Bloggfærslur mánaðarins, júní 2014

Frásögn í sjómannablaði Vesturlands 2014 III

Beðið milli vonar og ótta á Hóli í Bolungarvík

„Það voru gleðitíðindi þegar við fréttum að Sólrún væri komin að gúmbjörgunarbátnum - það er ekki hægt að þræta fyrir það" sagði faðir Grétars, Hálfdán Örnólfsson í viðtali við Morgunblaðið daginn eftir slysið. „Það var opið fyrir bátabylgjuna í útvarpinu heima og þar heyrði dóttir mín, Kristín, þegar tilkynnt var að Svanur hefði sokkið og mennirnir væru komnir um borð í gúmmíbjörgunarbát. „Það dimmdi yfir, er þessi fregn kom og líðanin hjá okkur var ekki góð, þótt við reyndum að vera sæmilega róleg. Við fylgdumst með með því sem fram fór á bátabylgjunni í allan dag og heyrðum þegar kallað var í gúmmíbátinn, en heyrðum aftur á móti ekki í honum. Þegar fregnin kom um að Sólrún væri búinn að finna hann þá létti okkur mikið"

Þór

Í þá daga var algengt að fylgjast með fjölskyldu og ástvinum á sjónum í gegnum bátabylgjuna, 2182, í útvarpinu. Mánudagurinn 29. janúar 1969 líður Kristínu Hálfdánsdóttur seint úr minni. Hún var tólf ára gömul og hafði fengið hettusótt og var því ein heima á Hóli. Þennan dag hafði pabbi hennar beðið hana endilega að hlusta á bátabylgjuna fyrir sig og fylgjast með hvernig gengi hjá Grétari syni sínum á sjónum. Hálfdán hafði áhyggjur þar sem veðurspáin var slæm og búast mátti við slæmu veðri þennan dag.

Kristín kveikti á útvarpinu og kom sér vel fyrir í stofunni heima á Hóli og fylgdist samviskusamlega með bátunum, stundum þurfti að leggja eyrun upp að útvarpinu til að heyra því misjafnlega heyrðist í mönnum. Þess á milli lá hún á stofugólfinu og las í bók. Allt í einu heyrir hún mjög skýra rödd Hálfdáns Einarssonar á Sólrúnu þar sem hann tilkynnti að heyrst hafi neyðarkall frá Svaninum. Báturinn væri sokkinn og mennirnir hefðu komist í gúmmíbát og nú þyrfti að hefja skipulega leit strax. Hann sagði að veðrið færi versnandi og stutt væri í myrkur því þyrftu allir bátar að tilkynna hvar þeir væru til að geta hafið skipulega leit.

Við þessar fréttir brá Kristínu mikið, hentist niður í símann og innan skamms var öll fjölskyldan komin heim og sat saman steinþegjandi við útvarpið þar sem þau hlustuðu á skipstjórana tala saman um leitina. Í fyrstu var fjölskyldan bjartsýn, en síðar dofnaði vonin eftir því sem leið á daginn og þegar Hálfdán skipstjóri sagði í stöðinni að nú væri komið myrkur og veðrið svo slæmt að líkur væru á  að leit yrði hætt í bili , þá fór Kristín að hágráta. Hún upplifði að Grétar bróðir hennar og áhöfn hans hefðu hlotið sömu örlög og sjómennirnir á Heiðrúnu sem fórust árið áður og þau sömu og áhafnir á Traustanum og Freyjunni frá Súðavík ásamt Svaninum frá Hnífsdal. Þögnin í stofunni að Hóli var þrúgandi og enginn sagði neitt en sama hugsunin sótti þó að öllum. Svo leið dálítil stund og allt í einu heyrðist til Hálfdáns Einarssonar segja að hann teldi sig hafa séð rautt ljós á stjórnborða og ætlaði að skoða það nánar. Svo kom hann aftur og sagðist næstum því hafa keyrt á gúmmíbátinn, hann væri við hliðina á þeim og þar væru allir skipbrotsmenn heilir á húfi.

Grétar og Kristín

Það er ekki erfitt að ímynda sér gleðina sem braust út í stofunni á Hóli þegar fjölskyldan faðmaðist og fullvissuðu síðan hvort annað um að allan tímann hefðu þau verið sannfærð um að báturinn myndi finnast. En það liðu tveir dagar áður en þau sáu Grétar sem var veðurtepptur inn á Ísafirði og þegar samfundir loksins urðu var þetta allt orðið svolítið óraunverulegt. Kristínu er það minnisstætt hversu sár hún var yfir því að Grétar bróðir hennar kæmi ekki strax heim að Hóli, en faðmlagið sem hún fékk við endurfundinn gleymist aldrei og þá vissi hún að þessi martröð væri á enda.

 

 


Frásögn í sjómannablaði Vesturlands 2014 II

Björgun skipsbrotsmanna af Svani ÍS 214

Einar HáldánssonEftir gifturíka björgun kom Sólrúnin í land í Bolungarvík um ellefu að kvöldi, töluvert ísuð enda tommu þykk stögin orðin um fet að gildleika. Í viðtali við fréttaritara Morgunblaðsins sagði skipstjórinn, Hálfdán Einarsson, að þeir hefðu verið að veiðum um tvær mílur norður af staðnum þar sem Svanurinn fórst. Varðskipið Þór hafði heyrt neyðarkall þar sem það lá undir Grænuhlíð og kallaði út á flotann hvort menn hefðu heyrt í neyðarbylgju á 2182. Neyðarkallið var skýrt og fumlaust þar sem gefin var nákvæm staðsetning slyssins.

 

 

 

Feðgarnir Háldán Einarsson og Einar Hálfdánar

Hálfdán brást fljótt við og byrjaði umsvifalaust að skipuleggja leit að skipbrotsmönnum, enda staðfest að þeir hefðu komist í björgunarbát. Þröstur Sigtryggson skipherra á varðskipinu tók síðan við skipulagningu leitar en leitarskilyrði voru afleit, hvassviðri og mikil sjór og gekk á með éljum.

Það var byrjað að skyggja og hugðist Hálfdán biðja skipsbrotsmennina um að skjóta upp blysi þar sem erfitt var að koma auga á gúmmí bát við þessar aðstæður. Hann áttaði sig á að sendistyrkur neyðartalstöðvarinnar fór að dofna og taldi því víst að hann væri að fjarlægjast björgunarbátinn. Hálfdán tók þá afdrifaríka ákvörðun um að snúa við og við það varð styrkur sendingar frá skipsbrotsmönnum sterkari. Þegar hér var komið var komið myrkur og þreifandi bylur og var komin upp sú hugmynd að fresta leit fram í birtingu næsta dag. Eftir að hafa haldið til baka frá flotanum í nokkurn tíma fann hann björgunarbátinn.

Haft var eftir Hálfdáni í Morgunblaðinu „neyðartalstöðin var farin að dofna en skyndilega heyrðum við skýrt í stöðinni og skyndilega birtist ljósið á toppi björgunarbátsins við bakborðshlið Sólrúnar upp úr klukkan sex, en þá vorum við staddir um 18 mílur norður af Deild". Hálfdán taldi betra að láta varðskipið taka skipsbrotsmennina um borð, bæði væri betri aðstaða og tæki til björgunar til að ná mönnum um borð í myrkri og ólgusjó. Áhöfnin á Sólrúnu vissi ekkert um líðan mannanna um borð í gúmbátnum en um 20 til 30 mínútur liðu frá því að þeir fundu bátinn þar til skipsbrotsmenn voru komnir í öruggt skjól um borð í Þór. Það kemur fram í umfjöllun Morgunblaðsins að skipstjórar í Bolungarvík sem þátt tóku í leitinni, báru mikið lof á Jón, skipverja Svansins sem hafði með talstöðina að gera í gúmbátnum, leikni hans og kunnáttu ásamt yfirvegun við þessar aðstæður. Jónvar einmitt nýkominn af björgunarnámskeiði og kunni því vel til verka. Augljóst má vera að hefði hann ekki gefið út staðsetningu á slysstað strax í upphafi hefði leitin orðið mun ómarkvissari. Með staðsetningu höfðu björgunarmenn upphafspunkt og gátu út frá honum reiknað út rek gúmbátsins af völdum strauma og vinds.

thor.jpgHálfdán Einarsson átti einstaklega gæfuríkan feril sem skipstjóri og var eftirsótt að komast í skipsrúm með honum. Hann var hógvær maður, en bar svo sterkan persónuleika að allir hlustuðu þegar hann lagði eitthvað til málanna. Þekkt var það að hann byrsti sig sjaldan. Ef hann þurfti sem skipstjóri að skipa mönnum fyrir og honum þótti ekki nægilega vel eða hratt brugðist við, endurtók hann orð sín, án þess að hækka róminn og bætti við, „segi ég". Það nægði alltaf. Einar Hálfdánsson sonur hans var stýrimaður þennan örlagaríka dag með föður sínum. Einar naut sömuleiðis mikillar virðingar allan sinn starfsferil og það mjög að verðleikum. Báðir voru þeir feðgar miklir aflamenn, fóru vel með og einstaklega glöggir og minnugir á alla hluti.

Fyrir margt löngu heyrði undirritaður viðtal við Þröst Sigtryggson skipherra á varðskipinu Þór þar sem minnst var á þessa atburði. Bar hann mikið lof á skipstjóra Sólrúnar sem hann sagði að hefði átt frumkvæði að skipulagi leitar, þar sem hann reiknaði út strauma og rek og síðan var flotanum raðað upp í einfaldri röð og siglt yfir það svæði sem líklega var að gúmbátinn væri að finna. Hann naut aðstoðar Hálfdáns við að skipuleggja leitina enda vandfundinn betri maður sér við hlið í krefjandi verkefni.

Þungu fargi var létt af Bolvíkingum þegar fréttir bárust af björguninni en mikil blóðtaka hafði verið meðal sjómanna við Djúp árin á undan.


Frásögn í sjómannablaði Vesturlands I

Svanur ÍS 214 ferst út af Deild

Það var ágætis veður en þungt í sjóinn og töluverð snjókoma þegar Svanur ÍS 214 lagði upp í veiðiferð frá Súðavík 29. janúar 1969. Klukkan var níu um kvöldið og við stjórnvölinn var ungur öflugur skipstjóri, Örnólfur Grétar Hálfdánsson frá Bolungarvík. Hann var aðeins tuttugu og fjögurra ára og nýlega tekinn við sinni fyrstu skipstjórn. Spáin var frekar slæm og allra veðra von, en Svanurinn þótti traustur bátur á þeim tíma, rúmlega 100 tonna og gerður út á línu. Það voru fimm manns í áhöfn auk Grétars; Brynjólfur Bjarnason stýrimaður, Þórður Sigurðsson matsveinn, Jón Ragnarsson vélstjóri, Jóhann Alexandersson háseti og Kjartan Ragnarsson háseti. Stefnan var tekin í norður út frá Deild og byrjað að leggja upp úr miðnætti um 20 mílur frá landi.

 Svanur ÍS

 

 

 

 

 

 

Búið var að leggja línuna, 42 bala, um klukkan fjögur um morguninn og þá tekin baujuvakt. Það var byrjað að hvessa og orðið þungt í sjóinn og hitastigið komið niður fyrir tíu gráðu frost. Byrjað var að draga línuna um átta leytið og enn herti vindinn og fljótlega var kominn norðaustan stormur og töluverð ísing. Fullur af eldmóð stóð hinn ungi skipstjóri vaktina með stjakann til að ná þeim fiskum sem goggarinn missti af línunni og rak aftur með bátunum. Þannig gat hann staðið við brúarhurðina og snarað sér út til að ná í fiskinn sem datt af línunni. Grétar var orðin rennandi blautur enda gaf hressilega á bátinn og hann ekki klæddur í skjólfatnað.

Um tvöleytið var lokið við að draga og báturinn gerður sjóklár fyrir heimstím, skálkaðar lúgur og gengið frá öllu lauslegu. Að því loknu snaraði Grétar sér aftur í bestik, sem var aftan við brúna, til að hafa fataskipti enda orðin blautur og kaldur og þegar hér var komið var skollið á fárviðri. Þar sem hann stóð á nærfötunum einum fata, reið brot þvert yfir á bátinn framan til á bakborða, skellti honum á stjórnborðshliðina og færði hann á kaf. Grétar kastast fyrst í vegginn og endar síðan í kojunni. Sjór hafði komið inn um reykháfinn það drapst á vélinni og ljósin slokknuðu. Báturinn lá á hliðinni á bólakafi í sjó og mátti sjá grængolandi sjóinn utan við gluggana. Grétar gerði sér strax grein fyrir því að Svanurinn var að sökkva og með einhverjum hætti komst hann fram í stýrishúsið þar sem fjórir af áhöfninni voru saman komir en sem betur fer héldu allar rúður þannig að enginn sjór hafði komist þar inn. Hann skipar áhöfninni að fara upp á brúarþak og koma björgunarbátnum í sjóinn. Þegar Svanurinn kom úr kafi og réttir sig aðeins við, notuðu þeir tækifærið til að koma sér upp á brúarþak og losa um björgunarbátinn.

Grétar gerði sér nú grein fyrir að einn úr áhöfninni vantar en Kjartan var sofandi niður í káetunni undir brúnni. Enn var töluverður halli á bátnum en Grétar gat með einhverjum hætti komist niður með því að skríða með stiganum en erfitt var að athafna sig í myrkrinu. Kjartan hafði vaknað við brotið og kastast fram úr kojunni. Ný vaknaður og vissi ekkert hvað á sig stóð veðrið og vissi ekki hvað var upp né niður enda gekk hann á veggþilinu. Hann var algerlega ósjálfbjarga þegar Grétar ruddist inn í klefann hans og hjálpaði honum að komast upp í stýrishúsið. Grétar minnist þess hversu óraunverulegt og erfitt var að fóta sig í myrkri, í heimi sem var bæði á hreyfingu og upp á rönd. Honum tókst þó að koma þeim „upp" í stýrishúsið þar sem hann greip með sér neyðartalstöð og rétti Jóni vélstjóra  áður en þeir komu sér upp á brúarþakið. Hann hafði áður reynt að nota talstöð skipsins sem ekki virkaði vegna rafmagnsleysis.

 

Fljótlega voru þeir komnir til félaga sinna sem höfðu komið björgunarbátnum á flot og blásið hann upp. Ekki tókst betur til en svo að báturinn blés upp undir rekkverkinu á brúnni sem reif af þakið og gerði gat á neðra flotholtið. Grétar minnist þess ennþá að honum fannst allt í einu eins og sjórinn væri sléttur og varð varla var við að fárviðri geisaði og hitastigið var komið niður í mínus 12 gráður. Þeir komu sér um borð í það sem eftir var af björgunarbátum og en héldu ennþá stjóra við Svaninn.

Grétar gerði sér fljótlega grein fyrir að staða þeirra var vonlaus í rifnum björgunarbátnum og engin von til þess að halda lífi um borð í honum við þessar aðstæður. Hann vissi af öðrum björgunarbát í kistu fram undir hvalbak hjá skælettinu, en hann hafði nýlega komið honum þar fyrir. Þetta var lánsbátur þar sem þeirra bátur var í yfirhalningu og hafði hann þá stungið beittum hnífi með tjóðrinu, bleyttum í olíu til að verja hann ryði. Í þá daga var ekki sjálfvirkur sleppibúnaður og bátar því oft kyrfilega bundnir á sínum stað. Hann vissi að hann þyrfti að sækja bátinn ef þeir félagar ættu að eiga von á björgun úr þessum háska og hann minnist þess að áður en hann fleygði sér til sunds í ísköldum sjónum (2°C) sá hann að fyrstu tveir stafirnir í nafni Svansins á brúnni voru komnir á kaf í sjó vegna halla. Hann komst fram á hvalbakinn og án nokkurs hiks svipti hann kistulokinu af og þreifaði eftir hnífnum til að skera bátinn lausan. Honum tókst að koma bátnum upp úr kistunni og bisa honum aftur eftir skipshliðinni í átt að félögum sínum sem biðu í rifnum björgunarbátnum. Honum varð aftur litið á brúna og sá að nú var aðeins síðasti stafurinn í nafninu upp úr sjónum þannig að báturinn sökk hratt. Grétar minnist þess að hann hikaði aldrei við að sækja björgunarbátinn, hann taldi sig bera ábyrgð á áhöfninni og því enginn vafi í hans huga að honum bæri að gera þetta. Enginn tími var til hræðslu og því voru öll handtök æðrulaus og ákveðin.

Félagar hans tóku við hylkinu um borð í björgunarbátinn og slepptu tauginni sem bundu þá við Svaninn. Þegar þeir voru komnir frá hinu sökkvandi skipi blésu þeir upp björgunarbátinn og komu sér síðan um borð í hann. Það var myrkur og þreifandi bylur ásamt sjávarlöðrinu og þeir sáu augnablik grilla í Svaninn eftir að þeir slepptu sér lausum. Jóni vélstjóra hafði tekist að senda út neyðarkall en loftnetið á talstöðinni brotanaði af við hamaganginn við að komast á milli björgunarbáta þannig að þeir áttu erfitt með samskipti við hugsanleg björgunarskip. Um borð í bátunum voru m.a. þurr ullarföt sem Kvennadeild Slysavarnarfélags Súðavíkur hafði gefið í bátinn og hjálpaði það þeim mikið til að halda á sér hita. Þeir röðuðu sér vindmegin í bátinn þannig að rokið næði ekki undir hann á úfnum öldurtoppum og gæti þannig hvolft honum. Klukkan var rúmlega tvö og byrjað að bregða birtu.

Með loftnetið brotið gátu þeir látið vita af sér en heyrðu ekki í björgunarmönnum, þeir vissu þó að þeir höfðu náð neyðarkallinu og byrjað var að leita að þeim. Það veitti þeim mikla sálarró að vita af því, en þeir voru komnir um 24 mílur frá landi þegar brotið reið yfir, og ljóst að þeir myndu reka á haf út ef þeir fyndust ekki. Grétar rifjar það upp að allt hafi þetta tekið aðeins nokkrar mínútur og fram að þessum tíma hafði hann aldrei haft tíma til að verða hræddur. Menn fóru bara í þau verk sem þurfti að vinna til að komast af! Enginn tími til að velta neinu fyrir sér og markmið hins unga skipstjóra var að bjarga áhöfn sinni frá bráðri lífshættu og koma þeim öruggum heim til ástvina sinna. Við þessar aðstæður hlýða menn sínum skipstjóra og því voru öll handtök ákveðin og fumlaus.

Grétar veltir því fyrir sér hversu hratt Svanurinn sökk! Ekki hafði komið sjór í káetuna né brúnna en greinilegt var að sjór lak hratt í bátinn, enda sökk hann á nokkrum mínútum. Grétar trúir því að brotið hafi hreinlega rifið gat á skipið þannig að stór rúm, vélarrúm eða lest hafi fyllst af sjó á skömmum tíma. Hann telur að aðeins hafi liðið um tíu mínútur frá því að brotið reið yfir bátinn og hann var sokkinn í hafið.

Ullarfötin komu sér vel í kuldanum, en Grétar lét áhöfnina klæða sig í en sjálfur var hann fáklæddur og blautur. Vissan um að þeirra væri leitað var mikilvæg og þeir ríghéldu í vonina um björgun. Línubátar voru flestir á sjó þennan dag, þrátt fyrir slæma spá, þannig að töluverður floti byrjaði strax leit að þeim. Það dimmdi fljótt eftir að þeir komu um borð í björgunarbátinn og var skyggni lítið sem ekkert. Talstöðin gerði þeim kleift að fylgjast með leitinni en björgunarmenn virtust ekki heyra til þeirra, enda loftnetið brotið. Vistin var ömurleg og Grétar minnist þess hversu kalt honum var, illa klæddur og rennandi blautur. Þeim hafði tekist að blása upp botn bátsins sem einangraði þá frá ísköldum sjónum og gerði þeim mögulegt að þurrka botn hans. Grétar segir að andrúmsloftið um borð hafi verið sérstakt en þeir ræddu mikið sín á milli meðan þeir biðu björgunar. Þeir heyrðu allan tímann í leitarskipunum og gátu metið eftir styrk móttöku hvort þau voru að nálgast þá, en þeir gátu ekki látið í sér heyra. Jón, sem var nýlega kominn af björgunarnámskeiði, sá um neyðartalstöðina allan tímann.

solrun_s_399_1965.jpgFljótlega var komið niðamyrkur, þreifandi bylur og kolvitlaust norðaustan fárviðri. Eftir um fimm tíma volk í bátnum sjá þeir allt í einu ljós og síðan birtist Sólrún ÍS 399 við hliðina á þeim. Grétar telur það einstakt að skipstjóra Sólrúnar skyldi takast að finna þá við þessar aðstæður, og í rauninni var þetta eins og að leita að nál í heystakk miðað við skyggni og veður. Þegar þeir fundust höfðu þeir rekið um 8-9 mílur í vestur.

Það var mögnuð stund þegar Sólrúnin birtist þeim og þá vissu þeir að þeim væri borgið. Báturinn hélt sjó í námunda við þá en áhöfnin treysti sér ekki til að taka þá um borð sökum veðurofsans og biðu eftir komu varðskipsins til að taka skipsbrotsmennina um borð til sín. Varðskipið Þór kom síðan upp að þeim á hléborða, en það var gert til að það myndi ekki velta ofaná björgunarbátinn og létu hann reka meðfram síðunni. Á síðunni var kaðalstigi og um leið og báturinn rann með síðunni greip Grétar kastlínu frá varðskipsmönnum og þeir drógu björgunarbátinn að stiganum. Grétar fór fyrstur til að prófa aðstæður og þrátt fyrir slæmt kal á höndum tókst honum að komast um borð. Allt gekk þetta vel þar til komið var að Þórði matsveini, en hann hafði farið úr axlalið í látunum við að komast í björgunarbátinn. En einhvernveginn tókst þetta allt og áður en varði voru þeir komnir í öruggt skjól um borð í Þór, þar sem þeirra beið heit sturta og þurr og hlý föt ásamt heitu kaffi.

Varðskipið skutlaði þeim til Ísafjarðar en bæði Óshlíðin og Súðavíkurhlíð voru lokaðar vegna snjókomu og veðurs. Þórður fór á sjúkrahús en Grétari var ekið heim til föðursystur sinnar upp á Sjónarhæð. Ekki var svo mikið sem litið á kalsárin, hvað þá að menn fengju áfallahjálp eftir hrikalega lífsreynslu.

Ljóst er að slík reynsla sem þessir menn gengu í gegn um þennan dag í janúarlok getur skilið eftir ör á sálinni. Einn úr áhöfninni hætti til sjós eftir slysið og annar var aldrei rólegur þegar brældi, þó sjómennska yrði hans lífsstarf. Grétari leið ekki vel á sjó fyrstu mánuðina eftir þetta sjóslys, en jafnaði sig þegar á leið. Hann gat hinsvegar ekki talað um þessa lífsreynslu sína fyrr en liðnir voru áratugir eftir slysið. Rétt er að taka því fram að Þórður matsveinn varð síðar tengdafaðir Grétars.

Lokaorð Grétars í þessu viðtali  voru þau, að litið hefði verið til með þeim meðan á þessu gekk og þess vegna hafi þeir bjargast. Þegar hann var spurður hver hefði gert það var svarið stutt og laggott; „Guð almáttugur"

Grétari voru veitt afreksverðlaun  Sjómannadagsins í Reykjavík 1969 fyrir þetta björgunarafrek, enda talið að hugdirfska hans og snarræði hafi bjargað áhöfninni af Svani ÍS 214 frá Súðavík.


Leiðari í sjómannablaði Vesturlands 2014

Í þessu blaði er sögð saga sem gerðist fyrir fjörutíu og fimm árum síðan og lýsir vel þeim framförum sem átt hafa sér stað í öryggismálum sjómanna frá þeim tíma. Sagan er þrískipt og lýsir í fyrsta lagi sjóslysi sem varð þegar Svanur ÍS fórst út af Deild í slæmu veðri og áhöfnin með hugrekki og æðruleysi tekst að komast í björgunarbátinn. Síðan er kastljósi varpað á björgunarmenn um borð í Sólrúnu ÍS sem áttu því láni að fagna að finna skipbrotsmenn og bjarga þannig lífi þeirra. Að síðustu er hugað að ættingjum sem fylgjast með í gegnum öldur ljósvakans, milli vonar og ótta í langan tíma þangað til þau heyra í skipstjóra Sólrúnar segja að hann sjái ljós og staðfestir síðan að báturinn sé fundinn.

Það er vart hægt að setja sig í spor eiginkonu matsveinsins á Svaninum þegar hún fær tilkynningu um að báturinn hafi farist og leitað sé að áhöfninni við mjög slæmar aðstæður í úfnu hafi í vetrarkulda og náttmyrkri; en hún hafði aðeins ári áður fengið tilkynningu um að sonur hennar hefði farist með m/b Trausta frá Súðavík. Um þetta leyti var mikil blóðtaka í sjávarplássum við Djúp þar sem ættingjar og ástvinir þurftu að horfa á eftir sjómönnum í hafið, oftar en ekki ungum mönnum sem áttu svo margt eftir ógert í þessu lífi.

Enginn vafi er að umræða um öryggi sjómanna og stofnun Slysavarnafélags Íslands hafi bjargað mörgum sjómanni frá votri gröf. Tilkynningaskyldan var sett á eftir að áhöfnin á Stíganda ÓF hafði verið á reki í björgunarbát í marga daga árið 1967, norður í ballarhafi án þess að nokkur vissi af því eftir að skipið sökk. Slysavarnarskóli sjómanna, tilkynningarskyldan, staðsetningarbúnaður, sjálfvirkur losunarbúnaðar, neyðartalstöðin og margt fleira hefur aukið öryggi sjómanna. Sjómennska er erfitt og hættulegt starf og hvílir sú skylda á Íslendingum að auka öryggi við þessa höfuðatvinnugrein af fremsta megni.

Við þessa frásögn verður manni hugsað til hvernig svona mál voru afgreidd hér áður fyrr. Engin áfallahjálp né hugað að sálarlífi ungra manna sem heimtir voru úr helju eftir hrikalega lífsreynslu. Aldrei unnið úr þeim miklu sálarkvölum sem aðstandendur stóðu frammi fyrir þennan kalda janúardag 1969 þar sem fylgst var með atburðum á bátabylgjunni.

Það er viðeigandi að huga að þessum málum á sjómannadegi. Til hamingju með daginn sjómenn.


Ekki rétt að ræða þessi mál í hálfkæringi

Það er ekki rétt hjá Bjarna að ræða þessi mál í hálfkæringi. Ástandið í flokknum er ekki gott og hann ber mikla ábyrgð á því. Það eru margir sjálfstæðismenn ósáttir við samstarfið við Framsókn, engin furða!

Skuldalækkunin er eitt mesta lýðskrum og kosningabrella aldarinnar. Allir sem setja sig inn í málið vita að engin forsenduábrestur varð og ríkið mun greiða kostnaðinn með peningaprentun. Gömlu úreltu aðferðirnar sem menn vita að ganga ekki upp. Þetta er ekki leið til að bæta lífskjör þjóðarinnar, sem er orðin láglaunaþjóð. 


mbl.is Finnur aðeins fyrir þrýstingi í hnénu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 24
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 283751

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband