Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012

Brúnir Grænuhlíðar gengnar

 

Bolungarvíkin fagraÞað hallaði ekki á hreystina í hópnum sem gekk á Darra í glaða sólskini og logni að morgni laugardags. Tveir Bolvíkingar og tveir Ísfirðingar ásamt tveimur blönduðum úr hvorutveggja. Aðrir ákváðu að taka því rólega, rölta upp að Stað og þiggja kirkjukaffi í presthúsinu. Við mæltum okkur því mót við rólega liðið og reiknuðum með að banka upp á um kaffi leytið.

Upp Darrann þaut Gísli Jón eins og eldibrandur og engin leið að halda í við hann. Greinilegt að hann hafði fengið allt það besta úr báðum sveitum. Við stöldruðum við til að skoða rjúpnahreiður áður en við komum Frelsið variðað herstöðinni, þar sem loftvarnarbyssur voru skoðaðar. Þessi tákn varnar lýðræðis og frelsis voru grípandi og enn og aftur gáfum við hugmyndafluginu lausan tauminn þegar þessi merki hluti heimstyrjaldarinnar seinni var rifjaður upp. Vöktun á sundinu milli Íslands og Grænlands var mikilvæg þar sem brigðarlestir bandamanna fóru m.a. um með vopn og búnað til stríðshrjáðra Rússa á austurvígstöðvum.

Af mörgum góðum dögum var þetta sá besti. Skafheiðskýrt og allt mistur horfið og útsýnið endalaust. Af Horft a DarraDarra má sjá inn allt Ísafjarðardjúp og útsýnið vestur yfir Djúpið er einstakt. Við gengum suður þakrennu Grænuhlíðar þar sem Jökulfirðir opnuðust því meir sem var gengið. Okkur var hugsað til nafngiftarinnar „Hótel Grænahlíð" sem var skjól og virki gegn óblíðum náttúruöflum á tímum togaraútgerðar á síðustu öld. Oft mátti sjá í gegnum sortann ljósadýrð flotans úr Bolungarvík , líkast því að um meðal kaupstað væri að ræða. Hér var skjól gegn norð-austan stórviðrum og algengt að heimatogarar biðu betra veðurs undir Grænuhlíð, þó stutt væri inn í höfn á Ísafirði eða Bolungarvík. Ef til vill má kenna kvótakerfinu um að Hótel Grænahlíð lagðist af, en með betra skipulagi veiða þar sem ólimpískum veiðum var úthýst, minkaði þörfin fyrir þetta virki norðursins.

SveinnÞað er ekki hægt að lýsa útsýninu á slíkum dýrðardegi í orðum. Hvert sem litið var blöstu við kunnugleg kennileiti; þar sem mátti sjá Vébjarnarnúp, Hestinn, Sauratinda, Arnarnes, Búðarhyrnu, Ernir, Bolafjall og síðan sást vel austur yfir Strandir. Þegar sunnar dró opnuðust Jökulfirðir þar sem mátti sjá Sléttu, Hesteyrarfjörð, Veiðileysufjörð, Lónafjörð, Hrafnfjörð,Grunnavík og Leirufjörð, og suður af blasti Drangajökull við himin. Þetta var svona alsæla þar sem við nutum augnabliksins og fegurðar draumalandsins.

Horft yfir StaðÞegar sunnar dró, og Þorsteinn var horfinn sjónum, færðum við okkur austar á fjallið til að freista niðurgöngu í Staðardal. Menn tylltu sér á hraungrýtið og horfðu niður í dalinn, yfir kirkjujörðina Stað við Staðarvatn. Þar biðu okkar ferðafélagar með kirkjukaffi, en ljóst var að við næðum því ekki í tíma. Engin leið var að komast niður snar-bratta klettana og ekki annað að gera en klöngrast eftir illfæru hraungrýti áfram í suður og síðan niður brattar skriður ofaní dalbotni Skarðdals. Allt gekk þetta vel og Þorstein fararstjóra fundum við í brekkurótum þar sem áð var og snæddur síðbúinn hádegisverður.

Það var ákveðið að stefna vestur fyrir vatnið, því talið var víst að við værum of sein í teboðið. Við reyndum að kalla yfir vatnið á fólk sem sást á rangli utan við kirkjuna, enda töldum við víst að þetta væru félagar okkar úr Hallgrími. Engi svör fengust og þegar við komum norður fyrir Staðavatn ákváðu Þorsteinn og Flosi að halda til baka austan við vatnið  að Stað til að hitta hópinn. Restin rölti heima á bæ þar sem við vissum af köldum bjór í jarðhúsinu að Borg.

Skotið á kommanaÞað er ekki í kot vísað á Borg og ekki dró það úr ánægju heimkomu að góðan gest bar að garði; en þar var mættur Sveinn í Þverdal. Óskaplega skemmtilegur karl sem bæði syngur og segir sögur. Hér er rétt að skjóta inn í frásögnina ákvörðun sem Hallgrímingar tóku á leið sinni um Posavog deginum áður. Eftir að voginum sleppti og áður en fjörugangan hófst, var okkur litið á Tökin, sem þarf að fara á flóði þegar Posavogur er ófær. Þetta er nokkuð þverhníptur klettur og ekki nokkur leið að komast nema treysta á vað sem þar er festur. En okkur leist ekki alskostar á kaðalinn og því var sú ákvörðun tekin að fá tengdason Gísla og Önnu Stínu til að fljúga með nýtt reipi til okkar og fleygja út við Borg. Við hrindum í Magna í Netagerðinni, sem með glöðu geði útvegaði snærið „on the house" eins og hann sagði orðrétt. Þennan laugardagseftirmiðdag, í sól og sumaryl var því beðið eftir því að flugvélin birtist og fleygði til okkar vaðnum fyrir Tökin.

Strákarnir á DarraVið sögðum Sveini að við hefðum pantað pitsu og spurðum hvort honum langaði í? Fátt ætti betur við en pitsa hér á Hornströndum, enda væri þetta á matseðli sumra vina okkar á þorrablóti Sléttuhreppinga. Sveinn trúði okkur ekki en við blönduðum fyrir hann smá söngolíu og minn karl tók þá hressilega til söngsins með sinni einstöku bassarödd. Hann fór með sögur, gamanmál og vísur og þessi flaug af vörum hans eftir einn gin og tónik. Vísan er eftir móðurbróður hans, Svein, sem hann er einmitt skýrður eftir:

 

Látraþjóðin gerir grimm

gerast vegir hálir, hálir

Af áttatíu og fimm aðrir fimm

voru góðar sálir

Sveinn

Vísunni fylgdi því loforð Hallgríminga að segja alls ekki frá hvaðan hún væri komin, og að sjálfsögðu verður staðið við það.

FlugvélÞað var farið að halla degi og allt í einu er kyrrð Hornstranda rofin með flugvélagný og flygildi stingur sér niður að Borginni. Síðan er tekin hringur og flogið lágflug yfir sólpallinn þar sem Hallgrímingar og Sveinn sátu í geislum aftansólar; og var sá síðarnefndi algerlega kjaft stopp þegar flugmaðurinn opnaði dyrnar og fleygði pakka úr vélinni. Ég sagði að þarna væri pitsan komin sem við hefðum pantað, og í augnablik var mér trúað. En fljótlega fylgdi sagan um vaðinn og hvað við hefðum í hyggju morguninn eftir.  Sveinn þakkaði okkur fyrir veitingarnar, lýsti ánægju sinni með framtakið og krafðist þess að við kíktum við hjá sér í Þverdal á leið okkar til baka úr Tökunum. Þegar hér var komið sögu voru Hanna og Andrés farin heim á leið með Bjarnarnesinu.

KosningavakaEn hér var komið að kosningavöku Hallgríminga, enda forsetakosningar haldnar þennan dag. Undirritaður sleikti sár sín á Hornströndum, bugaður maður eftir að hafa kosið ORG utankjörstaða. Það hefði engum dottið í hug að okkar ástríki forseti yrði kosinn einu sinni enn, og það með atkvæðum frjálslyndra markaðshyggjumanna. Enda var miskunnarlaust lamið á okkur vesalingunum sem höfðu gengið þetta forarað, vegna ímugusts okkar á henni Gránu gömlu. Það sveif því engin sigurvíma yfir vötnum þegar ljóst var að „okkar" maður hafði unnið kosninguna og myndi sitja sem húsbóndi að Bessastöðum næstu fjögur árin.

 


Gengið á Straumnesfjall

 

Horft til FljótavíkurÞað var komin föstudagur og tjaldbúar voru ræstir í fullan pott af hafragraut. Eftir sex mánaða samninga hafði tekist að stytta dagsgönguna um sjö kílómetra, þvert gegn vilja farastjórans. Hann vildi ganga á Straumnesfjall og til baka í Borg á einum degi, um 30 kílómetra leið, en einhverjum tókst að koma því til leiðar að bátur yrði tekin á heimleið frá Látrum.

Gallverskir Hallgrímingar höfðu ekki gengið lengi þegar komið var í Posavoginn, en láfjara var og því þurfti ekki að fara Tökin. Þetta er nokkuð klungur á sleipum klöppum og síðan þarf að klifra upp áður en komið Rauðvíni skenkter á Hyrningsgötu undir Hvarfanúp. Allt gekk þetta vel og eftir erfiða göngu í fjörgrjóti er komið að ósnum í Miðvík þar sem tilvalið er  að taka af sér skóna og tipla berfættur í sandinum alla leið að Látrum.

Hirðskálið ætlaði ekki lengra og ásamt spúsu sinni myndi bíða hópsins meðan gengið var á Straumnes. Hann lofaði einhverju fyrir andann þegar við kæmum til baka, en sjálfur laumaði hann á bauk í bakpokanum, enda stóð ekki til að upplifa þorsta og þrautir frá deginum áður þegar Rytur og Darri voru klifin. Eftir ljúfan hádegisverð í kvosinni við slysavarnarskýlið var lagt á fjallið þar sem veginum var fylgt.

Eftir sundsprrett að LátrumGangan á fjallið reyndist mikil eyðimerkurganga og fannst mörgum lítið koma til útsýnis af Straumnesi. Þannig háttar til að vegurinn liggur á fjallinu miðju, langan veg frá brún og fram að Skorum þar sem herstöð Bandaríkjamanna stóð. Lítið útsýni er því á leiðinni en ég reyndi að hugga pirraða göngumenn að allt myndi þetta borga sig á leiðarenda. Þar væri gott útsýni yfir fegursta stað Hornstranda, Fljótavík. Um víkina fögru héldu Kögur og Hvesta og í fjarska grillti í Atlastaði í Fljóti. Allt gekk þetta eftir og engin vildi mótmæla fullyrðingum undirritaðs þó gildishlaðin væri.

Það er margt sem um hugann flýgur þegar staðið er á brún Straumnes og litið yfir byggingar fyrrum herstöðvar Bandaríkjamanna. Þetta er eitt mesta veðravíti sem hugsast getur, þar sem þoka er landlæg á sumrum og á þeim tíma sem stöðin var rekin var allt á kafi í snjó frá hausti til vors. Ekki dugði neitt minna en jarðýtur til að ferðast milli fjalls og fjöru og aðdrættir því með erfiðasta móti. Engin höfn var á Látrum og því þurfti að fleyta öllu í land á flekum. Reyndar var byggður flugvöllur sem breytti miklu fyrir einangraða íbúa herstöðvarinnar, en reyndar máttu þeir ekki skreppa til Ísafjarðar þar sem vernda þurfti landslýð fyrir slæmum áhrifum kanans, kommúnista banans.

Í MiðvíkÞað er ótrúlega erfitt að ganga harðan vegin svona langa leið, en um 17 km eru fram og til baka frá Látrum að Skorum. Gengið var hratt til baka og stóð jóreykurinn upp af hersingunni þegar hún strunsaði fram af brún og niður að Látrum í sólskininu. Hirðskáldið fylgdist með og í framhaldi kom þessi vísa:

Út Straumnesið var stappið verst,

með strengjum, blöðrum og verkjum.

Stirðir rétt svo gátu sest,

og staðið upp með herkjum.

Viðar Konn

Hallgrímingar mættirÞeir hraustustu í hópnum, Ísfirðingarnir Þorsteinn og Gunnar fengu sér sundsprett í sjónum að Látrum, til að kæla sig eftir kraftgöngu af fjallinu. Ekki tókst, þrátt fyrir áeggjan, að draga Bolvíkinga útí Dumbshafið, enda vart var við því að búast. Sjórinn er kaldur og ekki fyrir hvaða kerlingu sem er að þola slíkt. En við Þorsteinn bitum okkur í öxlina og létum okkur hafa hrímkaldan sjóinn og nutum athygli betri helmingana við sundið.

Nokkur bið var eftir bátnum sem flytja átti okkur yfir að Sæbóli. Hemmi Hemm og félagar komu þó um síðir á slöngubáti og tóku konurnar í fyrri ferð. Síðan vorum við sóttir, Ísfirsku karlmennirnir ásamt Bolvíkingum. Þegar komið var í Borg voru Brynja og Flosi mætt og skenktu fjallaförum af kampavíni.

Nú þurfti að klastra upp á ferðafúna fætur, plástra hælsæri og annað sem getur fylgt langri strangri göngu, enda 10 klukkutíma ferðalag að baki.

En ævintýrin biðu okkar handan nýrrar dagrenningar og enn skyldi gengið á fjöll. Fyrsta hugmynd var að ganga á Nasa en yfir hafragrautnum breyttist áætlunin og ákveðið að fara aftur á Darra, ganga eftir þakrennu Grænuhlíðar og finna leið niður að kirkjustaðnum Stað.

Mér virðist það við okkur blasa,

svo varla þarf um það að þrasa.

Að ef þið ekki getið,

á ykkur setið,

þá arkið þið næst upp á Nasa.

Viðar Konn


Gengið á Ryt og Darra

 Á leið á RitEfnislegir hlutir standast ekki tímans tönn, en það gerir góður orðstír.  Hallgrímingar eldast og sumir myndu halda því fram að slíkur hópur þyrfti að sníða sér stakk eftir vexti og halda sig við léttar ferðir þar sem skálað væri í gin og tónik á kvöldin. Ef til vill hafa skipuleggjendur þessarar ferðar haft þetta í huga og ákveðið að hrista slyðruorðið af hópnum í eitt skiptið fyrir öll. Allavega var gönguferð fyrsta dags ekki ætluðu einhverjum aukvisum eða farlama gamalmennum. Gengið var snemma morguns út í Skáladal áður en lagt var á Rytinn. Á leiðinni þarf að fara yfir ófæru sem er ekki heiglum hent, en slík hindrun var ekki að þvælast fyrir þessum galvaska flokki. Það kom sér vel að á RitAndrés var með bandspotta í bakpokanum til að veita stuðning niður bröttustu skriðuna. Það æmti engin né skræmti og síðan var valhoppað út fjörugrjótið þar til komið var í Skáladal, þar sem ættaróðal Jónbjörns stóð á síðustu öld. Jónbjörn og Sirrý voru hinsvegar fjarri góðu gamni og höfðu ekki átt heimangengt að þessu sinni. Flosi og Brynja voru ekki mætt til leiks en voru væntanleg síðdegis næsta dag. Þorsteinn var fararstjóri og með mikilli skipulagningu og þrautseigju göngumanna var Ryturinn sigraður. Fyrst er gengin gróin bratti sem heitir Vesturlönd og þaðan taka við fastar skriður þar til toppnum var náð fyrir hádegi. Þessi vísa kom upp í hugann hjá Viðari þegar hann hugsaði um verkefni dagsins:

Þetta verður stapp og strit,

strembið sem hjá „Karranum" .

við rennum skeiðið upp á Rit,

og ráðumst svo að Darranum.

Viðar Konn

Frelsið variðÚtsýnið var stórkostlegt af toppi Rytsins, Ísafjarðardjúp og Jökulfirðir í suðri, heimahagar hópsins, Ísafjörður og Bolungarvík í vestri og Aðalvík með Straumnes í austri. Það blakti ekki hár á höfði og sólin vermdi land sem lög enda skafheiðskýrt. Skammt undan landi lónaði stórt skemmtiferðaskip, sem reyndar sýndist eins og leikfangabátur í óravíddum af fjallstoppi. Það var ákveðið að æja og taka fram matarföng skammt neðan við hátindinn en hirðskáldið var samt við sitt:

Af erfiði okkar við slitnum,

eldumst,  þyngjumst og fitnum.

en stöllurnar Anna Stína og Díana,

standandi reykj´a upp á Ritnum.

Viðar Konn

Stína við byssuEn þessi dagur var ekki að kvöldi kominn og enn áttum við eftir langa ferð fyrir höndum. Við veltum fyrir okkur hvort leggja ætti í uppgöngu upp á Darra úr Rytaskörðum en það virtist ekki heiglum hent og því ákveðið að fara niður í Mannadal og þaðan upp á Tindafjall.  Dálítið lengri leið en sýndist mun öruggari fyrir svona breiðan hóp af göngufólki.

Stína á DarraÞegar komið var niður í dalinn kom í ljós að það eina sem við höfðum gleymt var að taka með okkur vatn. Þarna er ekkert drykkjavatn, fyrir utan mýrarvilpur og grunnar tjarnir sem setnar voru af fuglum. Enginn þorði að fá sér vatn í afrennslum  þess, vegna fuglsins sem hamaðist við að drita í tjörnina. Grun hef ég um að þessir sömu lækir hafi verið niður á bökkunum, fyrr um morguninn, hvar fyllt var á brúsana fyrir brekkuna miklu upp á Ryt! Hvað um það, fleiri læki var ekki að finna í þessum dal.  Við tókum á það ráð að sjóða vatnið og blanda síðan út það snjó, sem nóg var af í dalnum. Gerðust menn þá orðljótir í sveita síns andlits og hafði Einar Kristinn á orði að verið væri að narra hópinn vatnslausa upp á fjall.

Helvítin Hallgríma narra

hálfvitana þá,

draga þá upp á Darra,

og ekki dropa að fá!

Viðar Konn

Göngumóður á BorgLandslag í dalnum er nokkuð torsótt yfirferðar og erfitt að halda hæð áður en uppganga hefst að ný. Síðan taka við snarbrattar skriðurunnar hlíðar, en nokkuð fast undir fæti samt. Fararstjórinn hvarf okkur sjónir en áður en við gátum skipulagt leit að honum birtist hann á brún Mannfjalls, ferskur og ör, eins og ævinlega. Um talsverða hækkun er að ræða en ekki leið á löngu þar til hópurinn stóð á brún fjallsins, tilbúin að ganga a Darra, sem er skotspölur í vestur.

Á Darra er útsýnið stórbrotið, sérstaklega inn allt Ísafjarðardjúp. Það er gaman að sjá þekkt kennileit frá þessu sjónarhorni, Hestinn upp af Hestfirði og Kistufell milli Ísafjarðar og Bolunarvíkur. Við skoðuðum menjar heimstyrjaldarinnar þar sem Bretar settu upp radarstöð í upphafi fimmta áratug síðustu aldar. Mér varð hugsað til þessara ungu manna sem eyddu hér löngum tíma við erfiðar aðstæður til að byggja upp varnir gegn nasistavá og leggja sitt af mörkum til að verja gildi vestrænna lýðræðisríkja. Dvöl þeirra og athafnir höfðu mikil áhrif á líf íbúa Sæbóls, og margir fengu vinnu við uppbyggingu og rekstur stöðvarinnar.

Þarna stóð Hanna fyrir trúarathöfn til dýrðar sólkonungnum, sem hafði blessað okkur í ferðinni. Menn köstuðu sér flötum eins og múslímar, en hér var það í vestur í stað austurs. Þetta reyndist hafa mikil áhrif og gott veður átti bara eftir að batna.

Það var þreyttur og sæll hópur sem skondraði niður farveg járnbrautarteina sem lagðir voru til að flytja aðföng á herstöðina sem var um tíma útvörður bandamanna í norðurhöfum í seinni heimstyrjöldinni. Það jafnast fátt á við að fá kaldan bjór þegar heim er komið eftir átakadag, sérstaklega heitan og sólríkan eins og þann sem rann nú að kveldi. Í sameiningu var kvöldverður fram reiddur og þreytan látin líða úr sér í tjaldi áður en átök næsta dags hófust.

 


Kjaransvík - Sæból

 

Eftir lendingu í HornvíkVið vorum útsofin þegar við skriðum úr tjaldi um sex um morguninn og eftir heitan hafragraut og búið var að pakka saman búnaðinum var haldið af stað upp í Kjaransvíkurskarð. Þoka var í skarðinu, með örlítilli súldarfýlu, en þegar komið var niður á Hesteyrarbrúnir fór sólin að skína og þegar leið á morguninn var komin bongóblíða, logn og sólskin. Það kemur göngumanni á óvart hversu löng þessi leið út brúnir er og það var komið undir hádegi þegar við stóðum á brúninni ofan Hesteyrar þar sem þorpið birtist okkur baðað sólskini.

Í ÞverdalVið Hesteyrará var áð og kveikt á prímus til að hita kaffi með hádegisverði. Lágfóta valhoppaði í kringum okkur og fúlsaði ekki við sneið af Hattadalshangiketi. Flugan pirraði okkur dálítið og því vorum við fegin að halda á til fjalla á ný, en við áttum stefnumót við félaga okkar í Hallgrími síðla dags að Sæbóli. Við lögðum því á brattan þar sem leiðin lá í kringum Litlafell og síðan tekin stefnan norðan Nasa í Þverdal. Enn lék veðrið við okkur og síðdegiskaffið var drukkið á háfjallinu þar sem byrjar að halla undan fæti.

Gengið í RekavíkÞverdalur er mosavaxinn mýrardalur og ekki auðveldur þreyttum göngumönnum yfirferðar. En allt tekur sinn enda og síðla dags gengum við framhjá  bænum í Þverdal og stefndum á Borg að Sæbóli. Eftir ellefu tíma göngum var komið að leiðarlokum á göngu okkar úr Hornvík í Aðalvík og ekki annað að gera en bíða þess að báturinn með félaga okkar kæmi siglandi fyrir Rytinn. Þessi vísa varð til hjá hirðskáldinu okkar Viðari, þegar Bjarnanesið renndi sér inn á leguna á Sæbóli.

Ég veit það verður ferlegt fjör,

og fegurð hópsins engu lík.

Er ævintýri á gönguför ,

upphefst hér í Aðalvík.

Viðar Konn

álfsfellÞað getur stundum verið þrautin þyngri að koma í kyrrð Hornstranda og ekki tekið út með sældinni einni saman. Allavega fór fuglasöngur, grautargerð spóa og tófugaggið fyrir brjóstið á Díönu sem átti svefnlausa nótt. Ekki bættu hrotur eiginmannsins úr en hún hugsaði þessum ódámum ÖLLUM þegjandi þörfina og þeirra lán að hún var vopnlaus.

Dýrvitlaus var Díana,

þá djöfuls Spóinn vall sinn graut.

Veltist um, varð „andvana",

en Viðar bara lá og hraut.

      Viðar Konn


Hallgrímur Bláskór - Hornvík Kjaransvík

 

Gengið í RekavíkHvar er djörfung þín og dirfska Hallgrímur? Hvað þarf til að eggja þig til mikilla áforma og takast á við óblíða náttúru og láta skeika á sköpu við átökin við það óþekkta? Að leggja land undir fót, og ekki bara hvaða land sem er heldur takast á við Hornstrandir, fóstru þína og leiðtoga. Strandirnar sem urðu þér innblástur og gaf þér nafn, gerði þig að því sem þú ert og stendur fyrir!

Til stóð að fara í hjólaferð á bökkum Dónár með haustinu, en skipuleggjendur ventu sínu kvæði í kross með ferð að Sæbóli í lok júní þar sem gengið yrði útfrá Borg næstu fjóra dagana. Þorsteinn og Flosi treystu sínu fólki því enn og aftur til átaka við óbyggðir Sléttuhrepps þar sem hver manndómsvígslan tekur við af annarri og aukvisunum er úthýst. Þessi hópur sem hefur marga fjöruna sopið er enda betur komin við slík átök en sitja á reiðhjóli og láta sig renna milli veitingahúsa á bökkum Dónar úr Svartaskógi í Svartahaf.

Samatjald í Rekavík bak HöfnVið Stína ákváðum að gera gott betur og taka flugvél tveimur dögum fyrir áætlaða brottför, til Hornvíkur og ganga með allt á bakinu í Aðalvík. Við ætluðum tvo daga til ferðarinnar og áformuðum að hitta hópinn, göngulúin, við landtöku á Sæbóli.

Það tekur augnablik að fljúga frá Ísafirði til Hornvíkur og við lentum seinnipart dags við ósinn á sólríkum hlýjum sumardegi. Það er um hálftíma gangur heim í Höfn þar sem við tjölduðum um það leytið sem sólin var að setjast undir Hafnarfjallið. Enn var Hornbjarg baðað sólskini og kvöldið skartaði sínu fegursta þar sem Kálfatindur og Jörundur gnæfðu yfir Miðdal. Eftir staðgóðan kvöldverð var gengið snemma til svefns, enda tilhlökkun að takast á við skemmtilega göngu til Kjaransvíkur að morgni.

álfsfellDumbshafið var sem spegill og sólin yljaði okkur fyrsta áfangann út í Rekavík. Fyrst þurfti að takast á við ófæruna og síðan var Tröllakambur gengin rétt áður en komið er að ósnum í Rekavík. Þar lúrði sama-tjald sem kajakræðrar höfðu slegið upp um nóttina og ekkert virtist raska svefnró þeirra.

Ferðin gekk vel upp í Atlaskarð og við litum við áður en Hornbjargið hvarf til að virða fyrir okkur mikilfeng og fegurð þess, en framundan var Atladys og ganga fram brúnir ofan Hælavíkur. Eftir fjögurra tíma göngu stóðum við ofan Skálakambs þar sem Álsfellið blasti við og minnti á íbúa þess, álfkonuna góðu sem leit með íbúum þessa kaldranalega staðar á erfiðum tímum. Konur í barnsnauð gátu leitað til álfkonunnar góðu og oftar en ekki treystu sjómenn á gæsku hennar þar sem hún varaði þá við veðrabrigðum og leiðbeindi þeim að landi. Áður en varði stóðum við heima á bæ í Hlöðuvík en ferðinni var heitið áfram til Kjaransvíkur. Það var kalt að vaða ósinn en lofthitinn var komið upp undir annan tuginn og því ekki annað að gera en taka sundsprett í sjónum við sendna ströndina í Kjaransvík. Sjórinn var lítið farin að hlýna en sólinn og lofthitinn voru fljót að hrista úr hrollinn og ylja köldum garpnum eftir sundið.

Fagurt kvöld í HornvíkVið veltum fyrir okkur hversu langt skyldi haldið þennan daginn, en við vorum óþreytt og tilbúin í lengri göngu. Því háttar hinsvegar til að langt er að klára í næsta áfanga, Hesteyri, áður en haldið yrði á til Aðalvíkur. Sú leið liggur að mestu í töluverðri hæð og því ómögulegt að finna ákjósanlegt tjaldstæði. Það var því ákveðið að halda upp í dalinn ofan Kjaransvíkur og tjalda meðan enn væri gróðurvænt. Við fundum ákjósanlegan svefnstað við ánna, þar sem ljúfur lækjaniður myndi hjala okkur í svefn.

Eftir góðan kvöldverð fengum við heimsókn franskra göngumanna, sem höfðu einmitt gist tjaldstæðið í Hornvík nóttina áður. Einhverra hluta vegna voru þeir staddir sitthvoru megin árinnar og reyndum við að segja þeim sem á austurbakkanum stóð til um að komast yfir. Við fengum þann sem stóð okkar megin til að taka af okkur mynd, rétt áður en skriðið var í pokann til að safna kröftum fyrir átök næsta dags.

 


Sátt í sjávarútvegi - grein úr Fiskifréttum

 

Á fundi með atvinnumálaráðherra á vordögum, Steingrími Sigfússyni, kom fram hversu erfitt honum reyndist að ná fram „sátt" um frumvörp um fiskveiðistjórnun í sínum hópi. Forsætisráðherra hefur síðan ítrekað lýst yfir ánægju sinni með að ríkisstjórnin hafi náð „sátt" um sjávarútveginn, sem byggi á framlögðum frumvörpum. Annað frumvarpið um auðlindagjald er nú orðið að lögum, en hitt bíður haustþingsins og snýr að breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu.

Það sem vantar inn í málflutning ríkisstjórnarinnar er að sáttin er bundin við þá sem lengst eru til vinstri í pólitík, en þeir sem trúa á einstaklingsframtak, markaðahagkerfi og hámörkun verðmætasköpunar eru ósáttir; sem er meirihluti landsmanna!

Enginn sáttarvilji

Enginn vilji hefur verið til sátta hjá þessari ríkisstjórn, þó hér sé um grundvallarmál að ræða, sem hefur veruleg áhrif á efnahagslega afkomu þjóðarinnar. Ekki var byggt á samningaleið sem lögð var til af fulltrúum allra stjórnmálaflokka og hagsmunaaðila. Ekki var tekið mark á sérfræðingum og álitsgjöfum sem kallaðir voru til að meta hagræn áhrif þeirra breytinga sem felast í frumvörpunum. Ekki hefur verið hlustað á erlenda sérfræðinga né fulltrúa sveitafélaga og alls ekki hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Sem nánast allir tala gegn þeim breytingum sem ríkisstjórnin hyggst gera á fiskveiðikerfinu, bæði með óhóflegu auðlindagjaldi og öðrum breytingum sem dregur verulega úr verðmætasköpun í sjávarútvegi.

Fiskveiðirentan

Það er vonandi rétt að Íslendingum hafi tekist með góðu fiskveiðistjórnunarkerfi að skapa rentu sem er umfram eðlilega arðsemi í greininni. Reyndar er það einsdæmi í heiminum og sýnir þá betur en nokkuð annað að við erum á réttri leið við stjórnun fiskveiða. Það eru því undarleg stefna að færa íslenskan sjávarútveg aftur til ríkisafskipta með ofurskattlagningu og draga úr skilvirkni og arðsemi með ráðstjórn.

Sé ofurarður í Íslenskum sjávarútvegi þarf að ræða með hvaða hætti skuli bregðast við því. Til að dreifa slíkum arði er eðlilegast að skoða kjör þeirra sem vinna við greinina. Ljóst er að sjómenn hafa það gott þar sem launin eru bundin aflahlutdeild og því hafa þeir notið góðs af góðu markaðsástandi og lágu gengi krónunnar. Hinsvegar hefur fiskvinnslufólk orðið útundan og launum haldið niðri með ódýru vinnuafli frá austur Evrópu. Laun og önnur kjör fiskvinnslufólks er ekki í neinu samræmi við það sem þekkist t.d. í áliðnaði þar sem mannauðsstjórnun er áratugum á undan. Breytt viðhorf í þróuðum tæknigreinum til mannauðsstjórnunar kemur ekki til af góðmennsku heldur borgar sig til lengri tíma litið.

Tækifæri framtíðar

Miklar framfarir gætu verið framundan í Íslenskri fiskvinnslu þar sem verkamannastörf (ófaglærðir) munu víkja fyrir tæknimenntuðu vinnuafli. Fái íslenskur sjávarútvegur svigrúm til að stunda rannsóknir og þróun og fjárfesta í tækniþekkingu og mannauð mun hann enn auka við samkeppnisforskot sitt. Hærri laun munu því ekki bara auka kostnað, og dreifa fiskveiðiarði, heldur bæta samkeppnishæfni til lengri tíma litið. Hærra menntunarstig og bætt launakjör í fiskvinnslu er það sem fiskveiðisamfélög þurfa til að blómstra í framtíðinni.

Sátt til framtíðar

Ef fiskveiðiarður verður ennþá „vandamál" þegar laun hafa verið hækkuð væri hægt að setja hluta af þeim arði í samkeppnissjóði til að styðja við nýsköpun og markaðsmál. Fiskveiðiauðlindin er þjóðareign og því skiptir það Íslendinga máli að fara eins vel með hana og mögulegt er. Draga þarf úr óhagkvæmni sem fylgir t.d strandveiðum, byggðakvótum og línuívilnun. Vilji menn nota fiskveiðiauðlindina sem tæki fyrir byggðastefnu þarf að finna aðferðir sem kosta minni sóun. Styrkja þarf fiskveiðisamfélög og tryggja verðmætasköpun í sjávarútvegi með aukinni menntun og nýsköpun. Um það ætti sáttin í samfélaginu að snúast.


Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 283905

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband