Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Hlutverk ríkisvaldsins

Helsta hlutverk ríkisvaldsins er að vernda borgarana.  Ljóst er að Dönum hefur tekist vel til í þetta sinn, þökk sé öryggislögreglu ríkisins.  En hvernig ætli að þessum málum sé háttað hér á Íslandi?  Eru stjórnvöld að standa sig í þessu grundvallar hlutverki sínu?

Þegar Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra, vildi stofna hóp manna sem væru eiðsvarnir og gætu tekið við leynilegum upplýsingum frá öðrum ríkjum, t.d. varðandi hryðjuverkaógn, var gert grín að honum af vinstri mönnum.  Talað var um málið af hálfkæringi og talað um leyniþjónustu Björns.  Sama var uppi á teningnum þegar hann vildi styrkja sérsveit lögreglunar til að geta tekist á við alvarleg mál eins og hryðjuverkaárás.  Það var gert grín að því og kallað einkaherinn hans Björns.

Það má hinsvegar vera augljóst að ekki er spurt að landamærum í svona málum.  Það hefði getað verið DV sem birti myndir af spámanni öfgamanna og við það færist víglínan til Íslands.  Engin spyr um hvort Ísland sé lítið og sætt með engan her.  Það gerir landið bara áhugaverðara fyrir hryðjuverkamenn.  Það þíðir ekki að stinga höfðinu í sandinn í svona málum og menn verða að viðurkenna þessa ógn og geta brugðist við henni.  Utanríkismálanefnd Alþingis er hriplek og myndi aldrei verða treyst fyrir leynilegum upplýsingum.  Sá hópur manna sem tækju við slíkum upplýsingum, sem geta skipt sköpum til að bregðast við ógn, þarf að vera eiðsvarinn og eiga yfir höfði sér ákærur um landráð ef eitthvað lekur út.  Slíkt er ekki til hér á landi og engin leyniþjónusta út í heimi myndu treysta Íslendingum fyrir mikilvægum leynlegum upplýsingum.

Það lýsir hinsvegar núverandi dómsmálaráðherra að hann situr fund í sínum flokki, VG, þar sem meirihluti fundarins ákveður að skora á ráðherrann að hlutast til um dómsmál!  Að framkvæmdavaldið taki fram fyrir hendurnar á dómsvaldinu, til að koma í veg fyrir að ofbeldisfólk sem réðst á Alþingi sleppi við dóm.  Þessu fólki dettur ekki í hug að treysta dómsvaldinu fyrir málinu, þar sem þetta fólk verður sýknað ef sakir verða ekki sannaðar, en dæmt þungum dómum ef það verður sakfellt.  Datt engum í hug, ég tala nú ekki um dómsmálaráðherrann sjálfan, að útskýra þetta mál fyrir fundinum, áður en hann ályktað í þessa veru og opinberaði síðan fyrir alþjóð að stór hluti VG eru stjórnleysingjar og stóðu fyrir því ofbeldi sem þessir níumenningar framkvæmdu.

Ég treysti ekki þessu fólki sem setur pólitík ofar öllu og hiklaust tilbúið að fórna rétti einstaklinga og ganga gegn grunnreglum samfélagsins, stjórnarskránni, ef það styður þeirra málstað.  Ögmundur Jónasson er ekki líklegur til að sinna grundvallar hlutverki sínu, að gæta öryggis borgaranna.  Enda eru helstu stuðningsmenn hans órólegi armur VG, sem eru til alls líklegir.


mbl.is Dönsk stjórnvöld vissu af hryðjuverkaáformum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ávarp formanns í jólablaði Vesturlands

Fyrir nokkru átti ég leið um norður Úganda þar sem nýlega hafði komist á friður eftir langvinn átök.  Margir íbúa höfðu flúið svæðið og snéru nú heim eftir áratuga dvöl í flóttamannabúðum og komu að veraldlegum eigum sínum í rúst, en öllu verra var ástvinamissir sem fylgdi þessum tilgangslausa hernaði.

Ólýsanlegir atburðir höfðu gerst þar sem meðal annars ungir drengir voru þjálfaðir til hermennsku og notaðir til illvirkja.  Langþráður friður var kominn á en íbúar þurftu að takast á við afleiðingar stríðsins, helteknir af harmi og hatri.  Aðstæður sem kalla fram verstu kenndir mannsins eins og þeir væru andsettir.  Hvernig átti fólk að losa sig úr slíkum viðjum hugans, hætta að horfa um öxl og takast á við verkefni morgundagsins? 

USAID, bandríska þróunarstofnunin, styrkti meðal annars særingamenn sem ferðuðust um þessi héruð og söfnuðu saman þolendum og gerendum þessara voðalegu atburða.  Særingarmennirnir notuðu fórnarathafnir til að reka út illa anda, fá fólk til að sættast við örlög sín og horfa til framtíðar.  Í raun og veru snérist þetta um fyrirgefninguna þannig að fólk gæti notað krafta sína til að takast á við lífið í stað þess að hefna harma sinna.

Fyrirgefningin er greypt inn í menningu vesturlanda sem eru undir sterkum áhrifum frá kristinni trú.  Þegar Jesús Kristur boðaði guð fyrirgefningarinnar voru ekki allir ánægðir á þeim tíma.  Margir töldu að umburðarlyndur guð myndi spilla samfélaginu og hugnaðsist ekki boðskapur Nýja testamentisins.  En það er einmitt boðskapur Jesú um fyrirgefningu og umburðarlyndi sem hefur mótað gildismat Vesturlanda; hvað sé fallegt eða ljótt, gott eða vont, rétt og rangt o.s.frv.   Þegar við erum í vafa um slíkt sækjum við í siðvöndun kristinnar kirkju og þó við fylgjum ekki alltaf siðaboðskap hennar þá erum við nokkuð sammála um gildismatið.

Hér er lýst tveimur ólíkum menningarheimum með ólíkt gildismat og aðferðir.  Það er ekki rétt að tala um að annað sé betra eða verra, en menningararfleifð okkar og íbúa norður Úganda er mjög ólík.  Hvort sem menn trúa bókstaflega á guð eða ekki verður því ekki neitað að menning og gildismat þjappar okkur saman sem þjóð, og tengir okkur sterkum böndum við önnur vestræn ríki sem deila því með okkur.  Við eigum að varðveita menningararfleifð okkar og þau megingildi sem við eigum sameiginleg.  Umburðarlyndið hvetur okkur til að virða önnur trúarbrögð og viðhafa trúfrelsi á Íslandi, en ríkið á að vernda þjóðkirkjuna sem er hornsteinn siðvöndunar og sameiginlegs gildismats þjóðarinnar.  Það gerir okkur að þjóð en sprettur ekki af sjálfu sér, heldur á sér rætur í trúnni.

Eins og Úgandabúinn þurfum við að fyrirgefa og losa okkur við þann illa anda sem hatrinu fylgir.  Horfa fram á veginn og takast á við framtíðina. 

Jólin eru góður tími til að hugleiða þetta.  Gleðileg Jól.


Grein í Morgunblaðinu

Einkarekstur eða ríkisútgerð?

 

Þau átök sem nú standa yfir um stefnu í sjávarútvegsmálum snúast um það hvort Íslendingar ætli að nota samkeppni eða skipulag (áætlunarbúskap) til að hámarka verðmætasköpun í sjávarútvegi. Viljum við treysta á framtak einstaklinga sem keppa hver við annan um nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar eða viljum við ríkisfyrirkomulag, þar sem stjórnmálamenn ákveða hver skuli framleiða hvað, með hvaða hætti, hvenær og fyrir hverja? 

 

Samkeppni er undirstaða vestrænnar verðmætasköpunar og jafnvel Kínverjar byggja sinn þjóðarhag á einstaklingsframtakinu.  En hvernig getum við nýtt samkeppni við fiskveiðar og komist framhjá þeim augljósu annmörkum sem endurnýjanleg auðlind setur okkur?   Er hægt að nota aðferðir samkeppni til að hámarka afrakstur af fiskveiðum?

 

Leikreglur í sjávarútvegi

Það er morgunljóst að óheft samkeppni gengur ekki upp, þar sem fiskistofnar yrðu ofnýttir með svokölluðum „ólympískum" veiðum. Setja þarf almennar leikreglur (lög og reglugerðir) sem tryggja hagkvæma nýtingu auðlindarinnar til langs tíma litið. Hið opinbera tekur ákvörðun um hámarksafla, byggðan á ráðleggingum vísindamanna (Hafrannsóknastofnunin), þar sem vísindalegum aðferðum er beitt til að meta veiðiþol fiskistofna.

 

Með aflamarkskerfinu er nýtingarétturinn falinn einstaklingum eða fyrirtækjum með hlutfallslegri skiptingu. Það er síðan undir þeim sjálfum komið hvaða leiðir eru farnar til þess að hámarka verðmætin úr aflahlutdeildinni. Eftirlit (Fiskistofa) er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir undanbrögð og frávik og einnig til að allir geti treyst að farið sé að reglum. Það að þörf sé á opinberu valdboði til að skapa skilyrði fyrir samkeppni sannar ekki yfirburði skipulags yfir samkeppninni. Reglurnar eru einmitt settar til að tryggja samkeppni, þannig að sjómenn séu ekki háðir duttlungum stjórnmálamanna. 

 

Skipulagið hinsvegar gerir ráð fyrir að yfirvöld taki í auknum mæli þær ákvarðanir sem einstaklingarnir gera í dag.  Ríkið ákveður þá hverjir eigi að veiða og hvenær.  Hvaða veiðafæri séu hagkvæmust, hvar skuli taka aflann og hvaðan skuli róið. Með fyrningarleið munu handhafar aflaheimilda verða undir hæl ráðamanna og háðir duttlungum, stefnum og straumum hverju sinni.  Óvissa mun einkenna atvinnugreinina þar sem engin veit  hvað morgundagurinn ber í skauti sér.

 

Ákvarðanir markaðarins

Trúir því einhver að sjávarútvegsráðherra geti með tilskipunum ákveðið hvort loðnuskip skuli landa í mjölvinnslu eða í frystingu til manneldis?  Hvort klára eigi kvótann í mars eða dreifa veiðinni út fiskveiðiárið til að þjóna kaupendum á markaði?  Hvort sjómaður eigi að róa frá Tálknafirði eða Bolungarvík?  Hvort betra sé að veiða með krók eða dragnót eða hvort flytja eigi fiskinn út frosinn eða ferskan?  Hér er um svo flóknar ákvarðanir að ræða að ekkert yfirvald getur tekið þær. Við höfum treyst einstaklingunum fyrir þeim og sett reglur sem tryggja að ákvörðun þeirra fari saman við hagsmuni eiganda auðlindarinnar, íslenska ríkisins. Þeir sem aðhyllast ríkisafskipti af sjávarútvegi hafa aldrei útskýrt hvernig stilla eigi saman veiðar og þarfir markaðarins með fyrningarleið. Segja aðeins að gerðar verði ,,tilraunir" með það. 

 

Frelsi eða ríkisafskipti

Þó samningaleiðin sem sáttarnefnd í sjávarútvegi samþykkti sé ekki fullkomin, er hún miklu betri en fyrningarleiðin.  Samningaleiðin gengur að vísu lengra í skipulagningu en nú er gert, en tryggir þó í grunninn hagkvæma samkeppni í veiðum. Íslendingar standa frammi fyrir vali um einkarekstur eða ríkisafskipti í málefnum sjávarútvegs og hvor leiðin sé líklegri til hagsældar fyrir þjóðina.

 

 


Stofn útrásarvíkinga stækkar

gorilla2.jpgStofn útrásarvíkinga á Íslandi hefur vaxið á seinni árum. Talið er að stofn útrásarvíkinga hafi nánast tvöfaldast á tveimur árum, samkvæmt nýlegum rannsóknum. Er þá átt við svæðið innan borgríkis Reykjavíkur.

Óttast var að þessi víkingategund væri í útrýmingarhættu. Á þessu svæði voru taldir 25 víkingar árið 2007 en þeir eru nú orðnir hátt í 45 talsins. Mestu munar um víkinga sem uppgötvaðir hafa verið í stjórn gjaldþrota stórfyrirtækja, Exista t.d. og í skilanefndum föllnu bankanna.  Ríkisstjórnin bindur miklar vonir við vöxt stofnsins með von um að hann geti hækkað meðallaun í landinu og staðið undir auknum skattaálögum fyrir samfélagið.


Grein í Fiskifréttum

Hamfarastjórnun Ólínu í sjávarútvegsmálum

Tvö erfið verkefni bíða þjóðar og þings sem hafa klofið samfélagið í margar fylkingar.  Annars vegar umsóknin um aðild að ESB og hins vegar sjávarútvegsmálin. Báðir þessir málaflokkar eru flóknir og hafa þarf talsvert fyrir því að setja sig vel inn í þá. Fyrir vikið mótast umræðan af rangfærslum og upphrópunum.  Þegar þannig háttar eiga lýðskrumarar auðvelt með að ná eyrum fólks og láta því gamminn geysa og oftar en ekki af hávaða meir en viti.  Það er því sérlega erfitt þegar þessum tveimur mikilvægu en flóknu málum er hrært saman og sú blanda notuð til að rugla fólk enn meira í ríminu.

 Í sjónvarpsfréttum RÚV þann 24. nóvember sl. kom varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðanefndar Alþingis í fréttatíma með „stórkostlega" yfirlýsingu.  Nú þyrfti að innkalla allar veiðiheimildir þannig að þær væru á forræði ríkisins áður en við gengjum í ESB.  Þjóðnýting á aflaheimildum væri nú forgangsmál og ekki mætti nokkurn tíma missa.

 Hamfarastjórnun

Á slíkri ögurstundu þarf ekki að nota samráð eða lýðræðisleg vinnubrögð.  Hér þarf að nota hamfarastjórnun eins og við snjóflóð, jarðskjálfta eða eldsvoða.  Slík stjórnun er reyndar einnig notuð í hernaði, þar sem ekki er tími til að taka lýðræðislegar ákvarðanir, hvað þá að velta fyrir sér sanngirni og langtímahugsun. Vinna þarf orustuna en huga síðar að afleiðingum stríðsins.

 Ég hef reyndar áður kynnst fólki sem notar slíkar stjórnunaraðferðir, hamfarastjórnun, en hún gagnast sjaldast við venjulegar aðstæður. En hvað skyldi nú búa undir hjá þingmanninum, annað en fjandskapur hennar í garð þess fólks sem starfar við sjávarútveg?  Gengur röksemdarfærsla hennar upp og eru mál hér svo aðkallandi að grípa þurfi til slíkra örþrifaráða við ákvarðanatöku?

 Gefum okkur að Íslendingar gengju í ESB við næstu áramót og stæðu frammi fyrir því að afnema þröngt eignarhald þjóðarinnar á sjávarútvegsfyrirtækjum þar sem jafnræðis yrði gætt innan EES svæðisins.  Það hefur reyndar komið í ljós að erlendir aðilar hafa hingað til mátt eiga 49.99% í slíkum fyrirtækjum án þess að himnarnir hryndu.  En gefum okkur þetta og ríkið þjóðnýtti kvótann í einum grænum áður en ósköpin dyndu yfir.  En hvað svo?  Hvernig myndu yfirvöld deila þessum gæðum út eftir inngöngu í ESB? 

 Samkeppnisyfirburðum fórnað

Ekki mætti mismuna þjóðum innan EES þannig að Norðmenn eða Spánverjar myndu sitja við sama borð og íslenskir aðilar við leigu á kvótum af ríkinu.  Þetta liggur morgunljóst fyrir og þetta fyrirkomulag mun því ekki halda útlendingum frá auðlindinni.  Við hefðum hinsvegar vængstýft íslenska sjómenn og grafið undan samkeppnishæfni þeirra gagnvart útlendingum.  Samkeppnisyfirburðum sem þeir hafa haft undanfarna áratugi.  Nú þyrftu þeir að keppa í uppboðum við útlendinga, með töluverðar skuldir en án þeirrar eignar sem gerði þá öfluga í samkeppni, sjálfum nýtingarréttinum.

 Í dag er íslenskur útvegur sá öflugasti í heimi. Við trónum á toppnum með þjóðum sem nota svipaðar aðferðir við fiskveiðastjórnun . Engin þeirra þjóða er í ESB.  Samkeppnisyfirburðir okkar gagnvart þjóðum evrópska efnahagssvæðisins eru slíkir að fátt er að óttast, svo framarlega að fólk eins og Ólína Þorvarðardóttir nái sínum stefnumálum ekki fram.

 Heift eða heimska?

Ekki veit ég hvort varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndarnefndar er svo blinduð af heift út í íslenska sjómannastétt eða hvort hún er svona illa að sér í þessum tveimur mikilvægu málaflokkum, sjávarútvegi og ESB, að henni sést ekki fyrir.  Heilræði mín til Ólínu er að hún ræði af sanngirni við fólk í sjávarútvegi og lesi sig betur til um fjórfrelsið sem útilokar mismunun borgara innan EES svæðisins í viðskiptum.

 

 


Ná - vígi

Bloggara var stórlega misboðið þegar hann horfði á Návígi með Þórhalli á RÚV í gærkvöldi.  Ekki í fyrsta sinn en nú tók steininn úr.

Það kallar á þekkingu á málefninu ef taka á menn á teppið og sýna þeim fulla hörku og láta þá ekki komast undan að svara.  En í gærkvöldi hafði Þórhallur lært nokkur stikkorð og frasa og lét þá stanslaust ganga á viðmælanda sinn, Steinþór Pálsson bankastjóra Landsbankans.  Hann gaf honum bókstaflega ekkert tækifæri til að svara spurningum og gelti bara á hann stanslaust.  Hér var um mjög áhugaverðan vinkil að ræða og hefði verið gaman að heyra í vel upplýstum manni útskýra þessi mál með faglegum hætti.  Mikið vantar uppá aðalmenningur fái upplýsingar um það sem er að gerast, en þessi sjónvarpsþáttur var ekki innlegg í þá umræðu.

Þórhallur hefur greinilega engan skilning á því hvernig þetta allt gengur fyrir sig, né hvernig bönkunum var skipt upp í gamla og nýja og uppgjörið þar á milli.  Hann skilur heldur ekki hvernig kaupin ganga fyrir sig á eyrinni og að þegar fyrirtæki fer í þrot er það skiptaráðandi sem tekur við.  Það hefði verið áhugavert að fá útskýringar Steinþórs á því hvernig Landsbankinn ætlar að sigla þann erfiða róður sem framundan er, en það var ekki möguleiki á því fyrir geltinu í stjórnandanum.  Hann hafði varla byrjað að svara eða útskýra það sem hann var spurður að, þegar Þórhallur byrjaði að punda út tölum og prósentum og dylgjum um eitt og annað.  Dró meðal annars upp dagblaðssnifsi frá manni út í bæ sem skrifað hafði Velvakanda og kvartað yfir fríum mat í Húsasmiðjunni.

Bloggari hefði viljað fá svör um hvernig Landsbankinn ætlar að skilja milli feigs og ófeigs þegar kemur að atvinnulífinu.  Hann hefur skilið það svo að fyrirtæki með jákvætt fjárstreymi fái að lifa, en hin að deyja.  Það er eðlilegt að hjálpa fyrirtækjum með jákvæða EBITA en láta þau fyrirtæki rúlla sem ekki skila jákvæðu fjárstreymi.  Þar skilur á milli fyrirtækja sem eru annarsvegar með góðan rekstur en skulda of mikið, og þeirra sem erum með slæman rekstur.

Bloggari vill fá að vita hvernig hygla á þeim sem hafa farið óvarlega í fjármálum, á kostnað þeirra sem sem sýndu ráðdeild.  Það var áhugavert að heyra af því hvernig óvissa vegna aðgerðaleysis stjórnvalda kemur í veg fyrir að Landsbankinn geti leyst vandamál viðskiptavina sinna.  Til hvers er þetta nýja fyrirbæri, Umboðsmaður skuldara?

En þetta skilur Þórhallur ekki og því er gripið til slagorða og stóryrða.  Það eitt að nota fyrri helming þáttarins í að nafngreina menn og kalla þá óráðsmenn, ítrekað, án þess að þeim sé gefið tækifæri á að bera hönd fyrir höfuð sér er óverjandi.

En Þórhallur er ekki alltaf svona harður.  Um daginn fékk hann Björk Guðmundsdóttir í þáttinn og þá var nú heldur betur annað uppi á teningnum.  Björk fór ítrekað með rangt mál og notaði frasa sem hún skildi ekki, enda er hún engin sérfræðingur í því viðfangsefni sem þátturinn fjallaði um.  Sem dæmi varð henni tíðrætt um ruðningsáhrif stóriðju án þess að hafa hugmynd um hvað það þýðir.

Spyrillinn skaut annað slagið inn hrósyrðum um viðmælanda sinn, hjálpaði henni þegar hana rak í vörðurnar lagði rauðan dregil fyrir hana í gegnum þáttinn.  Þetta eru forkastanleg vinnubrögð og gefur ekki tilefni til trausts á þeim fréttamiðli sem ástundar slík vinnubrögð.  Það er mjög mikilvægt á þessum óvissu tímum að almenningur sé upplýstur um hvað sé að gerast og hvernig ákvarðanir eru teknar.  Að hægt sé að treysta á hlutleysi og fagmennsku fjölmiðla þegar fjallað er um málefni líðandi stundar.  Návígi stendur ekki undir því.


Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 283910

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband