Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Enski boltinn

images_838565.jpgÉg skrapp í PayLess áðan til að kaupa ávexti og grænmeti.  Á leiðinni úr bílnum rakst ég á eldri mann sem heilsaði mér og spurði hvort ég væri Englendingur.  Þegar ég sagðist vera íslenskur; spurði hann hvar við værum í enska boltanum, hvort ég héldi með Manchester eða Chelsie.  Ég sagði honum að krakkarnir mínir skiptust ójafn á milli Manchester og Liverpool og á meðan við gengum að versluninni þá hvað hann við og sagði ,,þú ættir að halda Arsenal að þeim"  Þar skildust leiðir þar sem ég átti leið inn en hann framhjá en áður en við kvöddumst gat ég þess að tengdasonurinn væri einmitt stuðningsmaður Arsenal.  Það lyftist brúnin á karli og hann rétti mér höndina og greip þéttingsfast um hana.  Brosið var svo einlægt og ánægjan skein úr hverjum drætti.  Það er alveg merkilegt hvað enski boltinn hefur mikil áhrif um allan heim.  Kannski ég ætti að halda með Arsenal þar sem Gunners og nafnið Gunnar eru náskyld.


Vinstri stjórn eða þjóðstjórn

Hvers vegna þjóðstjórn?  Ef horft er á ástandið með augum leikjafræði og tilfinningar teknar út og ísköld rökhyggja notuð til að meta stöðuna og það sem framundan er lítur þetta svona út:

Þegar sigurvíman dvínar hjá vinstri flokkunum og ískaldur veruleikinn tekur við er staðan sú að þörf er á gríðarlegum niðurskurði í ríkisfjármálum.  Talað er um að stoppa upp í 150 milljarða gat í fjárlögum fyrir næsta ár til að ná endum saman.  Í fyrri vinstri-ríkisstjórnum var venjan að ýta vandanum á undan sér og taka lán, hjá Seðlabanka (peningaprentun), lántöku hjá þjóðinni (ríkisskuldabréf) eða erlendri lántöku, eða blöndu af þessu öllu saman.  Nú er hinsvegar sú hliðin uppi á teningnum að engin af þessum leiðum eru færar, nema helst að prentar ónýtar krónur.  En þá kemur að IMF sem setur kröfur sem koma í veg fyrir það.  IMF hefur sett reglur um endurreisn sem ekki verður fram hjá komist og því fokið í flest skjól, nema að skera niður útgjöld.

Engum skal detta í hug að hægt sé að skera niður slíkar upphæðir án þess að koma við velferðarkerfið, heilbrigðismál eða menntamál.  Stærðargráðan er einfaldlega sú að ekki verður hægt að ná endum saman með öðrum hætti, og uppsagnir þúsunda ríkisstarfsmanna blasir þannig við.  Það er svo sem ekkert óeðlilegt ef tekið er mið af gríðarlegri útþenslu ríkisins undanfarin ár, sem nú þarf að leiðrétta. 

Slíkar aðgerðir verða mjög óvinsælar og viðbúið að þeir stjórnmálaflokkar sem takast á við þær fái á baukinn þegar fram líða stundir.  Ef horft er fjögur ár fram í tímann, gæti Sjálfstæðisflokkurinn verandi á hliðarlínunni í stjórnarandstöðu sótt verulega á við slíkar aðstæður.  En það er heldur betur ,,ósanngjarnt" miðað við að flokkurinn er ,,ábyrgur" fyrir ástandinu.  Hversvegna ætti hann að rétta úr kútnum meðan vinstri flokkarnir puða við að laga ástandið eftir ,,óstjórn" Sjálfstæðisflokksins.  En laun heimsins eru vanþakklæti og það ættu stjórnmálamenn að gera sér grein fyrir, og sennilega gera þeir það. 

Það er því hætt við að vinstri flokkarnir veigri sér við að taka nauðsynlegar ákvarðanir fyrir þjóðina á komandi kjörtímabili, til að forðast því sem lýst er hér að framan.  Það væri skelfilegt fyrir þjóðin og gæti riðið lýðveldinu að fullu, allavega fjárhagslegu sjálfstæði þess.

Því er besta ráðið að gera alla flokka ábyrga fyrir þeim nauðsynlegu ákvörðunum og aðgerðum sem framundan eru, og kjósa svo að loknum fjórum árum, og þá standa allir við sama borð, og standa vonandi fyrir öðrum og huggulegri áskorunum.  Málið er að þó pólitísk hugmyndafræði sé áhrifavaldur í því sem framundan er, eru þetta mikið grundvallar ákvarðanir sem þarf að taka.  Skera niður kostnað ríkisins og ná þannig jafnvægi í ríkisfjármálum.  Skattlagning er tálsýn því allt of fáir hafa borð fyrir báru til að taka á sig auknar skattbyrðar og þær draga úr athöfnum og atvinnusköpun.  Finna þarf lausn á peningamálum þjóðarinnar, með hennar hagsmuni í fyrirrúmi þar sem hent er fyrir róða gömlum kreddum og þjóðerniskennd.  Byggja upp traust á efnahagslífið, innanlands og sérstaklega erlendis til að laða að fjármagn og fjárfestingar sem verða okkur lífspursmál.

Þjóðin hefur ekki efni á sundurlyndi og átökum og þarf því að snúa bökum saman í þeim ólgusjó sem framundan er.


Þjóðstjórn

Ég er sammála Atla með hugmynd hans að þjóðstjórn.  Ástandið er svo alvarlegt að löngu er kominn tími til að menn fylki liði til að takast á við vandann.  Þetta minnir svolítið á skip sem er að sökkva en enginn er að ausa vegna rifrildis um hver eigi að stjórna því.  Á meðan sekkur skipið með öllum innanborðs.  Eftir kosningum og því pólitíska uppgjöri sem þeim fylgdu ætti þjóðin að vera tilbúinn að snúna bökum saman til að vinna sig út úr vandanum.  Ég hef reyndar boðist til að senda særingarmenn frá Afríku til að losa um þá illu anda sem heltekið hafa hluta þjóðarinnar.  Þannig að þeir geti ýtt fortíðinni til hliðar og tekist á við framtíðina.

Ég er þó ósammála Atla hvað varðar ESB.  Með aðildarumsókn og stefnu á upptöku evru byggjum við grunn að tiltrú á íslenskt efnahagslífs og opnum þar með fyrir möguleika á erlendu fjármagni til landsins, sem verður okkur lífsspursmál til að takast á við núverandi vanda.  Þjóð sem hefur skýra stefnu í því hvernig hún ætlar að leysa áratuga langan vanda sinn í stjórnun peningamála, vekur meiri tiltrú en sú sem vinglast fram og til baka, slær úr og í og kemur með tillögur og hugmyndir sem eru fyrirfram dauðadæmdar.  

Íslensk þjóð hefur aldrei staðið frammi fyrir eins mikilli áskorun og nú.  Tilvist hennar stendur og fellur með ákvörðunum sem teknar verða á næstu misserum.  Þjóðstjórn er góð hugmynd til að takast á við slíkan vanda og ýta til hliðar pólitísku argaþrasi rétt á meðan báturinn er ausinn.


mbl.is Atli: Atvinnuleysið er þjóðarböl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðreisn Sjálfstæðisflokksins

Nú liggja fyrir úrslit kosninga með sigri vinstri flokkana og sögulegum ósigri Sjálfstæðisflokksins.  Ósigri sem hann á skilið en við tekur uppbygging flokksins, vonandi á sama grunni en með annarri forystu.  Þegar hefur verið skipt út hluta af því fólki sem ber ábyrgð á óförum þjóðarinnar og flokksins, en betur má ef duga skal við endurreisn á grunni einkaframtaks og einstaklingsfrelsi.

Eftir bankahrunið í haust virtust forystumenn flokksins hugsa fyrst um sjálfan sig og stöðu sína, því næst flokkinn og flokksmenn en settu þjóðina númer þrjú.  Þessu þarf að snúa við og raða upp í öfugri röð.  Setja þjóðarhagsmuni númer eitt, flokkshagsmuni númer tvö en forystan er forgengileg og má skipta um þegar þörf krefur.

Margir sjálfstæðismenn gátu ekki fyrirgefið þennan hroka forystunnar og fyrir það geldur flokkurinn nú í kosningum.  Krafan um að þeir beri ábyrgð sem hafa setið áralangt við völd var hávær en náði þó ekki eyrum þessa fólks.  Þáttur Davíðs Oddsonar í málinu er einnig mikilvægur og gott ef öll sú niðurlæging er að baki.

Í mínum huga er afstaða flokksins til Evrópumála einnig áhrifavaldur í þessum kosningum.  Skortur á stefnumótun í peningamálum þjóðarinnar og óraunhæfar tillögur, eins og einhliða upptaka evru í samstarfi við ESB með stuðningi IMF.  Þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar forystumanna ESB um að einhliða upptaka verði litin sem fjandsamleg aðgerð, leggur flokkurinn þetta til sem tillögu í peningamálum.

Staða þjóðarinnar hefur aldrei verið eins alvarleg frá stofnun lýðveldisins.  Ekki bara að skuldir ríkisins hafi náð nýjum hæðum og tekjur þjóðarbúsins að skreppa saman á sama tíma, heldur hefur traust á efnahag Íslands erlendis, aldrei verið minna.  Gjaldmiðlinum er haldið í öndunarvél með gjaldeyrishöftum en raungengi er langt um lægra en skráning hérlendis gerir ráð fyrir.  32 hagfræðingar skrifuðu grein í Morgunblaðið í janúar með rökstuðningi um hvers vegna einhliða upptaka annars gjaldmiðils er tálsýn og gengur ekki upp.  Forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki hrakið þau rök samhliða tillögum sínum um einhliða upptöku evru. 

Hinsvegar er aðildarumsókn að ESB fundið allt til foráttu, en þar yrði stefnt að upptöku evru innan EMU samstarfsins.  Vitað er að þetta tekur nokkur ár en t.d. reynsla Finna og Íra sýndu fram á að aðildarumsókn ein og sér hafði mikil áhrif og vakti traust meðal erlendra lánadrottna og fjárfesta, sem er einmitt lífspursmál fyrir Íslendinga í dag.  Menn hafa líka bent á að stækkunarstjóri ESB í dag kemur frá Finnlandi og Svíar munu taka við forystu sambandsins í sumar.  Hvortveggja gæti orðið Íslendingum hagsælt í umsókn þeirra til ESB.

Hér er verið að leggja til varanlega lausn á löngu vandamáli þjóðarinnar, en hún hefur aldrei ráðið við peningamálin.  Óðaverðbólga og okur-vextir hafa lengi staðið efnahagslegri uppbyggingu fyrir þrifum.  Þessi óstjórn hefur verið okkur mjög dýr og kannski með ólíkindum hvert við höfum komist, þrátt fyrir þessa óstjórn.  Menn hafa reyndar bent á að hagsveiflur séu ólíkar á Íslandi og t.d. í Þýskalandi, en það er þó viðbúið að með nánara efnahagslegu samstarfi við vinarþjóðir okkar í Evrópu aðlagist þessar sveiflur og verði meira í takt.

En fyrir liggur að semja þarf um sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál.  Landbúnaðarmálin verða auðveld þar sem að allar breytingar verða til góðs.  Íslendingar eiga heimsmet með Japönum og Kóreumönnum í viðskiptahindrunum og niðurgreiðslum með landbúnaðarafurðir.  ESB aðild myndi bara bæta það ástand, íslenskum neytendum til góða.  Það er kominn tími til að landbúnaður lúti markaðslögmálum og hugað sé að framleiðni í greininni.

Sjávarútvegurinn er hinsvegar allt annað mál þar sem hann hefur verið vel rekin á sjálfbæran hátt og skilað góðum arði til þjóðarinnar.  Það má ekki breytast með aðild að ESB og um það verður samið ef til viðræðna kemur.  Það er fyrirfram vitað að ESB mun ekki breyta stofnsamþykktum sínum fyrir Íslendinga en aðrir möguleikar eru upp á teningnum sem vert er að láta á reyna.  Ljóst er að við þurfum að semja um flökkustofna hvort sem við göngum í ESB eða ekki.  Í dag er veitt verulega umfram ráðgjöf í sumum þeirra, sem er ekki sjálfbært og kemur í bakið á okkur seinna.  Reyndar er litið á veiðar íslendinga stofnum eins og t.d. makríl sem sjóræningjaveiðar, og erfitt verður að semja um þær.

Hinsvegar er allt önnur staða með botnfiska þar sem Íslandsmið gætu verið skilgreind sem sérstakt svæði, og því ekki partur af ,,hlutfallslegum stöðugleika" ESB.  Það þýðir einfaldlega að ef ákveðið er að draga úr veiði í Norðursjó hefur það engin áhrif á veitt aflamagn á Íslandsmiðum.  Fyrir liggur að Íslendingar muni sjálfir fá nánast öll veiðiréttindi og hugsanlega hægt að setja girðingar til að koma í veg fyrir kvótahopp í framtíðinni, eins og Bretar gerðu.  Íslendingar geta ráðið því hvaða veiðikerfi verður notað og gætu því haldið í kvótakerfið sem væri öllum fyrir bestu.  Síðan munu þeir sjálfir sjá um veiðieftirlit, en það liggur fyrir í dag.  Ef Íslandsmið væru skilgreind einstök líffræðilega (botnfiskar) myndu að öllum líkindum Íslenskir sérfræðingar (Hafró) gera tillögur að veiðimagni, en það yrði formlega ákveðið í Brussel.  Það eitt og sér myndi koma í veg fyrir að ráðherra gæti ákveðið að auka veiði rétt fyrir kosningar í pólitískum tilgangi, ef ekki lægju fyrir vísindalegar forsendur fyrir því.  Þannig gæti Brusselvaldið bætt ákvarðanatöku stjórnvalda í fiskveiðimálum.

Björn Bjarnarson hefur farið mikinn í þessari kosningabaráttu, gegn ESB umsókn.  Í síðasta pistil sínum skrifar hann um blekkingarleik heilagrar Jóhönnu og kallar það blekkingarmet í íslenskri pólitík.  Mér finnst blekkingarleikur Björns vera meiri ef eitthvað er.  Slær um sig þjóðarrembing og höfðar til þjóðerniskenndar Íslendinga.  Varar við Brusselvaldinu og talar um þessi illmenni í ESB, án þess að útskýra hvað hann á við.  Enn er allt á huldu með samskipti íslenskra stjórnvalda við þessa menn í kjölfar bankahrunsins og á mikilvægum fundi um þessi mál í síðustu viku voru fundarmenn bundnir trúnaði og máttu ekki segja frá því sem rætt var um.  Einn þingmaður sagði þó að fundarefnið hefði komið sér verulega á óvart og atburðarrásin verið ævintýraleg í kjölfar bankahrunsins.

Þetta er ekki innlegg í málið og eins fer Björn hiklaust með rangfærslur þegar kemur að væntanlegum samningum um fiskveiðar.  Umræða um samning Möltu á ekki heima hér enda er fiskveiðimið þeirra (botnfiskur) hluti af heildarveiðisvæði ESB, sem Íslandsmið eru ekki.  Ekki er verið að tala um varalegar undanþágur Íslendinga frá stofnsamþykktum ESB í væntanlegum viðræðum.  ,,Hlutfallslegur stöðugleiki" er byggður á því að veiðisvæði sambandsins er ein heild, og það á við veiðisvæði Norðmanna einnig.  Þannig er ákvörðun um aflamagn tekin sem ein heild og síðan er þeim heildarafla skipt niður eftir fyrirfram gefnum hlutföllum (hlutfallslegur stöðugleiki).  Íslandsmið eru hinsvegar aðskilin líffræðilega með staðbundnum stofnum.  Það að ,,hlutfallslegur stöðugleiki" tryggi ekki einkanýtingu þjóðarinnar á auðlindinni liggur fyrir.  Bretar hafa gert sérsamninga til að koma í veg fyrir kvótahopp ekkert því til fyrirstöðu að Íslendingar geri slíkt hið sama.  Björn segir að Íslendingar verði að undirgangast fiskveiðieftirlit ESB þegar fyrir liggur að hver þjóð er ábyrg fyrir sínu eftirliti.  Ekkert myndi því breytast við inngöngu Íslands í ESB varðandi fiskveiðieftirlit á Íslandsmiðum.

Það sem ég hef lesið mig til um varðandi þjóðaratkvæðisgreiðslur Norðmanna sýnist mér neitun hafa verið byggð á þjóðernishyggju frekar en fiskveiðum.  Lítill hluti Norðmanna hefur hagsmuni að fiskveiðum og aðrir hagsmunir því yfirgnæfandi fyrir þá.  En þjóðerniskenndin er sterk og auðvelt að notfæra sér hana til að móta skoðanir almennings.  Ég var hinsvegar að vona að Íslendingar hefðu lært sína lexíu eftir bankahrunið í október og hefðu áttað sig á að þeir eru ekki nein undraþjóð.  Við byggðum ekki hagvöxt undanfarin ár á mannauði eða dugnaði, og alls ekki framleiðni, heldur með því að taka lán hjá Þjóðverjum og Japönum.  Hafi einhverjum dottið það í hug að við gætum rekið heilbrigt efnahagslíf með 15% vöxtum, og halda gengi krónunnar uppi með jöklabréfum, eru þeir hinir sömu að vaða um í villu og svima.

Sjálfstæðisflokkurinn verður að losa sig út úr þessari kerfisvillu og verða aftur opinn frjálslyndur flokkur með náin tengsl við grasrótina.  Hætti að nota blekkingar þar sem röksemdir eiga betur við.  Huga að heill þjóðarinnar með grunngildum Sjálfstæðisflokksins í farkestinu, frelsi einstaklingsins, einstaklingsframtaki og stétt með stétt.


Setnir illum öndum

fer_3_a_hera_svae_i_005.jpgÉg er rétt kominn heim úr tveggja daga ferð norður fyrir Kyoga vatn til að hitta héraðshöfðingja og undirbúa jarðveg fyrir verkefni sem við vinnum með sjávarútvegsráðuneyti Úganda.  Við ókum meðal annars í gegnum svæði þar sem ,,Lord Resistance Army" hafði farið um með hryðjuverkum og morðum og hrakið fólk frá heimilum sínum.  Þetta fólk er nú að snúa til baka eftir 10 til 12 ár í flóttamannabúðum og kemur að veraldlegum eigum sínum í rúst, en enn verra er missir ættingja og ástvina sem myrtir hafa verið í þessum tilgangslausu átökum.

Ég las dagblaði í gærkvöldi um hvernig særingarmaður hefur farið um þessar sveitir til að reka út illa anda og frelsa fólk frá þeim örlögum að vera yfirtekin af slíkum öflum, en það mun meðal annars valda geðveiki hjá þeim sem fyrir því verða.

Við særingarathafnir eru jarðneskar leifar einstaklings teknar og fjölskylda og vinir safnast síðan í kringum særingarmanninn.  Særingarmaðurinn tekur geit og þvingar hana niður í jörðina með því að snúa hana niður, og þeir sem verst eru haldnir illum öndum krjúpa við hana og leggja hnéð í kviðinn og þrýsta fast á.  Hinn illi andi fer þá úr einstaklingunum yfir í geitina.  Eftir að hafa endurtekið þetta nokkrum sinnum tekur særingarmaðurinn hníf og sker geitina á háls.  Særingarmaðurinn tekur næst hana sem er hálfhöggvinn og nú flæðir blóðið um jörðina og viðstaddir stappa í því meðan særingarmaðurinn fer með þulu.  Næst er haninn og geitin elduð og allir setjast að snæðingi.  Mikilvægt er að engin taki neitt af matnum heim, enda hefur hinn ásetni illi andi sest að í líkamsleifunum dýranna og fólk gæti þannig tekið ófögnuðinn með sér heim.  Leifar hanans og geitarinnar er síðan urðuð ásamt pottinum sem eldað var í og allir halda til síns heima, hreinsaðir af hinum illu öndum.  Nú er fólk tilbúið að setja fortíðina, og þann hrylling sem hún færði því, aftur fyrir sig og takast á við framtíðina.  Byrja að byggja upp og rækta garðinn sinn og byrja nýtt líf.

Það rann upp fyrir mér hversu nauðsynleg athöfn er þarna á ferðinni, til að lækna þau sár sem hafa myndast og gera fólki kleift að takast á við framtíðina.  Bandaríkjamenn styðja þessar særingarathafnir enda talið að mikilvægt framlag til að byggja upp þessi samfélög að nýju.

Kannski þurfa Íslendingar sinn særingarmann til að komast yfir þau áföll sem dunið hafa yfir þjóðina, þó þau séu léttvæg miðað við það sem fólk í norður Úganda hefur mátt þola.  Að þjóðin sætti sig við orðin hlut og sameiginlega takist á við verkefni dagsins.  Hér er ekki verið að tala fyrir því að menn standi ekki ábyrgð á hugsanlegum misgjörðum sínum, heldur að fólk losi sig við það hatur ,,illa anda" sem tekið hefur sér bólfestu í brjóstum þess og má sjá á bloggsíðum, orðræðum og greinum.  Illskan og hatrið dregur allan mátt úr fólki og engin möguleiki er á að byggja upp traust meðal landsmanna, sem er algerlega nauðsynlegt til að byggja samfélagið upp.  Vonandi gefst tækifæri til þess eftir laugardaginn þegar kosningaskjálftinn er farinn úr mönnum og stjórnmálaflokkar hafa tekið út sinn dóm frá almenningi.  Við blasir risavaxið verkefni hjá örþjóð í miðju Atlanshafi, sem hún mun ekki ráða við helsetin illum öndum, og sundruð af átökum og illindum.


Dugandi starfsstjórn í efnahagsmálum

 

Bretar ætla að taka erlend lán upp á 200 milljarða punda á þessu fjárhagsári.  Mér sýnist það vera jafngilda um 150 milljörðum króna, yfirfært á íslenskar aðstæður.  Það eru miklir peningar og Bretar eru verulega áhyggjufullir yfir þessu, sértaklega hvernig ríkið ætlar að fjármagna endurgreiðslur þessara lána á komandi árum.  En þessu fylgir mikil veisla breskra stjórnvalda þar sem stór hluti fjármagnsins fer eyðslu til að örva hagkerfið.  Slíkt er drauma staða stjórnmálamannsins enda geta menn leyft sér hvað sem er í eyðslu þessa dagana.  Það var óráðsía sem orsakaði vandann og einhvernvegin ætla menn síðan að nota sömu aðferð til að lækna meinið.

Íslendingar eru í enn meiri vanda og ekki liggur fyrir ennþá hversu stór hann er.  Þrátt fyrir ,,kraftmikla" starfsstjórn Vinstri Grænna og Samfylkingar undir verndarvæng Framsóknar, sem mynduð var til að taka á brýnustu vandamálum vegna bankahrunsins hefur lítið gerst í mikilvægustu málunum.

Staða gjaldmiðilsins er hörmuleg en krónan hefur lækkað um 18% síðan stjórnin tók við, og engin stefnumótun hefur verið kynnt vegna þessa. 

Bankarnir eru ekki enn komnir með efahagsreikning og því veit engin hver staða þeirra er.  Þeir gætu þess vegna verið tæknilega gjaldþrota.  Fyrri ríkistjórn þvingaði þá til að setja 200 milljarða inn í peningamarkaðsbréf bankana, sem var algerlega óskiljanlegt mál þar sem þegnum landsins var stórlega mismunað með þeirri aðgerð.  Nú eru þeir látnir fjármagna dellu eins og tónlistarhúsið, sem varla getur talist forgangsmál þessa síðustu og verstu tíma. 

Ekki er búið að taka á vanda heimila né fyrirtækja.  Að vísu hefur þessari ríkisstjórn tekist að koma mikilvægustu atvinnugreininni í landinu, sjávarútvegnum, í uppnám með ábyrðalausum tillögum um fyrningarleið í kvótamálum.  Einnig á að koma í veg fyrir að fyrirtæki í framleiðslu á sjávarfangi geti tryggt sér hráefni með eigin skipum, þar sem allur fiskur á að fara á markað. 

En reyndar var ákveðið að byggja menningarhús í NV kjördæmi, helsta vígi Vinstri Grænna, sem mun örugglega hjálpa til við þann vanda sem blasir við íslensku þjóðinni í dag.

Enn er ósamið um IceSave og Egde reikninga og því veit almenningur ekki hvort hann þarf að borga 40 milljarða eða 700 milljarða króna. 

Á meðan Ísland brennur hafa þessir menn eytt tíma alþingis breytingar á stjórnarskrá, án þess að fá um það breiða samstöðu þingsins, sem er algjört stílbrot í íslenskri stjórnmálasögu.  Undanfarin ár hefur glumið í eyrum landsmanna frá þessu fólki, að sjálfstæðismenn hafi sýnt Alþingi óvirðingu og almennt skorti virðingu fyrir löggjafarvaldinu.  Núverandi ríkisstjórn treystir hinsvegar Alþingi ekki til að breyta stjórnarskránni heldur stóð til að kjósa til þess skuggaþing.  Slíkt skuggaþing endurspeglar nefnilega vilja þjóðarinnar, sem Alþingi gerir þá ekki?  Málið er auðvitað að stjórnarskráin er sáttmáli þjóðarinnar og þingið hefur alla burði til að takast á við breytingar á henni, en með breiðri samstöðu allra flokka.

En stjórnarskráin er ekki málið í augnablikinu, það eru efahagsmálin.  Þeim á að gefa gaum en ekki afvegaleiða þjóðina með lýðskrumi, til að afla atkvæða í komandi kosningum.


Sjálfstæðisflokkurinn og evran

Það var áhugavert að lesa brot úr Heimspekisögu eftir Gunnar Skirbekk og Nils Gilje í síðasta Viðskiptablaði.  ,,Þegar menn missa stjórnar á flóknum aðferðum freistast þeir til að grípa til svartagaldurs og ofbeldis.  Þannig má líta á Fasisma sem nokkurskonar pólitískan krampa.  Maður bregst við með órökréttri ofboðskelfingu.  Með orðagaldri má einfalda það sem er flókið óskiljanlegt; Gyðingarnir bera ábyrð á þessu öllu; við styðjum Hitler til valda, hann sýnir Gyðingum í tvo heimana og þá lagast allt"

Einhvernvegin koma ákveðnar umræður úr pólitíkinni upp í hugan við lesturs þessara orða.  Fiskveiðistjórnun er flókið fyrirbæri og í henni grípa menn ítrekað til þessara lausna, að einfalda flókin hlut og gera hann einfaldan.  „ágreiningurinn er allt kvótagreifunum að kenna og með því að kjósa vinstri flokkana munu þeir sýna þeim í tvo heimana og allt mun þá lagast"  Í stað þess að gera sér grein fyrir þeirri staðreynd að hagkvæmt fiskveðikerfi muni alltaf takmarka aðgengi að auðlindinni, og því allaf verða umdeilt.  Þeir sem falla milli skips og bryggju munu berjast á móti því.  Einnig hafa menn notað tækifærið og kennt kvótakerfinu um flókin mál, eins og flótta fólks úr stjálbýli í þéttbýli.  Það auðveldar umræðuna og gerir hana einfaldari.  Síðan er bara nota mikið af hugtökum sem lýsa á tilfinningaríkan hátt hversu vondir aðilar arðræningjarnir (Gyðingarnir) eru og nauðsyn þess að sýna þeim í tvo heimana.

Það sama má sjá í umræðu um ESB og undirrituðum til mikillar hryggðar eru það skoðanabræður hans úr Sjálfstæðisflokknum sem einfalda það sem er flókið og óskiljanlegt og gera það einfaldara.  Þar er gripið til þjórernishyggju um að við séum að fórna sjálfstæði þóðarinnar.  Kvótinn muni fara til Brussel og reyndar öll yfirráð þjóðarinnar yfir náttúrauðlindum.  Brusselvaldið (Gyðingarnir) hafi þvingað þjóðina í IceSave málinu og vilji nú klára málið og yfirtaka allar okkar auðlindir.  Bretar, sem eru í þessu samhengi ESB, beittu hryðjuverkalögum gegn Íslendingum.  Eigum við að ræða við svoleiðis dóna?

Peninga- og efnhagsmál þjóðarinnar eru flókin mál og verða ekki leyst með svona aðferðum.  Ljóst er að krónan hefur ekkert traust, hvorki innan- né utanlands.  Einhliða upptaka evru er tálsýn og verið bent á það af mörgum fremstu hagfræðingum landsins.  Reyndar myndum við sennilega koma í veg fyrir inngöngu Íslands í ESB í náinni framtíð með því að stíga það skref. 

Það eina raunhæfa í augnablikinu er að sameinast vinum okkar í Evrópu, ganga í ESB og taka upp evru í samvinnu við sambandið.  Þannig getum við byggt upp traust á efnahag landsin sem er Íslendingum lífspursmál þessa dagana, þar sem fjármálaleg einangrun blasir við þjóðinni.  Án þess trausts munu Íslensk fyrirtæki ekki geta fjármagnað sig í framtíðinni erlendir frjárfestar halda sig víðsfjarri.  Þá er ótalið sá skaði sem gjaldeyrishöft og háir vextir valda rekstri fyrirtækja og heimlila í landinu.  Fyrir liggur að fyrirtæki eins og Marel, Össur og CCP hyggja á flutning fyrirtækjanna úr landi ef ekki verður sótt um aðild að ESB.  Menn treysta sér ekki til að reka fyrirtæki í Norður Kóreu Atlanshafsins.

Sjálfstæðisflokkurinn er að tapa einstakri stöðu með afstöðu sinni í þessu mikilvæga máli, og ýta vandamálunum á undan sér án þess að setja skýra framtíðarsýn og stefnumótun.  Stefna þeirra í þessum mikilvægu málum, Þeim mikilvægustu sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir frá lýðveldisstofnun, er óskýr og ekki sannfærandi.  Með orðagaldri einfalda þeir það sem er flókið óskiljanlegt og hamra á Brusselvaldinu (Gyðingunum) og nauðsyn þess að vernda þjóðina fyrir því.  Hræða fólk með því að með aðild að ESB afsali þjóðin sér öllum yfirráðum yfir auðlindum sínum.

Ef Sjálfstæðismenn hafa góðan málstað að verja í þessu máli; hvers vegna eru þeir þá ekki málefnalegri og not rök í staðinn fyrir þjóðerniskend og lýðskrum?


Ótrúlegt lýðskrum

Það er ótrúlegt lýðskrum hjá stjórnarliðum að saka Sjálfstæðismenn um ofbeldi og skemmdarverk í stjórnarskrármálinu.  Ekkert kallar á breytingar á stjórnarskrá þessa dagana og nær að einbeita sér að peninga- og efnahagsmálum.  Stjórnarskráin er sáttmáli þjóðarinnar og algjört stílbrot að reyna að keyra í gegn breytingar gegn vilja stjórnarandstöðu.  Sérstaklega hjá minnihlutastjórn sem kallar sig starfsstjórn um viðreisn efnahags landsins.

Ég skora á fólk að kynna sér ummæli stjórnarliða um tillögur að stjórnarskrárbreytingum fyrir síðustu kosningar.  Þá var hætt við þar sem samstaða náðist ekki og mönnum datt ekki til hugar að þvinga breytingar í gegn.


mbl.is Ofbeldi og skemmdarverk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talsmáti kjánans

Þegar vit þrýtur notar kjáninn stóryrði og upphrópanir. 

,,Þeir væru að ganga erinda útgerðarauðvaldsins, ganga erinda LÍÚ, sægreifanna og kvótakónganna"  Þetta er haft eftir utanríkisráðherra Íslands á Alþingi í dag í umræðu um stjórnarskrárfumvarpið.  Hver tekur mark á svona orðaflaumi.  Er Össi kjáni eða er þetta lýðskrum.  Allir sem velta þessum málum fyrir sér vita að ákvæði um eignarrétt á fiskveiðiauðlindinni hefur enga þýðingu hvað varðar stjórnarskána.  Málið er að fyrsta grein laga um fiskveiða tiltekur til að fiskveiðaauðlindin sé sameign þjóðarinnar.  Og það er hún óumdeilt og þarf ekki að setja slíkt í stjórnarskrá.  Stjórnarskráin er sáttmáli þjóðarinnar en ekki leikfang alþingismanna.  Þó þetta yrði sett í stjórnarskrá myndi það engu breyta að hægt væri að færa einhverjum tilteknum hópi nýtingarréttinn.  Það þarf hvort eða að gera þar sem óheftur aðgangur gengur ekki upp.  Allir skynsamir menn skilja það og gera sér grein fyrir því.

Svona notkun á óskilgreindum skrýtnum hugtökum í pólískum tilgangi er loddaraskapur, eða kjánaskapur.  Hvort er Össi kjáni eða loddari?  Þetta er fyrir neðan virðingu þingmanns og örugglega langt frá því sem búast má við orðum ráðherra.

Svona í framhjáhlaupi.  Hver er munurinn á; útgerðarauðvaldi, LÍÚ, sægreifum og kvótakóngum?  Ætli Össi hafi skilgreiningu á þessum hugtökum?  Nær þetta til allra sem stunda fiskveiðar og eru þessi hugtök eins slæm og þau líta út fyrir að vera?


mbl.is Segja sjálfstæðismenn hafa varpað grímunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Subbuskapur í íslenskri pólitík

usa-flag-photojpg.jpgÉg hlustaði á Obama flytja ávarp til bandarísku þjóðarinnar í gærkvöldi.  Hann gerði nákvæmlega það sem íslenskum stjórnmálamönnum hefur láðst; draga upp framtíðarsýn fyrir þjóð sína og útskýra stefnumótun til að ná þangað.  Stappa stáli í þjóðina og fá hana til að trúa á hið nýja hagkerfi, sem byggir á fimm megin stoðum.  Menntun þar sem ekki sé hægt að reka framleiðið atvinnulíf án góðrar almennrar menntunar og þekkingar.  Bætta almenna heilsugæslu þar sem nýja hagkerfið þarf heilbrigða þjóð til að láta til sín taka.  Nýsköpun og frumkvöðla með aukinni áherslu á raunvísindi sem draga mun nýtt hagkerfi með nýjungum.  Sjálfbæra orkuframleiðslu; þó hún verði dýr mun það skila sér rækilega í nýjungum og bæta umhverfi jarðarbúa.  Og síðast en ekki síst nýja sín á pólitík sem horfir til langtímahagsmuna en ekki skammtíma.  Hann benti einmitt á að eitt af vandamálum dagsins í dag er samtímahugsun í stjórnmálum sem ekki tekur tillit til lengri tíma og menn hnjóta um mikilvægi augnabliksins en horfa ekki til langtímahagsmuna.  Einnig að þrátt fyrir gegndarlausa eyðslu dagsins í dag, til að koma þjóðarbúskapnum af stað, eru bandarísk stjórnvöld að skipuleggja niðurskurð í útgjöldum til lengri tíma litið og munu fljótlega kynna 2 trilljóna niðurskurð til næstu 10 ára.  Slíkt er hægt að gera án þess að draga úr þjónustu, með aukinni framleiðni og betri nýtingu fjármagns.

Obama kallar þetta að byggja nýtt hús, nýja hagkerfið, á kletti en ekki á sandi eins og gert hefur verið undanfarin ár.  Reyndar er rétt að bæta við að hann skellir skuldinni á stöðu dagsins á stjórnvöld ásamt græðgi á Wall Street og Main Street. (Main Street eru heimilin í landinu sem algerlega hafa farið fram úr sér í eyðslu, eins og hin íslensku)

Ekki er annað að heyra en bandaríska þjóðin hafi tekið boðskapnum vel og ólíku saman að jafna við íslenska póltík dagsins.

Minnimáttarkennd undanfarinna ára, margar óvina Sjálfstæðisflokksins, hefur birts undanfarið í hatrömmum árásum á flokkinn.  Engu máli skiptir hvað sé rétt eða rangt því þetta er of gott til að vera satt.  Svanhildur Svavarsdóttir fékk rúmlegan tíma í ríkissjónvarpinu þar sem hún fullyrti að Sjálfstæðisflokkurinn hafi þegið mútur.  Svanur Kristjánsson líkir flokknum við mafíu á Ítalíu og telur nauðsynlegt að leita ráða hjá þarlendum lögregluyfirvöldum til að ráða niðurlögum hans.  Síðan er auðvitað talað við Bubba Mortens, enda varðar þjóðina sérstaklega um hans persónulegu skoðun.

Þrátt fyrir að öll spil hafi verið lögð á borðið varðandi óhóflega styrki til Sjálfstæðisflokksins er þetta fólk sannfært, eða vill vera það, um að maðkur sé í mysunni.  Það hlýtur bara að vera því þetta er of gott til að vera ósatt.  Sannleikurinn skiptir engu máli og rök og skynsemi er kastað fyrir róða.  Trúir því einhver að Sjálfstæðismenn hafi þegið mútur frá Landsbanka og Fl Group?  Og þá að allir þingmenn hafi tekið þátt í því og kannski upp undir þriðjungur þjóðarinnar, stuðningsmenn flokksins?  Þetta er auðvitað algjört bull og pólitík sem komin er niður í svaðið.  Engin hlustar á þá staðreynd að sex borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins komu einmitt í veg fyrir samstarf Geysir Green og Orkuveitunnar sem varð til þess að meirihlutinn splundraðist og upphafsmaður alls þessa fór í framhaldi í meirihlutasamstarf við vinstri flokkana.

Íslendingar þurfa síst á þessu að halda í dag.  Hvort sem andstæðingum Sjálfstæðisflokksins líkar betur eða verr verður þjóðin ekki reyst úr öskustónni án þess hóps sem aðhyllts hefur stefnu flokksins.  Nú ríður á að þjóðin standi saman og takist sameiginlega á við ógnvekjandi vandamál.  Þegar eru hópar manna að vinna við að greina orsakir hrunsins og reikna má með að öll kurl muni koma til grafar og ekki er verið að hylma yfir einu eða neinu. 

Við þurfum einmitt einhvern Obama til að sameina þjóðina, hvaða flokki sem hann kæmi úr. 


Næsta síða »

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 283870

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband