Frásögn í sjómannablaði Vesturlands 2014 III

Beðið milli vonar og ótta á Hóli í Bolungarvík

„Það voru gleðitíðindi þegar við fréttum að Sólrún væri komin að gúmbjörgunarbátnum - það er ekki hægt að þræta fyrir það" sagði faðir Grétars, Hálfdán Örnólfsson í viðtali við Morgunblaðið daginn eftir slysið. „Það var opið fyrir bátabylgjuna í útvarpinu heima og þar heyrði dóttir mín, Kristín, þegar tilkynnt var að Svanur hefði sokkið og mennirnir væru komnir um borð í gúmmíbjörgunarbát. „Það dimmdi yfir, er þessi fregn kom og líðanin hjá okkur var ekki góð, þótt við reyndum að vera sæmilega róleg. Við fylgdumst með með því sem fram fór á bátabylgjunni í allan dag og heyrðum þegar kallað var í gúmmíbátinn, en heyrðum aftur á móti ekki í honum. Þegar fregnin kom um að Sólrún væri búinn að finna hann þá létti okkur mikið"

Þór

Í þá daga var algengt að fylgjast með fjölskyldu og ástvinum á sjónum í gegnum bátabylgjuna, 2182, í útvarpinu. Mánudagurinn 29. janúar 1969 líður Kristínu Hálfdánsdóttur seint úr minni. Hún var tólf ára gömul og hafði fengið hettusótt og var því ein heima á Hóli. Þennan dag hafði pabbi hennar beðið hana endilega að hlusta á bátabylgjuna fyrir sig og fylgjast með hvernig gengi hjá Grétari syni sínum á sjónum. Hálfdán hafði áhyggjur þar sem veðurspáin var slæm og búast mátti við slæmu veðri þennan dag.

Kristín kveikti á útvarpinu og kom sér vel fyrir í stofunni heima á Hóli og fylgdist samviskusamlega með bátunum, stundum þurfti að leggja eyrun upp að útvarpinu til að heyra því misjafnlega heyrðist í mönnum. Þess á milli lá hún á stofugólfinu og las í bók. Allt í einu heyrir hún mjög skýra rödd Hálfdáns Einarssonar á Sólrúnu þar sem hann tilkynnti að heyrst hafi neyðarkall frá Svaninum. Báturinn væri sokkinn og mennirnir hefðu komist í gúmmíbát og nú þyrfti að hefja skipulega leit strax. Hann sagði að veðrið færi versnandi og stutt væri í myrkur því þyrftu allir bátar að tilkynna hvar þeir væru til að geta hafið skipulega leit.

Við þessar fréttir brá Kristínu mikið, hentist niður í símann og innan skamms var öll fjölskyldan komin heim og sat saman steinþegjandi við útvarpið þar sem þau hlustuðu á skipstjórana tala saman um leitina. Í fyrstu var fjölskyldan bjartsýn, en síðar dofnaði vonin eftir því sem leið á daginn og þegar Hálfdán skipstjóri sagði í stöðinni að nú væri komið myrkur og veðrið svo slæmt að líkur væru á  að leit yrði hætt í bili , þá fór Kristín að hágráta. Hún upplifði að Grétar bróðir hennar og áhöfn hans hefðu hlotið sömu örlög og sjómennirnir á Heiðrúnu sem fórust árið áður og þau sömu og áhafnir á Traustanum og Freyjunni frá Súðavík ásamt Svaninum frá Hnífsdal. Þögnin í stofunni að Hóli var þrúgandi og enginn sagði neitt en sama hugsunin sótti þó að öllum. Svo leið dálítil stund og allt í einu heyrðist til Hálfdáns Einarssonar segja að hann teldi sig hafa séð rautt ljós á stjórnborða og ætlaði að skoða það nánar. Svo kom hann aftur og sagðist næstum því hafa keyrt á gúmmíbátinn, hann væri við hliðina á þeim og þar væru allir skipbrotsmenn heilir á húfi.

Grétar og Kristín

Það er ekki erfitt að ímynda sér gleðina sem braust út í stofunni á Hóli þegar fjölskyldan faðmaðist og fullvissuðu síðan hvort annað um að allan tímann hefðu þau verið sannfærð um að báturinn myndi finnast. En það liðu tveir dagar áður en þau sáu Grétar sem var veðurtepptur inn á Ísafirði og þegar samfundir loksins urðu var þetta allt orðið svolítið óraunverulegt. Kristínu er það minnisstætt hversu sár hún var yfir því að Grétar bróðir hennar kæmi ekki strax heim að Hóli, en faðmlagið sem hún fékk við endurfundinn gleymist aldrei og þá vissi hún að þessi martröð væri á enda.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband