Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Grein Kristínar Hálfdáns í BB

Súðavíkurgöng tímabær.

Vegasamgöngur eru grundvallaratriði fyrir verðmætasköpun og
þar með afkomu íbúa. Vestfirðir eru þar engin undantekning og þó hluti af
flutningi færist á sjó, verða vegasamgöngur okkur mikilvægar. Þrátt fyrir
grettistak sem lyft hefur verið í vegasamgöngum er enn mikið ógert, þó ástandið
sé verst á sunnanverðum Vestfjörðum, er ástandið heldur ekki ásættanlegt á
norðursvæðinu.

Sjóflutningar

Þó stór hluti þungaflutninga færist á sjó með beinum
siglingum á markaði erlendis verður alltaf þörf fyrir flutninga á dagvöru til
Vestfjarða. Við lítum á það sem sjálfsagðan hlut að hafa daglegar ferðir milli
Reykjavíkur og Ísafjarðar, vara sem pöntuð í eftirmiðdaginn er komin morguninn
eftir, sem dregur úr þörf fyrir lagerhald og eykur verðmætasköpun og lífsgæði á
svæðinu Dagvara  fyrir verslanir verður
einnig að berast vestur á hverjum degi. Sé þessi vara flutt í hálftómum bílum
eða bílum sem aka á loftlitlum dekkjum vegna þungatakmarkana, eða komist yfir
höfðuð ekki, eru það neytendur á svæðinu sem greiða kostnaðinn og taka þeim
óþægindum sem lélegri þjónusta skapar. Því þurfum við góðar  vegasamgöngur og ekki síst öruggar.

Versti, og jafnframt hættulegasti, kafli vegarins til
Reykjavíkur liggur um Súðavíkurhlíð, og er sá hluti leiðarinnar sem fyrst
lokast í ófærð vegna snjóflóðahættu. 
Undanfarin 30 ár hefur lítið verið gert fyrir veginn og er langt frá því
að standast þær kröfur sem gerðar eru í dag. Vegurinn er byggður á klöpp þar
sem vatn á erfitt með að komast frá þegar snögglega hlánar of frost fer úr
honum. Það var einmitt það sem gerðist í lok febrúar og stöðva varð alla
flutninga tímabundið til og frá norðanverðum Vestfjörðum.

Samkeppnisstaða Vestfjarða

Eitt af grundvallaratriðum þegar kemur að samkeppnisstöðu
svæðisins er að framleiðslufyrirtækin geti brugðist við skyndilegum breytingum.
Færist veiði til tímabundið frá Vestfjörðum, eða forðast þarf of mikla ýsu- eða
steinbítsveiði á heimamiðum, getur útgerðarmenn sent báta sína til veiða t.d á
Snæfellsnes og  þarf þá góðar
vegasamgöngur til að flytja fiskinn heim til vinnslu. Mikil aukning hefur orðið
á löndunum á afla á Ísafirði sem útgerð/vinnsla ekur síðan til vinnslu
annarsstaðar. Slíkt eykur hagkvæmni, enda ekki skynsamlegt að nota veiðiskip
sem flutningatæki. Góðar vegasamgöngur eru því þjóðhagslega hagkvæmar og auka
framleiðni í hagkerfinu, sem gefur möguleika á að bæta lífskjör í samfélaginu.
Ekki þarf annað en líta til Bolungarvíkur til að sjá hvað bættar samgöngur geta
gert fyrir byggðalag og þjóðina sem heild, enda mjög hagkvæmt að gera þaðan út.

En það er ekki bara hagkvæmt að bæta veg um Súðavíkurhlíð,
heldur er um mikið öryggismál að ræða. Vegurinn er einn sá hættulegasti á
Íslandi, og samkvæmt skýrslu sem Vegagerðin gaf út 2002, er vegurinn hættulegri
en gamla Óshlíðin var. Við þekkjum það frá gamla Óshlíðaveginum að þó plástrað
sé á vandamálin með vegskálum, netum og stálþiljum þá bætir það ástandið en
dugar alls ekki sem lausn. Hundruðum milljóna var fleygt í Óshlíðaveg áður en
viðurkenning fékkst á því að eina lausnin væru jarðgöng til að tryggja
samgöngur.

Vegskálar/varnir

Við stöndum nú í sömu sporum hvað Súðavíkurhlíð varðar. Þó
vegskálar verði byggðir á verstu stöðunum, verður hlíðinni áfram lokað ef
snjóflóðahætta skapast. Vegurinn um hlíðina er ónýtur og meiriháttar verk að
endurbyggja hann, ef fylgja á nútíma 
stöðlum í þeirri framkvæmd. Það dugar ekkert minna en jarðgöng til að
leysa málið og við bíðum ekki í tuttugu ár eftir þeirri lausn. Þessi jarðgöng
eru hagkvæmur kostur þar sem við leysum kostnaðarsama annmarka núverandi vegar,
ásamt því að bæta öryggi og stytta leiðina suður umtalsvert.

Á svona stundum verðum við að forgangsraða þar sem við getum
ekki gert allt sem okkur hugnast. Við þurfum fyrst og fremst að tryggja
vegasamgöngur við höfuðborgarsvæðið til að treysta aðdrætti og koma framleiðslu
okkar á markað. Við þurfum ekki síður að tryggja vegasamgöngur fyrir fólk til
að ferðast til og frá norðanverðum Vestjörðum án óþarfa áhættu.

Kristín Hálfdánsdóttir


ESB og Sjálfstæðisflokkurinn

Það er mikið yfirlæti í þingmanninum og ráðherranaum fyrrverandi. Þó það sé rétt að landsfundur hafi samþykkt ályktun þýðir það ekki að menn geti efast um hvernig tilurðin var og hvað lá að baki. Málið er að Tómas og félagar hans hafa einbeitt sér í þessum máli, að vera á móti öllum viðræðum og umræðum um ESB, meðan fjöldin lætur sig önnur mál varða, svona smámál eins og atvinnumá, efnahagsmál, peningamál o.fr.

Málið er að eftir setningaræðu formanns var ljóst hvert stefndi. Hann hafði kiknað í hnjáliðunum fyrir þessum einharða hópi og gaf þeim byr undir báða vængi. Eftir það var auðveldara fyrir fámennan hóp sem sinnti aðeins einu máli, að koma sínum áherslum í gegn. Þetta er lýðræðislegt en mjög slæmt fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Ég rekst endalaust á fólk sem ekki ætlar að kjósa flokkinn, ekki vegna þess að þeir vilji endilega ganga í ESB, heldur vegna þess að fámennur öfgahópur hefur komið því þannig fyrir að umræða um málið er útilokuð, og einn möguleiki til að bæta lífskjör á Íslandi hefur verið sópað út af borðinu. Ítrekað ráðast þessi menn á þá sem vilja ræða málin og hefur undirritaður oft orðið fyrir því að vera kallaður krati og samfylkingarmaður og eðlilegast væri að ég hypjaði mig úr Sjálfstæðisflokknum.

Bjarni Ben dró átakalínu á ögurstundu í starfi Sjálfstæðisflokksins. Því miður hrynur af honum fylgið núna en upphafsræða hans á Landsfundi átti að snúast um sátt og samheldni, enda aldrei verið meiri þörf en nú. Hver sá sem ræðir við ungt fólk í dag mun sniðganga flokk sem kastar umræðu um betri lífkjör í framtíðinni fyrir borð. Allt fyrir fámennan hóp sem aldrei tekur þátt í málefnalegri umræðu ummálið og rétt að benda á ótrúlegan áróður Mbl í Staksteinum, forystugreinum og Reykjavíkurbréfi. Það er engin vafi á því hvaðan þessi barátta er sprottin.

Sjálfur veit ég ekki hvað ég myndi kjósa í dag ef umsókn færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég yrði fyrst að sjá hvernig hægt er að semja um sjávarútvegsmál. En ég verð að segja að aldrei finn ég neinn sem vill ræða þessi mál frá hendi nei manna, að Illuga Gunnarsyni frátöldum.

Ég hef gaman að lesa greinar T.I.O. enda skemmtilega skrifaðar og sögulega uppfræðandi. En ég hef enga trú á að Napoleon sé að íhuga innlimun Íslands. Né að Þjóðverjar séu skipulega að leggja undir sig Evrópu.


mbl.is Lítum fram á veginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný frjálshygga

 Lýðskrumið

Mikið hefur verið rætt um Ný frjálshyggju og hvernig hún
hafi valdið núverandi kreppu sem skekur hinn vestræna heim. Engin hefur getað
skilgreint hugtakið, en engin þörf er á því þar sem upphrópanir og slagorð eru
allsráðandi í pólitískum átökum dagsins. Brussel veldið, sægreifi,
nýfrjálshygga o.sfr. En skoðum þetta aðeins nánar og veltum fyrir okkur hvað
það var sem sett hefur vestræn hagkerfi á hliðina.

Það er talið að þrennt skipti þar mestu máli:

Þáttur Greenspan

Í fyrsta lagi var það röng stefna seðlabanka Bandríkjanna um
að halda vöxtum niðri á þenslutímum. Þáverandi seðlabankastjóri, Greespan,
hefur viðurkennt mistök sem hafi kostað að peningaflóðið flæddi yfir alla bakka,
þar sem öllum var lánað til alls, og áhættan var tekin úr sambandi. Kannast
einhver við þetta á Íslandi? En þetta hefur ekkert með frjálshyggju eða
kapítalisma að gera; heldur var þetta ákvörðun embættismanna í samstarfi við
pólitíkusa. Svona meiri sósíalimsmi.

Þáttur Clintons

Í öðru lagi ákvað Clinton að öllum skyldi gert kleift að
kaupa eigið húsnæði í BNA. Undirmálslánin urðu til, enda gátu bankar lánað
láglaunafólki fyrir íbúðum, áhættulaust! Freddie Mac og Fannie Mae, sem eru í
raun ríkisreknir heildsalar á íbúðarlánum, keyptu skuldabréfin af bönkunum. Það
er gott að vera með áhættulaus viðskipti og þar sem þessi fasteignalán voru
svona frábær mátti líka nota þau til að losna við léleg skuldabréf, með svo
köllum vafningum. Öllu var snúið saman í allsherjar vafning og þetta var selt
út um allan heim. Þannig var staðbundið vandamál BNA flutt út um allan heim.
Ákvörðun Clinton hafði ekkert með frjálshyggju eða kapítalisma að gera, meira
svona sósíalisma.

Basel reglurnar

Í þriðja lagi setti ESB sínar Basel reglur, sem gerðu kaup á
ríkisskuldabréfum áhættulaus. Bankar þurftu ekki að leggja til neitt eigið fé á
móti kaupum á slíkum bréfum, enda voru þau „áhættulaus". Þetta var gert til að
stjórnmálamenn gætu tekið eindalaus lán með sölu ríkisskuldabréfa til banka, og
notað fjármunina í gæluverkefni. Allt til að þóknast kjósendum og tryggja
endurkjör. Grikkland er einmitt gott dæmi um þetta en Grísk ríkisskuldabréf voru
talin áhættulaus fram eftir fyrsta áratug nýrrar aldar. Hvort skyldi þetta nú
ver sósíalismi eða kapítalismi. Hvað í ósköpunum hefur þetta með frjálshyggju
að gera? Þetta feigðarflan hefur valdið því að bankar hafa þanið út efnahag
sinn og sér ekki fyrir endann á því ævintýri. Margir stærstu bankar heims eru
nánast gjaldþrota ef tekið er tillit til raunverulegrar áhættu þeirra í
ríkisskuldabréfum, sem aldrei verður hægt að endurgreiða.

Lýðskrumið og töfrar

En það er ótrúlegt hvernig lýðskrumararnir komast eindalaust
upp með slagorðin og upphrópanirnar. Það er ekki hægt að tala vitrænt með rökum
um mikilvæg mál líðandi stundar, þar sem fæstir kynna sér málin og fylgja
þessum hrópum. Þó augljóst sé að íbúðarlánasjóður sé gjaldþrota, búinn að taka verðtryggð
lán til langs tíma á 3.5% vöxtum, en neitendur vilja ekki þessi lán. Þeir sitja
því uppi með skuldbindinguna og fullar hendur fjár sem skila engum vöxtum og
tjónið er metið í dag á 120 miljarða. Stjórnmálamennirnir sletta 13 milljörðum
í hítina og láta hitt bara reka á reiðanum.

Framsóknarflokkurinn

Framsókn ætlar hinsvegar að sveifla töfrasprota og láta
eignir sama sjóðs hverfa. Ef það mál er skoðað aftur í tímann, og síðan metin
framtíðarkostnaður, gæti það verið allt að 900 milljarðar króna. Fá þeir
brautagengi í kosningunum út á slík loforð, er kannski hægt að segja að
kjósendur fái það sem þeir eiga skilið. En það verður ekki frjálshyggjan eða
kapítalisminn sem ríður okkur þar að fullu, frekar en fyrri daginn.

Ef Framsókn nær 25% fylgi út á þessi loforð er ekkert annað
eftir en segja: „Guð blessi Ísland"


Grein í Fiskifrétturm 7. mars

Sátt í sjávarútvegi

Í grein sem Friðrik J. Argrímsson skrifar í Fiskifréttir 28.
feb.  kemur fram að hann telji einsýnt að
engin sátt náist um stefnu núverandi ríkisstjórnar í sjávarútvegsmálum. Það er
rétt mat enda í stefnu vinstri manna að draga úr markaðsskipulagi með áherslu á
ráðstjórn, sem mun færa okkur aftur um áratugi í efnahagslegu tilliti. En hin
hliðin á peningnum er að það kemur heldur ekki til að verða sátt um kerfið eins
og það var. Komist stjórnarandstaðan til valda og breyti til fyrra horfs, verður
mikilvægustu atvinnugrein Íslendinga áfram haldið í heljargreipum óvissu.

Málið er að stjórnarandstaðan hefur enga lausn á óvissu í
sjávarútvegi og því síður LÍÚ. Þegar kemur að lausnum til framtíðar festast
útvegsmenn í persónulegum hagsmunum og komast hvorki lönd né strönd með málið
og stjórnmálamenn þora ekki að taka slaginn.

Hvert á að stefna?

Það er nauðsynlegt að lyfta sér upp úr dægurþrasinu þegar
sjávarútvegsmál eru rædd og finna lausn sem tekur tillit til þjóðarhags til
framtíðar. Að sameinast um stefnu sem tryggir verðmætasköpun í greininni og viðheldur
samkeppnisyfirburði íslensks sjávarútvegs. Sjávarútvegurinn á ekki  einn að standa undir byggðarstefnu á
Íslandi.  Gera þarf kröfu um að
byggðakvótar valdi sem minnstri sóun og séu raunveruleg stoð fyrir byggðir sem
hafa farið halloka undanfarna áratugi og byggja tilveru sína á sjávarútvegi.

Við þurfum að byggja á aflamarkskerfi með úthlutun á
framseljanlegum kvóta til langs tíma. Öðru vísi getum við ekki stjórnað veiðum
á hagkvæman hátt. Um allan heim eru þjóðir að taka upp slíkt kerfi til að
tryggja arðsemi og sjálfbæra nýtingu auðlinda.

Sjávarútvegsstefna og sjávarbyggðir

Það þarf að endurskoða byggða-potta frá grunni og leggja
niður núverandi kerfi sem veldur sóun og dugar ekki sjávarbyggðum sem bjargræði.
Setja þarf upp einn pott sem úthlutað er úr til langs tíma á  atvinnusvæði sem hafa átt undir högg að sækja
þar sem íbúaþróun hefur verið mjög neikvæð. Þessum pottum þarf að úthluta á
markaðslegum forsendum með skilyrði fyrir vinnslu á þessum atvinnusvæðum, til
langs tíma (hugmyndir Þórodds Bjarnasonar).

Semja þarf um skynsamlegt nýtingargjald fyrir auðlindina, engin  sátt virðist vera um annað í þjóðfélaginu. Ef
greinin býr við svo kallaða auðlindarentu, sem er mjög jákvætt, þá þarf að
skoða hvernig henni verður ráðstafað til samfélagsins. Vænlegasta leiðin væri
að hækka laun í fiskvinnslu í framtíðinni, sem væri besta mögulega byggðaaðgerð
fyrir sjávarþorpin. Ef skattheimta er notuð þarf að byggja á almennum reglum um
auðlindagjald, fyrir allar auðlindir sem þjóðin nýtir, ekki bara fyrir
sjávarútveginn.

Sátt í sjávarútveg

Því miður er enginn hljómgrunnur fyrir þessum hugmyndum hjá
útgerðarmönnum. Einhvern veginn virðist þeim ómögulegt að horfa á málið frá
þessum sjónarhóli. Líklegt er að sjálfstæðismenn gætu náð sátt við jafnaðarmenn
um slíka sátt. Ráðstjórnarmenn munu áfram berjast fyrir ríkisskipulagi, enda
ekki er við öðru að búast.

Til að ná sátt, þar sem skynsemi yfirtekur tilfinningar að
mestu, þá liggja fyrir  greiningar og
gögn sem er afrakstur mikillar vinnu okkar helstu sérfræðinga undanfarin ár sem
mætti byggja ákvarðanir á. Halda þarf hópum sem stjórnast af þröngum
eiginhagsmunum frá ákvörðun, þó rétt sé að hafa þá með við undirbúning. Við
þurfum að tryggja markaðsbúskap við mikilvægustu atvinnugrein Íslendinga og
hámarka virkni byggðaaðgerða og lágmarka kostnað við þær. Við þurfum að tryggja
að sjávarbyggðir njóti góðs af velgengi í sjávarútvegi. Um það ætti meirihluti
landsmanna að geta sameinast um.


Dýrið gengur laust

Það er þyngra en tárum tekur að horfa upp á minn gamla góða
flokk, Sjálfstæðisflokkinn. Aldrei hef ég treyst jafn mikið á hann og stefnu
hans en undanfarin ár; ár þar sem Íslendingar hafa undir forystu vinstri manna
fetað leið ráðstjórnar og sósíalisma. Reyndar undir slagorði um norræna
fyrirmynd, en Ísland er eina norðurlandaþjóðin sem fetar þennan stíg.

Íslendingar eru í djúpri kreppu þar sem lífskjör hafa gefið
mikið eftir og framleiðni er svipuð og gerist í Grikklandi. Endalaust er bætt
við ríkisumsvifin og dregið úr verðmætasköpun. Undirritaður tilheyrir stétt
sérfræðinga, og samkvæmt nýjum tölum eru þeir hálfdrættingar í kaupmætti miðað
við starfsbræður þeirra á hinum norðurlöndunum. Eini möguleikinn til að bæta
kjörin er aukin framleiðni og verðmætasköpun. Hér skal sérstaklega vitna til
skýrslu McKinsey um þetta mál.

Því voru það mikil vonbrigði að hlusta á setningaræðu
formanns Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benedikssonar á landsfundi flokksins. Þar
dró hann skýra átakalínu í ESB og gjaldmiðlamálum, þar sem menn lentu annað
hvort í svörtum eða hvítum kassa, að hætti Davíðs Oddssonar. Hann tók sem sagt
ólina af skrímslinu og hleypti því lausu.  Eftir þessa ræðu var öfgamönnum í flokkun
gefinn byr undir báða vængi og ljóst að frjálslyndir flokksmenn yrðu undir í
átökum á fundinum.

Það er með ólíkindum á þessari ögurstundu sem nú ríkir í
Íslenskri pólitík að formaðurinn kjósi að draga flokkinn sinn inn í átök , í
stað þess að skapa samstöðu um mikilvægust málefni líðandi stundar;
efnahagsmál. Útiloka samstarf eftir kosninga við alla flokka, nema
Framsóknarflokkinn. Það þarf ekki mikla sérfræðinga til að sjá, þó svo að
þessir tveir flokkar nái meirihluta, að Framsókn mun hafa yfirburða stöðu í
samningum um meirihlutamyndun. Þeir munu hafa allar leiðri opnar en okkar
flokkur enga aðra stöðu en semja við þá. Vinstri grænir eru orðnir
frjálslyndari flokkur en Sjálfstæðisflokkurinn og opnaði allar leiðir til
samstarf eftir kosningar. Þeim er mikið í mun að halda á þeirri braut sem lagt
hefur verið á, og Bjarni Ben veitti þeim brautagengi til að halda á með sína
ráðstjórn í framtíðinni.

untitledÉg hef alltaf verið hræddur við öfgafólk og sérstaklega
þegar það siglir undir flaggi Sjálfstæðisflokksins. Þetta minnir svolítið á
kaþólsku kirkjuna á miðöldum, það þarf ekki að útskýra umheiminn þar sem guð
skapaði hann. Öllum vísindum og þekkingu er hafnað fyrir guðsorðið og hart
tekið á vantrúuðum, mönnum eins og Galileo og Darwin. Menn beita fyrir sig
slagorðum og upphrópunum og spila inn á þjóðernishyggju til að hræða fólk í
liðið með sér. Lítið fer fyrir málefnalegri umræðu um ESB eða íslensku krónuna.

Í mínum huga er það kristaltært að Íslendingar hafa aldrei
getað rekið peningamálastefnu né haft stjórn á ríkisfjármálum til langs tíma.
Endalaus tilflutningur á verðmætum frá einum til annars hefur einkennt íslensku
krónuna, og enn stefnir í stór slys ef Framsókn kemst að með sín ábyrgðalaus
loforð um „leiðréttingu" vegna vísitölulána. Verði farið að þeim hugmyndum mun
það kosta ríkissjóð og lífeyrissjóði um 900 milljarða króna!

Ef Bjarni Ben ætlar að nota íslenska krónu „um ófyrirséða
framtíð" þarf hann að útskýra hvernig hann ætlar að gera það öðruvísi en allir
íslenskir fyrirrennara hans til þessa! Fyrir utan tvö þrjú ár hjá Davíð, hefur
íslenskt hagkerfi verið eins og rússíbani og fólk hefur hagað sér eins og engin
væri morgundagurinn. Þannig getum við aldrei haldið uppi lífsgæðum á Íslandi.


Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband