Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Á ferð og flugi

IMG_2264Ég kom heilu og höldnu úr helreið um suður Sri Lanka.  Umferðin hér er ægileg og sífellt verið að aka frammúr og mæta bílum á öfugum vegarhelmingi.  En ferðin gekk vel og skemmtilegt að ferðast með heimamönnum um land þeirra.

Ég set hér inn myndir sem teknar voru í virkinu í Galle í dag sem byggt var af hollendingum á átjándu öld.  

Ég fékk þau gleðilegu tíðindi að flugið mitt til Afríku í nótt væri í gengum Dubai en ekki Bankok.  Það voru smá mistök hjá ferðaskrifstofunni sem búið er að leiðrétta.

 

 

IMG_2265


Á ferð og flugi

GunnarÞað er mikið um ferðalög framundan næstu vikurnar.  Í fyrramálið förum við félagarnir, undirritaður, Leslie, Nishantha og Kumara í úttektarferð um suður Sri Lanka.  Við erum að taka út starfsemi löndunarstöðva sem Íslendingar hafa byggt til uppbyggingar fiskimannasamfélaga hér á landi.  Við munum gista í bæ sem heitir Matara næstu nótt og komum til baka til Colombo á föstudagskvöld.

En bloggari mun stoppa stutt við og aðfararnótt laugardagsins flýgur hann í austur til Bankok í Tælandi.  Þaðan verður flogið í vestur til Uganda í Afríku.  Þetta verður langt og strangt ferðalag og lending á Entebbe um sólarhring eftir brottför hér.

Eftir tvær vikur í Uganda verður haldið til Sri Lanka aftur og sama dag og eiginkonan lendir hér í borg frá London, hún er að koma í heimsókn hingað, lendir bloggari úr flugi frá Uganda via Tæland. 

 Á myndinni hér að ofan er bloggari að drekka úr kókóshnetu í einkennisklæðnaði við úttekt á löndunarstað.  Sú neðri sýnir hóp manna draga inn landnót.

Nótin dregin


Kvótakerfið, enn og aftur

Hagræn stjórnun fiskveiða

Umhverfið í kringum setningu kvótalaga einkennist af gríðalegu tapi útgerðar og leituð því menn að hagrænni stjórnun fiskveiða.  Ekki ríkti samkomulag hagsmunaaðila um málið, þar sem ausfirðingar sóttu á kvótaleiðina en vestfirðingar voru á móti.

Haustið 1983 stóð sjáverútvegurinn frammi fyrir þríþættu vandamáli:

1.       Þorskstofninn var i mikilli lægð þannig að stórdraga þurfti úr veiðum

2.       Mikill hallarekstur

3.       Lengi hafði ríkt ósamstaða í röðum hagsmunaaðila um hvernig haga skyldi stjórnun botnfiskveiða og ekki hafði komið til stjórnmálalegt frumkvæði að úrlausn málsins (Kristinn Hugason 2001)

Það var ljóst á þessum árum að fiskiskipastóllinn var allt of stór miðað við veiðistofna og því varð að leita leiða til að draga úr veiðigetu og auka hagkvæmni.  Ekki þurfti kvótakerfi til að ákveða hámarksafla, enda hægt að gera það með hvaða kerfi sem var.

Hefðbundnar leiðir til fiskveiðastjórnunar hafa verið að takmarka veiðagetu fiskveiðiflotans til að vernda fiskistofna fyrir ofveiði, með útgáfu veiðileyfa.  Þessi leið hefur hinsvegar kallað á miklar og óhagkvæmar fjárfestingar í flotanum, til að auka veiðigetu einstakra skipa í ólympískri keppni um veiðar á takmörkuðum stofnum.  Evrópusambandið hefur brugðist við þessu vandamáli með því að takmarka tæknilega veiðagetu skipa, en Norðmenn hafa hinsvegar farið þá leið að miða eingöngu við lengd skipa.  Ekki hefur tekist að brúa þetta bil milli takmörkunar og hagkvæmni þar sem þessi leið virðist ætíð kalla á sóun með lélegri nýtingu fjármagns.

Takmörkun með setningu heildarkvóta á veiðar eru síðan önnur leið sem þjóðir hafa reynt.  Þessi leið hefur jafnframt kallað á aukna sóun fjármuna, þar sem keppt er um afkastagetu einstakra skipa til veiða á sameiginlegum kvóta.  Þetta hefur oft verið kallað ,,raunir almenninga" (Tragety of the Common) þar sem hver reynir að hámarka hag sinn án tillit til annarra þátttakenda í veiðunum eða sameiginlegra hagsmuna allra.

Íslendingar ákváðu hinsvegar að nota kerfi þar sem kvóta væri skipt upp á milli veiðiskipa sem hlutfalli af úthlutuðum heildarkvóta.  Útgerðarmönnum var svo í sjálfsvald sett hvernig, eða hvenær, þeir veiddu sína hlutdeild innan fiskveiðaársins.  Enn frekar hefur verið aukið við hagkvæmni þessa kerfis með því að heimila sölu og leigu á kvótum milli skipa.  Þetta hefur aukið hagkvæmni mikið þar sem kerfið hvetur hvern einstakling til að hámarka þann arð sem hann getur fyrir þær veiðiheimildir sem honum er fólgið.  Góð tengsl við markaði hefur verið einn helsti kostur þessa kerfis, sem hefur hámarkað afkomuna.

Kvótakerfið

Það er mikil einföldun að kenna kvótakerfinu um ástand veiðastofna, eins og t.d. þorsks.  Ef menn skoða málið af einhverri sanngirni blasir við að slíkar fullyrðingar standast ekki.  Í fyrsta lagi hafa stjórnvöld heimilað mun meiri veiði en ráðleggingar Hafró hafa verið í gegnum árin, en mestu munar um innkomu smábáta í gegnum tíðina, undir formerkjum réttlætis á kostnað hagkvæmni.  Smábátar voru undanþegnir kvóta í upphafi en höfðu sameiginlegan kvóta til að veiða úr sem stjórnvöld úthlutuðu þeim.  Veiði þeirra fór langt fram úr þessum áætlunum og sem dæmi var umframveiði smábáta 1984 um 70% og tæplega 130% árið 1985.  Aðeins síðust tvö ár eru undantekning frá umframveiði frá ráðgjöf Hafró ásamt árunum 1982 og 1983.  Umframveiðin fór sum árin yfir 120% og ekki fyrr en upp úr 1990 að ástandið fór að batna.

Það er því hrein rökleysa að kenna kvótakerfinu um ástand veiðistofna enda allat aðrar breytur áhrifavaldar.

Fullyrðingar um að veiðigeta flotans hafi stóraukist síðan kvótakerfið var sett á er vísað til föðurhúsanna.  Hvaðan hafa menn slíkar upplýsingar?  Málið er að engin hvati er í dag fyrir menn að hafa meiri afkastagetu en hagkvæmt er að nota til að sækja úthlutaðan kvóta.  Það þarf ekki nema að líta til togaraflotans til að sjá hverslags bábilja þetta er.

Kvótinn og landsbyggðin

Það má með sama hætti kalla fullyrðingar um breytingar á byggðamynstri á Íslandi sé kvótakerfinu um að ,,kenna"  Í fyrsta lagi er ekki víst að flutningur fólks úr fámenni í fjölmenni á Íslandi sé endilega slæmt.  Ekki hef ég séð nokkurn mann sýna fram á það, en fólk er einfaldlega að flytja til að auka lífsægæði sín, þar sem fjölmennið býður upp á fleiri tækifæri og aukna þjónustu.

En látum það liggja milli hluta og skoðum áhrif kvótakerfisins á búsetu Íslendinga undanfarin 25 ár.  Eina rannsóknin sem ég hef séð var gerð fyrir tveimur árum að Sigmundi Annasyni, þar sem hann ræddi við 1000 brottflutta Ísfirðinga.  Nánast engin tengsl virtust vera milli kvótakerfisins og ákvörðunar fólksins til að flytja á mölina.  Það verður einnig að skoða þá staðreynd að atvinnuleysi hefur verið óþekkt á Vestfjörðum síðan kvótakerfið var sett á, og þurft að flytja inn til landsins starfsfólk í fiskvinnslu í stórum stíl.

Skuldir sjávarútvegsins

Rætt er um að skuldir sjávarútvegsins hafi stór aukist eftir setningu kvótalaga.  Undirritaður hefur skoðað ársreikninga þeirra sjávarútvegsfyrirtækja sem voru í kauphöllinni á sínum tíma.  Öll hafa þau dregið sig þaðan út undanfarin ár.  Ekkert var athugavert við skuldastöðu þessara fyrirtækja.  Það er þekkt í viðskiptafræði að fyrirtæki reikna út hagkvæmustu blöndu skulda, hlutafjár og lausafjár.  Ekkert benti til annars en skuldastaða þessara fyrirtækja væri eðlileg og hagkvæm.  Það að heildarskuldir greinarinnar hafi hækkað skiptir engu máli.  Það er arðsemi fyrirtækjanna sem máli skiptir.  Þar greina íslensk sjávarútvegsfyrirtæki sig algerlega frá flestum erlendum, en arðsemi sjávarútvegs er alger undantekning á Íslandi og Nýja sjálandi. 

 Réttlæti

Það sem virðist helst fara fyrir brjóstið á fólki er aðferðin sem notuð var við að úthluta kvótanaum á sínum tíma.  Það er skiljanlegt enda um afdrifaríka ákvörðun að ræða, sem engin gerði sér grein fyrir 1984.  Stjórnvöld fóru þá leið að afhenda veiðiréttinn til þeirra sem voru í greininni á þessum tíma.  Það er ekki svo fráleit aðferð en skipti ekki höfuðmáli til að ná megin markmiðum kerfisins, að auka hakvæmni sjávarútvegs.

Hinsvegar gengur ekki endalaust að líta í baksýnisspegilinn og geta ekki tekið þátt í upplýstum umræðum um málefni sjávarútvegs vegna þessa.  Þetta er búð og gert og ekkert sem gert verður héðan af mun breyta því sem orðið er hvað þetta varðar.  Menn hafa selt sig út úr greininni og það skiljanlega farið fyrir brjóstið á mörgum, en á móti kemur hefur það losað um fjármagn til margvíslegra annarra nota, og bætt hagkvæmni þeirra sem eftir sitja í sjávarútveg.  Færri stærri fyrirkæki gefa íslendingum mikið tækifæri til sóknar í þessari grein.  Rétt er að taka því fram að meira en 80% af kvótanum hefur skipt um hendur og því eru það nýir aðilar sem koma inn eftir kvótakerfið sem halda verulegum hluta veiðiheimilda.

Ég hef litla samúð með þeim sem göslast í að gera út kvótalaust með því að leigja til sín heimildir á uppsprengdu verði.  Allt liggur þetta fyrir þegar lagt er af stað og því ákvörðun þessara manna sjálfra.  Hvort sem það eru útgerðarmenn eða sjómenn sem ráða sig í slíkt pláss.  Þetta er takmörkuð auðlind og því verður alltaf takmarkaður aðgangur að henni.  Þeir hæfustu munu halda velli og það er grundvöllurinn af þessu öllu.


Nýjársdagur

Í dag er nýjársdagur árið 2547.  Þetta er ein mesta hátíð ársins á Sri Lanka og gefið frí á mörgum vinnustöðum upp undir viku.  Félagar mínir í rannsóknarstofnun sjávarútvegsins eru í viku fríi en við hjá ICEIDA gefum aukafrí á morgun, mánudag.  Tímann nota ég í meistararitgerðina og sit sveittur frá morgni til kvölds við lestur og skriftir.

Ég stóð þó upp um ellefu leitið í morgun og skrapp á goflvöllinn.  Ég var alveg dolfallinn þegar ég ók upp úr kjallaranaum heima og kom á auðar göturnar.  Engin umferð og meira að segja slökkt á umferðarljósunum.   Varla maður á ferlin nema einstaka hópar að spila krikket á götunum.  Þetta var notaleg sýn á Colombo.  Ég prufaði meira að segja að sveigja bílnum á hægri kantinn til að þóknast litla heilanum, en hér er vinstri umferð.

Ég var að hugsa hvor ég ætti að strengja nýjársheit?   


Fiskveiðistjórnunarkerfið

Umræðan

Umræða um fiskveiðistjórnunina hefur verið mikil undanfarna áratugi en þó ekki alltaf með fræðilegum röklegum hætti, allavega í fjölmiðlum.  Hér skal gerð tilraun til að setja málið fram með þeim hætti að skapa megi faglega umræðu um þetta mikla hagsmunamál Íslendinga.

Rányrkja

Fræðimenn hafa komið sér upp hugtökum til að lýsa umhverfi fiskveiðistjórnunar og til að skapa grunn af fræðilegri umfjöllun um sviðið.  Í fyrsta lagið ber að nefna hagfræðilega rányrkju fiskimiða sem notuð er um veiði þar sem kostnaður fer fram úr tekjum af veiðunum.  Líffræðileg rányrkja er hinsvegar veiði sem gengur á stofna og að lokum stuðlar að hruni þeirra.  Þetta eru sjálfstæð fyrirbæri sem geta farið saman eða skilist að þar sem TAC (total allowable catces - leyfður heildarafli) er hægt að ná án þess að það sé hagkvæmt.  Heildartakmark fiskveiðistjórnunar er hinsvegar að hámarka fiskveiðiarð til langs tíma litið, og þar af leiðandi að ganga ekki of nærri fiskistofnum. 

Fiskveiðistjórnunin

Fiskveiðistjórnun er flókið fyrirbæri þar sem margir þættir koma saman.  Fyrirbærið tengist ráðleggingum Hafró um hámarksalfa, ákvörðun stjórnvalda er byggð á ráðgjöfinni, lokun veiðisvæða, reglur um notkun veiðafæra, landhelgi, kvótakerfi, eftirlit Fiskistofu og Landhelgisgæslunnar ásamt ýmsum reglum um t.d. útflutning á fiski.  Til að ræða þessi mál er nauðsynlegt að skilja umræðuna í sundur og ræða hvert atriði fyrir sig.  Því miður hefur oft farið lítið fyrir því og umfjöllunin oft snúist um upphrópanir og lýðskrum þar sem þessu er öllu hrært saman í einn graut.

Hafró

Ráðleggingar Hafró eru byggðar á lífræði og koma sem slíkar pólitík ekkert við.  Það er nauðsynlegt að halda upp öflugri umræðu um stofnunina og verk hennar, en það hefur t.d. ekkert með kvótakerfið að gera. 

Stjórnvöld

Ákvörðun stjórnvalda um hámarkskvóta og reglusetning á veiðum er hinsvegar litað pólitík.  Eðlilega þar sem stjórnmálamaðurinn þarf að taka tillit til fleiri sjónarmiða en vísindalegra.  Hann getur þurft að ganga gegn þjóðarhag til að tryggja afkomu smærri byggðalaga, eins og reynt er að gera með byggðakvóta.  Þar takast á hagkvæmni og réttlæti, en margar reglur sem ganga út á réttlæti draga úr hagkvæmni.

Lokun veiðisvæða og aðgengi að landhelgi

Framkvæmdavaldið setur reglur um lokun veiðisvæða, aðgengi að landhelgi og notkun veiðifæra.  Þarna togast á sömu kraftar þar sem litið er til hagkvæmni til að tryggja rétta nýtingu auðlindar á sama tíma og réttlætishugtakið skýtur oftar en ekki upp kollinum.  Endalaus átök eru um veiðar á smáfiski á Vestfjarðamiðum og veiðar á hrygningafiski fyrir suðurlandi.  Slíkt er eðlilegt þar sem um greinilega hagsmunaárekstra milli aðila er að ræða.

Kvótakerfið

Kvótakerfið hefur verið notað á Íslandi síðan árið 1984.  Haustið 1983 stóð sjávarútvegurinn frammi fyrir miklum vanda.  Þorskstofninn var í mikilli lægð eftir rányrkju fyrri ára og hallarekstur var gríðarlegur.  Fiskveiðiflotinn var allt of stór og langt umfram veiðiþol fiskistofna.  Þetta kom meðal annars til af afskiptum stjórnvalda, s.s. skuttogaravæðingu landsins, sem sennilega er ein mestu mistök sem gerð hafa verið í fiskveiðimálum Íslendinga.  Ríkið bætti svo betur um þar sem það lét byggja fjóra nýja togara sem síðar voru seldir hæstbjóðendum.  Þetta var gert til að bjarga tilteknum skipasmíðastöðvum og var gert fyrir atbeina þá verandi iðnaðarráðherra. 

Kvótakerfið var því sett á sem hagstjórnartæki til að tryggja fiskveiðiarð með því minnka fiskiskipaflotann og tryggja framleiðni í greininni.  Vandamálið var aldrei að ákvarða hámarksafla enda hægt að gera það með mörgum aðferðum.  Fram að þeim tíma var búið að reyna ýmis kerfi eins og ,,skrapdagakerfið"  Myndin hér að neðan sýnir sókn (tonnaúthaldsdagar sem margveldi stærðar skipa í tonnum og fjölda úthaldsdaga) og flotastærð árin fyrir kvótasetningu meðan það kerfi var við líði.  Þessi vaxandi umfram afköst í veiðisókn jók á kostnað á sóknareiningu og dró úr arðsemi veiðanna, öllum til tjóns.

Línurit

 

 

 

 

 

 

 

Mynd 1 Samanburður á sókn og flota 1978 - 1983

Fræðileg skilgreining

Fræðimenn hafa skipt aðferðum fiskveiðistjórnunar upp í tvo megin hópa til að geta fjallað um hugtök og breytur sem þeim tengjast; bein stjórnun (command-and-control approach) og hvatningarstjórnun (incentive-based appoach) 

Bein stjórnun

,,Bein stjórnun" kemur sem skipun að ofan (top-botton - frá stjórnvöldum) og tækin sem notuð eru við stjórnun er hámarksafli, einstaklingskvóti sem ekki er framseljanlegur, draga úr afkastagetu (minni vélarstærð o.s.f.) og tímatakmarkanir (sóknarkerfi).  Slíkt kerfi er ágætt til að stjórna hámarksafla en afleitt þegar kemur að hagvæmni þar sem tenging við t.d. markaði er engin.  Ekki er gerlegt að aðlaga slíka stjórnun að þörfum markaðarins þar sem upplýsingar til stjórnvalda þyrftu að vera yfirþyrmandi til að hægt væri taka tillit til allra þátta.

Hvatningastjórnun

,,Hvatningastjórnun" hinsvegar stjórnast að neðan (down-up) þar sem þarfir markaðarins streyma inn og ákvarða viðbrögð veiðimanna.  Hvatningastjórnun byggir á eignarhaldi á nýtingu þar sem framseljanlegir kvótar (Individual Transferable Quatas - ITQs) eru í höndum útgerðaraðila.  Útgerðaaðili í Vestmannaeyjum sem vill hámarka ávinning sinn af veiðum með útflutning í gámum til Bretlands, þarf að geta treyst því að hann hafi umboð til að veiða það magn sem honum er úthlutað, hvenær sem hann kýs að gera það innan fiskveiðiársins.  Hann bíður því eftir heppilegu tækifæri og veiðir fiskinn og flytur út þegar von er á minna framboði annars staðar frá og verðin eru honum hagstæðust.  Einnig veitir þetta möguleika á langtíma samvinnu milli aðila í virðiskeðju til að afhenda vöru með stöðuleika, sem er sífellt mikilvægara í markaðsmálum.

Gott dæmi um þetta atriði er markaðurinn í Grimsby í Bretlandi.  Í rannsókn sem norskir vísindamenn gerðu á fiskmarkaðinum þar 2006 kom í ljós að Íslendingar höfðu nánast lagt hann undir sig.  Norðmenn höfðu farið halloka í viðskiptum á þessum mikilvæga markaði og hlutdeild þeirra sífellt minnkað.  Þegar ástæðu þessa var leitað kom í ljós að Norðmenn þóttu óáreiðanlegir í afhendingu á afla.  Stundum kom fiskur inn í gusum frá þeim sem gerði verðið mjög óstöðugt, en flestir aðilar á markaði sækjast eftir stöðuleika til langs tíma.  Ástæða var sú að vegna stjórnkerfis fiskveiða í Noregi er ekki gert ráð fyrir eignarhaldi á veiðirétti og því var harmleikur almenninga „Tragety of the Common" allsráðandi.  Hinsvegar báru kaupendur Íslendingum vel söguna og töldu þá afhenda vöru með öryggi og hægt að treysta framboði frá þeim.  Kaupendur höfðu því snúið sér til Íslendinga, og töldu réttlætanlegt að greiða hærra verð fyrir fisk þaðan en frá Noregi, vegna gæða þjónustunnar og aflans.

Framseljanlegir kvótar - ITQs

Margar rannsóknir hafa verið gerðar á ITQs í fiskveiðum og eru niðurstöður flestar á einn veg, að slík stjórnun komi í veg fyrir bæði líffræðilega- og hagfræðilega rányrkju fiskistofna.  Í bókinni „Primary Industries Facing Global Markets" eru tilteknar margar rannsóknir um allan heim sem benda til þessa.  Engar rannsóknir er að finna sem sýnir yfirburði ,,beinnar stjórnunar" og í niðurstöðu yfir kaflann sem fjallar um þessi mál er talað um að hún sé einmitt gagnrýnd fyrir að hafa mistekist sem stjórntæki, bæði við líffræðilega- og hagfræðilega þætti.

Í bókinni er jafnframt bent á annmarka ITQs, svo sem brottkasti, misnotkun á leiguheimildum og þar sem slíkt kerfi veldur búsifjum svæða, þó hagur samfélagsins í heild sé tryggður.  Einnig er minnst á mikilvægt atriði sem er hvernig fiskveiðiarðurinn dreifist meðal þjóðarinnar.  Hér erum við einmitt komin að atriðum sem erfitt hefur verið að ræða um þar sem öllu er blandað saman og ekki hægt að halda sig við hvern þátt fyrir sig.

Brottkast

Brottkast er mælt á Íslandi og hefur Hafró komið sér upp aðferðafræði til að fylgjast með umfangi þess frá togurum, línu- og netabátum.  Ég hvet alla til þess að kynna sér þetta áður en vaðið er út í umræðuna um þetta málefni.  Vitneskja sakar ekki fyrir þann sem leitar sannleikans, en þetta eru ekki mál til að ræða við Gróu á Leiti eða nota í pólitískum loddaraskap. 

Misnotkun á leiguheimildum

Misnotkun á leiguheimildum er örugglega staðreynd á Íslandi.  Rétt er að huga að aðferðum sem lágmarka það, án þess að valda greininni í heild tjóni með reglum sem koma í veg fyrir hagkvæmni.  Það er mjög mikilvægt að aðilar í sjáarútveg hafi tök á því að hámarka hag sinn á markaði, og leiga getur gert útslagið með slíkt.  Fyrr er nefnt dæmi frá Grimsby sem sýnir hversu mikilvægt er fyrir aðila á markaði að hafa sveigjanleika og frelsi til athafna.

Lýðfræðilegar breytingar

Mikil lýðfræðileg breyting hefur orðið á Íslandi undanfarna áratugi þar sem fólk flytur úr fámenni í stærri bæi.  Margir kenna kvótakerfinu um en slíkt byggir á veikum grunni.  Rétt er að benda á að þessar breytingar hafa  gengið yfir allan heiminn og undanfarin örfá ár hafa 500 milljónir manna flutt úr dreifbýli í þéttbýli í heiminum.  Fólk hefur flutt úr sveitum í borgir og smábæir hafa í sumum tilfellum lagst af vegna breytinga í umhverfi.  Ég las nýlega grein þar sem bent er á að landflutningar hafi gert mörg sjávarþorp óhagkvæm á Íslandi, þar sem skipaflutningar skiptu áður miklu máli.  Ef stjórnvöld hefðu ekki haldið við skipaflutningum með alls kyns niðurgreiðslum og eigin skiparekstri, hefðu þessi byggðarlög lent í ógöngum fyrr, jafnvel fyrir kvótakerfið. 

Landshlutabundin kvóti

Kvótakerfi sem bundið er við landshluta væri erfitt í framkvæmd.  Ekki þarf annað en minnast á samþykkt bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá mars 2008 þar sem skorað er á Sjávarútvegsráðuneytið að útdeila byggðarkvóta beint, og taka þennan beiska kaleik frá sveitarfélögunum.  Vilji menn ganga á hag almennings í landinu til að viðhalda byggð, verður að gera það fyrir opnum tjöldum og draga alla hluti fram í dagsljósið.  Pólitísk úthlutun á gæðum er aldrei til góða.  Þar er betra að notast við markaðinn, sem þrátt fyrir miskunnarleysi sitt, mismunar ekki aðilum og tryggir hagkvæmni. 

Skipting fiskveiðiarðs

Skipting fiskveiðiarðs milli landsmanna er mikilvægt atriði og á fullan rétt á sér í umræðunni.  Slíkt er hápólitískt mál og varðar alla íbúa landsins og taka verður tillit til þess að auðlindin er sameign þjóðarinnar.  Ég er ekki með lausn á því hvernig það er best tryggt en bendi hinsvegar á mikilvægi þess að sá arður sem til skipta kemur sé sem mestur.

Eftirlit með auðlindinni

Eftirlitsþáttur með settum lögum og reglum er algerlega nauðsynlegur.  Ekki er hægt að reka neins konar fiskveiðikerfi án þess að tryggja að farið sé eftir leikreglum.  Fiskistofa og Landhelgisgæslan eru eftirlitsaðilar með fiskveiðiauðlindinni. 

Lagt hefur verið álag á útflutning á gámafisk undanfarin ár, þar sem tíu prósent álag á kvóta hefur verið sett á fisk sem fluttur hefur verið út óunninn.  Gjaldið var fellt niður nýlega enda hæpið að refsa mönnum fyrir að selja fisk þangað sem besta verðið fæst fyrir hann.  Frumframleiðsla (primary processing) hefur í sumum tilfellum minnkað útflutningsverðmæti, þar sem eftirspurn eftir ferskum fiski er sífellt að aukast, og besta geymsluaðferðin er að vinna hann sem minnst.

Að lokum

Þetta er á engan veg tæmandi umræða um fiskveiðistjórnunina en aðeins tæpt á helstu atriðum.  Þetta er flókið mál og þarf að skoða frá mörgum sjónarhornum.  Aðal atriðið er þó að halda umræðunni á skipulögðum nótum og forðast alhæfingar og upphrópanir.  Heildarmyndin er flókin en verður skiljanlegri ef menn halda sig við skipulag í umræðunni.  Kvótakerfið sem slíkt ber oftar en ekki á góma en það er aðeins einn hluti af fiskveiðistjórnunarkerfi Íslands.


Ofbeldismenn

Ofbeldi bílstóra undanfarna daga hefur algerlega gengið fram af mér.  Þegar ég las um fyrirhugaðar aðgerðir fyrir framan Alþingishúsin á mbl í gær, var ég viss um að þetta væri lélegt aprílgabb.  Mér datt ekki í hug að þetta væri raunverulegt og menn ætluðu sér að sturta tuga tonnum af möl á torgið og síðan kæmu torfærujeppar og spóluðu í öllu saman.

Það má vera að bílstjórar hafi samúð með málstaðnum, en hún hlýtur að fara þverrandi meðal almennings.  Þó ekki sé nema vegna þeirra áhættu sem þeir valda samborgurum sínum og óþægindum.

Hvar eru nú allir snillingarnir sem töluðu um að losna við vörubílana af þjóðvegunum.  Þeir yllu svo miklum kostnaði, langt umfram það sem þeir greiddu, að notkun þeirra á vegum væri ekki réttlætanleg.  Ríkið ætti bara að endurvekja Ríkisskip og svo biðu menn eftir vorskipinu.

Dettur einhverjum í hug að þessir bílstjórar greiði fyrir eldsneytið?  Eðlilega velta þeir auknum kostnaði út í verðlagið og neytandinn borgar.  Þannig virkar þetta og áhyggjuefnið er hnattrænt þar sem olíumarkaðir gilda fyrir allan heiminn. 

Ég skoðaði  athugun sem gerð var í fyrra um tekjur ríkisins af vörubílum og átætluðum kostnaði sem þeir valda.  Vörubíll veldur kostnaði með sliti á þjóðvegum, mengun (staðbundið vandamál), losun gróðurhúsalofttegunda (hnattrænt vandamál), slysum og hávaða.  Allt er þetta kostnaður sem samfélagið verður fyrir með akstri vörubíla.  Tekjurnar koma inn í staðin í gegnum eldsneytisgjald, þungaskatt og virðisaukaskatt.  Tveir fyrrnefndu skattstofnar eru í krónutölu og breytast því ekki við olíuverðshækkun.  Vsk hinsvegar er tekin af nánast öllum vörum og þjónustu, undantekningar og mishár skattstofn, og því eru tekjur ríkisins ákveðnar af heildar neyslu í landinu.  Heildar summu er eytt þannig að ef minkar á einum stað þá eykst það annarsstaðar.  Ef vsk af eldsneyti væri einhliða lækkaður myndu neytendur eyða sem lækkuninni nemur í meira eldsneyti.  Þannig yrði ríkið af tekjum, sem er í sjálfu sér ágætt, ef sparnaður kæmi í staðin.  Til dæmis væri hægt að draga úr framkvæmdum í vegamálum eða þjónustu Vegagerðarinnar.

Þetta skilja ekki ofbeldismennirnir og halda því áfram að níðast á samborgurum og misnota mikilvæg lýðréttindi til ólöglegra mótmæla.  Mótmæli eiga hinsvegar að vera friðsamleg og að sjálfsögðu lögleg.  Umræddar aðgerðir eru hvorugt.


Ofbeldi vörubílstjóra

Þessar aðgerðir vörubílstjóra eru óþolandi.  Þarna eru menn að misnota lýðréttindi til að mótmæla á friðsaman hátt, rétt sem aðeins lítill hluti jarðarbúa hafa.  Nota ofbeldi og stofna meðborgurum sínum í stór hættu fyrir nú utan öll óþægindin sem fólk verður fyrir.

Ég hef fulla samúð með kröfu bílstjóra vegna reglusetninga um vökulög, þar sem taka á upp kerfi sem nauðsynlegt er út í Evrópu, þar sem menn eru að aka þúsundir kílómetra á hverjum legg.  Ísland er hreinlega ekki nógu stórt, landfræðilega, til að bera slíkar reglur.

Hinsvegar þegar kemur að eldsneytisverði er við einhvern annan að sakast en íslensk stjórnvöld.  Eldsneytisgjaldið er í krónutölu og hækkar því ekki við hærra olíuverð.  Það ætti að vera morgunljóst en ef menn eru að tala um virðisaukann, þá er það allt annað mál.  Ef hann væri lækkaður á eldsneyti myndi ríkið tapa þeim tekjum, þar sem ekki skiptir máli hvar virðisaukinn er tekinn.

Miklar umræður voru um landflutninga í fyrra og voru margir sem töluðu fyrir ríkisstyrktum sjóflutningum, þar sem landflutningar greiddu ekki fyrir þann kostnað sem þeir valda. 

Með lægri vsk og afnámi þungaskatts gætu tekjur af landflutningum orðið minni en kostnaður samfélagsins af þeim er.  Samkvæmt upplýsingum sem ég hef stendur það í járnum í dag að flutningabíll greiði þann kostnað sem hann veldur.  Í formi slits á vegum, mengunar (staðbundið vandamál) hávaða og öðrum óþægindum, slysum og útblæstri gróðurhúsaloftegnda (hnattrænt vandamál)

Það virðist vera af viðtölum við forystumenn þessara bílstjóra að ábyrgð þeirra og skilningur sé í lágmarki.  Ég vona að ekki þurfi að koma til stórslyss áður en almenningi verður nóg boðið af þessu ofbeldi.


mbl.is Margra kílómetra bílaröð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgerðir vörubílstjóra

Þessar aðgerðir vörubílstjóra eru óþolandi.  Þarna eru menn að misnota lýðréttindi til að mótmæla á friðsaman hátt, rétt sem aðeins lítill hluti jarðarbúa hafa.  Nota ofbeldi og stofna meðborgurum sínum í stór hættu fyrir nú utan öll óþægindin sem fólk verður fyrir.

Ég hef fulla samúð með kröfu bílstjóra vegna reglusetninga um vökulög, þar sem taka á upp kerfi sem nauðsynlegt er út í Evrópu, þar sem menn eru að aka þúsundir kílómetra á hverjum legg.  Ísland er hreinlega ekki nógu stór, landfræðilega, til að bera slíkar reglur.

Hinsvegar þegar kemur að eldsneytisverði er við einhvern annan að sakast en íslensk stjórnvöld.  Eldsneytisgjaldið er í krónutölu og hækkar því ekki við hærra olíuverð.  Það ætti að vera morgunljóst en ef menn eru að tala um virðisaukann, þá er það allt annað mál.  Ef hann væri lækkaður á eldsneyti myndi ríkið tapa þeim tekjum, þar sem ekki skiptir máli hvar virðisaukinn er tekinn.

Miklar umræður voru um landflutninga í fyrra og voru margir sem töluðu fyrir ríkisstyrktum sjóflutningum, þar sem landflutningar greiddu ekki fyrir þann kostnað sem þeir valda.  Með lægri vsk og afnámi þungaskatts gætu tekjur af landflutningum orðið minni en kostnaður samfélagsins af þeim er.  Samkvæmt upplýsingum sem ég hef stendur það í járnum í dag að flutningabíll greiði þann kostnað sem hann veldur.  Í formi slits á vegum, mengunar (staðbundið vandamál) hávaða og öðrum óþægindum, slysum og útblæstri gróðurhúsaloftegnda (hnattrænt vandamál)

Það virðist vera af viðtölum við forystumenn þessara bílstjóra að ábyrgð þeirra og skilningur sé í lágmarki.  Ég vona að ekki þurfi að koma til stórslyss áður en almenningi verður nóg boðið af þessu ofbeldi. 


mbl.is Mikill þátttaka í mótmælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 49
  • Frá upphafi: 283869

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband