Að lífið sé lítil skjálfandi ,,golfsveifla"

Ég er í tíu þúsund fetum þessa stundina.  Ég leið heim af golfvellinum eins og á hörpuskipi álfa, sem sigldu tíu metrum yfir hæstu öldutoppum, í gegnum hrikalega umferð Kampala.  Ég var að klára minn besta hálfhring, níu holur, og golfið allt á uppleið.  Búinn að finna sveifluna og driverinn á fullri leið inn.  Lífið gæti ekki verið betra.  Slær út blíðveðrið og hálfsigrinum í Eurovision sem þjóðin mín gekk í gegnum í viku.  Fyrningarleið, V.G. Samfylking og ömurleg ríkisstjórn geta ekki skyggt á persónulegan sigurinn á golfvellinum í dag.  Og ég sem hélt að ég væri fastur í skurðinum og kæmist aldrei upp til að sjá til sólar.

Það flaug í gegnum hugann góð saga af tveimur góðum vinum mínum af Tungudalsvelli í Skutulsfirði.  Addi Geir var í golfmóti og hafði gengið illa.  Við holu sjö stundi missti hann út úr sér stundarhátt,  ,,ég er alveg búinn að týna sveiflunni"  Biggi Vald sem var þarna nærstaddur sagði þá að bragði; ,,ég ætla rétt að vona að ég finni hana ekki"  Þetta er golfbrandari og ekki fyrir alla að skilja.

 


Hanaslagur

Bloggara finnst gott að slappa af frá pólitíkinni og takast á við léttari mál, þau þau séu að sjálfsögðu jafn mikilvæg.  En hér koma smá sögur, sannar og lognar.

Bloggari hefur áður bent á ónæði af hænsnahaldi í nálægum húsum hér í Bugolobi.  Hann áttaði sig ekki á að kannski ætti hann einhvern rétt í málinu, fyrr en fréttir af píslavætti í Vestmannaeyjum komu í Mogganum.  Kannski maður eigi einhvern rétt hér í Afríku.  Málið að þó menn séu frjálshyggjumenn þá er megin reglan sú að frelsi megi ekki vera þannig að gangi á hlut annarra.  Semsagt að frelsi verður alltaf takmarkað og ánægja og hagur einhvers af því að eiga hænsni má að minnsta kosti ekki kosta nágrannann meira en hagur eigandans er af eigninni.

Svo bloggari ákvað það einn daginn að heimsækja mesta hávaðasegginn í húsinu í austri og fá að berja hann augum og jafnvel taka af honum mynd.  Það er nauðsynlegt að þekkja óvin sinn.  Hér eru himin háar girðingar kringum húsin með gaddavír ofaná og stór stálhlið fyrir innkeyrslunni á lóðina.  Maður sér því aldrei nágarna sína, en heyrir í þeim.  Þegar bloggari hafði barið á stálhurðina birtist vörður með byssu, en öll hús hafa vopnaða verði allan sólarhringinn til gæslu.  Bloggari bað um að fá að ræða við húsbóndann, sem örugglega hefði ekkert á móti því að sýna honum hana djöfulinn.  Virðulegur gráhærður miðaldra maður kom út úr húsinu og spurði hvað hann gæti gert fyrir bloggara.  Sem svaraði um hæl:  ,,I would like to see your cock and take a picture of it"  Manninn gerði dreyrrauðan og ýtti bloggara óþyrmilega út fyrir hliðið og skellti í lás.  Ekki gott að segja hvers vegna í ósköpunum manninum var svona illa við að vera beðin um að sýna hanann sinn.

Önnur saga rifjast upp sem gerðist á skíðum í Corner Brook á Nýfundnalandi.  Bloggari var á skíðum með félaga sínum þar sem þeir spjölluðu saman í biðröðinni við skíðalyftuna.  Rétt er að bæta hér inn í frásögnina að vörumerki fyrir Rossignol skíði er einmitt hani.  Frönsk framleiðsla, sem er upprunaleg, var með lítin hana fremst á skíðunum í frönsku fánalitunum en spænska framleiðslan hafði sama hanann, bara miklu stærri.  Þessu lógói hefur verið skipt út fyrir R sem nú prýðir Rossignol skíðin.  Félagi bloggara var einmitt á Rossignol skíðum framleiddum á Spáni en við hlið hans í röðinni var ung stúlka á frönsku útgáfunni.  Hún horfði á skíðin til skiptist og missti svo út úr sér;  ,,your cock is bigger than mine"  Félaginn rak upp hlátur og hvað við;  ,,I sourly hope so"  en stúlku kindina setti dreyrrauða þegar hún fattaði hvað hún hefði sagt.

En þetta er nú bara bull til að létta tilveruna í grámyglulegri alvörunni.


Óhugnaleg pólitík

Það er óhugnalegt að heyra með hvaða hætti sjávarútvegráðherra talar um sjávarútveginn.  Það þarf skapa sátt um fiskveiðar með því að setja greinina á hliðina?  Verður sátt um sjávarútveg með þeirri firringarleið sem ríkisstjórnin virðist stefna að?  Í öðru orðinu á að huga að hagkvæmni og ráðfæra sig við hagsmunaaðila og bera undir sérfræðinga, en miðað við umræðuna verður ekkert af þessu gert.  Þetta er pólitískur loddaraleikur til að draga athyglina frá ráðaleysi í efnahangsmálum.  Það á að þjóðnýta sjávarútveginn og þar skiptir engu máli hvort hann verður hagkvæmur eftir breytinguna.

Það reyndar meðmæli með kvótakerfinu að Ólína Þorvarðar sé á móti því.  Hún hefur aldrei skilið útgerð eða fiskvinnslu né á hverju það byggir.  Það er einmitt firringin við fyrningarleiðina.  Rökleysan og skortur á útfærslu og hvernig á að deila út takmörkuðum gæðum, sem fiskistofnarnir eru. 

Þetta eru óhugnalegir tímar á Íslandi


mbl.is Veruleikafirrtur grátkór
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Harðsnúna Hanna

Svona eiga harðsnúnar ömmur að vera.  Ríkið gangi á undan í hagræðingu, hugsa um framleiðni fyrst og fremst.  Draga úr sóun og kostnaði, án þess að minnka þjónustu.  Allt hljómar þetta vel og manni gæti bara litist vel á framhaldið.

En því miður heldur þetta ekki vatni og lekur eins og gamall ryðgaður bárujárnskúr.  Gamla flugfreyjan meinar því miður ekkert með þessu og í besta falli hægt að kalla þetta vandræðagang.  Það er greinilegt að ráðaleysið er algjört.

Á sama tíma gengur í fram í offorsi gegn útgerð og fiskvinnslu í landinu, þar á að draga úr hagræðingu og framlegð, allt í nafni ,,réttlætis"  Aldeilis að ná sér niður á kvótagreifunum og færa auðlindina til almennings.  Þegar kemur að mikilvægustu atvinnugrein landsins þar þjóðin ekkert að hugsa um að draga úr kostnaði eða auka hagræðingu, hvað þá að halda í við það sem hefur áunnist undanfarna áratugi.  Rústa helv. sjávarútvegnum.  Ég kalla fyrningarleiðina ,,firringarleiðina"  Af umræðunni virðist mér andstæðingar sjávarútvegs og talsmenn firringarleiðar vera firrtir öllum skilning á sjávarútveg og þeir sem virðast ætla að ráða för hafa aldrei komið nálægt veiðum eða vinnslu.  Það er erfitt að rökræða við menn um málefni sem þeir skila alls ekki.

Ég er eiginlega farinn að hallast á það með gamla Geir Haarde að biðja guð að blessa íslendinga.  Það er bara ekkert annað eftir.


mbl.is Leita verður allra leiða til að draga úr kostnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrningarleið - svar við skrifum Gísla Halldórs Halldórssonar Hermanssonar

Vegna ágætar greinar félaga míns, Gísla Halldórs um fyrningarleið aflaheimilda vill undirritaður gera eftirfarandi athugasemdir:

Í fyrsta lagi hnýt ég um þá fullyrðingu G.H. að meginþorri þjóðarinnar sé sammála mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna um að kerfið sé óréttlátt, ekki síst fyrir það að fæstir hafa kynnt sér þennan úrskurð né forsendur hans.  Nefndin leggur út frá því hvernig kvótanum var úthlutað í upphafi en markaður hefur verið látinn ráða að mestu síðan, fyrir utan slæm afskipti ríkisins sem kallað hefur á alls kyns brask.  Komið hefur fram að núverandi eigendur aflaheimilda hafa keypt kvótann eftir setningu kvótalaga 1984, yfir 80%, þannig að þá væri verið að hengja bakara fyrir smið ef menn ætla að leiðrétta svokallaðan gjafakvóta.  Einnig er rétt að benda á að mannréttindanefnd S.Þ. hefur enga stjórnskipulega stöðu hér á landi og þetta meingallaða álit hennar gengur í berhögg við dóma Hæstaréttar Íslands, sem telur að grunnreglur kerfisins séu málefnalegar og standist ákvæði stjórnarskrár.  Að láta slíkt álit ráða för myndi því vega að réttarríkinu. 

Hvað Gísli Halldór á við með að helsti galli kerfisins sé að ekki sé virkur markaður með aflaheimildir er erfitt að skilja.  Það er hinsvegar hægt að taka undir að forsenda fyrir hagkvæmni kerfisins er að veiðiheimildir leiti til þeirra sem best standa sig, ekki bara við veiðar, heldur vinnslu og markaðsetningu.  Að skussunum verði úthýst og hámarks hagkvæmni verði náð í nýtingu á þessari mikilvægu auðlind Íslendinga.  Undanfarin ár hefur nálægð við fiskimið haft minna að segja, vegna þess hvað samgöngur hafa batnað og aðgangur og nálægð við markaði vegið þyngra í afkomu.  Framleiðendur hafa verið að færa sig frá einsleitri framleiðslu á frosnum hvítum fiski, í samkeppni við t.d. Kína, yfir í sölu á freskum fiski.  Slík markaðsetning byggir hinsvegar á tryggum aðgangi að hráefni árið um kring til langs tíma og því gætu dagleg eða mánaðarleg uppboð á aflaheimildum orðið henni fjötur um fót.  Hinsvegar vantar algerlega útfærslu á úthlutun aflaheimilda í umræðu fyrningasinna en á máli G.H. má skilja að uppboð eftir fyrningu, hver svo sem á að sjá um þau, verði tíð.

Markaður fyrir fisk hefur gjörbreyst undanfarin ár og sóknarfærin liggja í beinum samskiptum við smásölukeðjur og veitingastaði.  Slíkir aðilar gera miklar kröfur um ferskleika, gæði og afhendingaröryggi.  Laxeldi er gott dæmi um mikinn árangur á þessu sviði en þar hefur mönnum tekist að stytta virðiskeðjuna þannig að laxabóndi sem selur smásölukeðju í Bretlandi heldur eftir allt að 40% af smásöluverði, en sambærilegt í frystum þorski er í kringum 12% til útgerðar.  Ástæðan er fullkomin stjórnun á virðiskeðju með gæði og öryggi í afhendingu í fyrirrúmi.  Þarna liggur mesta sóknarfæri íslensks sjávarútvegs, en fyrningarleiðin gengur þvert gegn jákvæðri þróun í þessum efnum.  Útgerðarmaðurinn þarf að geta skipulagt sig langt fram í tímann, í samvinnu við markaðinn og stjórnun virðiskeðjunnar í gegnum veiðar, vinnslu og sölu.  Öll óvissa, eins og stöðug uppboð aflaheimilda, þar sem útgerðarmaður og fiskverkandi, veit ekki hvort hann fái aflaheimildir næstu daga eða vikur, útilokar slíkt markaðstarf.

Gísli Halldór talar um núverandi kerfi komi í veg fyrir nýliðun i greininni!  Ekki verður séð að það eigi við í Ísafjarðarbæ og Bolungarvík.  Nánast allir sem ráða yfir umtalsverðum aflaheimildum í dag eru nýliðar í greininni, og allir stóru aðilarnir eru horfnir; Íshúsfélag Ísfirðinga, Gunnvör, Hrönn, Norðurtanginn, Íshúsfélag Bolungarvíkur og fyrirtæki á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri.  Nýir menn eru teknir við sem sýnir mikla nýliðun í greininni.  Ef til vill er nýliðun ekki of lítil í fiskveiðum heldur frekar of mikil sem ógnar stöðugleika.

Síðan bendir G.H. á að kerfið sé gallað þar sem eigendur nýtingarréttar veiðiheimilda greiði ekki fiskveiðiarðinn beint til ríkisins!  Þetta er mikill misskilningur hjá honum og ekki gott að vita hvaðan hann hefur að slíkt sé ,,aðalsmerki góðrar fiskveiðistjórnunar"  Það sem skiptir máli er að kerfið sé hagkvæmt og hámarki framleiðni þannig að fiskveiðiarður myndist.  Þessum arði þarf síðan að dreifa réttlátt til samfélags og þjóðar.  Slíkur arður og eðlileg dreifing hans er forsenda tilvistar sjávarbyggða og skattlagning ríkisins á nýtingarréttinum er bein ógnun við afkomu þeirra.

G.H. segir að til að Vestfirðingar fái notið nálægðar sinnar við fiskimiðin, líkt og í hina góðu gömlu daga, þurfi stöðugt að bjóða upp kvótann og arðurinn af uppboðum renni til ríkisins.  Rétt er að benda á að Vestfirðingar sitja ekki við sama borð og aðrir landsmenn þegar kemur að kvótaeign.   Kvótaeign á Vestfjörðum er langt yfir meðaltali á landinu öllu miðað við íbúafjölda, eðlilega þar sem um sjávarbyggðir er að ræða.  Ekki verður séð að breyting á því verði Vestfirðingum til góða en gæti e.t.v. hugnast þéttbýlisstöðum í kringum höfðuborgina.    

Það er með ólíkindum á slíkum ógnartímum og nú ríkir skuli stjórnvöld velja þann kost að skapa óvissu í mikilvægustu útflutningsgrein þjóðarinnar með hugmyndum um að svifta útgerðir nýtingarrétti aflaheimilda.  Ganga gegn hagsmunum sjávarþorpa og þeim mönnum sem byggt hafa upp farsælan sjávarútveg á Íslandi.  Allt í nafni sátta og samlyndis!  Er líklegt að fyrningarleiðin sætti þjóðina í þessu mikla hagsmunamáli hennar?  Miðað við viðbrögð margra sveitarstjórnarmanna og talsmanna greinarinnar, er ekki líklegt að þessi dæmalausi poppúlismi skapi sátt um sjávarútveginn.  Ef gengið er útfrá því að veiðar verði áfram takmarkaðar og stjórnvöld taki tillit til sjálfbærni veiðistofna við ákvörðun um veiðimagn, er þá líklegt að þeir sem ekki fá kvóta verði sáttir?  Ólíkt núverandi kerfi væri öllu líklegra að menn myndu fyrst fjárfesta í tækjum og tólum síðan vonast til að geta leigt kvóta af ríkinu.  Þetta myndi því kalla á óþarfa fjárfestingu og ganga þannig þvert gegn upphaflegum markmiðum kvótakerfisins, að hámarka framleiðni í greininni.  Enda myndi ríkisvaldið, sem nú myndi skammta veiðiheimildir úr hnefa, nota annað en hagkvæmni við þá úthlutun eins og dæmin sanna. 

Niðurstaðan er sú að nýliðinu er tryggð í núverandi kerfi og stöðug uppboð aflaheimilda kemur í veg fyrir frekari sókn á mörkuðum.  Bein skattlagning ríkisins er skattlagning á sjávarbyggðir og hugnast varla öðrum en stóru þéttbýlustöðunum.  Pólitísk úthlutun aflaheimilda er ekki til þess fallinn að tryggja hagkvæmni, heldur ,,réttlæti" stjórnmálamannsins.   Þá yrðu veiðiheimildir lítils sem enskis virði, eins og þær voru fyrir setningu kvótalaga.


Ósvífinn hani

fer_til_nebbi_006.jpgÁður hefur verið sagt frá hanagali hér í Bugalobi fyrir allar aldir á hverjum morgni.  Nú hefur mesti hávaðaseggurinn, sá sem býr í húsinu austan við bloggara, bætt gráu ofaná svart.  Ósvífni hans er takmarkalaus.  Nú sendir hann hænur sínar yfir í nágranagarðinn til að matast alla daga.  Sjálfur hvílir hann sig eflaust til að geta hafið upp raust sína síðdegis, svo ekki sé talað um að vakna snemma.  Fyrir klukkan fimm alla daga.  Ekki eru gerðar undantekningar á helgum hjá mínum manni.

Ég ætti kannski að elda hana í víni, en það er einmitt galdurinn við þann rétt að kjötið er látið meyrna í rauðvínslegi, þannig að jafnvel ofurseigt kjöt verður mjúkt eins og mörbráð.  


Grimmustu hryðjuverkamenn heimsins

Það er gott að þessir glæpamenn hafa verið sigraðir.  Heimurinn hefur horft upp á hvernig þeir hafa notað sitt eigið fólk, Tamíla, sem skjöld í bardögum við stjórnarherinn og jafnvel brytjað niður saklausa borgara.  Þetta eru grimmustu hryðjuverkamenn heimsins og meðal afreka þeirra er að finna upp sjálfsmorðsárásir.  Þeir hafa neytt Tamíla um allan heim til að senda peninga í stríðsreksturinn og hótað að drepa fólk þeirra á Sri Lanka ella.  Stundað alls kyns glæpastarfsemi um allan heim til að fjármagna stríðsreksturinn.

En nú vonar maður að stjórnvöld á Sri Lanka geri vel við Tamíla, sem eru í minnihluta í landinu, og jafni hlut þeirra gagnvart Shinalee.  Tamílar eru hindúar en Shianlee eru búddistar.  Líf Tamíla hefur verið erfitt á Sri Lanka undanfarin ár og kominn tími til að bæta þar um og gefa þeim tækifæri.

 


mbl.is Tamíl-Tígrar gefast upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð fyrirmynd ríkisstjórnar

Þarna er komin góð fyrirmynd ríkisstjórnar Samfylkingar og V.G.  Ríkið allt um yfir allstaðar.  Almáttugt og ,,réttlátt"

Úthluta aflaheimildum, skattleggja sykur og hafa vit fyrir almúganum sem ekki kann fótum sínum forráð. 

Eitt sinn fyrir löngu síðan sat í boði vinar míns í matsal Alþingis.  Einn ágætur framsóknar-sjálfstæðismaður var þar með háreysti að lýsa skoðunum sínum á sölutregðu á lambakjöti, enda bóndi að austan.  ,,Það á að banna þetta helv. pasta"  En þá hafði almúganum dottið sú fyrra í hug að kaupa pasta og elda ítalska rétti, í staðin fyrir að kaupa frosna skrokka í grisjupokum. Hugo hefði ekki verið lengi að leysa svoleiðis misskilning hjá þjóðinni.  Jón Bjarnason mun örugglega taka upp slíka viðskiptahætti í framtíðinni. 

Til hamingju kjósendur V.G.


mbl.is Taka yfir pastaverksmiðju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á ferð um Úganda

fer_til_nebbi_025.jpgVið skruppum félagarnir til tveggja héraða við kyoga vatn til að heimsækja héraðastjóra vegna verkefnis sem við rekum.  Mér varð hugsað til þess þegar við ókum í gegnum fátækleg þorpin hversu lítil tækifæri þetta fólk fengi í lífinu.  Hvað Íslendingar hafa það í rauninni gott, þrátt fyrir kreppu og stundar erfiðleika.

Við gistum í Nebbi, sem er höfuðstaðurinn í samnefndu héraði og komum á hótelið upp úr klukkan fimm.  Ég kannaðist við hótelið þar sem við höfðum snætt hádegisverð þar fyrr í vetur.  Það reyndist hinsvegar rafmagnslaust en hótelstýran sagði okkur að rafallinn yrði ræstur upp úr sjö og þá fengjum við ljós.  Ég var með ágæta bók að lesa en þar sem glugginn á herberginu var svo lítill að varla tírði inn, svo ég fór út í garð að lesa á meðan einhverjar birtu naut við.  Við fengum okkur kvöldverð eftir að rafallinn var ræstur og komið rafmagn á flest nema herbergin.  Kvöldmaturinn var ósköp óspennandi en sást þó lítið til hans í veikri týrunni.  Kjúklingaglás með bananastöppu og hrísgrjónum, borið fram með klesstum brauðhleifum.  Sjálft kjötið var óætt enda ólseigt en sósan var ágæt út á grjónin.  Engin eftirréttur var fáanlegur, ekki einu sinni ávextir.  Hér borða menn vegna þess að þeir eru svangir en ekki í gamni sínu, eins og við gjörspilltir vesturlandabúar. 

Mér varð hugsað til föður míns sem fæddist í moldarkofa og ólst upp við rafmagnsleysi og myrkur, sem nóg er af á Íslandi yfir vetrartímann.  Fólkið í Fljótavík borðaði ekki í gammi sínu, heldur til að fá orku og byggingarefni fyrir líkamann.  Þegar rökkva fór var ekkert annað að gera en að leggja sig þar sem ekki sást til neinnrar vinnu en eftir að myrkrið var skollið á var hægt að kveikja á týru og sjá til.

fer_til_nebbi_016.jpgVið ákváðum að fá okkur gönguferð um bæinn eftir matinn.  Það var skollið á niðamyrkur og eins og konan af Langanesinu sagði ,,það sást ekki milli augna".  Bærinn hafði verðið rafmagnslaus í hálft ár.  Rafveitan hafði verið einkavædd og svo bilaði stóri rafallinn (og olíuverðið fór upp) og það var verið að bíða eftir varahlutum.  Menn reiknuðu með að minnsta kosti öðrum sex mánuðum áður en viðgerð lyki.

Það var ævintýri líkast að ganga um miðbæinn.  Myrkrið var svo þykkt í mollu hita og aðeins tírði í glóandi kolin þar sem maís var grillaður á hverju horni.  Maður fann fyrir fólkinu og heyrði skvaldur og hlátur en sá varla nokkurn hlut.  Þó var einstaka staður sem hafði rafal og þar skein skær og tær flúorbirtan út á götuna og mergðin kom í ljós.  Einstaka verslun var með kertaljós og var nánast eins og ofurbirta þeirra skæri augun.  Mér varð hugsað til þorpsmyndarinnar að Sæbóli í Aðalvík í upphafi síðustu aldar.  Ekkert rafmagn en þó smá týra út um glugga hér og þar.

Þarna voru hárgreiðslustofur, veitingastaðir, barir og hvaðeina.  Þegar við gengum fram hjá einum þeirra var kallað á okkur „Hey White man, Americano.  Come and have a drink"  Við gengum áfram og í gegnum myrkrið sáum við móta fyrir ljósastaur sem fyrir hálfu ári lýsti upp torgið sem við gengum framhjá á leið á hótelið okkar.

Ég fékk rafljós til að lesa til klukkan tíu en þá þagnaði rafallinn, og fljótlega allt skvaldur sem barst  inn um gluggann.  Það var komin nótt og tími komin til að fara að sofa.

Rétt áður en svefninn sigraði og ég leið inn í ómeginsveröld hvíldarinnar varð mér aftur hugsað til Hornstranda og þeirra aðstæðna sem faðir minn ólst upp við.  Hann hafði það fram yfir þetta fólk að það voru þó tækifæri til að sigra heiminn á hjara veraldar.  Koma sér í kaupstaðinn og hefja nýtt líf með rafmagni.

Um morguninn þegar ég vaknaði uppgötvaði ég að hótelið var líka vatnslaust.  Engin morgunsturta í þetta sinn.  Meðan við borðuðum morgunverðinn og ég hafði kvartað við félaga minn, spurði hann hvort ég hefði ekki séð gula brúsann.  Þrjátíu lítra brúsi fullur af vatni.  Áður en við fórum til fundar með héraðastjórninni skellti égfer_2_a_londunarsta_i_065.jpg mér í sturtu og skipti um föt.  Enn einn ósiður vesturlandabúans sem þekkist ekki á Hornströndum.

Það var fimm tíma akstur til Kampala.  Við ókum fram hjá mörgum stórslysum í umferðinni.  Meðal annars komum við að skömmu eftir alvarlegan árekstur vörubíla þar sem líkin lágu um vettvanginn eins og hráviðri.  Það er algengt að farþegar séu upp á varningi á ofurhlöðnum vörubílum, og ekki að spyrja að ef þeir lenda í árekstri.  Það er einhvern veginn erfitt að losna við myndina úr huganum en farartæki og ökumenn eru hættulegir á þjóðvegum Úganda.


Við fyrsta hanagal

Bloggari er ekki hissa á óánægju kærandans vegna hanagalsins.  Í Bugolobi í Kampala þar sem bloggari býr er mikið um hana, og þar af leiðandi hanagal.  Illt er að venjast þessu en þeir byrja að gala upp úr klukkan fimm á morgnana.  Eins og áður segir er ekki um einn hana að ræða eins og í Vestmanaeyjum, heldur virðast þeir vera i hverju húsi og mynda því heilmikinn kór.  Síðan þegar sólu fer að halla síðdegis, svona upp úr klukkan fimm síðdegis, taka þeir við sér aftur og láta í sér heyra.  Sjálfsagt eru þeir að ganga í augun á hænunum með söngvaseið, en mikið er þetta hvimleitt.

Skömmu eftir að hanarnir ljúka morgunsöngnum taka moskurnar í Kampala við, en þær eru útbúnar hátölurum þannig að boðskapurinn fari nú ekki fram hjá neinum.  En sem betur fer er fjarlægðin svo mikil frá mínu heimili, ólíkt og með hanana, að veldur litlu sem engu ónæði, og er frekar eins og óljóst söngl eða suð.

Ég las eitt sinn bók sem heitir "A year in Provance" og segir af breskum hjónum sem fluttu til Frakklands og keyptu sér bóndabæ í Provance héraðinu.  Nágranni þeirra fékk þýskara í næsta hús sem svölluðu og drukku allar nætur, og héldu þannig vöku fyrir bóndanum.  Lítið gekk að tala þá til enda héldu þeir uppteknum hætti.  Bóndinn fékk sér þá hana sem byrjaði að gaula um líkt leiti og þýskararnir lögðust til svefns, en þeim varð þá lítið svefnsamt.  Þeir kvörtuðu við bóndann sem sagðist lítið geta gert við hanagali á morgnana, enda væri þetta sveit.

Það endaði með því að þjóðverjarnir gáfust um, seldu húsið og hypjuðu sig á brott.  Bóndinn tók þá hanann, hjó af honum hausinn og eldaði þjóðarrétt frakka, hana í víni.  Þannig þakkaði hann félaga sínum hananum fyrir hjálpina við að losna við óværuna.


mbl.is Galandi hani veldur enn ónæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og meira golf

stina_i_ganda_008.jpgÞað sér vel til sólar þegar vel gengur i golfinu.  Það byrjaði reyndar með rigningu þegar við fórum saman þrír landar og félagar á sykurekruna, Meta Golf Course, í gær.  En fljótlega birti upp og sólin skein og staðurinn skartaði sínu fegursta.  Völlurinn er hæðóttur, 18 holu og blómum skreyttur með skrautlega páfuglum röltandi um og gefandi frá sér hátt skræk. stina_i_ganda_053_845491.jpg

Það eru innan við fimmtíu kílómetrar á völlinn að heiman en það tekur þó upp undir tvo tíma að aka þessa vegalengd.  Þó þjóðvegurinn, Jinja Road, sé tengibraut við Kenía er fjöldi bíla langt umfram umferðarþol.  Meðalhraðinn fer niður í fimm til tíu kílómetra á klukkustund og oft er maður stopp í langan tíma.  Mannlífið hinsvegar blómstrar meðfram þessari lífæð Úganda og allskyns handverksmenn og iðnaður þrífst meðfram þjóðveginum.

Völlurinn var nýlega opnaður fyrir almenningi en hann er í eigu Meta fjölskyldunnar sem er af Indversku bergi brotin og lifði meðal annars af síðasta konung Skotlands, Idi Amin.  Þegar við spurðum hvort páfuglarnir væru ræktaðir til matar, var brugðist við með vorkunnar svip yfir slíkri fáfræði.  Þeir eru jarðaðir með viðhöfn þegar þeir deyja.  Svona Búddisma - Hindúisma viðhorf þar enda skipar þessi fugl meðal annars mikils sess á Sri Lanka og karlfuglinn skreytir meðal annars skjaldamerki ríkisins.

stina_i_ganda_010.jpgEin erfiðasta brautin á vellinum er sú þrettánda þar sem þarf að slá með ás yfir hávaxin bambustré og engin leið að sjá brautina handan við þau.  Það þarf að setja boltann vel til vinstri til að ná hæð á hann þannig að hann fljúgi yfir trén og lendi á brautinni.  Utan brautar er illviðráðanleg órækt sem mjög erfitt er að slá úr.  En skemmtilegustu brautirnar eru níunda og átjánda hola, sem liggja hlið við hlið nálægt holu nítján.  Þar er slegið um 110 metra yfir gil sem ekkert fyrirgefur.  Báðu megin við flötin eru sandgryfjur og því má ekki miða illa.  Ég nota níuá þessum holum og hef verið nokkuð heppinn að eiga við þær.  Það er mikilvægt að ná góðri holu fyrir tetíma í hálfleik og eins að klára leikinn vel og fara með birtu í brjósti eftir leik dagsins.

Það er hinsvegar driverinn sem er að "drive me craysy" Þetta er svona áskorunin í dag sem heldur vöku fyrir mér og ræður því hvort dagurinn sem góður eða slæmur.  Svona eru nú áhyggjur manna misjafnar.  Ég hugsa að áhyggjur fólks á flóðasvæðum Brasilíu séu aðrar en mínar þessa dagana en svona eru áhyggjum heimsins misskipt.stina_i_ganda_045.jpgstina_i_ganda_013.jpg

 


Hetjur hafsins á norðurslóðum

dsc02800.jpgMeð blóðugum nöglum gat ég klórað mig upp úr skurðinum og upplifði dögun eftir tveggja vikna myrkur og vonleysi.  Bakkarnir úr sandi en með hvössum brúnum sem særa sálina inn að merg.  Golf er erfið íþrótt.

En í gær átti ég góðan leik á golfvellinum í gær með hollenskum hjónum, reyndar er frúin frá Kóreu, en eiginmaðurinn er fjármálastjóri Framkvæmdarstjórnar ESB í Úganda.  Sveiflan var frábær og stutta spilið með ágætum.  Ég fann að ég var farinn að bíta í hælana á vini mínum Gísla Jóni í forgjöf.  Í dag fór ég á æfingavöllinn og bókstaflega allt gekk upp.  Og ég sem var að ákveða að hætta í þessari helv. íþrótt. 

Það er notalegt að njóta ylsins og birtunnar af sólinni eftir svartnættið og vonleysið síðustu tvær vikurnar.  Maður valhoppar heim úr vinnunni og allt er svo létt og skemmtilegt.  Mér finnst ég vera almáttugur.  Reyndar velti ég því fyrir mér hvort ég myndi klára að fara í sund niður á Suðurtanga í 4° C heitum sjó.  Svona eins og hlaupahópurinn með eiginkonuna og tíu öðrum kynsystrum, og þremur körlum, innanborðs afrekuðu í gær.  Hópurinn gerði lítið úr afrekum Hallgríms Bláskógs sem synt hefur um Hornstrandir að sumarlagi undanfarin ár.  Það hriktir í stoðum karlmennskunnar innan gönguhópsins og ekkert annað ráð fyrir hetjur eins og Þorstein og Viðar en skutla sér í norður Atlantshafið og taka sundsprett.  Afrek hlaupahópsins ýtir gjörsamlega til hliðar snjóböðum gufugengisins í Bolungarvík undanfarin ár. Það er best að ég labbi niður að Viktoríuvatni og skutli mér í það.  Ég læt ósagt um hitastigið en breiddargráðan er 0°.  picture_019.jpg


Enski boltinn

images_838565.jpgÉg skrapp í PayLess áðan til að kaupa ávexti og grænmeti.  Á leiðinni úr bílnum rakst ég á eldri mann sem heilsaði mér og spurði hvort ég væri Englendingur.  Þegar ég sagðist vera íslenskur; spurði hann hvar við værum í enska boltanum, hvort ég héldi með Manchester eða Chelsie.  Ég sagði honum að krakkarnir mínir skiptust ójafn á milli Manchester og Liverpool og á meðan við gengum að versluninni þá hvað hann við og sagði ,,þú ættir að halda Arsenal að þeim"  Þar skildust leiðir þar sem ég átti leið inn en hann framhjá en áður en við kvöddumst gat ég þess að tengdasonurinn væri einmitt stuðningsmaður Arsenal.  Það lyftist brúnin á karli og hann rétti mér höndina og greip þéttingsfast um hana.  Brosið var svo einlægt og ánægjan skein úr hverjum drætti.  Það er alveg merkilegt hvað enski boltinn hefur mikil áhrif um allan heim.  Kannski ég ætti að halda með Arsenal þar sem Gunners og nafnið Gunnar eru náskyld.


Vinstri stjórn eða þjóðstjórn

Hvers vegna þjóðstjórn?  Ef horft er á ástandið með augum leikjafræði og tilfinningar teknar út og ísköld rökhyggja notuð til að meta stöðuna og það sem framundan er lítur þetta svona út:

Þegar sigurvíman dvínar hjá vinstri flokkunum og ískaldur veruleikinn tekur við er staðan sú að þörf er á gríðarlegum niðurskurði í ríkisfjármálum.  Talað er um að stoppa upp í 150 milljarða gat í fjárlögum fyrir næsta ár til að ná endum saman.  Í fyrri vinstri-ríkisstjórnum var venjan að ýta vandanum á undan sér og taka lán, hjá Seðlabanka (peningaprentun), lántöku hjá þjóðinni (ríkisskuldabréf) eða erlendri lántöku, eða blöndu af þessu öllu saman.  Nú er hinsvegar sú hliðin uppi á teningnum að engin af þessum leiðum eru færar, nema helst að prentar ónýtar krónur.  En þá kemur að IMF sem setur kröfur sem koma í veg fyrir það.  IMF hefur sett reglur um endurreisn sem ekki verður fram hjá komist og því fokið í flest skjól, nema að skera niður útgjöld.

Engum skal detta í hug að hægt sé að skera niður slíkar upphæðir án þess að koma við velferðarkerfið, heilbrigðismál eða menntamál.  Stærðargráðan er einfaldlega sú að ekki verður hægt að ná endum saman með öðrum hætti, og uppsagnir þúsunda ríkisstarfsmanna blasir þannig við.  Það er svo sem ekkert óeðlilegt ef tekið er mið af gríðarlegri útþenslu ríkisins undanfarin ár, sem nú þarf að leiðrétta. 

Slíkar aðgerðir verða mjög óvinsælar og viðbúið að þeir stjórnmálaflokkar sem takast á við þær fái á baukinn þegar fram líða stundir.  Ef horft er fjögur ár fram í tímann, gæti Sjálfstæðisflokkurinn verandi á hliðarlínunni í stjórnarandstöðu sótt verulega á við slíkar aðstæður.  En það er heldur betur ,,ósanngjarnt" miðað við að flokkurinn er ,,ábyrgur" fyrir ástandinu.  Hversvegna ætti hann að rétta úr kútnum meðan vinstri flokkarnir puða við að laga ástandið eftir ,,óstjórn" Sjálfstæðisflokksins.  En laun heimsins eru vanþakklæti og það ættu stjórnmálamenn að gera sér grein fyrir, og sennilega gera þeir það. 

Það er því hætt við að vinstri flokkarnir veigri sér við að taka nauðsynlegar ákvarðanir fyrir þjóðina á komandi kjörtímabili, til að forðast því sem lýst er hér að framan.  Það væri skelfilegt fyrir þjóðin og gæti riðið lýðveldinu að fullu, allavega fjárhagslegu sjálfstæði þess.

Því er besta ráðið að gera alla flokka ábyrga fyrir þeim nauðsynlegu ákvörðunum og aðgerðum sem framundan eru, og kjósa svo að loknum fjórum árum, og þá standa allir við sama borð, og standa vonandi fyrir öðrum og huggulegri áskorunum.  Málið er að þó pólitísk hugmyndafræði sé áhrifavaldur í því sem framundan er, eru þetta mikið grundvallar ákvarðanir sem þarf að taka.  Skera niður kostnað ríkisins og ná þannig jafnvægi í ríkisfjármálum.  Skattlagning er tálsýn því allt of fáir hafa borð fyrir báru til að taka á sig auknar skattbyrðar og þær draga úr athöfnum og atvinnusköpun.  Finna þarf lausn á peningamálum þjóðarinnar, með hennar hagsmuni í fyrirrúmi þar sem hent er fyrir róða gömlum kreddum og þjóðerniskennd.  Byggja upp traust á efnahagslífið, innanlands og sérstaklega erlendis til að laða að fjármagn og fjárfestingar sem verða okkur lífspursmál.

Þjóðin hefur ekki efni á sundurlyndi og átökum og þarf því að snúa bökum saman í þeim ólgusjó sem framundan er.


Þjóðstjórn

Ég er sammála Atla með hugmynd hans að þjóðstjórn.  Ástandið er svo alvarlegt að löngu er kominn tími til að menn fylki liði til að takast á við vandann.  Þetta minnir svolítið á skip sem er að sökkva en enginn er að ausa vegna rifrildis um hver eigi að stjórna því.  Á meðan sekkur skipið með öllum innanborðs.  Eftir kosningum og því pólitíska uppgjöri sem þeim fylgdu ætti þjóðin að vera tilbúinn að snúna bökum saman til að vinna sig út úr vandanum.  Ég hef reyndar boðist til að senda særingarmenn frá Afríku til að losa um þá illu anda sem heltekið hafa hluta þjóðarinnar.  Þannig að þeir geti ýtt fortíðinni til hliðar og tekist á við framtíðina.

Ég er þó ósammála Atla hvað varðar ESB.  Með aðildarumsókn og stefnu á upptöku evru byggjum við grunn að tiltrú á íslenskt efnahagslífs og opnum þar með fyrir möguleika á erlendu fjármagni til landsins, sem verður okkur lífsspursmál til að takast á við núverandi vanda.  Þjóð sem hefur skýra stefnu í því hvernig hún ætlar að leysa áratuga langan vanda sinn í stjórnun peningamála, vekur meiri tiltrú en sú sem vinglast fram og til baka, slær úr og í og kemur með tillögur og hugmyndir sem eru fyrirfram dauðadæmdar.  

Íslensk þjóð hefur aldrei staðið frammi fyrir eins mikilli áskorun og nú.  Tilvist hennar stendur og fellur með ákvörðunum sem teknar verða á næstu misserum.  Þjóðstjórn er góð hugmynd til að takast á við slíkan vanda og ýta til hliðar pólitísku argaþrasi rétt á meðan báturinn er ausinn.


mbl.is Atli: Atvinnuleysið er þjóðarböl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.9.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 287352

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband