Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011

Grein í Fiskifréttum

 

Draumsýn sósíalistans

Í umræðunni um sjávarútvegsstefnuna hefur ekki verið skortur á sérfræðingum og sitt sýnist hverjum.  Meðal annars hefur sjö manna hópur látið til sín taka undanfarið, og meðal annars átt fund með sjávarútvegsráðherra til að kynna hugmyndir sínar sem þau kalla; „Sátt um atvinnufrelsi er sátt um byggðir.  Hugmyndir sjömenningana byggja á því að RÍKIÐ sé algott, allt umlykjandi og einstaklingurinn sé bara hluti af heildinni og eigi að fela sig í hlýjum faðmi hins alvitra ríkisvalds.  Margir áhrifamenn í stjórnmálum hafa tilhneigingu til að halla sér að sósíalisma og telja nauðsynlegt að „skipuleggja" atvinnulífið til að reka þjóðfélagið samkvæmt sanngjarnri áætlun.  Til þess þurfa þeir vald sem oft er notað miskunnarlaust í „þágu fjöldans" og þá skiptir einstaklingurinn engu máli og nauðsynlegt að fórna lýðræði með frelsisskerðingu til að ná fram skipulaginu.  Sósíalistar trúa því að með því að stifta einstaklingin frumkvæði og valdi og láta ríkisvaldið taka ákvarðanir sé valdið úr sögunni.  Slíkt er mikill misskilningur þar sem hið miðstýrða vald er miklu hættulegra en vald sem dreifist á fjöldan.  Þar sem ríkið hefur náð „nauðsynlegum" yfirráðum verður vesæll skriffinni í skjóli yfirvalda valdameiri en milljónamæringurinn og reynslan kennir okkur að hann mun ekki hika við að nota það.

Frelsi eða fjötrar

Skoðanir sjömenningana byggja ekki á rannsóknum, vísindum, viðmiðunum né reynslu annarra þjóða.  Þetta eru svona hægindastólahagfræði, en fyrst og fremst snýst þetta um að þjóðnýta sjávarútvegin, færa tekjur og völd frá einstaklingum til ríkisins.  Fidel Castro og Hugo Chaves gætu verið stoltir af kenningum sjömenninganna.  Castro sagði bændum á Kúbu að rækta kaffi, en sást það yfir að jarðvegur og loftslag hentaði ekki til þess.  Þetta kostaði hungursneyð hjá landsmönnum og hugmyndin minnir á framsetningu sjömennúningana um að ríkið eigi að taka ákvarðanir um hvað sé hagkvæmt að veiða, hvenær, af hverjum og hvernig.  Sjömenningarnir vita betur en atvinnugreinin hvernig er hagkvæmt að veiða fisk og vilja því að ríkið hafi vit fyrir útgerðarmönnum.

Takmörkuð endurnýjanleg auðlind

Ef við viðurkennum að takmarka þurfi aðganginn að auðlindinni þá er spurningin hvort við viljum nota samkeppni eða sósíalisma (ríkisforsjá) til að útdeila gæðum.  Samkeppni þar sem þeir sem best standa sig og skila mestri arðsemi veiða, eða hvort  stjórnmálamenn ákveði hverjir fá að veiða og hverjir ekki.  Án takmörkunar á aðgengi verður auðlindin einfaldlega ofveidd, engum til góðs. Við þekkjum það úr sögunni að í byrjun níunda áratugarins veiddu Íslendingar meira en nokkru sinni, um 460 þúsund tonn af þorski, þrátt fyrir það var tapið á útgerðinni að sliga samfélagið og fiskstofnar að hruni komnir.  Efnahagslegt sjálfstæði Íslendinga var í hættu þar sem óðaverðbólga geisaði eftir endalausar gengisfellingar til bjargar sjávarútveginum.  Við slíkt varð ekki unað og kvótakerfinu troðið upp á útgerðina, sem þar með tók við þeim kaleik að skera niður sóknargetu, en aðgengi að auðlindinni yrði takmarkað í staðin.

Um þetta geta allir lesið sig til um og þurfa því ekki að vera með vangaveltur um að gefa veiðar frjálsar aftur.  Við vitum hvað það þýðir af biturri reynslu.

Arðsemi sjávarútvegs

En sjömenningarnir, eins og Castro og Chaves, skilja ekki út á hvað þetta gengur.  Stjórn fiskveiða snýst ekki um að fjölga störfum heldur að hámarka arðsemi.  En sjömenningarnir tala hinsvegar um framleiðslumagn í stað verðmætasköpunar.  Að framleiðsluaukning í veiðum frá 1991 til 2007 hafi ekki aukist og það sé stjórnkerfi fiskveiða að kenna.  Aflamarkskerfi byggir ekki upp fiskistofna en tryggir arðsemi af þeim takmörkuðu veiðum sem ábyrgar þjóðir stunda.  Það er verðmætasköpunin sem mestu máli skiptir og hún hefur tífaldast frá 1991 til 2009, frá því að vera 2.2% í 22%, Þrátt fyrir gríðarlegan niðurskurð í veiðiheimildum.  En slíkt þvælist fyrir sósíalistum sem skilja illa arðsemi en eru hinsvegar mjög uppteknir af ,,réttlætinu"

Staðan er einfaldlega þessi;  Íslendingar þurfa sem aldrei fyrr að treysta á sjávarútveg og að hann skili áfram þeirri arðsemi sem hann gerir í dag.  Lífakkeri Vestfirðinga er sjávarútvegur og að hann skili arðsemi sem dreifist á nærsamfélagið.    Auðlindagjald sem rennur til ríkisins er skattur á sjávarbyggðir og gengur því þvert á hagsmuni fiskveiðisamfélaga.  Öflugur sjávarútvegur sem rekin er á viðskipalegum forsendum og á samkeppnisgrunni er mikilvægasta hagsmunamál Vestfirðinga.

 


Eru Vestfirðingar ekki samkeppnishæfir í framleiðslu til útflutnings?

 

Það hefur nánast allt breyst í íslenskum sjávarútveg undanfarna áratugi, nema umræðan.  Margir Vestfirðingar leita blórabögguls fyrir hnignun byggðar í sínum heimabæ og finna hann í fiskveiðikerfinu og umræðan ber dám af því.  Ljóst er að norðanverðir Vestfirðir hafa tapað aflaheimildum og Vestfirðingum hefur fækkað sem hlutfall af íbúum landsins og skiljanlegt að sökudólgsins sé leitað og þeir vilji ná vopnum sínum aftur.

Í þessu samhengi er rétt að benda á að af 20 þúsund tonna afla sem landað er á norðanverðum Vestfjörðum er helmingurinn boðinn upp á fiskmörkuðum, öðru er landað til vinnslu í eigu útgerðar eða með samningi milli veiðiskips og vinnslu.  Sá helmingur sem fer á fiskmarkaði er nánast öllu ekið í burtu af svæðinu til vinnslu annars staðar.  Hvernig skyldi standa á því og hvers vegna kaupa vinnslur hér ekki fisk á fiskmörkuðum?

Samkeppni við Faxaflóasvæði

Það fyrsta sem kemur upp í hugann er að þær séu ekki samkeppnisfærar við vinnslur t.d. á Faxaflóasvæðinu.  Hver er ástæðan fyrir því og hvers vegna njóta vinnslur á svæðinu ekki nálægðarinnar við gjöful fiskimið?  Hér er um mikilvægt mál að ræða þar sem lítill virðisauki verður af veiðunum einum saman og nauðsynlegt fyrir sjávarbyggðir að taka þátt í frekari vinnslu aflans.  Það hlýtur því að vera forgangsmál að finna ástæðu fyrir því að fiskur sem seldur er á uppboðsmörkuðum er nánast undantekningalaust keyrður í burtu til vinnslu annars staðar.  Hvað er það sem fyrirtæki á Faxaflóasvæðinu hafa fram yfir vinnslur hér sem gefur þeim samkeppnisyfirburði til að yfirbjóða verð á fiskmörkuðum?

Flutningskostnaður sökudólgurinn?

Það fyrsta sem kemur upp í hugann er flutningskostnaður en framleiðsla á Vestfjörðum þarf að standa undir dýrum flutningi í skip eða flug til útflutnings.  Nú er það svo að það er einfaldlega hagkvæmt að safna allri framleiðslu Íslendinga á einn stað til útflutnings.  En þarf ekki að jafna aðstöðu framleiðanda hvar sem þeir eru staddir á landinu?  Þarf ekki að deila þeirri hagræðingu og tryggja samkeppnishæfi fyrirtækja út í hinum dreifðu byggðum landsins?

Flutningskostnaður skekkir samkeppnisstöðu útflutningsgreina á Vestfjörðum.  Fórnmunarkostnaður útflutningsfyrirtækis hér á svæðinu getur numið tugum milljóna á ári, fyrir það eitt að vera staðsett langt frá útskipunarhöfn og vegna flutningskostnaðar á rekstrarvörum frá Reykjavík.  Fyrirtæki þurfa að greiða verulegar upphæðir í flutninga innanlands, sem sambærileg fyrirtæki á suðvestur horninu sleppa að mestu við.  Hægt væri að flutningsjafna útflutning en erfitt gæti verið með aðdrætti, þar sem slíkt myndi hjálpa þeim sem keppa um hráefni á fiskmörkuðum.  Sýnt hefur verið fram á að flutningagjöld af fersk-fiskflutningum er undir kostnaðarverði og því þurfa þeir sem flytja afurðir, aðdrætti og aðrar vörur til og frá landsbyggðinni að niðurgreiða þann flutning.  Það virðist ekki vera skynsamlegt ef halda á uppi atvinnu við sjávarsíðuna.

Hangir fleira á spýtunni?

En er ástæðan eingöngu flutningskostnaður?  Liggja aðrar ástæður að baki því að fiskvinnslur á Vestfjörðum eru ekki samkeppnisfærar við vinnslur við Faxaflóa?  Það er fargansmál að fá svör við slíkum spurningum og gera bragabót ef þörf er á.

Flutningsjöfnun á útflutning mun kosta samfélagið sem heild einhverja fjármuni.  En það mun ekki skekkja samkeppni sem neinu nemur, heldur jafna möguleika þeirra sem framleiða langt frá útskipunar höfn eða flugvelli.  Við eigum ekki að þrefa um hvaða flutningstæki er notað en gera kröfum um að jafna samkeppnisstöðu framleiðenda til útflutnings óháð fjarlægð frá útflutnings höfn eða flugvelli.


Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 48
  • Frá upphafi: 283866

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband