Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Club Med og Colombo

 

Bloggari hefur haft gaman af að fylgjast með franskir pólitík og sérstaklega hinum litríka forseta Nicolas Sarkozy.  Nýjasta útspilið hjá honum vekur bæði aðdáun og efasemdir.  Stofnun Club Med með öllum þjóðhöfðingjum landa sem liggja að Miðjajarðarhafi, nema Qaddafi. Líbýuforseta.

Löndin sem liggja að Miðjarðarhafinu hafa mótað mankynsöguna síðastliðin 2000 árin og eru vagga þeirra tveggja menningarheima sem mest takast á í dag, kristinna manna og múslima.  Reyndar er þetta ótrúlega sniðug hugmynd hjá Sarkozy, hann útilokar ríki eins Afganistan, Írak, Saudi Arabíu og Íran, sem ekkert er hægt að eiga samskipti við hvort eða er.  Tvö ríkjanna eru lömuð af borgarstyrjöld en hinum er stjórnað af öfgafullum afturhaldsinnum.  Þrátt fyrir mikinn auð þeirra síðarnefndu verða litlar sem engar framfarir hjá almenningi enda virðing fyrir mannréttindum er engin.

En Þjóðverjar eru æfir yfir uppátækinu enda eiga þeir enga sneið af Miðjarðarhafinu og því ekki boðið í klúbbinn.  Þeir óttast að Frakkar, sem munu leiða nýja bandalagið, muni skara eld að sinni köku og þeir, Þjóðverjar, verða útundan.  Sama er sennilega upp á pallborðinu hjá Bretum sem varla eru hressir með skyndilegt mikilvægi Frakka í alþjóðamálum, enda lengi verið stirt á milli þeirra.

Hinsvegar var hersýningin og allt sjóið svolítið til að draga úr aðdáun. Það sem meira er að ekki er vitað hvernig Frakkar ætla að bregðast við timburmönnunum eftir partíið.  Það hlýtur að kalla á mikla ábyrgð og fé að reka Club Med.  Ekki geta þeir sent reikninginn til Evrópusambandsins?

En engu að síður verður maður að viðurkenna að sjá forseta Sýrlands í hópnum og þá félaga Abbas og Olmert í faðmlögum vekur vonir um að hægt verði að stöðva ófriðarbálið fyrir botni Miðjarðarhafs.  Ófriðarbál sem ógnar öllum heiminum og kyndir undir íslamsisma sem er að eta Evrópu innanfrá.

 

En frá Colombo er það helst að frétta að fiskilyktin liggur í loftinu.  Ég fór í nótt á St. Johns markaðinn í borginni til að hitta heild- og smásala.  Ég hafði með mér föt til skiptanna og fór í sturtu þegar ég kom í vinnuna í morgun.  Gallinn í plastpokun liggur út á svölum og er ekki í húsum hæfur.


Hafnarrölt

 

Félagi minn Amaralal hefur verið að hjálpa mér við rannsóknarþátt meistararitgerðarinnar.  Við fórum á höfnina í Negombo s.l. nótt til að fylgjast með löndun báta, uppboði á afla og afla upplýsinga um virðiskeðju gul-ugga á Sri Lanka.  Negomgbo er ein mikilvægasta höfnin fyrir gul-ugga, en vegna nálægðar við alþjóðaflugvöllinn við Colombo eru flestar verksmiðjur sem flytja út túnfisk í Negomgbo.

Amaralal er með meistaragráðu frá Tromsö í Noregi og lokaritgerðin hans var einmitt um virðiskeðju sjávarútvegs á Sri Lanka.  Hann hefur aðstoðað mig við rannsóknir og viðtöl við milliliði hér í landi.  Enn er töluvert eftir af þessari vinnu en þetta er ótrúlega skemmtilegt.

Negomgbo er norður af Colombo og undirstöðu atvinnugreinin er sjávarútvegur en ferðamannaþjónusta er einnig mikilvæg.  Á markaðinum í morgun benti Amaralal mér á hversu margar konur væru að vinna við uppboð og sölu á fiski, og útskýrði málið þannig að hér væri mikið um kaþólikka og meðal þeirra væri eðlilegt að konan ynni úti og hjálpaði til við að afla tekna fyrir heimilið.  Hjá búddistum, eins og honum sjálfum, væri það nánast óþekkt, enda hlutverk konunnar að sjá um heimilið.  Það er reyndar áhugavert að velta fyrir sér mismunandi menningu og áhrif hennar á hagkerfið og framleiðni.  En það er ekki viðfangsefni minnar rannsóknar.

Markaðurinn i NegomboHinsvegar að sjá tuttugu daga gamlan gul-ugga og þrefa við kaupanda fyrir útflutningsfyrirtæki um gæðin, og efast um að neytandi í Evrópu myndi sætta sig við fiskinn á matardiskinn, er hinsvegar viðfangsefnið.  Hann sagði mér að metverð hefði fengist fyrir gul-ugga í gær, enda væri þetta fyrir utan vertíð og mikil vöntun á markaði.  Sem að sjálfsögðu breytir skyni John & Mary í Bretlandi á hvað séu gæði og þau skilja mjög vel að monsoon sé í algeymi í Indlandshafi og bragðið því örlítið öðruvísi.

Negomgbo er við árósa og við dagrenningu mátti sjá rækjuflotann sigla út, í orðsins fyllstu merkingu.  Á Sri Lanka eru togveiðar bannaðar nema á seglbátum.  Stór floti dregur trollin úti fyrir árósnum með seglum þöndum og nota kröftugan monsoon vindinn sem aflgjafa. 

AmaralalVið hittum marga á markaðinum og síðar fórum við í heimsókn í verksmiðju Tropical Frozen sem eru leiðandi framleiðendur og útflytjendur á túnfiski frá Sri Lanka.  Síðan var komið við á smásölumarkaðinum í Negombo þar sem smásalar voru teknir tali og formlegir spurningalistar notaðir til að afla ganga fyrir rannsóknina.


Gul-uggi

  Mission_02_07_BE 024

Ég hef gaman af að skreppa á bryggjuna hér á Sri Lanka og fylgjast með þegar bátarnir landa og virða fyrir mér samkomustað seljanda og kaupanda, þar sem markaðurinn ræður ríkjum.  Að vísu þarf maður að fara á nóttinni þar sem þessi viðskipti eru búinn snemm morguns.  Það kemur sér reyndar vel, enda fyrir utan venjulegan vinnutíma og umferð með minnsta móti.

Það eru merkilegir hlutir að gerast hér á landi í fiskimálum, sérlega áhugaverðir fyrir mig, sem er að skrifa meistararitgerð um virðiskeðju gul-ugga (yellow-fin) túnfisks á Sri Lanka.  Hingað til hefur heimamarkaður ráðið verðinu en alþjóðavæðingin bankar á og kallar á breytingar.  Ekki eru allir ánægðir með þær breytingar en flestir hagfræðingar vilja þó meina að þær bæti hag þjóðarinnar, almennt séð.

Þetta er svona svolítið eins og að vera staddur á Þingvöllum og velta fyrir sér jarðfræði.  Þar sem Ameríku- og Evrópu flekarnir reka í sundur og hafa á síðastu sekúndum jarðsögunnar myndað ægifagurt form þjóðgarðsins.  Þetta blasir allt við einhvern vegin, hvert sem litið er.

Hér sér maður hinsvegar alþjóðavæðinguna þrengja sér inn þar sem heimamarkaður hefur ráðið hingað til, en frekar fátækir neytendur halda verði á fiski lágu.  En þróuð ríki geta boðið betra verð en neytendur þróunarlands, þannig að um leið og útflutningur byrjar, breytist verð úr heima-verði (local price) í heimsmarkaðsverð.  A gul-ugga túnfisk, sem hefur verið mjög vinsæll matur hjá almenningi á Sri Lanka, er heimsmarkaðsverð a.m.k. þrefallt hærra en heimaverðið.  Sjómaðurinn er alsæll en neytandinn er ekki eins ánægður. 

Það liggur fyrir að hægt væri að selja miklu meira magn af gul-ugga til hátt borgandi markaða í Japan, Evrópu og BNA.  Vandamálið liggur í gæðum aflans, en heimabátar eru úti í allt að sex vikur, og það með takmarkaðan ís.  Fiskurinn er því ekki allur kræsilegur fyrir vesturlandabúann sem er vanur ferskleika með sjávarilm.  Og það er ekki auðvelt að breyta því þar sem heimamaðurinn skilur ekki þessar þarfir útlendinganna.

Hæst borgar shasimi markaðurinn í Japan, en þar er fiskurinn etin hrár.  Til þess þarf mikinn ferskleika og ekki hægt að baða hann upp úr örverum á leiðinni í gegnum virðiskeðju frá veiðum á borð neytandans.  Næst eftirsóttasti markaðurinn er ,,steik" markaðurinn í Evrópu og BNA.  Þar vill neytandinn bregða fiskinum á pönnuna augnablik og hafa roða inn í miðju.  Þá bráðnar hver biti upp í manni og gæði túnfisksins koma vel í ljós.   

Heimamenn eru hinsvegar vanir að elda fiskinn í a.m.k. hálftíma og fela hann í karrý og chilli pipar. 

Eitt af þeim gæðavandamálum sem kemur upp við hefðbundna meðhöndlun fiskimanna er histamine myndun í vöðvum fisksins.  Slíkt kemur ekki að sök við eldamennsku heimamanna þar sem við mikla eldun rýkur histaminið úr, en getur verið mun verra fyrir léttsteikingu evrópubúans.  Histamine veldur útbrotum og kláða, fyrir svo utan að bragðið af gömlum fiski.  Sérstaklega þráabragð af feitum fiski eins og túnfiski, sem hverfur í kryddblöndu heimamansins en væri yfirþyrmandi fyrir vesturlandabúann, hvað þá Japanann.

En sjómenn á Sri Lanka munu læra að meðhöndla fiskinn, enda kemur þetta við budduna og til mikils að vinna.  Hægt og sígandi mun heimsmarkaðsverð taka við og heimamarkaðurinn getur ekki keppt við það.  Heimamenn munu verða án gul-ugga og verða að sætta sig við aðrar ódýrari tegundir.  Efnahagur landsins mun hinsvegar njóta góðs af og flestir vera betur settir eftir breytinguna.

En það fylgir böggull skammrifi þar sem hækkandi verð mun hvetja fiskimenn til að sækja meira og fleiri til að koma inn í greinina, en aðgangur er galopinn að auðlindinni.  Svona rómatík eins og navíistar heima telja eftirsóknaverða.  En án stjórnunar og takmörkunar í aðgangi að auðlindinni mun hærra verð aðeins kalla á ofveiði og hrun til lengri tíma litið.  Þetta er þekkt fyrirbæri í þróunarlöndum og er einmitt að gerast hér um þessar mundir.  Það er spennandi tími fyrir rannsóknir við slíkar aðstæður.


Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 283904

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband