Bloggfærslur mánaðarins, október 2011

Grein í Fiskifréttum

 

Sjávarútvegur - undirstaða atvinnulífs

Guyamas SonoraUndirritaður dvaldi um árabil í Mexíkó þar sem hann starfaði við uppbyggingu á stóru sjávarútvegsfyrirtæki.  Á sama tíma gafst tækifæri til að kynnast starfsemi bandarískra fyrirtækja í bílaiðnaði og bera saman ólíka aðferðafræði við stjórnun og starfsmannahald.  Í fiskvinnslunni var starfsmannavelta um 70%, fólk var rekið áfram af verkstjóra sem stjórnaði því með harðri hendi við erfiðar og óþrifalegar aðstæður.  Starfsöryggi var ekkert og engin starfsþjálfun, enda gæðavandamál í framleiðslu viðvarandi.  Í bílaiðnaðinum var starfsmannavelta um 2%, enginn verkstjóri gekk um gólfin en fólkið fékk hinsvegar mikla starfsþjálfun sem dugði til að kenna þeim starfið til hlítar. 

Ánægðir starfsmenn borga sig

Það var augljóst að starfsfólki leið vel, var ánægt með starf sitt og skilaði því svo vel að gallatíðni var 0% í framleiðslunni.  Ýmsar þarfir voru uppfylltar; íþróttaaðstaða fyrir börn starfsmanna, hádegismatur framreiddur og reglulega boðið upp á skemmtanir og uppákomur með starfsmannafélaginu.  Það var ekki endilega af umhyggju sem Bandaríkjamenn komu betur fram við starfsmenn sína, heldur sú einfalda staðreynd að það borgaði sig.

Þó aðstæður hér á Íslandi séu betri en í Mexíkó þykir fiskvinnsla ekki aðlaðandi starfsgrein.  Um þriðjungur starfsmanna í fiskvinnslu á Íslandi eru af erlendu bergi brotinn, sem segir sína sögu um að Íslendingar vilja ekki vinna i þessari atvinnugrein.  Menntunarstig í greininni er lágt og ungt fólk sér ekki mikil tækifæri í sjávarútvegi.  Er þetta einhverskonar náttúrulögmál eða er hægt að breyta þessu?  Er ekki nauðsynlegt að laða að hæfileikaríkt og velmenntað fólk til starfa í undirstöðu atvinnugrein þjóðarinnar?  Getum  við lært af Bandaríkjamönnum á þessu sviði?

Á dögunum var haldin sjávarútvegsráðstefna þar sem kynntar voru stefnur og straumar í íslenskum sjávarútvegi; staða hans, tækifæri og ógnanir.  Meðal annarra var Helgi Anton Eiríksson forstjóri Iceland Seafood International með erindi undir heitinu  „Samkeppnisstaða íslenskra sjávarafurða - Er Ísland enn með forskot?" 

Íslenskur fiskur og þýskir bílar
bmwHelgi benti á árangur Þjóðverja í bílaiðnaði, en þrátt fyrir há laun í Þýskalandi hafa Þjóðverjar náð yfirburðastöðu á þessum markaði.  Neytendur eru einfaldlega tilbúnir að greiða hærra verð fyrir þýska bíla, sérstaklega ef þeir eru framleiddir í Þýskalandi.

Íslendingar eru stórveldi í sjávarútvegi og eru 17. umsvifamesta fiskveiðiþjóð heimsins með um 2% af framboði af villtum fiski sem skilaði okkur 220 milljarða tekjum 2010, tæpan helming af gjaldeyristekjum þjóðarinnar af vöruútflutningi.  Getum við náð árangri í sjávarútvegi eins og Þjóðverjar í bílaiðnaði?  Hvað þarf til að ná slíkum árangri sem myndi skila greininni miklum virðisauka og bæta verðmætasköpun þjóðarinnar?

Helgi telur að greinin þurfi að markaðasetja Ísland sem sjávarútvegsþjóð og fjárfesta í kynningu á íslenskum fiski.  Hann benti á að starfinu ljúki ekki eftir veiðar og frumvinnslu heldur þurfi að sinna markaðsmálum betur.  Nauðsynlegt sé að laða ungt vel menntað fólk í greinina ásamt því að bæta þjálfun og menntun starfsmanna.  Greinin þarf að ákveða hvert hún vill fara og hvernig á að komast þangað.

Eigum að vera bestir í heimi í fiski

Við þurfum gott starfsfólk í mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar og nota þann slagkraft sem yfirburðastaða á markaði veitir okkur til að borga betri laun í fiskvinnslu.  Sem betur fer eru kjör sjómanna góð í dag en þörf er á hæfu starfsfólki fyrir alla virðiskeðjuna, allt frá veiðum til neytenda.  Íslendingar eiga að vera bestir í heimi þegar kemur að veiðum, vinnslu og markaðssetningu á fiski.  Hærri laun í fiskvinnslu dreifa betur fiskveiðiarði, styrkja nærsamfélagið og gera hugmyndir um auðlindaskatt óþarfar.

Grundvöllurinn til að feta þessa braut er að viðhalda öflugu markaðshagkerfi við fiskveiðastjórnun og fylgja ráðleggingum Hafró við nýtingu auðlindarinnar.  Að hægt sé að gera langtíma áætlanir og tengja saman veiðar og markaðsstarf.   Staðla gæðakröfur fyrir íslenskan fisk og styðja við menntun, rannsóknir og þróun á sviði sjávarútvegs.  En fyrst og fremst þarf að stöðva þau niðurrifsöfl sem nú ríða röftum í íslenskri pólitík og vilja draga íslenskan sjávarútveg aftur að mexíkóskum aðstæðum. 


Góðar fréttir fyrir Djúpmenn

Halldór SigurðssonÞað eru góðar fréttir fyrir Djúpmenn að búið sé að heimila veiðar á rækju í Ísafjarðardjúpi.  Heimildin mun skila verðmætum fyrir samfélögin hér með veiðum og vinnslu á rækju og styðja við atvinnulífið.

Til eru þeir aðilar sem berjast með hnúum og hnefum gegn rækjuveiðum og telja að betra sem heima setið en af stað farið.  Seiðadráp muni kosta meira en það sem rækja skilar.  En treysta verður Hafró að meta slíkt, enda þeirra mat byggt á vísindalegum grunni.  Þeir aðilar sem á móti berjast gætu þó komið með athugasemdir um aðferðafræðina þar sem hámark fjöldi seiða má vera um 1000 stykki á hvert tonn rækju.  Hafa verður í huga að aðeins lítill hluti þessara seiða nær að vaxa upp í fullvaxta fisk hvort eða er.  Ekki hafa heyrst nein slík rök gegn rækjuveiðum og því á ekkert að taka mark á andstöðunni.

Við fögnum því að sjá rækjubáta sigla á sjóinn og halda í djúpið til að sækja björg í bú fyrir Djúpmenn.


mbl.is Rækja veidd á ný í Ísafjarðardjúpi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grikkland

 

Greece_FlagÞað getur verið gaman að upplifa heimsviðburð sem lifir í sögu framtíðar.  Bloggari var staddur í Aþenu sumardag 1974 þegar herforingjasjóninni var kollvarpað og lýðræði var komið á fót í framhaldinu.  Það gekk mikið á og allar götur voru fullar af fólki sem gekk um og mótmæltu kúgurum sinum til áratuga.  Grikkland hafði reyndar verið „öruggt" land þar sem ekki þurfti að óttast rán eða annað ofbeldi á götum landsins.  Fyrir ungt fólk með takmörkuð fjárráð var ekki vandamál að sofa í almenningsgörðum  undir stjörnubjörtum himni suðurlanda.

Eitt atvik er þó eins og meitlað inn í huga bloggara þegar rætt var við flugvirkja frá Olympus Airways undir bjórglasi á kaffihúsi.  Hann var að lýsa ógnarstjórn fasista og hvíslaði orðunum út úr sér, dauðhræddur um að einhver væri að hlusta sem gæti sagt yfirvöldum frá.  Jú Grikkland var öruggt fyrir unga erlenda ferðamenn, en ekki fyrir íbúana sem bjuggu við sífellt eftirlit og kúgun stjórnvalda.

Lýðræðið hefur verið Grikkjum mikilvægt en Adam var ekki lengi í Paradís.  Við tók víðtæk pólitísk spilling sem sprungið hefur framan í þjóðina síðasta árið.  Eftir að hafa svindlað sér inn í evrusamstarfið með fölsun á hagtölum og skuldastöðu ríkisins, opnaðist þeim leið til að fjármagna allsherjar veislu sem nú verður að taka enda.  Timburmennirnir taka við og það er ekki glæsilegt um að lítast í grískum efnahagsmálum þessa dagana.

Síðan Grikkland varð lýðræðisríki 1974, hefur opinberum starfsmönnum fjölgað kerfisbundið.  Ný stjórnvöld hafa i gegnum tíðina ráðið sitt fólk í vinnu, án þess að nokkur þörf væri fyrir það í opinberri þjónustu.  Stjórnmálamenn hafa síðan verið ósínk á bónusa og launahækkanir ásamt því að semja um hagstæðar eftirlaunagreiðslur.  Ríkið útdeildi síðan gæðum eins og réttinum til að reka flutningabíla og lögfræðistofur sem síðan erfast til næstu kynslóða.  Gríðarleg sóun er í landinu og dæmi um að ríkisstofnun með ellefu starfsmenn borgi US$ 750.000 fyrir skrifstofuaðstöðu.  Stór hluti starfsmanna þingsins i Aþenu sér ekki ástæðu til að mæta til vinnu, enda ekki pláss fyrir þá í vinnunni hvort eða er. 

Skriffinnar í Grikklandi er fimmtungur alls vinnuafls í landinu, ekki sæist högg á vatni þó þriðjungi þeirra vær sagt upp.  Þetta rugl hefur verið byggt upp undanfarna áratugi.  Við hverjar kosningar eru ríkisstarfsmenn notaðir við kosningavinnu flokkana og fjöldi þeirra er ótrúlegur og má segja að einn leynist í hverri fjölskyldu.

Grísk stjórnvöld hafa talað er um að segja upp 30.000 ríkisstarfsmönnum, og verður það að teljast hógvært miðað við að það er aðeins um 4% af fjölda þeirra og hér er að mestu verið að tala um fólk sem komið er að starfslokum vegna aldurs hvort eða er.  Um 700 þúsund ríkisstarfsmenn eru í Grikklandi, auk 80 þúsunda í viðbót sem vinna fyrir ríkisfyrirtæki. Fjöldi þeirra hefur þrefaldast á þrjátíu árum.  Reyndar  vissu Grísk stjórnvöld ekki hver fjöldi ríkisstarfsmanna var fyrr en síðasta ár, en þá fór fram talning á þeim. 

Önnur hlið er á peningnum þar sem allir ríkisstarfsmenn eru æviráðnir og því ólöglegt að segja þeim upp.  Eitt aðalstarf þeirra er að skrá móttöku á skjölum og pappírum og raða þeim í möppur.  Engu líkara er en ekki sé búið að finna upp tölvu eða netpóst í Grikklandi.

Skattheimtumenn hafa verið á hægagangi undanfarið misseri, vegna hótana um uppsagnir og lækkun launa.  Skattar eru því illa innheimtir og lítið um eftirlit með skattheimtu.  Skilaboðin eru skýr frá hagsmunasamtökum þeirra; hægagangur mun halda á meðan hótun um uppsagnir vofa yfir skattheimtumönnum.  Reyni ríkið að „laga" til munu verða eftirköst; verja verður mannlega þáttinn, segja talsmennirnir. 

En verði af uppsögnum er ekki víst að rétta fólkinu verði sagt upp.  Dæmi er um að fólk með einstaka menntun og hæfileika missi vinnu hjá ríkinu meðan aðrir haldi því.  Dæmi eins og flugumferðarstjóri sem nýlega hafði aflað sér dýrmætrar þekkingar í Bandaríkjunum, þekkingu sem mikil þörf er fyrir í Grikklandi, var sagt upp, en á sama tíma voru 15 flugmenn í vinnu hjá flugumferðastjórn til að fljúga tveimur flugvélum.

Er einhver von til þess að Grikkir geti tekið til hjá sér og mætt skilyrðum Evrulanda til að veita þeim fjárhagsaðstoð?  Þrennt stendur þó upp úr í þessu öllu saman: 

  • 1. Grikkir mun verða fátækari en Þjóðverjar í framtíðinni. Engin evra getur breytt því.
  • 2. Lánadrottnar eiga skilið að fá skell fyrir vitlausar ákvarðanir með ofurtrú á pólitískar yfirlýsingar.
  • 3. Reiði Þjóðverja er skiljanleg, enda óréttlátt að þeir greiði fyrir ruglið í Grikklandi með skatttekjum sinum.

Byggt að hluta á á NYT


Áhrifamikið fólk

Það er ótrúlegt hvað þessi skötuhjú hafa mikinn kynngikraft.  Hversu oft eru þau búin að gefa út yfirlýsingar sem hækka hlutabréfaverð um allan heim?  Eftir hrun í kauphöllum i nokkra daga koma þau með yfirlýsingu, reynda alltaf þá sömu aftur og aftur, og viti menn bréfin hækka!

Stundum dettur manni helst í hug að fjárfestar séu alger fífl!  Að minnsta kosti ef litið er til virkni markaða.  Þessar yfirlýsingar skötuhjúanna breyta auðvitað engu um eðli málsins og leysa alls ekki vandan.  Grikkir eru áfram latir og spilltir og eru ekki tilbúnir til að taka til hjá sér.  Þeir trúa því að þetta leysist allt af sjálfu sér.  Kannski trúa þeir því að yfirlýsingar töfradúettsins dugi til að gera allt gott aftur. 

Vandinn er skuldsetning ríkja og að þjóðir vesturlanda hafa lifað um efni fram.  Eins og Íslendingar gerðu fyrir hrun, þá hafa Grikkir, og fleiri, tekið lán til neyslu.  Lán sem þeir geta aldrei greitt til baka og bankarnir sem hafa lánað eru í raun allir gjaldþrota.  Yfirlýsingar forystumanna Frakka og Þjóðverja breyta engu um þessa bláköldu staðreynd.


mbl.is Reiðubúin að samþykkja stækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnir svolítið á Ísland

Nú ætla Úkraníumenn að feta sömu leið og stjórnvöld á Íslandi og draga fyrrverandi leiðtoga til saka fyrir pólitískar ákvarðanir stjórnvalda.  Sennilega eigum við ekki heima í ESB, enda gera menn þar lágmarkskröfur um réttarríkið.  Hér standa Íslenskir ráðamenn fremstir í flokki ofbeldisfólks og aðstoða við árás á Alþingi.  Síðan er gengið eins langt og mögulegt er að koma í veg fyrir að ofbeldisfólkið fari fyrir dóm.  Ég held að við sláum Úkraníubúum við.
mbl.is Úkraína í flokk einræðisríkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frelsi einstaklingsins

Það er ömurlegt að sjá hvernig þrengt er að einstaklingsfrelsi vegna hryðjuverkaógnar.  Bloggari minnist þess þegar hann þvældist út á götu frá vinnustað sínum í Kampala og byrjaði að mynda boda-boda (smellitíkur sem notaðar eru sem leigubílar).  Tók ekki eftir því að handan götunnar var Bandaríska sendiráðið með aðstöðu, og nota bene; skilti út um allt að bannað væri að taka myndir.  Þetta kostaði fjóra tíma í varðhaldi undir eftirliti vopnaðs öryggisvarðar.

En það var í Afríku en að þetta geti gerst í verslunarmiðstöð í Skotlandi er önnur saga.  Bloggara skilst að það séu miklu meiri líkur á að vinna fyrsta vinning í Víkingalottói en að verða fyrir hryðjuverkaárás. 


mbl.is Mátti ekki taka myndir af dóttur sinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 23
  • Sl. sólarhring: 23
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 283750

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband