Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Trönustaurar h/f

gunnar_og_pimmi_006.jpgDraumar um völd og auðlegð létu okkur Nonna Gríms ekki í friði.  Málið var að við vildum fara stuttu leiðina og gera þetta hratt og auðveldlega.  Við höfðum ekki tíma til að bíða árum saman, gera langtímaáætlanir og byggja á föstum og góðum grunni.  Eins og seinnitíma útrásarvíkingar þurfti að reisa þetta á sandi og það undireins.  Einn daginn fengum nýja hugmynd, sem var svo góð að hún gat ekki mistekist.  Hún hafði sem sé alla þá kosti sem prýða skal góða viðskiptahugmynd þar sem skyndi gróði kemur án þess að nota mikið af lindum (recourses).

Við höfðum veitt skreiðarhjöllunum á Arnanesi athygli um all langt skeið og allt í einu laust hugmyndinni niður í kollinn á okkur.  Reyndar höfðum við verið að sigla á ,,Bláa bátunum" sem var skjöktari og við höfðum að láni hjá pabba og félögum hans í Gunnvöru h/f.   Við áttum leið framhjá Arnarnesi, höfðum verið að velta fyrir okkur grásleppuútgerð og prufuðum reyndar að draga eina trossu í leyfisleysi, sem verður sagt frá hér seinna.  Við horfðum á þennan skóg af skreiðarhjöllum sem staðið hafði þarna um árabil og engum til gagns.  Hjallarnir voru meðal annars voru í eigu Þórðar Júl, og sáum við gríðarlegt viðskiptatækifæri í að saga þá niður í girðingastaura og selja bændum um sveitir landsins.

Þetta gat nú varla verið betra.  Hráefnið var frítt og vörubíllinn líka og ekki eftir neinu að bíða með framkvæmdir.  Við fylltum vörubíllinn af trönum og ókum hlassinu að Engjaveg 30, þar sem Nonni átti heima.  Eftir nokkur símtöl var framleiðslulýsingin komin, þ.e.a.s. lengdin á staurunum.  Salan var ekki frágangssök þar sem slík vara seldi sig nánast sjálf.  Það var bara spurningin um að framleiða og hitt kæmi allt að sjálfu sér.

Garðurinn að Engjavegi bókstaflega fylltist af trönum og nú var byrjað að saga á fullu.  Fyrst notuðum við þverskera en það gekk nokkuð hægt fyrir sig.  Grímur Jóns, húsbóndinn á heimilinu, fylgdist með vaxandi áhuga á verkefninu og sagði að við þyrftum bogasagir.  Eins og annað við þessa framleiðslu var hægt að útvega slíkt nánast frítt, og ekki skyggði á að reglulega kallaði húsfreyjan í okkur og bauð upp á kaffi og með því.  Jóhanna var fyrirmyndar húsfreyja og þessi þjónusta kom sér sérlega vel fyrir framkvæmdamennina, sem fengu þarna næga orku til að vinna fram á kvöld.

En það vantaði meiri framleiðsluhraða og nú var náð í hjólsögina hans Gríms, en rafmagnið á hana var frítt, eins og svo margt annað í fyrirtækinu.  Vélargnýrinn drundi um nágrennið og varla sást í okkur félagana fyrir sagi, og fjöldi girðingastaura var nú talinn í þúsundum.  Eins gott að Jóhanna hafði ekki fengið garðyrkjudelluna ennþá, þar sem ekkert pláss var fyrir plöntur eða tré í verksmiðjunni.  Við sömdum við Hermann Björnsson nágranna að hætta ekki seinna en tíu á kvöldin, til að hann fengi svefnfrið.  Vörubílshlössin af trönum streymdu að frá endalausri auðlindinni á Arnarnesi, og breyttust umsvifalaust í verðmæta girðingastaura, sem nú var beðið eftir um allt land.  Eða hvað?

Það kom í ljós þegar söluherferðin hófst að menn vildu ekki staura sagaða úr trönum.  Menn vildu fá girðingarstaura úr rekavið, en seltan í þeim virkar sem fúarvörn.  Þvílík vitleysa og misskilningur hjá þessum bændum.  Við hefðum svo sem átt að vita betur að treysta á þeirra dómgreind við mikilvægasta þátt fyrirtækisins, söluna.  Við höfðum samband við Landbúnaðarráðuneytið sem keypti gríðarlegt magn af staurum á hverju ári í sauðfjárvarnargriðingar.  Þeir voru haldnir sömu skynvillunni með gæði trönustaurana.  Við hringdum í sveitarfélög sem voru við sama heygarðshornið og allir hinir.  Það sem átti að vera auðveldasti hluti rekstursins var nú orðið helsta fótakeflið. 

Það var ekki sjón að sjá Engjaveginn þar sem rétt grillti í húsið í gegnum háa staflana.  Það runnu tvær grímur á Grím Jónson og Jóhönnu Bárðar, enda lóðin undirlögð af staurum.  Þau þurftu að skáskjóta sér útaf lóðinni til að komast í bæinn, en það var ekki vandi að finna húsið aftur.  Það var vaxandi pirringur í þeim hjónum vegna þessa og mikið mændi á framkvæmdastjórninni vegna þrýstings um aðgerðir.  Það leið nærri ár þangað til losnaði um sölutregðuna og kaupandi fannst, allavega fyrir mestan hlutann.  Kaupandinn greiddi verð sem dugði fyrir flutningi til hans, þannig að þetta var nokkurs konar sorpeyðing.  Í stað auðæva og frægðarljóma héldum við félagarnir eftir strengjum um allan skrokkinn af átökum, ásamt svefnlausum nóttum vegna sinaskeiðabólgu.  Okkar tími var ekki kominn.


Fýrtomma á ská í sigurverkið

copy_of_dscn0090.jpgÁ táningsárum okkar Nonna Gríms langaði okkur mikið til að verða milljónamæringar og ræddum oft um möguleika til auðsafnaðar.  Eitt sinn eftir miklar vangaveltur töldum við harðfiskverkun liggja vel við, enda verð á afurðinni nokkuð hátt miðað við innkaup á hráefni.  Einnig blasti við sá möguleiki að nýta þurrkklefa sem faðir minn, Þórður Júl, hafði sett upp en hafði aldrei verið notaður. 

Pabbi myndi svo segja til og útskýra framleiðsluaðferðir fyrir hinum ungu athafnamönnum.  Hann sagði að eftir að hafa flakað fiskinn þyrfti að dýfa honum í saltpækil.  Styrkur pækilsins skyldi vera þannig að kartafla flyti þegar búið væri að stinga fýrtommu nagla í gengum hana.  Síðan að raða flökunum roðlausum á grindur og raða í þurrkklefann og gefa þessu nokkra daga með blæstri og hita.  Við töldum rétt að byrja stórt og keyptum því eitt og hálft tonn af ýsu.  Við stóðum við flökun allan daginn og réðum vini og ættingja í vinnu.  Það reyndist þrautin þyngri að fá kartöfluna til að fljóta með naglanum í gegn.  Reyndar tókst það alls ekki þó pækillinn væri orðin saltmettur, en við létum það duga.

Það var komið fram á nótt þegar búið var að raða fiskinum í klefann og þá var kveikt upp í gufukatli rækjuverksmiðju pabba, en hann var tengdur við þurrklefann sem var í ,,hjallinum" upp af verksmiðjunni.  Þegar við röltum svo upp eftir að morgni daginn eftir, sáum við að búið var að skrúfa fyrir gufuna, en það var hægur vandi að kippa því í liðinn.  Við veltum því lítið fyrir okkur að gufustrókur stóð upp úr rækjuverksmiðjunni að Vinaminni, enda var allt á fullu í í að sjóða og pilla rækju, en strókurinn minnkaði nú til muna eftir að við hleyptum  á hjallinn, en þar byrjaði hinsvegar að rjúka nokkuð myndalaga.

Það leið ekki á löngu þar til karlinn kom hlaupandi upp eftir með bægslagang og skipaði okkur að skrúfa fyrir gufuna, ketillinn hefði ekki undan og rækjuverksmiðjan var stopp.  Nú var komið babb í bátinn og við fylgdumst áhyggjufullir með kólnandi blæstri í þurrkklefanum.  En um leið og hefðbundnum vinnsludegi lauk í verksmiðjunni var skrúfað frá aftur og hitinn rauk upp í þurrkinum.  En það var búið að skrúfa fyrir að morgni.  Svona gekk þetta fram eftir vikunni en við fengum svo frið yfir helgina.

Einhvern vegin þornaði ýsan en hún reyndist brimsölt.  Okkur var sagt að þetta myndi lagast ef við renndum henni í gegnum barningsvél.  Ekki man ég hvar við grófum slíkt verkfæri upp en nú var ekki annað eftir en renna þurrum flökunum í gegn og pakka síðan framleiðslunni, og selja hana.  Við töldum söluna nánast aukaatriði enda þóttumst við vissir um að slegist yrði um þessa góðu vöru.  Við höfðum látið á-prenta 200 gr. plastpoka með mynd og innihaldslýsingu.  Þetta átti að verða stórframleiðsla en ekki bara smá tilraunastarfsemi.  Sigurbrautin var vel mörkuð og ekkert gæti komið í veg fyrir frábæran árangur.

Það urðu miklar umræður um hvað við ættum að gera við allan gróðann.  Það þótti augljóst að karlinn yrði að víkja með rækjuverksmiðjuna fyrr en seinna, enda var það bara smá bisness miðað við stórfyrirtækið sem var að hlaupa af stokkunum.  Við ákváðum að við værum báðir framkvæmdastjórar þannig að um það ríkti traust og gott samkomulag.  Það urðu okkur hinsvegar mikil vonbrigði að Högni bankastjóri vildi ekki láta okkur fá afurðarlán, alla vega ekki svona fyrsta kastið.  Það gerði ekkert til þar sem við áttum fyrir hráefninu og umbúðunum, en allt annað kostaði ekki neitt.  Húsnæði, vélar og vinnulaun vorum ókeypis og á því byggði viðskiptahugmyndin.

Þegar búið var að pakka allri framleiðslunni var byrjað að selja.  Salan var þyngri en búist var við enda framleiðslan brimsölt, meira að segja eftir að hafa farið í gegnum barningsvélina.  Þetta var þyngra en tárum tók og nú voru góð ráð dýr.  Það sem við höfðum talið nánast sjálfgefið að varan seldist, þurftum við að leita allra leiða til að koma þessu út.  Að sjálfsögðu vorum við ekkert að segja frá þessum smá galla, svona í fyrstu, og höfðum sent kassa út um hvippinn hvappinn, sem nú voru endursendir með hraði.  Við höfðum sent framleiðsluna í flugi, þar sem markaðurinn gat ekki beðið hennar.

Rétt er að geta þess að ein af ástæðum fyrir frábærri viðskiptaáætlun, sem jafnaðist á við seinni tíma áætlanir útrásarvíkinga, var að við höfðum frían aðgang að vörubíl.  Þetta var 15 tonna Scania Vabis í eigu Þórðar Júl, sem hvorugur okkar höfðum reyndar próf á.  Það gerði ekkert til þar sem bílnum fylgdi bílstjóri, á launum hjá Pabba, sem var Jens Magnferðson og var hann óspart notaður til að snatta fyrir framleiðsluna og skutla framkvæmdastjórunum.  Þetta var nú svona óformlegt samkomulag við karlinn hann pabba, og án hans vitneskju.

En við vorum sem sagt staddir á Ísafjarðarflugvelli til að sækja 44 kassa sem einhver óánægður viðskiptavinur hafði hafnað, en aðeins 41 kassi hafði skilað sér.  Starfsmenn flugfélagsins sögðu þetta vera ,,eðlileg afföll" þegar harðfiskur væri sendur með flugi.  Sama hvað tveir framkvæmdastjórar muldruðu og tuldruðu um bætur, það var ekki á þá hlustað.  Nú ungir menn á framabraut, sem reyndar höfðu orðið fyrir vægu bakslagi, tóku þá til sinna ráða.  Með harðfiskkössunum sem skiluðu sér voru nokkrir kassar af vínberjum í geymslu flugfélagsins.  Við skutluðum einum með og kölluðum um leið inn á skrifstofuna; ,,þetta eru eðlileg afföll"  Starfsmennirnir voru búnir að fá nóg af athafnaskáldunum og svöruðu þessu engu og veittu athöfnum okkar enga athygli.  Þannig að þegar Scaníunni var snúið frá flugvallarbyggingunni voru 41 kassi af harðfisk á pallinum og vínberjakassi við hliðina á okkur í farþegasætinu.

Jenni starði stórum bláum augum á kassann og stundi upp að hann hefði aldrei smakkað vínber.  Nonni reif upp kassann sagði honum að fá sér eins og hann gæti í sig látið.  Jenni átti í mestu vandræðum með aksturinn, enda tróð hann áfergjulega í sig lostætinu.  Því verður ekki skrökvað að vínberjasafinn náði aftur fyrir eyru á bílstjóranum okkar, sem ljómaði að gleði yfir öllu saman.  Það versta var að hann var veikur á launum í tvo daga á eftir, en það hafði engin áhrif á okkar rekstur.

En fyrirtækið bar ekki barr sitt eftir þetta og lokin urðu sú að Vestfirska harðfisksalan keypti lagerinn á niðursettu verði.  Það var í gegnum gömul vináttu sambönd hjá pabba við Garðar úrsmið, sem hefur sennilega selt einhverjum börum framleiðsluna, enda kallaði hún fram óskaplegan þorsta við neyslu.  Þetta sló svolítið niður í okkur Nonna og það leið þó nokkur tími áður en næstu hugmynd var hrundið í framkvæmd.  Framabrautin með milljónir biðu okkar vinanna.


Þriggja heimsálfu spjall

_orrablot_10_bekkjar_003.jpgÞað getur verið gaman að tækninni.  Við vorum að enda við klukkutíma spjall, þrír gamlir vinir yfir þrjár heimsálfur í gegnum Skype.  Bloggari í Kampala, Siggi Ásgeirs á Íslandi og Nonni Gríms í Seatle.  Við hlógum ógurlega þegar við rifjuðum upp bernskubrekin og prakkaraskapinn.  Nú er komið að því að skrifa atvinnusögu okkar, sem jafnast nærri því á við útrásarvíkingana.  Málið er að maður á ekki að taka þessa hluti of alvarlega heldur að hafa gaman af og minnast ánægjulegra augnablika sem gera lífið þess virði að lifa því.

Fyrsta sagan mun heita ,,fýrtomma í ská í sigurverkið" og segir frá harðfiskverkun þar sem Þórður Júl var sérlegur ráðgajfi okkar.  Sennilega kom það í veg fyrir að við urðum NonniGunn Group sem hefði gert okkur að milljónerum.  Varlega áætlað.


Hermann hani

hermann_hani_002.jpgÁ meðan vinahópurinn í Hallgrími Bláskóg öslar suðurlandið í fyrstu hitabylgju sumarsins á Íslandi situr bloggari út i garði með féalaga sínum Hermanni hana.  Hermann er einmitt hani nágrannans sem komið hefur hér við sögu áður og þenur raust sína klukkan fimm á hverjum morgni.  En ósvífni hans er takmarkalaus.  Hann hefur ekki bara sigað hænunum sínum í garð bloggara, heldur fylgja nú með hópur af afkvæmum, kjúklingum.  Spígspora um lóðina á 12 Basarabusa og nærast á molum sem hringja af borðum bloggara.  Í dag kom Hermann sjálfur til að skoða aðstæður og lita til með hænumhópnum sínum. 

Í dag hafði bloggari ætlað að taka þátt í golfmóti til að ná niður forgjöfinni, en vegna ótrúlega slæms gengis á golfvellinum undanfarna daga hafði hann, eins og kaninn segir ,,chicken out" og ekki þorað að taka þátt.  Það er eins og Hermann viti þetta enda gaf hann bloggara auga um leið og hann vaggaði fram hjá honum í garðinum. hermann_hani_006.jpg


Tíðindalítið af suðurvígstöðum

img_1386.jpgÞað er lítið að frétta héðan frá miðbaug þar sem annað skammdegi ársins lúrir yfir íbúunum.  Birtir varla fyrr en upp úr hálf sjö og orðið dimmt um kvöldmat.  Á sama tíma arka félagar úr Hallgrími Bláskóg um suðuland Íslands, sautján að tölu, enda vantar bloggara í hópinn.  Bloggari náði þó símasambandi við þá í morgun og lét vita af rigningu í dag, en spáin er góð fyrir næstu þrjá daga.  Það sem skipti máli í veðurspánni er að hér eru menn þrjá tíma á undan og hafa því framtíðina fyrir framan sig, eins og konan komst svo vel að orði.

Helstu fréttir héðan eru þær að þegar bloggari kom heim eitt kvöldið fyrr í vikunni, bar vörðurinn við hliðið sig illa upp við hann og sagðist vera svangur.  Honum var bent á að slíkt kæmi viðkomandi ekkert við, enda væri hann starfsmaður öryggisfyrirtækis sem hefur samning um að gæta öryggis íbúa við 12 Basarabusa, Bugalobi.  En það runnu tvær grímur á bloggara enda greyptist náfölt og vesældarlegt andlit varðarins í huga hans.  Haglabyssan hans væri nú ekki líkleg til að gagnast við varnir hússins ef ekki væri nein orka til að munda hana.  Þannig að þegar inn í húsið var komið bað  bloggari þjónustukuna um að færa honum te og brauðsneið.

Í gær hrindi þjónustukonan í bloggara í vinnuna til að segja honum þær fréttir að varðar skömmin væri búinn að vera við hliðið á þriðja sólarhring, án þess að vera leystur af.  Hann hafði ekki fengið neitt að borða, nema kvöldmat bloggara og ekki komist í bað eða getað skipt um föt.  Hann hafði ekki síma og enga talstöð, þó það væri partur af samning við öryggisfyrirtækið og gat því ekki látið vinnuveitandan vita af ástandinu.  Rétt er að taka fram að rán eru daglegt brauð á þessum slóðum og því full ástæða til að gæta varkárni.  Þennan sama morgun hafði bloggari átt erfitt með að vekja vörðinn þegar hann fór í morgunskokkið, reyndar fyrir allar aldir.  

Sennilega var varðar vesalingurinn orðin orkulaus af matarskorti, enda búinn að vera við hliðið í á þriðja sólarhring án þess að vera leystur af.  Það er rétt að taka því fram að verðir eiga ekki að vera lengur á vakt en 12 tíma í senn.  Bloggari bað vinnukonuna að færa verðinum meintan kvöldverð bloggara frá kvöldinu áður, en hann hafði ófarvarendis snætt kvöldverð á veitingarstað og því var hann óhreifður í ískápnum.  Síðar var haft samband við öryggisfyrirtækið og leitað skýringa og beðið um lagfæringu á vinnubrögðunum.

Héðan í frá er dagskipunin sú að þjónustukonan, sem býr í húsi í garði bloggara, færir vörðum te og brauðsneið á hverjum degi.  Hún hafði miklar áhyggjur að gríðarlegum kostnaði við þetta, enda um hundruðir króna að ræða daglega.  En það er lítið gagn í orkulausum vörðum sem ekki geta einu sinni mundað byssu sína gegn innrásaraðilum.  

Bloggari ákvað að ganga lengra í málinu og nú er dagskipunin að vörðurinn í vinnunni, sá sem stendur grár fyrir járnum gegnt vopnuðum félögum sínum í Ameríska sendiráðinu (vöruhúsinu) fái tebolla og kex á hverjum degi.  Bloggara varð það allt í einu ljóst að vörðurinn, með hríðskotariffilinn, hefði getað komið til hjálpar í síðustu viku þegar lögreglan og verðir Ameríska sendiráðsins handtóku hann fyrir myndatöku.  Hann, eða reyndar hún, hefði getað stormað yfir götuna í ,,blitz krig" og frelsað bloggara fá þeim ódámum sem héldu honum föngum handan götunnar í hálfan annan klukkutíma, í RIGNINGU.

 


Ofurfrúin

Það er alltaf gaman af ofurmennum.  Og bloggari sem hélt að Eva Joly sérhæfði sig í að grafa upp spillingarmál og undanskot á peningum sem komið væri í skjól í skattaparadísum.  En nú er hún farin að spá fyrir um hagfræðileg álitamál!  En kannski þarf engan snilling til þess miðað við alla þá ólíku álitsgjöf sem komið hefur fram frá ótal sérfræðingum undanfarið.

Skyldi hún hafa tapað þingsæti sínu á Evrópuþinginu?  Einhvern vegin hefur það farið fram hjá bloggara.  En hún virðist geta vasast í öllu og haft skoðanir á flestu.  Einhvernvegin setur hún kuldahroll niður eftir baki bloggara.  Þó er hefur hann ekkert óhreint mjöl í pokahorninu.  Það er bara eitthvað við ofstækið í þessari konu sem nærist á hefnigirni almennings þessa dagana.  


mbl.is Eva Joly: Botninum ekki náð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er komin 17. júní

Það er merkis dagur runnin upp.  Ekki bara þjóðhátíðardagur Íslands heldur dagurinn sem ég byrjaði að pakka niður fyrir heimferðiina.  Það fer að nálgast hálft ár síðan ég lagði í þennan síðasta áfanga útverunnar.  Verða nálægt sjö mánuður áður en ég kem heim til Íslands.  Ég var að taka til og henda því sem ekki verður tekið með, t.d. öll gögn vegna masteraritgerðarinnar.  Þá rakst ég á CD sem Ívar vinur minn hafði gefið mér með ótal myndum þar sem við vinarhjóninGunnar með Örævajökul i baksýn hafa verið á ferðalögum í gegnum árin.  Það hvolfdist yfir mann heimþráin.

Það er gott að eiga fjölskyldu og marga góða vini heima, en svíður undan í söknuði við langan aðskilnað.  Slíkt verður ekki endurtekið og ég búinn að fá nóg af útiverunni.

Ég læt fylgja hér með mynd sem Ívar tók af mér 2003 eftir að við klifum Hvannadalshnúk í fyrsta skiptið.  Hæsta fjall Íslands í baksýn, og búið að sigra það.  Vel vil eigandi nú á þjóðhátíðardaginn og passar við stemmingu heimþrárinnar.

 


Handtekinn í Bugolobi

Maður lendir stundum í smá ævintýrum.  Þetta hafði verið annarsamur dagur og um þrjú leitið stóð ég upp frá tölvunni til að teygja úr mér.  Ég greip myndavélina, sem ávallt er nærtæk, og labbaði í gegnum járnhliðið sem lokar svæðinu þar sem skrifstofa verkefnisins í Bugolobi er.  Gatan framan við er mikil umferðargata og mér datt í  hug að ná nokkrum myndum af boda-boda og reiðhjólum, sem oft eru að reiða ótrúlegustu hluti.  Ég hafði tekið eina mynd þegar lögreglumaður með vélbyssu vatt sér að mér og fljótlega stóð annar grár fyrir járnum yfir mér.  Þeir báðu mig að koma yfir götuna með sér þar sem meiriháttar yfirheyrsla byrjaði.  Það dundu á mér spurningarnar en mér til mikillar undrunar var þarna brigðarstöð Ameríska sendiráðsins, og stranglega bannað að taka myndir.  Þeir bentu mér á ein tíu skilti sem auglýstu þetta bann, og voru greinilega sannfærðir um að í fábreytni vinnunnar hefðu þeir gómað njósnara. 

Það kom upp í mér Bjartur í Sumarhúsum og ég brást hinn versti við.  Harðneitaði að gefa upp nafn og alls ekki að afhenda myndavélina.  Þeir skipuðu mér að fara inn í smá skúr sem þeir höfðu á vegabrúninni, en ég neitaði enn.  Og heimtaði að fá að tala við yfirmann.  Þeir vildu fá að sjá vegabréfið, en ég hafði rétt byrjað að útskýra að ég væri ekki með það - á mér; þegar þeir trompuðust alveg.  ,,Hefurðu ekki vegabréf?"

Þá fékk ég vélbyssuhlaupið í magann og inn í skúrinn fór ég og settist á stól.  Nú dundu yfir mér spurningarnar og þeir trúðu því örugglega ekki að ég, sem starfaði handan götunnar, vissi ekki að þetta væri Ameríska sendiráðið.  Að ég skyldi dunda mér við að taka myndir þar sem það er stranglega bannað og rækilega auglýst.  Skiltin voru bókstaflega út um allt, en ég sem hafði ekið þarna framhjá á hverjum degi í rúmt ár, hafði aldrei tekið eftir þeim fyrr.  Það hleypti enn verra blóði í mig að vera talinn einhver hálfviti, sérstaklega þar sem það átti svolítið við, og stóð upp og út úr skúrnum.  Ég var sko sjálfstæður maður og lét ekki fara svona með mig.  Ég sagðist vera farinn og myndi láta sækja myndavélina með látum, en þeir höfðu tekið hana af mér.  Enn var byssuhlaupum lyft og ég spurði hvort ég væri handtekinn, sem þeir svöruðu játandi.

Þá kom þar að yfirmaður öryggismála sendiráðsins og var hinn almennilegasti.  Spurði mig hvaðan ég væri og hvað ég væri að gera þarna.  Eftir nokkur orðaskipti bað hann mig að bíða meðan hann ráðfærði sig við sendiráðið.  Ég spurði hvort ég mætti fara yfir götuna og bíða á vinnustað mínum.  Hann bar þetta undir lögregluna, en nú hafði ég móðgað þá alla upp úr skónum og þeir ráku upp hláturroku meðan þeir hristu höfðuð.  Ég skildi sko bíða þar sem ég var.

Þá byrjaði að rigna.  Ein löggan sá aumur á mér og bauð mér inn í skúrinn.  En mér datt ekki í hug að fara inn í andskotans skúrinn, enda sjálfstæður maður og ekki undir lögregluna kominn.  Það þyngdi regnið en allt í einu var öryggisvörðurinn mættur með regnhlíf til að lána mér.  Hann sagði að öryggisfulltrúi frá sendiráðinu yrði kominn innan stundar og bað mig afsökunar á ónæðinu.  Ég beið þarna í rúman hálftíma og gat ekki látið samstarfsmenn mína vita af uppákomunni þar sem ég hafði skilið símann eftir á skrifborðinu mínu.  Það var alveg fáránlegt að vera sviptur frelsi og mega ekki fara yfir götuna.

Chombe Francis Security Investigator kom aðvífandi á svörtum bíl.  Vatt sér út og gaf sig á tal við mig.  Það fór vel á með okkur og við vorum sammála um að slík uppákoma yrði skrifuð á hryðjuverkamenn, sem hefðu gert slíkar öryggisráðstafanir nauðsynlegar.  Hann lét mig eyða myndinni sem ég hafi tekið og eftir að hafa fengið persónuskilríki mín sagði hann mér að ég mætti fara, um leið og hann baðst afsökunar á öllu tilstandinu.

Samstarfsmenn mínir voru farnir að undrast um mig þar sem ég hafði algerlega gufað upp.  En það var ekkert annað að gera en útsýra fyrir þeim asnaskapinn.  Þetta er í annað skiptið sem ég kemst í kast við lögregluna í Úganda, og bæði skiptin fyrir að taka myndir.  Í fyrra skiptið hafði ég tekið mynd af brú, sem liggur yfir Nílarfljót.  Það var einmitt Alfred samstarfsmaður minn sem hafði hjálpað mér í þeim viðskiptum, en í þetta sinnið þurfti ég að sjá um mig sjálfur.


Sunnudagssíðdegi í Bugolobi

 

gofl_fer_i_uganda_026.jpgBloggari skokkaði seinnipartinn um Bugolobi hverfið, til að ná úr sér golfhroll, en gangurinn hefur verið þyngri en tárum tekur undanfarna daga.  Hér rétt hjá var komið að slysi þar sem boda boda (mótorhjóla taxi) hafði látið lífið í árekstri við bíl.  Þetta er ekki óalgengt en bloggari ók fram á látinn boda boda fyrir hálfum mánuði, á sunnudagsmorgni á leið á golfvöllinn.  Málið er að umferðin er mjög hæg hér en þessir menn, og farþegar þeirra, eru algerlega óvarðir og þarf því lítið til að illa fari.  Í öðru lagi aka þeir um eins og brjálæðingar og virðast ekki gera sér neina grein fyrir áhættunni.

En einmitt það einkennir allt hér.  Gangandi vegfarendur rangla út í umferðina á þess að gæta að sér, og bloggari er dauðhræddur um að aka eftir að myrkra tekur, en götuljós eru lítil sem engin og ljósastillingar á bílum áfátt að sama skapi.  Það er varla mögulegt að koma auga á verur sem strunsa út í umferðina eða ganga meðfram vegaköntum, oft úti á götunni sjálfri.  Annað sem einkennir umferðina hér er að fáir nota bílbelti og börn eru höfð í framsæti án beltis og eru yfirleitt laus í bílunum.  Þetta minnir svolítið á ástandið heima fyrir tuttugu til þrjátíu árum.

Bloggar skokkar oft snemma á morgnana, í niðarmyrkri.  Vinur hans hafði gefið honum rautt blikkljós sem sett er á handlegginn, til að sjást vel að fyrir hugsanlegri umferð.  Eins er hann ávallt með varan á sér.  Stöðugt að fylgjast með hugsanlegri umferð og fara á móti akstursstefnu.  Ef farið er undan brekku verður að vara sig á hjólreiðarmönnum sem koma hljóðlaust aftan að manni og alls ekki hægt að treysta á dómgreind þeirra við hugsanlegri hættu. 

bugalobi_januar_042.jpgÞetta andvaraleysi fólks við augljósri hættu er stórmerkilegt.  Þetta hefur ekkert með hugrekki að gera en á meira skylt við hugsunarleysi. 

En það er stór dagur í lífi bloggara.  ,,Litla"dóttir hans er tuttugu og níu ára í dag.  Lífið brunar áfram og fólkið með.  Það leitar á huga hans hversu mörg og merkileg tækifæri lífið hefur haft upp á að bjóða.  En það þarf að fara vel með það og gæta þess.


Fjölskylduharmleikir

Það er hörmulegt að horfa upp á fjölskylduharmleiki sem koma til vegna íslensku kreppunnar, þar sem bankar fóru í þrot og settu hagkerfið á hliðina.  Soffanías Cecilsson er ekki eina fyrirtækið þar sem meirihluti fjölskyldufyrirtækis nánast kúgar minnihlutann með röngum ákvörðunum.  Ég þekkti Soffanías gamla vel hér áður og sem mikinn heiðursmann, glúrinn í viðskiptum og ráðdeildarsamur.

Í undanfari hrunsins voru margir sem sáu að íslensku bankarnir voru annaðhvort kraftaverk eða byggðir á sandi.  Þeir sem ekki trúa á það fyrrnefnda voru sannfærðir um hið síðara.  Víða hefur verið takist á um stefnur og strauma í fjölskyldufyrirtækum á þessum tíma, enda töluvert um miklar eignir sem gengið höfðu til nýrra kynslóða sem þurfti að ávaxta.  Þar vill minnihluti oft verða útundan og er neyddur til að fylgja röngum árkvörðunum, og oft er brotið á reglum um fundarhöld og formlega ákvörðum um stefnu í fjárfestingum og hvernig eigi að ávaxta höfuðstólinn.  Það er aldrei of varlega farið í svona hlutum enda skilja þeir eftir óbrúanlegt gil milli fjölskyldumeðlima.  

Það verður þó að segjast eins og er að stór hluti þjóðarinnar trúði á kraftaverkið.  keypti sér hús, oft með erlendum lánum, sem voru mun dýrari en fjárhagur leyfði, fyrir utan tvo til þrjá bíla á hlaðinu, allt keypt eða leigt af okurlánurum (kaupleigum).  Það voru ekki nema rúmlega 70 þúsund bílar á götunni, á slíkum kjörum í gangi þegar hrunið kom í október s.l.  Sumir fá finna sér blóraböggul við slíkar aðstæður og kenna frjálshyggju eða kapítalisma um allt saman.  En þegar allt kemur til alls ber hver ábyrgð á sjálfum sér.  Reyndar er sárt að hugsa til þess hvernig bankar létu starfsmenn sína, grímulaust, taka þátt í ruglinu með því að færa sparifé í peningamarkaðssjóði, sem þeir notuðu svo í þágu eiganda sinna.

Ég yrði ekki hissa á að mörg dómsmál ættu eftir að rísa þar sem beitt var ofríki og gengið framhjá löglegum og heiðarlegum viðskiptaháttum við ákvarðanir innan fjölskyldufyrirtækja.  Ákvörðunum sem kostuðu kostuðu viðkomandi félög, og fjölskyldur mikla fjármuni.  Það er alltaf sárt þegar slíkt gerist innan fjölskyldna, enda eru slíkar stofnanir ekki heppilegar fyrir slíka starfsemi eins og ákvarðanir um áhættu og ávöxtun fjármuna.

 


mbl.is Skip og veiðiheimildir í nýtt félag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 283892

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband