Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013

Grein í BB

Ráðstefna um sjávarútveg á Vestfjörðum

Hlutverk Matís

Matís er fyrirtæki sem vinnur að rannsóknum, þróun (R&Þ) og nýsköpun, aðallega í matvælavinnslu með mikla áherslu á sjávarútveg. Hlutverk fyrirtækisins er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, bæta lýðheilsu og tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins. Hjá Matís starfa vísindamenn á mörgum sviðum og fyrirtækið rekur starfstöðvar um allt land og meðal annars í Ísafjarðarbæ og Vesturbyggð. Starfstöðvum má lýsa sem tengilið milli hugar og handar, þar sem atvinnulífi á Vestfjörðum býðst tenging við rannsóknarstofnun með mikla þekkingu og reynslu.Atvinnulíf Vestfjarða byggir á sjávarútvegi, sem skapar meira en helming tekna í fjórðungunum og allt að 75% með tengdum greinum.

Það er því gríðarlega mikilvægt að sjávarútvegur hér dafni og eitt af grundvallaratriðum varðandi tekjur framtíðar er að R&Þ og nýsköpun sé hluti af starfsemi fyrirtækjanna. Það er hagur almennings að hámarka verðmætasköpun í mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar, sjávarútvegi. Vestfirðingar þjóna nú kröfuhörðum mörkuðum, s.s. ferskum flakastykkjum  og makríl, en þessar vörutegundir byggja báðar á rannsóknum og þróunarvinnu sem fyrirtæki hafa unnið í samstarfi við Matís.

Sjávarútvegur á Vestfjörðum

Þó flest snúist um sjávarútveg á Vestfjörðum koma starfsstöðvar Matís þar víðar að málum. Á suðurfjörðunum er mikil áhersla á fiskeldi og vinnur Matís með fyrirtækjum á því sviði. Á norðanverðum fjörðunum hefur fyrirtækið komið að R&Þ með fyrirtækjum eins og 3X Technology við að þróa búnað til að bæta gæði fisks, t.d. blóðgunar og kælitönkum.  Sú vinna hefur þegar skilað 3X Technology verkum fyrir stærri línubáta og togara, þar sem straumhvörf hafa orðið í meðferð á afla um borð. Nú er horft til smábátaflotans þar sem nokkuð verk er óunnið, enda gætu bátar verið betur búnir til að hámarka gæði og verðmæti afla. Með rannsóknum hefur verið sýnt fram á að rétt blóðgun og kæling hefur umtalsverð áhrif á gæði hráefnis, sem tengist gæðum þeirra afurða sem framleidd eru úr hráefninu. Illa blóðgaður fiskur hefur blóðroða í holdi, sem bæði skemmir útlit og bragð og kemur niður á geymsluþoli vöru. Ljóst er að þeir markaðir sem best borga, s.s. markaðir með kælda fiskbita, taka ekki við og myndu aldrei taka við því hráefni sem landað er illa blóðguðu og illa ísuðu.

Smábátaflotinn

Sérstök áhersla er einmitt á smábátaflotann hér á Vestfjörðum og mun Matís beita sér fyrir átaki til að bæta meðhöndlun um borð í smærri bátum. Nýleg úttekt MAST sýnir að 70% af strandveiðiflota ísar fisk nægjanlega til að kæla hann niður fyrir 4°C, sem eru miklar framfarir frá síðasta ári. En eftir stendur að 30% flotans er að koma með illa ísaðan lélegan afla að landi. Umfram viðmið í reglugerð, ætti metnaður sjómanna og útgerðarmanna að standa til þess að landa fiski við sem lægst hitastig, eins nálægt 0°C og kostur er, því við þær aðstæður geymast þau gæði sem fiskurinn býr yfir best.

Matís hefur unnið verkefni á sviði grásleppuveiða og vinnslu, sem er mikilvæg atvinnugrein hér á Vestfjörðum. Þar eru áskoranir sem fyrirtækið vill takast á við í samvinnu við Landssamband smábátaeiganda og aðra hagsmunaaðila í greininni.

 

Samvinna við AtVest

Matís hefur lagt sérstaka áherslu á samvinnu við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og hefur unnið að verkefnum studdum af Vaxtasamningi Vestfjarða. Í framhaldi af þeirri samvinnu mun Matís ásamt Sjávarútvegsklasa Vestfjarða, 3X Technology og Atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytinu standa fyrir ráðstefnu um R&Þ ásamt gæða- og markaðsmálum. Ráðstefnan verður haldin hér á Ísafirði föstudaginn 6. september þar sem fjöldi manna úr sjávarútveg og tengdum greinum munu halda fyrirlestra. Hugmyndin er að vekja áhuga á nýsköpun með rannsóknar og þróunarstarfi í sjávarútvegi með áherslu á gæða- og markaðsmál. Við þurfum að horfa til framtíðar og velta fyrir okkur hvernig við getum þjónað kaupendum vestfirsks fisks sem best. Hverjar eru væntingar þeirra og hvernig getum við uppfyllt þær á sem bestan hátt. Það er grundvöllur fyrir verðmætasköpun í greininni og verður undirstaða lífskjara íbúa fjórðungsins.

Arnljótur Bjarki Bergsson

Gunnar Þórðarson


Verðmætasköpun í sjávarútveg

Velgengni íslensks sjávarútvegs

Í umræðu um sjávarútvegsmál er mikið rætt um að auðlindin sé eign þjóðarinnar, og reyndar tekið fram í lögum um fiskveiðistjórnun. Það er gott og vel, enda um grunnatvinnugrein Íslendinga að ræða og afkoma sjávarútvegs ræður miklu um efnahag og lífskjör þjóðarinnar. Það er því miður að umræða skuli ennþá vera í þeim farvegi  sem hún hefur haldist á undanfarna áratugi, og snýst ennþá  að miklu leyti um frasa og sleggjudóma um þá aðila sem starfa í greininni. Hluti þjóðarinnar sér ofsjónum yfir velgengni sjávarútvegs sem byggir á þeirri hagræðingu sem fiskveiðistjórnun hefur skilað síðan kvótakerfið var sett á 1984. Skipulag fiskveiða hafa gert Íslendinga fremsta í heiminum á sviði sjávarútvegs, með markaðsdrifna virðiskeðju og verðmætasköpun sem engin önnur atvinnugrein á Íslandi keppir við.

Framleiðni á Nýfundnalandi

Á Nýfundnalandi búa um tvöfalt fleiri íbúar en á Íslandi, og sjávarútvegur er þeirra undirstöðu- atvinnugrein. Sjávarútvegur þar skilaði um 90 milljörðum króna í útflutningsverðmæti árið 2012 og rúmlega 20.000 manns störfuðu við veiðar og vinnslu, svipaður fjöldi í hvoru um sig. Íslendingar fluttu út sjávarafurðir fyrir um 277 milljarða króna og í greininni störfuðu samtals um 9.000 manns. Ef þetta er borið saman þyrfti rúmlega 60.000 manns á Íslandi til að vinna þessi verðmæti miðað við sömu framleiðni. Reyndar hefðu þá fleiri vinnu við sjávarútveg, en allir Íslendingar væru umtalsvert fátækari. Staðreyndin er sú að íbúar Nýfundnalands fá helminginn af öllum rekstrarkostnaði samfélagsins sendan frá alríkisstjórninni í Ottawa, en Íslendingar hafa engan slíkan bakhjarl til að byggja á!

Markaðsdrifin virðiskeðja

Eitt af því sem mestu máli skiptir, fyrir utan fiskveiðistjórnun, er öflugt markaðstarf Íslendinga, sem byggir á gæðum; þar sem varan og afhendingaröryggi eru grundvallar atriði. Að afhenda vöruna eftir þörfum neytenda skapar auðlegð íslensks sjávarútvegs. Oft er talað um að íslenskur sjávarútvegur sé markaðsdrifinn en t.d. á Nýfundnalandi væri hann þá auðlindadrifinn. Margt bendir til þess að vestfirskur sjávarútvegur sé einmitt auðlindadrifinn og virðist standa höllum fæti miðað við meðaltal á Íslandi.

Gæðavandamál á norðanverðum Vestfjörðum

Um borð í Guðmundi EinarssyniGetur verið að hluti af því vandamáli endurspeglist í því mokfiskiríi sem dagróðrabátar hafa stundað á norðanverðum Vestfjörðum í sumar. Línubátar með þrjá menn á eru að róa með 48 bala og landa upp undir 20 tonnum á dag, stundum eftir að fara þurfti tvær ferðir af miðunum með aflann. Myndir hafa gengið á netinu af mokinu þar sem þessir menn eru að landa íslausum fiski í mjölpokum, og standa uppundir klof í fiskstabbanum. Þetta er hrollvekja sem minnir á gamlar myndir af netavertíð í Eyjum þar sem fiski var ekið á tún, enda stundaðar ólympískar veiðar og keppnin um tonnin í algeymi. Fjölmiðill eins og þetta góða blað (Fiskifréttir) talar um „Glæsilegt aflamet" hjá bátum, sem eru með meiri meðaltalsafla yfir mánuðinn en báturinn getur borið. Á þessu svæði róa menn með eitt ísker, um 400 kg af ís, til að kæla niður afla allt að 22 tonnum, og sjávarhiti er um 8-10°C. Fæstir þeirra eru með blóðgunarker um borð og því eru þeir að landa illa blóðguðum og ísuðum afla, sem er síðan slægður í dauðastirðnun.

 

 

Hugarfarsbreyting nauðsynleg

Það er langt síðan hugafarsbreyting varð um borð í togurum landsins þar sem keppst var við að landa sem flestum tonnum. Togarar í dag taka hæfilega stór höl, eru með mælitæki til að fylgjast með afla í veiðarfærum, og eru með fullkominn búnað til að blóðga og snöggkæla fiskinn þar sem gengið er frá honum í ker við fyrsta flokks aðstæður. Það ætti að vera okkar átaksverkefni, eiganda auðlindarinnar, að bæta hér úr og stöðva illa meðferð á afla. Mikilvægt er að fjölmiðlar taki þátt í þeirri hugarfarsbreytingu sem þarf til að stöðva illa meðferð á auðlindinni, sameign þjóðarinnar.


Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 2
  • Sl. sólarhring: 25
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 283752

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband