Ríkisábyrgðir á innlán

Bloggara finnst umræða um ríkisábyrgðir á innlánum í banka vera komin í einkennilegan farveg, og farið að tala um slíkar ábyrgðir eins og eitthvað náttúrulögmál.  Hugsunin er sú að bankar leggi til fjármagn í ábyrgðasjóð sem tryggi útgreiðslu innlána við greiðsluþrot einstakra banka.  Engin banki getur staðið við að greiða út innlán á skömmum tíma, þar sem innlán eru skammtímalán, en útlánin eru langtímalán.  Eðlilegt er að banki láni innlánin út u.þ.b. níu sinnum, en reyndar gerðu Íslensku bankarnir gott betur. Ríkið kemur hinsvegar inn með ábyrgðir til að draga úr óvissu og koma í veg fyrir áhlaup á banka af hagfræðilegum ástæðum. 

Í kreppunni miklu í BNA í upphafi síðustu aldar voru bankar látnir fara á hausinn sem olli skelfingu meðal þjóðarinnar.  Fólk þyrptist í banka til að taka út sparifé sitt og þetta olli allsherjar hruni og skorti á peningamagni í umferð.  Peningar fóru nú undir koddann en voru ekki í vinnu fyrir hagkerfið.  Lærdómurinn sem dregin var af þessu er að réttlætanlegt væri, með þjóðarhagsmuni í huga, að ríkið tryggði þessi innlán og sköpuðu traust sem kæmi í veg fyrir bankaáhlaup.

Það var einmitt ástæðan fyrir því að ríkisstjórn Íslands ákvað í október á síðasta ári að tryggja innlán allra innlánstofnana á Íslandi.  Ekki af góðmennsku við þjóðina, heldur kalt mat að þetta gæti komið í veg fyrir allsherjar hrun og þannig væri komin réttlæting fyrir ríkið að taka slíka áhættu.  Hinsvegar virðast íslensk stjórnvöld lítið hafa undirbúið sig fyrir áfallið, þrátt fyrir að hafa haft vitneskju um yfirvofandi fall bankanna frá upphafi ársins.  Ef aðgerðaráætlun hefði legið fyrir hefði verið ljóst að samkvæmt EES samningnum sé ekki hægt að mismuna íbúum efnahagsvæðisins eftir þjóðerni.  Það þýðir að ekki er hægt að tryggja innlán á reikningum á Íslandi, en ekki reikninga sömu banka í öðrum löndum EES.  Ef stjórnvöld hefðu gert sér grein fyrir stærðargráðunni, en áhættan átti að vera þeim ljós um að bankarnir stefndu í þrot, hefðu þau ef til vill brugðist öðruvísi við.  Ef til vill hefði verið hægt að tryggja lágmarksupphæðina yfir alla línuna, og síðan notið forgangs í þrotabú bankana til að ná því til baka.

Það sem hinsvegar virðist hafa gerst er að stjórnvöld tryggðu innstæður á Íslandi án takmarkana, en ætla síðan að standa við lágmarksupphæð á reikningum í Bretlandi og Hollandi.  Enn furðulegra er að hollensk og bresk stjórnvöld ákveða að tryggja inneignir umfram lágmarksupphæð í Icesave eftir á.  Þar eru menn komnir langt út markmið með ríkisábyrgð og hefur ekkert með þjóðarhagsmuni að gera heldur er um pólitískt sjónarspil að ræða.  Stjórnvöld í þessum ríkjum vildu sína þeim þegnum sínum, sem áttu fé á reikningum Icesave, að þau gættu sko þeirra hagsmuna.  En nú er búið að senda reikninginn til Íslands og skattgreiðendur á Íslandi eiga að borga atkvæðasmölunina.

Hinsvegar hafa öll viðbrögð Íslenskra stjórnvalda einkennst af fáti og fumi og lítið verið um fagleg og vönduð vinnubrögð.  Æðstu menn landsins virðast ekki geta sett sig í samband við kollega sína í Hollandi og Bretlandi til að útskýra málstað þjóðarinnar til að ná ásættanlegri niðurstöðu.  Miðað við fréttir úr þessari viku taldi utanríkisráðherra Þýskalands að forsætisráðherra Íslands væri karlmaður, en hann var þar að vitna í samskipti við Íslendinga varðandi umsókn til ESB.  Ætli Jóhanna Sigurðar hafi nokkurn tíman rætt við erlenda þjóðhöfðingja sem ráðherra undir fjögur augu?

En meira um umræðuna um ríkisábyrgðir.  Fjármálaráðherra hefur réttilega bent á að ríkisábyrgð á innlánum bankana sé ekkert náttúrulögmál.  Það er alveg rétt hjá honum og mikilvægt að haldið sé til haga hvers vegna ríki ákveður að tryggja innlán.  Það er af hagfræðilegum ástæðum, en ekki til að bæta pólitíska stöðu ríkisstjórna.  Dæmi um slíkt pólitísk sjónarspil var ákvörðun ríkisins að greiða inn á peningamarkaðssjóði bankana um 280 milljarða króna síðastliðið haust, og hafa aldrei komið fram skýringar á þeirri ráðstöfun.  Það er hægt að finna til með fólki sem tekið hefur rangar ákvarðanir og leggur sparifé sitt inn á áhættusama sjóði fjárglæframanna, en það er hinsvegar ekki hlutverk skattgreiðanda að taka ábyrgð á slíkum mistökum, heldur þeirra sem ákvörðunina taka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Gunnar,

Góður pistill hjá þér að vanda.  Það sem mér finnst skrítið í þessari umræðu er að þetta mál er nú allt í einu er að koma upp á yfirborðið, þ.e. að íslenskar innistæður gætu e.t.v. ekki verið full tryggðar, þó allir hafi talað um að þær væru tryggðar að fullu.  Ríkisstjórnin, bæði núverandi og fyrrverandi, hefur haldið þessu fram statt og stöðugt - a.m.k. eftir því sem sagt hefur verið frá í fréttum.  Ef það reynist rétt að ríkið geti ekki staðið á því að mismuna íslendingum og útlendingum (sem mér finnst óeðlilegt - þ.e. að ríkið geti mismunað) þá er það ekkert sem er að sjást núna, það er eitthvað sem var vitað frá því að samningurinn um EES var undirritaður - með þeim viðbótum og breytingum sem hafa orðið síðan. 

Kveðja frá Port Angeles, WA

Arnór Baldvinsson, 24.7.2009 kl. 20:29

2 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Ríkisábyrgð á innlánum banka er í eðli sínu óeðlileg og er aðeins notað í neyð.  Það á að ríkja traust milli sparifjáreiganda og bankans, og það á að duga.  Þess vegna og einmitt þess vegna er traust banka svo mikilvægt.  Þú sér bara hvernig bankar hanna byggingar sínar, breiðar súlur og annað til að skapa traust.  Um leið og íslensku bankarnir verða reknir á viðskipalegum grunni, vonandi með dreifðri eignaraðild, þurfa þeir ekki ríkisábyrgð á innlán.  Megin málið er að sá sem ákveður að leggja pening í banka, gerir það á sína ábyrgð, en ekki skattgreiðenda.

ESB og þar af leiðir EES samningurinn grundvallast á fjórfrelsinu.  Þar er grundvallar atriði að ekki má mismuna íbúum samningssvæðisins eftir þjóerni.  Þannig hafa Íslendingar undirgengist yfirþjóðlegt vald, og geta ekki sveigt það til eftir sínu höfði og þegar þeim hentar.  Þetta er algjört grundvallarmál fyrir ESB.  Og þannig þarf það að vera því annars væru íslenskir stjórnmálamenn sífellt að hringla með hlutina í stað þess að hafa skýra stefnu og fylgja henni.

Gunnar Þórðarson, 25.7.2009 kl. 07:21

3 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Það er akkúrat þetta með breiða eignaraðild sem var algjörlega hunsað þegar bankarnir voru einkavæddir og þeir voru seldir aðilum sem höfðu hvorki bolmagn til að kaupa bankana, né getu til þess að reka þá.  Ef bankarnir hefðu ekki verið seldir aðilum með hönk upp í bakið á pólitíkusunum og eignaraðildinni hefði verið dreift, helst með aðkomu erlendra aðila með reynslu í bankarekstri og alþjóða viðskiptum, þá held ég að íslenskt efnahagslíf væri í allt annarri stöðu en það er núna. 

Þetta með hönnun bankabygginga sést nú ekki sérstaklega mikið hérna vestan hafs, alla vega ekki þar sem ég hef búið, held að það sé meira á austurströndinni (ég bjó í Texas í 8 ár og hér í Port Angles síðan í fyrra) og svo í Evrópu, en ég veit hvað þú átt við. 

Ég held það eigi eftir að taka langan tíma fyrir íslenska banka að vinna traust aftur - og það með réttu - ef þeim tekst það. 

PS:  Sá í "Bátasmíði í Úganda" að þú talar um Stíg á Horni.  Ég held að afi minn, Sigurður Sigurðsson frá Hælavík hafi unnið með föður hans í slippnum í Keflavík eftir að afi og amma fluttu þangað.  Afi var góður smiður og setti m.a. upp rennibekk í Hælavík sem hann knúði með vatnsafli frá bæjarlæknum.  Hann smíðaði mikið af rokkum og ýmsa aðra fínsmíði og var einnig góður bátasmiður. 

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 25.7.2009 kl. 16:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband