Kafli 5 - Siglt í norður

höfrungurBjargvætturinn

En nú þurfti að komast um borð með sjókortin í ónýtri plasttuðrunni.  Það var ákveðið að setja þau í bátinn og við myndum síðan synda með hann út í skútu.  Bárður yrði skilinn eftir og það yrði seinni tíma vandamál að sækja hann.  Þegar við vorum hálfnaðir um borð kemur skemmtibátur sem leigður var ferðamönnum, og greinilegt að áhöfnin var ekki reynslurík.  Við báðum þá að draga okkur í átt að Bonny en niðurstaðan varð sú að þeir sigldu yfir okkur.  Ég fór undir bátinn þeirra og lenti með annan fótinn í skrúfunni.  Sársaukinn var ógurlegur og ég fann að ég var að missa meðvitund í sjónum.  Jón var í hálfgerðu losti og syndi áleiðis að skútunni en gúmbátinn rak á haf út.  Ég svamlaði í yfirborðinu og reyndi að halda höfðinu ofansjávar og allt í einu finn ég fyrir einhverju stinnu undir mér.  Þarna var höfrungurinn mættur og hélt mér á floti. 

Maður um borð í bát sem lá í legufærum skammt frá Bonny og hafði séð hvað gerðist, stökk um borð í léttabátinn og réri lífróður í áttina að mér.  Hvalurinn hélt mér á floti allan tímann þar til mér var dröslað um borð í bátinn sem fór með mig aftur í land.  Ég var drifinn á sjúkrahús og reyndist vera töluvert meiddur á hælnum  eftir bátsskrúfuna.  Ég fékk góða umönnun og búið var um sárið.  

Á meðan á sjúkrahúsvist minni stóð hafði höfrungurinn synt eftir tuðrunni og ýtti henni að Bonny þar sem Jón tók við henni með sjókortunum góðu.

Gríms þáttur Jónssonar

Við fréttum að heiman að Grímur Jóns, faðir Nonna og Bárðar ásamt Stínu eiginkonu minni væru á leið til okkar og því ákveðið að bíða þeirra í St. Ives.  Við styttum okkur stundir í leik við höfrunginn  sem reyndist vera merktur frá Dover.  Jón sýndi eitt kvöldið listir sínar með honum með þúsundir ferðamanna á hafnarkæjanum sem áhorfendur.  Meðal annars rak hann höndina upp að öxlum ofan í kokið á honum, tók í vígtönnina og hristi til og frá.  Hann hélt í uggann á honum og lét hann synda með undir áköfum húrrahrópum aðdáendaskarans í landi.  Þarna var Jón vinur minn í essinu sínu og athyglin sem hann fékk var mikilvægari en hræðslan við hvalinn.

LestinFerðalag Stínu með Grími suður eftir Bretlandi frá Glasgow til Lands End var ævintýri út af fyrir sig.  Grímur þurfti að stökkva úr lestinni á hverri einustu lestarstöð til að kaupa sér pínulita snapsflösku.  Hann gat alls ekki birgt sig upp heldur voru þessi endalausu hlaup út þegar lestin stöðvaðist og síðan dauðans stress við að ná henni aftur áður en haldið var af stað.  Nokkur atvik standa upp úr í frásögnum Stínu af ferðinni eins og þegar Grímur opnaði bananana öfugt á við það sem venjulegt fólk gerir.  Upplitið á ferðafélögum í lestarvagninum ógleymanlegt.  Þeir gláptu á Grím eins og naut á nývirki og furðuðu sig á því að hann geymdi bjórinn  í glugganum þar sem sólin skein á hann.  Svo frussaðist bjórinn um allan vagn þegar hann opnaði hann.  Stínu fannst líka samferðamennirnir ótrúlega fljótir að týna tölunni og spurning hvort hegðun samferðarmansins hafði eitthvað með það að gera. 

Það er rétt að skjóta hér inn góðri sögu af Grími vini mínum, þegar hann fór í Landsbankann að sinna erindum sínum.  Á þeim tíma voru pennar dýrir og til að koma í veg fyrir að viðskiptavinir tækju þá ófrjálsri hendi, var hegnt tveggja kíló statív með keðju í þessar miklu áþreifanlegu eignir bankans.   Grímur hinsvegar lét sér ekki bregða að stinga einum í brjóstvasann á tvítjakkanum sínum og kom alla leið heim með hann dinglandi framan á sér.

Grímur var loftskeytamaður og hafði tekið með sér langbylgjutalstöð í ferðina til að hafa um borð í Bonny.  Í þá daga voru slíkar stöðvar meðal annars notaðar til að staðsetja sig á hafi úti, í gengum norskan búnað sem kallaður var Consul.  Grímur ætlaði að sigla með okkur heim en Stína og Bárður ætluðu með til Glasgow og fara þaðan fljúgandi heim.

Vörður BA
Grímur var loftskeytamaður á togaranum Verði frá Patreksfirði þegar hann fórst  í siglingu með karfa til Þýskalands.  Vörður var svokallaður sáputogari,en nafnið kom til af því að togarar voru smíðaðir fyrir Breta á millistríðsárunum í Þýskalandi og greitt fyrir þá með sápu.  Smíðasamningurinn var hluti af stríðskaðabótum þjóðverja til Breta. 

Slæmt veður var þegar þetta gerðist og lýsti Grímur því fyrir mér hvernig togarinn sló úr sér hnoðunum  (Vörður var hnoðaður sem var aðferð sem notuð var áður en rafsuða kom til sögunar til við gerð skipskrokka) í krappri dýfu í keyrslu á móti stórsjóum norður Atlantshafsins.  Þegar skipið rifnaði upp að framan og sjórinn streymdi inn, sprungu lestarlúgurnar upp og aflinn spýttist í loft upp.  Grímur sýndi mikla hetjudáð, þó hann væri ungur að árum, rúmlega tvítugur þegar þetta gerðist.  Sjórinn var kominn í mittis hæð í loftskeytaklefanum áður en hann yfirgaf hann, enda upptekin við að senda þrjú stutt, þrjú löng og þrjú stutt.  Yfirfært á bókstafi stendur það fyrir SOS sem var alþjóðlegt neyðarkall á tímum morsins. 

Fimm menn fórust í þessu sjóslysi og má segja að kraftaverk hafi bjargað restinni af áhöfninni, ásamt þrautsegju hins unga loftskeytamanns við að koma boðum til annarra skipa.  Það sótti ávallt á hann að horfa á eftir skipsfélögum í kalda gröf og sérstaklega að missa nánast einn úr greipum sínum, eftir að hafa komist upp á björgunarflekann.

Isle of ManNæsti viðkomustaður var Isle of Man þar sem margt minnir á ferðir víkinga á fyrri öldum.  Meðal annars orðin ,,Med logum skal land byggja" sem stendur stórum stöfum yfir skjaldamerki eyjarinnar á Íslensku.  Við stoppuðum þarna í tvo daga og áttum góðar stundir.  Meðal annars stóðum við fyrir mikilli síldarveislu í skútuhöfninni í Douglas þar sem tugum manna var boðið upp á grillaða síld og ölglas til að renna henni niður.

Einn sunnudagsmorgun á siglingunni norður vorum við Grímur saman á vakt.  það var logn og við keyrðum á vél.  Við sátum saman að spjalli vinirnir og vissum af litlum hafnarbæ framundan, sem ekki stóð til að koma við í.  Við ræddum um hversu notalegt væri að fá sér ölkrús á kránni og upplifa sunnudagsstemmingu í vinarlegum skoskum hafnarbæ.  Umræðan hélt á og Grímur sem sat við stýrið sveigði óafvitandi aðeins á stjórnborða þar til hafnarminnið blasti við framundan.  Það var nú ekkert óánægð skipshöfn sem við vöktum upp úr hádeginu með dagskipun um að fara á skoskan púbb og upplifa stemmingu bæjarbúa, sem flestir reyndust vera fiskimen.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 285832

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband