Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Bókin á náttborðinu

IMG_6529Þessa dagana er ég með bókina Undir Snjáfjöllum eftir vin minn Engilbert S. Ingvarsson á náttborðinu.  Bókin er góð lýsing á lífi fólks undir Snæfjallaströnd á fyrri hluta síðustu aldar.  Þetta er mér hugleikið enda á ég ættir mínar að rekja þangað en afi minn í móður hætt, Hjalti Jónsson, var fæddur á Skarði. 

Ég hef í tvígang gengið ströndina frá Berjadalsá að Dalbæ sunnan við Unaðsdal.  Það er reyndar með ólíkindum hversu fögur bæjarnöfn og örnefni eru á þessum slóðum.  Berjadalsá, Gullhúsaá, Unaðsdalur, Snæfjöll, Tyrðilmýri, Sandeyri og Lyngholt. 

Í fyrra skiptið gekk ég undir leiðsögn Jóns Reynis félaga míns og jafnaldra og síðar með öðrum skólafélaga, Snorra Grímssyni.  Báðir eru þeir miklir viskubrunnar og þekkja vel til sögu strandarinnar og þess mannlífs sem hún ól á sínum tíma.  Nú er stöndin komin í eyði fyrir utan sumargesti sem koma og fara án þess að treysta á þær auðlindir sem náttúran gaf íbúum fyrr alda.

Þó ströndin líti kuldalega út séð frá Ísafirði er það að hluta til blekking.  Skaflarnir safnast undir hjalla í hlíðinni en skjól við norðanáttinni veitir aðhald og gerði útræði auðvelt á gjöful fiskimið í Ísafjarðardjúpi.  Einnig er sólríkt á Snæfjallaströnd og nær sólin að verða æsæ þegar hún er hæst á lofti í kringum jónsmessu.

IMG_6399Það sem vakti mig til umhugsunar við lestur bókarinnar var sá félagslegi kraftur sem Engilbert lýsir í í bók sinni þar sem stofnun og rekstur ungmennafélaga á þriðja og fjórða áratug tuttugustu aldar ber hæst.  Þrátt fyrir bág kjör og litla peninga voru menn tilbúnir að leggja fé og vinnu við að byggja upp félagsaðstöðu til að halda leiksýningar, böll og stóðu fyrir útgáfu menningarrits.  Efniviður til húsbygginga var keyptur frá austanverðum ströndum, rekaviður sem lónað hafði með straumum í mörg ár frá skógarhöggi í Síberíu, og síðan sagað niður í borð með handsög.  Með samtakamætti reistu menn síðan Ásgarð sem varð félagsheimili íbúa við Snjáfjallaströnd.

Ég sagði frá því í gær að ég kom við í þorpi sem reyst var fyrir fólk sem misst hafði heimili sín í tsunami flóðinu 2004.  Fyrr um daginn hafði ég séð um afhendingu löndunarstöðvar sem var gjöf frá Íslensku þjóðinni til fiskimannasamfélags hér í landi.  Mér varð hugsað til þess að íbúar þessara fiskimannasamfélaga eru ekkert verr settir hvað efnahag varðar en íbúar Snæfjallastrandar voru í upphafi síðustu aldar.  En þarna er hinsvegar grundvallar munur á framtaki og þrótti við að halda uppi félagslegum þáttum en lítið ber á slíku hér í fiskimannasamfélögum Sri Lanka.  Hvergi heyrist í tónar eða ber á öðrum listviðburðum.  Lífið einskorðast við að hafa í sig og á okki rúm fyrir neitt annað.

Hópur í upphafi ferðarÍ sveitum Íslands í fátækt fyrri aldar var alltaf einhver sem komst yfir harmonikku sem dugði til að halda gott ball.  Enda kemur fram í bók Engilberts að slíkar samkomur voru haldnar, fyrst í heimahúsum og síðar í félagsheimilum sem íbúarnir komu sér upp.

Ekki kann ég skýringu á þessum mun sem hér er nú og var við svipaðar efnahagslegar aðstæður 1930 á Snæfjallaströnd, en það væri frekar hlutverk mannfræðinga að finna út úr því en hagfræðinga.


Löndunarstöð í Nilwella

Nilwella landing center 004Það var annarsamur dagur í dag og óhætt að fullyrða að unnið var myrkrana á milli.  Lagt af stað fyrir sólarupprás á suðuodda Sri Lanka til að afhenda löndunarstöð frá Íslensku þjóðinni til fiskimálasamfélagsins í Nilwella.  Eftir klukkutíma ræðuhöld og veislu var lagt af stað heim aftur en komið við hjá frænda bílstjórans okkar sem stýrði okkur í gegnum ótrúlega kúnstuga umferð landsins.

Við komum að byggð sem reist hafði verið fyrir fórnarlömb tsunami, um 400 hús alls.  Ekkert nema íbúðarhús, engin vinna né þjónusta á staðnum.  Fólkið hafði lifað af sjónum fyrir flóðölduna en var nú sett upp í afdal án tilgangs í tæplega átta kílómetra fjarlægð frá ströndinni.

En það var tekið á móti okkur með kostum og kynjum og boðið upp á fisk og kjöt í karrý og bjór til að skola niður.  Það var gaman að spjalla við fólkið en alls bjuggu sex fjölskyldur í þessu húsi sem var um hundrað rúmmetrar.  Umræðurnar fóru í gegnum tíu ára stúlku sem talaði reiðbrennandi ensku.

Nilwella landing center 026Ég frétti af syni mínum Jóni á þessum slóðum og við höfðum mælt okkur mót til tedrykkju í virkinu í Matara.  Jón er á flakki um Sri Lanka en kemur heim til sín (á Hyde Park Residency) á miðvikudags kvöld.  Ekkert varð af feðrafundi í þetta sinn þar sem rútan tafðist sem hann tók úr fjöllum niður á strönd.  En við höfum ákveðið aðra golf ferð til Nuwara Eliya um helgina. 

Golf og aftur golf.  Lífið snýst um það þessa stundirnar og reynt að ná tökum á sveiflunni.  Kuma, golfkennari, er með okkur báða í meðhöndlun til að gera okkur að golfleikurum.  Það gengur betur með Nonna en mig en karlinn er orðin heltekin af því að temja mig inn í þessa göfugu íþrótt.  Örugglega metnaðarfyllsta hlutverk sem hann hefur tekið sér fyrir hendur.  Fá mig til að vera mjúkur og nota ekki krafta.  Töfraorðið er bros til að ná spennunni úr skrokknum og ná þessar einu sönnu mjúku sveiflu.  Sú sveifla verður tekin í tvö þúsund metra hæð um helgina.  Ég held að sjálfur fari ég í sextíu þúsund fet ef það tekst.

Nilwella landing center 031Nilwella landing center 040


Nuwara Eliya

Lestarferðin

Við félagarnir og feðgarnir Nonni og undirritaður skelltum okkur upp í fjöll um síðustu helgi.  Nánar tiltekið til Nuwara Eliya, sem oft er kallað litla England.  Bærinn er í 2000 metra hæð og því allt annað loftslag og langt fyrir ofan regnskógarbeltið, og minnir töluvert á Enskar sveitar.

Við vorum á leið í golf og ákveðið að gista á gömlum Enskum herragarði sem heitir Hill Club.  Hann er reyndar aðeins fyrir meðlimi en sem útlendingar gátum við fengið tímabundna aðild.  Við höfðum  ákveðið að fara með lest upp í fjöllin þar sem umferðin er hræðileg á Sri Lanka.  Lestaferðin átti að taka um fjóra og hálfan tíma og við bókað á fyrsta farrými í lúxusklefa.  Brottför var klukkan sex á föstudagsmorgun.

Það hafði gengið erfiðlega að fá miða á fyrsta farrými og okkur sagt að ekkert væri laust.  Tekonan okkar á skrifstofunni hvíslaði þá að mér hvort hún ætti að kippa í spotta og redda þessu fyrir okkur.  Það gekk hratt fyrir sig og upp úr hádegi á fimmtudag var búið að afhenda miðana á borðið hjá mér og kostnaðurinn var heilar sjö hundruð krónur fyrir okkur báða.  Það var síðan hringt í mig um kvöldið af manni sem sagðist myndi taka á móti okkur fyrir brottför og fylgja í klefann.

Hill ClubÞegar við komum á lestastöðina var eins og maður væri kominn á nýlendutímann og í sögu eftir Agatha Christie.  Það vantaði bara Hercule Poirot.  Lestin hefur örugglega verið smíðuð á þeim tíma sem hann var að leysa morðgátur en glæsileikinn fölnaður sökum aldurs.  Nú var bara að passa sig á að verða hvorki sá myrti eða glæpamaðurinn.  Í öllum sögum um þennan frækna leynilögreglumann fer illa fyrir báðum þessum aðilum.

Við settumst öfugt, aftast í síðasta vagninn, og lestin skrölti af stað inn í morgunsárið.  Hraðinn var mestur um 60 - 70 km og ójafnir teinarnir rugguðu lestinni til og frá.   Þetta var býsna notalegt og við horfðum á Colombo hverfa í fjarskann og framundan voru fjöllin.  Velgerðarmaður okkar hafði komið með fyrsta legginn til að tryggja að vel færi um okkur, en hann starfar fyrir járnbrautirnar.

Hafi lestin minnt á Poirot þá kom tilefnið til morðsins fljótlega.  Við byrjuðum að stoppa hvar sem hægt var, á brautarstöðum og utan þeirra.  Lengsta stoppið voru þrír tímar, óútskýrt og þegar spurt var um brottför var svarið ævinlega að lagt yrði af stað eftir fimm mínútur.  Ég var á leið í morðingjahlutverkið.

Ellefu tímum eftir brottför komum við á brautarstöðina sem næst er Nuwara Eliya.  Eftir hálftíma ferð með leigubíl vorum við komnir á áfangastaðinn, Hill Club.  Byggður 1886 og eins enskur og hugsast getur.  Við byrjuðum á að kíkja á barinn sem eingöngu er ætlaður karlmönnum.  Blandaði barinn er handan við hornið.  Myndirnar á veggjunum voru af Churchill, Elísabetu og Karli prins.  Okkur leist mjög vel á okkur en komið var undir kvöldverð og ekkert yrði af golfi þennan daginn.

Dress CodeÞað er ,,dress code" í klúbbnum og skilda að mæta í jakkafötum með bindi til kvöldverðar.  Þjónarnir með hvíta hanska og margréttuð máltíð borin fram.  Á eftir settumst við í bókaherbergið með Wiskey fyrir framan arininn, en hitastigið úti var eins og á góðum sumardegi heima í Tunguskógi.  Þegar við skriðum upp í rúmið seinna um kvöldið barst um okkur unaðstilfinning þegar við fundum fyrir hitapoka sem komið hafði verið fyrir meðan við mötuðumst, til að halda á okkur hita inn í draumalandið.

Við fórum snemma á fætur og drifum okkur í golfið.  Það er innan við fimm mínútna gangur á völlinn frá klúbbnum og kaddy captain tók á móti okkur.  Við fengum sinn hvorn kylfusveininn og síðan var byrjað að spila.  Völlurinn er stórglæsilegur og teygir sig út um bæinn og þarf að fara yfir aðalgötuna á leið um hann.  Á einum stað var boðið upp á drykki og áður en við vissum af voru átján holur búnar og okkar beið staðgóður hádegisverður á veitingarstað klúbbsins.  Síðan var bara að drífa sig annan hring og þegar honum lauk um hálf sexleytið fengum við okkur ölkrús og veltumst um af hlátri yfir golfbröndurum.  Notaleg þreytan leið úr manni í djúpum stólum á veröndinni meðan áhrifin af ölinu hríslaðist um hverja taug og við nutum félagsskapsins af hvor öðrum og horfðum yfir kvöldhúmið leggjast yfir iðagrænan golfvöllinn.

Eftir heita sturtu á Hill Club fengum við okkur Vískí og síðan drifum við okkur í jakkafötin og skelltum okkur í kvöldverðin.  Þetta var orðið betra en besta skíðaferð.

Á sunnudagsmorgun vorum við mættir klukkan hálf átta á völlinn þar sem kylfusveinarnir biðu okkar og átján holurnar spilaðar í þessu óvenju fallega umhverfi.  Veðrið eins og best gerist heima á Íslenskum sumardegi með hitastigið rétt yfir 20° C. 

Hola 18Upp úr hádeginu tókum við bíl heim í borgina en stoppuðum á leiðinni í stórri teverksmiðju til að kaupa sitt hvort kílóið af fyrsta flokks tei.  Náttúrfegurðin er mikil í Nuwara Eliya þar sem iðagrænir teakrarnir teygja sig um hóla og hæðir.  Ár og fossar flæða niður hlíðar og þverhnýptir klettar bera við himin.  Þetta var góð ferð í góðum félagsskap.


Mannréttindamál

Það er með ólíkindum að fylgjast með umræðu um meint mannréttindabrot íslenskra stjórnvalda héðan frá Sri Lanka.  Ekki hafði ég heyrt af þessari mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna, en Álit þeirra á fiskveiðikerfi Íslendinga vekur upp efasemdir um þekkingu þeirra tólfmenninga sem sitja í nefndinni.

Mér er reyndar alvarlega misboðið að ræða um fiskveiðistjórnunarkerfið með þessum hætti í samhengi við mannréttindabrot.  Mannréttindi eru hornsteinn lýðræðis og fáar þjóðir njóta þeirra í meira mæli en Íslendingar.  Þeir Erlingur Haraldsson og Örn Sveinsson brutu íslensk lög og voru dæmdir fyrir það.  Lög sem sett voru af lýðræðiskjörnu löggjafarþingi Íslendinga, og eru reyndar mjög gegnsæ og auðskilin.  Eftirlit með þessum lögum er síðan í höndum eftirlitsaðila sem vinna kerfisbundið og án pólitískra áhrifa og þeir sem staðnir eru af brotum á þessum lögum eru dæmdir af sjálfstæðum dómstólum.

Ég sá að Morgunblaðið, í forystugrein, sá ástæðu til þess að óska lögbrjótunum til hamingju með álit þessarar dæmalaus mannréttindanefndar S.Þ.  Morgunblaðið hefur að vísu alltaf verið á móti kvótakerfinu en það vekur hinsvegar athygli að blaðið skuli styðja lögbrjóta. 

Látum nú mannréttindamálin liggja milli hluta í þessu máli og spyrjum okkur að því hvað skuli koma í staðin fyrir kvótakerfið, ef það er svona óréttlátt.  Eða þarf ekkert að takmarka ásókn í fiskimið Íslendinga?  Er þetta óþrjótandi auðlind?  Dettur einhverjum heilvita manni í huga að halda því fram?

Ég sit hér á Sri Lanka og meðal annars skrifa meistararitgerð mína sem fjallar um virðiskeðju í sjávarútvegi landsins.  Því fylgir að lesa mikið af rannsóknarskýrslum og ritgerðum, meðal annars mikið af efni frá Matvælastofnun Sameiniðuþjóðanna (FAO).  Það gengur eins og rauður þráður í gegnum þessar skýrslur að ein helsta ástæða fyrir fátækt fiskimanna og lítillar tekjumyndunnar í sjávarútveg þróunarlanda, eins og Sri Lanka, er það sem kallað er frjáls aðgangur að auðlindinni (open access).  Skortur á einkarétti á nýtingu auðlindarinnar kemur í veg fyrir hagræðingu þar sem harmleikur almenninga (Tragety of the Common) er alls ráðandi.  Ég kannast ekki við að hafa lesið neitt í þessum lærðu skýrslum frá S.Þ. sem mælir með frjálsum aðgangi að fiskveiðum.  Ég held að allir lærðir menn átti sig á þessu en ritstjóri Morgunblaðsins lætur hinsvegar stjórnast af barnalegri rómatík sinni í þessu mikla hagsmunamáli þjóðarinnar.

Ekki veit ég hvort tólfmenningarnir í mannréttindanefnd S.Þ. hafa séð eitthvað af þessum skýrslum fræðimanna stofnunarinnar á sviði fiskveiðimála en það er alveg á hreinu að þeim veitti ekki af að lesa sig svolítið til.  En hvers vegna er dómstóll á vegum S.Þ. að gefa álit sitt á slíkum málum?  Mér skilst að þessi dómstóll hafi aldrei gefið nein álit á Norður Kóreu, Mayamar, Kína eða öðrum slíkum löndum.  Þeir hafa hinsvegar verið ósínkir á álit sitt á mannréttindabrotum í Hollandi, Svíþjóð og núna síðast á Íslandi.  Þetta er náttúrlega allt saman djók, nema óábyrg afstaða Morgunblaðsins.


Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 283913

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband