Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2014

Grein í Fiskifréttum 7. ágúst

Sjávarútvegur - undirstaða lífskjara

Atvinna eða afþreying

Undirritaður átt spjall við kunningja sinn um daginn. Hann stundar strandveiðar og kom þeirri skoðun sinni á framfæri að það væri fleira en arðsemi og hagnaður sem skipti máli í sjávarútvegi; strandveiðar væru lífsstíll og hann vildi einfaldlega mæla afkomuna í öðru en krónum og aurum. Miðað við skoðun kunningja míns þá  eru strandveiðar ekki atvinnugrein heldur afþreying og þá kemur upp í hugann spurning um hvort Íslendingar hafa efni á að nota sjávarútveg sem áhugamál og lífsstíl? Við erum að ræða um undirstöðu atvinnugrein sem þjóðin byggir lífsafkomu sína á! Sund og golf eru skemmtun og hvorugt stendur undir sér fjárhagslega en þar erum við klárlega að tala um afþreyingu. Slíkt bætir vissulega lífsgæði en kemur afkomu þjóðarinnar lítið sem ekkert við og hefur ekki áhrif á verðmætasköpun, gengi krónunnar eða kaupmátt Íslendinga. Sjávarútvegur er hinsvegar allt annað mál og afkoma hans hefur bein áhrif á lífskjör á Íslandi.

Botnfiskveiðar og vinnsla í Færeyjum

Færeyingar búa við neikvæða verðmætasköpun í botnfiskveiðum og vinnslu með árlegt tap upp á milljarð króna, sem sækja þarf þá í aðrar atvinnugreinar, t.d. laxeldi. Á Íslandi hafa botnfiskveiðar og vinnsla skilað um 15% hagnaði sem skilar um 46 milljörðum króna á ársgrundvelli. Verðmætasköpun er reyndar enn meiri vegna greiddra launa sem koma inn í hagkerfið og skapa áfram verðmæti. Ef við rækjum okkar sjávarútveg eins og frændur okkar í Færeyjum færu milljarða tugir forgörðum í Íslensku hagkerfi, sem draga myndi úr verðmætasköpun og lækka útflutningstekjur umtalsvert.

Efnahagsleg áhrif

Áhrifin yrðu mikil á efnahag landsmanna þar sem minni verðmætasköpun myndi m.a. lækka gengi krónunnar og þar af leiðandi kaupmáttur launa minnka með hækkun á verði innfluttrar vöru í krónum. Einhvern veginn er rómatíkin farin að fölna við þessa sviðsmynd og alvara lífsins fer að blasa við. Málið er að verðmætasköpun í sjávarútveg er ekki einkamál aðila í greininni; en hún hefur bein áhrif á afkomu Íslendinga og því mikið ábyrgðarmál að sjávarútvegur sé skynsamlega rekinn á Íslandi.

Samkeppnisyfirburðir

En hvernig stendur á þessum mun og hvað er það sem gefur Íslendingum slíka samkeppnisyfirburði, ekki bara yfir Færeyingum heldur flestum öðrum sjávarútvegsþjóðum? Það eru einkum tvö atriði sem skipta sköpum, kvótakerfið sem ýtir undir verðmætasköpun með aukinni framleiðni framleiðslu og fjármagns, og skynsamleg nýting fiskveiðiauðlindarinnar. Þó tekist sé á um ráðgjöf Hafró hefur stofnunin reynst góður ráðgjafi og mikill árangur náðst með skynsamlegri nýtingu þó oft hafi ákvarðanir verið sársaukafullar. Með stækkandi þorskstofni hefur t.d. kostnaður á veitt kíló snarlækkað og þannig ýtt undir verðmætasköpun.

Laun í fiskvinnslu

En þrátt fyrir velgengni í sjávarútvegi hefur ekki tekist að gera fiskvinnslu eftirsóknaverða og eru lág laun greininni til vansa. Sjávarútvegur þarf að vera eftirsóttur til fjárfestinga og laða að hæfa starfsmenn til að standa undir lífskjörum Íslendinga. Á því byggist afkoma sjávarbyggða og snýst reyndar um lífsbaráttu en ekki rómantík!

Gunnar Þórðarson MSc í alþjóðaviðskiptum


Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 283913

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband