Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Í Austurdal - Dagur 3

sunnudagsmorgun.jpgEnn fagnaði okkur fagur dagur með stillu, heiðskýru og sól í fjallsbrúnum.  Sannkallaður sunnudagur.  Það var um fjögurra gráðu frost og sindraði á hrímhvíta fjallstinda þar sem döggin frá deginum áður hafði Þéttst og frosið.  Það var létt yfir mannskapnum eftir morgunverkin og ekkert að vanbúnaði að leggja á hestana og drífa sig í göngur.

Fjallakóngurinn, Stebbi á Keldulandi, skipti liði og gaf fyrirskipanir um leitar dagsins.  Dagskipun mín var að smala Tinnárdal ásamt Gísla Rúnari og Bjarna Maronssyni og var lítið stoppað fyrr en komið var að ármótum þar sem Tinnáin mætir Austari- jökulsá.

Við riðum norðan megin árinnar og áttum stutt stopp við bæjarrústir í dalsmynni.  Það er um margt að spjalla og forvitnast um hagi samferðamanna sem ekki hafa þekkst áður.  Maður er vegin og metinn og spurður um menn og málefni og getur ráðið um hvort vinskapur verður varanlegur eða ekki.  Menn hafa mismunandi gildismat og lífsviðhorf en ekki er það nú pólitíkin sem ræður dilkadrætti á slíkum samkomum.  Frekar viðhorf til manna og málleysingja, lundarfarið og húmorinn.

go_ir_saman.jpgEn áfram var haldið fram dalinn og nú versnuðu aðstæður með bröttum hryggjum og leggjabrjótum.  Oft var stigið af baki til að létta á hestunum yfir verstu ófærurnar, en fljótlega sáum við fyrstu kindurnar í ferðinni.  Þar var ákveðið að binda hestana og við Gísli Rúnar fórum gangandi fram dalinn en Bjarni ætlaði að smala saman þeim skjátum sem þarna voru, en sumar hverjar voru langt upp í klettum.

Hvað dregur kindur upp í kletta er kaupstaðarbúanum hulin ráðgáta svo spurningin er látin vaða þó hún opinberi þekkingarleysi í sauðfjárrækt.  Jú þannig er það að ljúfustu og safaríkustu nýgræðingarnir vaxa oft í klettum og kringum urðarskriður.  Það er eins og við mannfólkið þekkjum að það sem er eftirsóknarvert er oft erfitt að nálgast.  Ég held að Austurdalurinn baðaður sólskyni á fögrum haustdegi, með sína hrímhvítu kletta hafi verið minn nýgræðingur í klettabelti.  Ferð með einkaþotu og gistingu á Savoy hótelinu í London ásamt kvöldverði á dýrasta veitingastað þar sem vínið kostar hálfa milljón flaskan, var sem hjóm við hliðina á því sem ég nú upplifði.  Ekkert í veröldinni gat jafnast á við þessa tilfinningu sem hríslaðist um hverja taug þannig að brosið bókstaflega braust fram með kiprum í kinnum.  ,,Ef þú stendur við sjóinn kyrran sumardag og horfir á skýin speglast í djúpinu; eða liggur í grænum hvammi um jónsmessubil og það líður lækur framhjá; eða þú geingur í sinunni á árbakkanum fyrir sumarál og heyrir fyrstu helsíngjana gella, - finnurðu þá ekkert sértakt?" (H.K.L. Heimsljós)

Áð í mynni TinnárdalsEn nú tók alvaran við og við Gísli paufuðumst fram dalinn í leit að kindum.  Handan Tinnár töldum við yfir 25 hesta í stóð sem er í eigu Steppa á Keldulandi.  Þeim er smalað í lok október, í kringum fyrsta vetrardag, ásamt eftirleit að fé.  Hér var gangan orðin nokkuð strembin og rétt að gæta sín og kunna fótum sínum forráð.  Við sáum nokkrar kindur í viðbót og það vakti athygli mína hversu hvítar og hreinar þær voru.  Það rifjaðist upp frá göngu minni í júlíbyrjun að samferðarfólk mitt þá hafði einmitt orð á þessu.  Þetta hafði ekkert með birtu dagsins að gera né þeim hughrifum sem umhverfið olli mér í augnablikinu.  Kindurnar eru bara ótrúlega hvítar og fallegar í Austurdal.

Við gengum hratt upp með Tinná þar til við náðum síðasta leiti og sáum fram í endarana Tinnárdals.  Gengum úr skugga um að engin kind væri eftir áður en við snérum við til Bjarna; og nú hófst reksturinn. 

Við komum með tíu kindur úr Tinnárdal og fjórar bættust við handan ár úr suðurhlíðum dalsins, en þar smöluðu Magnús og Þórólfur.  Við mættum fjallakónginum og Gísla Frostasyni á sitthvorum bílnum þegar komið var niður á engin neðan við dalinn.  Þeir höfðu komið auga á kindur sem farið hafði framhjá smalamönnum og því ekkert annað að gera fyrir þLétt yfir mönnum í Ábæjarréttá félaga Magnús og Þórólf en ríða til baka og sækja þær.

Við Gísli Rúnar rákum hinsvegar féð áfram og fyrsti áfangastaður var Ábær.  Bílarnir komu hummandi á eftir og reglulega buðu bílstjórarnir reiðmönnum upp á hressingu.  Þegar við komum seinnipart dags niður á Ábæjarrétt var ákveðið að borða miðdegisverð og bíða eftir öðrum smalamönnum áður en haldið yrði áfram niður að Merkigili þar sem áð yrði um nóttina.Áð í Ábæjarrétt

Það kom berlega í ljós að við Vestfirðingarnir kunnum ekki að útbúa okkur í svona ferð.  Nestið sem við smurðum í Bjarnabúð og settum í plastpoka var orðið að grautarmylsnu.  Svona bland í poka þar sem brauðið, rúgkökurnar, hangikjötið og lifrakæfan ægði öllu saman og maður veiddi þetta upp með fingurgómunum.  Á sama tíma voru heimamenn með sitt kælibox á bílnum, með sviðakjamma, rófustöppu, hangiket með kartöflumús og heitan uppstúf á hitabrúsa.  Ég horfði löngunaraugum á samferðamenn mína um leið og ég stakk hendinni niður í Olíspokann og náði kuski úr honum og tróð upp í mig.  Þannig er mál með vexti að ég bý við mikla verkaskiptingu í mínu hjónabandi.  Ég sé um smíðar, skúringar og uppvask en konan um að strauja, sauma og nota bene; smyrja nesti.

Þórólfur lagar beisliðÞað var frost í dalnum þetta síðdegi og því kominn hrollur í mannskapinn þegar riðið var saman úr Ábæjarrétt.  Það tók nokkurn tíma að koma kindunum yfir ána sem rennur niður með réttinni en þær skirrtust við að halda út í vatnið.  Einn lambhrútur tryllst og rann alla leið niður að jökulánni og stökk út í.  Við horfðum á Austari- jökulsá hrífa hann niður strauminn þar til hann hvarf okkur sjónum og möguleiki hrútsins í þessari baráttu var nánast engin.

Við rákum kindurnar hægt og höfðu heimamenn miklar áhyggjur af ákafa Vestfiringa i rekstrinum.  Rollurnar voru spikfeitar eftir ofgnótt Austurdals og máttu alls ekki við því að renna hratt niður dalinn.  En skyndilega tók ein á rás, ásamt lambi, og stefndi niður að árgljúfrum jökulsár.  Ekki var tauti við hana komandi, en greinilegt var á ullinni að hún hafði gengið úti að minnsta kosti einn vetur.  Þetta var villidýr!

Ég reið vini mínum Vatnarauð þegar hér var komið sögu.  Eins og hugur manns lét hann fullkomlega að stjórn og öll átján árin ásamt ótal svaðilförum um Austurdal virtust ekkert hafa markað þennan gæðing.  Við eltum rolluskjátuna niður á brún gljúfursins og án þess að hika lét hún sig vaða niður snarbratt klettabeltið.  Hér stoppaði Vatnarauður og neitaði að elta þrátt fyrir að ég væri farinn af baki og teymdi hann.  Ég sagði við hann rólega að varla gæti hann verið minni maður en kindarskömmin, og með sínar fjórar fætur hefði hann mikið framyfir mig í þessi átök.  Hann hló við og benti mér á við þessar aðstæður reyndust hendur betur en hófar, en kindin hefði þó klaufir.

Ég hlaut að fallast á þessi rök Vatnarauðs og losaði tauminn öðru megin, tók af mér hjálminn og setti í hann stein og notaði til festu.  Síðan skrölti niður í gljúfrið eftir villidýrinu.  Hér skildi ekki gefist upp og nú gæti ég sýnt þessum Skagfirðingum hvað byggi í Hornstrending.

Útilegurkindur á gnípuÉg paufaðist eftir kindunum og reyndi að reka þær upp á brún en þess í stað náðu þær að snúa við og stefndu upp með ánni.  Ég náði þeim eitt sinn standandi fram á gnípu með þverhnípi allt í kring og taldi mig þá hafa töglin og hagldirnar í baráttunni. (sjá mynd)  Ég náði að rífa í ullina á útilegukindinni og augnablik horfði ég í tryllt augu hennar.  Þessi kind ætlaði ekki að gefast upp og reif sig lausa og þeyttist yfir mig og stefndi áfram upp með Austari- jökulsá.

Það var farið að rökkva en ég sá þó móta fyrir félögum mínum á brúninni þar sem þeir báru við himinn í þverrandi birtu.  Þeir gáfu mér merki um að koma og þegar þangað kom var mér sagt að láta þetta eiga sig.  Þetta væri vonlaus barátta og nota þyrfti aðrar aðferðir við þessar aðstæður.  Mér varð hugsað til smölunar í Tálkna og áttaði mig á í hversu vonlausri stöðu ég hafði verið í þessu stríði.

Það var ægifagurt að líta um öxl og horfa fram Austurdal á leiðinni niður að Merkigili.  Það var komið myrkur þegar þangað kom og töluvert frost.  En móttökurnar voru hlýjar í bænum þar sem ilmur af steiktu lambakjöti kitlaði vitin.  Það er hefð fyrir því að íbúar Merkigils bjóða gangamönnum til veislu og gistingar þegar áð er á leið niður að Keldulandi úr smölun, sem er áfangastaður rekstursins.  Veislan tók öllu fram og boðið upp á kaffi á eftir.  Hér myndu skilja leiðir þar sem við Einar höfðum ekki tíma til að klára reksturinn niður að Keldulandi, enda nægur mannskapur til þess án okkar.  Okkur var því skutlað niður í VarmahlíFjallakóngurinn Stebbi í Keldulandið þar sem við áttum bókað á hóteli, og komum þangað undir miðnætti.

Áður en við runnum inn í draumalandið áttuðum við okkur á því að heimurinn hafði snúist í tæpa þrjá sólarhringa án síma og útvarps.  Við höfðum ekki hugmynd um atburði heimsins, fyrir utan litla hópinn okkar við smalamennskuna í Austurdal.  Áður en ég sofnaði fullvissaði ég vin minn um að ekkert merkilegt hefði gerst á hans vinnustað þennan tíma.  Honum væri óhætt að koma af fjöllum þegar hann mætti þangað á mánudagsmorgun.

 

Fjarskiptin þau eru ekki okkar vandi

því alltaf hefur helgur andi

heyrt í Stebba á Keldulandi (Sig. H.)


Í Austurdal - dagur 2

Lagt í hann frá HildarseliÞað var fallegur dagur sem tók á móti okkur á laugardagsmorgun.  Ekki skýhnoðri á himni, hitinn um 0° C og héla á lynginu.  Sólin sleikti fjallstoppana en náði ekki niður í þröngan dalinn.  Austari - jökulsá lykkjaðist suðandi niður dalinn, eyðandi og mótandi af þolinmæði árþúsunda og tekur við af mætti skriðjökulsins sem áður teygði sig frá Hofsjökli til Drangeyjar.  Eftir staðgóðan morgunverð var okkur ekkert að vanbúnaði til smölunar í Austurdal.

Fyrsti áfangastaður reiðmanna var að Hjálmarsseli þar sem boðið var upp á kakala, sem heitir í höfuðið á Þórði nokkrum sem kom við sögu í Örlegstaðabardaga.  Hér hafði Bóluhjálmar sel meðan hann bjó á Ábæ, en átti í miklum átökum við nábúa sína, sem meðal annars ásökuðu hann um sauðaþjófnað.  Ein sagan er sú að Guðmundur nokkur, sem þá var hreppstjóri og nágranni Hjálmars, varð var við ferðir hans norður dalinn og ákvað að sitja fyrir honum og veita honum skráveifu við heimkomuna.  Ekki tókst honum betur til en svo að Hjálmar fór austan megin hóls en hreppstjórinn beið vestan megin og missti af bráðinni.  Í þá daga var æran tekin af mönnum af miskunnarleysi og þeim brigslað um sauðaþjófnað, og oftar en ekki að ósekju.

En ríkidæmi reiðmanna var mikið, enda Sigurður Hansen, þjóðskáld Austurdals með í för og viðeigandi í Hjálmarsseli að fara með eina stöku eftir hann um leið og kakalinn er látinn ganga:

 

Heldur fer að lifna yfir hugansþeli

og telst ei mál þó tæmist peli

við tóftirnar á Hjálmarsseli

 

_fagraskogi.jpgNæsti áfangastaður er Fagriskógur þar sem vex hávaxið sjálfsprottið birki og tilvalið að fá sér hressingu á meðan tínd voru birkifræ fyrir Landgræðsluna.  Það er gaman að ríða í gegnum skóginn sem er orðin nokkuð þéttur og var að klæðast haustbúningi þessa dagana. 

Þegar við komum að minni Hvítárdals sagði Sigurður okkur frá því er hann dvaldi hér fyrir 20 árum og vaknaði einn fagran sumarmorgun við nið Hvítárinnar.  Þá hvolfdist skáldagyðjan yfir hann og þessi vísa varð til á staðnum.

 

 

 Dalaskáldið Sigurður Hansen

Gang þú til fjalla ef leið þín er lund

og löngun og þrár eru í dvala

Það vermir þitt hjarta á viðkvæmri stund

ef vitjar þú öræfadala

 

Og háttaðu einn undir himinsins sæng

og hlustaður á þögnina tala

þar mófuglamóðirinn vermir með væng

vorgróður öræfadala

 

Gefðu þér tíma og fangaðu frið

sem fýkur með morgunsins svala

er heyrir þú svanina hefja sinn klið

af heiðabrún öræfadala

 

birkifraein_tind.jpgEn hér var hópnum skipt upp og ég sendur ásamt Sigga Hansen og Guðmundi syni hans til að smala Hvítárdal.  Í fyrstu þurfti að ríða upp hálsinn vestan við dalinn, og nauðsynlegt að létta á hestunum upp mestu brekkurnar og rölta með þeim.  En dalinn sjálfan þarf að fara fótgangandi og tók Siggi við taumnum hjá mér og ég skondraði niður brattar en grónar hlíðar Hvítárdals.

Veðrið var óskaplega fallegt, glampandi sól og logn og ég settist á árbakkann og hlustaði á niðinn í Hvítá þegar hún spilaði á sína hundrað strengja hörpu.  Það hvolfdist yfir mig höfgi og áður en ég vissi var ég lagstur í mosann og sökk í meðvitundarlausan fastan svefn.  Þetta á ekki að vera hægt og er í fyrsta sinn í yfir 20 ár sem ég hef getað lagt mig um miðjan dag.  Mér hafði verið sagt að ekkert lægi á og ég skyldi taka tímann minn í Hvítárdal og þau heilræði greinilega móttekin.

ri_i_upp_halsin.jpgÉg vaknaði ekki fyrr en eftir rúman hálftíma og án þess að opna augun, hlustaði ég á suðið í Hvítá og hafði ekki hugmynd um stund né stað.  Ég kom algerlega af fjöllum og vissi ekkert hvar ég var staddur, né hvaða ljúfu tónar höfðu laðað mig til meðvitundar.  Ég harkaði af mér og lyfti lokum og horfið upp í heiðan himinn og skondraði þeim svo um sólbaðaðar hlíðar dalsins.  Ef þetta var himnaríki þá var ég í góðum málum!

En veruleikinn skilaði sér og ekki var hann slæmur.  Sennilega hafði kakalinn hans Sigga hjálpað til að flýja vit og veruleika á náðir svefnsins en endurkoman var góð og ekkert annað að gera en drífa sig á fætur og leita að kindum.  Sem betur fer voru þær engar í dalnum en hann þykir erfiður til smölunar.  Þarna er mikið af leggjabrjótum og snarbrattar hlíðar á báða vegu sem rollurnar eiga til að hlaupa uppí.

stornarfundur_i_austurdalsfelaginu.jpgSiggi hafði sagt mér að fara alls ekki alla leið niður í mynni dalsins, þar sem tækju við ófærur.  Ég ætti að stefna upp vesturhlíðina áður en þangað kæmi.  Ég skundaði hratt upp brattann og á brúninni lagðist ég til hvíldar að öðru sinni þennan dag.  Það leið ekki á löngu þar til ég heyrði köll og félagi minn orðin áhyggjufullur yfir seinlegri endurkomu minni og bíðandi með hestinn tilbúinn.  Það var ekki erfitt að útskýra fyrir Sigurði Hansen að ég hafi gefið mér tíma til að fanga öræfafrið og hlustað á þögnina tala.

Engin kind hafði fundist á þessu slóðum og því fóru leitarmenn því fjárvana heim að Hildarseli.  Við komum í hlað fyrir rökkur og sprettum af hestunum og nú var undirritaður gerður ábyrgur fyrir kvöldmatnum, sem var kjötsúpa.  Félagar okkar sem farið höfðu upp fyrir Fossá skiluðu sér í myrkri og nú var glatt á hjalla í Hildarseli.  Sungið, farið með vísur og endalausar sögur flugu milli manna.  Ósköp vorum við Einar Kristinn ánægðir með uppátæki sveitunga okkar fyrr og síðar sem verða tilefni til sagna seinna meir í góðra vina hópi.  Vestfirðingum er nú ekki alls varnað þegar kemur að uppátækjum og skemmtilegheitum og sögurnar blönduðust vel við Skagfirskar frásagnir.

aldursforseti_fagnar_nyli_anum.jpgUm kvöldið var haldin stjórnarfundur í Austurdalsfélaginu og við Einar teknir formlega inn sem gildir limir.  Formfesta var mikil á fundinum þó vísur fengju að fljúga milli dagskráliða.  Búið var að reyna okkur félagana við leitar og stóðumst við allar kröfur sem gerðar eru til meðlima.  Undirritaður er mikill jafnréttissinni en rétt er þó að hér komi fram að þetta var staður og stund fyrir karlmennsku.  Ekkert rúm fyrir svo mikið sem umræðu um annað og hefðu Clint Eastwood og Charlton Heston sómt sér vel í hópnum, en Merlin Monroe hefði ekki átt nokkurt erindi í Hildarsel þetta kvöld.

 

Hér verður ein vísa eftir Sigurð dalaskáld látin fylgja með:

 Viskíflaskan virðist mér

veraldlegur auður

loks þá henni lokið er

liggur maður dauður

 

En haldi menn að Austurdalurinn hafi tjaldað öllu sem til var í fegurð og rómantík fram að þessu, skjöplast þeim heldur betur.  Komið var frost í heiðskýrunni og stjörnur blikuðu á lofti.  Allt í einu teygði máninn sig upp yfir fjallsbrúnina í vestri.  Ekki veit ég hvort það var eitthvað sem hann sá eða heyrði en allavega fór hann bara hálfa leið og dró sig síðan til baka og hvarf.  En Karlsvagninn benti okkur á Pólstjörnuna í norðri og uppljómaður Júpíter heilsaði gildum limi Austurdalsfélagsins.


Ævintýri í Austudal - dagur 1

Það hafði gerst í júlíbyrjun í skála sleðamanna í Laugafelli, norðan Hofsjökuls, að eftir söng og gleði að lokinni frækinni för Hallgríms Bláskógs suður Austurdal í Skagafirði, vorum við Einar Kristinn vinur minn undir sterkum áhrifum af dalnum og fegurð hans.  Svo römm var sú taug sem tengdi okkur við þennan fjalladal að við notfærðum aðstöðu okkar og króuðum farastjórann okkar, Gísla Rúnar, sem er einn af forvígismönnum Austurdalsfélasins.  Til að gerast gildur limur í þeim félagsskap verður maður að fara í göngur í Austurdal og höfðu margar góðar sögur flogið frá Gísla úr slíkum ferðum þarna um kvöldið.

KeldulandVið stundum upp erindinu við Gísla Rúnar sem tók beðni okkar vel og sagðist mundi bera þetta upp á næsta fundi félagsins seinna um sumarið þegar göngur í dalinn yrðu skipulagðar.

Það var síðan í águst að afliðnum slætti að boð bárust úr Skagafirði um að við Austurdalsmenn væru tilbúnir að taka okkur i prufugöngu þann 17. september n.k.

Við lögðum snemma af stað í Skagafjörðinn þann 16. september, annar úr suðri en hinn úr norðri, og veðrið skartaði sínu fegursta.  Við byrjuðum á að fara á Krókinn til að afla vista og að sjálfsögðu í Verslun Haraldar Júlíussonar þar sem við hittum fyrir Bjarna Haralds, móðurbróður Einars og eiganda verslunarinnar.  Kaupfélagið á Sauðárkróki hefur verið helsti keppinautur Bjarna í gegnum tíðina og því gátum við ekki gert honum það að versla við framsóknarfélagið.  Einar hafði tekið kæfu og hangiket að sunnan í nesti, en brauðið fékkst handan götunnar en allt annað í verslun H.J.

Í MerkigiliÞað er gaman að koma í verslunina og endalaust hægt að skoða það sem til sölu er.  Slóvenskir gúmískór, kveikir í olíuluktir, kaffi  kex og nánast allt nema kælivara.  Verslunin er jafnframt elsta umboð Olís á Íslandi.   Við skruppum inn í eldhús til húsfreyjunnar til að smyrja nesti fyrir Austurdalsferðina en Bjarni lokaði búðinni á slaginu tólf og bauð okkur til stofu í hádegisverð.  Við vorum sammála um að þjóðfélagsumræðan væri á lægstu nótum þessa dagana og samþykktum því að slökkva á útvarpinu og nota tímann við notalegt spjall.  Þetta var á föstudegi og ekki óraði okkur Einar fyrir því að næsti fréttatími sem byðist yrði á mánudagsmorgni.

Við nutum félagskaparins og ræddum landsins gagn og nauðsynjar og áður en við vissum af var klukkan orðin eitt og Bjarni þurfti að opna fyrir viðskiptavinum sem nú streymdu í verslunina til innkaupa.

Riðið úr MerkigiliVið lögðum af stað upp í sveit fljótlega upp úr hádegi, en um klukkutíma akstur er upp í dal þar sem smalaferðin hófs, hjá Stefáni Hrólfssyni í Keldulandi.  Mér leið eins og ég væri að hitta Charlton Heston eða Clint Eastwood, að hitta frægan leikara eins og Stebba.  Reyndar hefur hann bara leikið sjálfan sig í kvikmynd um Austurdal, en það er engu að síður mjög merkilegt.  Karlinn hefur ótrúlega smitandi hlátur og þrátt fyrir sín 82 ár er hann léttur og hress og í hans huga eru vandamál ekki til heldur bara skemmtilegar lausnir á verkefnum.

Okkur var strax boðið inn í eldhús þar sem rjúkandi kaffikanna stóð og skenkt var í kaffifantana.  Fljótlega fjölgaði í eldhúsinu og þarna voru mættir Siggi Hansen, Guðmundur sonur hans, Þórólfur, Bjarni, Gísli Rúnar, Gísli Frostason, Sigurður frá Réttarholti, Magnús ásamt fjallakónginum sjálfum Stebba í Keldulandi.  Ekki leið á löngu þar til boðið var upp á skvettu af Kristal út í kaffið, enda þykir sá góði drykkur liðka menn á hestbaki, en hestastóðið beið okkar tilbúið í gerðinu við bæinn.  Þarna fuku fyrstu sögurnar og hlátrarsköllin, sem áttu eftir að einkenna ferðina, fengu tárin til að renna og vísur flugu af vörum Skagfirðinganna.

En nú var allt reiðubúið vi_gjorningur_i_merkigili.jpgog þegar lagt hafði verið á hesta og þeir beislaðir, hurfum við félagarnir með jóreyk áleiðs að fyrsta áfangastað smalamennskunnar, Merkigili.  Reyndar var fljótlega áð á leiðinni þar sem hrossin voru rekin í rétt á meðan lífsblómið var vökvað og fleiri sögur sagðar.  Þótt við norðanmenn kæmumst ekki með tærnar þar sem Skagfirðingarnir höfðu hælana í sögum og kveðskap, er við því að búast að alvörugefnir Vestfirðingar gæfu samræðunum nýjan blæ og gerðum samferðarmenn okkar forvitna um athafnir og uppátæki sveitunga okkar sem við kunnum af sögur.  Kannski það hafi verið mynni Austurdalsins sem tók svona vel á móti okkur, umvafði og örvaði okkur til sagna þar sem við létum gamminn geysa í glensi og gríni, ölvaðir af fegurð og veðurblíðu andartaksins.

Mér fannst mér fara fram á hestbaki við hvert stopp.  Það var mjög gott fyrir sjálfstraustið, sem var illilega laskað eftir snautleg afrek sumarsins í golfíþróttinni.  En hér virtist ég vera á heimavelli og hver taug var tengd við hestinn sem lét fullkomlega að stjórn minni.  Hér hafði ég töglin og hagldirnar og vellíðan streymdi um hverja taug við notalegar hreyfingar hestsins.

Við ÁbæjarréttMónika Helgadóttir, sem Guðmundur Hagalín skrifaði bókina ,,Konan í dalnum og dæturnar sjö" bjó að Merkigili.  Gilið sjálft er nokkuð neðar í dalnum og er yfir það að fara á leið leið upp í dalinn.  Fyrir nokkrum árum fórst í gilinu hjálparhella Móniku og bústjóri Merkigils, en hann rann á klaka fram af hömrum niður í gilið.  Hann hét Helgi og er hann jarðsettur í kirkjunni við Ábæ ofar í dalnum.

En gilið er hættulaust yfirferðar að sumri til og leiddum við hestana niður í gilið þar sem menn hvíldu lúin bein og léttu á pelunum áður en haldið var upp á bakkann sunnaverðan.  Eftir skamman reiðtíma komum við heim að Merkigili þar sem heimilisfólkið tók vel á móti okkur.  Húsfreyjan bauð til stofu þar sem boðið var upp á hressingu, kaffi og fleira ásamt ilmandi kjötsúpu.  Eftir frábæran viðgjörning í Merkigili var haldið af stað óþreyttum hestum og fékk ég goðsagnakenndan hest undir mig sem heitir Vatnarauður.  Vatnarauður er átján ára gamall og hefur marga hildi háð í Austurdal og gæti sagt margar sögur væru honum gefið mál.  Þrátt fyrir háan aldur var Vatnarauður viljugur og sætti sig ekki við neitt annað en vera fyrstur.  Ef einhver nálgaðist aftan að okkur bætti hann við sprettinn til að halda forystunni.  Svei mér þá ef okkur varð ekki vel til vina og fyndum ýmislegt sameiginlegt í okkar fari.

VatnarauðurÞegar við komum í Ábæ var farið að rökkva og dalurinn sýndi allt sitt fegursta.  Himinn bókstaflega logaði í vestri og mynni dalsins í norðri, sem minnti á konuskaut, var eins og tendrað með skæru ljósi.  Við stóðum bergnumdir við gömlu réttina í Ábæ og horfðum á þessi undur náttúrunnar og hvernig kvöldroðinn töfraði sjónarspil sem tók ímyndaraflinu fram.  Veðrið skartaði sínu fegursta og byrjað að frysta við heiðskýruna.  Mér varð hugsað til skoska orðatiltækisins „Red sky at night is the horseriders delight"  Svona heimfært úr sjómannamáli yfir á smalamennsku en allavega lofaði þetta góðum komandi degi.Hildarsel

En nú dimmdi hratt og ekki vildum við hitta fyrir Ábæjarskottu sem kunn er á þessu svæði og hefur gert mörgum manninum skráveifu.  Við kláruðum reiðina heim í Hildarsel sem yrði okkar skjól í dvöl okkar í Austurdal næstu tvær næturnar.  Það var orðið aldimm þegar við sprettum af hestunum og komum þeim fyrir í gerðinu áður en gengið var í bæ að Hildarseli.  Þar nutum við þess að láta þreytu dagsins úr okkur líða og meðan einhver dugur var í mannskapnum var lífsandinn vökvaður og sagðar enn fleiri sögur og vísur kyrjaðar og nokkur lög sungin.  En hætta skal leik þegar hæst stendur að lokum sigrar þreytan og svefninn tekur yfir.  Sem betur fer enda þarf að huga að kröftum fyrir morgundaginn við krefjandi smölRoðinn í vestriun í Austurdal.Komið í Hildarsel


Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 48
  • Frá upphafi: 283866

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband