsmálum verði ekki tryggðir. Það er því ekki það sem hangir á spýtunni heldur er um ríka þjóðerniskennd að ræða og hugmyndir um afsal á sjálfstæði þjóðarinnar. Í dag hafa Íslendingar undirgengist yfirþjóðlegt vald með EES. Um það er engin ágreiningur enda er það fylgifiskur flestra alþjóðasamninga. Mesta breytingin við inngöngu í ESB er að landbúnaður og sjávarútvegur verða tekin inn í pakkann, og Íslendingar verða hluti af ákvörðunarferli sambandsins, sem þeir eru ekki í dag.
Ef menn gefa sér að þjóðin sé skynsöm og samþykki ekki samning sem tryggir henni a.m.k. núverandi arð að fiskveiðiauðlindinni til framtíðar, þá er bara landbúnaðurinn eftir. Kannski að þetta snúist að lokum allt um rolluna og þjóðin sé tilbúin að axla verulegar byrðar, hærri matarkostnað, verri lífskjör o.s.f., bara ef ekki verður hróflað við rollunni. Að kindin sé hið raunverulega sjálfstæði þjóðarinnar.
Það er þráin eftir frelsinu sem fær bloggara til að styðja við aðildarumsókn Íslands að ESB. Að tryggja fjórfrelsið gagnvar ESB ríkjunum og þannig aðgengi að mörkuðum, fjármunum og vinnuafli. Að koma í veg fyrir einangrun Íslands, sem ríkti að miklu leiti þar til Viðeyjarstjórnin tók við 1991 og landið síðan opnaðist með EES samninginn 1994. Hvað sem okkur kann að finnast um þjóðir ESB þá deilum við okkar gildum og menningu með þeim. Íslendingar þurfa að sameinast um að viðhalda því frelsi og kasta fyrir róða þjóðernishyggju og þeirri trú að þjóðin sé einstök í veröldinni, fallegust, best og klárust. Hvort sem þjóðinni líkar betur eða verr er það einmitt sú firring sem kom henni á vonarvöl. Mærði útrásarvíkingana og tók þátt í einni stærstu veislu sem haldin hefur verið. Í stjórnarsáttmála Sjálfstæðismanna og Samfylkingar var einmitt ákvæði um að styðja frekar við útrásina og gera Ísland að alþjóðlegri fjárálamiðstöð.
25.7.2009 | 07:26
Sjálfstæðisflokkurinn í Sumarhúsum
Andstæðingar ESB beita fyrir sig þjóðerniskennd málstað sínum til framdráttar. Það er ekkert skrítið við það þar sem aðildarsamningur var tvisvar felldur í Noregi á þeim forsendum. Nafn Jóns Sigursonar er meira að segja notað í umræðunni og þjóðin er vöruð við því að kasta sjálfstæði þjóðarinnar fyrir róða, og undirgangast ofríki Brussel í staðin.
Er þetta svo? Er Danmörk og Svíþjóð ekki fullvalda sjálfstæð ríki? Að halda öðru fram er fáránlegt og nota slíkt í mikilvægu hagsmunamáli þjóðarinnar er hið versta lýðskrum. Sannleikurinn er sá að með EES samningnum hafa Íslendingar undirgengist yfir 80% af regluverki ESB, og vantar inn ákvæði um landbúnað og sjávarútveg. Það hafa þeir reyndar gert án nokkurrar aðkomu að ákvörðunartöku um þessar reglur. Eru Íslendingar þá ekki sjálfstæð þjóð í dag og EES samningurinn þá búinn að ræna þjóðina sjálfstæði sínu sem nú hefur undirgengist yfirþjóðlegt vald? Eða snýst sjálfstæðið um sjávarútveg og landbúnað? Þýskur stjórnlagadómsstóll komst að því á dögunum að þjóðir ESB deildu ekki með sér sjálfstæði heldur völdum.
ESB er upphaflega frönsk hönnun og hugsuð til að koma á varanlegum friði í stríðshrjáðri Evrópu. Hnýta hagsmuni þjóðanna saman á efnahagslegum forsendum þannig að ekkert ríki sjái sér hag í að fara með hernaði gegn öðru. Í upphafi hét þetta Kola og stálbandalagið, en það þurfti einmitt stál og kol til að hervæðast þannig að skírskotun nafnsins er skýr. Evrópusambandið er síðan stofnað á grunni Rómarsáttmálans þar sem tryggja átti eðlilega samkeppni milli þjóðanna, íbúum til hagsbóta, og fjórfrelsið var hornsteinninn í samvinnunni.
Margir sáttmálar hafa verið gerðir síðan en skal einn sérstaklega nefndur hér til sögunnar, Lissabonsáttmálinn. Í upphafi þegar hann var kynntur kölluðu menn hann stjórnarskrá ESB. Sjálfsagt hafa það verið samþjöppunarsinnar með Frakka og Þjóðverja í broddi fylkingar, sem komu með nafngiftina, sem var ekki bara vitlaus heldur skapaði mikla andstöðu þeirra sem vildu völd Brussel minni, s.s. Breta. Hér var ekki um eiginlega stjórnarskrá að ræða og hreyfði í engu við ríkjandi stjórnarkrám aðildarríkjanna, sem eru að mörgu leiti ólíkar. Eftir stækkun sambandsins 2004, úr 15 í 25, þar sem stór hluti austur Evrópuríkja var tekin inn í sambandið, gerðu menn sér grein fyrir að jafnhliða stækkun væri nauðsynlegt að straumlínulaga ákvörðunarferli sambandsins. Hægt vari að taka fleiri ákvarðanir án þess að nota einróma samþykktir (NATO notar slíkar ákvarðanatökur) og hægt verði að taka fleiri með auknum meirihluta eða einföldum meirihluta. Einnig stóð til að fækka framkvæmdastjórum og breyta samsetningu þingsins og setja hámark á fjölda þingmanna.
Allir sem kynnt hafa sér málefni sambandsins vita að þetta eru algerlega nauðsynlegar aðgerðir og reyndar voru nýju ríkin búinn að fallast á skipan mála fyrir inngöngu. Það ótrúlega gerðist hinsvegar að ,,Stjórnarskránni" var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu í Frakklandi, og ef bloggari man rétt, í Hollandi. Aftur var sest að hönnunarborðinu og nú hét fyrirbærið Lissabonsáttmálinn. En þá feldu Írar málið.
Erfitt veður fyrir ESB að taka fleiri ríki inn nema koma sáttmálanum í gegn, þar sem ákvarðanataka er einfaldlega orðin of flókin og erfið í dag. Hugsanlega myndu menn þú kippa Íslandi inn vegna EES samningsins og hversu fámennt ríkið er.
Það viðskiptafrelsi sem Íslendingar búa við í dag kemur frá ESB í gegnum EES samninginn. Fjórfrelsið gefur þeim möguleika á að flytjast til allra ríkja EES og fá sér þar vinnu. Bannað er að setja hömlur á viðskipti milli ríkjanna og eru Íslendingar nú á undanþágu vegna gjaldeyrishafta. Ekkert nema yfirþjóðlegt vald á þessu sviði tryggir að svo verði áfram. Allir sem muna tímann fyrir 1994 geta séð fyrir sér framtíðina án EES samningsins og íslenskum stjórnmálamönnum einum og sér, er alls ekki treystandi til að tryggja þetta frelsi.
Ekki þarf annað en líta á íslenskan landbúnað til að sjá það. Haftastefna íslenskra stjórnvalda í landbúnaðarmálum er sú versta í heimi. Þó deilt sé á ESB og talað um kerfiskarlana í Brussel og pólitísk tök bænda í Evrópu á stjórnmálum, eru þessi mál í miklu betri farvegi þar en á Íslandi. Fyrir liggur að verð á landbúnaðarvörum mun lækka umtalsvert við inngöngu Íslands, og lífsgæði íbúanna þannig batna með lægra verði á matarkörfunni. Í gegnum tíðin hafa Íslendinga fengið að heyra að nú eigi að taka á þessum málum og markaðsvæða landbúnaðinn. En það eru því miður allt saman sjónhverfingar. Að vísu hafa samningar World Trait Organization (GATT) eitthvað verið að stríða íslenskum stjórnmálamönnum, en þá er reynt að finna leiðir fram hjá kerfinu, með hagsmuni bænda gegn neytendum, í huga. Nú er það ekki svo að bændur á Íslandi ríði feitri meri frá þessu öllu, en það er einmitt vandinn við höft og ófrelsi að menn uppskera sóun og allir þjást og engin ber neitt úr býtum.
En þá er sjávarútvegurinn eftir og um það snýst málið. Grundvallar krafa Íslendinga er að; ná samningum um sjávarútvegsmál sem tryggja sjálfbærni veiða og að sjávarútvegur verði rekin á viðskipalegum grunni í framtíðinni ásamt því að tryggja að fiskveiðiarður sem þannig verður til skili sér til þjóðarinnar. Hvort ákvörðun um t.d. veiðimagn er formlega tekin í Reykjavík eða Brussel, skiptir engu máli. Það sem skiptir máli er á hverju ákvörðunin byggir. Nái Íslendingar ekki þessum markmiðum í aðildarsamningum mun þjóðin fella hann. Það er sannfæring bloggara. En á það þarf að láta reyna þar sem hagsmunir þjóðarinnar eru gríðarlegir.
Bjartur í Sumarhúsum fórnaði fjölskyldu sinni fyrir ,,sjálfstæðið" og féð. Rollan var honum meira virði en börnin, enda hafði hann varla undan við að bera þau í kirkjugarðinn. Sjálfstæðismenn þurfa að komast út úr slíkri sjálfheldu og gefa sig í umræðuna. Horfa raunhæft á málið og láta skynsemina ráða en ekki rómantíska þjóðerniskennd þar sem Íslendingnum er stillt upp sem hinum einstaka manni. Það var einmitt það viðhorf sem er að koma þjóðinni í koll þessa dagana. Hrokinn og sjálfumgleðin sem þjóðin hefur tamið sér undanfarið hefur ýtt mestu vinarþjóðum hennar í burtu sem horfa nú á aðgerðalaus meðan Íslendingar sökkva í nákalt norður Atlantshafið. Þessi gríðarlega mikilvægi samningur sem þjóðin gengur nú til má ekki vera án aðkomu Sjálfstæðisflokksins. En til þess verða sjálfstæðismenn að taka upp alvöru ESB umræðu með hagsmuni þjóðarinnar í huga.
24.7.2009 | 11:16
Ríkisábyrgðir á innlán
Bloggara finnst umræða um ríkisábyrgðir á innlánum í banka vera komin í einkennilegan farveg, og farið að tala um slíkar ábyrgðir eins og eitthvað náttúrulögmál. Hugsunin er sú að bankar leggi til fjármagn í ábyrgðasjóð sem tryggi útgreiðslu innlána við greiðsluþrot einstakra banka. Engin banki getur staðið við að greiða út innlán á skömmum tíma, þar sem innlán eru skammtímalán, en útlánin eru langtímalán. Eðlilegt er að banki láni innlánin út u.þ.b. níu sinnum, en reyndar gerðu Íslensku bankarnir gott betur. Ríkið kemur hinsvegar inn með ábyrgðir til að draga úr óvissu og koma í veg fyrir áhlaup á banka af hagfræðilegum ástæðum.
Í kreppunni miklu í BNA í upphafi síðustu aldar voru bankar látnir fara á hausinn sem olli skelfingu meðal þjóðarinnar. Fólk þyrptist í banka til að taka út sparifé sitt og þetta olli allsherjar hruni og skorti á peningamagni í umferð. Peningar fóru nú undir koddann en voru ekki í vinnu fyrir hagkerfið. Lærdómurinn sem dregin var af þessu er að réttlætanlegt væri, með þjóðarhagsmuni í huga, að ríkið tryggði þessi innlán og sköpuðu traust sem kæmi í veg fyrir bankaáhlaup.
Það var einmitt ástæðan fyrir því að ríkisstjórn Íslands ákvað í október á síðasta ári að tryggja innlán allra innlánstofnana á Íslandi. Ekki af góðmennsku við þjóðina, heldur kalt mat að þetta gæti komið í veg fyrir allsherjar hrun og þannig væri komin réttlæting fyrir ríkið að taka slíka áhættu. Hinsvegar virðast íslensk stjórnvöld lítið hafa undirbúið sig fyrir áfallið, þrátt fyrir að hafa haft vitneskju um yfirvofandi fall bankanna frá upphafi ársins. Ef aðgerðaráætlun hefði legið fyrir hefði verið ljóst að samkvæmt EES samningnum sé ekki hægt að mismuna íbúum efnahagsvæðisins eftir þjóðerni. Það þýðir að ekki er hægt að tryggja innlán á reikningum á Íslandi, en ekki reikninga sömu banka í öðrum löndum EES. Ef stjórnvöld hefðu gert sér grein fyrir stærðargráðunni, en áhættan átti að vera þeim ljós um að bankarnir stefndu í þrot, hefðu þau ef til vill brugðist öðruvísi við. Ef til vill hefði verið hægt að tryggja lágmarksupphæðina yfir alla línuna, og síðan notið forgangs í þrotabú bankana til að ná því til baka.
Það sem hinsvegar virðist hafa gerst er að stjórnvöld tryggðu innstæður á Íslandi án takmarkana, en ætla síðan að standa við lágmarksupphæð á reikningum í Bretlandi og Hollandi. Enn furðulegra er að hollensk og bresk stjórnvöld ákveða að tryggja inneignir umfram lágmarksupphæð í Icesave eftir á. Þar eru menn komnir langt út markmið með ríkisábyrgð og hefur ekkert með þjóðarhagsmuni að gera heldur er um pólitískt sjónarspil að ræða. Stjórnvöld í þessum ríkjum vildu sína þeim þegnum sínum, sem áttu fé á reikningum Icesave, að þau gættu sko þeirra hagsmuna. En nú er búið að senda reikninginn til Íslands og skattgreiðendur á Íslandi eiga að borga atkvæðasmölunina.
Hinsvegar hafa öll viðbrögð Íslenskra stjórnvalda einkennst af fáti og fumi og lítið verið um fagleg og vönduð vinnubrögð. Æðstu menn landsins virðast ekki geta sett sig í samband við kollega sína í Hollandi og Bretlandi til að útskýra málstað þjóðarinnar til að ná ásættanlegri niðurstöðu. Miðað við fréttir úr þessari viku taldi utanríkisráðherra Þýskalands að forsætisráðherra Íslands væri karlmaður, en hann var þar að vitna í samskipti við Íslendinga varðandi umsókn til ESB. Ætli Jóhanna Sigurðar hafi nokkurn tíman rætt við erlenda þjóðhöfðingja sem ráðherra undir fjögur augu?
En meira um umræðuna um ríkisábyrgðir. Fjármálaráðherra hefur réttilega bent á að ríkisábyrgð á innlánum bankana sé ekkert náttúrulögmál. Það er alveg rétt hjá honum og mikilvægt að haldið sé til haga hvers vegna ríki ákveður að tryggja innlán. Það er af hagfræðilegum ástæðum, en ekki til að bæta pólitíska stöðu ríkisstjórna. Dæmi um slíkt pólitísk sjónarspil var ákvörðun ríkisins að greiða inn á peningamarkaðssjóði bankana um 280 milljarða króna síðastliðið haust, og hafa aldrei komið fram skýringar á þeirri ráðstöfun. Það er hægt að finna til með fólki sem tekið hefur rangar ákvarðanir og leggur sparifé sitt inn á áhættusama sjóði fjárglæframanna, en það er hinsvegar ekki hlutverk skattgreiðanda að taka ábyrgð á slíkum mistökum, heldur þeirra sem ákvörðunina taka.
22.7.2009 | 13:05
Icesave hrunadansinn
Ef bloggari væri þingmaður í dag myndi hann greiða atkvæði gegn Icesave frumvarpinu, þrátt fyrir þá óvissu sem það muni valda við umsókn Íslendinga til ESB. Það verður ekki fyrir það þrætt að allt sem gert hefur verið varðandi þetta mál, frá upphafi til enda, er þyngra en tárum tekur. Hægt er að afsaka gríðarleg mistök fyrri ríkisstjórnar með því sem kalla mætti hamfarir. Mikill skortur var á samhæfingu og ráðherrar töluðu út og suður og alls kyns yfirlýsingar voru gefnar. Ekki virtust ráðherrar Íslands geta hringt í kollega sína erlendis og róað ástandið og þannig keypt sér tíma. Þó var þetta þjóð sem hafði eytt milljörðum í kosningabaráttu til að ná sæti í öryggisráði S.Þ.
En það tekur steininn úr þegar kemur að vinnubrögðum núverandi ríkisstjórnar. Fjármálaráðherra velur tvo vini sína til að höndla samningaviðræður um Icesave, Indriða sem er hans hægri hönd í ráðuneytinu, og pólitískan læriföður sinn Svavar Gestsson. Að vísu horfir bloggari á málið úr fjarlægð, alla leið frá miðbaug, en honum virðist að með þessu skipulagi hafi ráðherra gert niðurstöðuna persónulega, og geti alls ekki bakkað út úr vitleysunni. Svavar sem formaður samninganefndarinnar virðist ekki hafa leitað til hæfustu manna við samningagerðina, sérstaklega lögfróðra, og niðurstaðan ber keim af því. Svo kölluð ,,Landsbankaleið" sem er bloggara algerlega óskiljanleg, virðist miðað við yfirlýsingar Svavars vera galdurinn á bak við ,,frábæra niðurstöðu" Þrátt fyrir frábæra niðurstöðu eru allar líkur á að samninganefndin hafi afsalað sér forgangi í kröfur á Landsbankann, til að greiða innistæður Icesave. Þá er gert ráð fyrir að lágmarksupphæðin sé samkvæmt regluverki ESB, sem reyndar er mjög görótt plagg. Hér var gefið eftir og kröfur Breta og Hollendinga gerðar jafn réttháar, þrátt fyrir að viðbótarframlag þeirra sé pólitísk útspil sem er algerlega úr tengslum við regluverk ESB. Þetta gæti kostað þjóðina um 300 milljarða króna og er þá ótalin smá mistök hér og þar í samningagerðinni sem kosta bara nokkra tugi milljarða.
Fari hinsvegar neyðarlögin fyrir dómstóla og verði dæmd ólögleg, er staðan miklu verri en þetta og allt að 700 milljarðar fallið á ríkið.
Það má guð vita hvað gerist þegar alþingi hafnar þessum samning, en ekki er um annað að ræða. Áður vonuðust menn eftir góðri síldarvertíð til að ,,redda" málunum, en hér eru stærðargráðurnar þannig að ekkert getur reddað því.
En spurningin er hvers vegna staða Íslendinga er með þessu hætti í dag, og engin þjóð virðist standa að baki þeim á þessari ögurstundu. Hvað í ósköpunum hefur þjóðin gert til að verðskulda það?
18.7.2009 | 07:42
Til hamingju Ísland
Ef að reiði er meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins er í garð Þorgerðar Katrínar þá er bloggari æfur út í sinn flokk í Evrópumálunum. Hvers vegna í ósköpunum ætti Sjálfstæðisflokkurinn að vera einhuga í andstöðu sinni fyrir umsókn? Bloggari hefði viljað sjá Þorgerði, ásamt fleirum, greiða atkvæði með umsókn.
Ef þingmenn flokksins átta sig ekki á hættunni við að huga meira að hagsmunum flokksins en þjóðarinnar, þá búa þeir í fílabeinsturni. Rök formanns flokksins fyrir andstöðu eru ákaflega veik og bera merki þess að meira tillit er tekið til pólitískrar stöðu flokkana í núinu, en þjóðarinnar til framtíðar. Gamlar klisjur þar sem þjóðerniskennd er beitt í pólitískum tilgangi eru notaðar. Það er slegið um sig frösum um rétt bænda til að níðast a neytendum landsins og að Íslendingar séu að gefa frá sér öll umráð yfir sjávarútvegnum. Það liggur fyrir að neytendur munu hagnast verulega á inngöngu þar sem landbúnaðarvörur muni lækka umtalsvert. Henda þarf fyrir róða úreltum og óhóflegum styrkjum og viðskiptahindrunum úr landbúanaði. Kerfi sem er með því versta sem þekkist í heiminum, en hefur því miður verið stutt af Sjálfstæðismönnum, gegn þjóð sinni, í gegnum áratugina.
Hvað varðar sjávarútveginn hafa mörg rök verið sett fram um að hægt sé að ná samningum sem séu ásættanlegir fyrir Íslendinga. Á það þarf að láta reyna, en vitað er fyrirfram að ESB mun ekki breyta stofnsamþykktum sínum fyrir Íslendinga. Aðrar leiðir eru færar og hefur bloggari meðal annarra sett fram rökstuðning fyrir færum leiðum, m.a. á bloggsíðu sinni og Evrópuvef Sjálfstæðisflokksins.
En forysta flokksins telur hinsvegar rétt að standa þétt saman gegn hagsmunum þjóðar sinnar, gegn betri lífskjörum hennar til framtíðar sem fylgja mun viðskiptasamningum við nágrana í Evrópu. Hugsa eins og Bjartur í Sumarhúsum að öllu skuli fórnað fyrir ,,sjálfstæðið" Kannski má líkja stöðu þjóðarinnar við ástandið í Sumarhúsum þegar Bjartur hafði sett óvenju mikið fé á til vetrar á sama tíma og heyskapur sumarsins var rýr. Síðan kom þorrinn og góan með stórviðrum og fé byrjaði að hrynja niður úr hor. Þá skar hann á háls kúnna sem hafði fært fjölskyldunni nauðsynlega næringu yfir veturinn og var reyndar lífspursmál fyrir fjölskylduna. Allt fyrir ,,sjálfstæðið" en honum bauðst meðal annars að fá lánaða tuggu til að fleyta sér yfir erfiðleikana frá nágrönnum sínum. Bjartur fórnaði fjölskyldu sinni fyrir ,,sjálfstæðið" og þeir sem ekki voru þegar komnir niður á sex fetin voru aðframkomnir af skorti og slæmum lífskjörum í bókarlok.
Bjarni Ben er í stöðu Bjarts í dag. Rök hans eru engu betri en Sumarhúsabóndans og krafan um að allur þingflokkurinn fylgi honum í jafn slæmu máli og andastaða við umsókn er, er óþolandi. Hér skal ekki sett út á skoðanir manna sem eru á móti aðildarviðræðum, en menn þurfa að rökstyðja þá andstöðu með haldbærum hætti. Slíkt hefur ekki komið frá forystu Sjálfstæðisflokksins nema í skötulíki.
Nánari tengsl við grannríki okkar í Evrópu á sviði viðskipta er aðeins af hinu góða. Ekki má greiða það of dýru verði og ekki afsala sér þeirri ábyrgu fiskveiðastefnu sem hér hefur verið rekin undandfarin ár. Fiskveiðistefna ESB er ekki byggð á viðskiptalegum grunni og sem slík hugnast hún ekki þjóð sem hefur stóran hluta útflutningstekna sinna af sjávarútveg. En það þarf að láta reyna á samninga sem tryggja áframhaldandi sjálfbærar veiðar á Íslandsmiðum, á viðskiptalegum grunni. Það sem þarf að tryggja er; Íslandsmið verði sérstakt veiðisvæði innan ESB fyrir botntegundir, sjálfbærar veiðar verði stundaðar og farið verði eftir ráðleggingum vísindamanna um veiðimagn, framseljanlegt kvótakerfi verði áfram notað, Íslendingar sjá sjálfir um veiðieftirlit á Íslandsmiðum og takmörk verði sett á kvótahopp til að tryggja að arður af veiðum verði eftir í landinu. Varðandi deilistofna verður staða okkar erfiðari þar sem ESB lítur á hluta af veiðum Íslendina á uppsjávarfiski sem sjóræningjaveiðar. Hvort formleg ákvörðun um veiðimagn verður tekið í Brussel eða Reykjavík skiptir engu máli. Hægt er að ná þessu fram án breytinga á stofnsamþykktum.
Í þessum málum á að gæta hagsmuna þjóðarinnar en ekki útgerðarmanna né sjálfstæðismanna, með lífskjör Íslendinga til langs tíma verði megin markmiðið. Innganga í ESB er forsenda fyrir upptöku evru í stað krónunnar sem því miður er hand-ónýt og mun ekki gagnast þjóðinni í framtíðinni. Ný skipan gjaldeyrismála og samningar við Evrópuríki er grundvöllur lífskjara á Íslandi. Sjálfstæðisflokkurinn hefði átt að hella sér út í vinnu við umsóknarferli og tryggja sér aðkomu að samningunum. Núverandi utanríkisráðherra er alls ekki fær um að stýra þessum umræðum. Skyldi Sjálfstæðisflokkurinn hafa kastað frá sér nauðsynlegum áhrifum á samningagerðinni vegna þröngrar pólískrar sýnar augnabliksins?
13.7.2009 | 07:46
Bátasmíði í Úganda
Bloggari hefur verið að velta því fyrir sér hvers vegna bátar eru jafn illa hannaðir og byggðir og raun ber vitni hér í Úganda. Hann hefur víða komið við í helstu vötnum landsins, og allstaðar er verið að smíða eftir sömu teikningu, hvort sem um er að ræða lítið tveggja manna far eða stóra flutningabáta. Sérstaklega hefur þetta komið upp í hugann eftir ferðalag á einum bátnum um Kalangala eyjar fyrir skömmu, og þar kom berlega í ljós hverslags ræksni þessir bátar eru og lítið þarf til að þeir slái úr sér og sökkvi.
Bátarnir eru slegnir saman úr u.þ.b. fimmtíu sentímetra breiðum borðum og bitar notaðir til að klambra byrðingnum saman, en sú grind er ekki byggð sem ein sterk heild. Svona eins og beinagrind í hryggdýri væri bara bein hér og þar en ekki uppbyggð sem ein heild þar sem sameiginlegur styrkleiki er hámarkaður.
Stígur á Horni og Snorri á Húsafelli (var prestur á Sæbóli við Aðalvík og var góður bátasmiður) smíðaði frábæra báta sem réðu við ógnir Dumbshafsins, þar sem straumshnútar Straumsnessins lögðu ógnarhramm sinn á þá. Lenda þurfti þessum bátum í grýttar fjörur við erfið skilyrði þar úthafshaldan braut á en styrkur og léttleiki bátsins réði til um feigð eða ófeigð. Málið snýst einmitt um að hafa bátinn eins léttan og sterkan og mögulegt er.
Stígur valdi viðinn i bátinn af kostgæfni en rekaviður var notaður við smíðina. Bestur var rauðviður í byrðinginn, sem var hnoðnegldur á grindina. Styrkleikinn lá einmitt í grindinni þar sem kjölurinn var hryggstykkið ásamt stefni og skut. Kjölböndin komu þar ofan á en í þau voru notuð rótarhryðjur sem eru gríðarlega sterkar þrátt fyrir þá V lögun sem er nauðsynleg vegna lögunar bátsins. Síðan komum böndin sem tengdust borðstokknum. Það má einmitt líka þessu við beinagrind hryggdýrs og þá er bara eftir að setja kjötið á, byrðinginn úr þunnum vel sniðnum borðum.
Mikil verkkunnátta fólst í smíði þessara báta og hefur eflaust gengið frá einni kynslóð til annarra, og síðan komu til frumkvöðlar sem bættu við þessa þekkingu, eins og Stígur á Horni, sem bæði var formaður og bátasmiður og gat því velt fyrir sér hönnuninni við raun aðstæður í Dumbshafi.
Hvað skyldi valda því að slík verkmenning þrífst ekki í Úganda? Bloggari hefur komið að mörgum bátasmiðnum og alltaf furða sig á klambrinu og lítilli verkkunnáttu. Þá er ekki talað um ósköpin þar sem snýr að hönnun bátanna. Þeir eru reyndar gangmiklir en hafa hvorki nægan styrkleika né sjóhæfni. Í áður nefndri Kalangala ferð kom bloggari einmitt að bátasmiðum sem voru með tvö fley í framleiðslu. Á milli borða var verið að nota værðarvoð, sem klippt var niður í tommu breiðar ræmur, síðan sett yfir þetta jafnbreið blikkræma og pinnað með litlum saumi. Værðarvoð er varla traustvekjandi sem ípakk eða þétting og ber slíkum skipasmiðum ekki góða sögu.
Bátasmiðir sögðu að slíkur bátur væri seldur á um 60 þúsund krónur, og dygði í tvö til fjögur ár. Ef betri viður fengist í smíðina, sem þarf að flytja inn frá Kongó, má auka líftímann töluvert. Þeir bátar sem duga þó best gegn fúa eru þeir sem höggnir eru beint úr trjábol, með því að hola hann að innan. Slíkir bátar eru hinsvegar þungir og er síður fallnir til gangs.
Í ferð um Kalangalaeyjar var samstarfsmaður bloggar með í för, sem hafði farið í ferð til eyjar í Viktoríuvatni fyrir verkefni sem hann var að vinna að. Með honum í ferð voru Bandaríkjamenn sem voru styrktaraðilar fyrir verkefninu. Smá kvika var og keyrt á móti öldunni en eins og hendi væri veifað sló báturinn úr sér og sökk á örskammri stundu. Skipbrotsmenn héldu sér í lunningu bátsins, sem marði í yfirborðinu í tvo tíma þar til björgun barst. Það vill til að vatnið er 25° heitt og því varð þeim ekki meint af volkinu. Bandaríkjamennirnir bönnuðu notkun á þessum bátum í kjölfarið í þeirra verkefnum, enda dæmdu þeir þá óhaffæra.
En hvað skildi vanta til þess að verkmenning þróist og einhver taki sig til og smíði betri báta? Einstaklingsframtak og vilja til að breyta og bæta? Hvað rak Stíg á Horni áfram og hvað hafði hann sem menn hafa ekki hér?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.7.2009 kl. 06:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.7.2009 | 07:21
Frelsi og hagsæld
Bloggari man þá tíð, fyrir 1991, þegar allt var bannað á Íslandi og ríkið skammtaði ferðamanagjaldeyrir úr hnefa og menn fóru í fjármálaráðuneytið til að fá leyfi til að taka erlent lán. Fyrirhyggjan var alger og höftin á þjóðina mikil. Fyrir utan virkismúra Íslands var allt annað upp á teningnum og þeir sem Íslendingar vilja ber sig saman við, vestur Evrópubúar, gátu boðið íbúum sínum upp á mun betri lífskjör. Allt breyttist þetta með Viðeyjarstjórninni þar sem byrjað var á að taka til í kerfinu, einfalda og skera niður báknið, og auka frelsi til athafna. Samningurinn um Evrópskt efnahagsvæði 1994, EES, gerði svo gæfu muninn og þjóðin komst loks með tærnar þar sem vestur Evrópa var með hælana. Upptaka regluverks ESB í viðskiptum þar sem fjórfrelsið er þungamiðjan í þessu bandalagi þjóða um viðskipti hafði gríðarleg jákvæð áhrif á Ísland.
Nú má deila um hvort þetta hafi verið til góðs þar sem þjóðin hafi síðan algerlega farið fram úr sér og misnotað það frelsi sem henni var falið. Það má þá segja eins að rétt sé að hafa alla í fangelsi, enda myndi það útrýma glæpum. Það að menn hafi farið fram úr sér og stjórnmálamenn hafi brugðist skyldu sinni þíðir ekki að leggja eigi niður stjórnmál. Að menn hafi farið fram úr sér með nýtilkomið frelsi og því eigi ófrelsi að ríkja og taka eigi upp fyrirhyggju ríkisins. Enda kennum við stjórnmálamönnum um hvernig fór, og því ættum við þá að treysta þeim fyrir öllum hlutum til framtíðar, meðal annars að reka fyrirtækin.
Bloggari er ekki tilbúinn að bakka til gamla tímans með höftum og fyrirhyggju. Í dag geta Íslendingar flutt hvert sem er innan EES og fengið sér vinnu. Fjórfrelsið er leiðarvísir þjóðarinnar til nýrrar bjargálna og það er best tryggt með inngöngu í ESB. Upptaka evru á svo að fylgja á eftir, enda sjá allir skynsamri menn að krónan er ónýt.
Það er þyngra en tárum tekur að horfa upp á stöðu þjóðarinnar varðandi IceSave. En skaðinn er löngu skeður. Hér verður ekki talað um alla þá vitleysu sem átt hefur sér stað undanfarna mánuði í þessu mikilvæga máli. Setja stúdent yfir samningaviðræðum sem síðan lætur hafa við sig þvílíkt grobb viðtal í Mogganum og bætir því við að hann hafi ekki getað hugsað sér að hafa málið hangandi yfir sér í sumarleyfinu, og því ákveðið að ganga frá samningum. Eins klikkað og þetta hljómar þá er ekki við öðru að búast af fólki af hans sauðarhúsi, sem aldrei hafa skilið hvaðan auður kemur og telja að hann hrynji af himnum ofan. Það þurfi bara að útdeila honum.
Miklu verra er að hugsa um alla vitleysuna sem átti sér stað eftir bankahrunið í október. Sjálfstæðismenn sem sátu þar við stjórnvöldin, ég tel ekki bankamálaráðherrann með, sýndu fullkomið ráðleysi við vandanum. Vanda sem hafði blasað við þeim frá upphafi ársins. Þeir máttu vita að með því að ábyrgjast inneignir bankanna á Íslandi, skuldbundu þeir sig um leið til að gera slíkt hið sama um reikninga á EES. Á sama tíma ákváðu Þeir af mikilli góðmennsku að greiða niður peningamarkaðsjóði gjaldþrota bankana um 280 milljarða króna, og láta skattgreiðendur borga. Öll þessi vitleysa um að stofna nýja banka hefur sennilega kostað þjóðina hundruðir milljarða króna. Það sem við horfum á núna í þinginu eru afleiðingar af allri vitleysunni, þar sem enn ráðalausari stjórnmálamenn halda í tauminn.
En bloggari er sjálfum sér samkvæmur þegar kemur að frelsinu. Því má ekki fórna og Ísland má ekki einangrast út í miðju Atlantshafi. Bloggari treystir ekki Íslenskum stjórnmálamönnum til að tryggja frelsi og efnahaglega velsæld þjóðarinnar. Hann telur að þjóðinni sé betur borgið með samningum við nágranna sína, sem deila með henni gildum og arfleið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.7.2009 kl. 05:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.7.2009 | 09:57
,,Strand" ferðaskipið Fagranes
Í júlímánuði 1994 fór Fagranesið í eina af sínum frægustu ferðum, með félaga úr Sjálfstæðisfélögunum á Ísafirði. Þetta var hin árlega ferð Sjálfstæðismanna og ferðinni heitið í hringferð um Ísafjarðardjúp. Höfundur fór ásamt eiginkonu sinni og með okkur var stórvinur okkar Grímur Jónsson. Grímur hafði verið eitthvað seinn fyrir og munaði minnstu að hann væri skilinn eftir á bryggjukantinum.
Allt gekk eins og í sögu og lá leiðin inn Djúp þar sem siglt var framhjá Vigur og síðar fram hjá Ögri og sveigt hart í bak og stefnan tekin á Æðey. Hífandi stemming var um borð og sungið við raust, enda nóg af söngolíu með í ferðinni. Þegar komið var suður undir Æðey var stefnan sett á sundið milli lands og eyju. Veðrið var eins og best var á kosið, logn og ládauður sjór og þokkalega hlýtt enda hásumar.
Skipstóri Djúpbátsins var í sumarleyfi og óvanur afleysingarskipstjóri við stjórnvölin. Eitthvað var hann óöruggur að sigla þessa leið, en hafði endalaus ráð frá farþegum sem fjölmenntu í brúnni þessa stundina. Köll bárust úr öllum áttum um að stýra á stjór eða bak og vesalings skipstjórinn var alveg orðin ruglaður á hverjum hann ætti að taka mark á. Það voru margir sérfræðingar með í för, ef til vill of margir.
Allt í einu hváðu við miklir skruðningar og skipið stöðvaðist og hallaði síðan á stjórnborða. Fagranesið hafði strandað á klöpp stutt frá höfninni í Æðey. Sjá mátti farþegna laupa til svo þeir héldu jafnvægi við skyndilega stöðvun, og tekið til þess að engin hafði svo mikið sem slett úr glasi við strandið.
Í fyrstu var reynt að ná skipinu á flot en ekkert gekk og lá það sem fastast á skerinu. Viðbrögð áhafnar var ekki mjög æfð eða samhæfð en fljótlega tók Reynir Inga, þá framkvæmdastjóri Djúpbátsins, völdin. Hann skipaði að láta fella skuthlerann og kallaði alla niður á bíladekk. Konni Bjarna kom skondrandi upp úr vélarúminu, og virtist ekki hafa brugðið hið minnsta við strandið. Slöngubátur var settur á flot og Reynir fyrirskipaði að skipbrotsmenn skyldu ferjaðir í land. Allt gekk það að óskum en um hundrað farþegar voru með í þessari ferð.
Nægur gleðigjafi var með í för og engum leiddist eftir að í land var komið. Allavega fyrst um sinn en síðan fóru að renna tvær grímur á menn sem sáu sína sæng útbreidda og að dvölin í eyjunni gæti orðið langvinn. Með í för var Halldór nokkur Jónsson með eiginkonu sinni. Það vildi svo til að dóttir hennar var unnusta Halla Konn, sonur hrefnu Konna, ein þeir feðgar ráku um þessar mundir ferðaþjónustu eða sjótaxa um Ísafjarðardjúp og Hornstrandir. Við hjónin töldum það nokkuð vænlegt að halda sig nálægt Halldóri, enda leið ekki á löngu þar til hann var kominn í samband við Halla Konn. Mikið var að gera hjá honum við að skutla gestum á Ögurball sem stóð yfir þessa stundina, og lofaði hann að renna við og taka okkur með í Ögur.
En nú kom babb í bátinn þar sem við Stína fundum Grím vin okkar hvergi. Hann hafði þó sannarlega komið í eyjuna úr skipinu, en hafði greinlega haldið heim á bæ til að fá sér einhverja hressingu. Við létum það gott heita og skildum hann eftir og áður en við vissum stóðum við á bryggjunni í Ögri, þar sem ballið dunaði og frá gamla samkomuhúsinu hljómaði fjörug tónlistin. Það var Sigurjón á Hrafnabjörgum sem hélt upp í stuðinu á ballinu, sat við borð upp á sinu og þeytti skífum og dansgólfið iðaði af ærslafullum ballgestum. Við komum rétt tímalega í rabbsbaragrautinn hennar Maríu í Ögri og nú vorum við tilbúin í hvað sem var. Grímur gleymdur og öll athyglin snérist nú um ballið. Í villtustu dönsunum var marserað út og kringum húsið og aftur inn, og þar var haldið á að dansa. Óli Lyngmó var í forystu fyrir marseringunni og kokkurinn við kabyssuna dunaði í eyrum.
Skipbrotsmönnum hafði nú fjölgað á ballinu og höfðu með einhverjum hætti fengið sig ferjaða úr Æðey í Ögur. Að minnsta kosti fimmtíu manns höfðu skilað sér á ballið og samkomuhúsið að rifna utan af fjöldanum. Það kom fyrirskipun frá sjálfum sýslumanninum að ballinu skyldi haldið áfram þar til rúta kæmi til að sækja skipbrotsmenn. Voðin væri vís ef þessir fjörkálfar færu á stjá og rjátluðu um Ögursveit um miðja nótt, í misjöfnu ásigkomulagi. Betra væri að vita af þeim á balli, undir öruggri leiðsögn Sigurjóns í tónlistinni. Sigurjón var hinn ánægðasti með þetta og nú var tekið til við að spila allt S.G. safnið, frá upphafi til enda. Þegar rútan mætti um sexleytið um morguninn var fjörið enn á fullu og allir skemmtu sér konunglega. En bóndinn á Hrafnbjörgum fékk nú loksins áunna hvíld, eftir að hafa þeytt skífurnar í níu tíma stanslaust.
Það var feikna fjör í rútunni á leiðinn heim til Ísafjarðar. Halldór Jónsson getur verið með skemmtilegri mönnum, en hann tók að sér fararstjórn í bílnum. Næstu tvo tímana sagði hann sögur í hátalarakerfið og farþegarnir veltust um af hlátri. Þegar komið var til Ísafjarðar var sólin risin og geislar hennar spegluðust í rennisléttum pollinum. Það var pollrólegur og glaðvær hópur sem var loksins kominn heim úr ,,strand" siglingu með Fagranesi.
Fljótlega eftir að heim var komið var farið að grennslast fyrir um Grím vin okkar. Hann var enn út í eyju, hafði lagt sig í hlöðunni á bænum og misst af landferðinni. Það amaði ekkert að honum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.7.2009 | 11:00
Sögur úr Fljótavík
Frægasti íbúi Hornstranda fyrr og síðar er eflaust Atli þræll Geirmundar Heljarskins. Talið er að hann hafi haldið bú Geirmundar í Fljótavík, þegar hann tók þá ákvörðun að taka norska skipbrotsmenn upp á vetrarvist, sem höfðu brotið skip sitt norðan-verður við Kögurinn. Skipstjórinn, Vébjörn sygnakappi, kom áhöfn sinni til Fljótavíkur, og þurftu að fara fyrir ófæru sem síðan heitir Sygnahleif, þar sem Atli tók við þeim eins og áður segir. Þegar Geirmundur frétti að uppátæki þræls síns gerði hann honum boð og spurði hvernig honum dirfðist að taka heila skipshöfn upp á sinn kost án þess að bera undir sig. Því svaraði Atli ,,að það mundi uppi meðan Ísland væri byggt, hversu mikils háttar sá maður muni verið hafa, að einn hans þræll þorði að gera slíkt að honum forspurðum" Geirmundi líkaði svarið svo vel að hann gaf Atla Fljótavík og heitir bæjarstæðið síðan Atlastaðir. Einmitt þar bjó afi höfundar, Júlíus Geirmundsson, þar sem 13 börnum var komið á legg við erfiðar aðsætæður.
Einmitt í sumar, seinnipartinn í ágúst, fer höfundur með stórfjölskyldu sína til að dvelja í afslöppun við veiðar í nokkra daga. Með í för verða eiginkona, þrjú börn, þrjú tengdabörn og tvö barnabörn.
Ein af mörgum ferðum í Fljót rifjast upp, sem farin var um verslunarmannahelgi í góðra vina hópi þar sem ásamt fjölskyldu höfundar var Nonni Gríms með fjölskyldu sína og Bárður bróðir hans. Við fórum siglandi á Loga ÍS, sem var átta metra langur Sómabátur. Aðstæður er þannig í Fljóti að illt er að leggja báti á laginu, þar sem víkin er opin fyrir hafi og lítið um skjól norð- og vestlægum áttum. Margir bátar hafa einmitt sokkið eða rekið upp í sandinn í krikanum við Grundarenda, sem er heimst í Atlastaðarhlíð. Enn ber Gunnvör RE beinin í fjörunni og má sjá kjölinn og keysinn en vélin var fjarlægð á sínum tíma.
Það var því ákveðið að sigla Loga upp ósinn í Fljótavatn, þar sem báturinn væri algerlega öruggur fyrir ölum veðrum. Við hækkuðum hældrifið og settum mann á útkikk fram á stefni og lögðum af stað upp ósinn. Nærri háflæði var en víða leynast grynningar í ósnum og því nauðsynlegt að fara að öllu með gát. Það var spegil logn og gáraði ekki á haffletinum en töluverður straumur lá inn ósinn þar sem ennþá var aðfall. Þrátt fyrir aðgæslu rákum við skrúfuna í grjóthnullung, en gátum þó haldið ferðinni áfram upp í vatnið þar til við lögðum bátunum við ósinn frá drápslæk. Þar fjaraði undan honum og þá kom í ljós að skrúfan var stórskemmd.
Um nóttina heyrði ég í gegnum svefninn stöðug hamarshögg, án þess að veita því sérstaka athygli. Við sátum nokkur við morgunverðarborðið þegar Nonni Gríms vindur sér inn og biður mig að koma með sér niður í bát, sem er um tíu mínútna gangur. Þegar þangað kom sýndi hann mér skrúfuna, sem var eins og ný eftir lagfæringar um nóttina. Þetta var alveg ótrúlegt hvernig hann gat lamið til skrúfublaðið, sem er úr áli, þar til að var renni slétt og komið í sína upprunalegu mynd. Hann er mikil hetja hann Nonni og ótrúlegt þrekvirki að sitja þarna heila nótt án þess að fá sér blund í brá. Ekki er höfundi kunnugt um hvort hann hafi fengið vott né þurrt þennan tíma, en telur þó víst að eitthvað hafi verið um hið fyrrnefnda.
Það var frekar treg veiði í vatninu á þessum tíma og því ákváðum við Nonni að kíkja upp í Reyðá og athuga með silung þar. Við ákváðum að fara siglandi á léttabátnum og tókum Bárð bróðir Nonna með og lögðum af stað við háflæði upp úr kvöldmat Við reiknuðum með heimkomu upp úr hádegi daginn eftir en þetta er um fimm kílómetra leið upp að botni Fjótavatns. Það var fagurt ágústkvöld, léttskýjað og bærðist ekki hár á höfði. Eina sem raskaði ró víkurnar var gnýrinn i utanborðsmótornum, sem fljótlega þurfti að drepa á og draga upp. Við vorum komnir að Langanesi og þrátt fyrir háa sjávarstöðu, en sjávarfalla gætir töluvert við nesið, er algerlega ómögulegt að nota mótor þar vegna grynninga. Við óðum því með bátinn í togi um hálfan kílómetra þar til komið var í dýpið ofan Langaneseyra, þar sem mótorinn var ræstur og báturinn klauf spegilslétt vatnið áleiðis upp að Reyðá. Við höfðum sigld framhjá Svíná og síðar framhjá Hvanná en framundan blöstu Jökuldalir við, sem eru vatnasvið Reyðá og fljótlega opnaðist Þorleifsskarð ferðalöngum, sem er ferðaleið yfir fjöllin úr Víkunum (Hælavík, Hlöðuvík og Kjaransvík).
Það var komið fram undir miðnætti þegar bátinn tók niður við eyrarnar framan við Reyðá, þar sem honum var kippt á land og áhöfnin kom sér síðan fyrir í grasi gróinni laut og skriðu í svefnpokana. Við ætluðum að leggja okkur í nokkra klukkutíma áður en veiði hæfist.
Nóttin var ótrúlega falleg og komið töluvert rökkur. Fullt tunglið virtist dans ofan á fjallabrúnum upp af Jökuldölum, sem skáru sig greinilega úr vegna skin mánans. Þetta var of áhrifaríkt og mikilfenglegt til að sofna. Við lágum því og spjölluðum saman og rifjuðum upp gamlar minningar. Það eina sem rauf næturkyrrðina við Reyðá þessa nótt, voru hláturrokur ferðamannanna sem skemmtu sér svo vel við að rifja upp bernskubrek og pakkastrik. Einstaka stjarna sindraði á himnum, en mánaskinið yfirgnæfði þó allt þessa nótt. Hafi tveir vinir notið samvista í frábæru umhverfi, var það hér við ósa Reyðá þar sem veiðin beið fyrstu geisla nýs dags.
En við gátum ekki beðið og um þrjú leytið stóðum við upp og gengum yfir fjalldrapann og síðan í gegnum birkiskóginn að ánni. Í tunglskininu mátti sjá glitra á endalausan fjölda silunga sem þustu af stað við ófriðinn. Áin var full af fiski og veiðihugurinn tók nú öll völd. Við fetuðum okkur rólega niður eftir ánni, brutum okkur leið í gegnum birkið þar til við náðum niður á eyrarnar þar sem Reyðá rennur í Fljótavatn. Við óðum út í vatnið og spúnninn var varla lentur þegar beit á. Það var mokveiði og fljótlega byrjuðum við að sleppa fiski. Klipum agnnúið af spúninum til að auðvelda sleppinguna, en veiðin var miklu meiri en við höfðum þörf á.
Þegar fyrstu geislar morgunsólarinnar brutu sér leið í gegnum austurhiminn, tók alla veið undan. Það kom ekki að sök og eftir að hafa eldað okkur hafragraut og skolað niður með kaffi, lögðum við að stað heim á Atlastaði. Það er eitthvað við bjarta sumarmorgna á Íslandi, sem gerir þá einstaka. Lognkyrrðin alger og geislar sólar spegluðust í vatninu. Manni fannst hjartað tifa í brjóstinu og slá taktinn við þetta algeymi sem náttúran bauð okkur upp á. Þetta hafði verið stórkostleg nótt notalegur morgun, sem hverfur okkur aldrei úr minni.
Það hafði spurst til ferðar okkar á næstu bæi við Atlastaði, og sú saga komist á kreik að við hefðum farið með net upp í Reyðá. Til að koma í veg fyrir misskilning fórum við í heimsókn með hluta veiðinnar til að gefa íbúum í matinn. Greinilegt er á feitri bleikju ef hún ef hún er veidd í net og leyna sér ekki netaförin. Engin slík voru á þessum fiski, enda þurfti ekki net til við þá veiði sem við lentum í. Hinsvegar gaf silungurinn sig bara meðan rökkvað var, eins og áður segir. Fólk hafði gert sér ferð fram eftir til að veiða, þar sem tregt var í ósnum og við Langanesið, en þrátt fyrir torfur af fiski, hafði hann ekki gefið sig til veiði.
Það var komið að heimferð og aðeins byrjað að ýfa sjó og hreifa brimi á ströndinni. Við ákváðum að skilja börnin eftir í landi ásamt tveimur fullorðnum, en restin að sigla Loga út í Dumbshafið gegnum ósinn. Nú gættu menn betur að sér með grynningar og þegar við nálguðumst þar sem hafið mætir ánni ólgaði sjórinn og bárurnar ýfðust upp og brotnuðu hvítfyssandi. Þarna er orðið nokkuð djúpt og keyrðum við bátinn því af öryggi í gegnum boðaföllin, þannig að vel gaf yfir Loga, þar til við komum út á sjóinn. Nú þurfti að fara á léttbátnum í land undir Grundarás til að sækja þá sem eftir urðu í landi.
Heimferðin gekk vel en þegar komið var í höfn beið Jói Júl eftir okkur á bryggjusporðinum. Hann var alvörugefinn og hafði spurnir af ferðum okkar á Loga upp í ósinn. Taldi hann þetta hafa verið feigðarflan og var okkur reiður fyrir glannaskapinn. Ósinn væri ekki til að fara upp á svona stórum báti og þar talaði maður með reynslu, enda fæddur og uppalinn í Fljótavík.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.7.2009 kl. 08:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.7.2009 | 15:52
Heimsókn til Kalangala
Við lögðum af stað á sunnudagsmorgun, fjórir félagar, til Kalangala í tengslum við verkefni sem við erum að vinna að. Auk bloggara voru það Alfred, James og Samuel, sem reyndar er staðsettur í eyjunni. Við tókum ferjuna frá Entebbe sem er um þriggja tíma ferð út í eyju. Kalangaleyjar eru yfir áttatíu talsins en rúmlega sextíu eru í byggð, og heildar íbúafjöldi er svipaður og á Íslandi. Höfuðstaður eyjanna heitir Kalangala og er á eyjunni Bugala, en þar gistum við í tvær nætur.
Við skráðum okkur um kvöldmatarleytið inn á hótelið, sem reyndar fór langt fram úr væntingum um aðbúnað og verð. Kvöldið var ótrúlega fallegt með nærri fullu tungli og stjörnubjörtum himni, sem nýtur sín vel í ljósleysinu í Kalangala, en lítið er um rafmagn á eyjunum.
Júlí er versti mánuður ársins til að ferðast um Viktoríuvatn, en miklir sólfarsvindar fylgja þurrkatímanum þannig að oft er töluverður strekkingur. Það hafði litið illa út fyrir ferð okkar undanfarna daga en búist við að vindur myndi ganga niður á mánudegi og gefa til ferðar út í Mazinga eyju, þangað sem ferð okkar var heitið og er um þriggja tíma ferðalag á litlum báti. Hópurinn notaði tímann um kvöldið til að útvega regnstakka og björgunarvesti til að hafa allt til reiðu fyrir brottför snemma dags, enda vindur þá með minnsta móti en ágerist þegar líður á daginn.
Það var aðeins gola þegar við komum niður í vörina í birtingu og hittum þar fyrir formanninn á bátnum sem átti að flytja okkur. Ör-mjótt og langt fleyið ruggaði í fjöruborðinu, og eftir engu að bíða að koma sér um borð og leggja af stað. Báturinn var með 40 ha utanborðsmótor og reyndist ganga tæpar tuttugu mílur á sléttu vatni og brunuðum við í morgunskímunni suður með eyjaklasanum. Næstu þrjátíu kílómetrana sást ekkert nema pálmaakrar á Bugala þar sem mikil ræktun kemur í stað frumskógarins, sem nánast er horfin. Nokkur lítil frímerki af frumskóg sjást þó innan um pálmaræktina, þar sem einstaka landeigendur þráast við að selja landið til ræktunar.
Enn var slétt í sjóinn en ekki þótti fleyið traustvekjandi við nánari skoðun. Hrikalegt klambur og greinilega gert af lítilli verkkunnáttu. Bloggari hafði nýlokið lestri Hornstrendingabóka eftir Þorleif Bjarnason og ósjálfrátt bar hann þessa tildursmíði við bátana hans Stígs á Horni. Stígur sótti sjóinn og réri meðal annars um hávetur út af Horni þar sem sótt var í hákarl. Stígur hefur örugglega velt lögun bátsins fyrir sér og hvernig hann ætti að hanna og smíða hann til að verjast sem best öldugangi Dumbshafsins og þola lendingu við erfiðustu skilyrði. Vandlega var valið í böndin og notast við rótarhnyðjur í kjölböndin, og síðan var skarsúð notuð við að klæðningu á byrðing, sem negldur var saman með hnoðnöglum sem héldu borðum saman af ofurkrafti og gerði bátinn sterkan og þéttan. Þetta vissu menn á Hornströndum og þegar Albert á Hesteyri keypti fyrsta bátinn sinn, Þorsk, fékk hann Stíg til að laga hann til og bæta sjóhæfni hans.
Annað gildir um hrófatildrin sem sigla um Viktoríuvatnið. Engin bönd eru í þeim, sem kalla má, heldur eru hálfsmetra breið borðin fest saman með blikkborðum negldum með fínum saumi, þar sem niðursneiddar bílslöngur eru settar í milli til að þétta. Eitt gott högg á bátin og þetta slær úr sér og báturinn sekkur á augabragði. En þetta vakti nú lítinn ugg meðal ferðalanga meðan brunað var milli eyjanna í skjóli fyrir kröppum öldum Viktoríuvatns. Þegar leið á morguninn bætti í vindinn og þegar komið var í gegnum sund út á opið vatnið var komin heilmikill öldugangur. Það braut á báru og frussaði vel yfir bátinn sem stappaði móti bárunni. Þó bátum Stígs á Horni hefði nú varla brugðið við átökin, var þetta raun fyrir þvílíkt bátskrifli. Það varð að slá verulega af þar sem keyrt var upp í vindinn og mikil hætta á að bát hróið myndi slá úr sér við átökin. Það var dólað gegn kvikunni í klukkutíma og varla komist úr sporunum. En loks var komist í skjól við suðueyjar Kalangalaeyja og nú var allt gefið í botn þar til rennt var í vör á áfangastartað á Mazinga eyju.
Þarna standa yfir miklar framkvæmdir á löndunaraðstöðu fyrir fiskimenn og vatnsveitu fyrir nálæg þorp. Lítið var um að vera í þorpunum þessa stundina þar sem flestir sjómennirnir höfðu flutt sig um set til róðra frá öðrum verstöðvum vegna júlívindanna. Þarna kom samlíkingin aftur upp við Hornstrandir á nítjándu öld og í upphafi þeirra tuttugustu. Sjómenn þurftu að flytja sig nær miðum og róa frá verbúðum. Frá Sæbóli var róið úr veri í Skáladal út undir Rit, og margar verbúðir voru undir Óshlíð þar sem sjómenn frá ýmsum stöðum, allt frá Hornströndum til Ísafjarðardjúps, réru til fiskjar og bjuggu í verbúðum hlöðnum úr grjóti og torfi.
Á Mazinga eyju var þó verið að landa og verka mukuno, sem er sardínutegund og er fönguð i risastóra landnót. Aflinn er þurrkaður með því að dreifa honum um mela og móa við fjöruborðið og tilbúinni framleiðslunni mokað í fimmtíu kílóa nælonpoka til sölu á markaði. Það vakti athygli að nýlegar grindur, mannvirki ætluð til að þurrka mukona, var ekki notað. Sjómennirnir sögðu að þeir þyrftu að greiða gjald fyrir að nota grindurnar en fjaran var þeim að kostnaðarlausu. Neytandinn sem kaupir afurðirnar í Kampala hefur ekki hugmynd um hvort þurrkað er á grindum eða í fjörunni. Kannski að einn og einn steinn læðist með á matardiskinn, eða sandkorn ergi við neyslu, en engin er að fást um slíkt. Málið er að meðan þurrkað er við þessar óaðlaðandi aðstæður segjast verkendur vera að framleiða hænsnafóður, en síðan er allt selt meira og minna til manneldis. Enda frábært eggjahvítuefni sem þjóðin þarf á að halda.
Það er hrörlegt um að litast í fátækum fiskimannaþorpum þar sem illa klambraðir skúrarnir virðast varla halda vindi eða vatni. Það vakti þó athygli að flestir skúrarnir í einu þeirra, fyrir utan þá sem gerðir voru úr mold, voru málaðir í sama græna litnum. Enn komu Hornstrandir upp í hugann en mikið happ þótti þar ef skipreki var á Ströndum. Þar fengu menn ýmislegt til daglegra nota og erfitt var að fá, eins og kaðla í bjargsig, ýmsa járnvöru, segldúka og hugsanlega matvæli. Í þessu þorpi var engu líkara en farmi af grænni málningu hefði rekið á land, öllum íbúunum til mikillar ánægju og kærkomin upplyfting á útliti þorpsins.
Annað vakti mikla athygli gesta við komuna í þorpin. Margir ungir menn voru í fötum merktum Manchister United og síðar var okkur gengið fram hjá samkomustöðum merktum Chelsea F.C. og Arsenal. Þarna koma menn saman á laugardögum og ná beinum útsendingum frá enska boltanum. Ungu mennirnir vita allt um leikmenn og stöðuna í ensku deildinni, og lifa fyrir fótboltann. Enn ferðafélaginn sagði þá sögu að á velmerktarárum Tony´s Blair voru menn úr þessu þorpi spurðir hvor þeir vissu hver hann væri. Nei þeir höfðu aldrei heyrt talað um þennan Tony. Með hvaða liði spilar hann? En þegar spurt var um Beckham þá vissu þeir allt um þann mikilsvirta kappa.
Mikil vatnsveita hefur verið sett upp fyrir íbúa eyjunnar þar sem sólarorka er notuð til að dæla nokkuð hreinu vatni upp á tvo 10.000 lítra tanka, sem síðan flæðir með aðdráttarafli í eina átta vatnsstöðvar. Mjög snyrtilega er gengið frá hverri vatnsstöð og samtökum íbúa falin ábyrgð á umhirðu og viðhaldi. Það voru mikil vonbrigði fyrir okkur að sjá hversu illa þessu var sinnt af íbúunum. Þegar þorpshöfðinginn var spurður hverju þessu sætti sagði hann að menn biðu eftir formlegri afhendingu vatnsveitunnar. Þrátt fyrir að hún hafi verið tekin í notkun fyrir fjórum mánuðum, og notuð af íbúum allan þann tíma, töldu þeir sig enga ábyrgð bera á þeim fyrr en slík athöfn hefði farið fram. Þetta er náttúrulega tómur fyrirsláttur og eitthvað vantar á uppá eignarhaldið og ábyrgðina, þar sem veitan virðast eins og fé án hirðis og öllum er sama hvað verður um hana. Einn íbúi sagði okkur að þessi vatnsveita skipti engu máli, íbúar gætu vel náð í drykkjarvatn í flæðamálið, eins og gert hefur verið hingað til.
En nú var farið að hvessa og vindur hvín í krónum trjánna og skýin æða yfir höfðum ferðalanga og íbúar gerðust áhyggjufullir vegna fyrirhugaðrar heimferðar. Lögðu að okkur að bíða morguns þar sem vatnið væri ekki árennilegt þessa stundina. En við vorum í vandræðum þar sem einn okkar hafði meitt sig þegar hann var að fara frá borði eftir lendingu um morguninn og allt benti til innvortis meiðsla. Eftir símtal við lækni ráðlagði hann okkur að flýta för okkar til Bugala.
Það hvítfryssaði á öldutoppum og braut á skerjum, en okkur var vandi á höndum. Reyndar er engin staður til að gista á í eyjunni og engan mat að fá, en slíkt er hégómi þegar líf og limir liggja við. Menn leggja slík óþægindi á sig fyrir öryggði en nú þurftum við að fara hvort sem okkur líkaði betur eða verr.
Það tók nokkurn tíma að ausa bátinn sem var hálf sokkinn í flæðamálinu, en brátt var lagt af stað heim á leið. Eyjaskeggjum fannst þetta mikið feigðarflan hjá okkur og höfðu raunverulegar áhyggjur. Um þetta spratt nokkur umræða í hópnum meðan við nutum skjóls af eyjunum og siglingin var þægileg. Innfæddir félagar bloggara upplýstu hann um að sjómenn á þessum slóðum hræddust vatnið og bæru mikla virðingu fyrir þeim hættum það býr þeim. Fæstir eru syndir og bátkænur þeirra alls ekki færar í flestan sjó. Stígur á Horni hefði ekki róið slíku hrófartildri yfir Hornvíkina, hvað þá út á opið haf. En sömu menn eru alls óhræddir við eyðni, sem er landlæg á þessum slóðum, og drepur miklu fleiri en Viktoríuvatn. Ástæðan fyrir því er að vatnið getur drepið þá í dag eða á morgun, en sjúkdómurinn drepur þá á tíu til tuttugu árum. Það er svo langur tími að skiptir litlu máli enda afleiðingar langt inn í framtíðinni. Svo er líka til góð ráð við eyðni eins og til dæmis að ná sér í hreina mey. Reyndar sagði einn karlinn okkur í landi góða sögu af hættum vatnsins í samhengi við til dæmis umferðina í Kampala. Lendi maður í sjávarháska og nánast búinn að afskrifa björgun, orðin úrvinda eftir slarkið í vatninu og þrotinn kraftur. Loks þegar björgun berst og viðkomandi komin í öruggt skjól er það eina sem hann vantar er kaldur bjór. En lendi maður í umferðarslysi gæti hann kannski misst báða fótleggi og endað í hjólastól. Í þessu felst heimspeki veiðimannsins sem óttast mátt vatnsins og varnarleysi hans gegn því.
Þegar komið var út á opið vatnið þyngdi ölduna sem þó var með í för í þetta sinn. Fljótlega kom í ljós að skipstjórinn kunni fag sitt vel og stýrði bátnum á lensinu af leikni og aldrei var nokkur hætta á ferðum. Til að róa félaga sína sagði bloggari frá reynslu sinni sem togarasjómaður á árum áður í norður Atlantshafi um miðjan vetur í 12 vindstigum, þar sem öldurnar voru á við hæstu hús og rastir sem gátu ýft þær enn frekar upp og valdið brotum sem skaðað gátu sterkustu stálskip. Slík var lýsingin að menn gleymdu algerlega hræðslu sinni og hlustuðu opinmyntir á sögumann segja frá ísingu og stórveðrum norðurslóða þar sem horft var brosandi með saltbrynjuðu andliti gegn ósköpunum. Hér var ekki einu sinni salt og vatnið þornaði jafnharðan i sólskininu og skvetturnar eins og baðkarsslettur í samanburði við sögurnar.
Engu að síður voru menn ánægðir þegar til baka var komið og um kvöldið beið okkar ilmandi tilapía, heilsteikt með flatbrauði og hrísgrjónum. Góðir félagar renndu þessu niður með öli og nutu kvöldkyrrðar undir fullu tungli meðan atburðir dagsins voru rifjaðir upp og plön framtíðar rædd.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Gunnar Þórðarson
Tenglar
Hallgrímur bláskór 2012
- Gengiðr úr Hornvík í Kjaransvík
- Kjaransvík - Sæból
- GEngið á Ryt og Darra
- Gengið á Straumnesfjall
- Gengið á brúnir Grænuhlíðar
Smölun í Austurdal
- Austurdalur -2010 Dagur 1 Smölun í hinum ægifargra Austurdal suður af Skagafirði
- Austurdalur - 2010 Dagur 2 Annar dagur smalamensku í Austurdal í Skagafirði
- Austurdalur -2010 Dagur 3 Lokadagur smölunar fyrir Austudalsfélagið í Skagafirði
- Föstudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Laugardagur í Austurdal 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Sunnurdagur í Austurdal - 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Mánudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
Skútukaupin 1976
Við félagarir, undirritarðu, Jón Grímsson og Hjalti Þrórðarson keyptum skútu í Bretlandi og sigldum henni heim til Íslands
- Kafli 1 - Skútukaupin undirbúin
- Kafli 2 - England
- Kafli 3 - lagt í siglinguna miklu
- Kafli 4 - Captain Thordarson
- Kafli 5 - Siglt í norður
- Kafli 6 - Færeyjar - Ísland
- Kafli 7 - Siglt til Ísafjarðar
Ísrael 1974
Sagt frá ævintýri okkar Stínu, Nonna Gríms og Hjalta Bróður þegar við ókum yfir Evrópu 1974. Fórum frá Aþenu til ísrael og unnum þar á samyrkjubúi.
- Kafli 1 - Mótorhjólagengið
- Kafli 2 - Júgóslavía, Grikkland og Ísrael
- Kafli 3 - Á kibbutz undir Gólanhæðum
- Kafli 4 - Í kjölfar árásarinnar
- Kafli 6 - Maðurinn með ljáinn
- Kafli 5 - Endurfundir
- Kafli 7 - Frá rauðu ljósi í Milanó
- Kafli 8 - Fjölskyldu og varnarmál
- Kafli 9 - Vinna í Elat
- Kafli 10 - Daglegt líf á Shamir
- Kafli 11 - Til Grikklands
- Kafli 12 - Sögulok í London
Að Fjallabaki 2012
Suður um höfin 1979
Frá ferðalagi okkar Stínu á seglskútunni Bonny frá Ísafirði til Mallorca í Miðjarðarhafi
Sigling frá Mallorka til Grikklands
- Kafli 1 - lagt af stað til Ítalíu Fimm félagar sigldu Bonny frá Spánar til Grikklands
- Kafli 2 - Sikiley og Grikkland
- Kafli 3 - Kea og Paros
- Kafli 4 - Santorini
Safaríferð í Úganda
- Ferð til Murchison Falls - fyrri hluti Safaríferð inn í frumskóg Úganda
- Ferð til Murchison Falls - seinni hluti
Hálendisferð 2010
- Gengið á Fimmvörðuháls Eldstöðvar Fimmvörðuháls skoðaðar
- Skaftafell og Kristínartindar Gengið á Kristínartinda
- Gengið á Mælifell Ekið Fjallabak syðra norður fyrir Mýrdalsjökul
- Friðland að Fjallabaki Gengið um við Landmannalaugar
- Gengið á Löðmund Gengið á Löðmund við Dómadal
- Gengið á Snæfell Gengið á hæsta fjall Íslands utan jökla, Snæfell
- Gengið í Geldingarfell Ferð um Lónsörævi með frábærum hópi, sumarið 2010
- Gengið í Egilssel Gengið úr Geldingafelli í Egilssel við Lónsöræfi
- Gengið niður Lónsöræfi Þriggja daga göngu norðan og austan Vatnajökuls lokið
Sri Lanka 2007
- Sri Lanka 2006-2008 Starfað á Sri Lanka
Bloggvinir
-
astromix
-
ekg
-
stefanbjarnason
-
golli
-
vikari
-
gunnarpetur
-
vestfirdir
-
gudni-is
-
ea
-
ladyelin
-
gp
-
altice
-
hjolaferd
-
kaffi
-
komediuleikhusid
-
rabelai
-
ziggi
-
huldumenn
-
helgi-sigmunds
-
sigrunzanz
-
hordurhalldorsson
-
baldher
-
hjaltisig
-
lotta
-
kjarri
-
bjarnimax
-
jovinsson
-
smjattpatti
-
eirmor
-
vefritid
-
saemi7
-
siggisig
-
maggij
-
lehamzdr
-
contact
-
gauisig
-
jonvalurjensson
-
thjodarskutan
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.10.): 0
- Sl. sólarhring: 18
- Sl. viku: 44
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 21
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar