Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Góð fyrirmynd ríkisstjórnar

Þarna er komin góð fyrirmynd ríkisstjórnar Samfylkingar og V.G.  Ríkið allt um yfir allstaðar.  Almáttugt og ,,réttlátt"

Úthluta aflaheimildum, skattleggja sykur og hafa vit fyrir almúganum sem ekki kann fótum sínum forráð. 

Eitt sinn fyrir löngu síðan sat í boði vinar míns í matsal Alþingis.  Einn ágætur framsóknar-sjálfstæðismaður var þar með háreysti að lýsa skoðunum sínum á sölutregðu á lambakjöti, enda bóndi að austan.  ,,Það á að banna þetta helv. pasta"  En þá hafði almúganum dottið sú fyrra í hug að kaupa pasta og elda ítalska rétti, í staðin fyrir að kaupa frosna skrokka í grisjupokum. Hugo hefði ekki verið lengi að leysa svoleiðis misskilning hjá þjóðinni.  Jón Bjarnason mun örugglega taka upp slíka viðskiptahætti í framtíðinni. 

Til hamingju kjósendur V.G.


mbl.is Taka yfir pastaverksmiðju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á ferð um Úganda

fer_til_nebbi_025.jpgVið skruppum félagarnir til tveggja héraða við kyoga vatn til að heimsækja héraðastjóra vegna verkefnis sem við rekum.  Mér varð hugsað til þess þegar við ókum í gegnum fátækleg þorpin hversu lítil tækifæri þetta fólk fengi í lífinu.  Hvað Íslendingar hafa það í rauninni gott, þrátt fyrir kreppu og stundar erfiðleika.

Við gistum í Nebbi, sem er höfuðstaðurinn í samnefndu héraði og komum á hótelið upp úr klukkan fimm.  Ég kannaðist við hótelið þar sem við höfðum snætt hádegisverð þar fyrr í vetur.  Það reyndist hinsvegar rafmagnslaust en hótelstýran sagði okkur að rafallinn yrði ræstur upp úr sjö og þá fengjum við ljós.  Ég var með ágæta bók að lesa en þar sem glugginn á herberginu var svo lítill að varla tírði inn, svo ég fór út í garð að lesa á meðan einhverjar birtu naut við.  Við fengum okkur kvöldverð eftir að rafallinn var ræstur og komið rafmagn á flest nema herbergin.  Kvöldmaturinn var ósköp óspennandi en sást þó lítið til hans í veikri týrunni.  Kjúklingaglás með bananastöppu og hrísgrjónum, borið fram með klesstum brauðhleifum.  Sjálft kjötið var óætt enda ólseigt en sósan var ágæt út á grjónin.  Engin eftirréttur var fáanlegur, ekki einu sinni ávextir.  Hér borða menn vegna þess að þeir eru svangir en ekki í gamni sínu, eins og við gjörspilltir vesturlandabúar. 

Mér varð hugsað til föður míns sem fæddist í moldarkofa og ólst upp við rafmagnsleysi og myrkur, sem nóg er af á Íslandi yfir vetrartímann.  Fólkið í Fljótavík borðaði ekki í gammi sínu, heldur til að fá orku og byggingarefni fyrir líkamann.  Þegar rökkva fór var ekkert annað að gera en að leggja sig þar sem ekki sást til neinnrar vinnu en eftir að myrkrið var skollið á var hægt að kveikja á týru og sjá til.

fer_til_nebbi_016.jpgVið ákváðum að fá okkur gönguferð um bæinn eftir matinn.  Það var skollið á niðamyrkur og eins og konan af Langanesinu sagði ,,það sást ekki milli augna".  Bærinn hafði verðið rafmagnslaus í hálft ár.  Rafveitan hafði verið einkavædd og svo bilaði stóri rafallinn (og olíuverðið fór upp) og það var verið að bíða eftir varahlutum.  Menn reiknuðu með að minnsta kosti öðrum sex mánuðum áður en viðgerð lyki.

Það var ævintýri líkast að ganga um miðbæinn.  Myrkrið var svo þykkt í mollu hita og aðeins tírði í glóandi kolin þar sem maís var grillaður á hverju horni.  Maður fann fyrir fólkinu og heyrði skvaldur og hlátur en sá varla nokkurn hlut.  Þó var einstaka staður sem hafði rafal og þar skein skær og tær flúorbirtan út á götuna og mergðin kom í ljós.  Einstaka verslun var með kertaljós og var nánast eins og ofurbirta þeirra skæri augun.  Mér varð hugsað til þorpsmyndarinnar að Sæbóli í Aðalvík í upphafi síðustu aldar.  Ekkert rafmagn en þó smá týra út um glugga hér og þar.

Þarna voru hárgreiðslustofur, veitingastaðir, barir og hvaðeina.  Þegar við gengum fram hjá einum þeirra var kallað á okkur „Hey White man, Americano.  Come and have a drink"  Við gengum áfram og í gegnum myrkrið sáum við móta fyrir ljósastaur sem fyrir hálfu ári lýsti upp torgið sem við gengum framhjá á leið á hótelið okkar.

Ég fékk rafljós til að lesa til klukkan tíu en þá þagnaði rafallinn, og fljótlega allt skvaldur sem barst  inn um gluggann.  Það var komin nótt og tími komin til að fara að sofa.

Rétt áður en svefninn sigraði og ég leið inn í ómeginsveröld hvíldarinnar varð mér aftur hugsað til Hornstranda og þeirra aðstæðna sem faðir minn ólst upp við.  Hann hafði það fram yfir þetta fólk að það voru þó tækifæri til að sigra heiminn á hjara veraldar.  Koma sér í kaupstaðinn og hefja nýtt líf með rafmagni.

Um morguninn þegar ég vaknaði uppgötvaði ég að hótelið var líka vatnslaust.  Engin morgunsturta í þetta sinn.  Meðan við borðuðum morgunverðinn og ég hafði kvartað við félaga minn, spurði hann hvort ég hefði ekki séð gula brúsann.  Þrjátíu lítra brúsi fullur af vatni.  Áður en við fórum til fundar með héraðastjórninni skellti égfer_2_a_londunarsta_i_065.jpg mér í sturtu og skipti um föt.  Enn einn ósiður vesturlandabúans sem þekkist ekki á Hornströndum.

Það var fimm tíma akstur til Kampala.  Við ókum fram hjá mörgum stórslysum í umferðinni.  Meðal annars komum við að skömmu eftir alvarlegan árekstur vörubíla þar sem líkin lágu um vettvanginn eins og hráviðri.  Það er algengt að farþegar séu upp á varningi á ofurhlöðnum vörubílum, og ekki að spyrja að ef þeir lenda í árekstri.  Það er einhvern veginn erfitt að losna við myndina úr huganum en farartæki og ökumenn eru hættulegir á þjóðvegum Úganda.


Við fyrsta hanagal

Bloggari er ekki hissa á óánægju kærandans vegna hanagalsins.  Í Bugolobi í Kampala þar sem bloggari býr er mikið um hana, og þar af leiðandi hanagal.  Illt er að venjast þessu en þeir byrja að gala upp úr klukkan fimm á morgnana.  Eins og áður segir er ekki um einn hana að ræða eins og í Vestmanaeyjum, heldur virðast þeir vera i hverju húsi og mynda því heilmikinn kór.  Síðan þegar sólu fer að halla síðdegis, svona upp úr klukkan fimm síðdegis, taka þeir við sér aftur og láta í sér heyra.  Sjálfsagt eru þeir að ganga í augun á hænunum með söngvaseið, en mikið er þetta hvimleitt.

Skömmu eftir að hanarnir ljúka morgunsöngnum taka moskurnar í Kampala við, en þær eru útbúnar hátölurum þannig að boðskapurinn fari nú ekki fram hjá neinum.  En sem betur fer er fjarlægðin svo mikil frá mínu heimili, ólíkt og með hanana, að veldur litlu sem engu ónæði, og er frekar eins og óljóst söngl eða suð.

Ég las eitt sinn bók sem heitir "A year in Provance" og segir af breskum hjónum sem fluttu til Frakklands og keyptu sér bóndabæ í Provance héraðinu.  Nágranni þeirra fékk þýskara í næsta hús sem svölluðu og drukku allar nætur, og héldu þannig vöku fyrir bóndanum.  Lítið gekk að tala þá til enda héldu þeir uppteknum hætti.  Bóndinn fékk sér þá hana sem byrjaði að gaula um líkt leiti og þýskararnir lögðust til svefns, en þeim varð þá lítið svefnsamt.  Þeir kvörtuðu við bóndann sem sagðist lítið geta gert við hanagali á morgnana, enda væri þetta sveit.

Það endaði með því að þjóðverjarnir gáfust um, seldu húsið og hypjuðu sig á brott.  Bóndinn tók þá hanann, hjó af honum hausinn og eldaði þjóðarrétt frakka, hana í víni.  Þannig þakkaði hann félaga sínum hananum fyrir hjálpina við að losna við óværuna.


mbl.is Galandi hani veldur enn ónæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og meira golf

stina_i_ganda_008.jpgÞað sér vel til sólar þegar vel gengur i golfinu.  Það byrjaði reyndar með rigningu þegar við fórum saman þrír landar og félagar á sykurekruna, Meta Golf Course, í gær.  En fljótlega birti upp og sólin skein og staðurinn skartaði sínu fegursta.  Völlurinn er hæðóttur, 18 holu og blómum skreyttur með skrautlega páfuglum röltandi um og gefandi frá sér hátt skræk. stina_i_ganda_053_845491.jpg

Það eru innan við fimmtíu kílómetrar á völlinn að heiman en það tekur þó upp undir tvo tíma að aka þessa vegalengd.  Þó þjóðvegurinn, Jinja Road, sé tengibraut við Kenía er fjöldi bíla langt umfram umferðarþol.  Meðalhraðinn fer niður í fimm til tíu kílómetra á klukkustund og oft er maður stopp í langan tíma.  Mannlífið hinsvegar blómstrar meðfram þessari lífæð Úganda og allskyns handverksmenn og iðnaður þrífst meðfram þjóðveginum.

Völlurinn var nýlega opnaður fyrir almenningi en hann er í eigu Meta fjölskyldunnar sem er af Indversku bergi brotin og lifði meðal annars af síðasta konung Skotlands, Idi Amin.  Þegar við spurðum hvort páfuglarnir væru ræktaðir til matar, var brugðist við með vorkunnar svip yfir slíkri fáfræði.  Þeir eru jarðaðir með viðhöfn þegar þeir deyja.  Svona Búddisma - Hindúisma viðhorf þar enda skipar þessi fugl meðal annars mikils sess á Sri Lanka og karlfuglinn skreytir meðal annars skjaldamerki ríkisins.

stina_i_ganda_010.jpgEin erfiðasta brautin á vellinum er sú þrettánda þar sem þarf að slá með ás yfir hávaxin bambustré og engin leið að sjá brautina handan við þau.  Það þarf að setja boltann vel til vinstri til að ná hæð á hann þannig að hann fljúgi yfir trén og lendi á brautinni.  Utan brautar er illviðráðanleg órækt sem mjög erfitt er að slá úr.  En skemmtilegustu brautirnar eru níunda og átjánda hola, sem liggja hlið við hlið nálægt holu nítján.  Þar er slegið um 110 metra yfir gil sem ekkert fyrirgefur.  Báðu megin við flötin eru sandgryfjur og því má ekki miða illa.  Ég nota níuá þessum holum og hef verið nokkuð heppinn að eiga við þær.  Það er mikilvægt að ná góðri holu fyrir tetíma í hálfleik og eins að klára leikinn vel og fara með birtu í brjósti eftir leik dagsins.

Það er hinsvegar driverinn sem er að "drive me craysy" Þetta er svona áskorunin í dag sem heldur vöku fyrir mér og ræður því hvort dagurinn sem góður eða slæmur.  Svona eru nú áhyggjur manna misjafnar.  Ég hugsa að áhyggjur fólks á flóðasvæðum Brasilíu séu aðrar en mínar þessa dagana en svona eru áhyggjum heimsins misskipt.stina_i_ganda_045.jpgstina_i_ganda_013.jpg

 


Hetjur hafsins á norðurslóðum

dsc02800.jpgMeð blóðugum nöglum gat ég klórað mig upp úr skurðinum og upplifði dögun eftir tveggja vikna myrkur og vonleysi.  Bakkarnir úr sandi en með hvössum brúnum sem særa sálina inn að merg.  Golf er erfið íþrótt.

En í gær átti ég góðan leik á golfvellinum í gær með hollenskum hjónum, reyndar er frúin frá Kóreu, en eiginmaðurinn er fjármálastjóri Framkvæmdarstjórnar ESB í Úganda.  Sveiflan var frábær og stutta spilið með ágætum.  Ég fann að ég var farinn að bíta í hælana á vini mínum Gísla Jóni í forgjöf.  Í dag fór ég á æfingavöllinn og bókstaflega allt gekk upp.  Og ég sem var að ákveða að hætta í þessari helv. íþrótt. 

Það er notalegt að njóta ylsins og birtunnar af sólinni eftir svartnættið og vonleysið síðustu tvær vikurnar.  Maður valhoppar heim úr vinnunni og allt er svo létt og skemmtilegt.  Mér finnst ég vera almáttugur.  Reyndar velti ég því fyrir mér hvort ég myndi klára að fara í sund niður á Suðurtanga í 4° C heitum sjó.  Svona eins og hlaupahópurinn með eiginkonuna og tíu öðrum kynsystrum, og þremur körlum, innanborðs afrekuðu í gær.  Hópurinn gerði lítið úr afrekum Hallgríms Bláskógs sem synt hefur um Hornstrandir að sumarlagi undanfarin ár.  Það hriktir í stoðum karlmennskunnar innan gönguhópsins og ekkert annað ráð fyrir hetjur eins og Þorstein og Viðar en skutla sér í norður Atlantshafið og taka sundsprett.  Afrek hlaupahópsins ýtir gjörsamlega til hliðar snjóböðum gufugengisins í Bolungarvík undanfarin ár. Það er best að ég labbi niður að Viktoríuvatni og skutli mér í það.  Ég læt ósagt um hitastigið en breiddargráðan er 0°.  picture_019.jpg


« Fyrri síða

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 283957

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband