Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Á brattann að sækja

fjalli.jpgSíðustu sólarhringar hafa verið með ólíkindum og allt virðist hafa farið á versta veg.  Í fyrstu var ég óánægður með ávarp forsetsráðherra, þangað til ég áttaði mig á að ekkert annað var að segja.  Leggja áherslu á helstu gildi og snúa bökum saman til að takast á við erfiðleika framtíðar.  Vilhjálmur Egilsson trúir að botninum sé náð og spurningin hvort brekkan sé brött framundan.  Vonandi verður hún brött þannig að hún taki okkur hratt upp úr dalverpinu.  Ég hef tekið eftir því við ánægjulegar ferðir mínar um hálendi Íslands og Hornstrandir, hversu gott er að ganga bratta brekku, því hún skilar manni hratt upp.

Ég er enn ekki í þeim gírnum að byrja sakbendingar og leita að blórabögglum og sökunautum.  Það verður ekki fram hjá því horft að það sem harðast er deilt á þessa dagana er það sem allar þjóðir eru að reyna að endurvekja.  Kjark og þor fjárfesta til að koma efnahagslífinu af stað aftur.

Ég las grein eftir Mario Soares, fyrrverandi forseta og forseturráðherra Portúgals í blöðunum í dag.  Hann lítur á ástandið sem endalok kapítalismans og upphaf sósíalismans í heiminum.  Ég er honum algerlega ósammála og kvika hvergi frá trú minni á frjálshyggju til að tryggja almenna velferð í þjóðfélögum heimsins, með frelsi, jafnrétti og lýðræði að leiðarljósi.  Það er erfitt að fínstilla þá krafta sem fólgnir eru í einstaklingsframtakinu og láta þá blómstra á sama tíma og þeir fari ekki fram úr sér.  Oftar en ekki hefur það kallað á markaðsleiðréttingu, og það er einmitt að gerast núna með verri afleiðingum en gerst hefur undanfarna áratugi. 

Það sem hefur gerst var ótrúleg uppspretta fjármagns frá t.d. Kína og olíuríkjunum.  Kína vildi halda gengi gjaldmiðils síns lágu til að auðvelda útflutning til vesturlanda, og í staðin fyrir að flytja fjármagn heim með tilheyrandi hækkun á gjaldmiðlinum, voru þessir fjármunir ávaxtaðir með kaupum á Bandarískum ríkisskuldabréfum og með því að lána þá til banka í þessum löndum.  Þeir sem ákafastir voru að nýta sér þetta voru Engilsaxar og Íslendingar.  Miðað við fréttaflutning af erlendum fréttamiðlum síðustu dagana er mikilvægi Bandaríkjanna númer eitt, Bretlands númer tvö og síðan Íslands.  Önnur smærri ríki eins og önnur norðurlönd, Þýskaland, Frakkland koma síða á eftir í röðinni.

Reynar er það skelfilegt hve Ísland virðist hafa mikið vægi í alþjóðlegum fréttum.  Sennilega er það vegna þess að staða okkar er miklu verri en nokkurra annarra.  Efnahagsreikningur Íslensku bankanna er fimmtán til tuttugu sinnum stærri en landsframleiðslan.  Það er ekki nokkur möguleiki að ríkið hafi bolmagn til að standa við bakið á þeim.

Heimurinn verður ekki samur eftir þetta en í þessu felast möguleikar.  Það er engin vafi á því að tiltektin sem fylgir kreppu sem þessari mun hafa góð áhrif til lengri tíma litið.  Þannig vinnur kapítalisminn.  Refsar þeim sem ganga of langt og taka of mikla áhættur.  Hendir út óhæfum stjórnendum og nýir koma í staðinn.  Ný tækifæri og ný tækni sem leiðir nýtt hagkerfi til góðs fyrir þjóðfélög sem hafa innviði og mannauð til að nýta þau.


Víkingar í kröppum sjó

vikingar.jpgÞað er ekkert lát á efnahagsfárviðrinu á Íslandi, þar sem vindhraði hefur farið í gömlu tólf vindstigin á meðan aðrar vestrænar þjóðir mæla þetta í stormi, eða níu vindstigum.

Það hefur komið bloggara á óvart hversu lítið ráðamenn upplýsa fjölmiðla um gang mála, en það litla sem fréttist, er í gegnum erlenda fjölmiðla.  Meira að segja mbl.is er með aðra hvora frétt um gang mála í Íslensku efnahagslífi úr erlendum fjölmiðlum.  Bloggari ber mikið traust til ráðamanna þjóðarinnar  en þetta er nú aðeins of langt gengið.  Ráðherrar bókstaflega hlaupa undan fjölmiðlum til að þurfa ekki að tala við þá.  Á meðan reka Bandaríkjamenn þessi mál uppi á borðinu og allir vita hvað gengur á og um hvað málið snýst.  En stöðugur fréttaflutningur er af Íslandi í erlendum fjölmiðlum þessa dagana, og við notuð sem dæmi um þá sem verst hafa hagað sér hvað eyðslu og ábyrgðarleysi varðar.

Ef til vill er ástanið svona graf alvarlegt heima á Íslandi og þess vegna sé þessi munur á fréttaflutningi.  Upphæðirnar sem rætt er um eru svimandi háar, 1.500 til 2.000 milljarðar króna, eða nánast  tvöfalda verga landsframleiðslu þurfi til sem innspýtingu á gjaldeyri inn í hagkerfið.

Bloggari tilheirir hófsömum hópi Íslendinga sem ekki hefur tekið þátt í þessari miklu veislu sem haldin hefur verið undanfarin ár.  Ekur um á átta ára gömlum bíl og látið dýrar lúxusferðir eiga sig. Bloggar líður eins og hann hafi fengið reikning fyrir veislu sem hann tók ekki þátt í.

Ég heyrði í syni mínum frá Bretlandi í dag þar sem fólk er þegar farið að herða sultarólina.  Þegar mælist að fólk hefur dregið úr ferðalögum og er hætt að fara út að borða á veitingastöðum.  Hinsvegar er mikil aukning á bíóferðum og pítsusölu.  Fólk fer í bíó til að gleyma baslinu, enda ódýr leið til að komast úr erfiðum raunheimum í smá tíma.  En hvað með landann?  Jú í viðtali við erlendan fréttamann sagði Siggi Hall, sem opnaði nýjan veitingastað fyrir um mánuði síðan, að hann ætti von á aukningu í viðskiptum.  Íslendingar hefðu ekki lengur efni á að fljúga í kvöldmat til London eða Kaupmannahafnar, og yrðu að láta sér nægja að borða í Reykjavík.  Svona getur landinn látið á móti sér og aðlagað sig kreppuástandinu.

Það verður spennandi að fylgjast með hvaða lausnir landsfeðurnir koma með fyrir morgundaginn.  Vonandi verður það góð lausn fyrir landsmenn og þeir nái vopnum sínum í þessari baráttu við fárviðrið.  Og vonandi læra Íslendingar af þessu öllu saman og hegðar sér skynsamlegar í framtíðinni.  Í umræðu erlendra fjölmiðla þessa dagana eru Íslendingar notaðir sem dæmi um þá sem verst hafa hagað sér undanfarin ár, í kæruleysi og glannaskap í fjármálum.  Það er óskemmtileg upplifun.

Að lokum vill bloggari gerast spámaður um framvinduna.  Það er ljóst að seðlabankastjóri hefur ekki skilið á milli stöðu sinnar og pólítíkur.  Hann verður látin fjúka enda hefur bankinn tapa trúverðuleika sínum undanfarið vegna þessa. 

Ríkið mun draga úr fyrirhuguðum útgjöldum sínum og fjárlagafrumvarpinu verður breytt.  Þó ekki verði nema til að halda sig innan Masstricht skilmála um inngöngu í myntbandalag ES, 3%.


Markaðsbrestur

 

imagesNú er Öldungadeild BNA búin að samþykkja björgunar pakkann (rescue package) og komið að annarri umferð í fulltrúardeildinni.  Nú er það komið í ljós að þeir sem greiddu atkvæði á móti pakkanum á mánudaginn voru Lýðveldissinnar undir áhrifum úr kjördæmum sínum, en margir standa knappir í baráttu um endurkjör sem fram fer samhliða forsetakosningum. 

Spurningin er líka sú hvort pakkinn hefði farið í gegn ef hann hefði í upphafi verið skýrður ,,björgunarpakki fyrir þjóðina" (Rescue Package) en ekki  ,,Björgunarpakki fyrir Wall Street" (Bail out Package).  Það er ljóst að sá munur sem liggur í þessum hugtökum skiptir miklu máli fyrir umræðuna þessa dagana í BNA.  Almenningur er ævareiður og búinn að finna sinn blóraböggulinn, feitu kettina á Wall Street (The Fat Cats on Wall Street).  Ekki eigi að bjarga Wall Street heldur Main Street, þar sem átt er við almenning í Bandaríkjunum.  Auðvitað er það mikil einföldun á málinu og þegar upp er staðið liggur ábyrgðin hjá þeim sem tóku fasteignalán, vitandi þess að þeir réðu ekki við afborganir.

En átökin framundan munu nú verða milli þeirra sem vilja ríkisafskipti og þeirra sem enn trúa á frjálst hagkerfi.  Bloggari ætlar að halda í sína trú að frelsi í viðskiptum sé best til að tryggja hag almennings í framtíðinni eins og hingað til.  Slíkir markaðabrestir eins og nú eru uppi eru ef til vill óumflýjanlegir og kannski nauðsynlegir, eins og Austuríski hagfræðingurinn Scumpheter hélt fram.  Það er ekki kominn tími til að jarðsyngja kapítalismann þrátt fyrir það sem undan er gengið.

Hvers vegna ættum við að treysta stjórnmálamönnum betur en viðskiptajöfrum?  Það sýndi sig í atkvæðagreiðslunni í fulltrúadeild Bandaríkjaþings að þar hugsuðu margir þeirra fyrst og fremst um sjálfan sig og síðan þjóðina númer tvö.  Persónuleg staða þeirra var mikilvægari en Bandarískt efnahagslíf.  Auðvitað eru sumir þeirra sem greiddu atkvæði sitt gegn frumvarpinu gert það vegna eigin gilda og af prinsipp ástæðum, en flestir voru að hugsa um andstöðu kjósenda í sínu kjördæmi.  Þó sú andstæða byggðist á misskilning og þekkingarleysi á hagfræði.

Það má heldur ekki gleyma því að hluthafar eru að tapa gríðarlegum fjármunum.  Hluthafar Glitnis töpuðu 130 til 150 milljörðum króna eftir síðustu helgi.  Hluthafar Lemans Brothers töpuðu öllu hlutafénu og það á við fleiri banka sem hafa verið teknir yfir að ríki eða orðið gjaldþrota.  Að sjálfsögðu.  Hluthafar taka áhættu, hagnast þegar vel gengur en tapa þegar illa gengur.  Það er ,,græðgi" og áhættusækni sem dregur hagkerfið áfram.  Allt er steinstopp þegar þess nýtur ekki við. 

Sjálfur á bloggari óbeinna hagsmuna að gæta í Glitni og örlög bankans hefur veruleg áhrif á fjárhagslegrar stöðu hans í framtíðinni.  Hinsvegar er ríkið að taka mikla áhættu með því að leggja bankanum til áhættufé á erfiðum tímum.  Fé sem enginn annar var tilbúinn að leggja fram.  Ráðamenn þjóðarinnar verða fyrst og fremst að gæta hagsmuna Íslendinga, sem eru nokkuð berskjaldaðir í ólgusjó lausfjárkreppunnar.


« Fyrri síða

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 283944

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband