Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2014

Fullveldi

Nú þegar rykið nær aðeins að setjast í ESB umræðunni veltir maður fyrir sér hvað hafi vakað fyrir þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að hefja þetta feigðarflan? Sáu þeir þetta ekki fyrir eða eru þeir svo forhertir í andstöðu sinn við ESB, sama hvað, að það hafi blindað þeim sýn. Hvað veldur og hvers vegna gera menn svona hluti?

Það er alveg ljóst að umræða um landbúnað kom þessu af stað. Eins og hjá hinum harða kjarna gegn ESB viðræðum, taka stuðningsmenn landbúnaðar aldrei efnislega og rökræna umræðu. Þeir ráðast á persónur gagnrýnanda kerfisins og krefjast þess að þeir verði reknir úr starfi. Þórólfur Mattíasson hefur birt vel rökstuddar og fræðilegar greinar um landbúnaðarkerfið og Rúv hefur fjallað ítarlega um mál sem upp hafa komið undanfarði sem fletta ofanaf fáránleika landbúnaðarkerfisins og hvernig það gengur þvert gegn hagsmunum almennings. Það kemur engum á óvart að Framsókn styðji þetta kerfi en sjálfstæðismenn hafa varið þessa sérhagsmuni í gegnum tíðina, þó það gangi þvert gegn stefnu flokksins. En landbúnaðarumræðan er einmitt nátengt driffjöður andstæðinga sjálfstæðismanna gegn ESB, sem er þjóðernishyggjan.

En hvað er þjóðernishyggja? Snýst innganga í ESB um sjálfstæði þjóðarinnar? Er Svíþjóð frjálst ríki eða hjáleiga frá Brussels? Erum við Íslendinga einstakir og betur komnir einir og sér? Svona svolítið eins og Bjartur karlinn í Sumarhúsum.

Það er reyndar eðli mannsins að vera sjálfselskur og hugsa einungis um sjálfan sig fram í rauðan dauðann (Thomas Hobbes 1588-1679), að hver maður sé eyland og einhlýtur sjálfum sér. En hegða þjóðríki sér eins og einstaklingar? Reyna þjóðríki að hámarka hagnað sinn og hagsmuni? Eru til einhver dæmi um alþjóðleg samskipti þar sem þjóðríki hegða sér af „góðmennsku" en fylgja ekki utanríkisstefnu sem hámarka hagsmuni ríkisins?

Og hvað er fullveldi? Er Svíþjóð fullvalda? Hugtakið er nátengt hugmynd um sjálfstæði og frelsi ásamt fyrirbærinu þjóð. Fullveldi er gildishlaðið hugtak sem mikið er notað í umræðunni, og oftar en ekki misnotað. Hugtakið er Íslendingum sérstaklega hugleikið enda stutt síðan við töldumst fullvalda þjóð. En hvert er svarið við spurningunni hér að ofan? Hvaðan kemur þetta fullveldi og hvað felst í því? Hver er handhafi þess og hver ráðstafar því? Hafa stjórnvöld leyfi til að gera samninga þar sem þjóðin undirgengst yfirþjóðlegt vald? Við höfum í gegnum tíðina gert marga slíka samninga; innganga í Sameinuðu þjóðirnar, NATO, Evrópudómstólinn, EFTA, EES ásamt mörgum örðum aljóðasamningum. Höfum við fórnað fullveldi með þessum alþjóðasamningum? Meðal þjóðanna eru ríki sem skera sig úr hvað þetta varðar og hafa ekki gert slíka samninga, t.d. Norður Kórea. Búa Norður Kóreubúar þá við meira fullveldi en Íslendingar? Er það fullveldi gott fyrir þjóðina?

Þessa skilgreiningu á fullveldi lærði ég í skóla; „Fullveldið kemur frá þegnunum. Það eru þeir sem hafa réttinn til að ráða sér sjálfir og hafa fullt vald yfir málum sínum. Það er þeirra náttúruréttur sem ekki verður af þeim tekið" Getur verið að þegnar Norður Kóreu búi við þessa skilgreiningu þó þeir hafi á engan hátt undirgengist yfirþjóðlegt vald?

Það er einmitt fullveldi einstaklingana með réttindum þegnana sem skiptir máli ásamt fullveldi þjóða til að tryggja það. Nútíma samfélög hafa einmitt farið þá leið að tryggja lýðræði og borgarleg réttindi, með samningum þjóða á milli til að tryggja réttindi og lífskjör þegnana. Evrópuþjóðir fóru endalaust með hernað hvor á aðra og fórnaði heilu kynslóðunum á altari átaka um persónulega hagsmuni landsfeðrana. Á því byggir evrópustefnan og stofnun ESB að koma í veg fyrir að það endurtaki sig. Að viðskiptalegir hagsmunir verði það miklir að þjóðir Evrópu sjá sér ekki hag í hernaði hver gegn annarri.

Í lögfræði er fullveldishugtak þjóða skilgreint þannig:

1.      Þjóðin hefur yfir landi að ráða

2.      Hún lýtur eigin stjórn

3.      Er viðurkennd af öðrum ríkjum og getur því tekið þátt í samfélagi fullvalda ríkja

Skyldi Sviðjóð standa undir þessum skilgreiningum?

 Fullveldisumræðan er ekki einföld og hún er venjulega tilfinningaþrungin. Erfitt er að draga mörk í stjórnarskrá um hversu langt má ganga. Margir halda því fram að EES samningurinn sér brot á stjórnarskrá! Það sé lengra gengið í alþjóðasamstarfi en leyfilegt sé og sjálfsagt spurning um fleiri samninga þar sem þjóðin undirgengst yfirþjóðlegt vald.

Í þessari umræðu allri kemur upp sagan af því þegar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson landlæknir gengu fyrstir manna á Heklu. Þeir höfðu fengið bónda til að fylgja sér sem leiðsögumann. Á þessum tíma trúðu menn að útilegumann, tröll og forynjur og ernir með stálklær byggju á hálendinu. Bóndinn var skelfingu lostinn og þegar þeir komu í um 200 metra hæð lagðist hann niður með magakveisu og komst ekki lengra. Þeir félagar héldu förinni áfram og komust á toppinn og heilir á höldnu til baka og fundu bónda stálsleginn á bakaleiðinni.

Sagan lýsir fáfræði og heimsku Íslendinga á þessum tíma. Sama viðhorfið gagnvart Evrópu er nú uppi og menn sjá fyrir sér illmenni og kerfiskalla í Brussels sem vilja okkur allt illt. Stela af okkur fiskimiðunum og guð má vita hvað. Við viljum fá að hafa okkar Sumarhús í friði, sjálfstæð, og skiptir þá ekki máli þó við verðum svolítið fátæk.

 


Ræða Bjarna

Þetta eru erfiðir tímar fyrir margan sjálfstæðismanninn og því miður var ræða formanns áðan lítil huggun fyrir frjálslynda arminn í flokknum. Mér leið eins og talað væri niður til mín af Bjarna og það er ekki gæfulegt til að þjappa fólki saman. Kannski er það markmiðið að hrekja óværuna úr flokknum og hann sé betur komin án þessa frjálslynda fólks sem trúir á samstarf við vestræn ríki. En hræddur er ég um að lítil endurnýjun verði í slíkum flokki þar sem ungt fólk gengur ekki upp í sérhagsmunagæslu og þjóðerniskennd. Ungt fólk sem vill fá tækifæri í framtíðinni mun ekki trúa á óbreytta efnahagsstefnu á Íslandi enda hræða sporin í þeim efnum undanfarna áratugi.

Bjarni talar líka niður til okkar sem höfum viljað ræða Evrópumálin, en komið að tómum kofanaum í Sjálfstæðisflokknum. Engin rökræn umræða hefur átt sér stað innan flokksins, en hún hefur einskorðast við upphrópanir og stóryrði, þar sem fólk er sorterað í svartan og hvítan kassa, góða og vonda og andstæðingar úthrópaðir og kallaðir sósíalistar.

Sjálfur er ég ekki einharður Evrópusinni en vil skoða hvort innganga geti bætt lífskjör þjóðarinnar. Ég geri mér fulla grein fyrir að erfið mál þarf að semja um og engar varanlegar undanþágur eru í boði frá megin reglum sambandsins. Ég kannast ekki við þessa umræðu um undanþágur sem Bjarni talar um og mér finnst hann gera lítið úr mér og þeim sem vilja skoða þessi mál.

Hinsvegar stendur upp á hann núna að útskýra hvernig hann ætlar að bæta efnahagsumhverfi Íslendinga, og hvernig hall ætlar að gera hlutina allt öðruvísi en við höfum gert í fortíðinni. Fyrir utan síðustu tvo daga hefur hann lítið rætt stóru málin, gjaldeyrishöft, verðbólgu og ónýta peningamálastefnu þjóðarinnar. Sem kostar okkur vel á annað hundrað  miljarða (MILJARÐA) króna á ári. Ef hann hefði sagst ætla að taka upp vinnubrögð Svía, sem hafa náð undraverðum árangri í sinni efnahagstefnu undanfarna áratugi, með aðhaldi í ríkisfjármálum og stöðugleika sænsku krónunnar, þá myndi ég hlusta! Svíar vita ekki hvað fjáraukalög eru og gera ráð fyrir að staðið sé við fjárlög. Á Íslandi standa stjórnarþingmenn í stórræðum að styðja stofnanir sem ítrekað eru með frammúrkeyrslu á fjárlögum og leggja allt undir að standa með þeim í slíku.

Bjarni talar um hallalaust fjárlög! Fjárlög hækkuðu um 25 milljarða í meðförum þingsins og því var reddað með auknum sköttum. Reyndar á banka og slitastjórnir, en það er ekki sjálfbært. Það vantar ógnar mikið upp á að Bjarni blási trú á efnahagslega framtíð landsins og stefnumótun hans sé skýr. Sjálfur ber ég ekkert traust til samstarfsflokksins og það sem hann stendur fyrir. Sá flokkur stendur fyrir hagsmunagæslu á kostnað almennings og er ekki trúverðugur í að bæta lífskjör þjóðarinnar.

Upp úr stendur að Bjarni lofaði þjóðaratkvæðagreiðslu, undir sömu forsendum og ríkja í dag, og hann kemst ekki undan því með því að tala niður til Evrópusinna. Stjórnarsáttmálinn segir að beðið skuli úttektar á stöðunni (skýrsla Hagfræðistofnunar), málið rætt ýtarlega á Alþingi og síðan eigi sér stað umræða í samfélaginu. Hefur verið staðið við það?


ESB og landbúnaðurinn

Ég vil benda á frábæra grein eftir Þórólf Mattíasson í Fréttablaðinu í dag. Þar bendir hann á að fyrirhugaður stórfeldur útflutningur á skyri verður kostaður af almenning, beint eða óbeint. Þetta hlýtur núverandi stjórnarflokkum að hugnast, verja þannig sérhagsmuni á kostnað almennings.

Þetta er eitt af því sem útskýrir lága framleiðin á Íslandi, hún er á pari við Grikkland, þar sem ekki er hugað að verðmætasköpun við atvinnuuppbyggingu. Ekki er hægt að koma auga á neina áætlun stjórnvalda um að breyta hér um og bæta þannig lífskjör með verðmætasköpun og bættri framleiðni.

Við búum síðan við það sjálfstæðismenn í N-vestur kjördæmi að annar maður á lista er einn helsti varðhundur úrelts landbúnaðarkerfis og heyrist aldrei í honum nema því til stuðnings. Ekki skrýtið að hann hafi greitt atkvæði í þingflokkunum um að loka á samningaferli við ESB!

Vilhjálmur Bjarnason sagði í fréttum í gær að hann myndi standa keikur í lappirnar við að verja lífskjör þjóðarinnar. Þess vegna greiðir hann atkvæði gegn þeirri aðför sem meirihluti sjálfstæðismanna gerði fyrir helgina. Aðeins tveir þingmenn flokksins virðast bera hag almennings fyrir brjósti, en hinir virðast vilja gæta sérhagsmuna. Þjónka sérhagsmunum á kostnað almennings. Það er ekki pólitík sem gengur upp til lengdar.


Grein í Fiskifréttum 20. feb 2014

Fjárfesting í frystitogurum

Deilur um fiskveiðimál

Íslenskur sjávarútvegur er dínamískur og aðlagar sig hratt að breyttum aðstæðum. Engin spurning er  að fiskveiðistjórnunarkerfið ræður þar mestu og aðgreinir Íslendinga frá öðrum keppinautum. Velgengi íslenskrar útgerðar hefur hinsvegar valdið  pólitískum deilum meðal þjóðarinnar þar sem sjávarútvegsumræðan yfirgnæfir öll önnur mál. Reyndar deilir engin lengur um kvótakerfið en umræðan snýst nú um veiðigjöld og engu líkara en útgerðin sé óþrjótandi brunnur fjármagns sem ríkið geti tekið til sín og m.a. fjármagnað „skapandi" greinar. Það gleymist að einhverstaðar liggur lína þar sem gengið er á hagsmuni allra með of mikilli gjaldtöku og vegið að heilbrigðum rekstri sem standast þarf alþjóðlega samkeppni.

Hnignun frystitogara

Frystitogarar hafa skilað miklum verðmætum fyrir íslenskt þjóðarbú og gert það mögulegt að nýta fiskistofna á fjarlægum miðum, t.d. í Barentshafi og djúpt út af Reykjaneshrygg. Með hækkandi olíuverði og í samkeppni við landvinnslu hefur  þeim fækkað úr 35 þegar þeir voru flestir, í 16 togara í dag. Launakerfi á frystitogurum hefur jafnframt mikil áhrif en þau eru um 43,95% sem hlutfall af aflaverðmæti og þannig  í grunninn gert að það kemur í veg fyrir alla fjárfestingu í búnaði, skipum eða þróun framleiðslu. Í þessu samhengi er rétt að nefna að launakjör á rússneskum frystitogara er um 20%, en þeir hafa stórbætt framleiðslu sína og bjóða nú sambærileg gæði íslenskir togarar. Ofan á þetta þurfa íslenskir frystitogarar að greiða veiðigjald til ríkisins og aðra skatta sem gerir þá ósamkeppnishæfari og  grefur undan tilveru þeirra.

Allt þetta veldur því að þróun vinnsluskipa er lítil sem engin og þau komin til ára sinna, eru úrelt með litla möguleika á að þróa búnað eða framleiðslu til að bæta samkeppnishæfni og skila meiri verðmætum. Það kostar um 6 miljarða að byggja nýjan frystitogara sem gæfi meiri möguleika á fullvinnslu afla, en mikið af verðmætum er fleygt í sjóinn í dag. En hvað þarf til að fjárfesting í frystitogurum og þróun sem því fylgir geti átt sér stað?

Skattheimta ríkisins

Vergur hagnaður, EBITDA, er stærð sem oft er notuð til að sýna fram á rekstarhæfni, sem er hagnaður áður en tekið er tilliti til vaxta, skatta (+ veiðigjald), afskrifta og arðgreiðslna. Til að standa undir afskriftum og endurnýjun ásamt eðlilegum arðgreiðslum til eiganda, þarf vel rekin útgerð um 38% af EBITDA. Hér er ekki tekið tillit til þess að útgerð er mjög áhættusöm atvinnugrein og rétt að bæta við 6% áhættuálagi og gera ráð fyrir að hlutur útgerðar verði því 44%. Nauðsynlegt er að reikna með viðhaldi eignar og að hún rýrni ekki á rekstrartíma ásamt því að tryggja fjárfestum eðlilega ávöxtun á eigið fé. Ef gert er ráð fyrir endurnýjun á skipi þarf að gera ráð fyrir a.m.k. 27% af EBITDA fari til lánadrottna , þá yrði hlutur ríkisins 29%. Í þeim hugmyndum sem fyrrverandi ríkisstjórn lagði til var gert ráð fyrir að veiðigjaldið færi í 70% en þá fengi útgerðin um 3% í sinn hlut.

Fjárfesting í frystiskipum

Enginn myndi fjárfesta við þessar aðstæður í frystiskipi og enginn banki  lána til útgerðar. Ekki væri hægt að standa undir viðhaldi búnaðar, hvað þá þróun hans eða afurða. Í raun fengi ríkið ekkert í sinn hlut þar sem engin útgerð myndi starfa við slíka skattlagningu. Sjávarútvegur er skapandi grein og ekkert tilefni til að færa fjármuni þaðan í aðrar „skapandi" greinar. Við eigum að gera þá kröfu til stjórnmálamanna að þeir hugsi um þjóðarhag þegar ákvarðanir eru teknar sem varða afkomu þjóðarinnar en sjávarútvegur er undirstaða lífskjara í landinu.

Gunnar Þórðarson viðskiptafræðingur


Svik við sjálfstæðismenn

Tómleiki er rétta orðið til að lýsa líðan mans þessa dagana. Sú skrýtna staða er kominn upp að undirritaður sem var harður stuðningsmaður formanns Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar, þegar hann átti undir högg að sækja, ómaklega, í Vafningsmálinu. Í dag hefur stuðningur breyst í harða andstöðu og fullt vantraust á formanninum. Ég ber ekki traust til ríkisstjórnarinnar né meirihluta þingmanna flokksins sem hafa tekið jafn afdrifaríka ákvörðun og raunin er í Evrópumálum, með því að hætta við aðildarferlið við ESB. Þrátt fyrir gefið loforð, og samþykkt á Landsfundi, um að undan slíkri ákvörðun væri þjóðin spurð í þjóðaatkvæðagreiðslu. Ég þannig snúist úr stuðningsmanni í andstæðing Sjálfstæðisflokksins í landsmálum. Þetta er sérstaklega erfitt þar sem framundan eru sveitarstjórnarkosningar þar sem boðið verður fram undir merkjum flokksins.

Það eina sem hægt er að gera er að fjarlægja sig eins mikið og hægt er að gera frá þingmönnum flokksins og vona að þeir dagi okkur ekki niður í kosningum framundan.

Þingmenn flokksins virðast ætla að ganga veg hagsmunagæslu af gamla skólanum fyrir fá útvalda, og hirða ekki um möguleika á að bæta lífskjör hjá almenning.

Manni rennur kalt vant milli skinns og hörunds þegar horft er til aðfarar að seðlabankastjóra.  Nú vilja menn fara gömlu leiðina þar sem fyrrverandi stjórnmálamenn verða settir til að stjórna „sjálfstæðum" Seðlabanka.

Þetta er dapur dagur fyrir Íslendinga og mun ekki bæta ímynd okkar erlendis, sem var ekki burðug fyrir. Erlendar fréttastofur segja frá því að ríkisstjórnin losi sig við seðlabankastjóra sem ekki lætur nógu vel að stjórn. Í raun eins og framsóknarmenn hafa hagað sér undanfarið áttum við að slíta stjórnarsamstarfinu við þá. Ef ekki hefði tekist að mynda ríkisstjórn að fara í kosningar. Þá hefði Framsókn tapa óverðugu fylgi frá síðustu kosningum, sem gengu út á lýðskrum aldarinnar. Skuldaniðurfelling er ekkert annað en töfrabrögð sem þjóðin sjálf þarf að borga fyrir. Í þeirri leið er engin lausn fólgin.  


Fiskveiðar og ESB

Þegar andstæðingar ESB komast í rökþrot er gripið til sávarútvegs og við séum að gefa frá okkur fiskveiðiauðlindina. Talað er um að engar undanþágur frá meginreglum ESB séu í spilunum, og það er alveg rétt. Við munum þurfa að heimila erlenda fjárfestingu í sjávarútveg, það er ekki umsemjanlegt! En er það svo slæmt? Skiptir það máli hvort Óðinn selji 50% í Ísalandssögu til breskrar verslunarkeðju? Bretar keyptu í upphafi hluti í norsku laxeldi til að tryggja sér frábæra vöru, en engin ein vara hefur átt jafn mikla velgengi í smásölu í Bretlandi undanfarna áratugi. Alltaf fersk, alltaf til og „náttúrleg" afurð. Svona eins og Íslandssaga býður upp á nema enn betra. Bretar hafa reyndar ekki flutt norska laxeldið til Bretlands!

Það er mikið talað um sameiginlega fiskveiðistefnu ESB en ekkert mælir gegn því að við höldum okkar kvótakerfi, Fiskistofa sér um eftirlit með sömu reglum og við höfum í dag og afli verður ákveðin eftir ráðgjöf íslenskra vísindamanna.

  • Þetta er sameiginlega fiskveiðistefna ESB

-       að tryggja sjálfbærar veiðar, sem í raun felur í sér að miða þær við Maximum Sustainable Yield

-       Sá grunnur muni skila hámarks framleiðni í greininni og þar með hámarka tekjur þeirra sem byggja lífsafkomu sína á veiðum, tryggja réttláta skiptingu fiskveiðiarðsins ásamt því að gæta hagsmuna íbúa strandsvæða og neytanda

Auðvitað virka þetta ekki svona í ESB, en það gerir það á Íslandi. En þetta eru möguleikar okkar í samningum:

  • Hafa verður í huga að fiskveiðiauðlind er berskjölduð gegn rányrkju útlendinga
  • ESB mun ekki breyta stofnsamþykktum sínum fyrir Íslendinga
  • Fiskveiðistefna ESB byggir á meginstoðum sambandsins, fjórfrelsinu
  • Geta Íslendingar náð ásættanlegum samningum við ESB?
  • Ráðherraráðið ítrekað tekið fram fyrir hendurnar á Framkvæmdastjórninni í fiskveiðimálum
  • Staðbundnir stofnar vs. flökkustofnar
  • Íslandsmið skilgreind sem sérstakt veiðisvæði með sérstöku svæðaráði

Og hvað er í pokanaum?

  • Svæðisráðin eru skipuð fulltrúum frá hagsmunaaðilum í sjávarútvegi að tveimur þriðju, en að einum þriðja fulltrúum frá öðrum aðilum sem eiga hagsmuna að gæta varðandi sameiginlegu sjávarútvegsstefnuna
  • Íslendingar myndu fá allan kvóta við landið
  • Íslendingar gætu haldið í kvótakerfið, eða breytt því
  • Fiskveiðieftirlit yrði í höndum Íslendinga
  • Gætu Íslendingar bannað löndun erlendis nema hafnir uppfyllti kröfur Fiskistofu?
  • Reyna að koma í veg fyrir kvótahopp og fiskveiðiarðurinn renni til þjóðarinnar
  • En hvað um flökkustofna?

Það sem við verðum að hafa í huga að fiskveiðilögsögur ESB ríkja liggja saman og því mjög erfitt að stjórna veiði á staðbundnum stofnum. Við myndum vilja fá 5 fiskveiðisvæðið þar sem ákvarðanir væru teknar af okkar vísindamönnum, veiðireglur, um aflamagn. Þetta er umsemjanlegt og þarf ekki varanlegar undanþágur. Raunar er fjórfrelsið það sem við einmitt þurfum til að bæta lífsgæði okkar. ESB stendur fyrir markaðsbúskap og samkeppni, eitthvað sem við eru alls ekki að stunda! Í samhengi bendi ég á umræðu um verðbólgu og hvernig þrýst er á fyrirtæki og stofnanir að hækka ekki verð. Það er semsagt ekki samkeppnisumhverfi á Íslandi og frekar kerfi eins og var við lýði í fyrrum ráðstjórnarríkjum!

En svo eru það hvalveiðar sem ESB mun aldrei samþykkja. Við eigum að láta þá borga vel fyrir það enda engin vísindi sem mæla gegn veiðunum. Reikna framtíðarvirði hvalveiða, það er risaupphæð og dugar vel til að greiða allar erlendar skuldir Íslands, og láta þá borga okkur fyrir að hætta. Þetta er allt á tilfinninganótum hjá blessuðum mönnunum hvort eða er!

Andstæðingar ESB reka sitt mál á tilfinningum og mjög erfitt að fá hlutlægar skynsamar umræður. Hvað er þjóðernisumræða? Við tökum það fyrir í næsta pistli.


ESB og Ísland

Sem sjálfstæðismaður er ég miður mín út af umræðum landsfeðra um umsóknarferli Íslands að ESB. Ég geri ráð fyrir að framsóknarmenn bregðist við með þeim hætti sem þeir gera, en geri allt aðra kröfu til minna manna; sem þeir því miður standa ekki undir.

Nú er það ekki svo að ég sjái ESB í hillingum og vilji þangað inn sama hvað! Mitt markmið er að bæta lífskjör mín og sætti mig ekki við að vera hálfdrættingur í kaupmætti í samanburði við kollega mína á hinum norðurlöndunum. Punktur og basta.

Ég hef átt þess kost að fara yfir þessi mál með fjármálaráðherra, en hann hafði þá lýst því yfir að hann hann teldi að við ættum að nota krónuna um ófyrirsjáanlega framtíð! Ég fékk tækifæri til að koma þeim sjónarmiðum mínum á framfæri að sporin hræði þegar kemur að íslensku hagkerfi. Hagsveiflur frá upphafi hafa verið eins og villtur trylltur rússíbani. Eini mælanlegi stöðugleikinn var eftir inngöngu í EES og nokkuð styrka stjórnun landsmála í framhaldinu. En þess fyrir utan er þetta ekki boðlegt og ég setti þau sjónarmið fram við fjármálaráðherra að ef hann hefði einhver ráð með að tryggja stöðugleika með bættum aga í hagstjórn og nota krónu, þá þyrfti hann að útskýra hvernig hann hygðist gera það! Breyta þyrfti hagstjórninni frá því sem hún hefur verið frá upphafi og þeir sem slá ESB hugmyndir út af borðinu skulda okkur útskýringar á því hvernig það verður gert! Og þá eitthvað annað en töfrabrögð.

Seðlabankinn gaf út vandaða skýrslu um valkosti Íslendinga í gjaldmiðils- og gengismálum (sérrit nr. 7) sem Þórarinn G. Pétursson fjallaði um í ágætri grein í Fréttablaðinu 2. Mars 2013. Lítil sem engin viðbrögð andstæðinga ESB hafa verið við skýrslunni. Meira hefur borið á hnútuköstum út í seðlabankann og nú er talað um að losa sig við bankastjórann, enda sé hann ósammála forsætisráðherra og virðist ekki tilbúinn að aðlaga sig að skoðunum hans.

Þórarinn veltir því upp hvort það sé heppilegt fyrir land með jafn lítinn þjóðarbúskap að reka sjálfstæðan gjaldmiðil í opnu hagkerfi, enda fylgi því gríðarlegur kostnaður. Beinn kostnaður við að skipta úr einum gjaldmiðli í annan sé um 5-15 miljarðar á ári, eða 10 hluti vöru- og þjónustuafgangs. Hann bendir á að íslenskt fjármálakerfi sé mjög smátt og dýrt í rekstri og kostnaður við að stunda viðskipti mjög hár. Viðskiptakostnaður sé allt að tvö- til þrefalt hærri en meðal annarra þróaðra ríkja. Þetta endurspeglist í gengissveiflum og hærri innlendum vöxtum. Rannsóknir sýni að vaxtakostnaður hér á landi sé um 1 ½ hærri hér, miðað við á stærra myntsvæði. Hér er um risastórt mál að ræða fyrir almenning í landinu og lífskjör þjóðarinnar!

Stundum er rætt um að nauðsynlegt sé að hafa eigin mynt sem hægt sé að stilla eftir því hvernig árferði er í efnahag landsins. Það verður þó að hafa í huga að gengisfelling er í raun launalækkun hjá íslenskum almenning en eykur ekki framleiðni eða verðmætasköpun, sem eru undirstöður lífskjara. Þórarinn bendir á að McKinseys skýrslan bendi einmitt á að lágt framleiðnistig sé helsti dragbítur efnahagsframfara á Íslandi.

Þórarinn bendir á að í þeim ríkjum sem tekið hafa upp evru hafi erlend fjárfesting aukist um 30%. Aðild að stærra myntsvæði auki viðskipti við önnur lönd og margar rannsóknir styðji þær fullyrðingar. Hann segir að miðað við miðgildi þeirra rannsókna gæti aukning hér á landi numið um 70 miljörðum kr. á ári, sem jafngildir um 60% vöru- og þjónustuafgangs ársins 2012. Aðild að stærra myntsvæði gæti aukið landsframleiðslu um 3% varanlega á ári.

Lítið fer fyrir rökstuðning andstæðinga ESB gegn þessari skýrslu Seðlabankans. En ríkisstjórnin skuldar okkur útskýringa á stefnu sinni og hvernig þeir ætli að tryggja lífskjör til framtíðar á Íslandi. Sérstaklega þurfa sjálfstæðismenn að útskýra sína stefnu, sem illa passar inní megin stefnu og markmið Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn, flokkur allra landsmanna, þarf að útsýra hvernig hann hyggst tryggja lífskjör hér á landi með krónu sem mynt. Taka þátt í umræðunni á faglegum og á hlutlægum nótum og hætta að kasta rýrð á þá sem eru ósammála landsfundi flokksins í Evrópumálum. Oftar en ekki er undirritaður kallaður sósíalisti vegna skoðana um ESB. Það er óþolandi og ómálefnalegt.


Í heljargreipum hafta

Ég er ekki viss um að geta kosið minn gamla flokk í þingkosningum þegar ég les þetta. Ég geri ráð fyrir afturhaldinu hjá Framsókn, en Sjálfstæðisflokkurinn er lítið betri þegar kemur að landbúnaðarmálum. Þar berjast menn gegn almannahagsmunum til að verja gamlar kreddur.  Í raun er það spilling þegar hagsmunir fjöldans víkja fyrir hagsmunum fárra manna. Í raun gerir þetta bændum ekki gott þar sem einokunin hlekkjar þá í viðjur fátæktar, enda lítil verðmætasköpun í landbúnaði.

Við verðum að markaðsvæða landbúnað og opna fyrir alþjóðaviðskipti með þessar vörur! Það sama mun gerast og með sælgætisiðnaðinn við inngöngu í EFTA að landbúnaður mun eflast. Eflast við að takast á við samkeppni og sinna viðskipavinum sínum vel. Nokkuð sem ekki er til staðar í dag.


mbl.is Hagar fá ekki viðbótartollkvóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 48
  • Frá upphafi: 283912

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband