Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2012

Gengið úr Hattveri - þriðji dagur

 

Lagt af stað frá HattveriUndirritaður svaf eins og steinn í tjaldinu þó undirlagið væri hart. Hann óttaðist hinsvegar að eins færi fyrir honum og Don Kíkóta vini sínum að eftir góðan svefn hyrfu töfrar ímyndaraflsins og hann vaknaði til raunveruleikans þar sem fegurð Fjallabaks yrði nokkuð jarðbundnari. Eftir að Riddarinn raunamæddi náði átta tíma svefni í fyrsta sinn  í langan tíma rann af honum brjálæði ímyndunar. Heimurinn breyttist í raunveruleika grámyglulegur hversdagur tók við, sem lamaði lífsþróttinn og dró hann fljótlega til dauða. Skyldi raunveruleikinn reka fýrtommu á ská í sigurverk ferðalanga eftir góðan nætursvefn þar sem allt leystist upp í draumsýn?Og meiri fegurð

En skrifari var enn með hýrri há og vaknaði í mjúkri moskulegri dagsbirtunni um sex leytið. Nú er það þannig að um leið og tjaldbúðir eru settar upp bíður tilbúið regluverk fyrir íbúana. Rauð skófla var sett á torgið milli tjalda til nota fyrir þá sem þurftu að tefla við páfann. Væri skóflan ekki á sínum stað var ljóst að einhver úr hópnum væri í miðri taflmennsku. Annað var að ekki mátti láta á sér kræla fyrr en klukkan sjö á morgnana. Þannig lá undirritaður meðan dagurinn rak nóttina á undan sér og aðeins lágvær svefngalsi heyrðist í samfélaginu. Þorði ekki að æmta né skræmta þar sem eiginkonan hélt honum á mottunni.

Horft yfir FjallabakEins og með taflmennskuna fer svefninn ekki í manngreiningarálit þar sem allir þurfa að hlaða batteríin í meðvitaleysi næturinnar. Að Fjallabaki eru nánast engin hljóð þar sem lítið er um fugla og einu ferfætlingarnir eru kindur, sem sofa með mannfólkinu. Allt í einu byrjar allt að lifna við og fyrst heyrist pískur í tjaldi og skömmu seinna rokna hávaði þegar syngur í rennilás. Einhver er kominn á stjá og búinn að opna tjaldið og eins og fyrir töfra fer kliður um tjaldbúðirnar á árbakkanum. Á örfáum mínútum fer svefndrukkið skvaldur um byggðina og nú er óhætt að drífa sig á fætur, sækja vatn og kveikja á prímus. Nú er allt komið á fulla ferð og allar hömlur teknar af árvökulum tjaldbúum og tveimur tímum seinna eru tjöldin kvödd og lagt af stað í skoðunarferð um Fjallabak.

Hafi skrifari óttast að töfrarnir hyrfu við nætursvefninn og færi fyrir honum eins riddaranum raunarmædda þá átti þessi dagur sem hér rann sitt skaut eftir að bæta um betur, þannig að syði á súðum framandleikans. Framundan voru ótrúleg ævintýri og upplifun á fegurð og undrum sem engin gat átt á vona á. En ekkert stórkostlegt fæst án fyrirhafnar og hér þarf að vaða jökulár, klifra upp brattar skriður, feta brún á snarbröttum hryggjum og klífa niður klettagil. Allt þó hættulaust þó ekki sé það heiglum hent.

Taflmaður páfansMeð Hattinn í kjölfarinu lagði hópurinn af stað í ævintýraför og fljótlega þurfti að vaða jökulána í Jökulgili þar sem stefnan var tekin á Sveinsgil til uppgöngu. Eftir að gengin var hryggur upp af gilinu blasti við fagurblár barmur hliðagils þar sem víða mátti sjá fyrningar umliðins vetrar. Enn var gengið á hryggjum þarRautt stuðlaberg sem litadýrð líparítsfjalla blasti við hvert sem litið var. Í fjarska mátti sjá Háskerðing með toppinn hulin skýslæðu og „reykinn" úr Háuhverum. Eftir þurrt sumar var undirlagið þurrt og virkaði oft ótraust á snarbröttum brúnum hryggjanna. Hópurinn fetaði sig niður hrygginn alla leið niður að áreyrum í botni Sveinsgils og síðan upp annan hrygg til að sjá yfir í Jökulgilið. Þegar ritari kom upp á brúnina var hann sem bergnuminn og mátti ekki mæla um stund. Stórkostlegasta útsýni fyrr og síða blasti við þar sem Þrengslin liðuðust upp Jökulgilið, engu öðru lík. Það var líkt og vera komin á tökustað kvikmyndar þar sem höfundar vísindaskáldsögu höfðu farið fram úr sér við hönnun á landslagi á fjarlægri stjörnu. Hér verður ekki reynt að lýsa Þrengslunum þar sem slíkt er ekki hægt í orðum. Allavega ekki í óbundnu máli.

ÞrengslinEn fleiri undur og stórmerki biðu okkar skammt undan, handan næstu hæðar. Nokkuð sem engin er viðbúin að sjá nema efast um raunveruleikaskynið og jafnvel klípa sig til að sannfærast um meðvitund. Græni hryggurinn, sem fáir vissu um þar til fyrir örfáum árum, er einstakt náttúruundur. Hann liggur eins og risastór gota, wasabi grænn og við hliðina á honum er annar minni hryggur, kanil litaður. Hvað veldur öðrum eins undrum að líparítið taki á sig slíka furðu mynd er höfundi hulið. En þeirri hugmynd skýtur upp hvort þessi undur og stórmerki væru enn til ef svæðið væri ekki svo afskekkt og fáfarið sem raunin er. Fyrir aðeins þremur árum voru það aðeins fjársmalar sem höfðu barið hann augum, en engir ferðamenn áttu leið um þetta torfæra og vandrataða svæði. Maður sá fyrir sér Hörpuna fagur græna, múruð úr græna hryggnum. Þá hefði verið hægt að sletta kanillitnum á Þjóðmenningarhúsið og þar væri komin heilög þrenning með Þjóðleikhúsinu, sem er múrað upp úr hrafntinnu úr nágreninu.

Upplifun síðustu augnablika frá Þrengslum og Græna hryggnum blinda mann með nokkrum hætti. Ekkert í veröldinni gæti jafnast á við slíkt og verður sem hjóm í samanburði. Hafi guð tekið sér viku til að skapa heiminn hlýtur hann að hafa eytt sex dögum í Fjallabak. Svei mér ef hann hefur ekki verið á léttu sýrutrippi við gjörninginn.

Sveinsá vaðinEn þrátt fyrir sterka upplifun var enn hægt að koma manni á óvart. Við klöngruðumst niður þröngt gil sem endar við brattan bakka Sveinskvíslar, sem hér þarf að vaða. Á leiðinni niður gilið má sjá vínrauðar slettur í hrauninu, engu líkara en tröll hafi misst rauðvínskút við klungrið og eðaldrykkurinn runnið niður gilið. Við bakkann rennur áin meðfram snarbröttum hömrum sem skarta rauðum, bláum, grænum, brúnum og gráum litum. Þrátt fyrir strauminn getur göngumaður ekki annað en stoppað til að líta við og njóta útsýnisins, meðan notalegt jökulvatnið kitlar gönguþreytta fætur og skolar burtu svita dagsins.Málin rædd á hryggnum

Þrátt fyrir að hafa lokið við langa og stranga göngu létu ferðamenn sig ekki muna að skreppa upp að hattinum fyrir kvöldmatinn. Reyndar kleif einn ofurhugi úr hópnum upp á hann en hinir létu sér nægja að ganga kringum hann og dást að ægifögru útsýninu. Það er merkilegt með hattinn að hann virkar stór úr fjarlægð en verður því minni sem nær dregur, öfugt við því sem vanalega er. Þegar komið var upp að honum var þetta orðin kollhúfa.

Stína við Græna hrygginnEftir góðan snæðing settust ferðamenn niður til að segja sögur og hafa gaman af félagsskapnum. Menn kynnast fljótt í slíkum ferðum enda trúlegt að nokkuð einsleitur hópur sækist eftir þeim áskorunum sem felast í göngu um ótroðnar slóðir fjarri öllum lífsins þægindum. En hér sigrar kvöldið daginn og svefnsöm nóttin bíður ferðalanga sem hvílast til átaka næsta dags.Gengið á hryggnum


Dagur tvö - úr Hrafntinnuskeri í Hattver

 

Gengið yfir KaldaklofÞað var ágætis veður við upphaf göngu daginn eftir þó skýjahula væri yfir Reykjafjöllum og Háskerðingi, en skyggni að öðru leyti með besta móti. Stefnan var tekin upp í Kaldaklof sem liggur norðan við Torfajökul þar sem leifar jökuls liggur, úfinn og svartur af gjósku, en auðveldur yfirferðar. Þegar komið er upp í klofið er gott útsýni yfir Fjallabak, þar sem næstu þremur dögum yrði varið við gönguferðir um úfin jökulgil í landi þar einu merki menningar er sauðkindin.

Eftir um hundrað metra lækkun tókum við af okkur bakpokana þar sem tekin var krókur á fyrirhugaðri leið í svefnstað í Hattveri. Fyrst var gengið undir rætur Kaldaklofsjökuls þar sem andstæður kallast á; jökulstálið með snjóalögum frá síðasta vetri, bullandi hitahverir og ótrúlega grænn mosinn þar sem sólin sindraði í daggartárum. Við komum að ónefndum hver með svörtum útfellingum og hefði vel átt við sem partur af leikmynd í Batman kvikmynd og annar hver er þarna sem mætti kalla litla bróður Hvínanda, en hann blæs með háværum hvini. Mikið er af soðpönnum á þessu svæði, sem eru hverir þar sem sjóðheitir gasstrókar streyma upp en lítið af vatni. Þannig er afrennsli í lágmarki frá þeim þótt mikið gangi á með hávaða og látum. Hópurinn áði stutta stund við nið jökulárinnar sem rennur úr kaldaklofsjökli áður haldið var til baka þar sem bakpokarnir biðu okkar. Eftir hádegisverð var byrðin öxluð og haldið áfram til svefnstaðar í Hattveri.

Hvolfpanna og RyðglærNæst komum við að fossi sem er kallaður Ryðglæri þar sem um hálfan fossinn rennur tært bergvatn en hinn helmingurinn rennur heitt hveravatn niður rautt líparítberg. Reyndar var lítið vatn ryð-megin í fossinum sem er breyting frá því sem verið hefur en hann er stórmerkilegu engu að síður. Skammt frá fossinum er soðpanna sem vegna útlits síns er kölluð Hvolfketill. Hverinn þykir einstakur og ekki vitað um annan slíkan á landinu. Þegar gengið var á hrygginn þar fyrir ofan blasti Hvolfketill við með Ryðglær í bakgrunni, sem tekur öllu ímyndarafli fram um sérkennilegt og framandi landsslag, nokkuð sem einkennir Fjallabak.

Þegar hærra var komið blöstu við gilskorningar og hryggir; í bláum, grænleitum og ljósbrúnum lit þar sem iðagrænn mosinn undirstrikaði ægifegurð svæðisins. Einstaka snjóskafl á stangli setti punktinn yfir i-ið og mynnti okkur á hversu hátt svæðið liggur, um og yfir 600 metra hæð yfir sjávarmáli.

Gunnar við HáuhveriHafi raunveruleikinn tekið ímyndarafli fram þá var heldur betur bætt í þegar komið var að Háuhverum. Ofurafl þessa mesta háhitasvæðis Íslands birtist þarna í öllu sínu veldi. Risastór soðpanna, fagurblá á litin og um þrjátíu metrar í þvermál blasti við. Úr miðju hennar streymdu gasstrókar af miklu afli þar sem yfirborðið iðaði af átökum og orku. Ofar mátti sjá mikið hverasvæði, sem er eitt það öflugasta á Fjallabaki og má sjá gufustróka frá því langar leiðir. Framundan blasti Hattur við sem við nálguðumst hægt og bítandi, með krókaleiðum upp og niður hryggi og fljótlega vorum við komin að fyrsta vaði dagsins.

Við hverasvæðiðOfan vaðsins reis mikið stuðlaberg úr líparíti, ryðrautt á litin. Þetta er sjaldgæf sjón á Íslandi og þó víðar væri leitað. Þar yfir blasti Hattur við sem er bergstapi ofan á líparít hrygg sem rís rúmlega 250 metra yfir gilbotninum, þar sem tjaldsvæðið í Hattver beið okkar.

Nokkur gróður er í Hattveri en það er ekki í boði að tjalda þar og staður valin á melum aðeins ofan við jökulána. Nauðsynlegt er að hlífa gróðri eins og hægt er, enda viðkvæmur þar sem vaxtatími er aðeins um tveir mánuðir á ári. Tjöldin voru komin upp fyrir kvöldmat og eins og hendi væri veifað var lítið þorp risið í Hattveri. Hér var ekki tjaldað til einnar nætur þar sem gengið yrði út frá tjöldum næsta dag. Tjaldað í Hattveri


Ferðalag að Fjallabaki - fyrsti dagur

 

Landmannalaugar - Hrafntinnusker

Komið í HöskuldarskálaÞað sem helst þvældist fyrir Don Kíkóta var brenglað veruleikaskyn þar sem fantasíur yfirtóku raunveruleika, m.a. í bardaga við vindmillu sem hann taldi vera dreka og kindahjörð sem hann taldi vera herflokk óvina. Þetta er ekki vandamál þeirra sem teljast jarðbundnir og þurfa venjulega eitthvað áþreifanlegt til að trúa á það, en hvað er þegar veruleikinn tekur ímyndinni fram? Hverju á að trúa þegar landslag tekur á sig mynd sem helst gæti átt við „geggjað" atriði í kvikmynd í framtíðarstíl? Ferð okkar hjóna um Fjallabak var slík ferð þar sem veruleiki tók fram úr hugmyndafluginu svo um munaði og ítrekað stóð maður sem bergnuminn og það eina sem hægt var að segja var „WOW"

Við ókum sem leið lá norður fyrir Heklurætur á leið í gegnum Dómadal til Landmannalauga, þar sem við höfðum mælt okkur mót við samferðafólk okkar í fjögurra daga gönguferð um Fjallabak. Það voru átján Ólafur og Bjarni við Brennisteinsöldumans sem fetuðu stíginn upp með Brennisteinsöldu, nokkuð létt á fæti þar sem bakpokunum var trússað upp í Höskuldarskála. Það tekur alltaf tíma til að hrista svona hóp saman, en við hjónin þekktum aðeins einn samferðarmanninn, Bjarna Sólbergs úr Bolungarvík. Fararstjórar voru feðgarnir Ólafur Örn og Örvar, sem hafa undanfarin ár kynnt sér ferðasvæðið vel og var þetta annar hópurinn sem þeir stýrðu um þessar slóðir.

Veðrið lék við okkur, vindstrengur af suð-vestri, hlýtt og skyggni ágætt. Nokkrir hverir eru á þessari leið, sem er upphaf Laugarvegsgöngu enda Torfajökulssvæðið mesta háhitasvæði landsins. Gönguferðin var þó tíðindalítil og vorum við komin í Höskuldarskála fyrir kvöldmat. Þetta var í þriðja skiptið á einu ári sem við hjónin komu í skálann og óhætt að segja að veðurlagið hafi verið misjafnt. Fyrst komum við í byrjun júlí í fyrra í kalsa og strekking af suð-austri, frekar kalt og eins og konan frá Langanesi segir „það sá ekki milli augna"  Næst komum við í skálann um miðjan ágúst í tuttugu stiga hita og sól, ekki skýhnoðri á himni skyggnið endalaust. Þá lá leið okkar upp á Háskerðing sem er mesta útsýnifjall Íslands. Nú komum við í suð-vestan kalda, hlýju veðri en þokumuggu sem er algeng á Hrafntinnuskeri, enda í rúmlega 1000 metra hæð. Tímasetningin var góð að þessu sinni þar sem Höskuldur, móðurbróðir Stínu, átti 75 ára afmæli þennan dag en skálinn er kenndur honum.

Ægifegurð FjallabaksEitt af því sem hverfur hjá viðförlum ferðamanni er spennan sem kitlar í upphafi og fylgir óvissunni framundan við að takast á við óþekktar áskoranir. En hér var gömul vinkona mætt, sem ekki hafði látið á sér kræla um árabil, og ekki laust við að endurfundir væru notalegir. Framundan var ferðalag um lítt kannaðar og fáfarnar slóðir, hátt upp til fjalla og langt frá öllum mannabyggðum. Hér varð að treysta á eigin getu og búnað til að takast á við erfiðleika við aðstæður sem geta skapast eins og hendi sé veifað, við veðrabrigði duttlungafullrar Íslandslægðar sem oft veldur ófyrirsjáalegrar veðrabrigða, sérstaklega á hálendi Íslands þar sem gengið er og gist ofar 600 metrum. Hér yrði ekki treyst á guð og lukkuna heldur vera í stakk búinn til að takast á það sem höndum ber á einum afskekktasta stað landsins.

Höskuldarskáli fór vel með ferðahópinn sem hvíldist vel í vesturálmu í Hrafntinnuskeri.


Hvernig við losuðum okkur við ó-línu í Tökunum

 

windmillzÞað byrjaði að örla fyrir hinum glaða, brosmilda árroða, smáblómin á grundunum vöknuðu og reistu höfuð og vatnakristallarnir í lækjasprænum kliðuðu á milli hvítra og brúnna steina áður en þeir runnu í fljótin sem biðu þeirra. Jörðin var glaðleg, himinn bjartur, loftið tært, birtan kyrr; og hvert fyrir sig og allt í sameiningu gaf þetta til kynna að dagsbrúnin, sem hékk í kjólfaldi árroðans, boðaði heiðan og hljóðlátan dag.

Flosi splæsirÍ þessum kafla segir frá svo undarlegum ævintýrum að viðeigandi er að hefja hann á orðum Cervantes úr sögunni um Don Kíkóta. Reyndar jafnast ísbjarnarsagan sem hér verður minnst á,  fyllilega við frásögnina af riddaranum raunamædda þegar hann seig ofaní Montesínoshelli, en þær sýnir sem hann upplifir þar voru svo einstæðar og svo stórkostlegar að lygilegt þykir.

Flosi á brúnÞað var engin skortur á vönum sjómannshöndum til að splæsa nýja línu fyrir Tökin. Mörgum sjómanninum hefur eflaust klæjað í lófana að takast á við það verk að losa sig við Ó-línu. Hún var orðin trosnuð og fúin og ekki nokkurt hald í henni fyrir nokkurn mann. Hún dygði ekki sem vaður fyrir komma né krata, og alls ekki markaðshyggjumann.

Það var gaman á brúninni þar sem margar hendur unnu létt verk, við að fjarlægja graut-fúinn vaðinn og ganga frá nýjum, sem myndi veita vegfarendum sem einhverra hluta vegna misstu af fjörunni við Posavog og þyrftu að takast á við Tökin. Andinn kom yfir hirðskáldið á þessari stundu og eftirfarandi staka varð til:

Í Tökum áttum aðild að,

að Ó-lína var tekin.

Kom í þeirrar „konu" stað,

kaðall samanrekinn.

Viðar Konn

Kaðalinn í TjökunumNú þurfti að reyna vaðinn og Gunnar og Flosi tóku að sér að prófa styrkleika hans og hnýta hnúta á rétta staði. Mikilvægt er að gott grip séu þar sem mest mæðir á, en Tökin eru þrjú hengiflug með smá stöllum á milli. Síðan var kaðallinn reyndur á uppleið og vaðurinn síðan útskrifaður sem öruggur.

KaðallinnTiltækið vakti heimsathygli og birtist viðtal við tvo af Hallgrímingum eftir heimkomu af Ströndum í Bæjarins Besta. Viðtalið var ekki bara til að benda á að framtaksemi Hallgríminga, heldur ekki síður til að láta ferðamenn um Strandir vita að öruggur kaðall væri kominn í Tökin. Fyrir nokkrum árum flugust ákveðnir einstaklingar á um þennan kaðal, en ónefndur fararstjóri í gönguhópi vildi meina að hann væri ótryggur og Tökin væru stór hættuleg. Fræg er lýsing á því þegar hún óð fyrir Posavoginn svo flaut undir brjóstin, en hundurinn hennar fór á sundi. Um málið urðu nokkur blaðaskrif þar sem meðal annars höfundur göngubókar um Hornstrandir kom við sögu. Sá hefur eflaust þekkt betur til aðstæðna við Tökin, allavega að hans eigin áliti.

Ólina reyndEkki er við því að búast að fólk sem aldrei hefur migið í saltan sjó átti sig á stefnum eða straumum sjávar. Slíkur ókunnugleiki getur auðveldlega sett ferðamann við Posavoginn, þegar há-sjáva er, og verði því að takast á við Tökin og klífa þverhnípið. En ólík eru viðbrögð gönguhópa þegar sumir láta orðin duga en aðrir láta verkin tala.

Önnur skemmtileg saga er af þessum ónefnda fararstjóra þegar hún taldi sig sjá ísbjörn og ekki dugði minna en kalla út þyrlu Landhelgisgæslunnar til hjálpar. Björninn fannst ekki og telja gárungarnir að þarna hafi annað hvort verið snjóskafl eða svanir á ferð. Hvortveggja er nauðalíkt ísbirni og ekki að undra að því sé ruglað saman. Hallgrímingar sáu engan björn í sinni ferð um Hornstrandir, ekki einu sinni Jónbjörn.

Ólína fjarlægðSkyldu göngufélagar ónefnds fararstjóra hafa liðið líkt og Sansjó Pansa þegar herra hans, Don Kíkódi, sannfærði hann um að það sem hann sæi væri ekki raunverulegt, heldur sýnir af völdum galdramanna. Þegar Don Kikóti sá þungvopnaða hersveit nálgast sá Sansjó kindahjörð. Göngufélagarnir sáu svan en voru sannfærðir um að þar færi ísbjörn og rétt að kalla út þyrlu?

Við stóðum við heimsóknina til Sveins eftir vel unnið dagsverk og þáðum hjá honum súkkulaði og tókum nokkur lög. Miklir söngmenn eru í Hallgrími og ekki þarf að skammast sín fyrir Ekið heimfélagskapinn á svona stundum. Þarna var mættur Þorsteinn J. sem sýndi kaðalmálum í Tökunum mikla athygli. En það var komin tími til að kveðja og halda heim á Borg til að bíða skipakomu fyrir heimferð. Bjarnarnesið var mætt á réttum tíma og eftir smá krók að Látrum var haldið til Bolungarvíkur í renniblíðu og sólskini. Ryturinn var mikilúðlegur og hrikalegur og gaman að geta sagt „þar fór ég" .


Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 49
  • Frá upphafi: 283869

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband