Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Umræða um fiskveiðistjórn

Umræða um fiskveiðastjórnun hefur verið í skötulíki undanfarna áratugi.  Öllu hrært saman í einn graut og notast við upphrópanir og lýðskrum.  Slíkt er óþolandi þar sem um mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar er að ræða.  Það er nauðsynlegt að lyfta þessari umræðu á hærra plan, og hafa þjóðarhagsmuni í huga við stefnumótun.

Fiskveiðistjórnun skiptist fyrst og fremst í líffræðilegan- og hinsvegar í hagrænan hluta.  Við líffræðilega hluta fiskveiðistjórnunar er Hafró ráðgjafi en framkvæmdavaldið, fyrir hönd eiganda auðlindarinnar íslensku þjóðarinnar, tekur ákvarðanir.  Ákvarðanir eins um hámarksafla í hverri tegund, notkun veiðarfæra, lokun svæða og fleira, til að hámarka viðkomu stofna og stuðla þannig að hagkvæmum veiðum til langs tíma.

Hagræni hluti fiskveiðistjórnunar er síðan kvótakerfið.  Íslendingar notast við svokallað framseljanlegt kvótakerfi, sem sett var á til að auka hagkvæmni veiða og mynda fiskveiðiarð, rentu, af fiskveiðum.  kerfið var sett á eftir gríðarlegt tap á útgerðinni upp úr áttunda áratug síðustu aldar.  Mikil offjárfesting hafði verið í íslenskum sjávarútveg, ekki síst fyrir óráðsíu stjórnmálamanna, sem meðal annars stóðu fyrir gegndarlausum innflutningi á skuttogurum sem settir voru niður allt í kringum landið.  Til að tryggja hagkvæmar veiðar var nýtingarréttur auðlindarinnar færður til útgerðarinnar, enda viðbúið að eigandinn myndi tryggja hámarks arðsemi til langs tíma litið.

Til þess að ræða fiskveiðistjórnun þarf að aðgreina þessi mál og tala um hvert fyrir sig.  Líffræðilega hlutann og þann hagræna.  Menn verða að skilja að ákvörðun um hámarksafla og afkoma fiskistofna hafa ekkert með kvótakerfið að gera, enda hægt að taka ákvörðun um hámarksafla burtséð frá því hvort notast er við t.d. kvótakerfi eða dagakerfi.  Kvótakerfinu verður því ekki kennt um þegar afkoma fiskistofna er rætt, en þar bera að líta til líffræðilega hluta fiskveiðistjórnunar.

Menn hafa svo enn bætt á ringulreiðina með því að blanda byggðarmálum inn í umræðu um kvótakerfið, en það var ekki sett á til að tryggja byggð í strandbyggðum Íslands.  Undir það síðasta hafa sumir áhrifamiklir stjórnmálamenn viljað blanda rómantík inn í þennan hluta fiskveiðastjórnunar og þá tekur steininn úr í vitleysunni.

Kvótakerfið hámarkar arðsemi fiskveiða þar sem menn reyna að nota eins litlar lindir (resources) til að ná þeim kvóta sem þeir hafa yfir að ráða. Með öðrum orðum reyna menn að lágmarka kostnað sinn við veiðarnar og hámarka tekjurnar, m.a. með góðri tengingu við markaðinn. 

Grundvallaratriði í hagkvæmni kvótakerfisins er eignaréttur á nýtingu fiskistofna, hér er rétt að aðgreina eignarrétt á auðlind og nýtingarrétti.  Það er engin vafi á að þjóðin á auðlindina enda fer ríkisvaldið með stjórnun fiskveiða á Íslandi.  Framsal veiðiheimilda er grundvallaratriði til að tryggja arðsemi.  Fiskimaður sem vill veiða kola getur þurft að leigja til sín þorskvóta til að geta stundað veiðarnar.  Framsalið tryggir aðlögun að fiskveiðum og gerir mönnum mögulegt að sérhæfa sig í ákveðnum veiðum.  Fiskimaðurinn veit hvað hann hefur til ráðstöfunar og nýtir það á þann besta veg sem hann getur.  Rannsóknir á Humbersvæðinu í Bretlandi sýna að kaupendur þar vilja Íslenskan fisk, eru jafnvel tilbúnir að greiða hærra verð fyrir hann en norskan, vegna afhendingaröryggis og góðra gæða.  Þar kristallast munurinn á dagakerfi annarsvegar og kvótakerfi hinsvegar, enda eru Norðmenn með strandveiðiflota sem stundar Ólympískar veiðar með dagakerfi. 

Í umræðunni hefur mönnum orðið tíðrætt um að kvótakerfið komi í veg fyrir nýliðun í sjávarútveg.  Hver er reynsla okkar hér á norðanverðum Vestfjörðum í þeim efnum?  Flest öll þau fyrirtæki sem fengur ,,gjafakvótann" heyra sögunni til og nýir menn hafa tekið við.  Nýliðunin hér er nánast alger síðan kvótakerfið var fyrst sett á 1984!  

Málið snýst um að skapa fiskveiðiarð þannig að tekjur af veiðum fari ekki allar í kostnað.  Þá er ekkert til skiptana og allir tapa.  Ekki síst íslenska þjóðin sem þarf á tekjum af fiskveiðum að halda, nú sem aldrei fyrr. 

Í umræðu um fiskveiðistjórnun á að setja hagsmuni íslensku þjóðarinnar í forgrunn.  Fyrsta skilyrðið er að skapa arð af fiskveiðum og síðan skulum við ræða hvort honum er skipt með sanngjörnum hætti til þjóðarinnar.  Við eigum með öðrum orðum að vera sammála um að hafa hagkvæmt fiskveiðistjórnunarkerfi sem skapar rentu.  Síðan skulum við snúa okkur að ,,réttlætinu" sem er sérgrein stjórnmálamanna.  Ef menn vilja nota hluta af fiskveiðiarði til að styðja við sjávarbyggðir, þá er það verkefni stjórnmálamanna.  Ef við viljum skattleggja fiskveiðar og dreifa fiskveiðiarði með þeim hætti til þjóðarinnar, þá er það verkefni stjórnmálamanna.  Að vísu fara þessar tvær hugmyndir um dreifingu fiskveiðiarðs mjög illa saman, en það eru verkefni stjórnmálamanna.

Það eru hinsvegar ekki verkefni stjórnmálamanna að stýra fiskveiðum frá degi til dags og taka ákvarðanir um veiðar og sölu, enda eru það allt of flókin mál til að stjórna ofanfrá.  Þá fyrst skriplum við á skötunni í stjórnun fiskveiða.

Sýnum þessar mikilvægustu auðlind og atvinnugrein okkar Íslendinga þá virðingu að ræða málin á yfirvegaðan og rökréttan hátt.  Spyrjum okkur í fyrsta lagi hvort við viljum horfa til þjóðarhags með því að skapa grundvöll fyrir arðsemi veiða.  Aðgreinum líffræðilega og hagræna stjórnun veiða í umræðu um stjórnun fiskveiða á Íslandsmiðum.  Hafi menn skoðanir á ráðgjöf Hafró er það gott mál og menn setja þau mál fram með rökum.  En blanda ekki kvótakerfinu inn í þær umræður


Mannauður og frelsi

Samkeppnishæfni snýst um mannauð og frelsi.  Það er erfitt að ímynda sér að VG séu tilbúnir að feta veg þess síðarnefnda.  Í því sambandi vil ég benda á viðtal við heilbrigðisráðherra í Viðskiptablaðinu fyrir viku síðan og ótrúlegum ummælum landbúnaðar og sjávarútvegsráðherra að samkeppni í atvinnulífi eigi bara við á þenslutímum. 

Hér er enginn að tala um óheft frelsi því nauðsynlegt er að setja leikreglur og eins frelsi má ekki bitna á öðrum.  Það er því ekki verið að tala um stjórnleysi, en takmarka áhrif stjórnmálamanna og einskorða þau við lagasetningu og framkvæmdavald.  Að stjórnmálamenn séu ekki að vasast í fyrirtækjarekstri né hafa óþarfa áhrif á framleiðslu og eftirspurn í hagkerfinu.

Þetta eru flókin mál en eitt af lykilatriðum er þó að allir fá tækifæri til að spreyta sig.  Íslendingar hafa ekki efni á að fara á mis við hæfileika og framtak þeirra sem minni efni hafa og því er nauðsynlegt að tryggja nám fyrir alla, og að sjálfsögðu heilsugæslu þar sem það kemur hagkerfinu til góða að hafa fríska og vel hrausta þjóð.

En virkjum einstaklingsframtakið og tryggjum frelsi til athafna.  Bloggari getur síðan alveg bætt við ,,Stétt með stétt" til að ná þessu frábæra markmiði að þjóðin verði sú samkeppnishæfasta í heimi 2200.


mbl.is Ísland verði eitt af samkeppnishæfustu ríkjum heims
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grein í Viðskiptablaðinu

Fiskveiðar og rómantík

hermodur_is_023.jpgAndstæðingar fiskveiðistjórnunarkerfisins hafa oft nefnt færeyska kerfið sem fyrirmynd enda drúpi smjör af hverju strái sjávarútvegi Færeyinga. Viðtal við Hjalta Jáupsstovu, forstjóra færeysku hafrannsóknarstofnunarinnar, í Fiskifréttum 10. sept. sl., dregur hinsvegar upp aðra og verri mynd af ástandi fiskveiða hjá frændum okkar.  Þá mynd að veiðar Færeyinga séu óstöðugar með miklum aflatoppum og djúpum niðursveiflum.  Sölustarf sé erfitt  þar sem ekki sé hægt að gera langtímaáætlanir og tenging við markaðinn lítil eða engin.  Jafnframt er mikil offjárfesting í flotanum þar sem útgerðamenn reyna að nýta takmarkaða veiðidaga við ólympískar veiðar.  Stækka vélar og spil, þar sem ekki má stækka bátana sjálfa.  Hann segir að útgerðir flestra bátanna hafi farið í þrot og birt er tafla þar sem rekstarafkoma færeyska flotans frá 2004 til 2007 er sýnd, og fram kemur að tap flotans er umtalsvert, fyrir utan uppsjávarveiðar og frystitogara, en þeim veiðum er stýrt með kvótakerfi.

Það er þyngra en tárum tekur að lesa um reynslu frænda okkar af óstjórn fiskveiða en hér er ekki öll sagan sögð.  Þegar reglurnar voru settar var gert ráð fyrir hagræðingu í kerfinu þar sem þeir sem best stæðu sig við veiðar myndu kaupa veiðidaga af þeim sem síður stæðu sig, og þannig yrði hagræðing í kerfinu.  Slíkt hefur alls ekki gerst þar sem framboð af dögum er meira en eftirspurn og því enginn markaður fyrir veiðidaga.  Þetta á sérstaklega við um línubáta þar sem veiðar þeirra hafa ekki verið arðbærar.  Til viðbótar þessu segir Hjalti að ástand þorsk- og ufsastofns séu mjög slæmt vegna lélegrar nýliðunar og ofveiði. 

Það er margt líkt með ástandinu í Færeyjum nú og var á Íslandi 1984 þegar kvótakerfinu var komið á.  Gríðarleg offjárfesting hafði verið í íslenska flotanum og viðvarandi tap á útgerðinni.  Kvótakerfið var sett á til að snúa þeirri þróun við, auka hagkvæmni við veiðar og stuðla þannig að fiskveiðiarði sem myndi bæta lífskjör þjóðarinnar.  Kvótakerfið er því hagfræðilegt fyrirbæri og rétt að halda umræðu um líffræðilegan hluta fiskveiðastjórnunar utan við það.

Nauðsynlegt er að nýta fiskveiðiauðlindina með sjálfbærum hætti og gera sér grein fyrir að frjálsar veiðar stuðla að ofveiði og þar með óhagkvæmum veiðum.  Frjálsar veiðar stuðla einnig að offjárfestingu og koma þannig í veg fyrir að arður myndist af veiðunum.  Höfundur er mikill frelsisunnandi en gerir sér hinsvegar grein fyrir þessum annmörkum á frelsi þegar kemur að endurnýjanlegum auðlindum.  Í umræðu um fiskveiðistjórnun ættu menn að vera sammála um að þjóðarhagur ráði för en fiskveiðiarður er þar grundvallaratriði.  Umræðan ætti því frekar að snúast um hvort þeim arði sem við náum út úr fiskveiðum sé deilt með sanngjörnum hætti til þjóðarinnar, en ekki hvort við viljum fiskveiðiarð eða ekki.

Varaformaður Landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndar Alþingis hefur farið mikinn í umræðu um stjórnun fiskveiða undanfarið.  Þingmaðurinn segir í viðtali í Fiskifréttum, á sömu síðu og viðtalið við Hjalta er, að svo virðist sem Færeyingar séu á réttri leið í fiskveiðistjórnun.  Enda sé hvati til brottkasts og brask með aflaheimildir mun minna í þeirra kerfi.  Það sem Hjalti telur nauðsynlegt fyrir færeyskan sjávarútveg, að hæfustu útgerðaraðilarnir kaupi upp veiðidaga hjá hinum, kallar þingmaðurinn brask!  Það skildi þó ekki vera að ,,braskið" séu viðskipti sem eru nauðsynleg til að auka framleiðni og mynda fiskveiðiarð í greininni?

hermodur_is_030.jpgEn Ólínu Þorvarðardóttir er lítið hugsað til arðsemi atvinnugreinarinnar í umræðu sinni um stjórnun fiskveiða.  Í grein sem birtist eftir hana í Viðskiptablaðinu 3. sept. s.l. fjallar hún um strandveiðar.  Þar kemur fram að eftir innleiðingu strandveiða iðuðu hafnir sjávarþorpa af lífi og fjöri og vélarhljóð fiskibáta bergmáluðu í sæbröttum fjöllum vestfirskra fjarða.  Stæltir sjómenn fleygðu spriklandi þorski upp á bryggjur, til mikillar ánægju fyrir fjölda áhorfenda.  Fiskur barst nú á hafnir þar sem ekki hafði sést sporður í langan tíma.  Hún bætir því svo við að:  ,,Það sé samdóma álit allra (feitletrun höfundar) sem til þekkja, að strandveiðarnar hafi orðið sjávarplássunum lyftistöng, enda færðist mikið líf í hafnir landsins í sumar"  Höfundur þessarar greinar er ósammála, en kannski þekkir hann ekkert til fiskveiða.  Skyldi það hafa hvarflað að Ólínu að júlí og ágúst eru helstu ferðamánuðir á Íslandi og það sé ferðamennskan en ekki strandveiðar sem allt þetta líf og fjör skapaði?

Niðurstaðan er sú að varaformaður sjávarútvegs og landbúnaðarnefndar telur færeyska kerfið vera á hárréttri leið, þrátt fyrir ofangreinda lýsingu forstjóra færeysku Hafrannsóknarstofnunarinnar sem hefur áralanga þekkingu og reynslu á sviði færeysks sjávarútvegs.  Enda virðist hún ekki líta á arðsemi sem markmið, heldur rómantík.  Strandveiðar eru einmitt gott dæmi um slíkt þar sem fyrir liggur að veiðarnar eru þjóðhagslega óhagkvæmar en þær gætu hinsvegar flokkast undir rómantík.

Það er alvarlegt mál þegar fólk í slíkri stöðu talar um mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar af slíkri léttúð.  Arðsemi veiða er okkur Íslendingum lífsspursmál til að skapa lífsgæði hér á landi.  Við höfum ekki efni á að reka sjávarútveg sem rómantík og verðum að horfa til arðsemi.  Höfundur vill mæla með þremur K-um fyrir rómantíkina; kampavín, kertaljós og karl/kona.  En láta fiskveiðiauðlindina í friði og leyfa henni að þróast á hagrænan máta.

Gunnar Þórðarson

Höfundur er viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum

 

 


Hin opna stjórnsýsla á Íslandi

Það er gott að búa í upplýstu samfélagi þar sem stjórnvöld hafa lofað þegnum sínum opinni stjórnsýslu og hún fái náið að fylgjast með gangi mála og sé meðvituð um stöðu sína.  Ekki síst hvað varðar uppbyggingu íslensks efnahags og þjóðin geti farið að takast á við væntanlega uppbyggingu eftir hrun.  En eitthvað hlýtur að vera brogað við athyglisgáfu bloggara sem ekki skilur upp né niður í því sem er að gerast, og þar ber hæst svokallað IceSave mál.

Í upphafi september mánaðar komu mjög jákvæðar fréttir frá ríkisstjórninni.  Fyrstu viðbrögð Hollendinga og Breta lágu fyrir og þau voru mjög jákvæð.  Málið lá nánast fyrir og vonandi hægt að klára það næsta dag.  Svona eiga sýslumenn að vera og því var beðið með mikilli eftirvæntingu eftir þessum frábæru fréttum, daginn eftir.

Raunveruleikinn var hinsvegar annar og ljóst að samningsþjóðir okkar höfðu hafnað fyrirvara Alþingis um ríkisábyrgð á samningnum.  Allt er þetta hið ömurlegasta mál og byrjar með því að fjármálaráðherra, en málið er á hans forræði, ýtir fulltrúum þingflokka út úr samninganefnd um IceSave, en seta þeirra var forsenda breiðrar samstöðu um málið.  Hann setur síðan tvo vini og bandamenn yfir samningunum við Breta og Hollendinga og gerir málið þannig persónulegt.  Ráðherra gætti þess ekki einu sinni að hafa þingmenn stjórnarflokkana með í ráðum, þó augljóst mætti vera að um stærsta samning Íslandssögunar fyrr og síðar væri að ræða, og því fyrirsjáanlegt að leita þyrfti stuðnings þingsins við fullnustu hans.

Annan júní sagði fjármálaráðherra í þinginu að ekkert væri að frétta af málinu, enda lá ekkert á að klára það.  Samt var búið að skrifa undir þann fjórða júní og á þeim forsendum að aðal samningamaður Íslands, vinur og pólitískur mentor ráðherra vildi ekki hafa þetta hangandi yfir sér í sumarfríinu.

Nú liggur fyrir að þeir fyrirvarar sem Alþingi setti við ríkisábyrgðina verða ekki samþykktir af viðsemjendum okkar; en samt var niðurstaðan mjög jákvæð.  Annar forsætisráðherranna sagði að ekki stæði til að setja bráðabirgðalög, eins og nokkrum manni hafi dottið í hug að þessi ríkisstjórn gripi til slíkra óyndis úrræða, nema þá þeim sjálfum.

Það hefur komið fram í bloggi að fjöldi manna hafi fylgst með Indriða H. Þorlákssyni skrifa ,,trúnaðarskýrslu" til ríkisstjórnarinnar um viðbrögð Breta og Hollendinga í Flugleiðavél þann 2. september. ,,Skjalið sem lá þarna fyrir fólki eins og dagblað á kaffihúsi voru svör Breta og Hollendinga við fyrirvörum Alþingis!" segir m.a. í bloggfærslunni, sem Bergur Ólafsson, meistaranemi í stjórnun við viðskiptaháskólann BI í Osló, skrifar.   Þrátt fyrir að viðsemjendur höfnuðu alfarið fyrirvörum Alþingis í þessu skjali kom fram hjá forsætisráðherra fjórða september að góður andi hefði ríkt í samninganefndu þjóðanna og síðar þann dag upplýsti formaður fjárlaganefndar, eftir fund nefndarinnar með embættismönnum, að engin formleg viðbrögð lægju fyrir frá Bretum og Hollendingum.

Í dag tala síðan báðir forsætisráðherrar þjóðarinnar um að leysa þurfi IceSave málið og það sé algert forgangsmál!  Þjóðin hefur hinsvegar ekki hugmynd um hvert vandamálið er né hvert þetta mál stefnir.  Össur átti fund með forstjóra AGS í vikunni en það var allt bundið trúnaði og aðeins þessi venjulega bjartsýni um að lausnin væri handan við hornið, kom fram hjá utanríkisráðherra.

En hvað ætli gangi á í þessu öllu saman.  Þar sem hin opna stjórnsýsla ríkisstjórnarinnar er svo loðin að engin skilur hvað þeir eru að segja, verða menn að spá í spilin og geta sér til.  Áður hefur komið fram hjá bloggara undrun yfir því hvernig nánustu vinarþjóðir okkar virðast hafa snúið við okkur baki og, miðað við opnu stjórnsýsluna, virðast standa með óvinunum, Bretum og Hollendingum.

En er þetta svona?  Eru þessar ,,fyrrum" vinaþjóðir okkar svona vondar við okkur vilja ekki rétta okkur hjálparhönd á ögurstund?  Hér koma getgátur bloggara á því sem er að gerast:

Norðurlandaþjóðir ásamt öðrum vinarríkjum sem lofað hafa okkur láni í samvinnu við AGS hafa sett það sem skilyrði að IceSave samningar liggi fyrir áður en lánin eru veitt.  Þetta er ekki gert til að taka stöðu með Bretum og Hollendingum, heldur til að tryggja að fjármunirnir fari ekki til að greiða þeim, heldur til þerra hluta sem þeim var upphaflega ætlað.  Styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn, sem er forsenda þess að afnema gjaldeyrishöftin.  Þetta snýst því ekki um góðu og vondu mennina, eins og margir ráðherra láta í veðri vaka, heldur sjálfsagða varkárni í viðskiptum við Íslendinga.  Bretar og Hollendingar eru sjálfsagt ekkert að skipta sér af einstökum málefnum AGS og ástæða þess að mál Íslands er ekki tekið fyrir hefur ekkert með það að gera.  Heldur það fyrrnefnda ásamt því að Íslenskir ráðamenn ljúki við þá vinnu sem þeim var sett í áætlun sjóðsins um uppbyggingu íslensks efnahags.  Það er hinsvegar auðveldara fyrir ríkisstjórnina að finna blóraböggul og þjóðin tilbúin að trúa öllu illu upp á Hollendinga og Breta. 

Eitt það mikilvægasta í dag er að afnema gjaldeyrishöftin.  Það er ekki hægt nema gjaldeyrisvarasjóðurinn dugi til að greiða erlendum eigendum fjármagns á Íslandi út.  Höftin eru brot á EES samningnum og ESB hefur horft í gegnum fingur sér með það, vegna alvarlegra stöðu Íslands.  Ef Íslendingar ætluðu sér að lækka vexti, á sama tíma og gjaldeyrishöft eru við líði, myndi sá velvilji hverfa sem dögg fyrir sólu.  Skilaboðin væru sú að við neyðum ykkur til að eiga íslenskar krónur, og á sama tíma ætlum við ekki að borga ykkur sanngjarna vexti af þeim.  Vexti sem duga a.m.k. ríflega fyrir þeirri verðbólgu sem hér ríkir.  Til þess að ASG og vinarþjóðir Íslendinga geti rétt okkur hjálparhönd verðum við að ganga frá IceSave samningum.


Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 49
  • Frá upphafi: 283864

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband