Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Enn meira af golfi

golf_i_kandy_027_861014.jpgEnn er verið að basla við golfið.  Bloggari hafði farið til golfkennara eftir að hann kom til Kampala frá Sri Lanka, en ekki uppskorið eins og til var sáð.  Kennarinn, sem kemur frá Uganda Golf Club (klúbbi bloggara) er einn af fimm GolfPro sem klúbburinn er með á sínum snærum.  Hann byrjaði á að leggja til fimm breytingar á sveiflunni og sjö atriðum með driverinn ásamt nýrri aðferð við að pútta og inná-skotum.  Þetta var eins og smiður myndi hugsa um ein tíu atriði frá því að hann mundar hamarinn og þar til hann skellur á naglahausnum.  Sú sveifla tekur um sekúndu og því ómögulegt fyrir stóra heilann að framkvæma slíkt, og því nauðsynlegt að nota litla heilann.  Sá er einmitt ætlaður til að læra endurteknar aðgerðir, eins og t.d. að taka skref á göngu eða sveifla golfkylfu.

Það þarf ekki að fjölyrða um það að árangurinn var enginn og því haldið á að byggja á því sem bloggari taldi vera rétt.  Reyndar er það sjaldnast þannig og flestir eru að gera einhverja vitleysu.  En ágæt högg komu út úr þessu, lengdir oft góðar og stefna stundum rétt.  Það sem vantaði var stöðugleiki.  Það er ekki nóg að slá stundum 100 stikur með PW og stundum 130 stikur.  Stundum 20° til vinstri, stundum 25° til hægri og í hin skiptin kannski beint!  Golf gengur út á stöðugleika þar sem stefna er grundvallaratriði, til að halda sig á brautinni, og halda vegalendum jöfnum.  Ef slá á 130 stikur þarf að vera hægt að treysta á ákveðið járn til að gera það, og slá alltaf svipaða vegalend með t.d. 8 járni.  Síðan að taka 7 járn fyrir 140 stikur.  Ekki er aðal atriðið að geta náð 140 með 8 járni og 150 með 7 járni, heldur að halda stöðugleika.  Sveiflan má ekki vera eins og hagsveifla Íslands undanfarna áratugi.

gunni_og_gisli_jon_a_saga_i_eldinn_001.jpgVandamál bloggara var sem sagt stöðugleikinn og þegar fokið var í flest skjól hvað það varðaði var leitað til annars golfkennara hjá klúbbnum.  Nú tókst betur til en sá nýi lagði til að byrja á að laga tvö atriði og síðar að taka annað fyrir sem minna máli skiptir.  Sleppa driver og trjám og byrja á járnunum og ná góðum tökum á þeim.  Aðal atriðið var að halda hægra fæti stöðugum og síðan að sveifla ekki til mjöðmum í niðursveiflu.  Nota sveifluna og losa um úlnliðinn fyrir korkið, og sleppa öllum átökum í sveiflunni.  Þetta virðist vera að skila sér og smátt og smátt kemur stöðugleikinn, og vonandi verður hægt að yfirfæra árangur járnanna yfir á trén.  Málið er að rétta sveiflan er mjög einföld, en bloggari hafði búið sér til mun flóknari aðferð.  Þetta var eins og að reyna að smíða Chesterfild sófa þegar stendur til að smíða garðbekk.

En það liggur mikið við hvað golfið varðgolf_i_kandy_039_861016.jpgar og ríður á að mæta á Tungudalsvöll með stæl í ágúst.  Bloggari þarf að taka hring með vini sínum Gísla Jóni, og sýna betri takta en síðasta sumar, þegar hann kom í frí frá Sri Lanka með spánýja sveiflu í farteskinu. 

Þegar horft er til baka, rúmt eitt og hálft ár sem bloggari hefur verið að æfa golf, er ljóst að aldrei hafa jafn fáir lagt jafn mikið á sig á jafn löngum tíma.  Bloggari hefur verið sofandi og vakandi yfir golfinu, en árangurinn því miður ekki verið í takt við erfiðið.  Kannski þetta sé svona eins og að kenna Gretti Ásmundarsyni ballett.  En einn dag mun hann ná fullnaðartökum á golfsveiflunni og öll högg verða fullkomin og stöðug, alla daga!

Eða hvað?  Er það sem menn vilja?  Væri eitthvað gaman að golfi ef sú væri raunin?  Væri þá ekki jafngott að negla með hamri?


Úr Sjómannablaði Vesturlands

Mikil átök hafa verið undanfarin ár um fiskveiðistjórnunarkerfið, og sitt sýnist hverjum.  En þegar upp er staðið þá ber að velja stefnu sem þjónar hagsmunum Íslensku þjóðarinnar best.  En hver er sú stefna og hvernig stýrum við þessari mikilvægu auðlind þjóðarinnar þannig að þjóðin í heild beri sem mest úr bítum?

Stjórnleysi, eða það sem kallað er opinn aðgangur að auðlindinni, er ekki sú lausn sem þjóðinni er fyrir bestu.  Um það eru flestir sammála og nærtæk dæmi um slíkt eru víða um heim.  Eitt dæmi er hér í Úganda þar sem veiðar úr einu stærsta stöðuvatni í heimi, Viktoríuvatni, eru komnar í öngstræti.  Eftir að markaður opnaðist fyrir fiskinn úr vatninu hefur sóknin verið takmarkalaus, en áður var hún bundin við að fæða samfélög sem bjuggu í kringum vatnið.  Áður var róið með árum og notast við frumstæð veiðarfæri, en í dag eru notaðir mótorar og afkastamikil veiðarfæri úr gerviefnum.  Með hruni fiskistofna verður veiði minni á sóknareiningu og allir bera minna úr bítum og fátækt er landlæg í fiskimannasamfélögum kringum vatnið.   

Þó frelsi sé almennt gott í viðskiptum gengur það illa upp þegar kemur að endurnýjanlegum auðlindum eins og fiskistofnum.  Halda þarf stofnstærðum ofan hagkvæmra marka og því nauðsynlegt að takmarka aðgengi fiskimanna að miðunum.   Óheftar veiðar í ólympískri samkeppni koma í veg fyrir hagkvæma nýtingu fiskveiðiauðlindar og hefur oft verið kallað ,,raunir almenninga" þar sem menn keppast um að veiða þar til stofnarnir hrynja.  Þessu má líkja við bændur sem stunda beit í sama dalnum.  Þó beitilandið sé ofnýtt freistast hver bóndi til að sleppa fleiri kálfum í dalinn, vitandi að hann ber ekki þann fjölda sem fyrir er.  ,,Ef ég geri það ekki þá mun nágranni minn gera það" hugsar hver um sig, og allir tapa.

Um þetta eru flestir sammála en þá kemur að því að ákveða hvernig eigi að takmarka sókn í fiskveiðiauðlinda.  Í rauninni er hægt að gera það með því að ákveða hámarks veiðimagn á ári fyrir hverja tegund fyrir sig og stoppa veiðar þegar því er náð.  Líffræðilega gengur þetta vel upp en er hörmulegt fyrir hagkvæmni og stjórnun á meðafla við veiðar.  Samkeppnin gengur út á að afla magns en gæði eru fyrir borð borin og þarf ekki annað en hugsa til þeirra tíma þegar skuttogarar tóku iðulega inn 20 til 60 tonna höl þar sem allur aflinn var meira og minna ónýtur.  Og þeir sem eru komnir yfir miðjan aldur muna þann tíma þegar þorskafla var sturtað út á tún vegna þess að frystihúsin höfðu ekki undan veiðinni.   Á þessu árum gekk veiðin út á að afla magns en ekki verðmæta.  Slíkt kerfi kallar á sóun þar sem fiskveiðiarðinum er sólundað, engum til góðs.  Það hefur verið sagt að þjófnaður sé skárri en sóun þar sem þjófurinn hafi möguleika á að hagnast, en enginn ber neitt úr býtum við sóun.

Framseljanlegir veiðikvótar nýtast vel til að tryggja hagkvæmni veiðar og leysa jafnframt vandamál við meðafla.  Sem dæmi má nefna að erfiðlega hefur gegnið að veiða upp ýsukvóta þar sem þorskur er meðafli og takmarkað framboð er af lausum kvóta.  Í Evrópusambandinu hefur vandamál með meðafla verið leystur þannig að honum er hent fyrir borð, en slíkt kallar á mikla sóun auðlindarinnar og er fjarri því að tryggja hagkvæma nýtingu hennar.  Með framseljanlegum veiðikvótum geta menn hinsvegar keypt eða leigt sér þann kvóta sem þeir þurfa, þ.m.t. vegna meðafla. 

Framseljanlegt kerfi getur síðan verið með ýmsum hætti.  Á Íslandi hefur sú leið verið farin að mynda eignarrétt á nýtingu aflaheimilda, til að hámarka virði þess afla sem veiðist.  Bent hefur verið á að útgerðarmenn hámarki nýtingu á eign sinni og þannig hámarki þeir afrakstur auðlindarinnar.  Slíkt tryggir vel það sem lagt er upp með að tryggja fiskveiðiarð í greininni.  Hinsvegar þarf að girða fyrir hverskonar brask með aflaheimildir, enda þjónar það ekki þjóðhagslegum hagsmunum.

Evrópusambandið setur reglur um afkastagetu flotans til að stýra veiðimagni, m.a. með stærð skipa og vélarstærð.  Stefna þeirra er í algjöru öngstræti enda veiðigeta um 60% umfram afrakstur stofna, með neikvæðan fiskveiðiarð og ríkisstyrkir notaðir til að stoppa í gatið.  Þessa dagana berast þær fréttir frá Brussel að Framkvæmdastjórn sambandsins vilji fara veg Íslendinga í fiskveiðistjórnun með því að einkavæða sóknina með framseljanlegum kvótum.  Í þeirri trú að einmitt eignarrétturinn skapi ábyrgð hjá fiskimönnum til að umgangast auðlinda og hámarki arðsemi hennar.

Ríkið getur einnig leyst til sín kvótann (fyrningarleið) og leigt síðan til útgerðarmanna.  Margir halda því fram að slíkt tryggi hagkvæmni og einnig réttlæti, sem umræðan hefur snúist mikið um undanfarin ár.  En sporin hræða þegar kemur að pólitískri útdeilingu á gæðum.  Mikið vantar upp á að sýnt sé fram á hvernig slík útdeiling verði framkvæmd og það tryggi þjóðarhag umfram núverandi kerfi.  Reynslan sýnir hinsvegar, að oftar en ekki er horft framhjá arðsemi þegar stjórnmálamenn fást við ,,réttlæti"  Rétt er að taka því fram að kvótakerfið var ekki sett á til að tryggja byggðaþróun sem hugnast stjórnmálamönnum, né til þess að tryggja viðgang fiskistofna.  Það var sett á til að auka framleiðni og koma í veg fyrir sóun við fiskveiðar. 

Ef við höldum okkur við þjóðarhag þá er markmiðið ekki að fjölga sjómönnum á Íslandi, heldur auka verðmæti bak við hvert starf í sjávarútvegi og lágmarka kostnað til langs tíma litið.  Auka framlegð eins og mögulegt er og þar með fiskveiðiarð.  Sem dæmi má nefna að 300 þúsund sjómenn á Srí Lanka veiða um 250 þúsund tonn af fiski árlega.  Til samanburðar á Íslandi eru innan við 3.500 sjómenn að veiða frá einni til tveimur milljónum tonna, sem gerir þá sennilega af þeim afkastamestu í heimi, allavega hvað verðmæti viðkemur. 

Hér er um gríðarlega mikilvægt mál fyrir þjóðina að ræða og nauðsynlegt að vanda umræðuna.  Við endurskoðun á fiskveiðikerfinu þarf þjóðarhagur að ráða för.  Að hámarka framleiðni í greininni með því að lágmarka kostnað og hámarka verðmæti.  Slík hugtök eru nokkuð föst í hendi og hægt að ræða um þau með vitsmunalegum hætti.  Nota reynslu, rannsóknir og þekkingu til að komast að skynsamlegustu niðurstöðu fyrir þjóðina.  Hinsvegar er réttlætið flóknara viðfangs og sýnist einum eitt og öðrum annað.  Því miður verður slík umræða meira í skötulíki og fer oftar en ekki niður á plan lýðskrums og pólitískra þrætumála. 

Höfundur er fyrrverandi formaður Sjómannafélags Ísfirðinga


Brown Haarde

Bloggari var að horfa á blaðamannafund Gerorg Brown forsætisráðherra Breta rétt í þessu.  Það var ekki laust við að hann fylltist Þórðargleði að sjá Brown, óöruggann kvíðinn og greinilega fráfarandi leiðtogi Verkamannaflokksins.  Talandi um heiðarleika og að hann sé ekki hrokafullur, í öðru hvoru orði.  ,,Ég geng ekki frá ábyrgð minni og yfirgef ekki þjóðina á ögurstundu"  Allt minnti þetta á Geir Haarde á haustdögum síðasta ár.  Firrtur stuðningi þjóðarinnar og flokksins, einangraður og leitaði hvergi ráða í vandræðum þjóðarinnar.  Það er líkt með báðum þessum mönnum að hvorugur virðist skilja ábyrgð sína á þeim mistökum sem þeim varð á.  Hvorugur hafði leiðtogahæfileika til að leiða þjóð sína út þeim erfiðleikum sem við blasti.  Hinsvegar er Brown á kaf í pólitískri spillingu, ólíkt Geir Haarde á sínum tíma, sem þurfti hinsvegar að horfa á mistök við ákvarðanir og aðhald.

Sex ráðherrar hafa yfirgefið Brown undanfarið, og tveir eftir að búið var að tilkynna um breytingar í ríkisstjórn.  Það er brostinn á flótti í liðinu og greinlegt að baráttan er töpuð.  Sjálfsagt erfitt fyrir utanríkisráðherra Íslands, sem er ævifélagi í breska Verkamannaflokknum og hlýtur að vera mikil stuðningsmaður þeirra stefnu og athafna sem hann hefur staðið fyrir undanfarin misseri.

Einhvernvegin kenna Bretar ekki frelsi eða kapítalisma um ófarir sínar, líkt og margir Íslendingar gera.  Allavega er ljóst að miðað við skoðanakannanir myndu Íhaldsmenn ná meirihluta í næstu kosningum, og ekki eru þeir talsmenn ríkisafskipta né mótfallnir frelsi einstaklingsins.

Bretar búa við einstaklingskjördæmi og því þarf að kjósa þegar þingmaður hættir eða fellur frá.  Þannig geta breytingar orðið smátt og smátt og þrýst á að ríkisstjórn neyðist til að boða til kosninga.  Þetta kerfi viðheldur fáum stórum flokkum og takmarkar fjölda flokksbrota, sem margir telja vera grundvöll lýðræðis.  Hinsvegar hafa smáflokkar á Íslandi aldrei haft nein jákvæð áhrif á samfélagið og ekki aukið lýðræði í landinu.  Engin eftirsjá er af flokki eins og Frjálslandaflokknum, enda var flokkstarf og lýðræði innan hans eins langt frá góðum stjórnunarháttum og mögulegt er.  Þetta var flokkur sem gerði út á lýðskrum og upphrópanir.  Hafði aldrei neina alvöru stefnu til að bæta stöðu þjóðarinnar.

En framundan eru spennandi tímar í breskri pólitík. 

 


Í minningu Högna Sturlusonar

Högni Stull við tölvunaHögni Sturluson var fæddur í Rekavík bak Látur 15.apríl 1919.  Seinna fluttist hann til Fljótavíkur þar sem hann kvæntist Júlíönu Júlíusdóttur, Geirmundsonar bónda á Atlastöðum.  Högni var einn fimm Fljótavíkurbænda sem brugðu búi og fluttust alfarnir úr víkinni árið 1946, og skildu nær allar veraldlegar eigur sínar eftir.

Undirritaður átti því láni að fagna að kynnast Högna seinni árin, þó hann hafi reyndar þekkt hann síðan hann man eftir sér.  Einstaklega ræðinn maður og mikill sögumaður.  Þegar undirritaður safnaði saman fróðleik um lífið í Fljótavík í upphafi síðustu aldar, var Högni mikill sagnabrunnur og lýsti lífinu og tilverunni við harðneskju á nyrstu nöf við Dunshaf.

Að sögn Högna Sturlusonar voru veiðibátarnir smá kænur, af augljósri ástæðu, þar sem menn réðu ekki við að lenda stærri bátum í brimgarðinum nema margir saman.  Aðeins voru tveir menn á hverri skektu og réði það stærð bátanna ásamt aðstæðum í Fljóti.  Síðustu þrjú árin sem Geirmundur Júlíusson var búsettur í víkinni reru þeir Högni saman og verkuðu eitt árið um 24 tonn af saltfiski.  Júlíus reri þá við Guðmund son sinn en feðgarnir Finnbogi og Jósep gerðu út saman.  Ef haft er í huga að vélbátavæðing hófst á Ísafirði 1902, er erfitt að ímynda sér þessa útgerðahætti standast samanburð við það.  Svo ekki sé talað um þilskipin sem seinna komu, en ómögulegt hefur verið að gera slík skip út vegna hafnleysis og erfiðra lendingaskilyrða í Fljóti. 

Högni og Þórður JúlÍ einni frásögn Högna minnist hann sjóferðar með Geirmundi þar sem línan var lögð undir Hvestunni.  Veiði var góð og skektan komin í slyðrarann að aftan.  Miðrúmið var orðið fullt af þorski og hálsrúmið hálft af steinbít.  Jafnframt var búið að seila töluvert magn af þorski á skutinn en það var oft gert þegar vel fiskaðist, enda báru bátarnir aflann ekki öðruvísi.  Það var byrjað að hvessa og skall á með norðaustan hvassviðri.  Þegar síðasti balinn var dreginn byrjað að brjóta yfir lunninguna á bátnum.  Geirmundur skipaði nú Högna að henda öllum steinbítnum úr miðrúminu í sjóinn.  Þegar búið var að draga línuna minnist Högni þess að hann fleygði henni aftur í bátinn til Geirmundar, og við það gekk hnýfillinn á kaf í ölduna.  Geirmundur greip þá aftur fyrir skutinn og sleppti fiskinum sem var seilaður og flaut hann um allan sjó.  En þeim tókst að komast heilum á höldnu í land og koma bátum upp á kambinn við króna.  Rétt er að segja frá því að oft var fiskurinn seilaður fyrir lendingu ef afli var góður og eitthvað brimaði.  Það var gert til að létta bátinn í lendingunni og var fiskurinn síðan dreginn upp í fjöruna í gegnum brimgarðinn.

Geirmundur JúlíussonÍ annarri sögu Högna sem gerðist í róðri rétt fyrir páska fóru þeir Geirmundur yfir á Almenninga að sækja reka en Júlíus og Guðmundur reru til fiskjar.  Veiði var góð enda veður með besta móti.  Á páskadag var víkin eins og heiðatjörn og þegar annar í páskum rann upp var sama uppi á teningnum.  Þá vildi Júlíus róa en Guðmundi  þótti dagurinn vera heilagur. Högni, sem þá var fluttur heim á Atlastaði, fór þá út eftir til Geirmundar og spurði hvort hann ætlaði að róa.  "Á heilögum degi" sagði Geirmundur og neitaði því.  Högni fór þá heim aftur og sagði "Jæja, ég er til í að fara á sjóinn"   Og varð úr að þeir hrintu bát úr vör og lögðu línuna.  Ekki tóku æðri máttarvöld uppátækið illa upp og fiskaðist þeim vel.  Fylltu þeir heilar þrjár tunnur af saltfisk sem gaf þeim um 500 krónur í aðra hönd, sem þótti mikið í þá daga.

Högni minntist þess að Júlíus var vanur að fara í hverjum janúarmánuði yfir að Látrum og til Miðvíkur.  Þetta var hans andlega upplyfting að hitta karlana, svo sem Frigga Magnúsar, til að spjalla og segja sögur, enda átti hann sínar rætur á þessum slóðum.  Eitt sinn var blíðskapar veður og reru Högni og Geirmundur upp á hvern dag og lágu bara fyrir föstu á baujuvaktinni.  Þá leið Júlíusi illa þegar hann kom til baka, að hafa misst af þessari veiði sem gaf mjög vel í aðra hönd.

Fleyri sögur hef ég skráð eftir Högna og birt meðal annars á bloggi mínu í júní mánuði 2007, svo sem um frægt smyglmál í Rekavík bak Höfn.

Högni tilheyrir kynslóð sem örugglega er einstök í mannkynsögunni.  Fæddur í torfkofa án rennandi vatns og rafmagns þar sem handaflið eitt var til að berjast fyrir lífinu við erfið skilyrði.  Fyrir utan verkkunnáttu voru kjör þessa fólks á fyrri part tuttugustu aldarinnar, með því lakasta sem þekkist í Evrópu, og þó víðar væri leitað.  Veðurfar með því versta sem þekkist á Íslandi þar sem snjóa leysti upp í júní og vetur skollinn á í september.  Langvarandi óþerrar sem gerðu heyskap og fjárhald erfitt og því treyst meira á sjóinn en víða annarsstaðar.  Högni lifði mikla breytingartíma, sennilega meiri en nokkur önnur kynslóð í veröldinni hefur gert, að kynnast rafmagni, vélum og síðan og ekki síst, tölvuöld og veraldarvefnum.  Yfirleitt þegar ég leit við hjá honum á Hlíf, var hann að skoða heimasíður afkomenda sinna, senda þeim tölvupóst eða nýbúinn að spjalla við einhvern þeirra í Ameríku á Skype. 

Fyrstu kynni mín af Högna var þegar ég fór ungur að árum til Fljótavíkur í fyrsta sinn með foreldrum mínum ásamt hópi fólks með Gunnhildi ÍS.  Jói Júl var skipstjóri en Högni vélstjóri.  Við lentum í hörku brælu fyrir Ritinn og Straumnes og ég minnist þess að vera frávita að skelfingu, enda sannfærður um að dagar mínir væru taldir.  Hnútarnir í röstinni lögðu bátinn ítrekað á hliðina og tók inn fyrir lunningar nokkrum sinnum.  Þá var þessi hressi og málglaði maður spilandi kátur, segjandi sögur og gantast við samferðarfólkið áður en hann hvarf niður um lítinn hlera á brúargólfinu, niður í ærandi hávaða og olíustybbu vélarrúmsins.  Þetta var sko karl í krapinu.

Ég átti frí heima á Ísafirði um síðustu jól og leit við hjá Högna til að draga hann á jólaskemmtun Kiwanis klúbbsins Bása á Hlíf.  En hann treysti sér ekki til að kíkja niður í matsal og sá ég þá í hvað stefndi.  Tíðindi af brotthvarfi hans kom því ekki á óvart.  Fjölskyldu hans vil ég senda bestu kveðjur og innilega samúð á þessum tíma.


Fréttir frá miðbaug

fer_3_a_hera_svae_i_002.jpgÞað ber fátt til tíðinda héðan frá miðbaug.  Þó eru veðrabrigði í lofti og regntíma að ljúka og þurrveður framundan.  Við það lækkar hitastig aðeins við heiðskýran himin.  Hrollkalt á nóttunni, alveg niður í 16°C.  En heitt og sólríkt seinnipartinn, einmitt þegar bloggari spilar golf.

Annað sem borið hefur til tíðinda er að um mánaðarmótin viku garðyrkjumennirnir af vaktinni og hættu að gæta öryggis íbúana í 12 Basarabusa Bugolobi.  Við tóku einkennisklæddir varðmenn frá Delta Force Security.  Þessir karlar eru vopnaðir og næturvörðurinn bar AK 47 riffil en dagvörðurinn afsagaða haglabyssu.  Ég var dauðhræddur um að hann myndi skjóta af sér fótinn þegar hann brölti við að opna risastórt stálhliðið inn á lóðin hjá mér í kvöld, til að hleypa húsbóndanum inn.  Hélt á byssunni í annarri og reyndi að renna hurðarflekunum með hinni.  En loks lagði hann frá sér vopnið til að ráða við hliðið.

Maður rekst á marga í golfinu og í dag spilaði ég með tveimur ungum mönnum, Kevin og Sam.  Þeir voru 24 og 25 ára.  Gætu verið synir mínir þannig lagað séð.  En það var gaman að rölta níu holur með þessum strákum, spila golf og spjalla um heima og geyma.

Á morgun er frídagur en ég er ekki alveg viss hvers vegna.  Tel þó að það hafi eitthvað með fyrstu skírnina til kristni í Úganda að gera.  Við eigum það inni eftir að hafa misst af sumardeginum fyrsta, uppstigningardegi og hvítasunnuhelginni.


« Fyrri síða

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 9
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 283952

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband