Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Grein úr Þjóðmál

 

John Maynard Keynes, Almenna kenningin um atvinnu vexti og. Sjötíu árum síðar

Það er athyglisvert að rifja upp rúmlega sjötíu ára verk Keynes um „Almennu kenningarinnar um atvinnu,vexti og peninga" í ljósi umræðu um skuldasöfnun vestrænna ríkja í dag.

Bókin hafði mikil áhrif  á sínum tíma og höfundurinn , hagfræðingurinn John Maynard Keynes, hefur verið talinn einn af áhrifamestu einstaklingum síðustu aldar og bók hans talin  það rit sem mest áhrif hefur haft á þróun þjóðfélaga í Evrópu á síðustu öld..

John Maynard Keynes fæddist í Cambridge á Englandi 1883, sonur hagfræðings og prófessors við Cambridge háskóla, John Neville Keynes. Hann fékk fyrsta flokks menntun frá Eton og Cambridge en áhugamálin lágu víða. Hann féll illa að staðlaðri fyrirmynd hagfræðinga samtímans enda margt sem fangaði hug hans, t.d. listir, en hann gekk undir gælunafninu ,,listvinurinn" meðal samnemanda sinna í Eton og Cambride.  Sem ungur maður stundaði hann embættismannastörf fyrir bresk yfirvöld, m.a. hjá landstjóranum á Indlandi. 

Hann var mikilvirkur í listalífi Lundúna, og í vinfengi við marga þekktustu listamenn landsins í gegnum svokallaðan Bloomsburry hóp. Þar kynntist hann meðal annars Virginíu Wolf, George Bernhard Shaw og Duncan Grant listmálara en við hann átti Keynes í ástarsambandi framan af ævi.

Þegar heimsstyrjöldin fyrri skall á var hann kallaður til starfa hjá breska fjármálaráðuneytinu sem tryggði honum stöðu í nefnd sem fór til Parísar til að ganga frá Versalasamningunum við uppgjöf  Þjóðverja eftir fyrri heimstyrjöldina. Eftir heimkomu þaðan gagnrýndi hann einstrengingslegar kröfur sigurvegaranna, Frakka, Breta og Bandaríkjamanna, og varaði við gríðarlegum stríðsskaðabótum sem Þjóðverjum var gert að greiða.  Hann taldi að þær myndu einungis ýta undir ofstæki og skapa jarðveg fyrir öfgahópa. Friðarsamningunum gerði hann skil í bók sinni ,, Hagrænu afleiðingar friðar"(e. Economic consequences of the Peace) og eftir seinni heimstyrjöldina voru viðvaranir Keynes hafðar að leiðarljósi  við uppgjöf  Þjóðverja Eftir seinni heimsstyrjöldina fór hann fyrir  bresku sendinefndinni á ráðstefnu í Bretton Woods í New Hampshire í Bandaríkjunum. Það var á þeirri ráðstefnu sem lögð voru drög að stofnun Alþjóða gjaldeyrisjóðsins og Alþjóðabankans, sem voru hugarfóstur Keynes.  Á ráðstefnunni var gerður sáttmáli um að auka milliríkjaverslun með því að draga úr viðskiptahindrunum landa á milli, en til að það tækist varð að draga úr verndarstefnu milli ríkja.  Þrátt fyrir að Keynes hefði ekki náð fram sínum helstu markmiðum á ráðstefnunni, sbr. sérstakan gjaldmiðil sem ætti að nota í uppgjöri á milliríkjaviðskiptum og að Bretar hefðu þurft að gefa töluvert eftir af sínum samningsmarkmiðum, eru ákvarðanir sem teknar voru í Bretton Woods taldar hafa haft mikil áhrif á hagkerfi heimsins.

Í ræðu sem Keynes flutti á breska þinginu í desember 1945, hálfu ári áður en hann lést, sagði hann eftirfarandi um Bretton Woods samkomulagið:

,,tillögur varðandi gjaldmiðla og viðskipti eru  miðaðar við að halda jafnvægi, með því að leyfa ýmsar verndarráðstafanir þegar þeirra er þörf og banna þær, þegar þeirra er ekki þörf. Það sem einkennir þessar fyrirætlanir er að tengja saman helstu kosti verslunarfrelsis við óheillavænlegar afleiðingar laissez-faire. Enda tekur það ekki beinlínis tillit til varðveislu jafnvægis og treystir einvörðungu á ferli blindra afla. Hér er því um tilraun að ræða þar sem við notum það sem við höfum lært af reynslu samtíðarinnar og skilgreiningu nútímans, en ekki til að hnekkja, heldur til að efla visku Adams Smiths"[1].

Það er þó fyrir bókina ,,Almennu kenningarinnar um atvinnu, vexti og peninga" sem  Keynes verður fyrst og fremst minnst.  Bókin hefur oft verið kölluð upphaf  þjóðhagfræði en þar leit höfundur yfir heildarsviðið, allt hagkerfið, í stað þess að einblína á einstakar atvinnugreinar, fyrirtæki eða heimili við útskýringar á virkni hagkerfisins.

Bókin kom út í skugga kreppunnar miklu, sem í kjölfar verðfallsins á Wall Street 1929 setti hagkerfi heimsins á hliðina.  Í  kjölfar kreppunnar fylgdi mikið atvinnuleysi sem olli sárri fátækt í Bandaríkjunum og víðar á Vesturlöndum.  Á þessum tíma þekktust atvinnuleysisbætur ekki og kröppum kjörum alþýðu fylgdi mikil ólga þar sem öfgafullum stjórnmálaöflum óx fiskur um hrygg. 

Klassískir hagfræðingar (íhaldsmenn), höfðu boðað afskiptaleysi stjórnvalda ( ,,laissez fair") allt frá dögum Adam Smith og vildu margir kenna ófullkomleika þeirrar stefnu um kreppuna og getuleysi (viljaleysi) stjórnvalda til að taka á málum. Í framhaldi af verðfallinu 1929 varð sjóðþurrð hjá bönkum sem olli mikilli skelfingu og fólk þyrptist í banka til að taka út peninga.  Þetta var fyrir þá tíð að seðlabankar tryggðu bönkum ávallt nægilegt fjármagn til að greiða út innistæður.

Þrátt fyrir að Keynes teldi sig tilheyra borgarastéttinni og aðhylltist auðhyggju (kapítalisma) taldi hann að frjálshyggjan hefði siglt í strand og aðferðir íhaldsmanna dygðu ekki til að koma efnahagskerfinu upp á sporið að nýju.  Hann taldi sig reyndar vera að bjarga auðhyggjunni með hugmyndum sínum, en gagnrýni hans á ríkjandi stefnu frjálshyggju og afskiptaleysi var hörð og óvægin.

Hann trúði því að með aðgerðum sínum gætu stjórnvöld komið hjólum efnahagslífsins á stað aftur og benti sérstaklega á vangetu íhaldsmanna til að leysa atvinnuleysi og gagnrýndi hugmyndir þeirra um að hagkerfið væri ávallt í jafnvægi við full afköst, en það taldi Keynes  að gæti alls ekki staðist.

Keynes hélt því fram að laun breyttust með öðrum hætti en vörur vegna hugmynda launþega um réttlæti, með  samtakamætti og stéttaátökum kæmu þeir í veg fyrir launalækkun.  Hinsvegar þegar ríkið eykur framkvæmdir og umsvif sín í hagkerfinu og bætir við peningamagn í umferð, valdi það verðbólgu sem lækki raunlaun og fyrirtæki sjái sér hag í að ráða fólk í vinnu.  Þannig að framleiðsla aukist með minkandi atvinnuleysi og einnig valdi þessi innspýting ríkisins inn í hagkerfið aukinni bjartsýni á framtíðina sem auki fjárfestingu og  hagvöxt.  Sérstaklega eigi þetta við á krepputímum en afskiptaleysi stjórnvalda á slíkum óvissutímum sýni aðeins hversu máttvana klassísk hagfræði er til að takast á við slíkan vanda.  Það var meðal annars haft eftir honum að það gæti borgað sig fyrir ríkið að láta verkamenn moka skurði og síðan fylla þá upp aftur.

Segja má að í þessu kristallist ágreiningur Keynes við klassíska hagfræðinga, sem höfnuðu pólitísku inngripi í hagkerfið og vildu láta markaðinn leysa hagfræðileg mál.  Keynes aftur á móti vildi nota auðhyggjuna eftirspurnarmegin í hagkerfinu (gefa fyrirtækjum gott svigrúm) til að framleiða á sem hagkvæmasta hátt, en pólitík til að dreifa afrakstrinum framboðsmegin (ríkið auki hlutdeild sína í hagkerfinu) þar sem gæðunum er útdeilt. 

En Keynes vildi ganga lengra og lagði til ,,félagslega fjárfestingu" þar sem ríkið ætti að auka hlutdeild sína í hagkerfinu með beinum fjárfestingum í atvinnulífinu .  Hann taldi sig ekki vera að leggja til sósíalisma með þessu heldur væri þetta eina leiðin til að koma á jafnvægi fullrar atvinnu og hámarks framleiðslu, sem hann taldi frjálshyggjuna ófæra um að gera. 

Bók Keynes um Almennu kenninguna hafði mikil áhrif í heimi hagfræðinnar og á hið pólitíska andrúmsloft.  Margt af  því sem þar kemur fram hefur eflaust hljómað vel í eyrum stjórnmálamanna eins og réttlæting á peningaprentun, aukna skattlagningu og áhrif stjórnmálamanna á framboðshlið hagkerfisins.  Einnig eru viðbrögð klassískra hagfræðinga, en hugmyndir þeirra höfðu verið ráðandi á Vesturlöndum um langt skeið, skiljanleg.  Bókin réðst harkalega að kenningum frjálshyggjumanna og dregur þá oft sundur og saman í háði enda textinn einharður og miskunnarlaus.

Hugmyndafræði Keynes var tekið fagnandi á Vesturlöndum og voru notaðar sem lausn á kreppu eftir seinni heimstyrjöldina og í kjölfarið fylgdi mesta hagvaxtarskeið mannkynssögunnar.  Margir urðu hinsvegar til að gagnrýna þessar kenningar og fór þar félagi og samtímamaður hans Austurríkismaðurinn Fredrik Ágúst von Hayak einna fremstur í flokki.  Einnig deildi Milton Friedman prófessor við Chicago háskóla ákaft á kenningar Keynes, en hann hafði aðra skýringu á kreppunni miklu sem hann skýrði með mistökum Seðlabanka Bandaríkjanna að tryggja ekki bönkum nægt lausafé og auka þannig peningamagn í umferð.  Á sama hátt varaði hann við lausbeislaðri peningamálastefnu og auknum ríkisafskiptum sem leiða myndu til verðbólgu og skuldasöfnunar ríkissjóðs.  Aðrir kennismiðir í anda Keynes höfðu fundið út að hægt væri að draga úr atvinnuleysi með því að auka verðbólgu og þar með var komin lausn sem bæði myndi  auka hagvöxt og velsæld í heiminum.

Efnahagserfiðleikar þrengdu að Vesturlöndum á sjöunda áratugnum, þar sem bæði verðbólga og atvinnuleysi fóru úr böndunum ásamt meiri viðskiptahalla en áður hafði þekkst.  Keynes lifði ekki þessa daga en margir hafa bent á að ósanngjarnt sé að gera kenningar hans að blóraböggli í því máli. Það varð þó til þess að íhaldsmenn náðu aftur vindi í segl sín og nýir tímar tóku við með Thatcher og Reagan.  Fram að 2008  má segja að ríkjandi kenningar í hagfræði væru ný-Keynesismi og ný-klassísk, þó nefna megi peningastefnu (Monetarisma) með Milton Friedman í fararbroddi.   

Ástand efnahagsmála Vesturlanda upp úr 2008 hafa orðið til þess að rykið hefur verið dustað af kenningum Keynes sem eins og áður segir deildi hart á viðbrögð við verðfallinu á Wall Street 1929 og kerppu sem fylgdi í kjölfarið. Bandaríski seðlabankinn gerði á þeim tíma þau grundavallarmistök að tryggja ekki inneign sparifjáreiganda og koma þannig í veg fyrir sjóðþurrð banka og þeirri keðjuverkun gjaldþrota sem því fylgdi.[2]  Bankann skorti ekki völd eða getu til þess að útvega bönkum fjármuni með tryggingu í útlánum enda var það eitt helsta hlutverk hans.  Hefði Seðlabanki Bandaríkjanna stöðvað útstreymi úr bönkunum og komið í veg fyrir bylgju bankagjaldþrota hefði kreppan aldrei náð þeim hæðum sem raunin varð.  Peningamagn í Bandaríkjunum dróst saman um þriðjung frá því í júlí 1929 til mars 1933, og tveir þriðju þess samdráttar urðu eftir að Bretar féllu frá gullfæti til að tryggja enska pundið. [3]

Segja má að ríki Vesturlanda hafi brugðist við með ólíkum hætti eftir hrunið 2008 og þar sem lögð var áhersla á koma í veg fyrir bankaáhlaup þar sem ríkisvaldið tryggði inneignir í bönkum og getu þeirra til að standa við útgreiðslur, kæmi til þess.  Í framhaldi hafa Vesturlönd, með Bandaríkin í broddi fylkingar gripið til Keynsisma með því að dæla peningum inn i hagkerfið með peningaprentun og lágum stýrivöxtum.

Hingað til hafði skuldasöfnun Bandaríkjanna aðalega verið bundin við stríðskostnað, fyrir utan kostnaðinn við „New Deal" Roosevelts, einmitt eftir kreppuna miklu.  Í upphafi tuttugustu aldar voru  skuldir ríkisins (Federal Debt) innan við 10% af þjóðarframleiðslu. Eftir kreppuna miklu og „New Deal" jukust skuldir mikið en það var þó í seinni heimstyrjöldinni sem þær náðu nýjum hæðum, eða 122% af þjóðarframleiðslu.  Næstu 35 árin lækkuðu skuldir umtalsvert sem hlutfall af þjóðarframleiðslu þar til Regan hóf lokaorustuna í kalda stríðinu og opinberar skuldir fóru yfir 60% af þjóðarframleiðslu.  Stríðið gegn hryðjurverkamönnum kostuðu hinsvegar sitt en fyrst tók steininn úr eftir 2008 þegar Obama, samkvæmt Keynesiskum ráðum, hóf stjórnlausa penngaprentun til að auka eftirspurn í hagkerfinu í viðleitni sinni til að minnka atvinnuleysi og auka hagvöxt í Bandaríkjunum.[4]

Á sínum tíma gagnrýndi Milton Friedman kenningar Keynes harkalega, fyrst undir merkjum peningahyggju (monetarism) en síðan undir merkjum ný-klassískrar hagfræði.   Magn peninga í umferð hefur orðið mörgum hagfræðingnum umhugsunarefni í gegnum aldirnar og er peningamagnskenningin (quantity theory of money) að minnsta kosti 500 ára gömul og gæti verið komin frá tíma Confuciusar. [5]  Adam Smith velti þessu máli fyrir sér og líkti peningamagni við fljót sem rynni í árfarveg og ef of mikið magn væri látið í hann (árfarveginn) þá myndi eðlilega fljóta yfir bakkana. [6]

Samkvæmt klassísku módeli þá eru laun og verðlag fullkomlega breytilegt.  Ef ríkið eykur umsvif sín er tvennt sem getur gerst.  Við aukin umsvif eykst eftirspurn eftir peningum og vextir hækka.  Við hærri vexti draga fyrirtæki úr fjárfestingum sínum og eina breytingin er að ríkið fær nú stærri sneið af hagkerfinu.  Ef ríkið hinsvegar eykur peningamagn í umferð til að halda niðri vöxtum þá hækkar verðlag og verðbólga en engin breyting verður á framleiðslu.  Hinsvegar þarf að greiða niður fjárlagahalla (eða vexti af ríkisskuldabréfum) í framtíðinni sem étur upp hagvaxtaraukningu við aukin umsvif.

Samkvæmt kenningum klassískra hagfræðinga er ekki hægt að stækka hagkerfið til lengri tíma með aukinni eftirspurn.  En hægt er að hafa áhrif á framboðshliðina, t.d. með skattalækkunum, sem eykur vinnuvilja fólks, peningamagn í umferð og sparnað.  Vextir lækka og fyrirtæki fjárfesta í nýjum atvinnutækjum og þjóðarframleiðsla eykst.

Keynesísk hagfræði gerir hinsvegar ráð fyrir að nafnvirði launa breytist ekki og sú verðbólga sem myndist við aukin umsvif ríkisins ásamt auknu peningamagni lækki því raunverulegan launakostnað.  Vextir lækki og fyrirtæki bæti við starfsfólki vegna launalækkunar og betri vaxtakjara.  Seinni árin hafa komið fram kenningar sem brúa þetta bil og vilja halda því fram að Keynesískri aðferðir geti virkað til skamms tíma þó þær geri það ekki til lengri tíma.[7]

Fram á sjöunda áratuginn trúðu menn mjög á kenningar Keynes og renndu hugmyndir nýsjálenska hagfræðingsins Phillis frekari stoðum undir þær.  Þessar hugmyndir sýndu að hægt væri að velja á milli verðbólgu og atvinnuleysis og væri um neikvæð tengsl að ræða.  Hægt væri með öðrum orðum að minnka atvinnuleysi með hæfilegri verðbólgu.  Á áttunda áratugnum fór þetta  úr böndunum þar sem bæði verðbólga og atvinnuleysi jukust jöfnum höndum um alla Vestur Evrópu og Bandaríkin.  Það var einmitt Friedman sem benti á veilur í Phillis-kúrfunni þar sem honum hafði láðst að gera greinarmun á peningalaunum og raunverulegum kaupmætti launa.

Það verður fróðlegt að líta um öxl þegar rykið hefur sest í því pólitíska umróti sem kreppa iðnríkja hefur valdið, en margir telja að meginorsök hennar hafi verið of ódýrt fjármagn sem grafið hafi undan varkárni og ráðdeild.  Hvort Keynesísk úrræði vestrænna stjórnmálamanna duga til að leysa málið eða hvort varnaðarorð klassískra hagfræðinga hafi verið rétt.  Um þetta er tekist á í dag, sérstaklega í Bandaríkjunum en þróun mála í íslensku hagkerfi er einnig áhugaverð ef skoðuð í þessu ljósi.  Ljóst má þó vera að skuldavandi vestrænna ríkja er gríðarlegt vandamál sem ekki sér fyrir endann á.  Víða er frjálshyggju, eða ný-frjálshyggju (óskilgreint hugtak)  kennt um þær ógöngur sem hagkerfi vestrænna þjóða er komið í, en spurning hvort þar sé verið að hengja bakara fyrir smið og nær sé að leita að sökudólgnum í sósíalisma  .Ljóst má vera að rætur vandans liggja í óábyrgri fjármálastjórn vestrænna ríkja, þar sem þjónusta hefur verið aukin við íbúa, langt umfram tekjuaukningu, og bilið verið fjármagnað með lántökum. 


[1] ,The balance of Payments of the United States",The Economic journal, Vol.LVI.júni 1946,bls 185-186. þýðing Haraldur Jóhannsson í Heimskreppa og Heimsviðskipti (1975)

[2] Þorvaldur Gylfason (1990)

[3] Friedman (1982)

[4] http://www.usgovernmentspending.com/spending_chart_1900_2016USp_12s1li011lcn_H0f_US_Federal_Debt_Since_#copypaste

[5] Begg (2000)

[6] Haraldur Jónsson (2000)

[7] Beggs (2000)


Grein úr Fiskifréttum

 

Veðsetning á kvóta

Eitt af því sem mest fer fyrir brjóstið á andstæðingum fiskveiðistjórnarkerfisins er veðsetning kvótans.  Telja að veðsetning á óveiddum fiski hljóti að vera mikið óréttlæti og hin mesta óhæfa.  Lítið fer fyrir málefnalegri umræðu um þessi mál en meira fyrir tilfinningaríkum yfirlýsingum, og veðsetningu kvóta er líkt við þjóðarmein.

Það er löngu liðið að lánastofnanir líti á fasteignir eða vélar sem bestu veðsetningar fyrir lánum til fyrirtækja, og frekar verið horft til fjárstreymis þeirra sem merki um hvort þau geti ráðið við endurgreiðslu.  Lánveitandi horfir að sjálfsögðu helst til áhættu af útlánum og byggja ákvörðun sína á trausti til lánþega til endurgreiðslu.  Stýra má þeirri áhættu með ýmsum hætti, t.d. ábyrðum og vöxtum.

Kók og kvótinn

Banki sem hyggst lána Coca Cola fjármuni veltir því fyrir sér hvaða tryggingu þeir hafi fyrir að gott fjárstreymi fyrirtækisins haldi út lánstímann.  Þar blasir við að lógó fyrirtækisins tryggir sölu afurða og er undirstaða sölu og fjárstreymis.  Bankinn setur fyrirtækinu þau skilyrði að fyrirtækið selji ekki lógóið frá sér út samningstímann.  Lógóið er þannig veðsett og þannig er huglægt fyrirbæri notað sem veðsetning.

Útgerð sem á kvóta (býr við afnotarétt af tilteknum aflamarki) getur skipulagt veiðar þannig að best falli að markaði og hámarkað tekjur sínar með góðri stjórn á virðiskeðjunni.  Þar með talið er afhendingaröryggi sem er forsenda þess að ná góðum samningum við viðskiptavini erlendis.  Banki sem lánar þessari útgerð fjármuni býður því góða vexti enda fjárstreymi fyrirtækisins gott og áhætta í lágmarki.  Aflaheimildir eru grundvöllur fjárstreymisins og því er sett í lánasamning að útgerðin selji þær ekki frá sér út lánstímann.  Skildi eitthvað vera athugavert við slíka samninga?  Hvað með bóndann sem vill stækka fjárhúsið til að fjölga fé, og bankinn setur það sem skilyrði að hann hafi nægjanlegt beitarland.  Er hann þá að veðsetja afrétti?

Fiskveiðiarður

Það hlýtur að vera megin markmið fiskveiðistjórnunar að hámarka arðsemi, og það kemur einmitt fram í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar.  Fiskveiðistjórnunarkerfið á að hámarka arðsemi greinarinnar.  Rekstur fyrirtækja á síðan að byggja á markaðslegum forsendum og hámarka rekstarafkomu.  Ein forsenda þess er að fyrirtæki njóti lástrausts og geti fjárfest. 

Fari þetta vel saman má búast við hámarks fiskveiðiarðs af auðlindinni.  Þá er komið að pólitískum afskiptum til að tryggja að fiskveiðiarðurinn renni með eðlilegum hætti til þjóðarinnar, og ekki síst til nærsamfélags útgerðar.  Slíkt er hægt að gera á annan hátt en með skattheimtu sem dregur úr nýsköpun og framförum.  Langtímamarkmið í sjávarútveg gæti verið að bæta starfsumhverfi fiskverkafólks, auka þekkingu og menntun starfsmanna og hækka launin verulega frá því sem nú er.  Slíkt dreifir fiskveiðiarð á betri hátt en skattheimta og kemur sjávarbyggðum vel.


Jón Guðbjartar í Kampa

 

Jón Guðbjartsson, stjórnarformaður rækjuvinnslunnar Kampa, er Ísfirðingur í húð og hár, fæddur og uppalinn í Dokkunni og sonur hjónanna Guðbjarts Jónssonar og Sigríðar Jónsdóttur.  Eiginkona hans er efribæingur, Sigríður Rósa Símonardóttir, Helgasonar og Elísu Halldórsdóttir.

„Ég hafði aldrei tekið eftir þessari stúlku fyrr en ég varð samskipa henni til Færeyja.  Við vorum nokkrir fótboltastrákar sem fórum þangað í keppnisferð.  Það urðu allir sjóveikir um borð nema ég og þessi unga kona og þar feldum við hugi saman"

Starfsferillinn byrjaði í námi í bifvélavirkjun hjá Erlingi Sigurðssyni og eftir það fór Jón á sjóinn í eitt ár til að greiða niður námskostnaðinn.  Einar Guðfinnsson bauð honum þá verkstjórastöðu við nýtt bifreiðaverkstæði sem fyrirtæki hans var að opna í Bolungarvík.  „Ég sló til og ætlaði mér að vera i víkinni í eitt ár"  Vistin var honum góð í Bolungarvík og árin áttu eftir að verða mörg.  Það var nóg að gera og ásamt vinnu var Jón var á kafi í félagsmálum.  „Það gleymdist alveg að flytja til baka "  segir Jón.  Eitt sinn kom Einar Guðfinnsson að máli við hann og sagði að það vantaði kafara í víkina, og Jón sem Ísfirðingur hlyti að kunna sundtökin.  Jón var reyndar gamall Vestfjarðarmeistari í sundi og það þurfti ekki að ræða það meir, hann skyldi verða kafari Bolvíkinga.  Kennari var fengin fyrir köfunina, sem jafnframt útvegaði búnað, og í framhaldi kom tilsögn í gegnum síma.  Síðan hélt Jón niður í fjöru til að prófa.  Allt gekk þetta vel og seinna fékk hann full kafararéttindi og þjónustaði Bolvíkinga með köfun næstu áratugina.

En hvernig byrjaði útgerðin?  „Ég á þrjú börn og tókst að halda einu þeirra heima með því að kaupa með honum togara.  Ég gat ekki keypt apótek fyrri dótturna eða lögfræðiskrifkofu fyrir yngri soninn.  Það var gengið var framhjá syni mínum með stýrimannastöðu á togara hér fyrir vestan og hann stakk upp á að við stofnuðum útgerð"  Togarinn sem þeir keyptu var skýrður Gunnbjörn (fyrrum Haukur Böðvarsson ÍS) og var gerður út á troll.

Þeir feðgar veltu fyrir sér möguleikum framtíðarinnar og ákváðu að veðja á rækjuna, sem hafði verið í mikilli lægð, og keyptu togara til rækjuveiða sem nú heitir Valbjörn.  Veiðar gengu vel og landað var í heimabyggð hjá rækjuvinnslu Miðfells.  Þegar sú verksmiðja fór í þrot var engin verksmiðja á svæðinu til að kaupa aflann og aðrir möguleikar ollu vonbrigðum.  Árið 2007 réðust þeir í kaup á verksmiðju Miðfells og stofnuðu rækjuvinnsluna Kampa.

Rekstur Kampa hefur gengið vel og gert er  ráð fyrir að vinna úr á níunda þúsund tonna af hráefni á þessu ári.  Framleiðsla af fullunnum afurðum verður um þrjú þúsund og sexhundruð tonnum sem skilar mun veltu upp a rúma þrjá milljarða króna.  Greidd laun verða um 230 milljónir króna til um 90 starfsmanna.  Verksmiðjan hefur mjög gott orð á sér á mörkuðum fyrir gæði, enda er mönnuð einvala liði starfsmanna með mikla reynslu úr rækjuiðnaðinum við Ísafjarðardjúp.  Gríðarleg þróun hefur verið í rækjuvinnslu í gegnum tíðina og óhætt að tala um rækjuframleiðslu sem hátækniiðnað.  Margar verksmiðjur hafa helst úr lestinni í þeirri samkeppni hér heima og erlendis.  Jón telur að menn þurfi að vera á tánum á öllum sviðum til að viðhalda rækjuvinnslu Kampa á Ísafirði, og til þess þurfi að tryggja samkeppnishæfni verksmiðjunnar.  Til þess hefur þurft að fjárfesta í tækjum og búnaði en allar framkvæmdir frá upphafi hafa verið greiddar af eigin fé og án látöku, enda hefur reksturinn skilað góðri afkomu. 

Framundan er uppsetning á mjölverksmiðju með framleiðslu á hágæðamjöli úr úrgangi rækjuvinnslunnar, sem dregur verulega úr mengun af vinnslunni og skilar vonandi góðri arðsemi.  Nýlega var keyptur nýr rækjutogari með vinnslulínu um borð og er byggður fyrir alþjóðlegar veiðar á norðurslóðum.  Togarinn er væntanlegur í heimahöfn um jólin og hefur hlotið nafnið Ísbjörn.

Það hefur vakið athygli hversu lítil yfirbygging er á fyrirtæki Jóns en sjálfur er hann stjórnarformaður án launa.  Engin framkvæmdastjóri er við fyrirtækið en tveir rekstrarstjórar sjá um skrifstofu fyrirtækisins og framleiðslu. 

 


Ritstjórapistill í Vesturlandi

 

Angurværð og tregi grípur mann þegar haldið er heim á Silfurtorg úr Tunguskógi að hausti, eftir frábært sumar í sveitinni.  Fölnuð laufin svífa af trjánum en enn skartar skógurinn sínu fegursta, glittir í rauð reynitrén á stangli en barrtrén skera sig úr gulum laufskóginum, sígræn og reist.  Það er sérstök lykt af haustinu, svona skörp og frískandi.   Hugurinn leitar til sumardaga í skóginum, í góðra vina hópi, þar sem notið er kvöldsólar yfir góðri máltíð og sem rennt er niður með höfgu víni meðan geislar kvöldsólar ylja vangann.

Á hverju vori tekur við glaðværð sumarsins þar sem flestir skipta um gír og festan og lífsbaráttan víkur fyrir leik og galsa við bjartar sumarnætur.  Með lækkandi sól er það fastmótað félagslífið, með sinni formfestu, sem tekur við að hausti þegar flutt er í bæinn aftur.Í rauninni er haustið æðislegur tími þar sem rómatík rökkurs svífur yfir vötnum og vekur upp nýjar þrár með hvatningu til nýrra dáða.  En það eru þó jólin sem eru hápunktur vetrarins og eins og allir stefni þangað frá fyrstu haustlægðinni.  Tíminn þegar fjölskyldur sameinast og endurvekja einstaka töfra sem jólin eru, ár eftir ár.  Það er eitthvað við jólahátíðina sem er einstakt sem ýtir til hliðar áhyggjum af skammdegi og köldum hauststormum.  Augnablikin áður en sest er niður yfir veisluborði aðfangadagskvölds eru ólýsanleg og allt verður einhvernvegin hljóðlátt og hátíðlegt og jafnvel yngstu fjölskyldumeðlimir skynja andrúmið þar sem  öllu öðru er vikið til hliðar um stund.  Aðeins fegurð og hátíðleiki og tónlistin í útvarpinu myndi ekki passa við nein önnur tilefni ársins.

  Jólin eru einstakur tími. Gleðileg jól.


Lög, reglur og kvennréttindi

 

Rúmlega sexhundruð milljónir kvenna búa í löndum þar sem heimilis- ofbeldi er ekki skilgreint sem glæpur samkvæmt lögum. 125 ríki hafa samþykkt slík lög en aðeins 52 ríki hafa gert nauðgun innan hjónabands refsiverða.  Haft er eftir aðalritara Sameiniðuþjóðanna að „Ofbeldi gegn konum og stúlkum er ljótur blettur á hverri heimsálfu, landi og menningu"

Fyrir nokkru síðan voru sett lög í Afganistan til að tryggja réttindi kvenna sem gerir heimilaofbeldi refsivert.  Þessu var tekið fagnandi af mannréttindasamtökum um allan heim og búist við betri tíð fyrir konur í Afganistan. En reynslan er önnur og lagasetningin hefur litlu breytt fyrir afganskar konur sem áfram búa við ólýsanlegt ofbeldi karlmanna.

Eitt af skilyrðum sem ESB hefur sett Tyrkjum til að hefja aðilaviðræður við þá er lagasetning til að tryggja réttindi kvenna og ekki síst til að koma i veg fyrir sæmdarmorð þar sem ungar konur eru neyddar til að fylgja forskrift karlmanna að hjónabandi.  Ekki stóð á lagasetningunni og talið er að hún hafi haft töluverð áhrif í tveimur borgum, Ankara og Istanbul, en lítil áhrif þar fyrir utan.

Málið er að lagasetning er eitt og annað er almennur vilji til að fara að þeim lögum. Þar er komið að gildismati einstaklinga, hvað sér rétt og rangt, fallegt eða ljótt o.s.fr. Fræðilega er talað um að fram undir fermingu hlaði fólk gildismati inn á harða diskinn og tileinki sér það til lífstíðar. Nánast er útilokað að breyta þessum grunngildum þar sem þau verða hluti af persónuleika hvers og eins og sameiginlega að menningu þjóðar.

Kristin trú hefur mótað gildismat vesturlandabúa, en þau trúarbrögð aðgreina sig frá öðrum eingyðingstrúarbrögðum með umburðarlyndi. Kristni hefur ekki aðeins mótað viðhorf okkar heldur menningu og stuðlað að efnahagslegri velsælt vesturlandabúa. En mest um vert er gildismatið sem lagasetningar eru byggðar á og ríkjandi viðhorf um að rétt sé að fara að lögum ásamt því að refsingar mótast af viðhorfum í samfélaginu.

Við trúum á einstaklingsfrelsi sem tryggi rétt allra til að lifa hamingjusömu lífi og höfnum því algerlega kynjamismunun. Ofbeldi karlmanna gegn konum í krafti aflsmuna er ólíðandi.  Sem betur fer hafa miklar framfarir orðið í okkar menningaheimi á þessu sviði undanfarna áratugi, en betur má ef duga skal. Kristilegt gildismat er mikilvæg stoð í þeirri vegferð og því ekki rétt að draga úr því uppeldislega mikilvægi sem það hefur en nú gerist í skólum höfuðborgarinnar.


Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 6
  • Sl. sólarhring: 29
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 283756

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband