Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Skrímsli á Hornströndum

gurka

Í gúrkutíð

Í þeirri gúrkutíð sem landsmenn upplifa þessa dagana tel ég nauðsynlegt að leggja svolítið  til skrímslamála. Nú er einmitt tími Hornstrandaferða og nauðsynlegt að ferðamenn sem þangað ætla, þekki og kunni að varast hættulegustu skepnur sem þar kunn að leynast.

Fólki er ráðlagt að taka þetta alvarlega og læra þá skyldhjálp sem nauðsynleg er. Engar merkingar eru á staðnum til að vara við þessum skepnum, sem er auðvitað forkastanlegt. Sérstaklega í ljósi þess að ekki er GSM samband á Hornströndum.

 

Nennir

Nenni svipaði mjög til venjulegs hests, gráleitur en þó sögðu menn að hann skipti lit og væri stundum móálóttur.  Hófarnir snéru aftur og hann hafði kýrhala í stað tagls, en illt gat verið að koma auga á það. 

Nennir hélt sig ávallt nálægt vatni og einn bjó lengi í Staðarvatni við Sæból.  Hann sást sjaldan með öðrum hrossum en ef svo bar til stóð hann ætið vatnsmegin við stóðið.  Ef gerður var róðukross yfir stóðið þá stökk hann í vatnið og ef menn voru snöggir til, mátti sjá á granir hans í vatnsskorpunni. 

Hann sást aldrei að vetri til en var oft á ferðinni á haustin eftir að dimma tók.  Einkum varð hans vart á svæðinu frá Fannadal, framan Staðar, og inn að svokölluðum Hundamúlum.  En þetta var á almannaleið milli Hesteyrar og Aðalvíkur.  Oft kom það fyrir að smalar týndust á þessu slóðum og fundust hvergi þó þeirra væri leitað.  Saga er til um grasafólk sem lét glepjast af nennir skammt frá Sléttu.  Þegar komið var fram á kvöld og fólkið ætlaði að fara að tygja sig heim, gerði svo dimma þoku að erfitt var að rata.  Varð einhverjum að orði að gott væri ef hann " Prest gráni" væri nú komin, því auðvelt myndi honum að komast heim.

Viti menn stendur ekki grár hestur við hlið þeirra og voru þau ekki lengi að drífa sig á bak.  Bakið var mjúkt sem dúnkoddi og en ekki sá fólkið á hófana þar sem hesturinn stóð í aurbleytu upp fyrir hófa.  En þegar hann lyfti einum fætinum sá einn þeirra sem á bak var komin að hófarnir snéru öfugt og hrópaði upp fyrir sig.  "Guð minn góður, þetta er nennir".  Sem hann heyrir nafn sitt tekur hann á stökk og var sem fólkið væri límt við bakið á honum, en þó tókst öllum nema tveimur að losa sig af.  Skipti engum togum að nennirinn hvarf með pilt og stúlku en restin af hópnum kom skelfingu lostin heim seint um kvöldið að Sléttu.  Aldrei spurðist til þeirra tveggja sem nenninum fylgdu en þó fannst skúfhólkur með fangamarki stúlkunnar við Teistavatn löngu seinna, og vissu menn þá að þeim hafði verið drekkt þar en ekki í Staðarvatni.

 

Fjörulalli:

HornstrandirAllt fram að miðri 19. öld urðu menn á Hesteyrir mikið varir við einkennilega ófreskju sem kom úr sjónum.  Þetta var fjörulalli.

Fjörulalli var á stærð við meðalmann, einfættur og einhentur með eitt auga á miðju enni.  Hann sótti mikið á að hrekja menn og skepnur í sjóinn, en ekki mátti hann missa sjónar á sjónum.  Hyrfi honum sjórinn, átti hann að missa allan mátt en væri honum vatn nálægt var trú manna að hann hlypi í það og yrði að nykri, og úr því ásigkomulagi kæmist hann aldrei.

Oftast sást fjörulalli á Hesteyri í hafvestanhvassviðri að haust- og vetrarlagi, og þá helst á svæðinu frá svonefndum Hreggnasa út af Kálfshamarsparti.  Oft sást hann á svæði því, er Auðnir nefnast, þar sem Hesteyrarkirkja stóð, áður en hún var flutt til Súðavíkur.  Mest bar á ferðum hans undan og eftir sjóslysum á Jökulfjörðum.

Lenti maður í fjörulalla var ráð að hleypa honum aldrei landmegin við sig og halda honum til sjávar.  Annars hrakti hann mann umsvifalaust í sjóinn.  Vörn var að snúa ætíð hægri hlið að óvættinni og banda gegn henni með hægri hendi, sem menn signa sig með.  Væri fjörulallinn ekki kominn lengra en þrjú skref landmegin við manninn, var óbrigðult ráð að gera róðukross með þrem fingrum hægri handar beint á einglyrnuna.

 

Einfótungur:

SkrímslÁ Kistufelli við Hesteyri er talið að ófreskja hafi búið sem kölluð var einfótungur.  Óvættur þessi hafði drepið margan ferðalanginn sem leið átti inn Hesteyrarfjörð.  Fundust menn stundum illa útleiknir, brotnir og kramdir og augljóst að þeir höfðu lent í klónum á miklum óvætti.

Einfótungur var eins og nafnið bendir til, með einn fót og sáust fótspor hans oft, á stærð við kerald, og minnti höfuðið á hestshaus.

Bóndi nokkur er Jón hét og var frægur m.a. fyrir að drepa bjarndýr, með hníf einan að vopni, átti eitt sinn leið á Kistufell til að leita ásauða.  Hann var hreystimenni mikið og kunni ekki að hræðast.  Þegar Jón skilaði sér ekki var hafin leit að honum og sáust glögglega merki mikilla átaka á fjallinu.  Fundu menn Jón örendann, en föt hans voru alblóðug og sundurrifin og var hann marinn og kramin til dauða.

Skammt þar frá fundust spor eftir einfótunginn, alblóðug og lágu til fjalls.  Ekki urðu menn varir við einfótunginn síðan og var talið víst að Jón hefði gengið að honum dauðum.

 


Ferð á Drangajökul

Lagt af staðÉg hef ekki verið mönnum sinnandi í nokkur ár vegna ókláraðs afreks. Allt frá því að kunningi minn, Jón Páll Halldórsson, sagði mér að hann hefði sofið í snjóhúsi uppi á Drangajökli, hefur mér fundist ég ekki vera maður með mönnum. En um síðustu helgi fékk ég uppreisn æru og er nú kominn í hetjuklúbbinn.

Það er gott að eiga góða vini sem eru til í að fylgja manni á heimsenda í ævintýraleit. Við vorum þrenn hjón sem lögðum í hann upp úr Kaldalóni síðdegis 22. júní áleiðis á Drangajökul og skyldi nóttinni eytt á jöklinum enda veðurútlit gott.  Áður en bílstjórarnir, sem óku okkur inn í Lón, voru kvaddir var það mitt síðasta verk að taka tjaldið úr bakpokanum og henda því inn í bíl. Tjaldið var óþarft og í þetta sinn skyldi treyst á snjóhús fyrir náttstað.

Það var hæg vestlæg gola og 16° hiti með glampandi sól þegar hópurinn lagði af stað fram Kaldalón með skíðin bundin á bakpokana. Í 200 m hæð vorum við komin í snjólínu og skíðin sett undir. Fyrst stefnt í norður en fljótlega tekin stefnan á Hrolleifsborg með GPS tækinu. Ekkert kennileiti er á leiðinni upp og aðeins jökulbrúnin sem ber við himin. Engin misfella á jökulbrúninni þó greina megi Jökulbungu norðan við stefnuna. Endalaus aflíðandi brekkan en fjarlægð í borgina frá snjórönd er 8 km.

JökulsprungaÞegar stutt er eftir upp á austurbrún jökulsins kemur Hrolleifsborg í ljós og nær ber Reyðarbunga við hana. Í glampandi sól og hægri norðan golu var ákveðið að setja upp búðir við Reyðarbungu. Félagar mínir slógu upp tjöldum en ég gróf grunna holu sem rúmaði tvo, mig og konuna. Snjórinn var ómögulegur til snjóhúsagerðar og þá var bara að láta slag standa og sofa undir berum himni.

Eftir ljúffengan kvöldverð var lagt af stað upp á Hrolleifsborg á skíðum. Útsýnið var ótrúlegt enda himinn skafheiður og kvöldsólin hátt á lofti í rúmlega 800 metra hæð.

Þegar ég sat þarna á Hrolleifsborg og komið fram undir miðnætti og horfði á sólina í norðri og skuggann falla til suðurs, varð mér hugsað til staðar hinu megin á hnettinum. Kamchatka í Rússlandi þar sem ég bjó í tæpt ár frá 1995 til1996. Um þetta leiti var komið fram undir hádegi hjá íbúum þar og sólin í suðri eins og vera ber. Hún nær bara að skína yfir norðurheimskautið og alla leið á Hrolleifsborg um jónsmessu á Íslandi.

Það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég fór síðustu ferðina frá Petropavlosk áleiðis til Seattle í BNA, á leið minni til nýrra heimkynna í Mexíkó. Ég lagði af stað fljúgandi frá Kamchatka klukkan fimm í eftirmiðdaginn á föstudegi með þotu og stefndi í austur. Þennan sama dag klukkan fjögur um nóttina millilentum við í Anchorage í Alaska og síðar þennan sama dag og ferðin hófst, klukkan sex um morguninn, lenti ég í Seattle. Ég lenti sem sagt 11 tímum áður en ég lagði af stað og fékk því að upplifa þennan föstudag tvisvar. Galdurinn við þetta er að fljúga yfir daglínu eitt sem liggur austur undan ströndum Kamchatka þar sem hver nýr dagur hefst á jörðinni.

Við HrollleifsborgÞað var komið hjarn við holuna góðu þegar við komum í náttstað enda var hún í skugga af  Reyðarbungu. Þokuslæða læddist upp jökulinn og sló kynngimagnaðri birtu á umhverfið þar sem Borgin gnæfði yfir okkur. En svefnpokinn var notalegur og hlýr og ekki væsti um okkur á jöklinum þessa nótt. Sólin hafði svifið 90° yfir svefnstaðnum um himinhvolfið meðan við sváfum og hlýir geislar hennar yljuðu andlitið í morgunsárið. Ég ætlaði ekki að tíma að fara á fætur um morguninn, það var svo notalegt í holunni góðu.

Hafragrauturinn var eldaður og kaffi á eftir. Herramaðurinn færði konu sinni hressinguna í rúmið. Og nú var lagt af stað í norður yfir Jökulbungu sem er hæsti punktur Drangajökuls, 925 metrar yfir sjávarmáli. Ferðinni var heitið í heimsókn til vina okkar í Leirufirði, Sólbergs og Lucy.

NáttstaðurinnEnn var sól og blíða en vindur hafði snúist í suð- austur. Þegar toppnum var náð tók við þægilegt rennsli niður í Leirufjörð og farið vel norður fyrir skriðjökulinn. Hádegisverður var snæddur við jökulrönd og síðan haldið af stað fótgangandi niður í Leiru. Hitinn var kominn í 15° og sjónarveisla hvert sem litið var yfir jökulinn og Leirufjörð. Við slíkar aðstæður er gengið hægt og augnabliksins notið. Við stoppuðum við fyrsta lyngholt og tókum síestu (hádegislúr) í hálftíma. Þetta er lífið eins og það gerist best. Engir peningar eða lúxus í veröldinni jafnast á við slíka göngu í góðra vina hópi, dásamlegu sumarveðri og óviðjafnanlegri náttúru Íslands.

Sólberg og Lucy áttu von á okkur að Leiru og voru gestgjafar okkar fram á sunnudag. Það var alveg á hreinu og skilaboðin voru að taka engar vistir með okkur í þessa heimsókn. Og þvílíkt og annað eins, borðin svignuðu undan veigunum. Ásgeir Sólbergsson sá um grillið og enginn kokkur norðan Alpafjalla hefði töfrað fram betri steik, og ekki spilltu allar sögurnar á meðan eldamennskan stóð yfir. Þetta voru góðar stundir á Leiru. Í dagrenningu beið okkar morgunverður eftir góðan nætursvefn og hádegissnarl í framhaldi af  því.

Á HrolleifsborgGestgjafar okkar sáu síðan um að skutla okkur um borð í  m/b Sirrý sem sótti okkur á flóðinu upp úr nónbili. Eftir smá björgunarleiðangur við Dynjanda þar sem við tókum bilaðan bát í tog, var haldið til Bolungarvíkur.


Álfar

HulfufólkÍ morgun var tækifærið til að ná sambandi við álfa (huldufólk) um leið og maður velti sér upp úr dögginni. Jónsmessan og nýjársnótt er tími álfanna og reyndar trölla líka. Hér eru nokkrar sögur af álfum sem ég hef tekið saman en seinna koma tröll og ýmis aðrar forynjur.

 Fyrir tíma velmegunar þjóðarinnar með búsetu í lélegum húskynnum og óvissu um hvort matur dygði fram yfir þorra, hefur fólk búið sér til annan heim til hliðar við þann raunverulega, sem oft var gleðisnauður og erfiður.  Það er ekki tilviljun að á Hornströndum voru mestu álfakonungar þess lands, enda lífsbaráttan harðari en víðast hvar annarstaðar við stutt sumar með stöðugum óþerra sem kom í veg fyrir að hægt væri að þurrka hey til vetrarins sem fóður fyrir skepnurnar. Hvergi voru konungsríkin glæsilegri né ríkidæmið meira.  Sennilega í réttu hlutfalli við eymd raunheima og þann ótta og óvissu sem íbúar svæðisins bjuggu við.  Norður undir Dunshafi, örskammt frá heimskautsbaugi er myrkrið hvergi svartara né dagarnir styttri yfir vetrarmánuðina.  Við lélega lýsingu frá lýsislömpum sem gerðu alla vinnu ómögulega í hálfrökkri og þar til komið var myrkur og ljósatýra lampans dugði til að sjá til verka.  Þannig urðu til rökkursögur til þegar börnin fundu ekki frið til að sofa um miðjan daginn og töldu þá afa eða ömmu á að segja sögur.  Við þessar aðstæður hafa sjálfsagt orðið til margar sögur um álfa, tröll og aðrar forynjur.  Greyptust inn í huga ungdómsins og viðhéldu trúnni á hið yfirnáttúrulega.  Eins og margir óttuðust þessar verur var jafnframt gott að geta trúað á góðsemd álfa sem lögðu þurfandi fólki hjálparhönd þegar mest á reyndi.

Álfkonan í Álfsfelli

Ein slík álfkona bjó í Álfsfelli milli Kjaransvíkur og Hlöðuvíkur og hét Ásdís.  Hún hjálpaði mennskum mönnum þegar mest á reyndi.  Konum í barnsnauð og mönnum við að draga björg í bú.  Sagði til um reka og veiði og drýgði þann mat sem til var og dugði oft tveggja daga forði í hálfan mánuð. 

Ásdís ættleiddi tvö börn, dreng og stúlku, sem síðar urðu tengdabörn hennar.  Til tólf ára aldurs máttu þau heimsækja ættingja sína og færa þeim gjafir a aðfangadag.  Á Jónsmessu gátu þau orðið sýnileg, en urðu að hverfa áður en síðasti sólargeislinn sást við hafsbrún.

Um átján ára aldur urðu þau að kveðja mannheima í síðasta sinn og gátu ekki haft samband við mennska ættingja sína eftir það.  Áður fékk þó drengurinn leyfi til að segja móður sinni undan og ofan af því sem á daga þeirra hafði drifið í hulduheimum. 

Léku þau sér með systkinum sínum þó þau sæjust ekki.  Hann hafði ferðast um víðan heim, Kína og Indlands með fögrum fleyjum er kölluðust Hörpuskip.  Skip þessi voru gulli slegin og svifu yfir hæstu öldutoppum þó fellibyljir og stórviðri geisuðu.  Leiðistjarna þeirra skein skírt, hvernig sem viðraði og því lítill vandi að rata.  Hafði drengurinn heimsótt kónga og fyrirfólk úr álfheimum í framandi löndum og þegið dýrar gjafir. 

Þessi stutta saga lýsir vel hvernig fólk hefur brugðist við erfiðleikum sínum og snúið því sem á móti blés í meðbyr.  Eflaust hafa börnin sem um getur orðið úti eða fallið í sjóinn og aldrei fundist.  Mun auðveldara var að trúa því að þau lifðu hamingjusöm meðal álfa en þau væru dáin.  Að trúa því að þau væru nálæg og jafnvel að fyndist fyrir nærveru þeirra á hátíðum eins og jólum og Jónsmessu.  Eins að í ótta sínum um að maturinn dygði ekki og hungrið vofði yfir að slík gæðakona eins og Ásdís vekti yfir þeim og sæi til þess að afkomunni væri borgið. 

En álfar gátu líka verið illskeyttir, sérstaklega ef gengið var á þeirra hlut.  Hefnigirni þerra var takmarkalaus ef á brotið var á þeim, en þó var fólk ávallt varað við gefið tækifæri til að breyta slíkum áætlunum.  Mikið var um að álfar ættu sér kletta eða steina sem þeir byggju í.  Eins voru hólar sem ekki mátti slá og segir frá því er Júlíus Geirmundsson sló álagablett í Fljóti, þvert gegn vilja álfa og sveitunga hans.  Aðeins tveimur dögum eftir sláttinn fótbrotnaði meri sem hann átti og sáu menn þar hefndina komna.  Ekki trúði Júlíus þessu en lét þó vera að slá blettinn aftur.

Álfkonan Garibalda

Önnur skemmtileg saga er til og þó hún gerist að Látrum, tengist hún Fljóti. 

Picture 035Fyrir ofan Ystabæ að Látrum er stór steinn.  Í honum búa álfar og fyrir kom að krakkar voru að leik við steininn, sem venjulega kom ekki að sök.  Það var þó eitt sinn að húsmóðurina, Þórunn Þorbergsdóttir, dreymir að huldukona kemur til hennar og segist hún heita Anita Garibalda.  Segir hún sonur Þórunnar hafi þá um daginn kastað snjóbolta í augað á syni sínum og hafi hann misst það.  Segist hún vita að Þórunn sé með barn undir belti sem sé meybarn og biður hana að skýra hana í höfuð sér og muni þá ekkert illt henda þrátt fyrir þetta.

Það stendur heima að hún eignast dóttir og er hún skírð Anita, sem síðar giftist Finnboga Jósepssyni en hún var oft heilsutæp.  Kenndi hún því um að móðir hennar hafi ekki að öllu leyti farið að beðni huldukonunnar og þegar þau eignast dóttur bætir hún fyrir betur og skýrir hana að fullu í höfuð huldukonunnar frá Ystabæ, Anitu Gariböldu, en bætir þó nafninu Finney framan við.  Þess má einnig geta að Anitubær í Fljóti dregur einnig nafn sitt af þessu atviki.

Þórunn Þorbergsdóttir átti Anítu Gariböldu átti síðan dóttir sem var skírð Finney Anita Garibalda.

Guðný Hermannsdóttir, ömmubarn Þórunnar dreymdi einu sinni dóttur huldukonunnar Anítu Gariböldu.  Þetta var í upphafi síðasta áratugar liðinnar aldar að Guðný var ásamt bræðrum sínum í Ystabæ að Látrum.  Var þá notast við tunnu til að brenna rusli í og lagði reykinn yfir steininn sem Garibalda hafði búið í.  Um nóttina dreymir Guðný að kona kemur til hennar og segist vera dóttir Anítu Gariböldu.  Segir hún að reykurinn úr tunnunni sé til mikilla óþæginda og biður hana að færa hana.  Morguninn eftir segir Guðný bræðrum sínum frá draumnum en þeir gerðu bara grín að henni og létu tunnuna vera.  Þegar líður á daginn og þau eru öll þrjú saman komin í kaffi í stofunni í Ystabæ og heyra þau þá mikið skrölt undir húsinu.  Enginn annar en þau voru á svæðinu og var þeim brugðið við skarkið.  Segir Guðný að hér sé huldukonan mætt til að minna á bónina.  Bræðrum hennar leist ekki meir en svo á þetta að þeir skutust út og færðu tunnuskömmina.  Um nóttina dreymir Guðný konuna aftur þar sem hún kemur og strýkur vanga hennar og breiðir síðan teppið ofan á hana.  Taldi hún þetta vera þakklæti fyrir umhyggjuna.  Síðan í lok aldarinnar hefur engin verið í steininum góða að sögn Guðnýjar sem ekki segist kunna svara við hvers vegna.  Hvort afkomendur Gariböldu hafa flutt sig um set eða hvaða ástæður gætu legið fyrir brottflutning fjölskyldunnar.

Draugur í Ólafshúsi

Þegar bygging Ystabæjar stóð yfir var búið í Ólafshúsi sem stendur þar skammt frá.  Karlmennirnir voru að flytja timbrið í land úr báti á víkinni en Guðný var ein heima að útbúa kaffi fyrir vinnuhópinn sem var væntanlegur heim á bæ.  Skyndilega heyrir hún skark úr herberginu við hliðina á stofunni og þegar hún lítur þar inn sér hún gamlan mann sitja hokin í stól og var hann að saxa tóbak á meðan hann réri sér í stólnum.  Hér var komin Hjálmar Ólafsson, sonur Ólafs sem húsið er kennt við


Tundurdufl í Hornvík

HornbjargHornvík

Kristinn S. Grímsson bjó með konu sinni, Guðnýju Halldórsdóttir, á Horni á fyrstu áratugum síðustu aldar. Þau áttu tvær dætur en engan son þegar Kristinn kemur að máli við Júlíus Geirmundsson í Fljóti þar sem honum vantaði yfirsetudreng  Stúlkur voru ekki notaðar til slíkra verka á þessum tíma en þetta var árið 1925. Guðmundur Snorri Júlíusson var þá níu ára sem þótti góður aldur til að gæta kinda og varð það úr að hann fór með Kristni að Horni.

Efni voru töluvert meiri á Horni en í Fljótavík þó enn væri torfbær á þessum árum. Kristinn byggði reyndar tvílyft timburhús sem flutt var í 1928 og var hann fyrstur ábúenda ásamtt Frímanni Stígssyni til smíða slíkt hús í Hornvík. Fljótlega eftir komu Snorra að Horni eignuðust þau hjónin, Kristinn og Guðný son sem skýrður var Magnús. Fjórbýlt var á Horni þegar Snorri kom þangað en þar bjuggu ásamt Kristni og Frímanni, Stígur og Jóhanna sem orðin var ekki þá. Sonur Stígs var Arnór, fæddur 1922, og ólst hann upp að Horni með Snorra og varð góður vinskapur með þeim alla tíð.  

 tundurduflTundurdufl í Hornvík

Á stríðsárunum rak mikið af tundurduflum á land á Ströndum. Duflin voru mikil ógn við sjómenn en sum þeirra sprungu í fjörunni og fundust oft sprengjubrot sem höfðu þeyttst langt upp á land.

Dag einn rak dufl fyrir utan bæinn á Horni og ákvað Kristinn að skoða gripinn og tók þá félaga Arnór og Snorra með sér í könnunarleiðangur. Duflið var óskemmt og neðan úr því hékk einhverskonar gormur sem festur var í lás, sem var búnaður til að koma sprengingu af stað. Slík dufl voru kölluð seguldufl og utan um sprengjuhleðsluna var vafið einungruðum koparvír sem var eftirsóttur af heimamönnum, m.a. í loftnet.

Þeir félagar höfðu með sér verkfæri og Kitti (Kristinn) og Snorri byrjuðu að losa lokið af duflinu. Þegar þeir höfðu fjarlægt alla bolta fyrir utan tvo, sem voru losaðir til hálfs, kom í ljós að lokið var tengt við eitthvað drasl inni í duflinu sem hélt í á móti. Skyndilega bætti í vindinn og duflið tók að reka af stað, sökk til hálfs og skolaði síðan inn fyrir vörina í Höfn og endaði síðan í fjöruborðinu neðan við Hornbæina.

Þeir fóstrar Kitti og Snorri voru þá ekki lengur að tvínóna við hlutina og kipptu lokinu af duflinu. Ekki sprakk það svo þeir fóru að kanna innihaldið nánar.

Inn í duflinu var helvíti skemmtileg klukka sem gekk dálítinn tíma ef hún var sett af stað. Seinna var þeim sagt að hún væri tengd við lásinn undir duflinu og átti að setja sprenginguna af stað ef duflið kæmi í nálægð við stálbyrðing á skipi. Þeir félagar höfðu ekki hugmynd um þetta en höfðu gaman af að trekkja upp klukkuna og hlusta á murrið í henni þegar hún gekk til baka. Allskonar drasl var inn í duflinu sem var forvitnilegt að skoða og örugglega eitthvað nýtilegt í þeim skorti sem var á Hornströndum á þessum árum. Ekki rifu þeir duflið frekar í sundur en kallað var á Guðfinn Sigmundsson, sem bjó í Króknum á Ísafirði, en hann var þjálfaður í að eyða duflum fyrir Landhelgisgæsluna. Byrjaði hann á að aftengja hvellettuna og fjarlægja sívalning úr tunnunni sem í var sprengiefnið og eyða því síðan. Duflið hafði verið virkt og mikið lán að það hafi ekki sprungið við fiktið í þeim fóstrum.

Duflið í Rekavík

Seinna gerði Guðfinnur dufl óvirkt í Rekavík bak Höfn. Fréttu þeir félagar Arnór og Snorri af því og ákváðu að skoða verksummerki. Venjan var að kveikja í sprengiefninu sem brann eins og lýsi þar til ekkert var eftir af því. Í þetta sinn hafði einhverja hluta vegna slokknað í efninu og það aðeins sviðnað lítilsháttar. Megin hluti sprengiefnisins var því enn í sívalningnum og losuðu þeir félagar hann út úr duflinu og báru út í bát og réru með fenginn heim að Horni. Hugmyndin var að sprengja upp hlein sem var við ófæruna á leið út í Rekavík áður en komið er að Tröllakambi. Ófæran er töluverður farartálmi á þessari leið en hægt er að komast fyrir hana á stórstraums fjöru en venjulega þarf að klífa yfir haft ofan við hana.

Þegar komið var að Horni báru þeir sprengiefnið upp í hjall fyrir ofan bæinn. Arnór hafði þá prófað að taka smá fleður af sprengiefninu, svona á stærð við nögl, setti það á steðja og sló á með slaghamri til að prófa sprengikraftinn. Höggið og hvellurinn var svo rosalegur að Arnór höndlaði ekki hamarinn í látunum. Þá vissi hann að efnið væri gott og mætti nota í stórverkefni.

Högni og ArnórÞeir félagar fóru nú að skipuleggja stórverkefnið, að sprengja upp áðurnefnda ófæru í Rekavík. Hugmyndin var að nota dínamít til að koma sprengingu af stað í sívalningnum. Troða því ofan í sívalninginn og nota sem hvellettu fyrir sprengiefnið. Þetta hlyti að duga til að sprengja hleinina í burtu og bæta þannig samgöngur við Rekavík bak Höfn.

Síðan átti að grafa sívalninginn niður við skarð í hleininni sem er berggangur og  skagar fram úr gamla sjávarbakkanum fram í sjó. Moka síðan yfir og pakka vel með stórgrýti og sprengja svo. Arnór er enn þann dag í dag sannfærður um að hleinin hefði farið við sprenginguna ef þeir hefðu funduð tíma til að klára verkið. En samgöngubæturnar gleymdust og sprengingin vék fyrir öðrum mikilvægum verkum eins og bjargsigi og eggjatöku.

Meðan á undirbúningi samgöngubóta stóð að Horni komst yngri bróðir Arnórs, Stígur, sem þá var smá polli, að leyndarmálinu. Ásamt vini sínum og jafnaldra, Grími Árnasyni,  ákváðu þeir að gera prufu með sprengiefnið. Þeir notuðu meitil til að höggva stykki úr því og fóru með það niður í fjöru og tróðu því ofan í litla holu í bergvegg og kveiktu í því. Þeir töldu víst að þannig ætti að koma sprengingu af stað en hitinn af brunanum var svo mikill að og brast í berginu. Það dugði til að hræða þá félaga og létu þeir sprengiefnið eiga sig eftir það. Stundum getur hjálpað að vita lítið en pollarnir notuðu óvart rétta aðferð til að eyða sprenginefninu, þó ætlunin hafi verði önnur.


Högni skotinn í Látravík

HornbjargsvitiHögni Sturlaugsson var tíður gestur í Látravík meðan Frímann Stígsson var vitavörður í Hornbjargsvita en Högni ólst upp í Rekavík bak Höfn

Árið 1937 stóðu yfir lagfæringar á vitanum og unnu fimm málarar við að mála bæði vitann og íbúðarhúsið. Meðal annars var þar Gunnar Guðjónsson sem giftur var Elínu Frímannsdóttur dóttir vitavarðarins.

Einn daginn fór Högni út með Gunnari og hefur meðferðis skammbyssu til að skjóta á máva. Ekki hitti hann neitt en byssan var sex skota marghleypa. Eftir fimm skot biður Gunnar um byssuna til að prófa en Högni neitar honum.

Högni stingur byssunni í buxnastrenginn og gengur inn í íbúðarhúsið og sér þar hvar hundur sem málararnir voru með hafði migið á gólfið. Högni snýr þá að Gunnari og segir við hann að fara með hundkvikindið út. Gunnar játar því en Högni spyr hann hvort hann megi ekki mála fyrir hann á meðan. Það var í góðu lagi en Gunnar hafið verið að mála þröskuld í eldhúsinu. Högni tekur við penslinum og liggur á hnjánum þegar Gunnar snýr til baka. Þegar hann sér Högna þá þrífur hann til byssunnar og segir hátt og snjallt; ,,nú skal ég sýna þér hver er frægasta skytta í heimi". Högni er rétt búinn að snúa sér í áttina að Gunnari þegar skotið ríður af.

Gunnar hafði alls ekki búist við því að skot væri í byssunni en það fór beint í hausinn á Högna. Hálf önnur tomma var milli þar sem kúlan fór inn og þar sem hún kom út. Ekki brákaðist beinið en það fossblæddi úr sárinu og Högni lá steinrotaður eftir. Gunnar verður óður af hræðslu, hleypur út úr húsinu og fram á bakkann upp af víkinni. Jóhann Vigfússon, sem ólst upp hjá Frímanni vitaverði, sér til hans og hleypur á eftir honum og horfir á hann henda byssunni í sjóinn.

Högni og ArnórÁ meðan rankar Högni við sér og kemur inn í herbergið þar sem hinir málararnir voru að mála og segir; ,,Jæja strákar mínir, nú er ég kominn til að kveðja ykkur. Nú er ég að drepast. Hann Gunnar skaut mig í hausinn"  Málararnir ráku upp skellihlátur og voru vissir um að Högni hefði komist í spírann sem notaður er til að fægja glerið í vitanum. Högni snýr sér við og ranglar út úr herberginu og sjá þeir þá alblóðugan hnakkann á honum og hafa hraðar hendur og bera hann upp í rúm.

Jóhann Vigfússon fór strax af stað eftir lækni og fjórtán tímum seinna birtust þeir í stofunni í Látravík. Læknirinn, sem Sæbjörn hét, þekkti Högna vel og það fyrsta sem hann segir þegar hann lítur á sárið var; ,,Hvað ert´að senda eftir lækni fyrir svona smá skeinu?" Högni var fljótur til svars og sagði; ,,Ég held að það sé nú ekki til neins nema til að liðka á þér lappirnar"

Þegar Guðbjartur á Reyrhólum heyrði þessa sögu að Högni hefði verið skotinn í hausinn, og staðið upp aftur, þá varð honum að orði; ,,Og það dugð´ekki eitt"

Það fyrsta sem Högni sér þegar hann kom til sjálfs síns upp í rúmi að ranka úr rotinu var eiginkona Frímanns, Hallfríður húsfreyja, í hvítum kjól að stumra yfir honum. Högni taldi víst að hann væri dauður en hefði þó lent á réttum stað.

Hilmar, Högni, Þórður og ArnórHögni var farinn að vinna eftir tvo daga. Seinna fór hann og leitaði byssunnar og fann hana í þarabunka í sjónum við Látravík. Þetta var gömul herbyssa, kosta gripur en ekki er vitað hvar hún nú niðurkomin.


Smyglið í Rekavík bak Höfn

carlsgallery7Snemma vors árið 1925 sigldi fiskibáturinn Víkingur inn á Hornvík og stefndi á Rekavík bak Höfn. Það var farið að skyggja og vakti bátskoman því litla athygli Hornstrendinga, fyrir utan ábúendur við víkina. Jóhann Hjálmarsson, bóndi í Rekavík, var um borð í bátnum sem hafði fyrr um daginn átt stefnumót við norskan togara út á Hornbanka. Báturinn kastaði akkerum innan við skerið í víkinni og fljótlega var skektu róið til móts við hann úr landi. Undir árum var bróðir Jóhanns, Sigurður Hjálmarsson, ásamt þremur öðrum karlmönnum.

Myrkur var skollið á þegar áhöfn Víkings byrjaði að handlanga 45 trékassa niður í skektuna og var hraustlega tekið við þeim. Nokkrar ferðir þurfti til að selflytja alla kassana í land, en síðan voru þeir bornir upp á bakkann við bæinn. Næstu dagana notuðu ábúendur og nágrannar tímann til að koma þeim fyrir. Meginhlutinn var fluttur áfram út í Skrínur en nokkrir voru grafnir í mógrafir upp af mýrinni við bæinn.

IMG_8822Í hverjum kassa voru þrjár 20 lítra glerflöskur með hreinum spíra frá Spáni. Laun manna fyrir að taka á móti og fela spírann voru greidd með þessum spænsku guðaveigum og því nóg til af áfengi í Rekavík og nágrenni. Eigandi spírans var bróðir Jóhanns og Sigurðar, Ólafur Hjálmarsson, sem var langaafi fyrrverandi sýslumanns á Ísafirði, Ólafs Helga Kjartanssonar.

Reyndin var sú að Rekvíkingar voru litlir drykkjumenn en örlátir og gestrisnir að sama skapi. Fljótlega fór því að bera á drukknum ferðamönnum sem leið áttu um Rekavík, en fjölfarin leið lá þar um frá Hlöðuvík um Skálakamb, framhjá Rekavíkurbænum og yfir Tröllakamb að Höfn í Hornvík. Þetta þótti í meira lagi óvenjulegt og vakti grunsemdir manna. Ljóst er þó að íbúar í Hlöðuvík og Hælavík hafa verið með frá upphafi og aðstoðað við smyglið.

Sögurnar fóru sem eldur um sinu um Hornstrandir og menn fóru að gera sér ferð í Rekavík fyrir forvitnis sakir og til að njóta lystisemdanna. Í umræðunni mögnuðust þar upp og rétt að geta nokkurra sem sagðar voru á þessum tíma:

Ein sagan var sú að 60 tonn af spíra hefði borist í land í Rekavík. Sagt var að lögreglan hefði elt fiskibát um allt landið til að ná spíranum en loksins hefði tekist að fela hann á Hornströndum. Sagan sagði að spíri hefði verið við hvert mál í Rekavík og hafi allt frá ömmunum til barnanna auk katta og músa neytt hans. Ekki hafi verið róið til fiskjar í tvö ár frá Rekavík sökum drykkju.  

IMG_8791Athyglin sem allt þetta vakti gerði menn vara um sig og voru kassarnir fluttir frá einum stað til annars til að fela þá. Að lokum endaði góssið úti á Straumnesi þar sem þeir voru faldir í sjávarskútum áður en þeir voru fluttir áfram til Skutulsfjarðar.

Högni Sturlaugsson sem var sex ára þegar þetta gerðist minnist þess að einn daginn kom trilla frá Ísafirði og lagðist framan við skerið í Rekavík. Tveir menn voru á og um ellefu leytið um kvöldið stungu þeir sér í sjóinn og syntu í land, gengu síðan upp að tóftum við Óðalsbakkann þar sem heytóft var og grófu upp tvo trékassa.  Mennirnir báru þá síðan niður í fjöru og fleyttu um borð í trilluna og sigldu síðan á braut.

Allt sumarið var verið að flytja spírann til Ísafjarðar og tók Binni halti, síldarkall, á móti þeim við Arnarnes. Binni átti skúr niður við sjóinn í botni Seyðisfjarðar og þangað flutti hann spírann og dreifði honum þaðan. Hann átti bát sem róið var til síldveiða norður í fjörður og átti auðvelt með að fela einn og einn kassa um borð og koma til réttra aðila. Heimildir eru til fyrir því að innihald eins kassa hafi endað sem veisluföng á Hekleyri innan við Hesteyri en þar var mikil starfsemi í síldarbræðslu á þessum árum. Annar kassi endaði á Siglufirði sem gleðigjafi fyrir síldarkarla og stúlkur á dansleikjum þar í bæ.

Eiríkur Benjamínsson sem giftur var Elísabetu Halldórsdóttur, systur Guðnýjar á Horni, fékk eitt sinn lánaðan einn brúsa út á krít. Ekki stóð hann við borgunina og kærðu þeir bræður Jóhann og Sigurður hann þá til lögreglunar. Lögreglan aumkaðist yfir þá og bentu þeim á hvað myndi felast í slíkri kæru, og féllu þeir þá frá henni umsvifalaust.

Sögurnar af smyglinu bárust nú til eyrna yfirvalda og var Grímur rakari sendur í Rekavík, en hann gegndi embætti tollvarðar þegar þetta gerist. Þegar Grímur kemur í Rekavík hafði gleymst að fela einn kútinn sem stóð inn í eldhúsi. Jóhann Hjálmarsson brá skjótt við, grípur brúsann og snarar um hann bandspotta og hnýtir hann upp í reykháfinn þannig að hann sæist ekki. Grímur leitaði í bænum en fann ekkert enda leit hann aldrei upp í skorsteininn.

Þannig fundust engar sannanir fyrir smyglinu en Högni Sturlaugsson er sannfærður um að Grímur rakari hafi ekki lagt sig allan fram í leitinni. Hefði embættismaðurinn fundið smyglið þá hefði  þurft að senda íbúa af þremur bæjum i tukthús, en ábúendur voru allt fullorðið fólk fyrir utan Högna, sem var sex ára eins og áður greinir. Varla er hægt að ímynda sér ástandið sem hefði skapast við slíkt örþrifaráð yfirvalda.

Högni man vel eftir smyglinu og minnist þess hversu hart var lagt að íbúum að segja ekki frá spíranum. Móðir Högna var gift Sigurði Hjálmarssyni sem hótaði Högna að hann hefði verra af ef hann segði til spírans.

IMG_8802Sagan um smyglið gekk árum saman um sveitina og segist Þórður Júlíusson, sem var sjö ára í Fljótavík þegar þetta gerist, hafa heyrt mikið um málið í sínum uppvexti. Hinsvegar viðurkenndu Rekvíkingar aldrei neitt og var sama hvernig á þá var gengið.

Segir sagan að ekki hafi smyglið orðið þeim bræðrum Jóhanni og Sigurði til fjár.


Nýjir tímar

 

Íslenski fáninnTil hamingju með þjóðhátíðardaginn 17. júní.

Nú taka við nýir tímar á bloggsíðu minni. Nýjar áherslur og breytingar á högum. Framundan er nýtt starf á Sri Lanka sem verða heimkynni mín næstu tvö árin. Hugmyndin er að færa dagbók þar sem lífi og starfi á þessum slóðum verður lýst. Það er áhugavert að kynnast nýjum siðum og læra inn á ólíka menningu. Vonandi hafa einhverjir gaman af að fylgjast með en starfið er á vegum Þróunar- og samvinnustofnunar Íslands sem er stofnun undir Utanríkisráðuneytinu. Verkefnin snúa að fiskiðnaði og gengur út á að hjálpa íbúum Sri Lanka að nýta auðlind sína betur.

Þangað til ætla ég að bjóða upp á sögur af Hornströndum sem ég hef verið að skrifa upp eftir heiðursmönnum sem fæddust og ólust upp á þeim slóðum. Margar sögurnar eru á gamansömum nótum og mér vitanlega hafa aldrei verið settar á blað áður. Hér verður þeim þrykkt á Google steininn og verða því aðgengilegar um allan heim. Sumar sögurnar lýsa vafasömum athöfnum en vonandi að langur tími sem er umliðin leyfi birtingu þeirra engu að síður. Allt er fyrnt sem þarna gerðis á þessu tíma.

Sú kynslóð manna sem viðmælendur mínir eru af, fæddir frá 1918 til 1922 hafa upplifað mestu breytingar sem nokkur kynslóð hefur lifað, fyrr og síðar hvar sem er í heiminum. Þeir fæddust í torfkofa og fluttu í fyrsta timburhúsið á unglings aldri. Lífsbaráttan var gríðarlega hörð allt fram á þann tíma að síðustu bændur fluttu af Ströndum 1946. Þetta var sjálfsþurftarbúskapur að mestu og fátæktin mikil. Ekkert mátti útaf bregða til að sulturinn bankaði uppá. Lítill þurrkur síðsumar (óþerri) gat orðið mikil ógnun þar sem ekki tækist að þurrka hey fyrir skepnurnar til að fóðra yfir veturinn.

HornbjargÍ dag lifa þessir menn góðu lífi á tölvuöld. Einn þeirra fer reglulega inn á Veraldarvefinn til að skoða heimasíður og fréttir. Annar fylgist náið með verðbréfamörkuðum og er að kaupa og selja hlutabréf í bönkum og öðrum stórfyrirtækjum. Sá þriðji er enn að vinna sem listasmiður og allir eiga það sameignlegt að vera óvenju ernir. Það er óhætt að segja langur vegur er frá uppvexti þeirra á Hornstöndum og Íslandi í dag.


Viðskiptaráðherra og frelsið

  Björgvin G. Sigurðsson

Á miðvikudaginn var viðtal við Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra í Viðskiptablaðinu. Það er óhætt að segja að nýbakaður ráðherra kom bloggara skemmtilega á óvart. Ríkið á ekki að vasast í neinu sem einstaklingar geta gert betur. Hann var einlægur stuðningsmaður einkavæðingu bankanna á sínum tíma. Hann vill frelsi í viðskiptum, en fyrir þjóðina og ekki bara ríku bankamennina. Það þarf sem sagt að setja leikreglur og tryggja samkeppni. Einnig bætir Björgvin við að nauðsynlegt sé að setja öryggisnet fyrir þá sem minna mega sína.

Allt þetta getur bloggari tekið undir og eins og tala út frá hans hjarta. Bloggari skilgreinir sig sem frjálshyggjumann en Björgvin er frjálslyndur. Og ríkisstjórnin er frjálslynd velferðastjórn. Hvar skyldi skilja á milli frjálshyggju og frjálslyndi? Kannski það sé að öryggisnetin séu ekki að draga úr sjálfsbjargarviðleitni fólks og að allir beri ábyrgð á sjálfum sér en varpi því ekki á samfélagið.

Bloggari hefur miklar væntingar til viðskiptaráðherra og skilur varla að þeir tilheyri sitt hvoru stjórnmálaaflinu. Óskandi væri að fleiri samflokksmenn bloggara væru jafn frjálslyndir og viðskiptaráðherra og væru tilbúnir að láta til sín taka í þágu almennings á Íslandi. Frjálst öflugt atvinnulíf eykur hag þjóðarinnar en leikreglur er að sjálfsögðu nauðsynlegar. Hvers vegna má ekki nota hugmyndir Björgvins í landbúnaðarmálum. Þar eru allir að tapa vegna ófrelsis. Það er engin ástæða fyrir Íslendinga að halda heimsmeti í viðskiptahindrunum í landbúnaði. Er Samfylkingin að fara fram úr okkur hægra megin?

Bloggara varð svo mikið um þessa uppgötvun að setti að honum pólitíska ritstíflu.

Á meðan stíflan varir mun hann leggja stjórnmála umræðu til hliðar fyrir öðrum áherslum. Á morgun taka nýir tímar við og er þjóðhátíðardagur Íslendinga, 17. júní, góður dagur til þess. Bloggari vonar að þeir sem hafa kíkt inná þennan rangala netheima þar sem bloggari heggur mark sitt í Google steininn, muni halda því áfram og þeir verði ekki fyrir vonbrigðum með breyttar áherslur.


Hayek og markaðurinn

market_carnivalAlveg er það með ólíkindum að hlusta á ýmsa þingmenn básúnast yfir því hvað ,,markaðurinn" sé ómögulegur og betra væri að láta stjórnmálamenn um að útdeila gæðum. Framsalsréttur á fiskveiðiheimildum er eitur í þeirra beinum og helst að skilja að flutningur fólks úr dreifbýli megi rekja til sölu eða leigu aflaheimilda. Hverju skyldu Kínverjar kenna um en hlutfallslegur flutningur fólks úr sveitum í borgir er mun meiri þar en hér á landi. Skyldi kvótakerfið ná yfir landamæri og heimsálfur og stjórni hegðun fólks um allan heim?

Hvað er ,,markaður" og hvers vegna ættum við að nota hann í staðin fyrir pólitískar ákvörðunartökur? Hvers vegna eigum við að láta þá sem best standa sig, reka mikilvægustu atvinnugrein landsins til að hámarka arðsemi og fiskveiðiarð? Hvers vegna mistókst kommúnistum Sovétríkjanna að reka áætlunarbúskap og af hverju hrundi hagkerfi Nasista í Þýskalandi sem hafnaði markaðslögmálinu?

Austurríski hagfræðingurinn Friedrich August von Hayek (1899-1928) sagði að markaðurinn væri tækni til að uppgötva.  Þar sem engin tölva getur spáð fyrir upprisu nýrrar tækni, nýrra hugmynda eða þekkingar.  Hayek sá markaðinn fyrir sér sem mannlegt fyrirbæri eins og tungumál og lög. Tungumál verður ekki til í tölvum og það verða lög ekki heldur. Tungumál og lög þróast með samfélögum og breytast með hugarfari þjóða og eru ekki hluti af stefnumótun eða áhrifum frá stjórnvöldum. Sama má segja um markaðinn að þó rétt sé að setja honum skorður með lögum verður framboð eða eftirspurn ekki ákveðin af þjóðþingum eða framkvæmdavaldi. Til þess er hann of flókinn og ristir djúpt í mannlegu samfélagi.

Stjórnmálamenn sem ræða það daginn út og inn að þeir vilji ákveða hverjir eigi að njóta gæða eins og rétt til veiða eru í raun að sækjast eftir völdum. Völdum sem eru umfram þeirra umboð sem kjörnir fulltrúar á Alþingi Íslendinga.

Markaðurinn eru samskipti manna í samfélaginu. Hann ákvarðar hvað skuli framleiða og fyrir hverja. Hann ákveður hverjir framleiða og hverjir eigi ekki að gera það. Það verður ekki gert við Austurvöll.


Rótarýferð í Flatey

Ferð Rótarýklúbbs Ísafjarðar í Flatey 2007

 Hótel Flatey

Laugardaginn 9. júní 2007 lögðu félagar Rótarýklúbbs Ísafjarðar upp í ferð í Flatey á Breiðafirði, með viðkomu á nokkrum stöðum. Jón Páll Halldórsson var skipuleggjandi ferðarinnar en forseti sá um fararstjórn þessa tuttugu manna hóps, félaga og eiginkvenna Rótarýmanna.

Lagt var af stað frá Hótel Ísafirði snemma morguns og fyrsti áfangastaður var Vatnadalur í Súgandafirði, þar sem kirkjan á Stað var skoðuð. Hörður Högna sá um leiðsögn á þessu slóðum enda vel kunnugur svæðinu og á ættir sínar að rekja þangað.

Næst var haldið á Flateyri þar sem leiðsögumaður okkar þar, Guðmundur Björgvinsson, beið í kirkju staðarins og sagði hópnum sögu hennar og þeirra gripa sem hún á. Að því loknu var gamla bókabúðin á Flateyri skoðuð, Verslunin Bræðurnir Eyjólfssynir. Verslunin var reyndar meira en bókaverslun þar sem hægt var að kaupa mjölvöru eftir vigt og reyndar sælgæti s.s. Freyjukaramellur. Við hliðina á versluninni er fyrrum íbúðarhúsnæði síðasta rekstaraðila verslunarinnar, Jóns Eyjólfssonar, sem stendur óbreytt eins og flutt var úr því um 1960. Uppi á annarri hæð stendur Eyjólfsstofa, sem var vinnustofa Eyjólfs Jónssonar sem vann meðal annars sem verðlagseftirlitsmaður á Vestfjörðum. Eyjólfur var mikill grúskari og liggur mikil fróðleikur eftir hann, m.a. um ættfræði og fl..

Næst var komið við í Handverkshúsinu á Flateyri þar sem hópurinn snæddi hádegisverð. Hér er allt á einum stað, matsölustaður, handverkshús og félagsheimili eldri borgara í bænum.

Eftir góða máltíð og kaffisopa var haldið að Holti í Önundarfirði þar sem presturinn séra Stína Gísladóttir tók á móti hópnum í kirkju staðarins. Hún sagði í stuttu máli frá sögu og eignum kirkjunnar, lagði út frá heilagleika í stuttu ávarpi og síðan söng hópurinn nokkra vel þekkta sálma. Ósköp notaleg stund og áhrifarík en hópurinn dreif sig síðan út í rútu í sumarblíðunni. Næst var haldið í Dýrafjörð þar sem Bergur á Felli tók á móti hópnum í Þingeyrarkirkju og sagði hópnum sögu hennar.

Bjössi í gluggaFerðinni var nú heitið að Mjólká þar sem Orkubú Vestfjarða bauð upp á hressingu.  Staðarhaldari virkjunarinnar leysti úr fyrirspurnum Rótarýfélaga sem gerðust skrafhreifnir af ölinu og margar góðar sögur spruttu fram í kaffistofu virkjunarinnar.  Stemmingin lofaði góðu fyrir ferðina og tilhlökkunin var mikil að komast út í Flatey.

Þegar rútan rann þýðlega niður Dynjandisheiðina áleiðis í Vatnsfjörð kom óvænt boð Gámaþjónustu Vesturbyggðar í kaffi og vöfflur að Flókalundi. Að lokinni hressingu var haldið á Brjánslæk þar sem ferjan Baldur var tekin út í Flatey.

Það er ekki glæsileg sjón sem fyrst grípur athygli ferðamanns við komu í Flatey. Ryðgaðar dráttavélar, ónýtur bryggjukrani og gamalt niðurnýtt frystihús sem stendur við bryggjusporðinn. Á göngu að þorpinu sem liggur við Grýluvog er enn meira af aflóga drasli eftir útgerð og landbúnað. En annað og betra átti eftir að taka við.

Skömmu áður en komið var í þorpið vindur sér snaggaralegur náungi út úr húsi og kallar til hópsins ,,Er þetta Lionsklúbburinn Kiddi?" Það má kalla þetta upphafið af frábæru og skemmtilegu kvöldi þar sem þessi sami náungi átti eftir að spila í sex og hálfan klukkutíma, án pásu, á harmonikku.  Seinna komumst við að því að þessi maður er rotarýmaður frá Egilstöðum og fyrrum bæjarstjóri.

Þorpið sjálft er í einu orði sagt dásamlegt. Vel uppgerð og viðhaldin gömul hús, máluð í öllum regnbogans litum. Ekki tók síðra við þegar hópurinn kom að Hótel Flatey þar sem gist var um nóttina. Hótelið er alveg nýtt og allt byggt samkvæmt forskrift arkitekta í gömlum stíl. Herbergi eru ekki númeruð heldur heita þau eftir fuglsnöfnum. Fólk var því bókað á Lunda, Blika, Kollu o.s.fr.

Hótelið er stórkostlegt. Öll þjónusta til fyrirmyndar þar sem hlýleiki og þjónustulund einkenna starfsstúlkur. Herbergin eru frábær með gömlum rómantískum stíl og allt gert til að gleðja hug og hjarta.

HarmonikkaKvöldverðurinn var kjötsúpa en hefði alveg eins getað verið fimm rétta franskur málsverður. Rjómaís í eftirrétt en honum hafði aðeins verið gerð hálf skil þegar vinurinn með harmonikkuna birtist og við tók stanslaust fjör í á sjöunda tíma. Fjöldi sönglaga sem runnu í gegnum dragspilið virtist óendanlegur. Sjálfur var hann að springa úr fjöri og lyfti sér upp á tærnar til að leggja áherslu á sönginn, en hann virtist kunna alla texta og öll vers á því fljóti sönglaga sem rann í gegnum kvöldið.

Þegar kvöldsólin gekk til viðar færði hópurinn, sem nú taldi á sjötta tuginn, sig niður í Saltkjallarann þar sem enn var sungið. Saltkjallarinn er barinn á hótelinu og er glæsilegur eins og annað í þessum fallegu húsum.

Einhvern tíman löngu eftir miðnætti þegar svefninn sótti á í dúnmjúku rúminu mátti heyra óminn af söngnum og gleðinni úr Saltkjallaranum. Þvílík dásemd og notalegheit að erfitt er að lýsa í óbundnu máli.

Þegar fyrstu geislar sólarinnar streymdu inn um gluggann mátti heyra fuglasönginn. Það sem gerir hann ólíkan þeim sem ferðamaður úr Tunguskógi er vanur að heyra, í hrossagauk, þresti og stelk, bættist hér við garg í kríu og öðrum sjófuglum. Niður í matstofu beið morgunverðurinn en þar svignuðu borðin undan kræsingunum. Gestir höfðu á orði að slíkt hefði ekki sést síðan á ferðum þeirra um Þýskaland.

Í Bogabúð í Flatey hafa löngum sumardvöl hjón frá Ísafirði þau Katrín Jónsdóttir og Grétar Þórðarson fyrrum skipstjóri. Jón Páll hafði samið við Grétar um að rölta með hópinn um eyjuna og segja sögu hennar og húsanna sem flest hafa sín nöfn. Strýta, Vogur, Vinaminni og Myllustaðir, svo fá séu nefnd til sögunnar. Flatey var mikill verslunarstaður á árum áður en byggð lagðist um 1960. Upp úr 1980 fóru eigendur húsanna að huga að viðhaldi og uppbyggingu þeirra og verður að segja að afskaplega vel hafi tekist til við það.

Þetta var fallegur sunnudagsmorgun, sólskin og hlýtt. Börn voru að leik með kassabíla og sum voru að skoppa gjörðum. Ætli veraldarvefurinn og tölvuleikir séu til í Flatey? Alla vega var þetta eins og að fara aftur í tíma um 40 ár að ganga um bíllausa eyju eftir mjóum malarstígum sem liðast milli fallegra húsanna.

Höfnin er skerjavogur rétt við Hótel Flatey þar sem gott skjól er fyrir stærri báta að liggja í öllum vindáttum. Silfurgarður er enn betra skjól fyrir minni báta en þangað er ekki fært nema á flóði.

MessaRótarýhópurinn hafði auglýst við aðaltorgið í þorpinu messu í kirkjunni í Flatey klukkan tvö. Vel mannaður í slíkt með sóknarprest, organista, hringjara og meðhjálpara. Vel var mætt í messu sem var einstaklega skemmtileg og stutt í hláturinn og gamansemina. Sumir fengu að ganga til altaris en allir fengu að syngja við forsöng séra Magnúsar og undirspil Margrétar Geirsdóttir. Ragnar Kristinsson hringdi kirkjuklukkunum og tókst það nokkuð vel.

Kirkjan í Flatey er glæsileg að innan en lagfæringar standa yfir að utan. Baltasar hefur myndskreytt kirkjuna þar sem allt bogaloftið lýsir sögu eyjarinnar en altaristaflan sýnir Jesú með tveimur lærisveinum. Hér með er fólki ráðlegt að fara tímanlega í kirkju til að athyglin geti snúist um prestinn í messunni, en listaverkin fanga hugann fyrsta hálfa tímann.

Hópurinn átti notalega stund í eftirmiðdaginn en lagt var af stað áleiðis heim upp úr klukkan fjögur. Sögurnar flæddu í rútunni með hlátrarsköllum og gleðilátum. Ef keppt væri í hlátri á Ólympíuleikum myndu Viðar og Bjössi vinna til verðlauna. Hláturinn hjá þeim, sem alltaf er stutt undan, er eins og flóðbylgja sem fangar mann og hrífur með sér.

Hópur við kirkjuÞetta var góð ferð með samrýmdu og skemmtilegu fólki. Ferð sem styrkir Rótarýklúbb Ísafjarðar og gerir hann að betri félagsskap. Ferð sem er klúbbnum til sóma.


Næsta síða »

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 52
  • Frá upphafi: 283898

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband