Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Davíð og Seðlabankinn

 

Leitin að sökudólgunum er enn í fullum gangi.  Síðasta útspil seðlabankastjóra var áhrifamikið og sem fagmaður í pólitík fær Davíð 5 stjörnur fyrir þetta skemmtilega útspil.  Hinsvegar fær hann enga stjörnu sem seðlabankastjóri fyrir innleggið á morgunverðafundi Viðskiptaráðs.

Málið er að þetta gengur ekki upp hjá Davíð.  Í febrúar situr hann fund út í Bretlandi sem fær kalt vatn til að renna milli skils og hörunds á honum, vegna upplýsinga erlendra sérfræðinga á stöðu íslenska bankakerfisins og þeirrar ógnun sem hagkerfi landsins stafar vegna þess.  Í maí gefur hann út skýrslu þar sem bankakerfið fær fulla skoðun, að það standi traustum fótum og framtíð íslenska hagkerfisins sé mjög björt.  Í millitíðinni afnemur Seðlabankinn þá litlu bindiskyldu sem sett var á innlán bankakerfisins.

Seðlabankinn hafði öll vopn í hendi sér til að takast á við hættulegt ástand og sérstaklega Icesave reikninga Landsbankans.  Hann gat sett bindiskyldu á þessa reikninga, svona 20 til 50 % sem hefði komið í veg fyrir að þessi hættulegu skammtíma innlán færu úr böndunum.  Og koma í veg fyrir að Landsbankinn gæti lánað þessa peninga út svona 14 falt, því miður í frekar vafasöm útlán miðað við sögu síðustu vikna.

En Davíð stráði fræi efasemda á téðum fundi sem hefur orðið allri þjóðinni til umhugsunar.  Hann býr yfir vitneskju um hvað olli þeirri hörðu og afdrifaríku ákvörðun bresku ríkisstjórnarinnar að setja hryðjuverkalög á Íslendinga.  Eitt er víst að ef Davíð segist hafa þessar upplýsingar þá eru þær til og lúra tímabundið í hans höndum.

Orðið á götunni segir að viðskiptaráðherra hafi orðið svona hastarlega á í samskiptum sínum við Alexender Darling fjármálaráðherra Bretlands.  Þessi vitneskja hafi komið Davíðs hafi komið Samfylkingunni út í horn í þeirri refskák sem teflt hefur verið í kringum stöðu hans í Seðlabankanum.  En spurt verður að leikslokum í þessari spennandi þáttaröð: Hvar keypti Davíð ölið?

En það er nánast ógnvekjandi á þessum síðustu og verstu tímum að Seðlabankinn standi í stórpólitískum átökum í landinu, þar sem skotið er föstum skotum, meðal annars á ríkistjórn landsins.  Davíð verður að skilja að hans pólitíski ferill er liðinn þar sem hann gegnir nú starfi embættismanns.  Reyndar ætti hann að skilja sinn vitjunartíma og fara á þau ríflegu eftirlaun sem hans bíða eftir langan og farsælan stjórnmálaferil.  Davíð gerði góða hluti fyrir þjóðina en nú er mál að linni. 


Kosningar og ábyrgð

 

Loksins sér fyrir endann á Ice-save málinu og því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að gengið verði til samninga við IMF ásamt þeim aðilum sem hugsanlega vilja lána okkur það sem upp á vantar til að verja krónuna og skapa eðlileg utanríkisviðskipti.  Málið er að engin annar kostur er í stöðunni þó ekki verður fram hjá því litið að mikil áhætta fylgir þessum aðgerðum.  Innganga í ESB er síðan seinni tíma mál en bjartsýnustu ESB sinnar tala um að innganga gæti átt sér stað 2011, og þátttaka í myntbandalaginu í framhaldi af því.

Mikið er rætt um hugsanlegar kosningar en bloggari telur það ekki tímabært fyrr en þjóðin hefur náð áttum í þessum málum og öll kurl eru komin til grafar.  Hugsanlega mætti kjósa að vori en sennilega heppilegar næsta haust.  Þær kosningar myndu fara fram í erfiðu árferði á Íslandi, með miklu atvinnuleysi og versnandi kjörum almennings á Íslandi.  Alheimskreppan mun að sjálfsögðu hafa mikil áhrif á Ísland og hversu vel gengur að koma vindi í seglin og ná góðu skriði á ný.

Það er alveg ljóst að menn verða kallaðir til ábyrgðar í næstu kosningum, hvenær svo sem þær verða.  Þeir sem mesta ábyrgð bera verða að víkja og hleypa nýjum mönnum að.  Það eru einfaldlega nauðsynleg skilaboð til þjóðarinnar að menn beri pólitíska ábyrgð og skilji sinn vitjunartíma.

Hinsvegar stendur stefna Sjálfstæðisflokksins keik eftir þessar hremmingar og eins og hingað til mun það verða frelsi einstaklinga til athafna, innan skynsamlegs regluverks, ásamt aðgreiningu á reglusetningum og atvinnulífi í hagkerfinu.  Það má að sjálfsögðu kenna kapítalismanum um margt að því sem gerst hefur, enda er hann ekki fullkominn, en pólitíkusar bera þar mikla ábyrgð.  Kapítalisminn er öflugasta tækið til að keyra upp efnahag þjóðarinnar og bæta lífsgæði Íslendinga.

Ef þjóðin ætlar að snúa sér að sósíalisma vegna þess sem gerst hefur má líkja því við skip sem hefur öfluga aðalvél.  Vegna mistaka skipstjórnarmanna og vélstjóra eru vélarnar settar á fullt þannig að skipið nánast kafsiglir sig og liggur eftir hálfsokkið.  Eftir að búið er að bjarga skipinu frá glötun er byrjað að ræða um að skipta um yfirmenn á skipinu, enda bera þeir ábyrgð á því sem komið hefur fyrir.  En þá heyrast þau sjónarmið að skipta þurfi um vél í skipinu til að útiloka að þetta endurtaki sig.  Nú skal setja litla vél (sósíalisma) þannig að ekki verði hægt að ná skriði á skipið.  Því skuli siglt lötur hægt (lágmarka hagkerfið) þannig að engin möguleiki verði á kafsiglingu.  Aðrar raddir segja þetta hafi ekkert með stærð vélarinnar (kapítalismann) að gera heldur þurfi að koma á samskiptum milli brúar og vélarrúms og kerfum sem komi í veg fyrir glannaskap og aðra kafsiglingu.

Reyndar má segja að kreppur séu nauðsynlegar.  Án þeirra væri ekki sú tiltekt til staðar sem þeim fylgir.  Á Íslandi voru komir fjórir til fimm hópar sem allt áttu og öllu réðu.  Höfðu jafnfram fjölmiðlana á sínu valdi til að ráðskast með þjóðina.  Hikuðu ekki við að blanda sér í póltík og nota aflsmuni sína í formi fjármuna og tangarhaldi á fjórða valdinu til að koma sínu fram.  Kreppa er kvalarfull en gefur tækifæri til að lagfæra margt sem aflaga hefur farið hjá þjóð sem hafi týnt sér í mikilmennsku og hroka og taldi sig vera einstaka í heiminum.


Fiskveiðiarður

 

Bloggari átti þess kost að sitja ráðstefnu hér í Kampala þar sem meðal annars Prófessor Ragnar Árnason hélt fyrirlestur um fiskveiðiarð.  Í skoðunum sínum um fiskveiðimál hefur bloggari oft nefnt fiskveiðiarð sem megin tilgang fiskveiða og nauðsyn þess að fiskveiðistjórnunarkerfið stuðli að slíkum arði, oft kölluð ,,renta"

Í fyrirlestri sínum benti Ragnar á að tilgangur fiskveiða ætti ekki að vera; til skemmtunar, né til að skapa atvinnu eða vernda fiskistofna eða umhverfið.  Fiskveiðar ættu að vera eins hagkvæmar og kostur er og þannig; hámarka nettó ávinning, hámarka félagslega sóknarfæri sem myndu einmitt vernda fiskistofna og umhverfi.  Það segir að eðlileg og uppbyggileg nýtingu auðlindarinnar muni stuðla að fiskveiðiarði sem nýtist sem félagslegur ávinningur fyrir samfélagið.

Stjórnun fiskveiða þarf að taka til ,,harmleika almenninga" sem skapast vegna of mikillar sóknar í endurnýjanlega auðlind, eins og fiskveiðiauðlindin er.  Án markvissrar stjórnunar muni notendur ganga of nærri auðlindinni, þar til allur arður er horfin og endar að lokum með hruni stofna, veiða og samfélaga.

Helstu birtingamyndir slíkrar sóknar eru; of stór fiskveiðifloti, ofnýttir stofnar, léleg afkoma útgerða og sjómanna, lítil sem engin framlegð til GDP, ógnun við líffræðilega afkomu stofna og ógnun við byggðir og fjárhagsafkomu íbúa fiskveiðisamfélaga.

Hægt er að reikna út sókn í stofna þannig að hún skili hámarks arði (Maximum Sustainable Yield) en á bak við slíkt eru mjög flóknar stærðfræði formúlur og of langt mál að útskýra þær hér. 

Á myndinni hér að neðan má sjá línurit sem útskýrir hagkvæmni veiðar miðað við sókn í fiskistofna. Kúrfan sýnir feril tekna af veiðum sem hækkar fljótt með aukinn sókn þar til ákveðnu magni er náð og tekjur fara aftur þverrandi þar þess að fiskistofnar þola ekki sóknina.  Bogalínan sýnir kostnaðinn við veiðarnar sem er línuleg upp á við, þ.e.a.s. að aukin sókn kostar að sjálfsögðu meira.   MSY stendur fyrir það magn sem hámarkar fiskveiðiarð miðað við veiðar þar sem bilið milli tekna og kostnaðar er breiðast.  Þar sem tekju- og kostnaðarlínur skerast (CSY) fara allar tekjur í að greiða kostnað.  Eftir það er kostnaður orðin hærri en tekjur sem því miður er gert með ríkisstyrkjum.

New Image

Það eru einmitt líkur á að slíkar óarðbærar veiðar séu stundaðar víða um heim og hafa reikniglöggir menn fundið út að tjónið vegna of mikillar sóknar í fiskistofna í heiminum kunni að nema á bilinu 26 til 50 billjón US$, eftir því hvort miðað sé við 95% eða 90% öryggismörk. 

Íslenskir sjómenn hafa margir haldið því fram að þorstofninn við Ísland sé vannýttur.  En öllu líklegra er að góð veiði bendi til ábyrgrar sóknar og Íslendingar séu að nálagst sinn MSY punkt.  Málið er auðvitað að með veiðum nálægt MSY punktinn þá er afli mjög góður miðað við sóknareiningu, sem er einmitt ástæðan fyrir því að langt bil er á milli tekna og kostnaðar við slíkar aðstæður.  Þannig er hægt að hámarka fiskveiðiarðinn til góðs fyrir greinina, fiskveiðasamfélögin og þjóðina alla.


Ofbeldi og átök

Hvernig í ósköpunum getur ofbeldi og átök hjálpað til í stórhættulegu ástandi sem Íslenska þjóðin stendur frammi fyrir?  Hverju er þessi ofbeldismenn að mótmæla?  Ástandinu?  Er það að mótmæla kreppunni sem nú herjar á heimsbyggðina, eða bara þeim hluta sem snýr að Íslandi?  Eða er verið að mótmæla afleiðingum kreppunnar?

Það má líkja ástandinu á Íslandi við stríðsátök þar sem barist er fyrir framtíð ríkisins.  Aldrei hefur þjóðin þurft jafn mikið á samstöðu að halda og nú.  Svona mótmæli eru ekki til þess fallin að hjálpa til við þau gríðarlega mikilvægu verkefni sem landsstjórnin stendur frammi fyrir að leysa.  Ég hef áhyggjur af samningum okkar við IMF og afstöðu Breta og Hollendinga til þeirrar líflínu sem við þurfum frá alþjóðasamfélaginu.  Koma krónunni á flot og styrkja hana til að lækka verðbólgu þangað til önnur ráð gefast.  Það er ekkert val um þá hluti í dag og þó við viljum taka upp evru þá þurfum við krónuna í millitíðinni.  Staða Íslendinga stendur og fellur með því að þetta takist og stjórnvöld eru að reyna allt sem í þeirra valdi stendur til að svo megi verða.

Það verður nægur tími til uppgjörs.  Við lifum í lýðræðisríki þar sem borgarar hafa kosningarétt og þeir geta gert það sem þeim hugnast í næstu kosningum.  Þangað til munu hlutirnir skýrast og auðveldara verður fyrir fólk að gera það upp við sig hverjum eða hverju er um að kenna.  Hvort fólk vilji hafa núverandi stjórnmálaflokka við völd eða ekki.  En nú þurfum við að standa saman sem aldrei fyrr.  Nota hvern skjöld og hvert sverð fyrir sameiginlegri baráttu okkar Íslendinga.  Ekki að sundra þjóðinni með ofbeldi og átökum.


mbl.is Mótmæli á Austurvelli í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagdraumar kommans

 

Fyrrverandi bæjarstjóri Bolungarvíkur, Grímur Atlason, fór mikinn í bloggfærslu sinni í lok síðustu viku.  Ef rétt er munað talaði hann um að frjálshyggjumenn létu fara lítið fyrir sér þessa dagana enda hefði stefna þeirra og kapítalisminn beðið skipsbrot.  Það hlakkaði í kauða enda sér hann fyrir sér útópíu sósíalismans í hillingu, taka yfir eftir sjálfseyðingu þeirra afla sem lagt hafi heims-hagkerfið í rúst.

Bloggari var að velta fyrir sér að spyrna umsvifalaust við fótum og upplýsa bæjarstjórann fyrrverandi um að engan bilbug væri að finna á stefnu og skoðunum bloggara, þrátt fyrir atburði síðasta mánaðar.  En bloggara hugnaðist ekki að ganga í þann félagskap sem lagt höfðu inn athugasemdir við umrædda grein, og var þar leiðum að líkjast.  Bæði var málflutningur höfundar ásamt þeim sem undir  tóku fullur af stóryrðum, upphrópunum og klisjum, en minna fór fyrir rökum og þekkingu.  Ef menn vilja slá um sig hugtökum er lágmark að þeir skilji fyrir hvað þau standa.  Bloggari stór efast um að þessir menn viti hvað kapítalismi stendur fyrir og hvað þá frjálshyggja.  Hvortveggja er vel skilgreint í fræðunum og hægt að gera kröfu til þeirra sem vilja gera sig gildandi með notkun þeirra að kynna sér hvað þau standa fyrir.

Atburðir síðasta mánaðar er enginn bautasteinn yfir kapítalisma eða frjálshyggju.  Hagsveiflur eru ekki bara óumflýjanlegar, heldur nauðsynlegar að áliti margra merkra hagfræðinga.  Reyndar eru hagsveiflur afleiður af kapítalsisma, einkaframtaki og frjálshyggju. En það virkar í báðar áttir, bæði upp og niðursveiflu, enda eru framfarir forsenda þessara afla.  Ef menn vilja finna hagkerfi í heiminum sem er laus við hagsveiflur kemur Norður Kórea og Kúba upp í hugann.  Þar eru engar slíkar enda er hagkerfið og íbúar þessara ríkja við hungurmörk, nánast upp til hópa.  Hvaða ríki eru þá þessi útópía sem bæjarstjórinn fyrrverandi horfir til?  Ekki er það Svíþjóð eða önnur norðurlönd, enda hafa öll þau ríki byggt um velmegun og ríkidæmi með þeirri hugmyndafræði sem um er rætt.  Skandinavía fór í gegnum alvarlega bankakreppu í byrjun tíunda áratug síðustu aldar og eru í alvarlegum vandræðum í dag.  Danir njóta björgunar Evrópusambandsins sem styður dönsku krónuna, hvað sem það kostar þessa dagana.

Það skyldi þó ekki vera Norður Kórea og Kúba sem Grímur og félagar hans horfa til?  Ef þeir vilja hafna kapítalisma, einkaframtaki og frjálshyggju er ekki um mjög mörg önnur ríki að ræða, nema helst í hinum múslímska heimi.  Þar hafa trúarkreddur komið í stað þessara uppbyggjandi hugmyndafræða.  Og þeir sem hafa lesið hagfræði síðustu alda vita að það var einmitt kapítalismi og frjálsræði sem skópu þá velmegun sem ríkt hefur meðal íbúa vesturlanda undanfarna áratugi.  Fyrir þann tíma var hefðarhyggja ráðandi í Evrópu þar sem fátæklingar lutu valdi höfðingja, sem allra náðasamlegast sáu þeim fyrir helstu lífsnauðynjum.  En þó ekki meira en svo að talið var nauðsynlegt að svelta þá til hlýðni. Áður en lýðræði með frjálsræði og almennri velmegun kom til tóku Konungar vald sitt frá guði og höfðingjarnir frá kónginum.  Hvaðan herrarnir í Norður Kóreu og Kúbu taka vald sitt er ekki gott að segja en grunnurinn er ekki langt frá því sem tíðkaðist á fimmtándu öld í Evrópu.

Á síðustu öld var gerð stærsta tilraun mannkynssögunnar þegar kommúnismi var prófaður í nokkra áratugi.  Íbúum þeirra ríkja til mikilla hörmunga, og flest þessi ríki hafa nú snúið við blaðinu og hvað skyldu ríkin eins og Kína og Víetnam nota í dag?  Það skyldi þó ekki vera hugmyndir Adam Smith um einstaklingsframtak of kapítalisma.  Þeir sleppa að vísu lýðræðinu en ágætlega gengur samt að byggja upp efnahagslega velsæld, allavega fyrir útvalin hóp manna.

Kapítalisminn er ekki fullkominn, kannski sem betur fer.  Það er með hann eins og lýðræðið að það besta við hann er hversu ófullkomið hann er.  Flestir merkustu hagfræðingar síðustu aldar höfðu mestar áhyggjur af því að kapítalisminn myndi tortíma sér, ekki af því hann væri svo ómögulegur, heldur vegna þess hversu vel hann virkaði.  Reyndar taldi John Maynard Keynes, áhrifamesti hagfræðingur síðustu aldar, að hann væri að bjarga auðhyggjunni frá tortímingu með því að benda á aukið mikilvægi ríkisumsvifa.  En sá hagfræðingur sem mest áhrif hafði á umræðu um hagsveiflur var Austurríkismaðurinn Scumpeter.  Hugmyndir hans um hagsveiflur og orsökum þeirra voru mjög ólíkar hugmyndum Keynes.  Scumpeter var hugmyndaríkur íhaldssamur hagfræðingur með rómantískar skoðanir á framtíð hagvaxtar og kapítalismans.  Hann taldi reyndar að kapítalisminn myndi líða undir lok, en ólíkt skoðunum Karl Marx sem taldi að hann myndi tortíma sér vegna galla, að það yrði vegna velgengni auðhyggju og kosta sem fjármagnshyggjan hafði og frjálshyggjan myndi líða undir lok vegna þess.  Afskipti ríkisstjórna yrðu meiri og meiri og áhrif stjórnmálamanna aukast sem myndi koma í veg fyrir að frumkvöðlar fengju þrifist til að viðhalda drifkrafti atvinnulífsins.

Það er nákvæmlega það sem bloggari óttast að muni gerast eftir þessa djúpu lægð í hagsveiflu dagsins í dag.  Að í kjölfarið muni stjórnmálamenn sannfæra almenning um nauðsyn þess að þeir axli aukna ábyrgð með meira valdi og áhrif þeirra verði meiri í framtíðinni, á kostnað hins frjálsa hagkerfis.  Þegar má sjá þetta gerast í Bretaveldi þar sem Gordon Brown hefur tekið tuga milljarða punda að láni frá olíuríkjum og Kína til að auka vægi ríkisins í hagkerfinu.  Byggja svo sem tvö flugmóðurskip og dreifa fjármunum til valdra einstaklinga í nafni uppbyggingar á litlum og meðalstórum fyrirtækjum.  Það er ekki fyrsti spádómur Scumpeters sem rætist í þessari birtingarmynd hagfræði dagsins í dag.


Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 283871

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 45
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband