29.6.2009 | 15:46
Fýrtomma á ská í sigurverkið
Á táningsárum okkar Nonna Gríms langaði okkur mikið til að verða milljónamæringar og ræddum oft um möguleika til auðsafnaðar. Eitt sinn eftir miklar vangaveltur töldum við harðfiskverkun liggja vel við, enda verð á afurðinni nokkuð hátt miðað við innkaup á hráefni. Einnig blasti við sá möguleiki að nýta þurrkklefa sem faðir minn, Þórður Júl, hafði sett upp en hafði aldrei verið notaður.
Pabbi myndi svo segja til og útskýra framleiðsluaðferðir fyrir hinum ungu athafnamönnum. Hann sagði að eftir að hafa flakað fiskinn þyrfti að dýfa honum í saltpækil. Styrkur pækilsins skyldi vera þannig að kartafla flyti þegar búið væri að stinga fýrtommu nagla í gengum hana. Síðan að raða flökunum roðlausum á grindur og raða í þurrkklefann og gefa þessu nokkra daga með blæstri og hita. Við töldum rétt að byrja stórt og keyptum því eitt og hálft tonn af ýsu. Við stóðum við flökun allan daginn og réðum vini og ættingja í vinnu. Það reyndist þrautin þyngri að fá kartöfluna til að fljóta með naglanum í gegn. Reyndar tókst það alls ekki þó pækillinn væri orðin saltmettur, en við létum það duga.
Það var komið fram á nótt þegar búið var að raða fiskinum í klefann og þá var kveikt upp í gufukatli rækjuverksmiðju pabba, en hann var tengdur við þurrklefann sem var í ,,hjallinum" upp af verksmiðjunni. Þegar við röltum svo upp eftir að morgni daginn eftir, sáum við að búið var að skrúfa fyrir gufuna, en það var hægur vandi að kippa því í liðinn. Við veltum því lítið fyrir okkur að gufustrókur stóð upp úr rækjuverksmiðjunni að Vinaminni, enda var allt á fullu í í að sjóða og pilla rækju, en strókurinn minnkaði nú til muna eftir að við hleyptum á hjallinn, en þar byrjaði hinsvegar að rjúka nokkuð myndalaga.
Það leið ekki á löngu þar til karlinn kom hlaupandi upp eftir með bægslagang og skipaði okkur að skrúfa fyrir gufuna, ketillinn hefði ekki undan og rækjuverksmiðjan var stopp. Nú var komið babb í bátinn og við fylgdumst áhyggjufullir með kólnandi blæstri í þurrkklefanum. En um leið og hefðbundnum vinnsludegi lauk í verksmiðjunni var skrúfað frá aftur og hitinn rauk upp í þurrkinum. En það var búið að skrúfa fyrir að morgni. Svona gekk þetta fram eftir vikunni en við fengum svo frið yfir helgina.
Einhvern vegin þornaði ýsan en hún reyndist brimsölt. Okkur var sagt að þetta myndi lagast ef við renndum henni í gegnum barningsvél. Ekki man ég hvar við grófum slíkt verkfæri upp en nú var ekki annað eftir en renna þurrum flökunum í gegn og pakka síðan framleiðslunni, og selja hana. Við töldum söluna nánast aukaatriði enda þóttumst við vissir um að slegist yrði um þessa góðu vöru. Við höfðum látið á-prenta 200 gr. plastpoka með mynd og innihaldslýsingu. Þetta átti að verða stórframleiðsla en ekki bara smá tilraunastarfsemi. Sigurbrautin var vel mörkuð og ekkert gæti komið í veg fyrir frábæran árangur.
Það urðu miklar umræður um hvað við ættum að gera við allan gróðann. Það þótti augljóst að karlinn yrði að víkja með rækjuverksmiðjuna fyrr en seinna, enda var það bara smá bisness miðað við stórfyrirtækið sem var að hlaupa af stokkunum. Við ákváðum að við værum báðir framkvæmdastjórar þannig að um það ríkti traust og gott samkomulag. Það urðu okkur hinsvegar mikil vonbrigði að Högni bankastjóri vildi ekki láta okkur fá afurðarlán, alla vega ekki svona fyrsta kastið. Það gerði ekkert til þar sem við áttum fyrir hráefninu og umbúðunum, en allt annað kostaði ekki neitt. Húsnæði, vélar og vinnulaun vorum ókeypis og á því byggði viðskiptahugmyndin.
Þegar búið var að pakka allri framleiðslunni var byrjað að selja. Salan var þyngri en búist var við enda framleiðslan brimsölt, meira að segja eftir að hafa farið í gegnum barningsvélina. Þetta var þyngra en tárum tók og nú voru góð ráð dýr. Það sem við höfðum talið nánast sjálfgefið að varan seldist, þurftum við að leita allra leiða til að koma þessu út. Að sjálfsögðu vorum við ekkert að segja frá þessum smá galla, svona í fyrstu, og höfðum sent kassa út um hvippinn hvappinn, sem nú voru endursendir með hraði. Við höfðum sent framleiðsluna í flugi, þar sem markaðurinn gat ekki beðið hennar.
Rétt er að geta þess að ein af ástæðum fyrir frábærri viðskiptaáætlun, sem jafnaðist á við seinni tíma áætlanir útrásarvíkinga, var að við höfðum frían aðgang að vörubíl. Þetta var 15 tonna Scania Vabis í eigu Þórðar Júl, sem hvorugur okkar höfðum reyndar próf á. Það gerði ekkert til þar sem bílnum fylgdi bílstjóri, á launum hjá Pabba, sem var Jens Magnferðson og var hann óspart notaður til að snatta fyrir framleiðsluna og skutla framkvæmdastjórunum. Þetta var nú svona óformlegt samkomulag við karlinn hann pabba, og án hans vitneskju.
En við vorum sem sagt staddir á Ísafjarðarflugvelli til að sækja 44 kassa sem einhver óánægður viðskiptavinur hafði hafnað, en aðeins 41 kassi hafði skilað sér. Starfsmenn flugfélagsins sögðu þetta vera ,,eðlileg afföll" þegar harðfiskur væri sendur með flugi. Sama hvað tveir framkvæmdastjórar muldruðu og tuldruðu um bætur, það var ekki á þá hlustað. Nú ungir menn á framabraut, sem reyndar höfðu orðið fyrir vægu bakslagi, tóku þá til sinna ráða. Með harðfiskkössunum sem skiluðu sér voru nokkrir kassar af vínberjum í geymslu flugfélagsins. Við skutluðum einum með og kölluðum um leið inn á skrifstofuna; ,,þetta eru eðlileg afföll" Starfsmennirnir voru búnir að fá nóg af athafnaskáldunum og svöruðu þessu engu og veittu athöfnum okkar enga athygli. Þannig að þegar Scaníunni var snúið frá flugvallarbyggingunni voru 41 kassi af harðfisk á pallinum og vínberjakassi við hliðina á okkur í farþegasætinu.
Jenni starði stórum bláum augum á kassann og stundi upp að hann hefði aldrei smakkað vínber. Nonni reif upp kassann sagði honum að fá sér eins og hann gæti í sig látið. Jenni átti í mestu vandræðum með aksturinn, enda tróð hann áfergjulega í sig lostætinu. Því verður ekki skrökvað að vínberjasafinn náði aftur fyrir eyru á bílstjóranum okkar, sem ljómaði að gleði yfir öllu saman. Það versta var að hann var veikur á launum í tvo daga á eftir, en það hafði engin áhrif á okkar rekstur.
En fyrirtækið bar ekki barr sitt eftir þetta og lokin urðu sú að Vestfirska harðfisksalan keypti lagerinn á niðursettu verði. Það var í gegnum gömul vináttu sambönd hjá pabba við Garðar úrsmið, sem hefur sennilega selt einhverjum börum framleiðsluna, enda kallaði hún fram óskaplegan þorsta við neyslu. Þetta sló svolítið niður í okkur Nonna og það leið þó nokkur tími áður en næstu hugmynd var hrundið í framkvæmd. Framabrautin með milljónir biðu okkar vinanna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.6.2009 | 18:05
Þriggja heimsálfu spjall
Það getur verið gaman að tækninni. Við vorum að enda við klukkutíma spjall, þrír gamlir vinir yfir þrjár heimsálfur í gegnum Skype. Bloggari í Kampala, Siggi Ásgeirs á Íslandi og Nonni Gríms í Seatle. Við hlógum ógurlega þegar við rifjuðum upp bernskubrekin og prakkaraskapinn. Nú er komið að því að skrifa atvinnusögu okkar, sem jafnast nærri því á við útrásarvíkingana. Málið er að maður á ekki að taka þessa hluti of alvarlega heldur að hafa gaman af og minnast ánægjulegra augnablika sem gera lífið þess virði að lifa því.
Fyrsta sagan mun heita ,,fýrtomma í ská í sigurverkið" og segir frá harðfiskverkun þar sem Þórður Júl var sérlegur ráðgajfi okkar. Sennilega kom það í veg fyrir að við urðum NonniGunn Group sem hefði gert okkur að milljónerum. Varlega áætlað.
27.6.2009 | 13:50
Hermann hani
Á meðan vinahópurinn í Hallgrími Bláskóg öslar suðurlandið í fyrstu hitabylgju sumarsins á Íslandi situr bloggari út i garði með féalaga sínum Hermanni hana. Hermann er einmitt hani nágrannans sem komið hefur hér við sögu áður og þenur raust sína klukkan fimm á hverjum morgni. En ósvífni hans er takmarkalaus. Hann hefur ekki bara sigað hænunum sínum í garð bloggara, heldur fylgja nú með hópur af afkvæmum, kjúklingum. Spígspora um lóðina á 12 Basarabusa og nærast á molum sem hringja af borðum bloggara. Í dag kom Hermann sjálfur til að skoða aðstæður og lita til með hænumhópnum sínum.
Í dag hafði bloggari ætlað að taka þátt í golfmóti til að ná niður forgjöfinni, en vegna ótrúlega slæms gengis á golfvellinum undanfarna daga hafði hann, eins og kaninn segir ,,chicken out" og ekki þorað að taka þátt. Það er eins og Hermann viti þetta enda gaf hann bloggara auga um leið og hann vaggaði fram hjá honum í garðinum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2009 | 16:43
Tíðindalítið af suðurvígstöðum
Það er lítið að frétta héðan frá miðbaug þar sem annað skammdegi ársins lúrir yfir íbúunum. Birtir varla fyrr en upp úr hálf sjö og orðið dimmt um kvöldmat. Á sama tíma arka félagar úr Hallgrími Bláskóg um suðuland Íslands, sautján að tölu, enda vantar bloggara í hópinn. Bloggari náði þó símasambandi við þá í morgun og lét vita af rigningu í dag, en spáin er góð fyrir næstu þrjá daga. Það sem skipti máli í veðurspánni er að hér eru menn þrjá tíma á undan og hafa því framtíðina fyrir framan sig, eins og konan komst svo vel að orði.
Helstu fréttir héðan eru þær að þegar bloggari kom heim eitt kvöldið fyrr í vikunni, bar vörðurinn við hliðið sig illa upp við hann og sagðist vera svangur. Honum var bent á að slíkt kæmi viðkomandi ekkert við, enda væri hann starfsmaður öryggisfyrirtækis sem hefur samning um að gæta öryggis íbúa við 12 Basarabusa, Bugalobi. En það runnu tvær grímur á bloggara enda greyptist náfölt og vesældarlegt andlit varðarins í huga hans. Haglabyssan hans væri nú ekki líkleg til að gagnast við varnir hússins ef ekki væri nein orka til að munda hana. Þannig að þegar inn í húsið var komið bað bloggari þjónustukuna um að færa honum te og brauðsneið.
Í gær hrindi þjónustukonan í bloggara í vinnuna til að segja honum þær fréttir að varðar skömmin væri búinn að vera við hliðið á þriðja sólarhring, án þess að vera leystur af. Hann hafði ekki fengið neitt að borða, nema kvöldmat bloggara og ekki komist í bað eða getað skipt um föt. Hann hafði ekki síma og enga talstöð, þó það væri partur af samning við öryggisfyrirtækið og gat því ekki látið vinnuveitandan vita af ástandinu. Rétt er að taka fram að rán eru daglegt brauð á þessum slóðum og því full ástæða til að gæta varkárni. Þennan sama morgun hafði bloggari átt erfitt með að vekja vörðinn þegar hann fór í morgunskokkið, reyndar fyrir allar aldir.
Sennilega var varðar vesalingurinn orðin orkulaus af matarskorti, enda búinn að vera við hliðið í á þriðja sólarhring án þess að vera leystur af. Það er rétt að taka því fram að verðir eiga ekki að vera lengur á vakt en 12 tíma í senn. Bloggari bað vinnukonuna að færa verðinum meintan kvöldverð bloggara frá kvöldinu áður, en hann hafði ófarvarendis snætt kvöldverð á veitingarstað og því var hann óhreifður í ískápnum. Síðar var haft samband við öryggisfyrirtækið og leitað skýringa og beðið um lagfæringu á vinnubrögðunum.
Héðan í frá er dagskipunin sú að þjónustukonan, sem býr í húsi í garði bloggara, færir vörðum te og brauðsneið á hverjum degi. Hún hafði miklar áhyggjur að gríðarlegum kostnaði við þetta, enda um hundruðir króna að ræða daglega. En það er lítið gagn í orkulausum vörðum sem ekki geta einu sinni mundað byssu sína gegn innrásaraðilum.
Bloggari ákvað að ganga lengra í málinu og nú er dagskipunin að vörðurinn í vinnunni, sá sem stendur grár fyrir járnum gegnt vopnuðum félögum sínum í Ameríska sendiráðinu (vöruhúsinu) fái tebolla og kex á hverjum degi. Bloggara varð það allt í einu ljóst að vörðurinn, með hríðskotariffilinn, hefði getað komið til hjálpar í síðustu viku þegar lögreglan og verðir Ameríska sendiráðsins handtóku hann fyrir myndatöku. Hann, eða reyndar hún, hefði getað stormað yfir götuna í ,,blitz krig" og frelsað bloggara fá þeim ódámum sem héldu honum föngum handan götunnar í hálfan annan klukkutíma, í RIGNINGU.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2009 | 05:07
Ofurfrúin
Það er alltaf gaman af ofurmennum. Og bloggari sem hélt að Eva Joly sérhæfði sig í að grafa upp spillingarmál og undanskot á peningum sem komið væri í skjól í skattaparadísum. En nú er hún farin að spá fyrir um hagfræðileg álitamál! En kannski þarf engan snilling til þess miðað við alla þá ólíku álitsgjöf sem komið hefur fram frá ótal sérfræðingum undanfarið.
Skyldi hún hafa tapað þingsæti sínu á Evrópuþinginu? Einhvern vegin hefur það farið fram hjá bloggara. En hún virðist geta vasast í öllu og haft skoðanir á flestu. Einhvernvegin setur hún kuldahroll niður eftir baki bloggara. Þó er hefur hann ekkert óhreint mjöl í pokahorninu. Það er bara eitthvað við ofstækið í þessari konu sem nærist á hefnigirni almennings þessa dagana.
Eva Joly: Botninum ekki náð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.6.2009 | 11:52
Það er komin 17. júní
Það er merkis dagur runnin upp. Ekki bara þjóðhátíðardagur Íslands heldur dagurinn sem ég byrjaði að pakka niður fyrir heimferðiina. Það fer að nálgast hálft ár síðan ég lagði í þennan síðasta áfanga útverunnar. Verða nálægt sjö mánuður áður en ég kem heim til Íslands. Ég var að taka til og henda því sem ekki verður tekið með, t.d. öll gögn vegna masteraritgerðarinnar. Þá rakst ég á CD sem Ívar vinur minn hafði gefið mér með ótal myndum þar sem við vinarhjónin hafa verið á ferðalögum í gegnum árin. Það hvolfdist yfir mann heimþráin.
Það er gott að eiga fjölskyldu og marga góða vini heima, en svíður undan í söknuði við langan aðskilnað. Slíkt verður ekki endurtekið og ég búinn að fá nóg af útiverunni.
Ég læt fylgja hér með mynd sem Ívar tók af mér 2003 eftir að við klifum Hvannadalshnúk í fyrsta skiptið. Hæsta fjall Íslands í baksýn, og búið að sigra það. Vel vil eigandi nú á þjóðhátíðardaginn og passar við stemmingu heimþrárinnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.6.2009 | 16:11
Handtekinn í Bugolobi
Maður lendir stundum í smá ævintýrum. Þetta hafði verið annarsamur dagur og um þrjú leitið stóð ég upp frá tölvunni til að teygja úr mér. Ég greip myndavélina, sem ávallt er nærtæk, og labbaði í gegnum járnhliðið sem lokar svæðinu þar sem skrifstofa verkefnisins í Bugolobi er. Gatan framan við er mikil umferðargata og mér datt í hug að ná nokkrum myndum af boda-boda og reiðhjólum, sem oft eru að reiða ótrúlegustu hluti. Ég hafði tekið eina mynd þegar lögreglumaður með vélbyssu vatt sér að mér og fljótlega stóð annar grár fyrir járnum yfir mér. Þeir báðu mig að koma yfir götuna með sér þar sem meiriháttar yfirheyrsla byrjaði. Það dundu á mér spurningarnar en mér til mikillar undrunar var þarna brigðarstöð Ameríska sendiráðsins, og stranglega bannað að taka myndir. Þeir bentu mér á ein tíu skilti sem auglýstu þetta bann, og voru greinilega sannfærðir um að í fábreytni vinnunnar hefðu þeir gómað njósnara.
Það kom upp í mér Bjartur í Sumarhúsum og ég brást hinn versti við. Harðneitaði að gefa upp nafn og alls ekki að afhenda myndavélina. Þeir skipuðu mér að fara inn í smá skúr sem þeir höfðu á vegabrúninni, en ég neitaði enn. Og heimtaði að fá að tala við yfirmann. Þeir vildu fá að sjá vegabréfið, en ég hafði rétt byrjað að útskýra að ég væri ekki með það - á mér; þegar þeir trompuðust alveg. ,,Hefurðu ekki vegabréf?"
Þá fékk ég vélbyssuhlaupið í magann og inn í skúrinn fór ég og settist á stól. Nú dundu yfir mér spurningarnar og þeir trúðu því örugglega ekki að ég, sem starfaði handan götunnar, vissi ekki að þetta væri Ameríska sendiráðið. Að ég skyldi dunda mér við að taka myndir þar sem það er stranglega bannað og rækilega auglýst. Skiltin voru bókstaflega út um allt, en ég sem hafði ekið þarna framhjá á hverjum degi í rúmt ár, hafði aldrei tekið eftir þeim fyrr. Það hleypti enn verra blóði í mig að vera talinn einhver hálfviti, sérstaklega þar sem það átti svolítið við, og stóð upp og út úr skúrnum. Ég var sko sjálfstæður maður og lét ekki fara svona með mig. Ég sagðist vera farinn og myndi láta sækja myndavélina með látum, en þeir höfðu tekið hana af mér. Enn var byssuhlaupum lyft og ég spurði hvort ég væri handtekinn, sem þeir svöruðu játandi.
Þá kom þar að yfirmaður öryggismála sendiráðsins og var hinn almennilegasti. Spurði mig hvaðan ég væri og hvað ég væri að gera þarna. Eftir nokkur orðaskipti bað hann mig að bíða meðan hann ráðfærði sig við sendiráðið. Ég spurði hvort ég mætti fara yfir götuna og bíða á vinnustað mínum. Hann bar þetta undir lögregluna, en nú hafði ég móðgað þá alla upp úr skónum og þeir ráku upp hláturroku meðan þeir hristu höfðuð. Ég skildi sko bíða þar sem ég var.
Þá byrjaði að rigna. Ein löggan sá aumur á mér og bauð mér inn í skúrinn. En mér datt ekki í hug að fara inn í andskotans skúrinn, enda sjálfstæður maður og ekki undir lögregluna kominn. Það þyngdi regnið en allt í einu var öryggisvörðurinn mættur með regnhlíf til að lána mér. Hann sagði að öryggisfulltrúi frá sendiráðinu yrði kominn innan stundar og bað mig afsökunar á ónæðinu. Ég beið þarna í rúman hálftíma og gat ekki látið samstarfsmenn mína vita af uppákomunni þar sem ég hafði skilið símann eftir á skrifborðinu mínu. Það var alveg fáránlegt að vera sviptur frelsi og mega ekki fara yfir götuna.
Chombe Francis Security Investigator kom aðvífandi á svörtum bíl. Vatt sér út og gaf sig á tal við mig. Það fór vel á með okkur og við vorum sammála um að slík uppákoma yrði skrifuð á hryðjuverkamenn, sem hefðu gert slíkar öryggisráðstafanir nauðsynlegar. Hann lét mig eyða myndinni sem ég hafi tekið og eftir að hafa fengið persónuskilríki mín sagði hann mér að ég mætti fara, um leið og hann baðst afsökunar á öllu tilstandinu.
Samstarfsmenn mínir voru farnir að undrast um mig þar sem ég hafði algerlega gufað upp. En það var ekkert annað að gera en útsýra fyrir þeim asnaskapinn. Þetta er í annað skiptið sem ég kemst í kast við lögregluna í Úganda, og bæði skiptin fyrir að taka myndir. Í fyrra skiptið hafði ég tekið mynd af brú, sem liggur yfir Nílarfljót. Það var einmitt Alfred samstarfsmaður minn sem hafði hjálpað mér í þeim viðskiptum, en í þetta sinnið þurfti ég að sjá um mig sjálfur.
14.6.2009 | 13:59
Sunnudagssíðdegi í Bugolobi
Bloggari skokkaði seinnipartinn um Bugolobi hverfið, til að ná úr sér golfhroll, en gangurinn hefur verið þyngri en tárum tekur undanfarna daga. Hér rétt hjá var komið að slysi þar sem boda boda (mótorhjóla taxi) hafði látið lífið í árekstri við bíl. Þetta er ekki óalgengt en bloggari ók fram á látinn boda boda fyrir hálfum mánuði, á sunnudagsmorgni á leið á golfvöllinn. Málið er að umferðin er mjög hæg hér en þessir menn, og farþegar þeirra, eru algerlega óvarðir og þarf því lítið til að illa fari. Í öðru lagi aka þeir um eins og brjálæðingar og virðast ekki gera sér neina grein fyrir áhættunni.
En einmitt það einkennir allt hér. Gangandi vegfarendur rangla út í umferðina á þess að gæta að sér, og bloggari er dauðhræddur um að aka eftir að myrkra tekur, en götuljós eru lítil sem engin og ljósastillingar á bílum áfátt að sama skapi. Það er varla mögulegt að koma auga á verur sem strunsa út í umferðina eða ganga meðfram vegaköntum, oft úti á götunni sjálfri. Annað sem einkennir umferðina hér er að fáir nota bílbelti og börn eru höfð í framsæti án beltis og eru yfirleitt laus í bílunum. Þetta minnir svolítið á ástandið heima fyrir tuttugu til þrjátíu árum.
Bloggar skokkar oft snemma á morgnana, í niðarmyrkri. Vinur hans hafði gefið honum rautt blikkljós sem sett er á handlegginn, til að sjást vel að fyrir hugsanlegri umferð. Eins er hann ávallt með varan á sér. Stöðugt að fylgjast með hugsanlegri umferð og fara á móti akstursstefnu. Ef farið er undan brekku verður að vara sig á hjólreiðarmönnum sem koma hljóðlaust aftan að manni og alls ekki hægt að treysta á dómgreind þeirra við hugsanlegri hættu.
Þetta andvaraleysi fólks við augljósri hættu er stórmerkilegt. Þetta hefur ekkert með hugrekki að gera en á meira skylt við hugsunarleysi.
En það er stór dagur í lífi bloggara. ,,Litla"dóttir hans er tuttugu og níu ára í dag. Lífið brunar áfram og fólkið með. Það leitar á huga hans hversu mörg og merkileg tækifæri lífið hefur haft upp á að bjóða. En það þarf að fara vel með það og gæta þess.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.6.2009 | 04:46
Fjölskylduharmleikir
Það er hörmulegt að horfa upp á fjölskylduharmleiki sem koma til vegna íslensku kreppunnar, þar sem bankar fóru í þrot og settu hagkerfið á hliðina. Soffanías Cecilsson er ekki eina fyrirtækið þar sem meirihluti fjölskyldufyrirtækis nánast kúgar minnihlutann með röngum ákvörðunum. Ég þekkti Soffanías gamla vel hér áður og sem mikinn heiðursmann, glúrinn í viðskiptum og ráðdeildarsamur.
Í undanfari hrunsins voru margir sem sáu að íslensku bankarnir voru annaðhvort kraftaverk eða byggðir á sandi. Þeir sem ekki trúa á það fyrrnefnda voru sannfærðir um hið síðara. Víða hefur verið takist á um stefnur og strauma í fjölskyldufyrirtækum á þessum tíma, enda töluvert um miklar eignir sem gengið höfðu til nýrra kynslóða sem þurfti að ávaxta. Þar vill minnihluti oft verða útundan og er neyddur til að fylgja röngum árkvörðunum, og oft er brotið á reglum um fundarhöld og formlega ákvörðum um stefnu í fjárfestingum og hvernig eigi að ávaxta höfuðstólinn. Það er aldrei of varlega farið í svona hlutum enda skilja þeir eftir óbrúanlegt gil milli fjölskyldumeðlima.
Það verður þó að segjast eins og er að stór hluti þjóðarinnar trúði á kraftaverkið. keypti sér hús, oft með erlendum lánum, sem voru mun dýrari en fjárhagur leyfði, fyrir utan tvo til þrjá bíla á hlaðinu, allt keypt eða leigt af okurlánurum (kaupleigum). Það voru ekki nema rúmlega 70 þúsund bílar á götunni, á slíkum kjörum í gangi þegar hrunið kom í október s.l. Sumir fá finna sér blóraböggul við slíkar aðstæður og kenna frjálshyggju eða kapítalisma um allt saman. En þegar allt kemur til alls ber hver ábyrgð á sjálfum sér. Reyndar er sárt að hugsa til þess hvernig bankar létu starfsmenn sína, grímulaust, taka þátt í ruglinu með því að færa sparifé í peningamarkaðssjóði, sem þeir notuðu svo í þágu eiganda sinna.
Ég yrði ekki hissa á að mörg dómsmál ættu eftir að rísa þar sem beitt var ofríki og gengið framhjá löglegum og heiðarlegum viðskiptaháttum við ákvarðanir innan fjölskyldufyrirtækja. Ákvörðunum sem kostuðu kostuðu viðkomandi félög, og fjölskyldur mikla fjármuni. Það er alltaf sárt þegar slíkt gerist innan fjölskyldna, enda eru slíkar stofnanir ekki heppilegar fyrir slíka starfsemi eins og ákvarðanir um áhættu og ávöxtun fjármuna.
Skip og veiðiheimildir í nýtt félag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2009 | 16:37
Enn meira af golfi
Enn er verið að basla við golfið. Bloggari hafði farið til golfkennara eftir að hann kom til Kampala frá Sri Lanka, en ekki uppskorið eins og til var sáð. Kennarinn, sem kemur frá Uganda Golf Club (klúbbi bloggara) er einn af fimm GolfPro sem klúbburinn er með á sínum snærum. Hann byrjaði á að leggja til fimm breytingar á sveiflunni og sjö atriðum með driverinn ásamt nýrri aðferð við að pútta og inná-skotum. Þetta var eins og smiður myndi hugsa um ein tíu atriði frá því að hann mundar hamarinn og þar til hann skellur á naglahausnum. Sú sveifla tekur um sekúndu og því ómögulegt fyrir stóra heilann að framkvæma slíkt, og því nauðsynlegt að nota litla heilann. Sá er einmitt ætlaður til að læra endurteknar aðgerðir, eins og t.d. að taka skref á göngu eða sveifla golfkylfu.
Það þarf ekki að fjölyrða um það að árangurinn var enginn og því haldið á að byggja á því sem bloggari taldi vera rétt. Reyndar er það sjaldnast þannig og flestir eru að gera einhverja vitleysu. En ágæt högg komu út úr þessu, lengdir oft góðar og stefna stundum rétt. Það sem vantaði var stöðugleiki. Það er ekki nóg að slá stundum 100 stikur með PW og stundum 130 stikur. Stundum 20° til vinstri, stundum 25° til hægri og í hin skiptin kannski beint! Golf gengur út á stöðugleika þar sem stefna er grundvallaratriði, til að halda sig á brautinni, og halda vegalendum jöfnum. Ef slá á 130 stikur þarf að vera hægt að treysta á ákveðið járn til að gera það, og slá alltaf svipaða vegalend með t.d. 8 járni. Síðan að taka 7 járn fyrir 140 stikur. Ekki er aðal atriðið að geta náð 140 með 8 járni og 150 með 7 járni, heldur að halda stöðugleika. Sveiflan má ekki vera eins og hagsveifla Íslands undanfarna áratugi.
Vandamál bloggara var sem sagt stöðugleikinn og þegar fokið var í flest skjól hvað það varðaði var leitað til annars golfkennara hjá klúbbnum. Nú tókst betur til en sá nýi lagði til að byrja á að laga tvö atriði og síðar að taka annað fyrir sem minna máli skiptir. Sleppa driver og trjám og byrja á járnunum og ná góðum tökum á þeim. Aðal atriðið var að halda hægra fæti stöðugum og síðan að sveifla ekki til mjöðmum í niðursveiflu. Nota sveifluna og losa um úlnliðinn fyrir korkið, og sleppa öllum átökum í sveiflunni. Þetta virðist vera að skila sér og smátt og smátt kemur stöðugleikinn, og vonandi verður hægt að yfirfæra árangur járnanna yfir á trén. Málið er að rétta sveiflan er mjög einföld, en bloggari hafði búið sér til mun flóknari aðferð. Þetta var eins og að reyna að smíða Chesterfild sófa þegar stendur til að smíða garðbekk.
En það liggur mikið við hvað golfið varðar og ríður á að mæta á Tungudalsvöll með stæl í ágúst. Bloggari þarf að taka hring með vini sínum Gísla Jóni, og sýna betri takta en síðasta sumar, þegar hann kom í frí frá Sri Lanka með spánýja sveiflu í farteskinu.
Þegar horft er til baka, rúmt eitt og hálft ár sem bloggari hefur verið að æfa golf, er ljóst að aldrei hafa jafn fáir lagt jafn mikið á sig á jafn löngum tíma. Bloggari hefur verið sofandi og vakandi yfir golfinu, en árangurinn því miður ekki verið í takt við erfiðið. Kannski þetta sé svona eins og að kenna Gretti Ásmundarsyni ballett. En einn dag mun hann ná fullnaðartökum á golfsveiflunni og öll högg verða fullkomin og stöðug, alla daga!
Eða hvað? Er það sem menn vilja? Væri eitthvað gaman að golfi ef sú væri raunin? Væri þá ekki jafngott að negla með hamri?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2009 | 12:35
Úr Sjómannablaði Vesturlands
Mikil átök hafa verið undanfarin ár um fiskveiðistjórnunarkerfið, og sitt sýnist hverjum. En þegar upp er staðið þá ber að velja stefnu sem þjónar hagsmunum Íslensku þjóðarinnar best. En hver er sú stefna og hvernig stýrum við þessari mikilvægu auðlind þjóðarinnar þannig að þjóðin í heild beri sem mest úr bítum?
Stjórnleysi, eða það sem kallað er opinn aðgangur að auðlindinni, er ekki sú lausn sem þjóðinni er fyrir bestu. Um það eru flestir sammála og nærtæk dæmi um slíkt eru víða um heim. Eitt dæmi er hér í Úganda þar sem veiðar úr einu stærsta stöðuvatni í heimi, Viktoríuvatni, eru komnar í öngstræti. Eftir að markaður opnaðist fyrir fiskinn úr vatninu hefur sóknin verið takmarkalaus, en áður var hún bundin við að fæða samfélög sem bjuggu í kringum vatnið. Áður var róið með árum og notast við frumstæð veiðarfæri, en í dag eru notaðir mótorar og afkastamikil veiðarfæri úr gerviefnum. Með hruni fiskistofna verður veiði minni á sóknareiningu og allir bera minna úr bítum og fátækt er landlæg í fiskimannasamfélögum kringum vatnið.
Þó frelsi sé almennt gott í viðskiptum gengur það illa upp þegar kemur að endurnýjanlegum auðlindum eins og fiskistofnum. Halda þarf stofnstærðum ofan hagkvæmra marka og því nauðsynlegt að takmarka aðgengi fiskimanna að miðunum. Óheftar veiðar í ólympískri samkeppni koma í veg fyrir hagkvæma nýtingu fiskveiðiauðlindar og hefur oft verið kallað ,,raunir almenninga" þar sem menn keppast um að veiða þar til stofnarnir hrynja. Þessu má líkja við bændur sem stunda beit í sama dalnum. Þó beitilandið sé ofnýtt freistast hver bóndi til að sleppa fleiri kálfum í dalinn, vitandi að hann ber ekki þann fjölda sem fyrir er. ,,Ef ég geri það ekki þá mun nágranni minn gera það" hugsar hver um sig, og allir tapa.
Um þetta eru flestir sammála en þá kemur að því að ákveða hvernig eigi að takmarka sókn í fiskveiðiauðlinda. Í rauninni er hægt að gera það með því að ákveða hámarks veiðimagn á ári fyrir hverja tegund fyrir sig og stoppa veiðar þegar því er náð. Líffræðilega gengur þetta vel upp en er hörmulegt fyrir hagkvæmni og stjórnun á meðafla við veiðar. Samkeppnin gengur út á að afla magns en gæði eru fyrir borð borin og þarf ekki annað en hugsa til þeirra tíma þegar skuttogarar tóku iðulega inn 20 til 60 tonna höl þar sem allur aflinn var meira og minna ónýtur. Og þeir sem eru komnir yfir miðjan aldur muna þann tíma þegar þorskafla var sturtað út á tún vegna þess að frystihúsin höfðu ekki undan veiðinni. Á þessu árum gekk veiðin út á að afla magns en ekki verðmæta. Slíkt kerfi kallar á sóun þar sem fiskveiðiarðinum er sólundað, engum til góðs. Það hefur verið sagt að þjófnaður sé skárri en sóun þar sem þjófurinn hafi möguleika á að hagnast, en enginn ber neitt úr býtum við sóun.
Framseljanlegir veiðikvótar nýtast vel til að tryggja hagkvæmni veiðar og leysa jafnframt vandamál við meðafla. Sem dæmi má nefna að erfiðlega hefur gegnið að veiða upp ýsukvóta þar sem þorskur er meðafli og takmarkað framboð er af lausum kvóta. Í Evrópusambandinu hefur vandamál með meðafla verið leystur þannig að honum er hent fyrir borð, en slíkt kallar á mikla sóun auðlindarinnar og er fjarri því að tryggja hagkvæma nýtingu hennar. Með framseljanlegum veiðikvótum geta menn hinsvegar keypt eða leigt sér þann kvóta sem þeir þurfa, þ.m.t. vegna meðafla.
Framseljanlegt kerfi getur síðan verið með ýmsum hætti. Á Íslandi hefur sú leið verið farin að mynda eignarrétt á nýtingu aflaheimilda, til að hámarka virði þess afla sem veiðist. Bent hefur verið á að útgerðarmenn hámarki nýtingu á eign sinni og þannig hámarki þeir afrakstur auðlindarinnar. Slíkt tryggir vel það sem lagt er upp með að tryggja fiskveiðiarð í greininni. Hinsvegar þarf að girða fyrir hverskonar brask með aflaheimildir, enda þjónar það ekki þjóðhagslegum hagsmunum.
Evrópusambandið setur reglur um afkastagetu flotans til að stýra veiðimagni, m.a. með stærð skipa og vélarstærð. Stefna þeirra er í algjöru öngstræti enda veiðigeta um 60% umfram afrakstur stofna, með neikvæðan fiskveiðiarð og ríkisstyrkir notaðir til að stoppa í gatið. Þessa dagana berast þær fréttir frá Brussel að Framkvæmdastjórn sambandsins vilji fara veg Íslendinga í fiskveiðistjórnun með því að einkavæða sóknina með framseljanlegum kvótum. Í þeirri trú að einmitt eignarrétturinn skapi ábyrgð hjá fiskimönnum til að umgangast auðlinda og hámarki arðsemi hennar.
Ríkið getur einnig leyst til sín kvótann (fyrningarleið) og leigt síðan til útgerðarmanna. Margir halda því fram að slíkt tryggi hagkvæmni og einnig réttlæti, sem umræðan hefur snúist mikið um undanfarin ár. En sporin hræða þegar kemur að pólitískri útdeilingu á gæðum. Mikið vantar upp á að sýnt sé fram á hvernig slík útdeiling verði framkvæmd og það tryggi þjóðarhag umfram núverandi kerfi. Reynslan sýnir hinsvegar, að oftar en ekki er horft framhjá arðsemi þegar stjórnmálamenn fást við ,,réttlæti" Rétt er að taka því fram að kvótakerfið var ekki sett á til að tryggja byggðaþróun sem hugnast stjórnmálamönnum, né til þess að tryggja viðgang fiskistofna. Það var sett á til að auka framleiðni og koma í veg fyrir sóun við fiskveiðar.
Ef við höldum okkur við þjóðarhag þá er markmiðið ekki að fjölga sjómönnum á Íslandi, heldur auka verðmæti bak við hvert starf í sjávarútvegi og lágmarka kostnað til langs tíma litið. Auka framlegð eins og mögulegt er og þar með fiskveiðiarð. Sem dæmi má nefna að 300 þúsund sjómenn á Srí Lanka veiða um 250 þúsund tonn af fiski árlega. Til samanburðar á Íslandi eru innan við 3.500 sjómenn að veiða frá einni til tveimur milljónum tonna, sem gerir þá sennilega af þeim afkastamestu í heimi, allavega hvað verðmæti viðkemur.
Hér er um gríðarlega mikilvægt mál fyrir þjóðina að ræða og nauðsynlegt að vanda umræðuna. Við endurskoðun á fiskveiðikerfinu þarf þjóðarhagur að ráða för. Að hámarka framleiðni í greininni með því að lágmarka kostnað og hámarka verðmæti. Slík hugtök eru nokkuð föst í hendi og hægt að ræða um þau með vitsmunalegum hætti. Nota reynslu, rannsóknir og þekkingu til að komast að skynsamlegustu niðurstöðu fyrir þjóðina. Hinsvegar er réttlætið flóknara viðfangs og sýnist einum eitt og öðrum annað. Því miður verður slík umræða meira í skötulíki og fer oftar en ekki niður á plan lýðskrums og pólitískra þrætumála.
Höfundur er fyrrverandi formaður Sjómannafélags Ísfirðinga
5.6.2009 | 16:53
Brown Haarde
Bloggari var að horfa á blaðamannafund Gerorg Brown forsætisráðherra Breta rétt í þessu. Það var ekki laust við að hann fylltist Þórðargleði að sjá Brown, óöruggann kvíðinn og greinilega fráfarandi leiðtogi Verkamannaflokksins. Talandi um heiðarleika og að hann sé ekki hrokafullur, í öðru hvoru orði. ,,Ég geng ekki frá ábyrgð minni og yfirgef ekki þjóðina á ögurstundu" Allt minnti þetta á Geir Haarde á haustdögum síðasta ár. Firrtur stuðningi þjóðarinnar og flokksins, einangraður og leitaði hvergi ráða í vandræðum þjóðarinnar. Það er líkt með báðum þessum mönnum að hvorugur virðist skilja ábyrgð sína á þeim mistökum sem þeim varð á. Hvorugur hafði leiðtogahæfileika til að leiða þjóð sína út þeim erfiðleikum sem við blasti. Hinsvegar er Brown á kaf í pólitískri spillingu, ólíkt Geir Haarde á sínum tíma, sem þurfti hinsvegar að horfa á mistök við ákvarðanir og aðhald.
Sex ráðherrar hafa yfirgefið Brown undanfarið, og tveir eftir að búið var að tilkynna um breytingar í ríkisstjórn. Það er brostinn á flótti í liðinu og greinlegt að baráttan er töpuð. Sjálfsagt erfitt fyrir utanríkisráðherra Íslands, sem er ævifélagi í breska Verkamannaflokknum og hlýtur að vera mikil stuðningsmaður þeirra stefnu og athafna sem hann hefur staðið fyrir undanfarin misseri.
Einhvernvegin kenna Bretar ekki frelsi eða kapítalisma um ófarir sínar, líkt og margir Íslendingar gera. Allavega er ljóst að miðað við skoðanakannanir myndu Íhaldsmenn ná meirihluta í næstu kosningum, og ekki eru þeir talsmenn ríkisafskipta né mótfallnir frelsi einstaklingsins.
Bretar búa við einstaklingskjördæmi og því þarf að kjósa þegar þingmaður hættir eða fellur frá. Þannig geta breytingar orðið smátt og smátt og þrýst á að ríkisstjórn neyðist til að boða til kosninga. Þetta kerfi viðheldur fáum stórum flokkum og takmarkar fjölda flokksbrota, sem margir telja vera grundvöll lýðræðis. Hinsvegar hafa smáflokkar á Íslandi aldrei haft nein jákvæð áhrif á samfélagið og ekki aukið lýðræði í landinu. Engin eftirsjá er af flokki eins og Frjálslandaflokknum, enda var flokkstarf og lýðræði innan hans eins langt frá góðum stjórnunarháttum og mögulegt er. Þetta var flokkur sem gerði út á lýðskrum og upphrópanir. Hafði aldrei neina alvöru stefnu til að bæta stöðu þjóðarinnar.
En framundan eru spennandi tímar í breskri pólitík.
3.6.2009 | 14:07
Í minningu Högna Sturlusonar
Högni Sturluson var fæddur í Rekavík bak Látur 15.apríl 1919. Seinna fluttist hann til Fljótavíkur þar sem hann kvæntist Júlíönu Júlíusdóttur, Geirmundsonar bónda á Atlastöðum. Högni var einn fimm Fljótavíkurbænda sem brugðu búi og fluttust alfarnir úr víkinni árið 1946, og skildu nær allar veraldlegar eigur sínar eftir.
Undirritaður átti því láni að fagna að kynnast Högna seinni árin, þó hann hafi reyndar þekkt hann síðan hann man eftir sér. Einstaklega ræðinn maður og mikill sögumaður. Þegar undirritaður safnaði saman fróðleik um lífið í Fljótavík í upphafi síðustu aldar, var Högni mikill sagnabrunnur og lýsti lífinu og tilverunni við harðneskju á nyrstu nöf við Dunshaf.
Að sögn Högna Sturlusonar voru veiðibátarnir smá kænur, af augljósri ástæðu, þar sem menn réðu ekki við að lenda stærri bátum í brimgarðinum nema margir saman. Aðeins voru tveir menn á hverri skektu og réði það stærð bátanna ásamt aðstæðum í Fljóti. Síðustu þrjú árin sem Geirmundur Júlíusson var búsettur í víkinni reru þeir Högni saman og verkuðu eitt árið um 24 tonn af saltfiski. Júlíus reri þá við Guðmund son sinn en feðgarnir Finnbogi og Jósep gerðu út saman. Ef haft er í huga að vélbátavæðing hófst á Ísafirði 1902, er erfitt að ímynda sér þessa útgerðahætti standast samanburð við það. Svo ekki sé talað um þilskipin sem seinna komu, en ómögulegt hefur verið að gera slík skip út vegna hafnleysis og erfiðra lendingaskilyrða í Fljóti.
Í einni frásögn Högna minnist hann sjóferðar með Geirmundi þar sem línan var lögð undir Hvestunni. Veiði var góð og skektan komin í slyðrarann að aftan. Miðrúmið var orðið fullt af þorski og hálsrúmið hálft af steinbít. Jafnframt var búið að seila töluvert magn af þorski á skutinn en það var oft gert þegar vel fiskaðist, enda báru bátarnir aflann ekki öðruvísi. Það var byrjað að hvessa og skall á með norðaustan hvassviðri. Þegar síðasti balinn var dreginn byrjað að brjóta yfir lunninguna á bátnum. Geirmundur skipaði nú Högna að henda öllum steinbítnum úr miðrúminu í sjóinn. Þegar búið var að draga línuna minnist Högni þess að hann fleygði henni aftur í bátinn til Geirmundar, og við það gekk hnýfillinn á kaf í ölduna. Geirmundur greip þá aftur fyrir skutinn og sleppti fiskinum sem var seilaður og flaut hann um allan sjó. En þeim tókst að komast heilum á höldnu í land og koma bátum upp á kambinn við króna. Rétt er að segja frá því að oft var fiskurinn seilaður fyrir lendingu ef afli var góður og eitthvað brimaði. Það var gert til að létta bátinn í lendingunni og var fiskurinn síðan dreginn upp í fjöruna í gegnum brimgarðinn.
Í annarri sögu Högna sem gerðist í róðri rétt fyrir páska fóru þeir Geirmundur yfir á Almenninga að sækja reka en Júlíus og Guðmundur reru til fiskjar. Veiði var góð enda veður með besta móti. Á páskadag var víkin eins og heiðatjörn og þegar annar í páskum rann upp var sama uppi á teningnum. Þá vildi Júlíus róa en Guðmundi þótti dagurinn vera heilagur. Högni, sem þá var fluttur heim á Atlastaði, fór þá út eftir til Geirmundar og spurði hvort hann ætlaði að róa. "Á heilögum degi" sagði Geirmundur og neitaði því. Högni fór þá heim aftur og sagði "Jæja, ég er til í að fara á sjóinn" Og varð úr að þeir hrintu bát úr vör og lögðu línuna. Ekki tóku æðri máttarvöld uppátækið illa upp og fiskaðist þeim vel. Fylltu þeir heilar þrjár tunnur af saltfisk sem gaf þeim um 500 krónur í aðra hönd, sem þótti mikið í þá daga.
Högni minntist þess að Júlíus var vanur að fara í hverjum janúarmánuði yfir að Látrum og til Miðvíkur. Þetta var hans andlega upplyfting að hitta karlana, svo sem Frigga Magnúsar, til að spjalla og segja sögur, enda átti hann sínar rætur á þessum slóðum. Eitt sinn var blíðskapar veður og reru Högni og Geirmundur upp á hvern dag og lágu bara fyrir föstu á baujuvaktinni. Þá leið Júlíusi illa þegar hann kom til baka, að hafa misst af þessari veiði sem gaf mjög vel í aðra hönd.
Fleyri sögur hef ég skráð eftir Högna og birt meðal annars á bloggi mínu í júní mánuði 2007, svo sem um frægt smyglmál í Rekavík bak Höfn.
Högni tilheyrir kynslóð sem örugglega er einstök í mannkynsögunni. Fæddur í torfkofa án rennandi vatns og rafmagns þar sem handaflið eitt var til að berjast fyrir lífinu við erfið skilyrði. Fyrir utan verkkunnáttu voru kjör þessa fólks á fyrri part tuttugustu aldarinnar, með því lakasta sem þekkist í Evrópu, og þó víðar væri leitað. Veðurfar með því versta sem þekkist á Íslandi þar sem snjóa leysti upp í júní og vetur skollinn á í september. Langvarandi óþerrar sem gerðu heyskap og fjárhald erfitt og því treyst meira á sjóinn en víða annarsstaðar. Högni lifði mikla breytingartíma, sennilega meiri en nokkur önnur kynslóð í veröldinni hefur gert, að kynnast rafmagni, vélum og síðan og ekki síst, tölvuöld og veraldarvefnum. Yfirleitt þegar ég leit við hjá honum á Hlíf, var hann að skoða heimasíður afkomenda sinna, senda þeim tölvupóst eða nýbúinn að spjalla við einhvern þeirra í Ameríku á Skype.
Fyrstu kynni mín af Högna var þegar ég fór ungur að árum til Fljótavíkur í fyrsta sinn með foreldrum mínum ásamt hópi fólks með Gunnhildi ÍS. Jói Júl var skipstjóri en Högni vélstjóri. Við lentum í hörku brælu fyrir Ritinn og Straumnes og ég minnist þess að vera frávita að skelfingu, enda sannfærður um að dagar mínir væru taldir. Hnútarnir í röstinni lögðu bátinn ítrekað á hliðina og tók inn fyrir lunningar nokkrum sinnum. Þá var þessi hressi og málglaði maður spilandi kátur, segjandi sögur og gantast við samferðarfólkið áður en hann hvarf niður um lítinn hlera á brúargólfinu, niður í ærandi hávaða og olíustybbu vélarrúmsins. Þetta var sko karl í krapinu.
Ég átti frí heima á Ísafirði um síðustu jól og leit við hjá Högna til að draga hann á jólaskemmtun Kiwanis klúbbsins Bása á Hlíf. En hann treysti sér ekki til að kíkja niður í matsal og sá ég þá í hvað stefndi. Tíðindi af brotthvarfi hans kom því ekki á óvart. Fjölskyldu hans vil ég senda bestu kveðjur og innilega samúð á þessum tíma.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.6.2009 | 17:10
Fréttir frá miðbaug
Það ber fátt til tíðinda héðan frá miðbaug. Þó eru veðrabrigði í lofti og regntíma að ljúka og þurrveður framundan. Við það lækkar hitastig aðeins við heiðskýran himin. Hrollkalt á nóttunni, alveg niður í 16°C. En heitt og sólríkt seinnipartinn, einmitt þegar bloggari spilar golf.
Annað sem borið hefur til tíðinda er að um mánaðarmótin viku garðyrkjumennirnir af vaktinni og hættu að gæta öryggis íbúana í 12 Basarabusa Bugolobi. Við tóku einkennisklæddir varðmenn frá Delta Force Security. Þessir karlar eru vopnaðir og næturvörðurinn bar AK 47 riffil en dagvörðurinn afsagaða haglabyssu. Ég var dauðhræddur um að hann myndi skjóta af sér fótinn þegar hann brölti við að opna risastórt stálhliðið inn á lóðin hjá mér í kvöld, til að hleypa húsbóndanum inn. Hélt á byssunni í annarri og reyndi að renna hurðarflekunum með hinni. En loks lagði hann frá sér vopnið til að ráða við hliðið.
Maður rekst á marga í golfinu og í dag spilaði ég með tveimur ungum mönnum, Kevin og Sam. Þeir voru 24 og 25 ára. Gætu verið synir mínir þannig lagað séð. En það var gaman að rölta níu holur með þessum strákum, spila golf og spjalla um heima og geyma.
Á morgun er frídagur en ég er ekki alveg viss hvers vegna. Tel þó að það hafi eitthvað með fyrstu skírnina til kristni í Úganda að gera. Við eigum það inni eftir að hafa misst af sumardeginum fyrsta, uppstigningardegi og hvítasunnuhelginni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2009 | 18:26
Áhugaverðar niðurstöður
Þetta er merkilegt innlegg í rannsóknir á þorskstofni Íslandsmiða. Gaman verður að skoða þetta nánar og lesa skýrsluna. Ef bloggari skilur þetta rétt er varhugavert að auka strandveiðar frekar þar sem með því væri gengi enn nær þessari arfgerð sem er í útrýmingarhættu.
En það gleður bloggara þó sértakalega að sjá nafn vinar síns Ubaldo á slíkri rannsókn, en kemur þó ekki á óvart. Bloggari kynntist Ubaldo sem aðstoðarmanni og samstarfsmanni í tæp tvö ár, þar sem hann vann við uppbyggingu verksmiðju í Guyamas í Mexíkó. Seinna þegar sushi verksmiðjan Sindraberg var byggð upp útvegaði bloggari vinin sínum atvinnuleyfi á Íslandi til að hjálpa til við að koma verksmiðjunni af stað. Verksmiðjan var á sínum tíma einstök í heiminum og þurfti því mikla þekkingu og áræði að undirbúa starfsemina og skipuleggja framleiðsluna.
Ubaldo átti mikinn þátt í því og eftir að starfi hans lauk hjá Sindraberg, ílentist hann á Íslandi og er örugglega orðið góður og gildur Íslendingur í dag. Og nú er hann kominn í rannsóknir á þorskinum! Bloggar er bara nokkuð roggin yfir vini sínum og eiga þátt í að koma honum til Íslands.
Telur þorskstofninn í hættu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Gunnar Þórðarson
Tenglar
Hallgrímur bláskór 2012
- Gengiðr úr Hornvík í Kjaransvík
- Kjaransvík - Sæból
- GEngið á Ryt og Darra
- Gengið á Straumnesfjall
- Gengið á brúnir Grænuhlíðar
Smölun í Austurdal
- Austurdalur -2010 Dagur 1 Smölun í hinum ægifargra Austurdal suður af Skagafirði
- Austurdalur - 2010 Dagur 2 Annar dagur smalamensku í Austurdal í Skagafirði
- Austurdalur -2010 Dagur 3 Lokadagur smölunar fyrir Austudalsfélagið í Skagafirði
- Föstudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Laugardagur í Austurdal 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Sunnurdagur í Austurdal - 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Mánudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
Skútukaupin 1976
Við félagarir, undirritarðu, Jón Grímsson og Hjalti Þrórðarson keyptum skútu í Bretlandi og sigldum henni heim til Íslands
- Kafli 1 - Skútukaupin undirbúin
- Kafli 2 - England
- Kafli 3 - lagt í siglinguna miklu
- Kafli 4 - Captain Thordarson
- Kafli 5 - Siglt í norður
- Kafli 6 - Færeyjar - Ísland
- Kafli 7 - Siglt til Ísafjarðar
Ísrael 1974
Sagt frá ævintýri okkar Stínu, Nonna Gríms og Hjalta Bróður þegar við ókum yfir Evrópu 1974. Fórum frá Aþenu til ísrael og unnum þar á samyrkjubúi.
- Kafli 1 - Mótorhjólagengið
- Kafli 2 - Júgóslavía, Grikkland og Ísrael
- Kafli 3 - Á kibbutz undir Gólanhæðum
- Kafli 4 - Í kjölfar árásarinnar
- Kafli 6 - Maðurinn með ljáinn
- Kafli 5 - Endurfundir
- Kafli 7 - Frá rauðu ljósi í Milanó
- Kafli 8 - Fjölskyldu og varnarmál
- Kafli 9 - Vinna í Elat
- Kafli 10 - Daglegt líf á Shamir
- Kafli 11 - Til Grikklands
- Kafli 12 - Sögulok í London
Að Fjallabaki 2012
Suður um höfin 1979
Frá ferðalagi okkar Stínu á seglskútunni Bonny frá Ísafirði til Mallorca í Miðjarðarhafi
Sigling frá Mallorka til Grikklands
- Kafli 1 - lagt af stað til Ítalíu Fimm félagar sigldu Bonny frá Spánar til Grikklands
- Kafli 2 - Sikiley og Grikkland
- Kafli 3 - Kea og Paros
- Kafli 4 - Santorini
Safaríferð í Úganda
- Ferð til Murchison Falls - fyrri hluti Safaríferð inn í frumskóg Úganda
- Ferð til Murchison Falls - seinni hluti
Hálendisferð 2010
- Gengið á Fimmvörðuháls Eldstöðvar Fimmvörðuháls skoðaðar
- Skaftafell og Kristínartindar Gengið á Kristínartinda
- Gengið á Mælifell Ekið Fjallabak syðra norður fyrir Mýrdalsjökul
- Friðland að Fjallabaki Gengið um við Landmannalaugar
- Gengið á Löðmund Gengið á Löðmund við Dómadal
- Gengið á Snæfell Gengið á hæsta fjall Íslands utan jökla, Snæfell
- Gengið í Geldingarfell Ferð um Lónsörævi með frábærum hópi, sumarið 2010
- Gengið í Egilssel Gengið úr Geldingafelli í Egilssel við Lónsöræfi
- Gengið niður Lónsöræfi Þriggja daga göngu norðan og austan Vatnajökuls lokið
Sri Lanka 2007
- Sri Lanka 2006-2008 Starfað á Sri Lanka
Bloggvinir
- astromix
- ekg
- stefanbjarnason
- golli
- vikari
- gunnarpetur
- vestfirdir
- gudni-is
- ea
- ladyelin
- gp
- altice
- hjolaferd
- kaffi
- komediuleikhusid
- rabelai
- ziggi
- huldumenn
- helgi-sigmunds
- sigrunzanz
- hordurhalldorsson
- baldher
- hjaltisig
- lotta
- kjarri
- bjarnimax
- jovinsson
- smjattpatti
- eirmor
- vefritid
- saemi7
- siggisig
- maggij
- lehamzdr
- contact
- gauisig
- jonvalurjensson
- thjodarskutan
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 28
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar