Bloggfærslur mánaðarins, september 2012

Grein í Fiskifréttum

 

,,Réttlætiskröfurnar" í fiskveiðistjórnunarkerfinu kosta þjóðfélagið stórfé

Unnið gegn arðseminni

 

Höfundur hefur alla tíð haft það þá skoðun að reka eigi íslenskan sjávarútveg á markaðsforsendum og að veiðistjórnun tryggi hagkvæmni og arðsemi greinarinnar. Þannig að verðmætasköpun verði tryggð og hægt að setjast yfir það ánægjulega „vandamál" hvernig skipting fiskveiðiarðs hámarki þjóðarhag.

Umræða um sanngirni og réttlæti er oftar en ekki úti á þekju, enda sýnist sitt hverjum þegar kemur að slíkum huglægum viðmiðum. Mörg letjandi ákvæði hafa verið sett inn í fiskveiðistjórnunarkerfið til að uppfylla „réttlætiskröfur" ýmissa hópa þjóðfélagsins, en því miður veldur það miklum kostnaði fyrir þjóðarbúið í heild. Hér skal drepa niður fæti til að skoða nokkur slík dæmi og velta upp þeim kostnaði sem slíkir  annmarkar hafa í för með sér í annars góðu kerfi.

Línuívilnun

Línuívilnun var komið á til að kaupa vinsældir smábátasjómanna sem sáu  leið til að auka við veiðiheimildir undir gunnfána byggðastefnu. Með því að handbeita línu í landi og takmarka sókn við dagróðra fær útgerðin 20% ívilnun á kvóta sinn. Með þessu er komið í veg fyrir tækniþróun útgerðar og menn verðlaunaðir fyrir að nota útelt vinnubrögð, sem eru erfið, illa launuð og óþrifaleg. Engum dettur í hug að setja línubeitningavél um borð þegar hægt er að auka kvóta með handbeitningu. Þessu má líkja við að  menn fengju lóðir undir húsin sín frítt ef þeir notuðu hjólbörur við að keyra möl í grunna í stað vörubíla.

Á fundi sem haldinn var á Patreksfirði í vor var einn frumælandi stjórnandi í fiskvinnslu á svæðinu. Þar upplýsti hann að fyrirtæki sitt hefði ákveðið að taka beitningakerfi úr 300 tonna vertíðarbáti og gera hann út á dagróðra með handbeitningu. Áður hafði þessi bátur róið á útilegu í þrjá daga í senn. Áhrif þessara breytinga voru afgerandi; gæði afla rýrnuðu  og kostnaður stórjókst. Nú þurfti að róa á heimamið þar sem landa þurfti innan sólahrings og því ekki hægt að sækja á fjarlægari gjöfulli mið og betri fisk. Olíukostnaður var mun meiri og dýrara var að handbeita vegna vinnulauna og minni nýtingar á beitu. En vegna línuívilnunar borgaði sig að stíga þetta skref til baka, sem skilar samfélaginu auknum kostnaði og minni arðsemi.

Hámarkstærð báta

Smábátakerfið gerir ráð fyrir hámarksstærð, 15 tonnum. Í dag er verið að smíða nýja „fullkomna" báta í þessu kerfi, með þessum annmörkum. Niðurstaðan er sú að ekki er pláss fyrir eðlilega vinnuhagræðingu um borð í bátunum. Menn eru að kasta til fiski marga metra sem bæði gerir störfin erfiðari og skaðar gæði aflans stórkostlega. Ekki er pláss um borð fyrir sjálfsögð tæki til að bæta meðferð afla, eins og blóðgunarbúnað. Ef bátarnir væru lengdir um 5 metra væri hægt að leysa öll þessi vandamál, og eldsneytiseyðsla myndi minnka verulega. Í dag draga þessir bátar mikinn sjó á eftir sér vegna þess að þeir eru allt of stuttir.

Í raun ættu engin stærðarmörk að vera á skipum. Menn hafa sinn kvóta og ráða því sjálfir hvort þeir sækja hann á 15 tonna báti eða 50 tonna. Enginn er betur til þess fallinn að taka slíka ákvörðun en útgerðarmaður sem er vonandi sérfræðingur á sínu sviði, og þarf því ekki fánýtar reglugerðir til að hafa þar áhrif.

Standveiðar

Strandveiðar taka samt út yfir allt hvað þetta varðar. Í raun má segja að kvóti sé tekinn af einum báti og færður öðrum. Í mínum heimabæ, Ísafjarðarbæ, er kvóti tekinn af Páli Pálssyni ÍS-102 og færður til bílstjóra, bankastjóra, atvinnurekanda og annarra sem stunda strandveiðar í frístundum sínum. Til að meta hagkvæmni þessa er rétt að líta til hagfræðilegra viðmiða sem kallast jaðarkostnaður. Jaðarkostnaður Páls Pálssonar við að veiða eitt tonn í viðbót, við þau 70 tonn sem hann hefur þegar fiskað í túr fyrir vinnslu HG, er sáralítill. Engin von er til þess að útgerðarmaður strandveiðibátsins geti keppt á þeim grunni. Í raun hefur verið sýnt fram á að útgerð strandveiðibáta er rekin með miklu tapi, en það er huggun harmi gegn að miklar framfarir hafa orðið á hráefnisgæðum þeirra undanfarið ár.

Þegar kemur að strandveiðum virðist rómatíkin ráða för, en erfitt er að sjá réttlætið í þessu. Hvert tonn sem Páll Pálsson landar fer til vinnslu í Hnífsdal, en stór hluti strandveiðiaflans er seldur gegnum markað og fluttur burtu óunninn.

Hugmyndir framtíðar

Hugmyndir ráðstjórnarmanna eru þó enn verri en þessi dæmi hér á undan. Arðsemi er eins og eitur í þeirra beinum og nú skal með öllum ráðum koma í veg fyrir slíka ósvinnu. Framvegis skal ríkið vera alls um leikandi, þar sem alvitrir stjórnmálamenn taka allar ákvarðanir; hvað skuli veiða, hvenær, hvernig og af hverjum. Þá verður „réttlætinu" fullnægt þó það kosti samfélagið mikla fjármuni og dragi úr lífskjörum þjóðarinnar, sérstaklega þeirra sem búa í sjávarbyggðum.

Höfundur er rekstrarfræðingur búsettur á Ísafirði.


Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 283904

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband