Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Sólarkaffi í Reykjavík

 

Maður þarf eiginlega áfallahjálp eftir að hafa farið á Sólarkaffi Ísfirðingafélagsins og maður áttar sig á því hvernig elli-kerling nagar í hælana á manni.  Sumir breytast reyndar lítið en aðrir eldast og að sjálfsögðu maður sjálfur með. 

En það er huggun harmi gegn, ef elli er yfir höfuð einhver harmur, að hitta skólafélagana af 54 árgangi og sjá að þeir breytast ekki neitt.  Stelpurnar allar jafn sætar, geislandi af fjöri og galsa eins og tíminn standi í stað.  Strákarnir sömu prakkararnir og sem púkar í skóla og fjall-myndarlegir.  Ég hitti reyndar Sigga blóma þarna og grunar að hann sé að gefa þeim Grænu Þrumuna sem hann framleiðir úr grösum tíndum undir Skarði á Snæfjallaströnd.  Best að heimsækja hann í sumar og komast í áskrift hjá honum.  Svo ég falli betur inn í 54 hópinn ásamt því að bæta þrekið á ákveðnum sviðum.

Sirra Gríms fór á kostum en þetta var eins og mannsævi á jarðfræðilegum tíma.  Örlítil sekúnda af lífi Grímsara, en tók samt klukkutíma.  Hún gæti haldið á vikum saman án þess að manni færi að leiðast.

Ég velti því fyrir mér með 54 árganginn hvernig allir þessir grallarar komust fyrir?  Sennilega þess vegna sem maður hafði sig lítið frammi og draup ekki af manni í skólanum.  Kannski eins gott því varla hefðu kennararnir þolað meir en þeir fengu.  Þó ég hefði nú ekki verið óþekkur líka!

Árið 2011 eru fjörutíu ár síðan þessi fríði útskrifuðust sem gagnfræðingar.  Ég var reyndar skilin eftir með Nonna Gríms með 55 mótelinu, en aldurlega áttum við að útskrifast líka árið 1971.   


Nú er bleik brugðið

Þetta kemur nú frekar spænskt fyrir sjónir þegar okkar fólk talar gegn einkavæðingu og furðulistinn með Samfylkingu í borgarstjórn talar fyrir henni.  Sérstaklega með umræður undanfarið í huga, og þá vísar bloggari til málefna HS orku.

Bloggari er frjálshyggjumaður og styður því einkaframtak fram yfir ríkisafskipti.  En málið er ekki svona einfalt og skoða verður málin í víðara samhengi.  Grundvöllur markaðsbúskapar þar sem framboð og eftirspurn ræður verðmyndun, er samkeppni.  Það þýðir ekkert að tala um einkarekstur nema hann sé í samkeppnisumhverfi.  Einokunarfyrirtæki eru því betur geymd í eigu ríkis eða sveitarfélaga, því menn reka ekki fyrirtæki á góðmennsku, heldur til að hámarka hagnað sinn.  Þannig notum við þá krafta sem búa í einstaklingum til að hámarka framleiðni, að framleiða sem mest, fyrir sem minnst, í SAMKEPPNI við aðra.

Þó stuttbuxnadrengir sem telja sig vera frjálshyggjumenn telji að allt sé hægt að reka með markaðsbúskap og einkarekstri, þá er það ekki svo.  Þessir guttar koma óorði á frjálshyggjuna, eins og róninn á brennivínið.  Lögreglan verður ekki einkavædd frekar en hernaður, sem rækilega hefur sýnt sig t.d. í tilraunum bandaríkjahers við einkavæðingu hernaðar í Írak.  það er ekki hægt að ímynda sér samkeppni í hernaði eða löggæslu.  Eða hvað?

Við verðum að hafa þetta í huga þegar við tölum um markaðabúskap og einkavæðingu.  Ekki verður séð hvernig samkeppni gæti ráðið við sölu á heitu vatni í R-vík.  Varla á raforkunni þó smásala eigi að vera í samkeppni, svona að nafninu til.  Þetta er vandamál örríkisins Íslands, sem er eins og lítið hverfi í London.  Fákeppni og einokun og erfiðleikar á að nýta sér samkeppni til að bæta lífskjör fólks í landinu.  Framleiða meira fyrir minna, öllum til góðs.

Gott dæmi um samkeppni er kvótakerfið þar sem við notum hana til að ákvaða hverjir fái að nýta fiskveiðiauðlindina.  Þann dag sem stjórnmálamenn og ríkisvaldið handvelur þá sem nýta eiga fiskveiðiauðlindina er hagkvæmnin rokin út í veður og vind.  En það gengur ekki að nota markaðsbúskap án samkeppni.


mbl.is Ummælin eru með ólíkindum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvótinn í hnotskurn

 

Skriplað á skötunni

Í heitum umræðum um hjartans mál er hætt við að maður skripli á skötunni, ef ekki er varlega farið.  Í grein undirritaðs frá síðustu viku henti það einmitt þar sem rangt var farið með nokkrar staðreyndir varðandi fiskvinnslu á Flateyri.  Höfundi er það ljúft og skylt að leiðrétta það og er það hér með gert.

Í fyrsta lagi varð höfundi á varðandi Hjálm h/f að honum hafi þrotið örendið á níunda áratug síðustu aldar, en það rétta er að það gerðist á þeim tíunda.  Reyndar var hér um kaufaskap að ræða þar sem höfundi var þessi staðreynd ljós en misfór með áratug.

Kambur h/f

Frásögn af Kambi á Flateyri hefði mátt vera nákvæmari og í sumum tilfellum réttari.  Hinrik Kristjánsson og Steinþór Kristjánsson keyptu fiskvinnslu Básafells á Flateyri eftir kaup Guðmundar Kristjánssonar, frá Rifi, á fyrirtækinu.  Um nýliðun í greininni var að ræða þar sem enginn kvóti fylgdi með í kaupunum og því var byrjað með hreint borð.  Í upphafi var treyst á kaup á fiskmörkuðum ásamt beinum viðskiptum við útgerðarmenn og leigu á aflaheimildum.  Í framhaldi var byrjað að kaupa skip með veiðiheimildir en vinnsla fyrirtækisins náði hámarki árið 2006, með 7 þúsund tonna vinnslu.  Aðeins hluti var af eigin skipum en restin var keypt af öðrum aðilium.  Á þessum árum var töluvert framboð af leigukvóta og framboð á fiskmörkuðum mikið.

Þegar sala á Kambi var ákveðin 2007 var mikið framboð á ódýru fjármagni og kvótaverð í himinhæðum.  Á næsta fiskveiðiári dróst aflamark í þorski saman um 33% sem gjörbreytti starfsumhverfi fiskvinnslu eins og á Flateyri, sem byggði að miklu leyti á kaupum á markaði og leigu aflaheimilda.

Samkeppni eða ríkisforsjá

Með þetta í huga má taka undir orð varaformanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis, að málefni Flateyrar sýni kvótakerfið í hnotskurn.  Í miklum samdrætti aflaheimilda þarf að draga vinnslu saman.  Ef stjórnmálamenn myndu ráða för myndu þeir nota „réttlæti" við niðurskurðinn, en ekki hagkvæmni.  Guð einn má vita hvað það réttlæti er! 

Í rauninni er það fullkomlega eðlilegt, og þó sársaukafullt, að þeir sem veikari standa, með minni aflaheimildir og verri fjárhagslega stöðu, gefist upp við mikinn samdrátt.  Með aflahlutdeildarkerfinu er það markaðurinn sem ræður hver veiðir hvað, hvar, hvernig og hvenær.  Í því er fólgin hagkvæmni íslensks sjávarútvegs, sem skilar þjóðinni arði af sjávarauðlindinni.  Markaðurinn er í sjálfu sér miskunnarlaus, en hann er sanngjarn og fer ekki í manngreiningarálit.  Hann horfir til þess hver stendur sig best og þangað leitar framleiðslan.  Reyndar þarf að tryggja almennar leikreglur til að tryggja samkeppnina, sem er forsenda markaðsbúskapar. 

Rétt er að hver spyrji sig að því hvernig stjórnmálamenn myndu standa að ákvörðunum sem taka á slíkum sveiflum í sjávarútveg.  Hvort sem sveiflan er niður eða upp.  Er líklegt að þeir gætu tekið skynsamar ákvarðanir um það hver ætti að veiða, hvaðan, hvernig og hvenær?  Er líklegt að friður myndi ríkja um slíkar ákvarðanir? 

Það sem eftir stendur í þessari umræðu er að Íslendingar hafa ekki efni á reka sjávarútveg á félagslegum grunni eins og ESB.  Ef Íslendingar vilja halda uppi lífskjörum þurfa þeir að reka sjávarútveg á viðskiptalegum forsendum og hámarka arðsemi úr sameiginlegri auðlind sinni, fiskimiðunum. 


Grein í BB um Flateyri og kvótann

Krossriddarar

Krossriddarar gegn kvótakerfinu fara mikinn þessa dagana og flest telja þeir málstað sínum til framdráttar, nú síðast raunarleg staða Flateyringa við gjaldþrot fiskvinnslunnar Eyrarodda.  Þeim dugar að slá fram frösum eins og „Guggan var gul" en lítið ber á rökum eða hlutlægri umræðu.  Rétt er að benda á nokkrar staðreyndir þessa máls og reynt að skauta eins og mögulegt er fram hjá tilfinningum eða pólitískum skoðunum.  Og í upphafi vill höfundur taka því fram að hann hefur engra hagsmuna að gæta í sjávarútvegi, annarra en að vera Íslendingur, og fyrst og fremst íbúi í sjávarþorpi á Vestfjörðum.

Kvótakerfið

Kvótakerfið var sett á 1984 eftir gengdarlausa aukningu í sóknargetu flotans, langt umfram veiðiþol fiskistofna.  Um pólitísk mistök var að ræða þar sem stjórnvöld stóðu fyrir stórfeldum innflutningi skuttogara.  Árið 1981 náði þorskafli Íslendinga nýjum hæðum, rúmlega 460 þúsund tonnum, þrátt fyrir að vísindamenn okkar hefðu birt hina svokölluðu „svörtu skýrslu" um slæmt ástand fiskistofna.  Í krafti aukinnar sóknargetu var 460 þúsund tonna afla náð, en þessum miklu veiðum fylgdi sóun með kostnaði og slæmri meðferð afla.  Tap útgerðar var mikið og endalausar gengisfellingar höfðu dunið yfir þjóðina til að reyna að rétta afkomuna af.  Við þessar aðstæður var kvótakerfið sett á og í því fólst að útgerðin fengi nýtingarréttinn og tækju við þeim beiska kaleik að skera niður skipastólinn á sinn kostnað.  Það var hinsvegar ekki fyrr en 1990 að framsal var leyft að kvótakerfið fór að skila hagsæld í íslenskum sjávarútveg, þökk sé Jóhönnu Sigurður og Steingrími J. fyrir þá ákvörðun en þau sátu í ríkisstjórn á þessum tíma.  Rétt er að geta þess að kvótakerfið hefur ekkert með heildarveiði að gera og ekki sett til að efla veiðistofna.  Það geta allir kynnt sér ef þeir lesa um upphaf og tilurð kvótakerfisins.  Til að árétta þetta er hér birt orð Steingríms Hermannssonar frá upphafi níunda áratugar síðustu aldar, úr bók um Gunnar Thoroddsen, en rétt að halda því til haga að Steingrímur var aldrei mikill kvótamaður.

„Áköf sókn í auðlindina olli líka vandræðum. Sigrar í landhelgismálum höfðu ýtt undir þá bágbilju að nú gætu Íslendingar stundað sjóinn einir af eins miklu kappi og þeim væri frekast unnt. Í öllum sjávarplássum kröfðust menn fleiri báta og fleiri skipa og ætíð var hátíð þegar nýr togari sigldi inn fjörðinn. Fáir láðu fólki að vilja vinna á heimaslóðum og byggja upp blómlegt samfélag en grundvöllurinn var ekki fyrir hendi. Þegar á heildina var litið voru ofveiði og offjárfesting að sliga útveginn. Þetta vissu ráðamenn en að vinda ofan af vandanum var hægara sagt en gert" (bls. 513)

Með kvótakerfinu var nýtingarrétturinn settur í samkeppnisumhverfi samkvæmt markaðsbúskap.  Þeir sem best myndu standa sig fengju að veiða, og þeir sem síður gerðu það myndu gefast upp.  Þetta er grundvallaratriði til að mynda fiskveiðiarð sem þjóðin þarf nauðsynlega að fá út úr sinni mikilvægustu atvinnugrein.  Hinn möguleikinn var að láta stjórnmálamenn ráða því hvað yrði veitt, af hverjum, hvenær og hvernig.  Reyndar hafa stjórnmálamenn verið með puttann í þessu frá upphafi, í nafni réttlætis og sanngirni, en allt það brölt hefur kostað sjávarútveginn og þjóðina mikla fjármuni.

Aðgangur að auðlindinni

Frá árinu 1981 til dagsins í dag hefur þorskveiði dregist saman um rúmlega 60%, niður í tæplega 180 þúsund tonn.  Farið hefur verið eftir ráðleggingum fiskifræðinga og veiðar skornar niður til að styrkja veiðistofna, enda mun það borga sig margfalt til baka í framtíðinni.  Stærri stofn skilar ekki bara meiri afla, heldur verður kostnaður á sóknareiningu miklu minni og þar af leiðir arður af greininni.  Hinsvegar skyldi engan undra að við slíkan samdrátt taki einhverstaðar í og skapi erfiðleika hjá þeim byggðum sem treyst hafa á veiðar úr þessum stofnum.  Þrátt fyrir það hafa margir nýir aðilar komið inn í greinina og með nýjum aðferðum og mörkuðum komið sér fyrir með uppkaupum á aflaheimildum frá öðrum sem ekki hafa náð að fóta sig í samkeppninni.  Hér er nauðsynlegt að halda því til haga að alltaf verður nauðsynlegt að takmarka aðganginn að auðlindinni, hvort sem það er gert með markaðsbúskap (aflahlutdeildarkerfi) eða með þjóðnýtingu (ríkisforsjá).  Þeir sem ekki skilja umræðu um takmörkun á sókn í endurnýjanlega auðlind, geta ekki gert sig gildandi í þessari umræðu.

Flateyri

Saga Flateyrar er ekki áfellisdómur yfir kvótakerfinu, þó andstæðingar þess noti tækifærið málstað sínum til framdráttar.  Á níunda áratug síðustu aldar þraut Hjálmi h/f örendið og við rekstrinum tók Hinrik Kristjánsson, en kvótinn og togarinn fóru til Ísafjarðar.  Hinrik sameinaðist Básfelli h/f, í upphafi nýrrar aldar, en dró sig út úr því samstarfi og stofnaði fyrirtækið Kamb h/f um reksturinn á Flateyri.  Mikið var keypt af aflaheimildum sem fluttar voru frá öðrum landshlutum til Ísafjarðarbæjar.  Þrátt fyrir stór orð um samfélagslega ábyrgð ákvað Hinrik að selja allan kvótann, sem hafði hækkað í verði á þessum tíma, þar sem ódýrt fjármagn flæddi nú yfir alla bakka.  Taumleysi í fjárfestingum og áhættusækni hækkaði kvótaverð úr öllu samhengi og mönnum var lánað til þessara kaupa án mikillar fyrirhyggju.  Kaupendur voru aðallega fyrirtækin Hraðfrystihúsið Gunnvör og Álfsfell í Ísafjarðarbæ og Jakob Valgeir í Bolungarvík.  Allt eru þetta fyrirtæki í eigu aðila sem komið hafa inn i sjávarútveg eftir kvótasetningu og töldu sig þurfa meiri aflaheimildir fyrir reksturinn.

Í stuttu máli fer Flateyrarkvótinn fyrst til Ísafjarðar.  Síðan er keyptur nýr kvóti frá öðrum landshlutum til þorpsins, og að lokum er sá kvóti seldur innanbæjar og til Bolungarvíkur.  Ekki skal gert lítið úr þeim erfiðleikum sem Flateyringar standa frammi fyrir í dag og eiga þeir alla samúð höfundar.  Það er hinsvegar vonlaust að tryggja að aflaheimildir haldist óbreyttar um aldur og ævi.  Hvaða kerfi sem sett verður á mun ekki geta tryggt óbreytt ástand á öllum stöðum.  Enda viljum við það alls ekki því það myndi einfaldlega koma í veg fyrir eðlilega þróun og algerlega útiloka nýliðun í greininni.  Gamli tíminn þar sem ein fjölskylda átti nánast öll atvinnutæki í bænum verður ekki grátin hér og ekki talin eftirsóknarverður.

Fiskveiðiarður

Mikil þróun hefur átt sér stað í Íslenskum sjávarútvegi frá kvótasetningu og sérstaklega eftir að framsal var heimilað.  Skipum hefur fækkað og þrátt fyrir niðurskurð í aflaheimildum hefur arðsemin aukist mikið þar sem framlegð hefur farið úr 5% í 25% á þessum tíma.  Talið er að 15% framlegð þurfi til að skila útgerðinni á núlli.  Staðir sem liggja vel að veiðum eins og Bolungarvík hefur verið að sækja í sig veðrið og er það gott.   Í fiskvinnsluhúsunum hefur starfsmönnum fækkað um helming með betri tækni, bættu skipulagi og nýjum mörkuðum.  Sjávarútvegur á ekki að fjölga störfum í greininni, heldur þvert á móti að bæta framlegð og arðsemi.  Með aukinni arðsemi munu skapast afleidd störf hjá fyrirækjum eins og t.d. 3X Technolgy, sem hefur það að markmiði sínu að fækka störfum í fiskiðnaði með bættri tækni.  Það er hinsvegar ekki nóg að skapa arð af fiskveiðum heldur þarf hann að dreifast með sanngjörnum hætti til eigenda auðlindarinnar, íslensku þjóðarinnar.  Það er umræða morgundagsins.


Ofbeldisfólk

Það er með ólíkindum hvernig sumir fjölmiðlar og þingmenn afgreiða þetta mál, að verið sé að brjóta á níumenningunum.  Hafi þetta fólk ekki verið vísvitandi verið að brjóta lög, hvers vegna í ósköpunum var það með andlit sitt þá hulið?  Fyrir hverju ver verið að hylja andlit sitt og ef þeim gekk bara gott eitt til og ekki hafi staðið til að brjóta lög, hversvegna að koma í veg fyrir að þau þekktust?

Á sakamannabekkinn vantar þingmenn sem tóku fullan þátt í aðförinni að Alþingi.

Viðbrögð þingmanna og ráðherra sem gera lítið úr þessu og allt í einu var þetta ósköp menlaust og jafnvel bara fyndið.  Lögreglumönnum og þingmönnum sem slösuðus í átökum við Alþingishúsið þennan dag, er örugglega ekki jafn vel skemmt og utanríkisráðherra.

Það er alvarlegt mál að ráðast á alþingi með ofbeldi.  Það verður að taka á slíku fólki sem það gerir.  Skorti ákæruvaldinu hinsvegar sannanir um hverjir voru þarna að verki, er ekkert við því að segja.  Fólkið verður þá sýknað þar sem ekki er hægt að sanna glæpinn, sem sannarlega var framinn.  Engin vafi má vera á um að réttu fólki sé refsað.

Þannig treystir bloggari fullkomlega réttarfarin á Íslandi.  Það er hinsvegar með ólíkindum að þingmenn, ráðherrar og jafnvel heilu stjórnmálaflokkarnir séu að hlutast til um starfsemi dómsmála og reyna að hafa áhrif á dómsvaldið í landinu.  Það er bara þegar þessu fólki hentar sem talað er um þrískiptingu valdsins.  Þess á milli vill þetta fólk alræði stjórnmálamannsins.  Það er ekki að ástæðulausu sem gerð eru klár skil á milli löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds.  Dómarar og ákæruvald, með aðkomu verjanda, þurfa frið til að klára mál eins og þetta.  Það á ekkert erindi inn á ræðustóla Alþingis.


mbl.is Saksóknari sagði um fyrirfram ákveðna árás að ræða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gordon Brown í Mogganum

Gordon Brown birtir merkilega grein í Mbl þriðjudaginn 11. janúar þar sem hann veltir fyrir sér stöðu vesturlanda í heimsbúskapnum og möguleika þeirra til að viðhalda þeim lífskjörum sem íbúar þeirra hafa búið við undanfarna áratugi, langt umfram restina af heiminum.  Vesturlandabúar eru innan við 10% af íbúum jarðarinnar en hafa framleitt meirihluta útflutnings og fjárfestinga heimsins.  Bandaríkjamenn eru að tapa forystuhlutverki sínu í viðskiptum á heimsvísu til Kínverja en tækifæri vesturlanda liggja einmitt í efnahagslegum uppgangi þar í landi.  Brown talar um neytandabyltinguna í Asíu þar sem millistéttin er að þenjast út með vaxandi kaupmætti sem gefi framleiðendum mikið tækifæri í framtíðinni.

Til að nýta þetta tækifæri þurfi vesturlönd að semja efnahagsáætlun sem væri ennþá áræðnari en Marshall-áætlun síðustu aldar.  Endurvekja ameríska drauminn með því að tryggja frjálsa heimsverslun, koma í veg fyrir einangrunarstefnu ríkja og byggja upp menntun sem muni örva vísindi, þekkingu og nýsköpun.  Til þessa þurfi sameiginlegt átak vesturlanda undir forystu Bandaríkjamanna.

Á sama tíma hrópa heimóttalegir stjórnmálamenn uppi á Íslandi á einangrun Íslands og afskiptaleysi gagnvart nágrönnum okkar í Evrópu.  Kannski að Brown hafi miskilið þetta og stað þess að tala um vesturlönd og Asíu sem tvo mikilvægustu póla heimsverslunnar ætti að bæta Íslandi við sem þeim þriðja.

Málið er að Ísland er örríki sem enga möguleika á að þróast eitt og sér.  Við búum þegar við gjaldeyrishöft og laskaðan gjaldmiðil og þjóðinni hefur aldrei tekist að reka heilbrigða peningamálastefnu.  Hagsveiflurnar eru hrikalegri en öldurót Atlantshafsins þar sem hrun á síldarstofni dregur okkur inn í kreppu og bygging orkuvers, Búrfellsvirkjun, skýtur okkur upp á stjörnuhiminn.  Við höfum búið við óðaverðbólgu sem náð hefur þriggja stafa tölu þar sem sífeldar gengisfellingar voru notaðar sem meðal við óstjórn í efnahagsmálum, venjulega til að bjarga mikilvægustu framleiðslugreininni, sjávarútvegnum.

Tvær ákvarðanir í efnahagsmálum standa þó upp úr í áranna rás, sem haft hefur verulega góð áhrif á lífskjör Íslendinga; kvótakerfið og inngangan í EES.  Kvótakerfið skapaði arðsaman sjávarútveg sem gerði endalausar gengisfellingar óþarfar og EES færði okkur viðskiptafrelsi og bætti stjórnsýsluna en hvoru tveggja færði okkur lengra inn á braut markaðshagkerfis.  Loksins náði þjóðin að sækja á í lífskjörum sem var samanburðarhæf við önnur vesturlönd.

Markaðshagkerfi og frelsi í viðskiptum er forsenda fyrir góðum lífskjörum þjóða.  Það þarf að nota samkeppni, þar sem henni verður komið við, til að ákveða hvað skuli framleiða, af hverjum, hvenær og fyrir hverja.  Verðmyndun þarf að vera á markaði þar sem því verður við komið og alþjóðlegt samstarf dregur úr fákeppni og einokun á þeim örmarkaði sem við búum við.  Íslendingar þurfa þjóða mest á náinni efnahagslegri samvinnu við nágranaþjóðir að halda til að byggja upp velsæld og lífskjör.

Það  skýtur skökku við á sama tíma og Brown talar um nauðsyn þess að Evrópa og BNA vinni saman til að ná árangri til framtíðar fyrir þjóðir vesturlanda, að á Íslandi skulu menn tala um nauðsyn einangrunar og geri allt til að tortryggja ESB og það sem sambandið stendur fyrir.  Eitt að því sem er áberandi í umræðunni, sérstaklega í Mbl, er Þórðargleði yfir vandræðum evrunnar og er það notað til að hræða landann frá hugmyndum um inngöngu í Evrópusambandið og taka upp evru sem gjaldmiðil.

Hvað þá umræðu varðar er rétt að benda á að hrynji myndbandalag ESB myndi það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir allan heiminn, sérstaklega vesturlönd.  Ef  hinum svokölluðu svínalöndum (PIGS) verður ýtt út úr myndsamstarfinu, eða Þjóðverjar gengju úr því, gæti það skapað fjöldagjaldþrot hjá bönkum um allan heim og hruni hagkerfa heimsins.  Engin von er til þess að Íslandi yrði haldið utan við það öldurót sem þar myndi skapast, og ætti sér engin fordæmi í sögunni.  Þjóðir Evrópu verða að vinna saman til að leysa vandamál skuldsettra ríkja, en trilljóna dollara skuldir vofa yfir sem skuldarar geta ekki greitt. 

Brown segir í lokin að eina leiðin fyrir heimsbyggðina sé sameiginlegt átak G-20 ríkja til að örva hagvöxt með verslun og framleiðslu.  Að vesturlönd megi ekki deila um gjaldmiðla og viðskipti og leita í skjóls verndarstefnu sem aldrei hefur gagnast neinum.  Verndarstefna er það versta sem hægt er að hugsa sér í þeim erfiðleikum sem við blasa.  Það er góð lexía fyrir heimóttalega Íslendinga.


Hárrétt ábending

Þetta er alveg rétt ábending hjá Bjarna.  Það er nákvæmlega ekkert athugavert við að bandarísk yfirvöld rannsaki þessi mál.  Það er annað sem ég tók eftir í fréttum undanfarna daga og haft var eftir Össuri utanríkisráðherra og Ögmundi innanríkisráðherra; að Birgitta væri kjörin fulltrúi á Alþingi Íslendinga og þess vegna væru aðgerðir Bandaríkjamanna ósvinna.  Hvað eiga þessir menn við?  Að ef hún er alþingismaður að þá sé hún friðhelg?  Að hún megi þá brjóta lög ef hún er alþingismaður og sé í utanríkismálanefnd?  Notaði hún upplýsingar þaðan við athafnir sínar?  Ef ekki hvað kemur það málinu þá við?

Stutt er síðan fjölmennur fundur VG ályktaði um að dómsmálaráðherra hlutaðist til um að ákæra saksóknara gegn níumenningunum, óþjóða- og ofbeldislýð, yrði feld úr gildi.  Sem sagt að framkvæmdavaldið tæki fram fyrir hendurnar á dómsvaldinu.  Engum fundarmanna datt í hug að neitt athugavert væri við slíkt, ekki heldur innanríkisráðherranum (dómsmálaráðherranum) sem var á þessum fundi.  Skyldi þetta vera sama fólkið sem gengur nú fram fyrir skjöldu og talar um réttaríki og réttlæti?

 


mbl.is Bandaríkjamenn beita lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstir stjórnir

Að vera eða vera ekki,

William Shakespeare spurði forðum.

Að vera og að vera ekki

er vinstri stjórn í fáum orðum

Gunnar Thor


mbl.is Skammast og vilja aga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gunnar Thoroddsen

Bloggari er að ljúka við eina bestu bók sem hann hefur lesið um ævina, Gunnar Thoroddsen, eftir Guðna Th.  Bókin er hafsjór af fróðleik um stjórnmál á öndverðri öld, þar sem kristallast íslensk stjórnmálamenning og það ólán sem skotgrafastjórnmál hafa leikið þjóðina illa.

Eins og í dag hafa stjórnmálamenn ekki skilið út á hvað lýðræði gengur, þar sem stefna er mótuð og samkomulagi náð um leiðir þangað.  Til þess eru stjórnmálaflokkar einmitt vel fallnir, þar hittist fólk með svipaðar lífskoðanir, ræða málin, setja stefnuna og ákveða leiðina og aðgerðir til að komast þangað.  Ekki geta allir verið sammála, en mikilvægt er að menn séu nokkuð sammála um hvert skuli halda.  Átökin ættu svo að vera um hvaða leið skuli valin og hvort rétt sé að aka Krísuvíkurveginn eða þjóðveg eitt, og hvort rétt sé að nota jeppa eða fólksbíl.

Stjórnmálaflokkarnir ættu einmitt að snúast um að hópa saman fólki sem er sammála um hvert skuli halda og síðan að takast á við skipulagningu og ákvarðanir um ferðalagið.

Ekki verður séð að núverandi ríkisstjórn vinni eftir slíku samkomulagi og ekki nokkur leið að átta sig á áfangastað ferðalagsins.

Á sínum tíma á miklum erfiðleikatímum og við blasti efnahagshrun þar sem lífskjörum þjóðarinnar var ógnað.  Á sama tíma skalf hin pólitíska jörð vegna hipparæfils frá Frakklandi sem flúið hafði hingað í gegnum Danmörku.  Strák skarnið var landlaus og eftirlýstur frá Frakklandi fyrir liðhlaup og sóttist eftir pólitísku hæli hér á landi.  Guðrún Helgadóttir hótaði þá að sprengja ríkisstjórn Gunnars Thor á ögurstundu meðan verðbólgan stefndi í þriggja stafa tölu.  Allt vegna Gervasoni.  Skyldi hún hafa borið velferð þjóðarinnar sér fyrir brjósti?  Skyldi svo vera hjá V.G. þessa dagana?

Ísensk stjórnmál eru yfirfull af svona vitleysu og hiklaust notast við alls kyns blekkingarleik og ryki kastað í augu almennings í slíku lýðskrumi. 

Þann tíma sem Gunnar var í forsæti ríkisstjórnar um og við upphaf níunda áratug síðustu aldar voru efnahagsmálin í algjörum ógöngum.  Aflabrest var kennt um og er vitnað til þess margoft í bókinni þar sem vitnað er til Gunnars og annarra ráðherra þess tíma.  Það var sem sagt aflabrest að kenna að ríkisstjórnin náði engum árangri í efnahagsmálum og verðbólga blés út.  Ef málin eru skoðuð frá þessum tíma þá stefndu þorskveiðar Íslendinga í sögulegt hámark og aldrei verið dregin meiri þorskur að landi.  Það var því ekki aflabrest um að kenna þó reynt væri að nota það sem blóraböggul.  Það var hinsvegar óstjórn í fiskveiðimálum sem var síðan grunnurinn að kvótasetningu 1984.  Flotinn var allt of stór eftir gegndarlausan innflutning á togurum og veiðigeta langt umfram veiðiþol stofna.  Þessu fylgdi mikið tap útgerðar sem ítrekað kallaði á gengisfellingar, sem aftur kölluðu á launahækkanir og síðan á aðra gengisfellingu.

„Áköf sókn í auðlindina olli líka vandræðum.  Sigar í landhelgismálum höfðu ýtt undir þá bábilju að nú gætu Íslendingar stundað sjóinn einir af eins miklu kappi og þeim væri frekast unnt.  Í öllum sjávarplássum kröfðust menn fleiri báta og fleiri skipa og ætíð var hátíð þegar nýr togari sigldi inn fjörðinn.  Fáir láðu fólki að vilja vinna á heimaslóðum og byggja upp blómlegt samfélag en grundvöllurinn var ekki fyrir hendi.  Þegar á heildina var litið voru ofveiði og offjárfesting að sliga útveginn.  Þetta vissu ráðamenn en að vinda ofan af vandanum var hægara sagt en gert" (bls. 513)

Þessi orð eru reyndar höfð eftir Steingrími Hermansyni ásamt þessum orðum: „Fiskverðsákvörðun var ekki viðsættanleg í mínum augum fyrr en helst allir voru óánægðir"

Stækkun flotans var einmitt stjórnvaldsákvörðun og þó menn virtust vita að þetta gengi ekki upp var vegferðin haldin.  Ekki var það með hagsmuni þjóðarinnar í huga heldur barðist hver og einn fyrir þröngum hagsmunum sínum.

Bloggari vill ljúka þessum tilvitnunum í bókina um Gunnar Thoroddsen með vísu sem hann samdi á áttunda áratugnum eftir árangurslausar vinstristjórnir þar sem hver höndin var upp á móti annari, engin vissi hvert var stefnd og bardaginn stóð um að skara eld að eigin köku.

 

Að vera eða vera ekki

William Shakspeare spurði forðum

Að vera eða vera ekki

Er vinstri stjórn í fáum orðum


Markaðsbúskap eða áætlun

Í Morgunblaðinu í gær er grein eftir bankamanninn Ragnar Önundarson um nýjar hugmyndir í sjávarútvegsmálum.  Þar leggur hann til að ríkið taki ákvörðun um að veiða fiskinn á Íslandsmiðum með smábátum og setji því, það sem hann kallar „strandhelgi".  Strandhelgi snýst um að færa árlega út landhelgina þar sem skip með kyrrstæð veiðarfæri megi ein veiða, en þau sem eru með dregin veiðarfæri verði smátt og smátt ýtt út úr fiskveiðilögsögunni.  Allt sé þetta réttlætanlegt þar fiskveiðistjórnun snúist um að skapa störf og ekki sé til ama að þetta ráðslag muni draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, þar sem skip með kyrrstæð veiðarfæri noti minni orku en þau sem nota dregin.

Í fyrsta lagi er kvótakerfið hugsað til þess að auka hagkvæmni og skapa fiskveiðiarð.  Það er alls ekki hugsað til að auka atvinnu, heldur þvert á móti.  Kvótakerfið var sett á til að auka framleiðni sjávarútvegs, þar sem útgerðarmönnum var færður sá kaleikur að draga úr sókn, fækka skipum og sjómönnum, á sinn kostnað en fengu kvótann í staðin.

Bloggari var um tíma á Sri Lanka þar sem 250 þúsund sjómenn draga tæplega 300 þúsund tonn að landi.  Enn verra er ástandið við Viktoríuvatn í Afríku, þar sem enn fleiri sjómenn veiða enn minna magn.  Á hvorugum staðnum myndast fiskveiðiarður, fiskistofnar eru ofnýttir og allir eru fátækir.  Það viljum við ekki hér á Íslandi.

Aflamarkskerfið snýst um að skapa umgjörð fyrir samkeppni, þar sem óheft samkeppni með ólympískum veiðum myndu fljótlega valda ofveiði.  Það er semsagt verið að nota markaðshagkerfi í íslenskum sjávarútveg.  Þeir sem best standa sig og mestum arði skila, veiða fiskinn.  Þannig takmörkum við sókn sem alltaf þarf að gera við fiskveiðar ef þær eiga að vera hagkvæmar.  Að vísu eru margar undantekningar í íslenskri fiskveiðistjórn, þar sem stjórnmálamenn vilja hafa puttann í gangverkinu og setja reglur sem hamla hagkvæmni; byggðakvóti, strandveiðar, línuívilnun o.s.f.

Við höfum það val að notast við skipulag  (áætlunarbúskap) eða samkeppni (markaðshagkerfi).  Ef veiðar með dregin veiðarfæri eru svona óhagkvæm þá munum menn snúa sér að kyrrstæðum veiðarfærum.  Það þarf ekki tilskipun eða áætlunarbúskap stjórnvalda til.  Markaðurinn mun finna bestu niðurstöðu, fái hann frið til þess.  Varðandi útblástur og losun gróðurhúsalofttegunda liggur fyrir að settir verða kolefnisskattar á eldsneyti.  Hvort sem mönnum líkar betur eða verr, þá er það stefna sem ryður sér til rúms, undir kjörorðinu; þeir sem nota eiga að borga. 

Það mun styrkja samkeppnisgrunn báta með kyrrstæð veiðarfæri og þar er um almenna aðgerð að ræða en ekki skipulag.  Það að stjórnmálamenn, eða bankamenn, séu að ákveða að einn veiðiskapur sé hagkvæmari en annar og vilja hafa vit fyrir útgerðarmönnum, er ekki trúverðugt.  Þessi mál eru flóknari en svo að slík ofstjórn gangi upp.  Útgerðarmaður þarf að huga að fleiru en olíueyðslu við ákvörðun sína.  Hann þarf að hámarka virði aflans og tryggja sölu til langs tíma.  Þetta eru svo flókin mál að ekkert stjórnvald getur haft upplýsingar sem duga til að stýra málum.  Þess vegna þurfum við samkeppni og markaðsbúskap til að taka ákvarðanir um hver á að veiða, hvar, hvernig og hvenær.


Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 49
  • Frá upphafi: 283869

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband