Vinnsla, flutningur og markaðssetning eldisfisks frá Íslandi

Ráðstefnan „Strandbúnaður“ verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík dagana 21 – 22 mars n.k. Strandbúnaður vísar til „landbúnaður“ og er vettvangur aðila sem tengjast eldi og ræktun í sjó og vatni. Á ráðstefnunni eru erindi og kynningar á öllu því helsta sem er að gerast í þessari grein og reynt að varpa ljósi á þróun til framtíðar.

Ein málstofa ráðstefnunnar heitir „Vinnsla, flutningur og markaðsetning eldisfisks“ þar sem staðan er tekin og tækifæri metin. Nánast allur lax er fluttur út slægður/ferskur þar sem hann er fullunninn á smásölu- eða veitingahúsamarkað. En hvar liggja tækifæri Íslendinga í að hámarka verðmætasköpun í fiskeldi? Getur eldisgreinin tileinkað sér árangur bolfiskvinnslunnar í framleiðslu og sölu á ferskum flakastykkjum, sem aukið hafa verðmætasköpun á hvítfiski umtalsvert? Með nýjustu tækni og þekkingu hefur íslenskri fiskvinnslu tekist að framleiða vöru samkvæmt ítrustu kröfum neytanda, sem er tilbúinn til að greiða hærra verð fyrir vikið.

Ef allt fellur Vestfirsku eldi til næstu árin, má gera ráð fyrir a.m.k. 50 þúsund tonna framleiðslu á ári, sem myndu skila nærri 50 milljarða framleiðsluverðmætum í þjóðarbúið. Ekki er raunhæft að ætla sér fullvinnslu á öllu því magni en hluti þess gæti verið unninn á neytandamarkað í framtíðinni. En áskoranir fyrir slíkri framleiðslu eru margar og ýmislegt er hugmyndinni mótdrægt; þó tvær hindranir séu helstar, há vinnulaun og miklar vegalendir á markað.

Í dag er töluverður hluti af eldisfiski fluttur til Póllands, þar sem hann er fullunninn á neytandamarkað í Evrópu. Undirritaður hefur átt tækifæri til að heimsækja verksmiðjuna Milarex í Slupsk í Póllandi þar sem ferskur fiskur er fluttur frá Íslandi, Noregi og Færeyjum með skipum og trukkum. Fiskurinn er flakaður, snyrtur og síðan unninn í neytandapakkningar, ferskur, reyktur eða frosinn, og skipta vörunúmer hundruðum. Matís í samstarfi við Skagann 3X og Arctic Fish hefur flutt regnbogasilung í gámum til þessarar verksmiðju þar sem gerð var tilraun með að ofurkæla fiskinn og senda hann íslausan með hitastýrðum gámum sjóleiðina. Þrátt fyrir að flutningur tæki átta til tíu daga, var fiskurinn enn af miklum gæðum og hafði nægjanlegan líftíma til að vera unninn og seldur ferskur á neytandamarkað um alla Evrópu. Slupsk í Póllandi er vel staðsett til að dreifa vöru landleiðina á Evrópumarkað á einum til tveimur dögum.

Vinnslan sem um ræðir er öll hin glæsilegasta, með 500 starfsmönnum og hreinlæti og gæðastjórnun með því besta sem þekkist í heiminum. Það er áleitin spurning hvernig íslensk fyrirtæki gætu keppt við slíka vinnslu í framleiðslu og dreifingu á smásölumarkað Evrópu? Vinnslan er ágætlega tækjum búin, með mjög hæft starfsfólk, á launum sem eru langt að baki því sem gerist hérlendis.

Flutningsmöguleikar skipta máli fyrir útflutning á laxi; héðan eru sjóflutningar stundaðir frá mörgum höfnum á Íslandi, til hafna í Bretlandi og meginlandi Evrópu. En mestu skiptir þó þéttriðið net flugsamgangna, sem teygðu sig til um 100 borga vítt og breitt um heiminn þegar best lét í íslenskri ferðaþjónustu, en heldur hefur dregið úr framboði við samdrátt í fjölda erlendra ferðamanna. Flugfrakt er dýr og skilur eftir sig umtalsvert kolefnisspor, en með nýrri tækni, ofurkælingu, er hægt að minnka það nokkuð. Bæði laxasláturhús landsins nota ofurkælingarbúnað frá Skaginn 3X sem lágmarkar notkun á ís við flutning á fjarlæga markaði.

Skipaflutningar eru mun ódýrari en flugfrakt ásamt því að minka sótspor framleiðslunnar. En sjóflutningar taka tíma á fjarlæga markaði sem minnkar líftíma á ferskri vöru fyrir kaupandann. Þá skiptir máli hvort hægt er að vinna laxinn strax eftir slátrun og  jafnvel fyrir dauðastirðnun. Ódýrara er að flytja flakaðan fisk á markað og losna þannig við dýran flutning með flugi á beinum og haus. Hingað til hefur þurft að geyma laxinn í um fjóra sólahringa áður en hægt er að draga beinagarðinn úr flakinu, en beinin losna ekki fyrr úr vöðvanum. Ef nútímatækni eins og vatnsskurður væri notaður við að skera beinin úr væri hægt að lengja geymsluþol ferskra afurða um þann tíma. Annað tækifæri sem það gefur,  er að hægt er að hluta flakið niður eftir ýtrustu kröfum markaðarins, eins og gert er við hvítfisk í dag, og framleiða þar með algjörlega nýjar vörur á markað; markað sem gæti greitt hærra verð og þannig aukið verðmætasköpun vinnslunnar. Vatnskurðartæknin er líka forsenda þess að lágmarka framleiðslukostnað og skapa samkeppnisforskot gagnvart láglauna svæðum.

Ný tækni við vinnslu þar sem tölvustýrðir þjarkar koma í stað mannshandar eru einmitt forsenda slíks samkeppnisforskots. Ljóst er að fiskvinnsla væri að miklu leyti farin úr landi ef ekki væri fyrir nýjustu tækni við framleiðslu í dag. Fram undan eru tímar tækniframfara með hraða sem menn hafa ekki séð fyrr. Mikilvægt er að Íslendingar tileinki sér nýjustu tækni til að viðhalda samkeppnisforskoti og undirbúi starfmenn til að takast á við nýjar áskoranir og auknar kröfur í framtíðinni. Þannig verða til betri störf og betur borguð í samkeppni við láglaunasvæði.

Ef til vill munu Íslendingar geta boðið upp á nýjar vörur úr ferskum laxi í framtíðinni, laxi sem er upprunninn úr hreinum en köldum sjó. Framleiðslu sem verður sérsniðin að ýtrustu þörfum viðskiptavinarins, með dreifingu víða um heim. Vöru sem hefur jafnvel lengra geymsluþol en samkeppnisaðilinn getur lofað og þannig keppt á kröfuhörðustu mörkuðum heimsins. Íslendingar eiga kost á að ná samkeppnisforskoti með hugviti, tækni og mannauði sínum.

Gunnar Þórðarson, Matís


Umhverfis- og öryggismál í sjókvíaeldi

Ráðstefnan „Strandbúnaður“ verður haldin á Grand Hótel Reykjavík dagana 21 – 22 mars n.k. Strandbúnaður vísar til „landbúnaður“ og er vettvangur aðila sem tengjast eldi og ræktun í sjó og vatni. Á ráðstefnunni eru erindi og kynningar á öllu því helsta sem er að gerast í þessari grein og reynt að varpa ljósi á þróun til framtíðar.

Á málstofunni “Umhverfis- og öryggismál í sjókvíaeldi“ verður fjallað um umhverfisógnanir sjókvíaeldis, bæði gagnvart náttúrinni og rekstrinum. Vestfirðir bjóða upp á marga kosti frá náttúrunnar hendi til strandeldis, hreinn sjór, djúpir og vel varðir firðir ásamt innviðum og mannauði til að stunda sjókvíaeldi. En ógnir Dumbshafsins eru miklar hvað varðar veðurfar auk þess eru umhverfisógnir eins og erfðablöndun við villta laxastofna í íslenskum ám.

Hætta á erfðablöndun vegna sleppinga úr sjókvíum hefur fengið einna mesta athygli og hafa veiðirétthafar laxveiðiáa barist harðri baráttu gegn leifum til laxeldi í sjókvíum á Íslandi. Þrátt fyrir fyrr sátt um að draga línu þar sem eldið er eingöngu leyft á Vestfjörðum, Eyjarfirði og Austfjörðum, hefur sáttin ekki haldið með auknum óbilgjörnum kröfum veiðirétthafa. Að sjálfsögðu eru slysasleppingar alvarlegt mál en með mótvægisaðgerðum má lágmarka áhrif þeirra á náttúruna. Huga þarf að hegðun eldisfisks og spurning hvort hann er raunveruleg ógn í náttúrinni.

Íslensk veðrátta skapar mikla áhættu en ekki þarf að fara langt aftur í tímann til að sjá veðurfar sem myndi skapa mikla áhættu við laxeldi. Um og eftir miðja síðustu öld hafa komið kuldakaflar þar sem hitastig og vindur hafa skapað aðstæður sem eru mjög hættulegar fyrir lax í sjókvíum. Þessu fylgdi jafnframt lagnaðar- og rekís sem geta valdið miklu tjóni á sjókvíum. Farið verður yfir þessi mál á ráðstefnunni og reynt að meta áhættur og hugsanleg viðbrögð til framtíðar.

Sjórinn er kaldari við Ísland en í helstu samkeppnislöndum okkar, sem hefur bæði kosti og galla. Kostir eru að gæði Íslensks lax þykir framúrskarandi og laxalúsin á erfiðra uppdráttar í kaldari sjó. Lágur sjávarhiti veldur hægari vexti og hætt við að það hafi áhrif á næringarþörf og fóðurnýtingu. Hægt er að bregðast við því með útsetningastærð seiða og með þróun á fóðurgerðar og fóðrunar.

Aðstæður á Íslandi eru góðar hvað varðar skjól á fjörðum en aðstæður við t.d. Færeyjum eru erfiðari hvað þetta varðar, enda ölduhæð við eyjarnar langt um meiri en búast má við eldisaðstæður hérlendis. Engu að síður er mikilvægt að búnaðarstaðall, staðarúttektir og festingar standist ýtrustu kröfur, bæði hvað varðar áhættu á sleppingum og eins efnahagslegu tjóni af slíku. Á ráðstefnunni verður kynning á þessum málum og hvernig eftirliti og viðbrögðum er stjórnað.

Það sem skiptir mestu máli í öllu þessu er að hagsmunir náttúrinnar og rekstraraðila fara algerlega saman. Rekstur sjókvía er ómögulegur ef svæði eru ekki hvíld á milli eldis til að koma í veg fyrir mengun og sjúkdóma og eins getur enginn rekstraraðili búið við að missa lax úr kvíum. Velferð fisksins fer saman við afkomu rekstursins.

En það verður áskorun framtíðar að takast á við umhverfisskilyrði við Dumbshaf, nýta kostina en bregðast við ógninni sem því fylgir. Takist það má búast við miklum tekjum af sjókvíaeldi, landsmönnum til hagsmuna með auknum útflutningi og verðmætasköpun. Fyrir svæði eins og Vestfirði skiptir sjókvíaeldi gríðarlega miklu máli til að byggja upp efnahag og byggðafestu til framtíðar.   

 

Gunnar Þórðarson, Matís


Tölvan segir nei (The computer says no)

Það var athyglisvert viðtal við Dr. Ian Kerr í Kastljósi 26. febrúar s.l. Dr.Kerr er einn fremsti vísindamaður hvað varðar gervigreind og notkun vélmenna í heiminum í dag. Hann var að velta fyrir sér lagalegum, félagslegum og siðferðislegum spurningum hvað varðar notkun tölva og vélmenna til að taka við mörgum þeim verkefnum sem menn hafa séð um hingað til, og þá ógn sem gæti stafað af því ef búnaðurinn fer að taka eigin ákvarðanir. Kerr nefndi drápsvélar sem dæmi, en Sameinuðu þjóðirnar fjalla um þessar mundir um að bann á notkun þeirra í hernaði. Í sjálfu sér gæti verið gott að nota tilfinningalausa vél í stað þess að hætta mannslífum í átökum, sem er reyndar þegar gert. Hægt væri að forrita vélina á besta hátt, en með gervigreind mun vélin læra og bæta við sig þekkingu sem nýtist henni til að þjóna manninum betur í framtíðinni. Sama má segja um vélmenni í heilbrigðiskerfinu þar sem þau geta lært að greina sjúkdóma og framkvæma aðgerðir sem maðurinn ræður ekki við. Það geta verið stórkostleg tækifæri í að nýta vélar sem læra til að framkvæma hluti sem maðurinn ræður ekki við og mikið framfaraskref fyrir mannkynið. En það fylgir böggul skammrifi! Það má ekki taka mennskuna út úr dæminu og láta vélar taka ákvarðanir um líf og dauða! Vél sem lærir gæti komist að þeirri niðurstöðu að hún viti betur en forritið segir og ákveðið ný viðmið um aðgerðir. Vélmenni mega alls ekki taka af skarið og mikilvægt að ákvörðunin sé tekin af mönnum! Sem dæmi var prófað að nota tölvur sem dómara í Kína, en niðurstaðan varð hörmuleg þar sem þær skortir algerlega tilfinningar. Nú er það ekki svo að allar mennskar ákvarðanir séu góðar, nema síður sé. Við höfum endalaus dæmi um mannvonsku, hatur og ofbeldi sem rekja má til mannlegra hvata. Engu að síður verða ákvarðanir fortakslaust að vera mennskar á ábyrgði manneskju en ekki vélar! Mannskepnan hefur notað trúarbrögð til að leiðbeina sér við ákvarðanir frá upphafi vega. Mikilvægi kristinnar trúar er gríðarlegt fyrir mannkynið og engin tilviljun að lýðræði og mannréttindi eru að jafnaði betur tryggð í kristnum löndum en öðrum. Jesú Kristur var sennilega merkasti heimspekingur sem uppi hefur verið og hefur haft meiri áhrif en nokkur annar á íbúa jarðarinnar. Þaðan höfum við einmitt okkar gildismat; hvað er rétt og rangt, ljótt og fallegt, vont og gott sem dæmi. Mikilvægasta framlag hans var að kynna til sögunnar guð Nýja testamentisins sem var umburðarlyndur og kenndi fylgjendum sínum m.a. umburðarlyndi og að fyrirgefa. Fyrirgefning er einmitt partur af mennskunni. Fyrirgefning og umburðarlyndi eru systkini! Ástæðan fyrir því að gyðingar viðurkenndu Jesú ekki sem Messías var einmitt vegna þess að þeim hugnaðist ekki þessi umburðarlyndi fyrirgefandi guð, og viltu halda í stríðsóðan guð Gamla testamentisins, enda létu þeir þyrma óbótamanninum Barabbas, og létu krossfesta Jesú. Sjálfur hef ég þurft að biðjast fyrirgefningar, sem er ekki það sama og afsökun en rétt er að hafa í huga að; â€Å¾Maður fyrirgefur ekki öðrum, af því að þeir eigi skilið fyrirgefninguna, heldur vegna þess að maður á það skilið að öðlast frið“ Stórmenni eins og Ghandi og Mandela skildu hvað fyrirgefningin var mikilvæg. Í stað þess að gjalda líkum líkt fyrirgáfu þeir misgjörðarmönnum sínum, til þess að ná árangri fyrir þjóð sína. Það hefði margt orðið öðruvísi í Rwanda og fyrrum Júgóslavíu ef leiðtogar þeirra landa hefðu haft þá mennsku sem þessir miklu menn höfðu. Við getum litið okkur nær! Ofbeldið og hatrið sem fylgdi hruninu tók út yfir allan þjófabálk. Auðvitað átti að refsa mönnum fyrir lagabrot, en dómsstólar mega aldrei byggja dóma á hefnigirni eða undir þrýstingi frá dómstóli götunnar. Dómar eiga að byggja á lögum en vera mennskir. Við sáum þetta líka í svokölluðu Klaustursmáli þar sem almenningur fór úr límingunum og leið mjög illa vegna gengdarlauss haturs á fólki sem hafði ekki brotið annað af sér en röfla á krá hver við annan. Í rauninni hefði enginn skaði orðið ef óprúttinn aðili hefði ekki tekið upp einkasamtal og komið því til fjölmiðla. Það veit guð að ég hef látið út úr mér ýmislegt í góðra vina hópi sem ég kæri mig ekki um að verði birt almenningi en ég hef auðmýktina til að viðurkenna það. Ef til vill erum við Íslendingar á rangri vegferð að draga úr kristinfræðikennslu og boðskap Jesú Krists. Ég vil reyndar halda þjóðkirkjunni utan við þessa umræðu, en mikilvægi boðskapar hans og gildismats kristinnar trúar á fullt erindi við Íslendinga. Hvað sem hægt er að segja um kirkjuna sem slíka hefur þessi boðskapur kennt okkur að meta hvað er gott og vont, fallegt og ljótt og rétt og rangt. Þegar Kaþólska kirkjan er afhjúpuð af ógnarverkum sínum, er engin vafi á að það sem prestarnir aðhöfðust var rangt og ljótt. Slíku er ekki alltaf farið innan annara trúarbragða þar sem viðurkenning á hræðilegum athöfnum liggur fyrir. Við megum ekki láta tilfinningalausar vélar taka ákvarðanir og betra að fólk geri það samviskusamlega með kristnu gildismati. Ekki síst þegar þær snúast um líf og dauða. Gunnar Þórðarson, viðskiptafræðingur


Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Mars 2019
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 49
  • Frá upphafi: 283867

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband