Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010

Gengið niður Lónsöræfi

Lagt af stað frá EiglsseliÞað hafði birt upp um morguninn en nokkur ský voru þó um hæstu fjöll sem byrgðu á útsýnið.  En veðrið var gott og gleðirík ganga fram undan niður í Lónsöræfi en ferðinni var heitið fram hjá Múlaskála, upp á Illakamb og þaðan niður gilið niður að Eskifelli.  Þetta er drjúg dagleið eins og tvær þær fyrri í ferðinni, frá Snæfellskála í Geldingarnes og þaðan í Egilssel.

Við EgilsskálaVið gengum niður Leiðartungur og tókum sveig að Tröllakrókum, þar sem við skoðuðum þetta hrikalega náttúruundur.  Tröllakrókar teygja sig upp í 800 metra hæð yfir sjávarmál og er myndaðir úr mó- og stuðlabergi og vert að taka á sig smá krók til að skoða þá.

En áfram var gengið og nú tekur gróður við þar sem birki ræður ríkjum og þegar komið er niður að Jökulsá taka við birkiskógar.  Það má segja að við værum blálúsug eftir göngu í gegnum skógin, en þar iðaði allt af birkiflugu sem lítur út eins og lús, og blá á litinn.  Skemmtileg leið er niður með ánni niður að Múlaskála, þar sem oft er gengið í bröttum skriðum árbakkans og á einum stað þarf að fara fyrir tæpu hátt yfir beljandi jökulfljótinu.  Keðjur eru til halds og trausts og því er þessi leið hættulaus en getur kitlað lofthrædda nokkuð.  En það er gaman að sigrast á aðstæðum og sérstaklega á sjálfum sér þegar engin önnur leið er í boði en sú sem farin er.

Tið TröllakrókaÞað var engin í Múlaskála þegar við komum þangað, en greinilegt að gestkvæmt var þar og íbúar sennilega í gönguferð um Lónsöræfi.  Við tókum okkur bessaleyfi og settumst á pallskörina, tókum upp prímusinn og snæddum hádegisverð.  Fegurð Lónsöræfa er stórbrotin þar sem sundurskorið landslagið af gljúfrum og giljum eru áberandi og litardýrðin ótrúleg.  Svæðið er talið eitt áhugaverðasta göngusvæði landsins og kom ekki á óvart þegar við horfðum upp Jökulsá í Lóni þar sem birkigróðurinn festir rætur við árbakkana, en ofar taka við gil og gljúfur í bláum, grænum og rauðum litum.  Vel sést upp á jökul og rétt ofan við skálann er göngubrúin yfir fljótið, en síðan liggur gatan aftur niður með vesturbakkanum upp á Illakamb.  gengi_um_lonsoraefi.jpg

Leiðin upp á Illakamb tekur vel í, enda snarbrött og um þrjúhundruð metra hækkun að ræða.  Útsýnið niður gljúfur Jökulsá í Lóni er stórbrotið, með Stafafellsfjöll í austri, brött og hrikaleg en ægifögur og litrík.  Með nýrri göngubrú við Eskifell sem byggð var fyrir tveimur árum hefur leiðin niður gljúfrin opnast, en nauðsynlegt er að komast austur fyrir ána eftir göngu niður að vestanverðu.  Gljúfrið er ógengt austan megin og ekki bílfært að Eskifelli vestan megin við Jökulsá í Lóni.  Áður luku menn ferðinni á Illakamb og tóku fjallabíla niður að Stafafelli, en þessi leið er stórbrotin og frábær viðbót við göngu um Lónsöræfi.

Einstigi við JökulssáÞegar við áttu eftir tveggja tíma göngu niður að Eskifelli mættum við trússurunum okkar, sem gengið höfðu til móts við okkur.  Framundan var einstigi eitt mikið sem liggur ofan við þverhnípta kletta í snarbrattri skriðu.  Það var léttara en á horfðist að ganga einstigið og algjörlega hættulaust ef gætt er að sér.  Lausamölin á þessu svæði er mynduð úr glerhörðu bergi og ólíkt skriðunum á Vestfjörðum er mölin aflöng og ótrúlega föst fyrir.  Maður haggast ekki í slóðinni og rennur ekki undan brekkunni og því hefur maður fulla öryggiskennd við slíkar aðstæður.joklasyn.jpg

Þau eru drjúg síðustu sporin eftir langa dagleið og hríslaðist um mann vellíðan að koma að 90 metra langri göngubrúnni yfir fljótið og vita af bílunum handan við hana.  Eftir að hafa fengið kaldan öl við bílana fórum við úr skónum og fengum okkur fótabað í ískaldri jökulánni.  Þetta var toppurinn á tilverunni en nauðsynlegt að vinna sér inn þá vellíðun sem fylgir því að slappa af eftir mikil átök.  Maður þarf að vera þreyttur til að njóta hvíldar og ekki spillir fyrir að safna smá óhreinindum á langri göngu um óbyggðir.  Sú vellíðan sem fylgir heitri sturtu eftir útileguna er milljón dollara virði.

Við ókum árfarveginn niður að Stafafelli þar sem gist var um nóttina.  Frábærri göngu norðan og austan Vatnajökuls var lokið.  Við KollumúlaskálaTrússberar mæta okkur

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 _reyttir_skor.jpg

 

 

 


Gengið í Egilssel

Lagt af stað úr GeldingarfelliÞað dettur ekki nokkrum manni í hug að taka mark á veðurspá frá Skota!  Alla vega ekki fyrir hálendi Íslands en samkvæmt þeirra fræðum átti nú að vera brostin á blíða í Geldingafelli, eftir blóðrautt sólarlag kvöldið áður (red sky at night is the fishermans delight).  Það hrikti í kofanum þegar fjallabylgjur skullu á honum og úti var súldarfýla, eða jafnvel grenjandi rigning.  Það skipti reyndar svolítið í tvo horn hvað fólki fannst um veðrið og það sem sumir kölluðu fjallagust kölluðu aðrir óveður.  Yfir vötnum messaði púkinn á fjósbitanum, þ.e.a.s. vonin um að losna við erfiði og hætta för, sem alltaf er freistandi þegar setið er inni með glóandi kamínu og rokhljóðin berast inn um þunna veggina frá heiðinni.  Tekist var á um þetta og niðurstaðan var þó að halda á för ef veðurútlitið væri betra til lengri tíma litið.  Ákveðið var að hringja í ,,vin"!  Haft var samband við einn sem allt veit um veður norðan Vatnajökuls og hefur nef fyrir því sem framundan er.  Við náðum sambandi í gegnum NMT símann í bílnum og niðurstaðan var sú að rok og rigning myndi haldast fram eftir degi en útlitið væri gott eftir það.  Hann myndi snúa sér meira í norðrið og þorna upp.  Það var sem sé ákveðið að halda út í slagveðrið og bjóða því byrginn.Gerfihnattarsamband

Það getur verið skemmtilegt að ganga í slagviðri og góð tilbreyting eftir tíu daga blíðviðri.  Slík ganga er öðru vísi þar sem ekki dugar að ræða við félagana í gegnum rok og rigningu þar sem ekkert heyrist nema öskrið í vindinum og hetturnar reyrðar um höfuðið.  Skyggni var lítið og því ekkert að sjá og því hvarflar hugurinn út um víðan völl og menn eru einir með sjálfum sér.  Allir hafa gott af slíku og hægt að mæla með þessari aðferð og það fullyrt að hún taki jóga fram og sé mannbætandi.  Heimspekilegar hugleiðingar sjálfsins eru góðar en gefast sjaldan í dægurþrasi samtímans.

Áð í roki og rigninguÞað kom sér vel að hafa GPS tæki þar sem landslagið er algerlega ruglandi og upp og niður segir ekkert til um stefnu á áfangastað.  Landslagið er ójafnt og þegar skyggnið er hundrað metrar eru engin viðmið fyrir ferðina.  En á sinn hátt er þetta spennandi og oft var stoppað þar sem farastjórinn, Stebbi, bar sig saman við hópinn áður en stefnan var ákveðin.  Eitt sinn komum við að vaði og rætt um hvort rétt væri að fara yfir það, en góðar stiklur voru yfir ána.  En ákveðið var að halda niður með ánni og sjá til með annan stað.  Eftir stutta göngu stóðum við á gnípu með þverhnípi í allar áttir, nema þaðan sem komið var.  Við vorum stödd á nesi þar sem tvö árgil mættust í gegnum þokuna virtust árnar sem þarna sameinuðust vera litlir lækir, um hundrað metrum neðar.  Það var ekki annað að gera en ganga til baka og stikla yfir á fyrri staðnum og gekk það allt að óskum.

Um nónbilið fengum við okkur nesti undir klettanös sem veitti skjól fyrir næðingnum og nú fundu menn fyrir að búnaðurinn var farin að gefa sig og rigningin farin að smeygja sér inn úr hlífðarfötunum.  En Íslenskt Cappochino hressti hrakta göngumenn og áfram héldum við ótrauð áleiðis í Egilssel.

Gengið að EgilsseliFljótlega eftir áninguna stytti upp og smá saman gaf þokan eftir og einstaka sinnum sáum við bregða fyrir fjarlægum kennileitum.  Við sáum glitta í Axarjökul og eins töldum við okkur sjá Goðahnjúka.  Ferðin fékk nú á sig annan blæ og við frelsuð úr einangrun einveru og eigin hugsana og við tók skemmtilegt spjall um heima og geima við samferðamenn.  Hér var ekki verið að ræða IceSafe eða ESB heldur miklu skemmtilegri hluti eins og fyrri afrek í fjallamennsku og hugarflug þar sem grunnur að næstu ferðum var lagður.  Öllum bar þó saman um að ákvörðunin um að halda á um morguninn hafi verið rétt, enda mikilvægt að ná þeim markmiðum sem maður setur sér og klára þá ferð sem byrjað hafði svo vel.

Eins og fyrri daginn var farið að skima eftir næturstaðnum, Egilsseli.  Á kortinu mátti sjá að kofinn væri á suðurbakka fjallavatns, og ímyndaraflið kallaði myndina fram í hugann, þar sem skálinn speglaðist í friðsælu spegilsléttu vatninu.  Reyndar tók veruleikinn ímyndinni fram þar sem hugmyndaflugið hafði ekki náð að setja himbrima á vatnið sem söng með sinni sérstæðu röddu þegar við nálguðumst.  Við sáum skálann nokkuð að og þurfti að ganga hálfhring í kringum vatnið áður en komið var að honum.

Egilssel við fjallavatniðSkálinn er í eigu Ferðafélags Fljótdalshéraðs og er sá notanlegasti sem ég hef komið í.  Einstaklega hlýlegur og umgjörðin, eins og áður er lýst, ótrúlega falleg.  Sækja þurfti vatn í fötu niður í affallið og blasir þar neðan við mikið stuðlabergsgljúfur.  Út á spegilsléttu vatninu synti himbriminn og allt í einu var hann kominn með maka og tvo unga.  Þessi norður Ameríski fugl tekur sér óðal við fjallavötn þar sem hann verpir  og heldur því fyrir sig og fjölskylduna og hleypir engum öðrum að.  Hann getur verið mjög grimmur og hikar ekki við að drepa aðra fugla sem slæðast inn á yfirráðasvæði hans.  Aðeins um 300 himbrimapör halda sig á Íslandi, en hann verpir hvergi annarsstaðar í Evrópu.

Um kvöldið var komið besta veður og útlitið gott fyrir göngu morgundagsins.  Undir söng himbrimans héldum við pastaveislu sem jafnaðist á við hvaða ,,þriggja gafla" veitingastað út í heimi, enda umgjörðin og andrúmið óviðjafnanlegt.Himbrimi

Þögnin í öræfum er merkileg þar sem minnstu hljóð heyrast og það sem venjulega fer framhjá manni verður nánast áþreifanlegt.  Maður heyrir eigin hjartslátt og smáhljóð náttúrunnar heyrast.  Samskipti himbrimafjölskyldunnar úti á lygnu vatninu, söngur spörfugla og niður árinnar þrýstu sér inn um opinn gluggann.  Það er gott að sofna við tónaflóð náttúrunnar og láta þreytu dagsins líða úr beinum sér.  En allt í einu erum við vakin upp við háreysti fyrir utan, rétt eins og ribbaldar og útilegumenn hafi gert árás á Egilssel.  Við hjónin sváfum uppi á skörinni en félagar okkar niðri héldu að Fljótvíkingnum hefði hlaupið kapp í kinn, þrátt fyrir erfiði dagsins, og hljóðin stöfuðu af slíkum bægslagang.  En hér var eitthvað annað að gerast og við eftirgrennslan kom í ljós að kindahópur hafði gert árás á bakpokana okkar sem við skildum við í sumarblíðunni úti, og höfðu náð að opna einn þeirra og dreift innihaldinu um bæjarhlaðið.  Við urðum nokkuð kindarleg við þessa árás en tókum dótið okkar inn áður en lagst var til svefns að nýju.Egilssel

 


Gengið í Geldingafell

GönguleiðinÞað er got að fá upphitaða kjötsúpu að morgni átakadags, finna hvernig orkan streymir um mann og undirbýr göngu dagsins.  Við vorum níu alls sem lögðu upp á fallegum morgni frá Snæfellsskála, sex göngumenn og þrír trússberar; Sigrún, Stebbi, Ívar, Gerður, Kata,Elli, Halla,Gunni og Stína.  Við ókum fyrsta spölinn þar til Eyjabakkajökull blasti við í austri, þar sem trússberar voru kvaddir fram að endurfundum í Geldingarfelli að kveldi.

GönguhópurinnVeðrið lék við okkur með sólskyni og nærri tuttugu stiga hita og ekki skýhnoðri á himni.  Kverkfjöll gnæfðu yfir Vatnajökul í vestri, Snæfell í norðri og Eyjabakkar í austri.  Þetta var hinn fullkomni dagur til gönguferðar í hrikalegu og fögru umhverfi við sporð stærsta jökuls Evrópu, víðsfjarri mannabyggðum.

Fljótlega vorum við komin að Eyjabakkajökli sem þurfti að fara yfir til að losna við ána.  Það er erfitt að komast á skriðjökul þar sem sandbleytur og drullusvað er á mörkum hans.  Með útsjónarsemi fundum við leið á jökulinn eftir endalausa krákustíga fram hjá forarvilpum og öðrum hindrunum.  Það var notalegt að koma á jökulinn þar sem fast er undir fæti oSnæfellg vegna vikurs og gjósku í ísnum er hann stamur og hálkulaus.  Jökulinn er bæði hrífandi og hrikalegur, með sínum ísbláu sprungum og svelgjum þar sem yfirborðslækir steypast niður í hyldýpið.  Blái liturinn í sprungum verður til þegar ísinn síar rauðan og gulan lit frá sólu en eftir verður blái liturinn sem gerir sprungurnar hrífandi en ógnvænlegar.  Víða þurfti að finna bestu leið og stökkva yfir sprungur og sveigja frá svelgjum.  Við áðum eftir um tveggja tíma gang á jöklinum og nutum hádegisverðar á urðarana sem liggur austarlega í honum.  Það var komin sunnan strengur ofan af jökli en áfram var skaf heiðskýrt og skyggnið með besta móti.  Urðarraninn veitt þó skjól á meðan við nutum matarins og drukkum íslenska blöndu af Cappochino.

Enn áttum við eftir góðan spöl á jökli þar til fast land yrði undir fæti.  Við lentum full ofarlega og þurftum að lækka okkur nokkuð til að finna færa leið í land.  Þetta minnti nokkuð á völdunarhús þar sem stokkið var yfir sprungur og gegnið eftir jökulrönum, þar semGengið á skiðjökulinn oft tók við ógöngur og halda þurfti til baka og finna nýja leið.  Áin rennur með austurbrún jökulsins, en þegar neðar dregur gengur hún undir hann og þar er fært yfir á bakkann.  En sjaldan er ein báran stök og þegar við náðum landi tók við all brattur bakki úr jökulleir sem þurfti að komast upp.  Hópurinn kláraði það heill á höldnu og áfram var gengið austur að Geldingarnesi.

Við hverja hæð og bugðu rýndum við í landslagið í austri til að koma auga á skálann.  Oft er það þannig í fjallaferðum og gengið er að sæluhúsi, að fyrsta sýnin er glampi á þakið og síðan birtast útlínur með hurð og glugga og að lokum þegar nær dregur sjást smáatriði þessa dásemdar þar sem hvíla má lúin bein eftir átök dagsins.  En nú brá svo við að þessi töfrasýn lét á sér standa.hin_thrju_fraeknu.jpg

Við töpuðum fljótlega fjölda áa sem þurfti að vaða á þessari leið, og vorum orðin ansi þjálfuð í að snara okkur úr gönguskóm í vaðskó, ösla ánna og síðan aftur í gönguskóna.  Í raun getur slík ganga verið gleðirík í veðri eins og þarna, sól og blíðu og tveggja stafa hitastigi, enda notalegt að láta ískalt vatnið hríslast um þreytta og sveitta fæturna.

Þegar rúmur kílómetri var eftir í skálann sást ekki tangur né tetur af honum.  Geldingafellið hafði þó blasað við allnokkra stund en ekki komum við auga á skálann.  Allt í einu sáum við svipi á ferð upp á hálsi framunda, undir klettabelti.  Það var eitthvað í fasi þessa fólks sem sagði okkur að það væri ekki á göngu, og þótti okkur líklegt að þarna væru trússberar okkar að huga að félögum sínum sem voru orðin sein fyrir.  Það var því ákveðið að senda Fljótvíkinginn sem undanfara og láta vita af ferðum okkar og róa áhyggjufulla vini okkar, en við sáum hópinn aðeins augnablik áður en þaelli_a_skri_joklinum.jpgu héldu til baka í skálann.  Ég hljóp við fót og elti hnitin í GPS tækinu þar sem engan skála var að sjá, enda kom landslagið í veg fyrir sýn til hans.  Eftir að ég hafði hækkað mig um 200 metra sá ég skálann beint fyrir neðan mig en hnit sem fengin voru eftir ,,áræðanlegum" leiðum reyndust röng og settu skálann tæplega tvöhundruð metra of vestarlega.  Á leið niður í skálann var kallað til mín og þar var kominn félagi okkar sem var á útkikki, enda við orðin nærri tveim tímum seinni en ráð var fyrir gert.gengi_a_jokli.jpg

Það var kominn suð-austan hraglandi með súldarfýlu og skýin hrönnuðust upp.  En það var létt yfir mannskapnum enda beið okkar kaldur bjór og fljótlega var búið að kynda upp grillið og dásamleg lambasteik beið okkar.  Þegar kvöldaði var vesturhiminn blóðrauður og þá varð mér hugsað til skoskra sjómanna sem hafa fyrir orðatiltæki: „Red sky in the morning is the fishermans warning, but red sky at night is the fishermans delight"  Það skyldi þó ekki snúast til betra veðurs með morgninum miðað við reynslu Skotanna?

 

_in_va_in.jpg

 

 stokki_yfir_sprungu.jpg

 

 

 

 

 

 

halla_a_joklinum.jpg

 

 

 grilla_i_geldingafelli.jpgsolsetur_i_geldingafelli.jpg

 


Gengið á Snæfell

SnæfellEftir að hafa hlaðið batteríin í þrjá daga að lokinni göngu á Löðmund var ferðinni heitið á hæsta fjall landsins utan jökla, Snæfell.  Við vorum fjögur saman í þessari ferð og komum til Egilsstaða í 22°og sólskyni.  Við þurftum að bæta við vistir þar sem reiknað var með fjórum dögum á fjöllum.  Að Snæfelli gegnu var ferðinni heitið suður í Lónsörævi norðan Vatnajökuls.

karahnjukur.jpgÞað var hlýtt og gott veður þegar komið var í Snæfellsskála en þokuslæðingar léku um fjallstinda og sást ekki tangur né tetur af áfangastaðnum.  Það var komið fram yfir hádegi þegar lagt var af stað en við lentum í smá töfum við árhvísl skammt frá upphafstað göngunnar.  Ungt spænst par hafði fest bílinn í miðri ánni og var okkur bæði ljúft og skyld að bjóða fram aðstoð.  Bíllinn var af gerðinni Suzuki Shift, sem sumir halda að sé jeppi en í raun og veru er þetta algerlega gagnslaus bíll á hálendi Íslands.  Ekki tókst að losa bílinn og renndum við því upp í skála til að leita að kaðli til að draga hann.  En enginn var spottinn og því urðum við að skilja parið eftir, reyndar í 20° hita og sólarglennum milli þokulufsunnar.  En vandræði þeirra stóðu ekki lengi þar sem við mættum fallgöngufólki strax í upphafi uppgöngu sem vorum með kaðal í jeppa sínum og ætluðu þau að koma Spánverjunum til hjálpar. 

_var_og_ger_ur_1018347.jpgAðspurð sögðu þau okkur að engin fjallasýn hefði verið uppi á Snæfelli vegna þokuslæðu sem umlukti toppinn.  Þetta voru vonbrigði en héldum þó ótrauð áfram leiðinni á toppinn sem er í 1.833 metra hæð.  Í fyrstu eru brekkur aflíðandi, víða í skriðum en þó greinilegur slóði en fljótlega eykst brattinn og gengið upp skriðurunnar hlíðar.  Það er stöðugt á fótinn og í um 1.400 metrum er komið á snjó, en færið var gott og þrátt fyrir bratta var gangan auðveld í öruggum sporum.  Á uppleiðinni blasti Hálslón við með eyju sinni, Kárahnjúk, nyrst í stöðuvatninu og rétt við aðal stífluna.  Ekki spillti þetta mannvirki í miðri náttúruperlu útsýninu og séð úr þessari fjarlægð og hæð var engu líkara en þetta væri sköpunarverk almættisins.  Í raun fylltist maður undrun og smá stolti yfir þeim verkfræðiafrekum sem þarna hafa verið unnin, til að nýta bráðnandi vatn úr Brúarjökli til að skapa tekjur og beinharðan gjaldeyri fyrir Íslenska þjóð.  Á sama tíma var hægt að gleðjast yfir því að Eyjabakkasvæðinu væri að mestu borgið og betri kostur frá náttúruverndarsjónarmiðum skyldi hafa verið valin.  Að vísu er lítil stífla nyrst á Eyjabakkasvæðinu en  þó aðeins svipur hjá sjón miðað við upphaflega áætlun og áður en virkjun Hálslóns kom til._tsyni.jpgÁ leið á toppinn

Þegar við nálguðumst tindinn reif hann þokuna af sér, svona rétt til að opna okkur þá stórkostlegu sýn sem þá tók við.  Þekktasta kennileitið var konungur Íslenskra fjalla, Herðubreið sem reis tignarlega í norðri og gnæfði yfir Kárahnjúkum.  Góð yfirsýn var yfir Vatnajökul með sín 2.000 metra háu Kverkfjöll næst, en Hvannadalshnúk mátti greinilega sjá syðst í jöklinum.  Vel sást til Hofsjökuls og mátti greina Arnafellin tvö í norðvestur.  Við virtum fyrir okkur gönguleið næsta dags sem nú lá fyrir fótum okkar.  Þá yrði gengið frá Snæfellskála í Geldingarfellskála suður af Eyjabökkum.

gott_utsyni.jpgÞað er stórkostlegt að njóta tindsins eftir erfiða uppgöngu og þegar veðrið dekrar við mann og gefur möguleika á þvílíku augnkonfekti sem útsýni af Snæfelli er.  Það fylgir því ákveðin sigurvíma, ekki bara að hafa lagt á sig erfiðið, heldur að njóta heppninnar að þokunni skyldi feykt í burtu á réttum tíma.  Fólkið sem gekk á undan okkur hafði ekki árangur sem erfiði þar sem þokan byrgði alla sýn.

En undirritaður var ekki til setunnar boðið á toppi Snæfells.  Restin af gönguhópnum var væntanlegur í Snæfellsskála og gert ráð fyrir þeim upp úr kvöldmat.  Nú var komið miðaftanbil og því þurfti að hafa hraðar fætur til að koma sér í skálann og taka á móti ferðafélögunum með heitri íslenskri kjötsúpu.  Það er ekki laust við að maður finni fyrir því að miðaftanbil er tekið við í lífinu sjálfu þegar hlaupið er niður Snæfell til að elda súpu.  En einhvernvegin er hægt að stilla á sjálfstýringu og litli heilinn, sem ræður ósjálfráðum hreyfingum, tekur öll völd og ræður för og hraða og finnur fótum festu í hverju spori.valkyrur_a_svaefelli.jpg

Það þarf ekki að orðlengja það að súpan var tilbúin á réttum tíma og líkaði vel.  Svo vel að Reykjavíkurbörnin í hópnum vildu endilega fá ,,uppskriftina"  Svona til að klára frásögn af ferð á Snæfell þá er uppskriftin hér fyrir níu manna hóp:

 

1 niðursagað lambalæri

Slatti af lauk

Slatti af gulrófum

Slatti af gulrótum

Slatti af kartöflum

Grænkál

Súputeningar

Súpujurtir

Salt og pipar

 

Til að ekki þurfi hníf og gaffal til að njóta súpunnar er kjötið skorið í teninga og það síðan soðið, ásamt beinum.  Á meðan kjötið sýður er grænmetið skorið niður í teninga.  Þegar kjötið hefur soðið í rúman klukkutíma er öllu meðlætinu bætt útí og soðið í hálftíma.  Slökkt undir og súpan er tilbúin.  Nastarovja.toppurinn_sigra_ur.jpgkarahnjukur_1018352.jpg


Löðmundur við Dómadal

LöðmundurLöðmundur ber af sem svipmesta fjall Friðlands að Fjallabaki, og auðþekkt kennileiti víða að.  Fjallið er móbergsfjall þar sem gosið hefur ekki náð upp úr jökli til að mynda stapa á toppinn, eins og algengt er á hálendinu.  Það gerir fjallið sértakt í útliti og þvi er það auðþekkt langt að.  Hæsti tindur Löðmunar er Strókur, sem nær í tæpa ellefu hundruð metra hæð.  Auðvelt er að ganga á Löðmund, sem er framúrskarandi útsýnisfjall, hvort sem litið er til fegurðar í fjarska eða næsta nágrenni.

Við tókum afleggjaran frá Dómadalsleið í vestur frá Landmannalaugum, til hægri í átt að Landmannahelli þar sem ákveðið var að tjalda til einnar nætur.  Sama leið er ekin til baka nokkurn spöl þar sem beygt er í norður af slóðan upp að Löðmundarvatni þar sem gangan hefst.Kröftum safnað fyrir uppgöngu

nalgast_brunina.jpgLöðmundarvatn er fagurt fjallavatn og liggur við suður rætur fjallsins.  Auðveldasta leiðin upp er við vestur hlíðar þess þar sem eru aflíðandi brekkur upp á brúnina.  Í fyrri ferð okkar höfðum við farið upp Egilsgil, sem er sú leið sem Ari Trausti talar um í bók sinni 101 fjall.  Við ákváðum að reyna nýjan stað austar en þekkt leið er Tæpistígur sem er inn í Skálinni vestan megin.  Hún er nokkuð brött með kletta rana á vinstri hönd og farið um mjótt skarð upp á brúnina.  Við höfðum ekki góða lýsingu á þessari leið og lentum því vestan megin við klettana en útsýnið ekki síðra en á Tæpastíg.  Hlíðin er snar brött en gróin og fast undir fæti.  Það fylgir því skemmtileg óvissa þegar komið er upp með klettabelti og ekki víst hvort leiðin framundan er fær.  Svo reyndist vera og hægt að mæla með þessari uppgönguleið á Löðmund.  Landslagið speglast í blátæru lygnu vatninu og umgjörðin er einstaklega falleg, enda er þetta landsvæði einstakt á heimsmælikvarða hvað fegurð varðar og hefur algjöra sérstöðu í litum og margbreytileika.  Vert er að eyða tíma á brúninni þegar upp er komið og njóta fegurðar nærumhverfis suður af Löðmundi, en allnokkur ganga er á toppin eftir að þangað kemur.

Við toppinnEf gengið er í norður kemur göngumaður fljótlega á merkta gönguslóð að Strók, en landslagið upp á brúnum Löðmundar er allsérstakt.  Í fyrri göngu þarna vorum við í þokuslæðing sem létti til á milli og skapaði dulmagnaða sýn, en nú var 18° hiti og sólskyn.  Töluverður skafl er upp á fjallinu, enda er það í mikilli hæð yfir sjávarmáli en fljótlega ber Strók við himin og þangað er ferðinni heitið.

Strókur er brattur tindur, keilulaga og með otthvassan topp.  Það er ekki mikið pláss uppi en þó fundum við nægilegt rými til að taka af okkur pokna og hafa til nestið.  Og hvílíkur staður fyrir hádegisverð!  Engvir veitingarstaðir veraldar stæðust samanburð við Strók í skaf heiðskýru og sólskyn með vítt útsýni um stóran hluta landsins.  Maður er fljótur að venjast brattanum og ekki leið á löngu þar til maður hljóp i kringum vörðuna til að njóta þessa gleðiríka útsýnis sem býðst á slíkum degi.vi_vor_u_a_toppnum.jpg

Það fyrsta sem fangar athyglina er Hekla sem virðist vera innan seilngar.  En það er eins og hún hafi afklæðst skrautklæðum sínum og klæðst svörum sorgarbúning.  Enda meðferð Eyjafjallajökuls síðastliðin vetur á drotningu Íslenskra fjalla svakaleg.  Það þurfti að rýna á Heklu til að koma auga á skaflana, sem venjulega eru hvítir en eru nú að mestu svartir vegna gjósku eldgossins í Eyjafjallajökli. 

Þarna sjást allir meginjöklar landsins og mörg örnefni koma upp í hugan þegar litið er í kringum sig frá Stók.  Hofsjökull er þó greinlegastur með Kerlingafjöll í vestri og Arnarfellin í austri.  Vatnajökull breiðir úr sér í austri en Langjökull í vestri.  Í suðri sér ofaní Þórsmörkina og allt í einu dregur hann upp þykkan mökk sem verður nokkuð áberandi í heiðskýrunni.  Greinilegt er að komin er ákveðin sunnan átt sem þyrlar upp gjósku frá því í vetur og stefnir bakkinn í átt að okkur.  Að öllum líkindum er um sterkan sólfarsvind að ræða og nú stefnir eldfjallagjóskan norður yfir friðlandið.

gjoskusky.jpgVið fórum hefðbundnu leiðina niður fjallið, niður Egilsgil og komum að bílnum við Löðmundarvatn um miðjan dag.  Á þeim stutta kafla sem ekinn er í Landmannahelli byrjaði gjóskan að hellast yfir okkur og skyggnið var komið niður í tæpan kílómetra.  Þegar við komum á tjaldstæðið voru aðstæður allt annað en notalegar þar sem gjóskan smýgur um all og maður finnur fyrir hárfínum sandinum  í bitinu milli tannana.  Það var ekkert annað að gera en pakka saman og haska sér í burtu af þessum annars dásamlega og friðsæla stað í fjallasal.  Það þurfti ekki að aka nema í u.þ.b. hálftíma til að komast úr öskunni, og í þetta sinn var ekki farið í eldin, heldur 18° hita og sólskyn í Þjórsárdal.


Friðlandið að Fjallabaki

Næsti áfangastaður eftLandmannalaugarir Skaftafell var Friðland að Fjallabaki og ókum við í hlaðið við tjaldstæðið í Landmannalaugum í 18° hita og sól, en smá strekking.  Hér leggur maður ekki í að setja upp stóra tjaldið og göngubúnaðurinn látin duga, enda erfitt að reka tjaldhælana í harðan jökuleirinn, en enginn jarðvegur er á þessu svæði.  Notast er við steinhnullunga til að halda við stögin, sem dugar ágætlega fyrir göngutjöld.

Við ákváðum að fara í ,,stuttan göngutúr" fyrir kvöldið og ganga á Bláhnjúk.  Ferðin reyndist hinsvegar fjögurra tíma gangur, en var hverra mínútu virði.  Við höfðum áður gengið á þetta fjall og reyndar víðar í kringum Landmannalaugar, en útsýni yfir líparít fjöllin er stórkostlegt.  Bláhnjúkur er ekki hæsta fjallið á svæðinu en ber þó af t.d. Háöldu hvað karakter snertir.  Það er vel á fótinn að ganga upp bratta skriðurunna brekkuna, en góður stígur er þó alla leið, enda fjölfarin leið.  Á toppnum er útsýniskífa og því frábært að virða fyrir sér umhverfið og átta sig örnöfnum nær og fjær.  Vel sést til Vatnajökuls og Sveintinds, sem vekur upp góðar minningar um góða ferð á tindinn yfir Langasjó fyrir nokkrum árum. Torfajökull og Mýrdalsjökull í suðri og síðan frábært útsýni yfir nágrenni Landmannalauga, Brennisteinsöldu og Laugarhrauns.  Eins og innan seilingar má sjá Löðmund sem verður næsti áfangastaður okkar, sem er tilkomumesta fjall í Friðlandinu.

Á BláhnjúkÍ Landmannalaugum og Hrafntinnuskeri er mikið af hrafntinnu.  Hrafntinna er svart eldfjallagler, venjulega úr líparít sem hefur storknað hratt á yfirborði og ekki gefist tími til kristalmyndunar, og þykir hún sérlega falleg á Torfajökulsvæðinu, dílalaus, svört og gljáandi.  Laugahraun er líparíthraun sem storknað hefur sem kolsvör hrafntinna og virkar bæði stórkostlegt og hræðilegt þar sem það heldur utanum Landmannalaugar og virðist hafa stöðvast nákvæmlega á réttum stað til að veita skjól án þess að flæða yfir laugarsvæðið.Útsýni af Bláhnjúk

Við gengum niður að norðanverðu, upp undir Brennisteinsöldu, og síðan í krákustíga í gegnum hraunið þar til komið er i Grænagil.  Gilið dregur nafn sitt af grænu líparíti en blár litur er einnig ríkjandi í því.  Þarna er villugjarnt en leiðin er stikuð og því auðvelt að rata rétt leið.

Við mynni gilsins hittum við fyrir verslunarstjóra ,,Mountain Mall" sem er gróin verslun í Landmannalaugum  og státar ekki bara af miklu vöruúrvali, heldur góðu verði.  Upphaf verslunarinnar, sem rekin er í gömlum herrútum, var sala á silung sem grisjaður var úr vötnum í nágrenninu og hugkvæmdist stofnanda verslunarinnar að selja fiskinn ferðamönnum.  Hægt er að fá kaffisopa í versluninni og við hlið hennar er upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn.

RauðkollurEftir góða gönguferð var hressandi að bregða sér í laugina og skola af sér ferðarykið.  Þetta er sennilega þekktasta náttúrulaug landsins og örugglega sú mest sótta af ferðamönnum.  Volgur lækur rennur í gegnum laugina þannig að vatnið er alltaf hreint og tært, þrátt fyrir fjölda gesta frá morgni til kvölds.Grænagil

 


Gengið á Mælifell

eyjafjallajokull.jpgEftir góðan nætursvefn að Básum var lagt af stað snemma dags áleiðis í Skaftafell.  Ákveðið að fara lengri leiðina og aka upp Fljótshlíðina og síðan Fjallabak syðra norður fyrir Mýrdalsjökul.  Þetta er ægifögur leið og auðveldlega ekin á óbreyttum jeppa og ekki spillti veðrið fyrir, 18° hiti og sólskyn með nokkra góðviðrisbólstra við hæstu tinda.  Þegar komið var upp á Fauskaheiði var bíllinn stöðvaður til að njóta útsýnisins.  Nú sáust svartir jöklar Tindfjalla vel og þarna við fótskör Einhyrnings var útsýnið í suður til Eyjafjallajökuls stórkostlegt.  Nú sást gígur eldfjallsins greinilega og opið sárið niður Gígjökul eftir hamfarahlaupin, eins og risavaxið ör á svörtum jöklinum.  Gufustrókur stóð langt upp af gígnum og mátti sjá slá í rauðan lit á gufunni annað slagið næst eldstöðvunum.  Jökullinn hefur haft hamskipti síðan fyrir gos og enn verður mér hugsað til skíðaferðar fyrir þremur árum upp að Goðasteini, og þeim umskiptum sem orðið hafa síðan.

StrútsskáliEn ferðinni er haldið á og ákveðið að koma við í Strút til að snæða hádegisverð og skila kveðju frá landverði í Básum til staðahalda skálans.  Á leiðinni kíktum við í Markafljótsgljúfrum og dáðumst að hrikalegri stærð þeirra og ekki laust við lofthræðslu þegar litið er niður í gljúfrin.  Við renndum í gegnum hlaðið á Krók sem er eins og vin í eyðimörk þessa svæðis.  Nú vorum við komin á Laugarveginn þar sem hann liggur framhjá Álftavatni og Emstrum og margir á göngu eftir þessari vinsælu leið.  Við villtumst aðeins af leið og snérum við að Hvanngili áður en ferðin var haldið á austur Fjallabak syðra.  Síðar komum við á Mælifellssand þar sem ekið marga kílómetra er eftir blautum sandinum eftir stikum,og dregur nokkuð niður í bílnum við mestu sandbleyturnar.  Við fundum afleggjarann norður  að Strútsskála og renndum í hlað að þessum afskekta en fallega skála um nónbil.  Staðahaldarar voru hjón með ungan son sinn tóku okkur vel og sögðu okkur að þetta væri besti dagur sumarsins, enda væri allra veðra von á þessum slóðum.  Strútsskáli býður upp á fyrsta flokks gönguleiðir en smá heppni þarf til þar sem hér er opið fyrir suðvestan og norðaustan áttum og því er súldarfíla og kalsi nokkuð algeng. 

Þau ráðlögðu okkur að ganga á Mælifell sem er aðeins steinsnar frá Strút enda væri það frábært útsýnisfjall þó ekki væri nema rúmlega 300 metra hækkun upp á það.  Á Mælifelli

Það er gaman að ganga á Mælifell eftir þurrka og í góðu veðri.  Mosinn verður fastur undir fæti og gefur lítið eftir og nánast eins og ganga upp tröppur upp snarbratta hlíðina.  Það tók ekki langan tíma að ganga á toppinn en útsýnið og veðrið teygðu vel á tíma fjallgöngunnar.

HólmsárfossÍ suðri rís Mýrdalsjökull, að þessu sinni svartur og úfinn.  Greinlegt útsýni var til Langjökuls og eining Mýrdalsjökuls með Arnarfell sín í forgrunni.  Litafegurð Strútsalda naut sín vel frá þessum sjónarhól og langt í austri mátti grilla í Vatnajökul með Þórðarhyrnu og Hamarinn, jökulsker upp úr hvítum jöklinum.  Það sást vel til Kerlingafjalla, Hrútsfells og Bláhnjúk sem öll liggja við Kjalveg.  Sjónarveislan var ótrúleg og þá skal ekki undanskilja nærumhverfi norður undir fótskör Mýrdalsjökuls.

Göngumaður var léttur í spori eftir stórkostlegan tíma á toppnum og eftir að hafa sneytt hjá efsta hluta fjallsins og framundan var rúmlega 200 metra fallhæð niður að bílnum, lét hann gamminn geysa og hljóp eins og fætur leyfðu niður snarbratta hlíðina.

Leiðin suður með austurbrún Mýrdalsjökuls er ægifögur þar sem vel sést upp á skriðjöklana; Öldufellsjökul, Sandafellsjökul og Kötlujökul.  Staldrað var við Hólmsárfoss þar sem gróin reitur hefur myndast vegna úðans frá fossinum.  Margar ár eru á þessari leið og eru þær flestar brúaðar.  Komið er niður á þjóðveginn tæplega 20 kílómetra vestur af Kirkjubæjarklaustri sem var síðasti áfangastaðurinn á leið í Skaftafell.

ÖræfajökullÞegar komið var að Lómagnúp blasti Öræfajökull við í allri sinn dýrð.  Nánast óraunverulega fallegur í kvöldsólinni.  Nær mátti sjá Kristínartinda sem ganga átti næsta dag eftir að hafa safnað kröftum í Vatnajökulsþjóðgarði í Skaftafelli.


Í Skaftafelli

Gengið á Kristínartinda

SkaftafellUndirritaður hefur oft komið í Skaftafell en aldrei gengið á Kristínartinda fyrr.  Staðurinn öðlaðist nýja merkingu fyrir hann eftir að hafa lesið bók Jack Ives ,,Skaftafell í Öræfum" um síðustu jól.  Það varð ekki undan því vikist að heimsækja staðinn aftur og upplifa hughrif höfundar á landslagi og menningu Skaftafells.  Bókin er einskonar ástarjátning til Skaftafells og íbúanna, sérstaklega Ragnars Stefánssonar sem var bóndi að Skaftafelli og einn af forvígismönnum þjóðgarðsins.  Ragnar hafði tekið á móti Jack þegar hann kom til að undirbúa jöklarannsóknarleiðangur frá Bretlandi 1951.  Jack heillaðist af þessum einstaka manni og ekki síður Skaftafelli sem hann átti eftir  að kynnast vel í mörgum heimsóknum til staðarins síðar.  Kristínartindar voru honum sérstaklega hugleiknir hafði hann klifið þá ótal sinnum til að njóta þessa mesta útsýnisfjalls landsins.Kjósin

Gangan hefst á tjaldstæðinu við Skaftafell og gengið er upp með Bæjargili.  Fljótlega er komið að Hundafossi og síðan rafstöðinni við bæinn Bölta sem liggur vestan við gilið.  Lítið eitt vestar er Sel, en þar voru búðir Jack Ives og félaga í rannsóknarleiðöngrum á Morsárjökli við Vatnajökul 1953 og 1954. 

SvartifossVið lögðum lykkju á leið okkar til að skoða Svartafoss, sem steypist fram af svörtum stuðlabergi og er með fegurstu fossum Íslands.  Grænn gróðurinn í gilinu og uppi á brúnum þess stingur í stúf við svartan hamarinn og myndar einstaklega fallega umgjörð um fossinn og nágrenni hans.  En áfram er haldið upp með Hvarfi og síðan austur undir Skerhól og smátt og smátt nær maður hæð og yfirsýn yfir stórkostlegt umhverfi Morsárdals.  Þegar komið er upp á Skorar og horft fram af Skorabrúm blasa Skaftafellsfjöll við upp af Kjósinni.  Litskrúðug líparít einkennir þessi fjöll þar sem svartur, grár, rauður, grænn og blár litur er áberandi ásamt skrúðgrænum gróðurlit við rætur fjallana.  Til að undirstika sjónarveisluna er hvítur sandur Kjósarinnar, sennilega gjóska frá Öræfagosinu 1362, í botni hennar þar sem leifar jökulsár rennur en skriðjökulinn er horfinn.Við Skorar

Þegar kemur í Gemludal taka við brattar skriður en þægilegt er að halda sig í slóðinni sem liggur upp á milli syðri og nyrðri Kristínartinda.  Í kvosinni á milli tindanna er varða þar sem leiðir skilja niður að brúnum Skaftafells með útsýni yfir Skaftafellsjökul eða sveigt útaf til norðurs upp á nyrðri tindinn.  Sá tindur er hærri, 1126 metrar og þangað er förinni heitið.  Fljótlega tekur við smá klettaklifur en þó á allra færi að fást við.  Þegar hinsvegar er litið upp til tindsins virðist hann með öllu ókleifur með snarbröttum hamraveggjum hvert sem litið er.  En þessi klettastígur er milku auðveldari og hættuminni en á horfir og það ótrúlega gerist þegar ofar dregur að í staðin fyrir snarbratta hamra taka við aflíðandi þægilegar brekkur, alla leið á toppinn.

_Á toppi KristínartindaEn toppurinn stenst allar væntingar, og rúmlega það.  Skyggnið var ekki fullkomið en þokuslæðingur feyktist til og frá og byrgði útsýn yfir Morsárjökul og Skaftafellsjökul, en skaf heiðskýrt og bjart til vesturs yfir Kjósina og alla leið að Lómagnúp.  Súlutindar bera við Gnúpinn og enn nær breiðir Breiðamerkurjökull úr sér niður á aurarnar.  Litadýrðin í Skaftafellsfjöllum er nánast óraunveruleg og gæti tilheyrt framandi reikistjörnu.  Mann rekur í roga stans og trúir varla eigin augum.  Og hafi fegurðarskynið fengið ofbirtu við augnakonfektið þá tók ekki betra við þegar þokan leystist upp og Morsárdalurinn birtist með sínum 380 metra háu ísfossum.  Það var eins og við manninn mælt að skyndilega hrundi stórt stykki niður austurfossinn með gríðarlegum drunum sem bergmáluðu um fjallasali umhverfisins.  Ferðafélagi minn átti afmæli þennan dag og ekki hægt að hugsa sér betri stað til að halda upp slík á tímamót, en hún er fædd fimm árum eftir fyrstu komu Jack Ives til Skaftafells.Nyrðri tindur Kristínartinda

Ísfossarnir í Morsárdal voru einmitt rannsóknarefni Jack Ives og félaga í upphafi sjötta áratug síðustu aldar.  Þá náðu jöklarnir saman neðan fossana og runnu saman í einn skriðjökul niður Morsárdalinn, en nú er eystri taumurinn aðskilin frá þeim vestari og endar skammt fyrir neðan fossinn.  Þetta er stórkostlegt náttúruundur og drunur fossanna voru íbúum Skaftafells daglegt brauð, en þær heyrðust á góðum dögum alla leið niður að bæ.

Þokan sveipaði umhverfinu dulmögnuðum blæ og feyktist til og frá.  Eina stundina hvarf Morsárjökull og allt í einu var eins og tjald væri dregið frá og við okkur blasti þessi tilkomumikla fegurð.  Vel sást yfir á Öræfajökul með Hvannadalshnúk hnarreistan þó Hrútsfjallið virtist hærra vegna nálægðar við Kristínartinda.  Þokan náði ekki í þessa hæð og vel sást norður eftir Vatnajökli að Þuríðartind, og norðar voru Þórðarhyrna og Geirvörtur ásamt Bárðarbungu.  Lengst í norðri töldum við okkur grilla í Kverkfjöll.

Ekki sást niður til Skaftafellsjökuls vegna þokunnar sem ekki vildi láta undan í austurhlíðum Bröttuhálsa í Kristínartindum.  Við vonuðum að úr því rættist á niðurleið þar sem hægt er að ganga suður brúnir ofan skriðjökulsins.

Kristínartindar Til vesturs eru Kristínartindar þverhníptir niður að jökulfarveg Morsárjökuls og álíka fall niður að vestan megin niður að Skaftafellsjökli.  Tindurinn sjálfur er öruggur og þægilegur til að njóta veislunnar.  Slétt flögugrjót og nægilegt pláss til að athafna sig og því upplagt að njóta hádegisverðar á þessum stórkostlega stað.  Rúgkökur með hangiketi og kæfu brögðuðust sérlega vel við þessar aðstæður.

Ferðin niður gekk vel og þegar komið er niður í kverkina milli tindana er tekin vinstri beygja til að fara suður brúnir Skaftafellsjökuls.  Slóðin var örlítið ógreinleg á kafla og erfitt að ná áttum þegar þokan læddist yfir.  Allt í einu blasti við okkur gríðarlegur gígtappi í gegnum þokuna og kom þá upp í hugan umræða um reðurtákn og karlmennsku sem fram fór í ferðum okkar um Skagafjörð fyrr um sumarið með Hallgrími Bláskóg.  Þar var talað um að ,,mastra" eins og gert var á víkingaskipum áður en siglt , þegar mastrið var reyst og seglið dregið að húni.  Þetta var heldur betur reisulegt mastur hefði sómt sér hvar sem er innan um manngerðar súlur karlmennsku víða um heim.mastri.jpg

Skaftafellsjökull lét ekki að sér hæða og þegar við komum niður  á brúnir Austurheiðar hafði þokan hörfað og við blasti útsýni yfir jökulinn.  Tröllaukinn kraftur þyngdaraflsins þar sem ákoma jökulsins þrýstir honum niður brattar hlíðar fjallsins, sverfur og mótar landslagið með mikilúðlegum hætti.  Hlíðarnar eru víða snarbrattar þar sem er kafsprungin jökullinn rífur sér leið niður dalinn og skilur eftir greinilegan urðarana sinn sem hann sverfur úr jökulskeri nálægt austurjaðrinum. 

Við komum heim í tjaldið sjö tímum eftir brottför, þreytt og ánægð eftir nánast ofgnótt fegurðar og stórfengleika dagsins.  Í austri lúrði Hvannadalshnúkur yfir okkur, baðaður kvöldsólinni og Dyrhamar rétt sunnan hans.  Með tár af rauðvíni í glasi og minningar dagsins ásamt þessari fögru kvöldsýn virtist tilveran vera fullkomin.

 

Skaftafellsjökull


Gengið á Fimmvörðuháls

Gengið á eldfjallaslóðir á Fimmvörðuhálsi.

_orsmork_2010_018.jpgÞað jafnast ekkert á við að ferðast um Ísland í góðu veðri.  Það getur því borgað sig að fresta sumarfríinu um tæpan hálfan mánuð og láta dýpstu sumarlægð frá upphafi mælinga þjóta hjá í byrjun júlí og hefja för um miðjan mánuðinn í staðin.  En þá var veðurspáin einmitt eins góð og hún getur orðið á Íslandi.

Við komumst seint af stað og því var ferðinni heitið yfir Þorskafjarðarheiði og áð í Bjarkalundi yfir nóttina.  Göngutjaldið tekið upp enda tjaldað til einnar nætur í 18° hita og sól.  Síðan var lagt snemma af stað til Reykjavíkur til að bæta á búnað og vistir fyrir tveggja vikna ferð um óbyggðir Íslands.

 Það var ákveðið að byrja í Þórsmörk en umhverfið virtist framandi þegar komið var í Landeyjar og framundan blöstu við kolsvartir jöklar Eyjafjallajökuls, Tindafjalla og Mýrdalsjökuls.  Við komum aðeins við á Hvolsvelli þar sem við hittum fyrir gamlan Ísfirðing sem lýsti fyrir okkur afleiðingum og hörmungum af eldgosi vetrarins með með gjósku og svifryki sem tróð sér inn í híbýli og fylltu vit og byrgðu sýn.  Skepnur og menn voru úrvinda eftir eldgosið í Eyjafjallajökli og í fyrsta sinn báðu íbúar suðurlands fyrir rigningu til að binda ryk og hefta uppblástur.  Okkur var sagt að sterk og hlý norðanáttin gæti átt það til að þyrla upp gjósku í Þórsmörkinni og því gætum við fengið smjörþefinn af því sem sunnlendingar máttu þola þennan eldfjallavetur.

 _orsmork_2010_022.jpgÞegar við nálguðumst mynni Markarinnar var skyggnið orðið takmarkað og rétt grillti í Tindafjallajökul í gegnum gjóskuskýið þar sem hann trónir yfir Þórsmörkinni.  Okkur leist ekkert á blikuna og bölvuðum því að hafa ekki öndunargrímur meðferðis.  Það virtist ekki árennilegt að halda á inn í þennan óskapnað án þess að hafa réttan búnað meðferðis.  Við slógum á þráðinn upp í Bása þar sem landvörður varð til svara og ólíkt sterkri norðanáttinni í Austur Landeyjum blakti ekki hár á höfði upp í mörkinni sjálfri.  Þar væri brakandi sól og bíða og menn og málleysingjar lausir við gjósku og ryk.

Stefnan var því tekin yfir markafljót og síðan upp með Stóra Dímon en Eyjafjallajökull reis myrkur og ljótur upp á hægri hönd.  Við tókum afleggjarann upp að Gígjökli til að sjá ummerki eldgossins og þar var hrikalegt um að litast.  Ummerkin eftir hlaupin voru greinleg og sjálfur jökullinn ekki svipur hjá sjón og lónið horfið.  Mér var hugsað aðeins þrjú ár aftur í tíman þegar ég lagði á Eyjafjallajökul við þriðja mann, reyndar nokkuð vestan við Gígjökul, og gengum á skíðum á Goðastein.  Jökullinn hafði umhverfst síðan og ásamt því að vera kolsvartur af gjóskulagi, hafði heljarkrumla jarðeldana umbreytt öllu landslagi.  Skriðjökulinn er aðeins brot af fyrri stærð, sundurtættur af ógnar jökulhlaupum og farvegur hans virðis vera mörgum númerum of stór.  Þar sem áður blasti við blátt lónið og tignarlegur hvítur Gígjökull, blasti við eyðimörk eins og dómsdagur væri upp runnin.

En áfram var haldið upp í Bása, sem þrátt fyrir eyðandi öflin í næsta nágrenni, bauð okkur velkomin, iðagrænt í blíðviðrinu.  Við tjölduðum stóra tjaldinu enda áætlað að vera tvær nætur i Þórsmörk.

 _orsmork_2010_026.jpg

Ferðinni var heitið upp á Fimmvörðuháls til að skoða ummerki fyrra eldgossins frá því í vetur.  Við lögðum af stað snemma um morguninn og stefnum upp Kattahryggi.  Það er ekki allt sem sýnist í Þórsmörk þessa dagana.  Þrátt fyrir gróðurinn er hann ekki svipur hjá sjón.  Gjóskan liggur yfir öllu og eins og hárfínn askan hafi slípað allan glansa af gróðrinum og birkið er allt matt og litlaust.  Vonandi verður þetta ástand aðeins tímabundið en askan er víst góður áburður þegar til lengri tíma er litið.

Það var ekki komið hádegi þegar við klifum upp á Útgönguhöfða og við tók löng ganga á sléttlendi upp að Heljarkambi.  Á leiðinn er útsýnið stórkostlegt þó auðvitað spilli svartri jöklarnir fyrir.  Rýna þurfti á Tindafjöll til að koma auga á jöklana sem runnu saman við landslagið.  En Rjúpnafellið var iðagrænt og rifjaðist upp fyrri ferð í Þórsmörk þar sem þetta bratta fjall var klifið.  Hattfellið er áberandi kennileiti þar sem það rís yfir Hvannadal.  Eftir Heljarkamb, sem er bæði brattur og langur, tekur við útsýni yfir jökla Mýrdalsjökuls, Goðalandsjökul, Tungnakvíslarjökul og Krossárjökul.  Goðalandið allt er eins og tekið út úr einhverri ævintýrabók og ekki draga ummerki eldgossins úr þeim hughrifum. 

Fimmvörðuháls er í u.þ.b. 1000 metra hæð og því um 750 metra hækkun að ræða frá Básum, sem liggur nálægt 250 metra yfir sjávarmáli.  Fljótlega eftir Heljakamb er komið að nýja hrauninu og hefur verið stikuð leið yfir það suður yfir hálsinn, fram hjá gígum eldfjallsins.  Hraunið er víða sjóðandi heitt viðkomu og rýkur úr þar sem einhver væta er til staðar.  Við komum að fólki sem var að rista sér brauð á hrauninu og seinna að hópi sem var að grilla pylsur.  Leiðin er þó örugg enda stikuð af staðkunnum og mikilvægt að fylgja þeirri leið.  Ég prófaði að stinga göngustafnum niður í gegnu þunna skelina og var hitinn slíkur að plast bullan kom bráðin upp.  Það er stórkostleg sjón að sjá þar sem hraunbreiðan hefur stöðvast við jökulinn og þar mætast ís og eldur orðsins fyllstu merkingu.

_orsmork_2010_031.jpgVið gengum sem leið liggur hálfhring kringum nýja gíginn, sem skartar sýnu fegursta þegar komið er sunnan megin við hann, með ótrúlegu litrófi þar sem rauður gulur og grár litur spinnur sitt listaverk í nýjasta hluta landsins.  Í vestri mátti sjá gríðarlegan gufumökk rísa upp frá eldstöðvunum í Eyjafjallajökli þar sem heitt hraunið bræðir ísinn og breytir honum síðan í gufu.  Við nutum þessa útsýnis á meðan við snæddum miðdegisverð í sól og blíðu en hrukku upp við drunur í þyrlu sem lenti síðan skotspöl frá okkur.  Þyrlan var hulin gjóskuskýi í um hálfa mínútu áður en flugmaðurinn drap á hreyflinum.  Ferðamenn stigu út til að skoða ummerki eldgossins og höfðu heldur minna fyrir því en fjallgöngumenn sem lagt höfðu á sig fjögurra tíma göngu frá Básum.

Það er gaman að ganga sömu leið til baka og eins og gengið sé um allt annað svæði.  Þar sem við höfðum áður snúið baki við var nú framundan og göngunnar því notið vel, ekki síst þar sem nú hallar undan fæti sem gleður fjallamann sem er byrjaður að finna til þreytu af göngu sinni.  Það er alltaf jafn gaman að koma niður úr lífvana Goðalandi niður í grósku Þórsmarkar, þó hún skarti ekki sínu fegursta þessa dagana.  Katthryggir eru skemmtilegir og glaður göngumaður hlakkar til endurkomu í Bása þar sem hressing og heit sturta bíða hans og er honum hugfast á lokapretti göngunnar.

 _orsmork_2010_032.jpg_orsmork_2010_034.jpg


Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 48
  • Frá upphafi: 283912

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband