Bloggfærslur mánaðarins, desember 2013

Ísbjörn í Fljótavík - jólablað Vesturlands

Ísbjörn í Fljótavík

Í maí árið 1974 fór hópur manna til Fljótavíkur til að skipta um vél í jeppa sem notaður var við byggingu á núverandi Atlastöðum. Jeppinn lá undir norðurgafli slysavarnarskýlisins og höfðu þeir félagar, Jón Gunnarsson, Helgi Geirmundsson og Ingólfur Eggertsson tekið að sér verkið. Með í för var Herborg, kona Ingólfs með 15 ára son þeirra, 11 ára sonur Helga og 10 ára gamall sonur Jóns. Það var síðan 18. maí að þeir voru langt komnir með að tengja vélina og voru á kafi ofaní vélarhúsinu þegar Jóni var litið upp og horfist í augu við hvítabjörn. Það vildi þeim til að birninum var jafn brugðið og þeim og gafst því ráðrúm til að snara sér inní slysavarnaskýlið. Björninn fór nú að hnusa að farangri þeirra, fann appelsínu sem hann sporðrenndi og virtist vera hinn rólegasti. En hér voru góð ráð dýr því þeir áttu von á Herborgu með drengina á hverri stundu frá Atlastöðum. Helgi var með haglabyssu en skotin voru úti hjá bjössa, í úlpu sem lá niður við fjörukambinn.

Menn voru skelfingu lostnir og óttuðust hið versta ef Herborg mætti með drengina og ræddu um hvað skyldi til bragðs taka. Við minnsta þrusk þeirra var athygli bjarnarins vakin og fylgdist hann vel með mönnunum í skýlinu. Talstöð var þarna og létu þeir loftskeytastöðina á Ísafirði vita af aðstæðum sínum. Þá kom kall frá Siglufjarðarradíó og þeir átaldir fyrir að nota talstöðina að nauðsynjalausu, hún væri aðeins ætluð í neyðartilvikum. En á Ísafirði var kallað eftir flugvél sem gæti lent við aðstæður í Fljótavík.

Í millitíðinni rjátlaði björninn frá skýlinu og notaði Helgi þá tækifærið, hljóp út og sótti úlpuna með skotunum, hlóð byssuna of feldi björninn.

Nú var hættuástandi aflýst en flugvélin mætti með fréttamenn frá sjónvarpinu og fyrsta manneskjan sem þeir hittu var Herborg, sem ekki hafði hugmynd um hvað hefði gerst við Grundarenda, og kom algerlega af fjöllum. Þannig frétti hún af ísbjarnadrápinu í gegnum fjölmiðlana og hélt í fyrstu að þeir væru ekki með öllum mjalla. En fljótlega komu bjarndýrabanarnir á vetfang og sögðu sína sögu.

Við krufningu kom í ljós að appelsínan var það eina sem björninn hafði borðað í langan tíma. Því má líka bæta við að Helgi var ekki vanur að hafa með sér byssu norður í Fljót, en hafði fengið þá hugdettu við brottför að taka hana með. Við brottför frá Ísafirði biður hann samferðamennina að bíða smá stund, skutlast heim til að sækja haglabyssu og treður nokkrum skotum í úlpuvasann á leiðinni út. (stytt og endursagt eftir Jósepi Verharðsyni).

 


Lífið í Fljótavík - Jólablað Vesturlands 2013

Lífið í Fljótavík

Júlíus Geirmundsson bjó ásamt konu sinni, Guðrúnu Jónsdóttur, að Atlastöðum í Fljótavík, og stóð gamli bærinn á Bæjarhólnum þar sem Atlastaðir standa í dag. Júlíus keypti Atlastaði í Fljótavík ásamt frænda sínum og félaga, Jósepi Hermannssyni árið 1906 og hófu búskap þar. Samstaða og samlyndi einkenndi alla tíð sambýli Júlíusar og Jóseps og segja þeir sem til þekktu að aldrei hafi þeir vitað til þess að misklíð kæmi upp á milli þeirra.

Þessir menn voru alls ekki aftarlega á merinni hvað ýmsan aðbúnað varðaði og kom Júlíus sér upp útvarpi árið 1943. Í fyrstu var notast við rafgeyma sem bornir voru að Hesteyri til hleðslu, en seinna kom hann sér upp vinmillu til að leysa burðinn af hólmi. Í framhaldi kom talstöð í Fljóti og hægt að láta vita af sér við umheiminn og þurfti að fjárfesta í rafstöð til að fullnægja orkuþörfinni og var hún gangsett reglulega til að hlaða inn á rafgeymana. Var þetta mikil nýlunda fyrir víkurbúa, og ekki síst fyrir börnin sem hálf hræddust skellina í vélinni. Þótti þeim mikið til koma og fannst Júlíus mikil maður enda orðin "rafmagnsmaður"

Júlíus skrapp eitt sinn í höfuðborgina og var mjög forframaður þegar hann kom til baka, með hatt og staf og reffilega klæddur. Það hefur verið upplit á sveitungum hans þegar hann lýsti fyrir þeim undrum „stórborgarinnar" og þegar hann fór í „lyftuvél" í útvarpshúsinu, en þangað fór hann til viðtals. Viðtalið var tekið upp á stálþráð sem enn er til. Sjálfsagt hefur þótt merkilegt að ræða málin við útvegsbónda norðan af Hornströndum sem aldrei hafði komið í höfuðborgina fyrr. Júlíus þótti tala mjög fallega íslensku, kjarnyrta og ómengaða á þeim tíma. Segir sagan að rithöfundar, þar á meðal Guðmundur Hagalín, hafi komið til að fá innblástur og eins tök á þessu kjarngóða máli sem hann talaði. Er sérstaklega til tekið að Guðmundur hafi dvalið í Fljóti áður en hann skrifaði „Kristrúnu í Hamravík" til að ná valdi á tungutakinu.

Högni Sturluson, ásamt mági sínum Geirmundi Júlíussyni byggðu sér heimili í Fljótavík árið 1941 og bjó þar til bændur fluttu búferlum úr víkinni 1946. Högni minntist þess hversu mikið verk var að bera á bakinu allt efnið í húsið frá sjó og upp að bæjarstæðinu. Í grunninn bar hann grjót út fjörunni, safnað var saman rekavið í rafta og sperrur en einnig var honum flett með stórviðarsög í borð. Smíðaefni var síðan keypt af Kaupfélaginu á Ísafirði og flutt með Fagranesinu í Fljót.

Högni minnist brottflutningsins úr sveitinni en segist ekki hafa tekið það mjög nærri sér enda vanur flakki frá einum stað til annars. Hinsvegar hafi þetta verið þyngri spor fyrir suma aðra þar sem menn þurftu að skilja eftir aleiguna og lífsstarfið, jafnvel með áhvílandi skuldum. Þetta var 16. júní 1946 og skildu menn féð eftir til að láta það ganga sumarlangt í grösugri sveitinni, en síðan átti að smala því að hausti og leggja endalega af búskap í Fljóti. Högni segist hafa tapað lófastórum steini, sem hann hafði rispað nafn sitt á þegar stund gafst milli stríða í verinu, við brottförina. 1999 fann Herborg Vernharðsdóttir steininn í fjörunni þar sem báturinn mun hafa flutt fólkið um borð í Fagranesið, áleiðis til nýrra heimkynna handan Djúpsins.

Herborg minnist vel þessa dags og segir menn hafa verið niðurlúta og augnablikið tregafullt. Fljótlega eftir að fjölskyldan kom til nýrra heimkynna í Hnífsdal réði hún sig til kaupavinnu, en þó með því fororði að hún færi um haustið til að smala fénu í Fljóti. Réttir fóru venjulega þannig fram að smalað var fyrst að Atlastöðum þar sem menn drógu sitt fé í dilka. Það fé sem ekki tilheyrði Atlastaðabændum var síðan rekið kringum vatnið til Tungu þar sem Tungumenn höfðu smalað sín megin. Féð var síðan rekið til Hesteyrar yfir Háuheiði þar sem það var dregið í dilka og síðan ráku menn sitt fé hver til sinna heima að Sæbóli, Miðvík, Látrum, Stakkadal eða Rekavík.

Við skulum gefa Herborgu orðið og láta hana lýsa með eigin orðum þessari síðustu smölun haustið 1946, en hún var 14 ára gömul þegar þetta var.

„Ég og systir mín Þórunn fórum í september ásamt föður okkar og öðrum bændum úr Fljóti til að smala fénu og koma því til Ísafjarðar. Við komum til Fljótavíkur í blíðu veðri og gisti hópurinn í húsi Júlíusar Geirmundssonar að Altastöðum. Fljótlega eftir komuna gerði norð-austan áhlaup með þreifandi byl sem stóð yfir í vikutíma.

Þegar veðrinu slotaði var allt komið á kaf í snjó og fórum á fætur um kl. sex um morguninn til smölunar en féð hafði komið niður af fjalli undan veðrinu, og þurfti því ekki að elta það þangað. Öllu fénu var smalað í réttina í Tungu þar sem Látra féð var dregið í dilka og ráku síðan bændur sitt fé þaðan heim yfir Tunguheiði. Töluvert var farið að grisjast búskapur á þessum tíma og því ekki um mikinn fjölda að ræða.

Síðan var féð rekið til Hesteyrar þaðan sem flytja átti það til Ísafjarðar. Það var það mikill snjór upp Glúmsdalinn að ég man eftir því að hann náði í mitti þegar við vorum að koma upp brekkuna ofan við Glúmsstaðartúnið. Það varð að troða undan fénu til að koma þeim yfir fannfergið og voru sumar kindurnar bókstaflega að gefast upp. Milli klukkan níu og tíu um kvöldið komum við til Hesteyrar þar sem féð var rekið inn í rétt og restin af fé nágrannana dregið í dilka. Fagranesið átti að koma þá um kvöldið að Stekkeyri, en þar var bryggja. Ekki varð úr því þar sem svo vont var í sjóinn og var skipskomu frestað. Féð var því skilið eftir í réttinni og við fengum gistingu hjá Sölva Betúelssyni og Sigrúnu á Reiðhól. Maður var blautur sko því nú voru ekki stígvélin til að vera í. Ég man að við vorum rennandi blaut og þegar við vorum búin að borða vorum við háttuð upp í heitt og fínt rúm. En klukkan að verða eitt, þá kom kallið. „Báturinn er að koma"

Það var kolniða myrkur, ég man það. Við þurftum að fara og þó Sigrún gamla á Reiðhól væri búin að vinda af okkur fötin og reyna að þurrka þau, hún tók svo rosalega vel á móti okkur, vóru þau ennþá rennandi blaut. Og takk fyrir, við urðum að fara í allt blautt en fötin voru þó heit.

Nú inn á Stekkeyri var farið með féð þar sem öllu var dengt út í bátinn og lagt af stað til Ísafjarðar. Við reyndum að leggja okkur á leiðinni en það var ekki möguleiki að sofna fyrir endalaust jarmi í rollunum. Við komum til Ísafjarðar klukkan sjö um morguninn en þá áttum við eftir að reka féð inn í sláturhús og var klukkan orðin um ellefu þegar því var lokið.

Þá fórum við systurnar labbandi heim út í Hnífsdal. Ég man ekki hvort klukkan var tólf eða hálf eitt þegar við kómum þangað en þetta var "einn" dagur í lífi mínu".

Högni Sturluson telur ástæðuna fyrir brottflutning hafa verið öryggisleysi íbúanna. „Þetta var orðið dauðadæmt. Enginn læknir, engin ljósmóðir á Hesteyri" Sölvey Jósepsdóttir taldi ástæðuna vera ásamt því að unga fólkið vildi allt fara í burtu. „Þá hefðu þeir gömlu mennirnir orðið einir eftir og það hefði aldrei gengið"


Leiðari jólablaðs Vesturlands 2013

Von og Trú

Vonin er nátengd jólahátíðinni og hvort sem horft er til fæðingu frelsarans eða eldri hátíða ljóssins, þar hækkandi sól blés mönnum bjartsýni í brjóst. Með Jesú fékk mannkynið einn merkasta heimspeking sögunnar sem kynnti því hinn miskunnsama, réttláta og umburðalynda guð sem var ólíkur því sem áður þekktist. Með þessu breytti Jesú ekki bara heiminum og gildismati kristinna manna um aldur og ævi, heldur gaf hann fólki von og vakti hjá því traust með trú sinni á guð. Hann vakti virðingu fyrir einstaklingnum og lagði grunninn að vestrænni siðmenningu.

Það er mikilvægt fyrir alla að hafa von og geta litið til betri  tíma þegar illa árar, eða bara þegar skammdegið hvolfist yfir og von um birtu og yl hækkandi sólar yljar sálartetrinu. Slík von í pólitík á Íslandi er mikilvæg þessa dagana. Því miður hefur stjórnmálamönnum ekki tekist að vekja slíka von í brjóstum landsmanna og skilaboðin eru óljós og óskýr og mikil óvissa á flestum sviðum. Miklar vonir voru bundnar við nýja ríkisstjórn eftir átök og hörku síðasta kjörtímabils, þar sem látið var vaða á súðum til að breyta landslagi stjórnmálanna, koma fjötrum á einstaklinginn með áætlanabúskap og „skipulagi" atvinnulífsins.

Núverandi stjórnvöld þurfa að vekja þessa von hjá þjóðinni og bæta samkeppnishæfni hennar til að auka kaupmátt og lífsgæði. Slík von verður hinsvegar ekki vakin nema með trausti. Við þurfum að geta treyst því að Sjálfstæðisflokkurinn standi undir því að vera ábyrgur í efnahagsmálum. Flokkurinn þarf að útskýra fyrir þjóðinni hvernig ná á tökum á gríðarlegum efnahagsvanda landsins og þó það geti kostað tímabundna erfiðleika. Hefja sig upp úr stundarhagsmunum stjórnmálanna með hagsmuni íslensks samfélags að leiðarljósi og fullvissa þjóðina um að skammdegið sé að baki og framundan sé hækkandi sól með blóm í haga. Fólk þarf að trúa því!

Um leið og Vesturland óskar Vestfirðingum gleðilegra jóla og farsældar á komandi árum er rétt að minnast aðeins á merk tímamót hjá blaðinu. Vesturland varð 90 ára í sumar, og þó það hafi verið stofnað sem óháð blað leið ekki á löngu þar til tekin var upp ritstjórnarstefna með einkaframtaki og stétt með stétt, sem eru ein af grundavallar stefnum Sjálfstæðisflokksins. Þetta kemur vel fram í umfjöllun Hlyns Þórs hér í blaðinu og óhætt að segja að snemma hafi beygst krókurinn hvað varðar stefnu blaðsins.

Gleðileg jól

Gunnar Þórðarson

 


Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 283871

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 45
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband