Bloggfærslur mánaðarins, september 2011

Gott mál og þarft en lengra þarf að ganga

Þetta er gott mál enda múffumálið okkur Íslendingum til vansa.  En hér ætti að taka skrefið til fulls og leyfa fólki að framleiða áfenga drykki heima hjá sér.  Hægt er að setja það skilyrði að framleiðslan verði ekki fénýtt.  Það er ekkert nema rómatík og skemmtilegt að framleiða sinn eigin drykk, hvort það er snaps, rauðvín eða öl.  Hver og einn ætti að hafa til þess frelsi, enda fari framleiðslan alls ekki í sölu.  Þetta er svona svolítið eins og að rækta kartöflur.
mbl.is Sala heimabaksturs verði lögleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mánudagur 2011

 

Í myrkri og regniTíminn flýgur hratt við góða skemmtun og nánast ótrúlegt að fjórði dagur ferðar væri hafin þegar risið var úr rekkju snemma dags í Merkigili.  Eftir drjúgan morgunverð með hafragraut og slátri, var mönnum ekkert að vanbúnaði og allur hrollur á bak og burt, þrátt fyrir kalsa úti.Tilbúnir í lokaslaginn

Nokkrar kindur höfðu týnst í myrkrinu kvöldið áður og þurfti því að ríða til baka fram dal til að sækja þær.  Það gekk að óskum og eftir að hafa gefist upp við að elta mórauða kind með tvö lömb, upp og niður eftir bökkum Jökulsár, var lagt af stað með safnið áleiðis að Keldulandi.  Safnið var um 70 kindur og töldu menn að um 30 kindur hefðu orðið eftir í dalnum, sem vonandi fyndust við eftirleit í október.

Lagt á hestinnÞað gekk á með rigningu en síðan fór að stytta upp og þegar komið var í Merkigil urðu veðrabrigði þar sem birti til með sól og blíðu.  Eftir gilið var létt verk að reka safnið áfram götu og ekki liðið langt á dag þegar sást heim að Keldulandi.  Það var fámenn smalasveit sem rak féð síðasta spölinn, enda hafði hluti af mannskapnum sótt jarðaför á Sauðárkrók þennan dag.Knapi og hestur

Vel gekk að koma fénu í fjárhúsin þar sem vanar hendur tóku til við að draga í dilka, en rollurnar tilheyrðu Sigga Hansen og Stebba á Keldulandi.  Mikið gekk á við að koma þeim í kerru en sumir sauðirnir voru á stærð við meðal kálfa, enda stríðaldir í grösugum Austurdal.  Í millitíðinni var tekin hvíldar og samverustund í stofunni hjá Stebba þar sem skrafað var og sagðar sögur.  Það gafst meira að segja tími til að fara í sturtu, en þegar þarna var komið hafði tekist að safna upp góðum skít í þrjá sólahringa á fjöllum.  Það getur líka verið gott að hvíla sig á endalausum þrifum og notalegt að njóta þess þegar vel hefur safnast.

Réttin í MerkigiliÞað var kominn tími til að kveðja vini og aka af stað heim á leið.  Ákveðið var að taka hús hjá sjálfum herppstjóra Akrahrepps, Agnari á Miklabæ í leiðinni.  Agnar er gríðarvinsæll í hreppnum, enda bæði skemmtilegur og fróður maður og höfðingi heim að sækja.Féð rekið yfir Merkigil

Það var tekið á móti gestum með kostum og kynjum á Miklabæ og fjargviðrast yfir því að báðir væru akandi og ekki nokkur leið að koma vínglasi ofaní þá.  Mikið stóð til á bænum enda réttarlok í Silfrastaðarétt og stórbóndinn búinn að ná fé sínu af fjalli.  Það var gert góðlátlegt grín að smalamönnum Austurdals sem höfðum komið með 70 kindur eftir fjóra daga en bændur í Silfrastaðarétt ráku 4.600 fjár í rétt þessa helgi.

Gatan liggur greiðGestum var boðið til stofu þar sem kvöldverður var fram borin við háborðið hjá hreppstjóranum og konu hans Döllu, sóknarprest í Miklabæjarprestakalli, en hún þjónar einnig Silfrastöðum.  Það lá vel á fólki eftir erfiði og árangur helgarinnar og væsti ekki um ferðalanga að staldra við um tíma og taka þátt í skemmtilegum samræðum.  En þreyttum smalamönnum var ekki til setunnar boðið og nauðsynlegt að haska sér heim á leið.  Kvaddir með rjómaís, sem dugði ökumönnum betur en vínsglas, og síðan haldið áleiðis í Staðarskála þar sem hinn bíllinn hafði beðið um helgina.

Það lá vel á Vestfjarðaarmi Göngumannafélags Austurdals yfir kaffibolla í Staðarskála, og ekki Rekið í fjárhúsin í Keldulandiskyggði félagsskapurinn á, Guðni Ágústsson og frú.  Umræðuefnið pólitík og hugsanleg þátttaka Guðna í smölun fyrir Skagfirðinga.  Hann er góðvinur Þórólfs á Hjaltastöðum og þátttaka hans í smölun Austurdals borið á góma.  Hann yrði þá svona láglendisdeild í félagsins en á hans heimslóðum myndu menn ekki þekkja höfuðáttir, ef ekki væri fyrir Heklu sem gnæfir yfir víðfermdum sléttum suðursveita.

Þórólfur og Siggi Hansen huga að fénuHér var komið að lokakveðju þar sem leiðir skildu og ekið var í norður og suður.  Ritari hélt norður Standir til Ísafjarðar í blíðskapar veðri þar sem einstaka bæjarsljós blikuðu í spegilsléttum haffletinum.  Skagafjörður að baki en framundan aðalfundur Gangnamannafélags Austurdals í mars á komandi ári.

 Feitir sauðir úr Austurdal

 

Hún batnar leiðin,

og bráðum þrýtur heiðin

þá hvíla verðum vér.

Sjá, skjól og hestahagi

er hér í þessu dragi,

af baki hlaupum hér.

Halló halló halló halló

Hér hvíla verðum vér!Stebbi á Keldulandi


Sunnudagur í Austurdal

 

ÁbæjarréttÞað er ekki lengi riðið frá Hildaseli niður að Ábæjarrétt til smölunar í Tinnárdal og Ábæjardal.  Þar var skipt liði þar sem Þórólfur og Siggi Hansen gættu hestastóðsins í réttinni en ritari reið upp Skálar til að smala Ábæjar- og Grjótdal við þriðja mann.

Töluverður bratti er upp á fjallið og þurfti að teyma hrosinn að hluta, en þegar upp á heiðina kom trylltist hesturinn.  Hér verður að taka tillit til þess að reiðmaðurinn var óttalegur fjörufúsi og þrátt fyrir „örugg" handtök á taumnum var ekki ráðið við Pegasus, en svo heitir hesturinn.  Í stöðunni virtist best að velja lendingastað og tókst það sæmilega en taumurinn rann úr hendi og Pegasus prjónaði yfir ritara og sparkaði síðan í kálfa hans.  Hrossið fór síðan á trylltu stökki niður fjallið, ausandi og slettandi afturendanum langt upp í loftið.  Hnakkurinn var kominn undir kviðin og dýrið orðið kolbrjálað.  Félagar mínir voru fljótir til mín en Pegasus var horfinn úr augsýn.  Töldu þeir víst að hann myndi skila sér niður í Ábæ og rétt að skakklappast af stað eftir Pegasus, haltur eftir sparkið.Hrossin sett í réttina

Hvergi bólaði á hrossinu á leið niður í Ábæjarrétt og þeir Þórólfur og Siggi höfðu ekki orðið varir við hann.  Þeir töldu víst að hnakkurinn hefði sigið aftur eftir baki hestsins þar til gjörðin fór á nárann, enda bratt riðið upp fjallið.  Gerist slíkt tryllast hrossin, en Pegasus þykir ekki hrekkjóttur hestur.  Ég skipti um stöðu við þá félaga en þeir ætluðu að litast um eftir hrossinu og hjálpa til við smölun í dalnum.  Fyrir mig var lítið annað að gera en setjast niður og bíða eftir smalamönnum úr Tinnárdal og trússbílunum úr Hildarseli.

Allt í einu var kyrrðin rofin af fjórum stórum jeppum sem stoppuðu norðan árinnar, og út stigu fjöldi manns, konur og karlar.  Flest hlaðin risastórum myndavélum sem voru, varlega áætlað, á annan metir á lengd.  Þau voru hissa á að rekast á þennan dalbúa þarna og tók nokkurn tíma að segja þeim undan og ofanaf því sem hér væri að gerast í  Austurdal.  Eftir skamma stund voru þau aftur á brott og ritari eftir, einn í heiminum með, hrossunum.

IMG_4960Allt í einu tók ritari eftir mórauðum díl upp undir fjallsbrún.  Gæti þetta verið Pegasus?  Ekki var hægt annað en láta á það reyna og haltra af stað á fjallið.  Þegar dró saman með fyrirbærinu var ljóst það þarna var hrossið komið í leitarnar.  Nú varð að beita ýtrustu varfærni til að fanga hann og taka stóran sveig upp fyrir hestinn og læðast rólega að honum ofanfrá.  Hafi ritari einhvern tíman verið stimamjúkur við eiginkonuna, þegar mikil hefur legið við, er það hjóm við hliðina á þeim silkimjúka tón sem Pegasus fékk.  Hann féll fyrir þessu og taumurinn var í hendi, en Pegasus trylltist um leið.  En fast var haldið og taumurinn ekki gefin eftir á meðan baslað var við að ná hnakkinum af prjónandi hestinum.  Það tókst að lokum og til að bæta skepnunni þetta allt upp var ákveðið að setja hnakkinn á öxlina og bera hann niður að Ábæjarrétt.

Foringinn kemur með trússiðÞað var langt liðið á dag þegar heyrðist í smalamönnum með féð úr Tinnárdal og í kjölfarið fylgdu trússbílarnir úr Hildarseli.  Það var hressandi að fá félagsskapinn og nú var sest niður til að njóta síðdegisverðar.  Upp úr mali ritara kom skötustappa sem gekk á milli manna og líkaði vel.  Skagfirðingar eru ekki vanir skötustöppu en kannski er nú búið að innleiða nýja menningu í Austurdal.

Áð við ÁbæjarréttSigurður Hansen kom nú ríðandi og taldi að Sigurgísli og Gunnar væru týndir, en þeir höfðu skilið hestana eftir í umsjón þeirra Þórólfs, og Þórólfur væri nú að leita þeirra upp í dal.  Fljótlega kom Gunnar gangandi norðan gilsins og lagði þá Sigurður frá Réttarholti af stað ríðandi til að upplýsa um misskilninginn og að þeir félagar væru ekki týndir, enda skilaði Sigurgísli sér fljótlega eftir þetta.Skötustappan er góð

Það var því ákveðið að halda á með safnið niður að Merkigili en ritari yrði eftir til að passa stóðið og bíða þeirra félaga.  Rökkrið seig yfir með kvöldinu og ekki sást til nokkurs mann á fjallinu.  Það var byrjað að vinda og síðan fór að rigna.  Það dimmdi hratt í þungbúnu veðrinu og einveran svarf að.  Ritari settist á hestinn, svona aðallega til að halda á sér hita, og reið upp á múlann ofan við kirkjugarðinn til að gæta að mannaferðum.  En ekki sást til nokkurs lifandi manns né hests og enn dimmdi, þar til ekki sást á milli augna (eins og konan á Langanesi sagði).

SíðdegisverðurEinhvern vegin var ég alveg rólegur í myrkrinu, enda gæti ekkert illt verið þarna á ferð.  Að vísu stutt í kirkjugarðinn en þar væru allir greftraðir eftir kúnstarinnar reglum og varla órói á gestum garðsins.  En ósköp varð ég feginn þegar ég heyrði til manna, og hrossa, þar sem smalafélagar komu loks ríðandi út úr myrkrinu.  Bæði að fá félagskapinn og eins að vita af þeim óhultum.

Nú var lagt af stað með stóðið niður dalinn, en ekki tókst að smala því fÁbæjarrétt og Stefánsstofaé sem fannst á þessu svæði.  Smalar höfðu lagt áherslu á að leita að „týndum" félögum sínum.  Það var komið niða myrkur og því urðu reiðmenn að treysta algjörlega á hestinum til að sjá fótum sínum forráð.  Annað slagið bar við eins og skugga, eða örlitla þúst í dimmunni, þar sem hestar úr rekstrar stóðinu brugðu fyrir.  Neistar skutust undan skeifum og mátti af þeim ráða hvar hrossin voru.  Annað slagið heyrðust köll í félögunum en orðaskil voru ekki numin, enda langt bil á milli reiðmanna.

ÁbæjarkirkjaÞarna er malarvegur og því leyndi sér ekki á hljóðinu þegar gatan var riðin.  Stundum tók hesturinn þó reiðslóða ofan við götuna og þá þagnaði allt nema laufléttir dynir í mold og mó.  Ekkert sást og lítið annað að gera en treysta hestinum, sem reið nokkuð greiðlega með stóðinu.Í myrkri og rigningu

Þegar komið var að girðingunni við Merkigil biðu bílarnir við hliðið.  Komið var slagviðri og þegar ljósin lýstu út í kolsvart myrkrið voru reiðmenn algerlega blindaðir.  Við þær aðstæður var riðið eftir lausum hestum til að koma þeim inn í girðinguna og þar reyndi á ýtrustu færni og kjark reiðmanna.  Einn smalinn flaug 15 metra fram af hestinum þegar hann féll í þýfðu landinu, en varð ekki meint af.

Myrkur að MerkigiliEn það hafðist að koma fé og hrossum í réttina og klukkan að verða ellefu þegar þreyttir smalar komu inn í hlýjuna að Merkigili.  Gestrisni heimamanna verður ekki oflofuð og hér svignuðu borð undan kræsingum, lambalæri, salat, rauðbeður, rauðkál, brúnaðar kartöflur, grænar baunir og sósa.  Við matarborðið spurði Stebbi ritar hvor hann hefði ekkert orðið var við Ábæjarskottu eða klofna manninn.  Uppglennt starandi augu mændu nú á Keldulandsbóndann, rétt eins og naut á nývirki.  Stebbi útskýrði að draugurinn Ábæjarskotta væri alþekktur og gerði mörgum skráveifur, aðallega í innanverðum Skagafirði.  Hún er sögð hafa drepið búsmala, hrætt fólk og jafnvel orðið einhverjum að bana.  Klofni maðurinn væri afturgengin eftir að vera höggvinn í herðar niður.  Nánast öruggt að rekast á annað hvort þeirra í myrkri við Ábæ.  Alla vegaHvíld og kaffi ef menn væru einir á ferð! 

Það rann kalt vatn milli skinns og hörunds ritara sem nú furðaði sig á óttaleysinu fyrr um kvöldið.  Svona geta menn verið vitlausir, verið í stór hættu og ekki haft hugmynd um það.  Kannski var það einmitt heimskan og vitleysan sem varnaði því að rekast á þessi óbermi.  Sá sem ekki á von á draugum hittir þá örugglega ekki því þeir koma sjaldnast að óvörum.

 

Mínir vinir fara fjöld,

feigðin þessa heimtar köld,

ég kem eftir, kannski í kvöld,

með klofinn hjálm og rifinn skjöld,

brynju slitna, sundrað sverð og syndagjöld.

Bólu Hjálmar

Hvíld og kaffiEftir matinn var boðið upp á kaffi með slettu af íslensku brennivín út í.  Það var kominn notalegur höfgi yfir ritara og Ábæjarskotta gleymd í bili.  Það var ekki löng leið upp á loft í hvíldarstað næturinnar, þar sem þreyta dagsins myndi líða úr þreyttum beinum eftir erfiðan en skemmtilegan dag. 

 

Kaffitár
yljar vel
bæði sál
og hjarta.

Allt það gerir
einhvern veginn
ofurlítið
betra

Björt


Laugardagur í Austurdal

 

Lagt á hrossinStebbi komin á fæturÞað var fríður hópur hraustra manna sem reis úr rekkju að Hildarseli á laugardagsmorgun, tilbúnir í fjársöfnun í Austurdal.  Morgunsólin vermdi vanga og hár bærðist ekki á höfði.  Það var komið rennsli á féð vestan við Jökulsá og greinilegt að smölun var í gangi þar og ekki annað að gera en leggja á hesta og koma sér af stað fram Austurdal og smala austurbakkann.  Við ætluðum að smala fremsta hluta Dalsins í dag og reka það fé sem fyndist í réttina að Hildarseli.

Ég fékk frískan klár undir mig þennan morgun og sennilega voru það meðmæli með hestamennsku minni.  Til að skerpa á reiðmennskunni fékk ég gúlsopa af Kakala og eftir það fann ég taktinn við Smá Kakalihestinn.  Þegar ég reið í morgunsólinni fram Austurdal varð mér hugsað til þess að oft væri talað um sveitamann og heimsborgara sem andstæður.  Það vantaði eitthvað inn í þá mynd þar sem ég taldi mig til hvorugs hópsins.  Ég er svona fjörufúsi sem er sjávarútgáfan af sveitamanni.  Alinn upp í sjávarþorpi og fengist við sjávarútveg nánast alla mína tíð.  Veit lítið um Skúli Skúlasveitastörf og þarf því stöðugt að passa mig í þeim félagskap sem ég deildi þessa dagana og leyna fákunnáttu í sveitamennskunni.  Til dæmis varð mér á við Ábæjarréttina að tala um skjöldóttann hest.  Slíkt lætur bara fjörufúsi út úr sér enda veit sveitamaðurinn að hestar eru skjóttir en kýrnar skjöldóttar.  Einar vinur minn dró mig afsíðis við þennan atburð og útskýrði málin fyrir mér í rólegheitunum, við hlátrarsköll félaganna.

En það þarf ekki fjöruilm til að kitla sálu fjörufúsa og jafnvel hann hrífst með í Austurdal þegar riðin er Fögruhlíðin á fögrum morgni.  Upp í hugann kom síðasta versið í kvæði dalaskáldsins „Í öræfadal":

Gefðu þér tíma og fangaðu frið

sem fýkur með morgunsins svala

er heyrir þú svanina hefja sin klið

af heiðarbrún öræfadala

S.H.

Sögustund í FörguhliðÞað er aldrei riðið í gegnum skógin í Fögruhlíð án þess að ægja og segja sögur.  Gangnamenn voru óvenju opinskáir og söguglaðir þennan morgun í fallegu rjóðri birkiskógarins.  Sennilega voru þeir ölvaðir af fegurð Dalsins og örlæti almættisins á aðstæður þennan laugardagsmorgun.  Hér verða sögurnar ekki tíundaðar, enda ríkir trúnaður milli smalamanna hvað sagt er á slíkum stundum.  Þar skiptir ekki máli hvort það er biskup (jafnvel eineygður) eða tukthúslimur sem á í hlut.  Á svona stundu geta sögur orðið djarfar og meira sagt en menn vildu þegar móðurinn rennur af þeim, og yfirleitt eru sögurnar meiri og merkilegri en þeir atburðir sem þær byggja á.  En jafnvel fjörufúsi veit að góða sögu má ekki skemma með sannleikanum og eftir kennslustund í að stíga í hnakk er haldið á fram dalinn.  Söngur fyllti nú Austurdal meðan hestarnir töltu upp með Jökulsá og náði ritari niðurlagi lagsins:

..........ég öðru betra

elsku besta Susana

er ríða nokkra millimetra

milli viskísjússana

GooglesteinninnVið mynni Hvítárdals er eru höggvin skilaboð í klettasyllu, skrifuð af sauðfjárvarnarstarfsmanni 1938.  Ekki er víst að hún endist betur en það sem höggið er í Googlesteininn en óneitanlega vekur hún meiri athygli en flest af því sem þar stendur enda nokkuð fátíðari tegund.

Riðið var áfram viðstöðulaust þar til komið var upp að Fossá.  Eitt af erindum ferðarinnar var að kynna staðinn fyrir Útivistar Skúla og fá félagsskap hans með í byggingu og reksturs skála við ána.  Austurdalur er frábær gönguleið og getur bloggari vitnað um það, enda gekk hann með Hallgrími Bláskóg frá Skatastöðum upp á hálendið að Laugafelli.  Nokkuð langur og strangur gangur er frá Hildarseli í Grána og myndi skáli við Fossá vera tilvalin áningastaður þarna í milli.  Vestfiskir meðlimir Gagnamannafélags Austurdals munu ekki láta sitt eftir liggja þegar kemur að skálabyggingu en aðdrættir eru mjög erfiðir í Dalnum þar sem Tröllaskaginn hlífir honum fyrir norð-austan áttum og snjó setur aldrei niður. 

Hross við FossáÞað var einhverju sinni í ferð Skagfirðinga til Egyptalands að menn stóðu gapandi yfir því þrekvirki að koma tuga tonna björgum um langan veg og það yfir Nílarfljót.  Einn úr hópnum kom þá með þá skynsamlegu skýringu að steinarnir hefðu verið dregnir á snjó um vetur, en ekki voru allir sammála þessari tilgátu enda þekkt í Austurdal að sleðadráttur að vetri gengur ekki vegna snjóleysis.

Fossá er fegurst áa, hvítfyssandi og gróin moRéttin við Fossása í botninn, þannig að engu líkara er en gengið sé á teppi yfir hana.  Þetta er lindá og því rennsli hennar stöðugt og hitastig jafnt.  Það er eitthvað undursamlegt við hvernig hún frussast niður allan dal og hvergi sést í lygnan hyl.  Fossá er faratálmi gangandi manna og rifjast upp ferð Hallgríminga yfir straumþungan í fyrra, bundnir með snæri um mittið og vatnið braut upp undir hendur.  Betra er að missa ekki fótfestuna, enda stutt í ármótin við Jökulsá, sem er að öllu leiti ófrýnilegri og ofsafengnari en Fossá og ekki gott að berast í boðaföll hennar.  En á hestum er þetta létt verk og löðurmannslegt, enda finna hrossin ekki fyrir straumþunganum og feta þetta af miklu öryggi.

Áð við FossáÁ suðurbakka Fossár tók smalinn fram malinn og þar var ólíku saman að jafna frá fyrri smalaferð í Austurdal.  Ilmandi sviðasulta með rófustöppu og skolað niður með heimsins besta lindarvatni.  Kakalinn var á þrotum en maður kemur í manns stað þegar kemur að Sturlungu og nú hét mjöðurinn Brandur.  En hér var ekki til setunnar boðið og áfram skyldi haldið við smalamennskuna.  Hér var skipt liði og bloggari ásamt Þórólfi og Gísla riðu upp á Hölknármúla sem heldur um Hölknárdal í suðri.  Þegar upp var komið var hélt Sigurður norður fjallið ofan í dalinn en við Þórólfur riðum áfram suðvestur yfir heiðina.  Hér var útsýnið stórkostlegt, með Hofsjökul í suðri og Tungnafellsjökull blasti við austar.  Austurdalur skartaði sínu fegursta en hæðin var um 700 metrar yfir sjávarmáli þar sem hæst var riðið.Fossá

Nú var komið að því að stíga af baki og leggja í Lönguhlíðina fótgangandi.  Landslag er þar of bratt fyrir hesta og því ekki annað að gera en nota tvo jafnfljóta.  Þórólfur tók við taumnum og við mæltum okkur mót við Hölkná.

Langahlíð er erfið yfirferðar en hægt er að ganga hana að mestu leiti eftir áraurum og bökkum Jökulsár.  Einstaka sinnum þarf þó að klífa bakkann og ganga bratta hlíðina þar sem þverhnípt er niður í ána.  En ferðin gekk að óskum en engin kind fannst á þessari leið, frekar en á öðrum leitarstöðum þessa smaladags.

Kjötsúpa að HildarseliVið riðum í Hildarsel í rökkri og hittum þar fyrir félaga okkar frá öðrum leitarsvæðum.  Við áttum von á fleiri smalamönnum þetta kvöld, Bjarna Marons frá Ásgeirsbrekku ásamt tveimur félögum hans, Sigurgísla og Gunnari Valgarðsyni.

Það var komið að því að bjóða sveitarmönnum upp á lostæti hafsins og við Einar skárum niður hákarlsbeitu, frá Reimari Vilmundarsyni, og bárum fram ásamt ýsu og smjöri.  Smá Svartidauði spillir ekki bragðinu af þessu hnossgæti og ljóst að það átti fullt erindi upp í óbyggðir Austurdals.  Kræsingunum var gerð góð skil og varla eftir skán eða roð fyrir smalahundana.  Í framhaldi var borin fram kjötsúpa, framleidd úr sérvöldu feitu lambakjöti úr Dalnum.  Yfir borðum var margt skrafað og margar sögur sagaðar.  Þórólfur sagði okkur ferðasögu Karlakórsins Heimis til Ísafjarðar um árið þar sem meðal annars var komið við á knæpu bæjarins, þar sem þessi vísa varð til:

Krókar hanga laust við vang

losta svangir hanga

Yndi í fangi eykur gang

inn á Langa Manga

S.H.

Hér var komið að stóru stundinni þar sem aukafundur Gangnamannafélags Austurdals skyldi haldin.  Venja er að halda fund á laugardagskvöldi í smalaferð, en aðalfundir eru haldnir fyrsta föstudag í mars á hverju ári.  Ákveðið var að bíða með fundinn þar til liðsafli smalamanna bærist heim í bæ en þeir komu um tíuleitið, í kolniða myrkri.

Aukafundur GangnamannafélagsinsSvona fundir geta tekið tíma enda margt að ræða.  Skúli Skúlason frá Útivist var formlega tekinn inn i félagið og vonandi mætir hann á aðalfundinn í mars.  Vangaveltur um væntanlega skálabyggingu við Fossá tók sinn tíma en innlegg Gísla á Frostastöðum yfirskyggði aðra umræðu fundarins.  Gísli hafði náð GSM sambandi við Gísla Rúnar af fjallinu um daginn, sem nú er fjarri góðu gamni og býr út í Manchester á Englandi.  Gísli Rúnar hafði reiknað út að meðalaldur Gangnamannafélagsins væri orðið 58,2 ár og stefndi í að meirihluti gildra lima væru orðin löggilt gamalmenni.  Huga þyrfti að handföngum og sliskjum fyrir hjólastóla í Austurdal, enda væru menn dettandi fram úr kojum og guð má vita hvernig hægðir ganga á ófullnægjandi kamri á hverjum morgni.  Tvennt væri í stöðunni að áliti Gísla; að yngja upp í félaginu eða fara út í gagngerar lagfæriáningar á húsakostum og búnaði.  Nokkrir töldu að félagið þyldi ekki of mikið af ungu fólki, og bentu á síbylju Rásar 2 og Bylgjunnar því til sönnunar.  Kannski menn færu að spila Michael Jackson eða Bubba Morteins á kvöldvökum smalamanna?  Myndi félagskapurinn bera sitt barr eftir það? 

Ávallt reiðubúinnLjóst má vera að hér er hápólitískt mál á ferðinni sem erfitt verður úrlausnar.  Hinsvegar eru helstu forkólfar félagsins engir aukvisar og ljóst að málinu verður lent með einum eða öðrum hætti.  Undir ljúfum tónum skagfirskra söngmanna klöngraðist undirritaður upp á loft  til að halda á vit drauma sinna, úrvinda eftir átök dagsins og hvíldinni feginn eftir góðan dag í frábærum félagsskap.


Smalað í Austurdal - föstudagur

 

Föstudagur:

Hressing fyrir reiðtúrÞað var komið að því að standa við skyldur sínar sem félagi í Gangnamannafélagi Austurdals, og smala fé úr efstu dölum Skagafjarðar.  Vestfiski armur félagsins, undirritaður og vinur hans Einar Kristinn, vorum sem aldrei fyrr undirbúnir fyrir átökin.  Nú yrði ekki skilið við fé og menn að Merkigili, heldur myndum við klára fjárreksturinn heim í hlað á Keldulandi.  Fjögurra daga ferð var framundan og við búnir með nesti og nýja skó.  Ekkert tros í malnum í þetta skiptið en búið að útbúa sviðasultu, bjúgu og skötustöppu til að tryggja okkur orkuforða við smölunina.  Einnig tókum við með okkur hákarl og harðfisk til að bjóða smalafélögum okkar uppá ásamt ofur litlu brennivínstári til að skola því hnossgætinu niður.  Fjárfest var í nýjum reiðbuxum og allt til að sýna Skagfirðingum fram á að fagmennska Vestfirðinga riði ekki við einteyming.  Við þurftum að bæta upp tapaðan orðstír frá því í fyrra hvað það varðaði.Glatt á hjalla

Ferðin átti að standa frá föstudegi fram á mánudagskvöld og bloggari átti pantað með morgunvélinni suður og ákveðið að við vinirnir ækjum saman frá Reykjavík.  En smá sunnan andvari kom í veg fyrir flug og ekki annað að gera en aka í Staðarskála þar sem öðrum bílnum var lagt og haldið á hinum í Skagafjörð.

Í MerkigiliÞað var því komið fram á eftirmiðdag þegar við renndum í hlaðið í Keldulandi og hittum smalafélaga okkar, dalaskáldið Sigga Hansen, Þórólf frá Hjaltastöðum, Sigurð frá Réttarholti, Sigurð frá Tyrfingstöðum, Gísla Frostason frá Varmahlíð, Magnús frá Íbisahóli og foringjann sjálfan, Stebba á Keldulandi.  Framkvæmdastjóri ferðafélagsins Útivistar, Skúli Skúlason var gestur í þessari ferð til að kíkja á aðstæður fyrir skálabyggingu við Fossá í Austurdal.Maggi að Merkigili

Kelduland liggur skammt ofan við ármót Austari- og Vestari Jökulsáa, þar sem Héraðsvötn myndast og renna síðasta spölinn til sjávar.  Okkar leið lá upp með Austri Jökulsá sem á upptök sín í Hofsjökli og safnar í sig fjölda vatnsfalla á leið sinni niður næstum 50 km langan Austurdalinn.  Dalurinn er þröngur og vel gróinn með háa hamraveggi á báða bóga og liggur nokkurn veginn í norður frá jöklinum.   Grös eru gjöful í Austurdal enda koma sauðir feitir af fjöllum eftir sumarbeit í Dalnum.

Maggi í réttinniVeðrið lék við reiðmenn þennan eftirmiðdag, hlýtt og þurrt með hægum sunnan andvara.  Áður en komið var í Merkigil þótti rétt að teygja úr sér og vökva örlítið lífsblómið og fara með nokkrar vísur og smá aftansöng.  Síðan var stigið á bak hrossunum og fljótlega eftir að gilið var að baki komum við heim að Merkigili. 

Það er alltaf tekið vel á móti gagnamönnum úr Austurdal að Merkigili, þar sem systur Helga Jónssonar, síðasta ábúanda á Merkigili, reka sumargistingu.  Þær systur taka enga greiðslu fyrir greiðann en bjóða upp á kjötsúpu á leið fram dalinn og síðan lambasteik og gistingu þegar komið er til baka með safnið, tveimur dögum seinna.

MerkigilGreiðinn að Merkigili stóðst allar væntingar og galsi í mönnum og hrossum áður en lagt var á fyrir ferðina í Ábæ.  Það var farið að bregða birtu þegar smalamenn komu að Ábæjarrétt þar sem síðasta hvíld var tekin fyrir lokaáfangann að Hildarseli. Dalurinn skartaði sínu fegursta í ljósaskiptunum og angan gróðurs barst okkur með hlýjum sunnan blænum og niður jökulsárinnar lék undir með þungu nuði sínu.Sigurður Hannsen við Ábjarrétt

Að Hildarseli hittum við Stebba foringja ásamt Skúla Útivistarmanni sem komu akandi með trússið frá Keldulandi.  Það gafst ágæt tóm til að innbyrða Kakala og taka nokkur lög áður en Smalafélag Austurlands lagðist til hvíldar og safnaði kröftum fyrir átök morgundagsins.

Við eigum ból í Austurdal

við iðjagrænan mó

Við fögnum kyrrð í fjallasal

og fyllum hugann ró

 

Við lyftum gjarnan ljúfri skál

er ljósin dofna fer

Við hugsum ekki um heimsins mál

vor heimur á fjöllum er

 

Því hvað er lífsins keppnismál

og hvað er andi þinn?

Og hvað er þessi söngvasál

er syngur drauminn sinn?

S.H.Við ÁbæjarréttÞórólfur vökvar lífsandann


Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 6
  • Sl. sólarhring: 29
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 283756

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband