Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Skotgrafahernaður

Tilgangur kvótakerfisins

Það var athyglisvert að hlusta á Ingva Hrafn rekja garnirnar úr Atla Gíslasyni, formanni sjávarútvegsnefndar Alþingis á sjónvarpsstöðinni Ínn.  Að vísu gætti svolítils misskilning hjá Atla um tilgang kvótakerfisins, en hann taldi það sett á til að vernda fiskistofna.  Það má öllum vera ljóst sem kynna sér upphaf og tilurð kerfisins að það var sett á til að auka arðsemi og draga úr gegndarlausu tapi útgerðar, sem komin var til vegna allt of mikillar sóknargetu flotans.  Útgerðarmönnum var boðin nýtingarréttur auðlindarinnar í skiptum fyrir þann beiska kaleik að skera niður flotann.  Í þessu samhengi er rétt að geta þess að ekki þarf kvótakerfi til að vernda fiskistofna, enda hægt að setja hámarksafla á hverja tegund fyrir hvert ár og leyfa síðan frjálsar veiðar.  Slíkt myndi tryggja viðgang fiskistofna miðað við réttar forsendur um hámarksafla en myndi kalla á mikla sóun í útgerð og hrun á mörkuðum.  Um það snýst kvótakerfið.

Skotgrafahernaður

Að öðru leiti mátti skilja á Atla Gíslasyni að hann væri maður sátta og vildi forðast ,,skotgrafahernað" í málefnum sjávarútvegs, ólíkt varaformanni sjávarútvegsnefndar sem notar hvert tækifæri til tala niður til atvinnugreinarinnar.  Atli taldi slíkt ekki vænlegt til árangurs og fullvissaði áhorfendur um að engin hætta væri á að varaformaðurinn tæki við formensku, enda tilheyrði það embætti Vinstri Grænum.

Atli virðist vera vel að sér um sjávarútveg og vera nokkuð vel tengdur við aðila í greininni.  Hann hvatti útvegsmenn og fiskverkendur til að koma að ,,sáttarnefndinni" sem þeir hafa gengið frá vegna átaka við sjávarútvegsráðherra, og taldi það líklegast til að ná sáttum sem þjóðin og sjávarútvegurinn gætu unað við.  Nauðsynlegt væri að tala saman og aðilar fengju tækifæri til að útskýra sína hlið á málunum og hvernig sameiginlegir hagsmunir yrðu tryggðir.  Hvort hægt væri að bæta núverandi sjávarútvegsstefnu með þjóðarhag að leiðarljósi.

Þjóðarsátt um þjóðarhagsmuni

Þetta er alveg rétt hjá formanni sjávarútvegsnefndar og gefur von til að málin verði leyst með þeim hætti að fiskveiðiauðlindin gefi hámarks arðsemi fyrir Íslendinga í framtíðinni.  Öfgafullur ,,skotgrafahernaður" í þessum málum er ekki leiðin til að rata þann veg, þar sem þekking og fagmennska víkur fyrir alhæfingum, upphrópunum og fullyrðingum.  Við getum lært það af sögunni að slíkar aðferðir eru árangursríkar fyrir einstaklinga, stefnur og strauma, en eru ekki líklegar til tryggja sátt eða þjóðarhag.

Auðlindin er þjóðareign Íslendinga og mikilvægt að ákvarðanir sem teknar eru um framtíðarskipan hennar taki mið af því.  Þetta snýst um fiskveiðiarð og skiptingu hans.  Það verður erfitt að byggja slíkar ákvarðanir á hugtökum einum saman eins og réttlæti og sanngirni, en sitt sýnist hverjum í þeim efnum.  Stjórnvöld þurfa að ganga til sátta í þessu máli, ólíkt því sem á undan er gengið, og málflutningur Atla Gíslasonar gefur von um slíkt.

Gunnar Þórðarson

  


,,Gjafakvótinn"

Umræða í skötulíki

Umræðan um stjórn fiskveiða hefur verið í skötulíki undanfarin ár. Flestir þeirra sem hæst láta virðast gera sér litla eða enga grein fyrir því að kvótakerfinu var komið á fyrir 25 árum til þess að auka arðsemi í íslenskum sjávarútvegi og beita skynsamlegri nýtingu til að vernda ofveidda fiskistofna. Það vill gleymast, að fæstir útvegsmenn voru hlynntir kvótakerfinu á sínum tíma. Með þessum hugmyndum þótti þeim vegið að frelsi sínu til fiskveiða. Í dag deilir hins vegar enginn ábyrgur útgerðarmaður um ágæti þessa fyrirkomulags sem notað er við stjórn fiskveiða hér á landi.

 

Hvað lá að baki?

En hvernig var tilurð kvótakerfisins og hvað lá þar að baki? Upphaf umræðunnar má tengja við útkomu hinnar svokölluðu ,,svörtu skýrslu" Hafrannsóknarstofnunar árið 1975. Þar sagði að útlit væri fyrir verulegan viðkomubrest ef ekki yrði gripið til nauðsynlegra ráðstafana. Í framhaldi var ,,skrapdagakerfinu" komið á 1977. Þar mátti hlutfall þorsks hjá togurum ekki fara upp fyrir ákveðið hlutfall af afla tiltekna daga á ári.

Að öðru leyti voru veiðar frjálsar og þrátt fyrir tillögu Hafró um 275 þúsund tonn þetta ár var veiðin 340 þúsund tonn. Sóknarþungi jókst stórum og náði þorskveiðin hámarki árið 1981 þegar veidd voru tæp 470 þúsund tonn. Þrátt fyrir þessa miklu veiði fór afkoma útgerðar stöðugt versandi. Á annað hundrað skuttogarar bættust við flotann á þessu tímabili sem hluti af stefnu stjórnvalda í atvinnu- og byggðamálum.

Hugmyndinni illa tekið í fyrstu

Augljóst var að frjáls aðgangur að auðlindinni skilaði ekki þeim markmiðum sem stjórnvöld settu sér við nýtingu hennar. Þannig benti Jakob Jakobsson fiskifræðingur t.d. á gríðarlega sóun við síldveiðar árið 1979, þar sem 170 skip veiddu 35 þúsund tonna ársafla. Tíundi hluti þess flota hefði staðið undir veiðunum.

Austfirðingar hreyfðu fyrst við hugmyndum um kvótakerfi á Fiskiþingi árið 1978. Þeim var illa tekið af útvegsmönnum, sérstaklega Vestfirðingum, sem töldu frjálsar veiðar sér í hag vegna nálægðar við fiskimiðin. Austfirðingar reyndu á ný árið eftir en allt fór á sama veg. Á Fiskiþingi 1981 mátti hins vegar greina vaxandi áhuga á kvótasetningu á þorski. Umræðan var orðin upplýstari og menn gerðu sér grein fyrir að stjórnlaus veiði á endurnýjanlegri auðlind ógnaði jafnt fiskistofnum sem afkomu útgerðarinnar.

Kvótakerfið verður að lögum

Fram að þessum tíma hafði svokölluð millifærsluleið verið farin í stjórnun sjávarútvegs. Flókið sjóðakerfi var notað sem tæki til að taka fjármuni af heildinni og færa öðrum. Heildarfjármunir voru teknir frá þjóðinni með launalækkun í gegnum gengisfellingar. En til að gera langa sögu stutta fór svo að mælt var fyrir frumvarpi um kvóta í desember 1983 og það varð að lögum árið 1984.

Kvótakerfið var samþykkt til eins árs í senn þar til 1988 þegar það var fest í sessi. Fljótlega kom í ljós að án framsalsréttar á aflaheimildum væri takmarkaður ávinningur af kvótakerfinu. Framsal var lögfest 1988. Ljóst var að nauðsynlegt var að fækka skipum og draga úr sóknarþunga til að auka arðsemi veiða og án framsalsheimilda væri það borin von.

Einkaframtak í stað ríkisafskipta

Stjórnmálaflokkar voru klofnir í afstöðu sinni til málsins en margir álitsgjafar voru atkvæðamiklir í umræðunni. Í henni kristölluðust meginstraumar í hugmyndum um kvótakerfi; hvort ríkið ætti að útdeila fiskveiðiheimildum eða hvort nýtingarréttur yrði færður til útgerðarinnar og hún látin bera ábyrgð á eigin afkomu. Sú leið sem farin var - að nota reiknireglur til að skipta aflaheimildum niður á skip - var því í anda einkaframtaks í stað ríkisafskipta.

Kvótanum þröngvað upp á útvegsmenn

Það er nokkuð ljóst að kvótanum var þröngvað upp á útvegsmenn á sínum tíma þar sem frjáls veiði án afskipta ríkisins hugnaðist þeim betur. Sú aðferð að færa nýtingarréttinn til útgerða, byggðan á aflareynslu, getur varla talist vafasöm aðgerð. Í ljósi fjárhagsstöðu útgerðarinnar á þessum tíma var ekki var borð fyrir báru til að greiða háar upphæðir fyrir aflaheimildir til ríkisins. Einnig verður að líta til þess að aflakvóti var einskis virði á þessum tíma enda tapið botnlaust hjá útgerðinni og kvótasetningin því forsenda arðsemi.

Ríkisafskipti með pólitískri útdeilingu gæða eins og aflaheimilda er ekki líkleg til að skila hámarks arðsemi af fiskveiðum sem hlýtur að vera meginkrafa íslensku þjóðarinnar. Skipting þess fiskveiðiarðs með réttlátum hætti er hinsvegar pólitískt viðfangsefni hverju sinni.

Höfundur er viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum

 


Skuldir útgerðarinnar

Ólína Þorvarðardóttir ritar grein í B.B. 20. janúar undir fyrirsögninni ,,Gjöfin dýra - skuldabagginn" Höfundur hefur nokkuð til sín máls að þeim sem treyst er fyrir nýtingu auðlindarinnar, fari vel með það traust. Réttilega er bent á að ábyrgðarleysi með gengdarlausum erlendum lántökum hafa áhrif á fiskveiðiarð og koma þjóðinni því við. Þjóðin á kröfurétt á þá sem hún treystir fyrir nýtingu mikilvægustu auðlind sinnar, sjávarútvegnum, að þeir gæti hagsmuna hennar í hvívetna.

Gott dæmi um ábyrgðaleysi útgerðarmanna er stöðutaka með krónunni síðsumar 2008 fyrir tugi miljarða króna. Þetta var útskýrt sem áhættustýring fyrir útgerð og fiskvinnslu, en flestir sem til þekkja sjá að þau rök standast illa og nær að kalla gjörninginn hreinlega brask. Þessi mál eru ekki uppgerð ennþá en gæti haft veruleg áhrif á skuldastöðu útgerðarinnar í heild sinni. Rétt er að taka fram að lífeyrissjóðirnir voru enn kræfari í þessu braski og viðbúið að skellur þeirra verði á annað hundrað milljarða króna í uppgjöri við bankana.

Það er nú þannig að rónarnir koma óorði á brennivínið og auðvitað er ekki hægt að setja alla útgerðarmenn undir sama hatt. Ekki hafa nöfn útgerða hér í Ísafjarðarbæ verið nefnd í þessu samhengi og vonandi er staða þeirra því sterkari en hinna sem eiga hlut að máli.

Ekki er þó ástæða til að breyta hagkvæmu fiskveiðistjórnunarkerfi á þeim forsendum að einstakir útgerðarmenn fari fram úr sér og sökkvi sér í skuldafen. Þau fyrirtæki fara einfaldlega í þrot, líkt og önnur fyrirtæki í þeirri stöðu, hvort sem um bílaumboð eða bóksala er að ræða. Nýir menn taka þá við og erlendir lánadrottnar tapa kröfum sínum. Við yfirtöku nýju bankana af þeim gömlu hefur þetta allt verið skoðað og ráð fyrir því gert.

Margir andstæðinga kvótakerfisins tala um að menn veðsetji kvótann, sem sé siðlaust þar sem þjóðin eigi auðlindina. Þetta er í besta falli einföldun, en verra ef það er notað til að blekkja fólk. Málið er að menn veðsetja fjárstreymi í útgerð eins og öðrum rekstri. Reiknað er út hversu miklum skuldum fyrirtæki geti staðið undir miðað við fjárstreymið. Það liggur hinsvegar fyrir að útgerð sem rekin er með eigin kvóta hefur jákvæðara fjárstreymi en önnur sem þarf að leigja hann til sín.

Íslendingar verða að reka sinn sjávarútveg á hagkvæman hátt með arðsemi í huga. Við höfum einfaldlega ekki efni á öðru. Stjórnvöld eiga ekki að skipta sér af rekstri einstakra fyrirtækja, heldur setja almennar leikreglur. Það er ekki í verkahring stjórnmálamanna að reikna út hvort eitt útgerðarform sé hagkvæmara en annað né hver hagkvæmasta skuldastaðan er, heldur hvers fyrirtækis fyrir sig.

Miðað við árangur íslenskra stjórnmálamanna undanfarið virðast þeir hafa fangið fullt án þess að gerast ráðgjafar í rekstri fyrirtækja.

 


Hin kalda krumla einangrunnar Íslands

Nokkurra vikna ritstífla bloggara losnar við það reiðarslag sem ákvörðun Bessastaðabóndans hefur valdið honum. Óttinn við einangrun Íslands frá nágrannaþjóðum og orðspori í ruslflokk er nístandi kaldur. Heimóttaskapur umræðunnar vekur frekari ugg í brjósti og lítilli trú á að þjóðin vinni sig út úr þessum alvarlega vanda. Nú berja menn sér á brjóst og beita fyrir sig þjóðernishyggju!

 

Ef horft er á stöðuna í dag er málið nokkuð einfalt. Setja aftur fyrir sig það sem er búið og gert, í bili a.m.k., meðan við náum skipinu á réttan kjöl. Það er lítill tími til að velta fyrir sér hver gerði hvað og hvenær þegar brotsjór hefur riðið yfir og skipið og því er að hvolfa. Átök milli manna hafa þá enga tilgang, enda berjast menn við náttúruöflin.  Þá er nauðynlegt að leggja niður kytrur og þvarg og leggjast saman á plóginn.

 

Íslendingar eru að berjast við nokkurs konar náttúruöfl, alþjóðasamfélagið, sem lætur sér í léttu rúmi liggja hvað Íslendingum þyki sanngjarnt og réttlátt. Rétt skal vera rétt og reglurnar nokkuð skýra. Með neyðarlögunum var ákveðið að tryggja innistæður íslenskra banka á Íslandi en ekki í Bretlandi og Hollandi. Slíkt brýtur gegn reglum ESB og þar með gegn samningi um EES. Ekki má mismuna íbúum svæðisins efir þjóðerni!

 

Þetta hefur nefnilega ekkert með reglur um innistæðutryggingar að gera. Málið er að ef Íslendingar hefðu ekki ákveðið að tryggja innstæður hérlendis, hefðu menn ekki þurft að greiða innistæður í Bretlandi og Hollandi. Þá hefðu allir bankarnir farið á hliðina á einum eftirmiðdegi og máttlítill tryggingasjóður greitt þeim sem ekki höfðu náð að taka peningana sína út.  Þetta hefur því með regluverk EES að gera og því myndu dómstólar EFTA eða ESB úrskurðarvald í málinu.  Afstaða þar lggur fyrir!

 

Ef þjóðir EES létu Íslendinga komast upp með að brjóta á meginstoðum samningsins um að ekki megi mismuna íbúum eftir þjóðerni, gætu aðrar aðildarþjóðir fylgt í kjölfarið og gert slíkt hið sama. Allt í nafni ,,réttlætis" og ,,sanngirni" séð með augum íbúa þess ríkis sem gripi til slíks óyndisúrræðis.

 

Nú liggur fyrir að Fitch hefur lækkað lánhæfismat landsins niður í ruslflokk með neikvæðum horfum og það sem hér og nú hefur borist frá nágranalöndum varðandi synjun forsetans á lögum um ríkisábyrgð á IceSave er ekki uppörvandi. Engin stendur með Íslendingum!

 

Er þetta ekki bara ótrúlegur heimóttaskapur Íslendinga? Það er talað á þann hátt að meiri sáttartón þurfi á Alþingi? Málið verður ekki leyst á Alþingi eins og lögin síðan í haust sína. Það dugar ekki að annar aðili samnings ákveði einhverjar breytingar á honum, löngu eftir undirskrift. Íslendingar skrifuðu undir samning um IceSave í júní ásamt Bretum og Hollendingum. Viðsemjendur Íslendinga samþykktu svo einfaldlega ekki þá fyrirvara sem settir höfðu verið einhliða af Alþingi. Bretar og Hollendingar, sem samkvæmt samkomulaginu lána þjóðinni fyrir greiðslum á innistæðu í þessum löndum, hafa það í hendi sér á hvaða kjörum þeir lána. Þeir þurfa einfaldlega ekki að samþykkja fyrirvara sem settir eru eftir undirskrift samkomulagsins.

 

Bloggari vonar að flokksmenn hans hafi einhver spil upp í erminni eftir ,,sigur" sinn í þessu máli. Hann óttast hinsvegar að svo sé ekki og hér sé einfaldlega um venjulegan íslenskan skotgrafahernað í pólitík að ræða. Þetta mál er bara allt of stórt fyrir slíkan hernað.

 

 


Ólína og sjávarútvegurinn

Í huga bloggara er leiðarljósið í hugmyndum um fiskveiðikerfi Íslendinga, að hámarka hag þjóðarinnar af fiskveiðum til langs tíma litið.  Því miður eru ekki allir samála honum og stundum virðast annarlegar kenndir ráða för.  Það er sérlega slæmt þegar valdamikið fólk á í hlut, t.d. þingmenn og svo ekki sé talað um formann Landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndar Alþingis.  Ekki verður annað séð á skrifum hennar en markmiðið sé að koma höggi á útgerðarmenn og almannahagsmunir séu fyrir borð bornir.

Grein Ólínu Þorvarðardóttir í Morgunblaðinu 29. október ber einmitt dám að þessu.  Lítið er reynt að fjalla af sanngirni um málið, hvort sem talað er um líffræðilegan hluta fiskveiðistjórnunarkerfisins eða þess hagræna.  Bloggari vill aðeins staldra við þessa grein og leiðrétta augljós rangindi sem annað hvort er sett fram að illgirni eða vankunnáttu.

Í fyrsta lagi talar höfundur um að ,,skapaður" hafi verið skortur á leigukvóta til að þrýsta á stjórnvöld.  Gerir þingmaðurinn sér ekki grein fyrir að einmitt það sýnir virkni kvótakerfisins?  Með minnkandi aflaheimildum þarf minni flota til að sækja það sem er til úthlutunar.  Það tryggir hámarks afrakstur nýtingar og þeir fyrstu sem detta út eru kvótalitlir bátar.  Við það er ekkert athugavert og alls ekki hægt að kenna vélarbrögðum útgerðarmanna um.  Reyndar er helst að skilja á Sjávarútvegsráðherra að hann hyggist beita ríkisvaldi til að tryggja framboð á leigukvóta og hafa þannig vit fyrir markaðinum.  Það er svona í anda kommúnismans að pólitíkusinn viti betur en markaðurinn hvað eigi að framleiða, hvernig, hvenær og af hverjum.

Ólínu verður tíðrætt um hvernig kvótakerfið hafi brugðist í að byggja upp fiskistofna.  Það er engin furða enda var kvótakerfið ekki sett á til þess.  Það var sett á til að auka arðsemi í greininni og draga úr sóknargetu flotans, getu sem stjórnmálamenn höfðu skapað með gengdarlausum innflutningi á togurum.  Upp úr 1980 hafði togaraflotinn aukist um rúmlega hundrað skip og algert hrun blasti við útgerðinni og reyndar fiskistofnum líka.  Svarta skýrsla Hafró hafði komið út 1976 og Íslendingar voru að átta sig á nauðsyn þess að stunda ábyrgar sjálfbærara veiðar.  Kvótakerfinu var þvingað upp á útgerðarmenn og þeir látnir bera ábyrgð á niðurskurði á fiskiskipaflotanum, en fengu í staðin nýtingarrétt auðlindarinnar.

Árið 1981 veiddu Íslendingar 469 þúsund tonn.  Nærri fjórðungur að þessum afla endaði á skeiðarhjöllum og var seldur fyrir lágt verð til Nígeríu.  Í þessari miklu veiði var tap útgerðarinnar í sögulegu hámarki og fiskveiðiarðurinn lítill sem engin.  Í þessu samhengi verða menn að skilja að kvótakerfið ræður ekki veiðimagni, enda er sú ákvörðun tekin pólitískt af ráðherra í samráði við vísindamenn Hafró.

Þá er komið að umræðu um líffræðilegan hluta fiskveiðistjórnunarkerfisins.  Þar tínir þingmaðurinn allt til sem hún finnur til að gera lítið úr vísindamönnum Hafró og sleppir öllu því sem gæti talist þeim til tekna.  Það er gaman að flytja góðar fréttir og slíkt fellur í frjóan jarðveg hjá mörgum.  Tilhugsunin um að hægt sé að veiða miklu meira úr stofnum á Íslandsmiðum skiptir marga miklu máli og því gott að geta trúað því.  En hér verðum við að velja á milli hvort við notum vísindi eða óskhyggju.

Ef þingmaðurinn hefði haft fyrir því að koma við á Hafró hefðu starfsmenn getað leiðrétt mikið af rangfærslum í grein hennar.  En kannski það hafi ekki verið nokkur vilji til þess og tilgangurinn helgi meðalið.  Í fyrsta lagi hefur fæðuskortur aldrei verið afgerandi áhrifavaldur á fjölda fiska í þorskstofninum.  Hinsvegar hefur aðgangur að fæðu áhrif á meðalþyngd, en á þessu tvennu er mikill munur.  Enginn gögn eru til um að þorskstofninn hafi soltið í hel né hann hafi bókstaflega synt til annarra landa.

Hafrannsóknarstofnun notar sínar aðferðir til að ákveða stofnstærðir og hrygningarstofna.  Sjálfsagt er að þær aðferðir séu til umræðu og öll málefnaleg gagnrýni er af hinu góða.  En að hafna vísindum og þekkingu, í pólitískum tilgangi, er ekki til bóta.

Hafró og Fiskistofa stunda mælingar um borð í fiskiskipum og við löndun í höfnum. þar sem lengd er mæld og stundum aldur fiska er greindur.  Öll veiði er skráð um borð í veiðiskipum og skýrslur sendar til Hafró sem slær þeim inn í gagnagrunn.  Þannig er hægt að meta aldursdreifingu stofnsins og eins gefa þessar upplýsingar glögga mynd af veiði á sóknareiningu.  Síðan eru vor- og haust rallið notað til að styðja við þessi gögn og nota til að ákveða stofnstærðir og veiðiráðgjöf kemur í kjölfarið. 

Þetta er það sem kallað er vísindalegar aðferðir við ákvörðunartöku og er að miklu leit byggð á tölfræðilegum aðferðum.  Andstæðan við slík vinnubrögð er að nota aðferðir þingmannsins, t.d. sögur eins og; ,,reyndir menn telja" og ,,sjómenn bentu á" o.s.fr.

Það tekur hinsvegar steinn úr þegar stungið er upp á að nota ,,óháða" verkfræðistofu til reikna út stofnstærðir.  Byggja það á rússneskum aðferðum sem Kristinn Pétursson hefur spurnir af og notað hafi verið í Barentshafi.  Hér er lítið gert úr þekkingu og reynslu okkar vísindamanna og ekki furða að Hafró njóti lítils traust meðan forystumenn stjórnmálanna gera allt sem í þeirra valdi stendur til að draga úr trúverðugleika stofnunarinnar.

Nýlega sagði fyrsti þingmaður NV kjördæmis að það væri lífspursmál að tryggja samkeppni í rannsóknum á fiskveiðiauðlindinni.  Slíkt lýsir ótrúlegri vanþekkingu enda væri hægt að velta fyrir sér hver hvatinn í slíkri samkeppni yrði.  Það skyldi þó ekki virka þannig að sá sem kæmi með betri fréttir fengi hærri styrki?  Og eins og Ólína sagði þingmaðurinn nokkrar háðungsögur af Hafró, svona til að sýna fram á að ekkert væri að marka þá stofnun.

Það er gott ef stjórnmálamenn gagnrýna Hafró en það þarf að vera á málefnalegum og vísindalegum nótum.  Ekki má horfa framhjá þegar vel tekst til og blasa við þeim sem lesa skýrslur Hafró um ástand og horfur hinna ýmsu stofna.  Ótrúleg fylgni er milli árganga í þroski sem mældir eru árlega með togararalli.  T.d. tveggja ára fiskur sem mældur er í fyrra og borið saman við þriggja ára fisk í ár.  Það gefur sterkar vísbendingar um að menn séu á réttri leið.  Þessar upplýsingar boða ekki endilega góðar fréttir en gætu verið þær réttu.  Í spá Hafró fyrir hrygningarstofn þorsks eru 90% líkur á að með núverandi aflareglu, 20%, að hann verði á bilinu 170 til 300 þúsund tonn á næsta ári.  Ef veiðar væru auknar um 40 þúsund tonn, eins og fyrsti þingmaður leggur til, myndu þetta breytast verulega og hætta á alvarlegum bresti í stofninum.  Í þessu samhengi er rétt að geta þess að spár Hafró hafa verið of bjartsýnar í gegnum tíðina.

Vilja Íslendingar taka slíka áhættu í stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar.  Hvort vilja menn nota vísindi eða sögur til að taka ákvörðun?  Menn verða að hafa í huga að góð veiði er ,,eðlilegt" ástand og slíkt gefur því ekki eitt og sér ástæðu til að auka veiðar verulega.  Veiði getur verið góð í dag þó útlitið sé slæmt í framtíðinni, enda geta slappir árgangar verið í pípunum og nauðsynlegt að taka tillit til þess. 

Umfjöllun Ólínu er ómálefnaleg og ekki til annars en draga úr trúverðugleika Hafró.  Hún er ekki til þess fallin að bæta ákvarðanatöku um fiskveiðiauðlindina.


Sjálfstæðisflokkurinn er ekki á réttri leið til að berjast fyrir megin stefnumálum sínum!

Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir einstaklingsfrelsi, einkaframtaki ásamt því stétt standi með stétt.  Í stuttu máli berst flokkurinn fyrir frjálsri hugsun, og að allir fái sama tækifæri til að þroska sig og ná árangri í lífinu.

Það er fátt sem gefið hefur Íslendingum meira í frjálsræði undanfarna áratugi, sérstaklega í víðskipum, en samningurinn um EES.  Þeir sem muna þau höft sem búið var við, hugsa til þess með hrylling að hverfa aftur til þeirra ára, þegar völd stjórnmálamanna voru alger og fyrirhyggja blómstraði.  Það skýtur því skökku við að flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn skuli berjast með hnúum og hnefum gegn allri vitrænni umræðu um ESB.  Firrtur þeirri megin hugsjón að berjast fyrir lífskjörum þjóðarinnar, með stefnu sína að leiðarljósi.

Bloggari hefur kynnt sér nokkuð vel Evrópumálin og tekið sér langan tíma til umhugsunar.  Nú þegar óveðursský eru á lofti og köld krumla kommúnismans vofir yfir, lítur bloggari til ESB til varnar því frelsi sem Íslendingar búa þó við í dag.  Tilhugsunin um einangrað Ísland í norður Atlantshafi með sjálfsþurftarbúskap, fátækt og fyrirhyggju stjórnvalda er hrollvekjandi.  En hvað býr undir hjá Sjálfstæðisflokknum með andstöðu sinni gegn umsókn til ESB?

Bloggari skilur vel að menn hafi skoðun á því að hag okkar sé betur borgið utan ESB, enda fylgi því skynsamleg rök.  Málefni sjávarútvegs skipta þarna miklu máli og sjálfur myndi bloggari ekki greiða atkvæði með inngöngu ef hagsmunum þjóðarinnar í sjávarútvegsmálum væri ekki borgið í samningum.  En Sjálfstæðisflokkurinn hefur það nánast sem markmið að útiloka vitræna umræðu.  Gamlir forkólfar flokksins bera fyrir sig þjóðernishyggju og þingmenn tala við okkur eins og lítil börn og segja okkur að vera ekkert að hugsa um þetta ESB.  Það sé bara vont fyrir okkur.  Skrímsladeild flokksins hefur m.a. beitt sér gegn mönnum með ráðleggingu um að hypja sig úr flokknum og ganga í Samfylkinguna.  Þetta eru nú rökin og málflutningurinn.  Er andstaða Sjálfstæðisflokksins við ESB bundin við að ná sér niður á Samfylkingunni og þjóðarhag þannig fyrir borð borin?

En það tekur steininn úr þegar IceSave deilunni er blandað inn í málið og sagt:  Þarna sjáið þig hvað þetta eru vondir menn út í Brussel.  Þeir níðast á litlu þjóðinni út í Dumbshafi.  Þeir vilja Íslendingum vont og hafa meira að segja snúið frændum og vinum í Skandinavíu gegn þjóðinni.

Íslendingar eiga að hætta skotgrafarhernaði í IceSave deilunni og snúa sér að mikilvægari málum.  Berjast fyrir lífskjörum þjóðarinnar með stefnumálum Sjálfstæðisflokksins í farteskinu, einstaklingsfrelsi, einkaframtaki og frjálsri hugsun.

Við endurreisum ekki Sjálfstæðisflokkinn með ábyrgðarleysi í IceSave deilunni og eyða öllum kröftum í að sannfæra þjóðina að til sé hókus pókus aðferð til að leysa það mál.  Flokkurinn mun hinsvegar skora með ábyrgum vinnubrögðum í stjórnarandstöðu og beita sér fyrir ágætum tillögum sínum í efnahagsmálum.  Neyta allra bragða til að hafa áhrif á þá sem vit hafa í ríkistjórninni og fá þá til að taka þátt í tillögum um atvinnuuppbyggingu, í skattamálum og stöðva niðurrifsstarfsemi eins og fyrningu aflaheimilda.  Einblína á þjóðarhag og leggja til hliðar pólitískan skotgrafahernað. 

Sjálfstæðisflokkurinn á að setja bætt lífskjör þjóðarinnar í öndvegi og og vera trúr stefnu sinni.  Það á að gera kröfu til forystumanna flokksins um að þeir beri auðmýkt fyrir því valdi sem þeim er falið í umboði kjósenda og skilji þá stöðu sína.  Fulltrúalýðveldi gerir ráð fyrir að þingmenn sæki vald sitt til kjósenda og fari með þeirra umboð á Alþingi.  Þeir eiga ekki að hugsa fyrir kjósendur né gera þeim upp skoðanir.  Þetta þarf Sjálfstæðisflokkurinn að skilja og sækja niður til grasrótarinnar eftir því umboði sem flokkurinn þarf til að hafa jákvæð áhrif fyrir þjóðina.  Frjáls hugsun krefst þess að menn leggi á sig þær byrðar að kynna sér málin vel og taka vitræna ákvörðun.  Flokkur sem gefur sig út fyrir einstaklingsfrelsi og einkaframtak er byggður upp af fólki með frjálsa hugsun.  Sjálfstæðisflokkurinn á að ýta undir slíkt en ekki reyna að drepa í dróma.


Umhverfisráðherra

Nú hefur umhverfisráðherra kveðið upp sinn úrskurð; Íslendingar munu ekki óska eftir viðbótarkvóta á losun gróðurhúsalofttegunda á væntanlegri ráðstefnu í Kaupmannahöfn.  Þrátt fyrir að verulegum verðmætum sér þar kastað á glæ fyrir þjóðina, helgar tilgangurinn meðalið.  Reyndar sagði hún í útvarpsviðtali í morgun að íslenskt þjóðlíf snérist um fleira en virkjanir og stóriðju, og þá örugglega atvinnulíf yfir höfuð.  Hún nefndi sem dæmi að kórar og leikfélög blómstruðu og alls kyns menningarstarfsemi í landinu.  Það er örugglega huggun harmi gegn fyrir nærri tvö þúsund atvinnulausa á Suðurnesjum.  Bara að skella sér í kirkjukórinn eða bíða eftir næsta þorrablóti.  Nú ef menn eiga ekki fyrir brauði þá er bara að borða kökur!

Hvað er að svona fólki eins og Svandísi Svavarsdóttir?  Hvernig getur hún verið svona gjörsamlega úr takti við veruleikann og þjóð sína?  Hvers vegna skilur manneskjan það ekki að fólk þarf að hafa vinnu til að komast af í nútíma þjóðfélagi?

Þetta er firring innrætingarinnar sem kemur í veg fyrir frjálsa hugsun og líta á málin af skynsemi og svara spurningum með rökum.  Ekki frösum og lýðskrumi.

Það sem umhverfisráðherra, ef maður gefur sér að henni sé umhugað um umhverfið, ætti að berjast fyrir á Kaupmannahafnarráðstefnunni er að settir verði losunarskattar á orkuframleiðslu, þannig að sú sem losar mikið af gróðurhúsalofttegundum greiði af því skatta.  Það myndi styrkja íslenska orkuframleiðslu sem er umhverfisvæn og því hagsæl fyrir mannkynið.  Það á ekki að skattleggja álframleiðslu þó hún losi mikið af CO2.  Það er engin önnur leið til að framleiða þennan mikilvægasta málm mannkyns en að nota kolefni til að draga súrefnið út úr hráefninu.  En það á við um orkuframleiðsluna sjálfa þar sem í dag losa kola- og olíuorkuver mikið af koltvístring út í andrúmsloftið.  Íslendingar eru reyndar að leggja þung lóð á vogarskálina til að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda með hverju álveri sem þeir reisa.

Embættisfærsla umhverfisráðherra jaðrar við landráð, svo ekki sé talað um efnahagslegt tjón Íslendinga af gjörðum hennar.  Það þarf að koma VG frá völdum með öllum ráðum. 


Minnihlutastjórn Samfylkingar

Hver er raunveruleg staða okkar gagnvart AGS og IceSave?  Þjóðinni er haldið út í kuldanum og skilin eftir með getgátur um hvað raunverulega hangir á spýtunni.  Miðað við viðbrögð alþjóðasamfélagsins virðist málstaður Íslendinga ekki vera beysinn nú stefnir í stjórnarkreppu og hugsanlega aðra efnahagskreppu með enn meira hruni krónunnar.

Það læðist að manni sá grunur að stjórnmálamenn séu í sínum venjulegu skotgröfum og takir unnar orrustur gegn óvininum, stjórnarandstaða vs. stjórn, framyfir hagsmuni þjóðarinnar.  Á einni viku hefur bloggari heyrt tvær ólíkar hugmyndir Sjálfstæðismanna um hvernig losa megi um gjaldeyrishöftin.  Slíkt hringl er ekki traustvekjandi og útspil formanns flokksins um að greiða Jöklabréfin með ríkisskuldabréfum í krónum hljómar ekki sannfærandi. 

Það liggur fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki farið í ríkisstjórn.  Of stutt er liðið frá hruninu og öllu því klúðri sem fylgdi í kjölfarið.  Það er hinsvegar mikilvægt að flokkurinn leggi sitt á vogaskálirnar til að koma uppbyggingu Íslands af stað og komi í veg fyrir aðra byltu í hagkerfinu.  Fyrir utan hjáróma og afar ósannfærandi rödd flokksins í Jöklabréfavandanum og IceSave málinu eru aðrar tillögur góðar, sem varða atvinnuuppbyggingu og fjármál ríkisins.

Töf á uppbyggingu orkufreks iðnaðar og stórhættuleg áform um skatta mál, ásamt fyrirhuguðu niðurrifi á sjávarútvegnum (fyrningarleið) er ekki til þess fallinn að koma Íslendingum upp á fæturna aftur.  Það er spurning hvort Framsókn og Sjálfstæðisflokkur gætu stutt minnihluta Samfylkingar í ríkisstjórn.  Semja um að láta sjávarútveginn í friði, halda á með fullum þunga í uppbyggingu orkufreks iðnaðar og nýta þannig auðlindir landsins og lent skynsamlegum niðurskurðar og tekju pakka fyrir ríkissjóð.  Slíkt er örugglega hægt ef þeir losa sig við kommúnuistana (VG) úr ríkisstjórn, fólk sem notar trúarbrögð frekar en skynsemi við ákvarðanatöku.

Íslendingar þurfa á AGS að halda og eins þarf að semja um IceSave.  Engin leið er fyrir Íslendinga að bjóða öllum löndum heims birginn og nóg komið að mikilmennsku og hroka landsmanna.  Íslenskum stjórnmálamönnum er einfaldlega ekki treystandi til að semja og halda efnahagsáætlun til bjargar Íslandi.  Verkstjórn og eftirlit AGS er þar grundvallaratriði, enda sjóðurinn hafin yfir dægurþras stjórnmálamanna, sem er þjóðaríþrótt Íslendinga.

Bloggari heyrði sögu af hópi Íslendinga sem fengu boð í sendiráð Íslendinga snemma árs 2008.  Þar fengu þeir að sjá myndband sem sendiráðið notaði sem kynningu á landi og þjóð.  Þar var sterkasta manni landsins flaggað, fegurðardísir sýndar og útskýrt hvers vegna Íslenskar konur væru þær fallegustu í heimi, sem leiddi af sér að þær bresku væru ljótastar.  Íslendingar voru duglegastir, best menntaðir með flottasta bankakerfi í heimi ásamt því að vera bestir í handbolta og fótbolta og ættu West Ham.  Svona gekk þetta á öllum vígstöðvum, í sendiráðum, á strikinu í Kaupmannahöfn og sólarströndum Spánar.  Dagana fyrir hrunið voru bæði forsætisráðherra og utanríkisráðherra að vinna framboði þjóðarinnar í Öryggisráð Sameiniðuþjóðanna brautargengi.  Íslendingar voru mestir, bestir og fallegastir.

Þjóðin þarf að losa sig við þennan sjálfbirgingshátt og hroka og sýna auðmýkt í þeirri stöðu sem hún er.  Það þurfa stjórnmálamenn einnig að gera og vinna að hag þjóðar sinnar í umboði kjósenda og einbeita sér að þeim verkefnum sem framundan eru.  Hætta skotgrafahernaði, meta stöðuna eins og hún er og velja bestu leiðir fyrir þjóðina til að komast yfir þessa miklu erfiðleika. 


Frjálshyggja

Það var athyglisvert að hlusta á umræður frá Alþingi í gærkvöldi.  Margir stjórnarþingmenn þurfa ekki að bíða fram í nóvember eftir skýrslu Alþingis til að vita hverjar orsakir hrunsins voru.  Þeir vita það og liggja ekki á því.  Ástæðan er frjálshyggja, óheft frjálshyggja og nýfrjálshyggja.  En er það svo?

Einn af boðberum frjálshyggjunnar Fredrik Hayek, orðaði það svo um miðja síðustu öld að hún gengi út á að nota markaðinn til að verðleggja vörur og þjónustu og tryggja samkeppni þar sem því verður komið við, ásamt því að ákvarða hvað á að framleiða, hve mikið og af hverjum.  Hann tiltók einmitt heilsu- og löggæslu þar sem erfitt væri að koma því við og þar þyrftu stjórnvöld að koma til.  Engum frjálshyggjumanni dettur í hug að allt geti verið frjálst, enda væri það stjórnleysi.  Fiskveiðiauðlindin er gott dæmi um þar sem frelsi gengur ekki upp og opinn aðgangur að fiskimiðum veldur sóun og setur fiskistofna í hættu.  Hayek var með á nauðsyn þess að setja leikreglur í samfélagi en hélt því fram að ákvarðanir markaðarins væri of flóknar til að stjórnvöld gætu tekið þær ákvarðanir. 

Í bók sinni ,,Leiðin til ánauðar" skilgreinir hann vel muninn á frjálsum mönnum, sósíalismum, kommúnistum og fasistum.  Þeir síðarnefndu nota innrætingu fyrir sinn málstað, en slíku verður ekki komið við gagnvart frjálsum mönnum sem taka sínar ákvarðanir byggða á gildismati og þekkingu.  Bæði kommúnistar og fasistar líta til sósíalista sem áhangenda, þar sem þeir eru fyrirfram formaðir fyrir innrætingu.  Þeir líta hinsvegar framhjá frjálsum mönnum sem áhangendum og líta á þá sem höfuð óvini, enda verða þeir venjulega fyrstu fórnarlömb einræðis.

Þá komum við að hruninu og því hvort hægt er að kenna frelsi einstaklinga um það, eða hvort það er notað sem blóraböggull.  Einkavæðing bankana var frjálshyggja en ekki framkvæmdin á því og hvernig var staðið að því.  Nauðsynlegt var að losa stjórnmálamenn undan þeim kaleik að stjórna bönkunum.  Allir sem kynnt hafa sér fjármálamarkaðinn á Íslandi fram að einkavæðingu bankana átta sig á þeirri stórfeldu viðvarandi spillingu sem því fylgdi, og víxileyðublöð sem lágu fram á Alþingi frá öllum bönkunum ber því vitni.  En framkvæmd einkavæðingarinnar var ómöguleg og reyndar ekki samkvæmt þeim leikreglum sem lagt var upp með.  Vonandi svarar niðurstaða rannsóknarnefndar Þingsins því hvers vegna það var.

Það sem aðgreinir frjálsa menn frá sósíalistum og kommúnistum er viðurkenning þeirra á mannlegri hegðun og nauðsyn þess að gera ráð fyrir þekkingu á því sviði þegar leikreglur eru ákveðnar.  Þess vegna var lagt upp með breiða eignaraðild að bönkunum, og reyndar hefði verið nauðsynlegt að tryggja sjálfstæði hvers banka fyrir sig til að tryggja samkeppni.  Það er ekki gott fyrir samkeppni þegar bankarnir, sem keppa eiga á markaði, eru háðir hvor öðrum fjárhagslega með kross eignartengslum og lánum til eiganda hvors annars.  Hrynji einn banki fara þeir allir.  Það lá fyrir allan tímann.  Þær upplýsingar sem þegar liggja fyrir benda til þess að allar meginreglur við einkavæðinguna hafi verið brotnar.  En það er ekki frjálshyggja.

Annað hvort hafa stjórnarþingmenn ekki hugmynd um hvað hugtakið frjálshyggja stendur fyrir eða þeir grípa til lýðskrums í málflutningi sínum til að afvegaleiða almenning.  Engum dettur reyndar í hug í dag að ríkið eigi að eiga bankana né sparisjóðina.  Flestum er það ljóst að stjórnmálamenn eiga ekki að stjórna peningamálastofnunum.  Ein þeir eiga að setja leikreglur og fylgjast með framkvæmd þeirra. 


Lítilmannlegt

Þetta er til háborinnar skammar, sama hver á í hlut.  Menn geta verið ósáttir við ,,útrásarvíkinga", sem er mjög skiljanlegt, en siðferðisgirðingar verða þó að halda.  Svona gera menn ekki og þegar ég sá viðtal við framleiðanda myndarinnar í Kastljósi var mér misboðið og ákvað að sjá ekki þessa mynd.

Menn geta verið reiðir og eiga að vera það en það réttlætir ekki að bregðast við með lygum, svikum og sumum tilfellum ofbeldi.  Nú er ofbeldismanneskja komin í ríkisstjórn, sem stóð í Alþingi þegar æstur múgur gerði atlögu að löggjafarvaldi Íslendinga, hringdi út til ofbeldiseggjana til að veita upplýsingar um hvar lögreglumenn væru staddir í húsinu.  Jafnframt var hún staðin að því að æsa til ofbeldisverka og ráðast á valdstjórnina.  Skyldi hún bera annan hug til valdstjórnarinnar núna þegar hún er orðin ráðherra.  Bloggari undrast fjölmiðla að spyrja hana ekki að því.


mbl.is Ósáttur við höfund Guð blessi Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband