Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Fundur Gufuklúbbsins

Hópurinn

Gufuklúbburinn er þjóðmálafélag sem heldur fundi sína einu sinni í viku, tíu mánuði á ári.  Fátt er félagsskapnum óskylt en stjórnmál er ofarlega á baugi á hverjum fundi, þó hópurinn sé í sjálfu sér ópólitískur.  Eftir sunnudagsfund Samfylkingarinnar um daginn, sem haldin var í Hömrum undir yfirskriftinni ,,Lifi Vestfirðir" var nokkrum úr hópnum nóg boðið.  Fátt jákvætt kom fram á þeim fundi og gekk höfundur þessa pistils þungstígur heim eftir hann, fullur svarsýni og vantrú á samfélagið sitt.  Sérstaklega var sárt á umræddum fundi þegar einn frumælandi sagði með mikilli áherslu ,,Það er allt að fara til fjandans" undir dúndrandi lófaklappi áheyranda.

Mér varð hugsað til þess hvernig umræddur ræðumaður (kona) myndi bregðast við ef hún fyndi Aladin lampa, og eftir að hafa strokið hann varlega og andinn kæmi út og segði ,,Þú getur fengið eina ósk fyrir að láta mig lausan"  Ég er sannfærður um að ræðumaðurinn, miðað við boðskapin á fundinum myndi svara þessu svona ,,Kæri andi, sjáðu til þess að allt sé nú örugglega að fara til fjandans fyrir Vestan"

Gufuklúbburinn brást við þessari sameinuðu fylkingu með því að boða til síns eigin fundar.  Sá var haldin í krónni hans Þorsteins Jóhannessonar niður á Sundahöfn.  Boðið var upp á bjór og harðfisk og logaði á kertum við langborð.  Til fundarins var boðið með óábyrgum hætti, en gætt þess að hann væri ekki of litaður af einum stjórnmálaflokk.  Fundarmenn voru um 27 og ræddu um möguleika samfélagsins og hvað þyrfti að gera til að bæta stöðu Vestfjarða.  Ólíkt fyrri fundi í Hömrum lyftu fundarmenn umræðunni yfir pólitískt argaþras.

Sjávarútvegsráðherra, einn af meðlimum Gufuklúbbsins, mætti á fundinn til að koma boðskapnum að ríkisstjórnarborðinu, þar sem pólitískar ákvarðanir eru teknar.  Rétt er að taka því fram að kynjahlutfall var nokkuð jafnt á fundinum, þó því sé alls ekki til að dreifa í Gufuklúbbnum.

Niðurstaða fundarins var skýr og skilaboðin til ríkisstjórnarinnar beinskeytt og ákveðin.  Fundarmenn, sem spönnuðu allt frá því að vera Kúbukommar til frjálshyggjumanna, höfðu fulla trú á Vestfisku samfélagi og ætla ekki að láta deigan síga.

Fundarborð


Samfélagsleg ábyrgð stórfyrirtækja

réttlæti

Ég hafði gaman að sjá grein eftir frænda minn Jakob F. Ásgeirsson í ritstjórnarpistil í tímaritinu Þjóðmál um daginn.  Þar veltir hann fyrir sér stórfyrirtækjum sem telja sig bera samfélagslega ábyrgð í ríkum mæli og ekki sé nóg að skapa atvinnu og auð.  Það að þróa nýjar vörur með ódýrari hætti, veita betri þjónustu fyrir minna verð og finna upp nýja tækni sem eykur lífsgæði almennings, er ekki nóg.  Nei þau eiga að bera samfélagslega ábyrgð gefa íbúunum eitthvað til baka, fyrir utan laun og skatta og slíkt.  Eins og Jakob bendir á þá er helst að skilja að fyrirtækin hafi tekið eitthvað ófrjálsri hendi frá þjóðinni og eigi að skila því aftur.

Kannske er þetta allt gott og blessað og bara gott að athafnamennirnir noti eitthvað af umfram gróða til að vera miskunnsami Samverjinn og láta eitthvað af hendi rakna í góðan málstað.  En eins og Jakob bendir á þá er þetta tvíeggjað sverð.  Með því að setja siðferðilegar skyldur og samfélagslega ábyrgð á stjórnendur, umfram það sem sjálfsagt er í siðuðu samfélagi, er verið að færa mikil völd til stórfyrirtækja.  Þau eru ekki að keppa á markaði lengur þar sem ný vídd er kominn inn sem er sjálfskipuð góðmennska og tilbúið siðferði.

Tökum dæmi um slíkt.  Mikil umræða hefur verið um lífeyrisjóðina að þeir eigi ekki að fjárfesta í ,,vondum" fyrirtækjum.  Hér er ekki átt við fyrirtæki sem starfa ólöglega, heldur fást við ,,vonda" hluti, samkvæmt gildismati stjórnenda lífeyrisjóðanna.  Stjórnendur sjóðann eru þá ekki að hámarka hag sinna umbjóðenda, eiganda lífeyris, heldur eru þeir að þóknast eigin skoðunum og gildismati.  Þegar talað er um gildismat eru menn komnir t.d. inn á pólitískar brautir.

Slíkt er afskaplega hættulegt fyrir lýðræðið.  Fyrirtæki og lífeyrissjóðir eiga ekki að fást við slíka hluti.  Ekki að ákveða fyrir almenning hvað sé rétt og rangt og hvað sé gott og vont.  Þau eiga hinsvegar að sjálfsögðu að fara að lögum.

Málið er svona einfalt.  Pólitískt kjörnir fulltrúar setja lög og reglur.  Slíkt er háð gildismati og því á vettvangi stjórnmálanna að fást við.   Látum stjórnmálamennina um pólitík og fyrirtækjunum sem þeim ber.  Fyrirtækin eiga að skapa atvinnu, þróa nýja tækni og byggja upp auð.  Stjórnmálamenn að setja lög og reglur og sjá til þess að þeim sé framfylgt.


Hin grimmu markaðsöfl

réttlæti

Him grimmu markaðsöfl.

Ég man ekki eftir hverjum þessi orð ,,Í greipum grimmra markaðsafla" voru höfð með stíðsfréttaletri á forsíðu fréttablaðs um daginn, en ef rétt er munað var verið að vísa til þess að hin myrka hönd markaðarins væri að ganga af byggðum Vestfjarða dauðum.  En er markaðurinn svona miskunnarlaus og vondur?  Er betra að nota stjórnamálamenn til að stjórna framboði og eftirspurn heldur en markaðsöflin?

Félagi minn sem rak bókabúð í áratugi sagði mér frá því að fyrir margt löngu síðan, á tímum verðlagshafta, hafi honum dottið í hug að lækka kostnað skólabarna og auka jafnframt sínar tekjur með því að panta skólabækurnar milliliðalaust frá Noregi.  Bækurnar fengust á umtalsvert lægra verði sem gat aukið virði bæði seljanda og kaupenda.  En á þessum tímum var verðlagseftirlit sem þýddi að stjórnmálamenn höfðu sett í lög að ekki mætti leggja nema 13% á vöru í smásölu.  Framkvæmdavaldið sá síðan um að passa upp á kaupmenn og verðlagseftirlitsmenn renndu fimum fingrum yfir tölur til að tryggja hag viðskiptavinanna.  Í þessu tilfelli vildi eftirlitið ekki viðurkenna aukinn kostnað kaupmannsins af því að panta vöruna beint frá útlöndum og ekki mátti leggja meira á hana en umrædd 13%.  Það dugði ekki fyrir kostnaði þannig að kaupmaðurinn endurtók ekki leikinn næsta haust og bæði seljandi og kaupandi báru skarðan hlut frá borði.  Í þessu kerfi var markaðinum ekki treyst til að gæta hagsmuna neytenda og stjórnmálamenn taldir betri til þess fallnir.  Ekki var búið að finna upp samkeppnina á Íslandi.

Samkeppnislög.

Hér áður fyrr skiptu fyrirtæki markaðinum á milli sín.  Olíufélögin voru gott dæmi um þetta enda starfa þau á fákeppnismarkaði.  Til að tryggja samkeppni milli þeirra settu stjórnmálamenn almenn lög sem koma eiga í veg fyrir samráð aðila.  Allt er þetta gott og blessað enda menn farnir að átta sig á því að markaðöflin eru mun betur til þess fallinn að stjórna framboði og eftirspurn en hið opinbera. 

Það var því merkilegt að fylgjast með því, að þeir sem hæst láta út af markaðöflunum og telja þeim allt til foráttu, gengju harðast fram í kröfum um að fyrrum framkvæmdastjórar olíufélaganna skyldu fá makleg málagjöld.  Allt í einu voru markaðöflun orðin góð en verðsamráðið orðið vont.  Herða eigi viðurlög og stórauka Samkeppnisstofnun sem eftirlitsaðila á markaði.  Sem sagt að tryggja og smyrja vél markaðsaflanna.  Greinarhöfundur er loksins orðin sammála vinstri mönnum í þessari umræðu.

Markaðurinn miskunnarlausi.

Misskilningurinn er einmitt fólginn í því að markaðurinn er ekki grimmur.  Hann er hinsvegar óvæginn og hann hefur ekki tilfinningar.  Sem betur fer.  Málið er að þegar blandað er inni markaðinn tilfinningum og réttlæti byrjar spillingin.  Það útlokar hinsvegar ekki almennar aðgerðir eins og að lækka skatta á matvöru eða barnafötum.  Það útlokar hinsvegar að stjórnmálamenn séu þátttakendur í framboði og eftirspurn.

Dæmi um slík áhrif voru ríkisbankarnir.  Í staðinn fyrir að hinn miskunnalausi markaður réði ríkjum og bankastjórar láni þeim sem líklegir eru til að geta greitt lán sín til baka, sóttu menn um lán til þingmanna.  Sérstök hilla var í Alþingi þar sem frammi lágu víxlar frá öllum ríkisbönkunum þremur, til að auðvelda þingmönnum fyrirgreiðslu við kjósendur.  Þetta fyrirkomulag var enn við líði þegar vinur minn Einar Kristinn kom fyrst á þing.

Sjávarútvegsklasi Vestfjarða.

Sjávarútvegsklasi Vestfjarða berst fyrir því að ríkið niðurgreiði sjóflutninga um 150 milljónir króna á ári.  2. febrúar s.l. áttu fulltrúar nær allra sveitafélaga á Vestfjörðum fund með 5 ráðherrum ríkisstjórnar þar sem þetta var aðal krafan.  Eftir harðan lobbíisma Klasamanna heimtuðu sveitarstjórarmennirnir að aftengja markaðslögmálið og ríkið sæi til þess að strandflutningar yrðu hafnar að nýju.  Ekki verður í fljótheitum séð hvernig hinn almenni íbúi fjórðungsins væri betur kominn eftir slíka aðgerð.

Fyrirgreiðsla er vond og kallar á spillingu.  Henni fylgir samfélagslegt tap þar sem einstaklingar hagnast á kostnað heildarinnar.


Réttlæti og ábyrgð

rustir_3

Réttur og ábyrgð

Tvennt hefur vakið sérstaka athygli mína í umræðum á undanförnum vikum.  Annars vegar þegar því er haldið fram að einhver eigi rétt á hinu eða þessu og hinsvegar þegar talað er um ábyrgð stjórnmálamanna. 

Það sé réttur okkar til að búa á einhverjum tilteknum stað og það sé hlutverk ríkis eða sveitarstjórnar að sjá til þess að við njótum allra þeirra lystisemda sem nútímasamfélagið býður upp á, hvar sem okkur dettur í hug að búa.  Ég er að velta því fyrir mér hvaðan þessi réttur sé kominn og hvernig hann hafi orðið til.  Hversu langt nær hann?  Er hann bundinn við Íslenska landhelgi eða Evrópskt efnahagsvæði?  Hefur Pólverji sem kemur til landsins þennan sama rétt eða er hann bundinn við íslenskt ríkisfang.  Ekki getur þessi réttur verið meðfæddur þar sem allir jarðarbúar ættu þá að fæðast með sama rétt.  Rétturinn hlýtur því að vera bundinn við að fæðast á Íslandi.

Í hinn staðinn er mikið talað um ábyrgð stjórnmálamanna og yfirvalda.  einhver sagði að stjórnvöldum væri ekki að mestu kennt um stöðu byggðar á Vestfjörðum, heldur alfarið.  Við sem einstaklingar berum því enga ábyrgð á okkur þar sem stjórnmálamenn eiga alfarið að sjá um það. 

Stjórnmálin

Í mínum huga kjósum við einstaklinga á þing til að setja okkur lög.  Það eru síðan þingmenn sem koma sér saman um ríkisstjórn sem er framkvæmdavaldið.  Dómstólar sjá síðan um að skera úr álitamálum sem upp kunna að koma í túlkunum á lögum.  Megin tilgangur  ríkisvaldsins er að tryggja öryggi þegnanna, halda uppi lögum og reglum og tryggja almennar leikreglur í samfélaginu.  Aðal málið er þó að þeir eru þarna fyrir okkur íbúana, en við ekki fyrir þá. 

Fólk sem ákveðið hefur að byggja húsin sín í nábýli hver við annan kemur sér saman um stofnun sveitarfélags og kýs pólitíska fulltrúa til að fara með ákvörðunarvald.  Vinna að sameiginlegum hagsmunum eins og vatnsveitu, grunnskóla vegagerð o.s.fr.

Þetta stagl um ábyrgð stjórnmálamanna minnir mig stundum á hefðarhyggju sem uppi var á miðöldum, fyrir tíð lýðræðis og frelsi einstaklingsins.  Lýðurinn var undirgefinn yfirstéttinni sem tók vald sitt frá guði.  Góðviljaður aðallinn hélt lífi í undirsátum, en ekkert meira en það.  Það þurfti að svelta þessa ræfla til að þeir nenntu að vinna og þeir voru of heimskir til að læra. 

Í dag sitja menn og nöldra yfir stöðu sinni og nú er stjórnmálamönnum kennt um sem eru þá komnir í stað aðalsins.

Íhaldsmenn

Það var ekki fyrr en með upplýsingaröldinni og komu frjálshyggjumanna sem trúðu á einstaklinginn og frelsi hans, að þetta fór að breytast.  Mikilvægast var framtak Adam Smith sem skrifaði ritverkið ,,Auðlegð þjóðanna" og ruddi brautina fyrir frjálshyggju og auðhyggju, en íhaldsmenn eru þeir sem halda í þau gömlu og góðu gildi sem hann byggði á.  Meðal annars lagði Adam Smith, sem var mikill mannvinur, áherslu á að allir fengju tækifæri til að læra, óháð efnahag.  Hann sagði að samfélagið hefði ekki efni á að njóta ekki hugvits og framtaks fátæka mannsins.

Vissulega er réttlæti viðfangsefni stjórnmálanna.  Ákveðin réttindi eru tryggð og ríkið jafnar stöðu manna með skatttekjum sem notaðar eru til að greiða ýmsa þjónustu.  Reynt er að tryggja möguleika á menntun, heilsugæslu, lágmarks samgöngum o.s.fr.  En ríkisvaldið getur ekki tryggt rekstur ákveðinna fyrirtækja eða komið í veg fyrir þróun. 

Hnignun byggða

Hnignun landsbyggðarinnar byrjaði upp úr 1950 þegar bílaeign jókst og farið var út í vegagerð í stórum stíl.  Á þessum tíma bjuggu 3000 mans á Siglufirði en bærinn lá vel við síldarmiðum og ekki síður við fraktskipum.  Utanlega á Tröllaskaga en löng sigling var inn Eyjafjörð.  Í dag búa tæplega 1500 mans á Siglufirði og fer fækkandi.  Það er hægt að kenna stjórnmálamönnum um ef menn vilja finna blóraböggul, en ástæðan er þróun samgangna.

Staður eins og Ísafjörður getur átt möguleika ef þróun samgangna nær til bæjarins.  Að samgöngur verði með þeim hætti að fólk almennt sætti sig við það.  Eins má benda á nýja þróun sem eru þjóðvegir netsins.  Allt bendir til að Ísfirðingar njóti réttlætis hvað það varðar og gæti bætt stöðu okkar í samkeppni um fólk.

Hvar viljum við búa

Það er hinsvegar fráleitt að kenna stjórnmálamönnum alfarið um hnignun byggða.  Hvort heldur eru í landsmálum eða sveitarstjórnum.  Þeir geta vissulega haft áhrif en önnur sterkari öfl eru að verki.  Fólkið sjálft velur hvar það vill búa og spyr ekki stjórnmálamenn um það.  Ef einhver telur hag sínum betur borgið í Reykjavík en á Ísafirði, þá hefur hann fullt leyfi til að flytja þangað.  Sem betur fer.


Að takast á við breytingar

R-polar-star

Ólína Þorvarðardóttir skrifaði góða grein í B,B. í síðustu viku um Háskóla á Ísafirði.  Ólíkt bölmóðinum sem hefur dunið yfir okkur Ísfirðingum voru þar settar niður raunhæfar tillögur á jákvæðum nótum.  Tillögur sem gefa okkur von um að ná vopnum okkar og takast á við þær breytingar sem eiga sér stað í samfélaginu.

Shiran Þórisson hefur sett fram hugmyndir um öflugan fjárfestingasjóð sem gæti orðið afl til að ýta undir nýsköpun og einstaklingsframtak á Vestfjörðum.  Þær eru þess virði að kynna þær fyrir stjórnvöldum í viðræðum um framtíð Vestfjarða.

Miklir möguleikar gætu verið í veiðarfærarannsóknum og Ísfirðingar eru leiðandi á Íslandi í þorskeldi.  Þorskeldi gæti margfaldast en mikil vinna liggur fyrir í þróun og rannsóknum í þeim efnum.  Hugmyndir Shirans gætu skipt sköpum í að ryðja slíkri atvinnugrein braut og miklir möguleikar eru fólgnir í tengdum atvinnugreinum, eins og rannsóknum og þróun búnaðar.  Þorleifur Ágústsson lét þá skoðun sína í ljós á borgarafundi um atvinnumál að tíu til tuttugu manns gætu haft atvinnu af rannsóknum tengdum fiskeldi á Ísafirði.

Ábyrgir aðilar hafa kosið að setja flutninga á oddinn í viðræðum við ríkisvaldið um framtíð Vestfjarða, og þá fyrst og fremst áætlanasiglingar með skipum.  Þær hugmyndir byggja á veikum grunni og munu ekki koma Vestfirðingum til bjargar.  Nemandi við Háskólann á Akureyri er að skrifa B.Sc. ritgerð um flutninga milli Ísafjarðar og Reykjavíkur og hefur reynt að koma upplýsingum til þessara aðila á framfæri, en enginn áhugi er fyrir því.  Það er búið að finna sannleikann og óþarfi að fá önnur sjónarmið inn í umræðuna.

Ef flutningkostnaður er sá baggi á heimilum og fyrirtækjum sem lagt er upp með í þessari umræðu þá hlýtur það að vera vandi á landsvísu, ekki sértækur vandi okkar Vestfirðinga.  Umræða á þessum nótum hlýtur að fæla fólk frá að flytjast búferlum hingað vestur því að látið er að því liggja að flutningskostnaður hér sé hærri en annars staðar á landinu. Sú fullyrðing er ekki rétt.

Fyrir utan menntun og þekkingu eru samgöngur mikilvægastar fyrir Vestfirðinga.  Ekki bara flutningar.  Á meðan aksturvegalengd til höfuðborgarinnar er 525 km yfir vetrar tímann verður erfitt að fá fólk til að flytja til Ísafjarðar.  Fólk með nauðsynlega þekkingu þarf til að byggja upp þróttmikið atvinnulíf.  Án samgöngubóta mun ferðaþjónusta aldrei ná sér á strik, en sýnt hefur verið fram á bein tengsl milli vegalengdar frá Reykjavík og nýtingu á hótelum.

Undirritaður hefur reiknað út það hagræði sem væntanlegar samgöngubætur gætu skilað íbúum á norðanverðum Vestfjörðum.  Sérstaklega munar um styttingu á meðal vegalengd, sem er 42 km, en einnig munar um að losna við erfiðustu kafla leiðarinnar í dag og þungatakmarkanir.  Ennishálsinn er mesti farartálminn fyrir flutninga og vegurinn um Standir sá hættulegasti en leiðin mun ekki liggja þar um eftir september 2008.  Beinn kostnaður við flutninga gæti lækkað um allt að 20%.  Enginn áhugi er fyrir þessum staðreyndum hjá ábyrgum aðilum og sjá má í viðtölum í fjölmiðlum að væntanlegar vegabætur spari óverulega í flutningskostnaði.

Bætt stjórnsýsla gæti skilað Ísfirðingum verulegum hagsbótum.  Að geta sinnt meiri þjónustu fyrir sama pening er gríðarlega mikilvægt.  Auka framleiðni í stærstu skipulagsstofnun bæjarfélagsins er mikilvægt.  Ísafjarðarbær ætti að ganga á undan öðrum með góðu framtaki í stjórnun og nýta sér menntun og þekkingu. 

Öflugur háskóli og rannsóknasetur gæti verið sá grunnur sem nýtt samfélag á Ísafirði gæti byggt á.  Þeir sem takast á við breytingar og aðlagast munu lifa af.  Gömlu hugmyndirnar og bölmóðurinn munu ekki skila Vestfirðingum fram á veginn.


Erotic og kvenréttindi

eroticerotic

Klámaldan ríður yfir okkur Íslendinga þessa daganna.  Ég er fullur iðrunar yfir þeim kvöldstundum á Hótel Sögu þegar maður kveikti á bláu myndinni sem boðið hefur verið upp á síðan 1986 á herbergjum þess.  Ég áttaði mig ekki á þeim hryllilega glæp sem ég var að fremja.  En ég væri reyndar ekki hissa þó hægt væri að sjá fólkið, sem Bændasamtökin (eigendur Hótels Sögu) meinuðu aðgangi að hótelinu á dögunum, með því að kveikja á bláu rásinni í sjónvarpinu.  Góð hugmynd fyrir blygðunarlausa Íslendinga sem vilja sá hvernig þessar hræðilegu klámstjörnur líta út.

Í fullri alvöru þá var þessi uppákoma ein af þeim sem fær mig til að skammast mín fyrir land og þjóð.  Að málið skyldi ná til Alþingis og vera rætt þar á þeim nótum að alþingismenn teldu sig þurfa að verja svartan almúgann fyrir þessu ,,hræðilega" fólki.

Á svipstundu var blandað saman erótík, klámi, barnaníðingum, nauðgurum og öllu því sem mögulegt er að tengja við kynlíf.  Þetta er auðvitað fáránlegur málflutningur og eins hægt að blanda tísku, snyrtivörum og ástarsögum inn í málið, sem tengjast kynlífi sterkum böndum.  Nú er farið að blanda jafnréttisbaráttu kynjanna inn í umræðu um klám, sem ég skil ekki því þær myndir sem ég haf séð voru bæði með karla og konur.

Ég vil taka því fram að ég er einharður jafnréttissinni.  Ég get ekki verið annað trúandi á frelsið.  Það samrýmist ekki hugsjónum frjálshyggjumanna að karlmenn undiroki konur, sem þeir hafa vissulega gert í gegnum tíðina.  Hinsvegar hef ég enga trú á boðum og bönnum með lagasetningum í málinu.  Setja kynjakvóta sem geta aldrei annað en valdið miklum vandamálum og gert fólk afhuga því sem raunverulega skiptir máli.  Að það takist að breyta hugafarinu í samfélaginu þannig að konur hafi sömu tækifæri og karlar.

Fæðingarorlof okkar Íslendinga er einstakt í veröldinni og mun verða öðrum þjóðum til eftirbreytni.  Megin markmiðin með lögum um feðraorlof er að jafna aðstöðu kynja til starfsframa og styrkja fjölskylduna í samfélaginu.  Ef karlar taka sér fæðingarorlof munu vinnuveitendur hætta að líta á vandamálið í tengslu við konur.  Að það verði ekki bundið við konur að þurfa að hætta vinnu tímabundið til að eiga börn.  Karlarnir munu gera það líka þannig að þessi aðstöðumunur, sem er ein af megin orsökum þess að konur eiga undir högg að sækja á vinnumarkaði, mun hverfa.  Hinsvegar er mikilvægt að karlmenn nýti sér þennan rétt og á réttan hátt.  Noti þann tíma sem þeir eru í fæðingarorlofi til að vera með börnum sínum.  Gefa barninu tækifæri til að alast upp með báðum foreldrum og sinna þessu mikilvægasta hlutverki mannsins, að koma erfðarefninu áfram.

Ég hafna þeirri fyrirhyggju sem kristallast í umræðu sumra femínista um þessi mál.  Ég hafna því að nauðsynlegt sé að setja fleiri lög um þessi mál og tel viðhorfsbreytingu hjá almenningi vera réttu lausnina.  Þó hún sé hægfara hefur það gefið góða raun hingað til en miklar breytingar hafa átt sér stað á undanförnum árum.

Ég hafna fyrirhyggju þeirra stjórnmálamanna sem vilja setja lög um alla skapaða hluti.  Ég hafna því að lögjafarsamkunda þjóðarinnar sé notuð til siðvenda þjóðina.  Það er algjör óþarfi.  Við setjum lög um það sem nauðsynlegt er til að halda uppi lögum og reglum og treystum síðan gildismati þjóðarinnar fyrir siðferðilegar ákvörðunartökur. Þjóðin þarf ekki leiðbeiningar um það frá Austurvelli.


John Maynard Keynes, Almenna kenningin um atvinnu vexti og. Sjötíu árum síðar

John Maynard

Á þessu ári eru 70. ár liðin frá útgáfu Almennu kenningarinnar um atvinnu,vexti og peninga.

Bókin hafði mikil áhrif  og höfundurinn , hagfræðingurinn John Maynard Keynes, hefur verið talin einn af áhrifamestu einstaklingum síðustu aldar.

John Mayn Keynes fæddist í Cambridge á Englandi 1883, sonur hagfræðings og prófessors við Cambridge háskóla, John Neville Keynes.  Hann fékk fyrsta flokks menntun frá Eton og Cambridge en áhugamálin spönnuðu vítt svið. Hann féll illa að staðlaðri fyrirmynd hagfræðinga samtímans enda margt sem fangaði huga hans, t.d. listir, en hann gekk undir gælunafninu ,,listvinurinn" meðal samnemanda sinna í Eton og Cambride.  Sem ungur maður stundaði hann embættismannastörf fyrir bresk yfirvöld, m.a. hjá landstjóranum á Indlandi.  Hann var snjall fjármálamaður enda var hann vel efnum búinn þegar hann lést árið 1946..

Hann var mikilvirkur í listalífi Lundúna, og í vinfengi við marga þekktustu listamenn landsins í gegnum svokallaðan Bloomsburry hóp. Þar kynntist hann meðal annars Virginíu Wolf, George Bernhard Shaw og Duncan Grant listmálara en við hann átti Keynes í ástarsambandi framan af ævi.

Þegar heimsstyrjöldin fyrri skall á var hann kallaður til starfa hjá breska fjármálaráðuneytinu sem tryggði honum stöðu í nefnd sem fór til Parísar til að ganga frá Versalasamningunum við uppgjöf Þjóðverja eftir fyrri heimstyrjöldina. Eftir heimkomu þaðan gagnrýndi hann einstrengingslegar kröfur sigurvegaranna, Frakka, Breta og Bandaríkjamanna, og varaði við gríðarlegum stríðsskaðabótum sem Þjóðverjum var gert að greiða.  Hann taldi að þær myndu einungis ýta undir ofstæki og skapa jarðveg fyrir öfgahópa. Hann gerði friðarsamningunum skil í bók sem hann nefndi ,,Hinir hagrænu afleiðingar friðar" og eftir seinni heimstyrjöldina voru viðvaranir Keynes hafðar að leiðarljósi  við uppgjöf Þjóðverja.

Eftir seinni heimstyrjöldina var hann formaður bresku sendinefndarinnar á ráðstefnu í Bretton Woods í New Hampshire í Bandaríkjunum, þar sem Alþjóða gjaldeyrisjóðurinn og Alþjóðabankinn voru stofnaðir.  Á ráðstefnunni var gerður sáttmáli um að auka milliríkjaverslun með því að draga úr viðskiptahindrunum landa á milli, en til að það tækist varð að draga úr verndarstefnu ríkja milli ríkja.

Í ræðu sem Keynes flutti á Breska þinginu í desember 1945, hálfu ári áður en hann lést, sagði hann eftirfarandi um Bretton Woods samkomulagið:

,,tillögur varðandi gjaldmiðla og viðskipti eru  miðaðar við að halda jafnvægi, með því að leyfa ýmsar verndarráðstafanir þegar þeirra er þörf og banna þær, þegar þeirra er ekki þörf. Það sem einkennir þessar fyrirætlanir er að tengja saman helstu kosti verslunarfrelsis við óheillavænlegar afleiðingar laissez-faire. Enda tekur það ekki beinlínis tillit til varðveislu jafnvægis og treystir einvörðungu á ferli blindra afla. Hér er því um tilraun að ræða þar sem við notum það sem við höfum lært af reynslu samtíðarinnar og skilgreiningu nútímans, en ekki til að hnekkja heldur til að efla visku Adams Smiths"[1].

Það er þó fyrir bókina ,,Almennu kenningarinnar um atvinnu vexti og peninga" sem  Keynes verður fyrst og fremst minnst.  Bókin hefur oft verið kölluð upphaf þjóðhagfræði en þar leit höfundur yfir heildarsviðið, allt hagkerfið, í stað þess að einblína á einstakar atvinnugreinar, fyrirtæki eða heimili við útskýringar á virkni hagkerfisins.

Bókin  sem kom út í skugga kreppunnar miklu sem í kjölfar verðfallsins á Wall Street 1929 setti hagkerfi heimsins á hliðina.  Í  kjölfar kreppunnar fylgdi óskaplegt atvinnuleysi sem olli sárri fátækt í Bandaríkjunum og víðar á vesturlöndum.  Á þessum tíma þekktust atvinnuleysisbætur ekki og kröppum kjörum alþýðu fylgdi mikil ólga þar sem öfgafullum stjórnmálaöflum óx fiskur um hrygg. 

Klassískir hagfræðingar (Íhaldsmenn) höfðu boðað afskiptaleysi stjórnavalda, ,,laissez fair", allt frá dögum Adam Smith og vildu margir kenna ófullkomnleika þeirrar stefnu um kreppuna og getuleysi (viljaleysi) stjórnvalda til að taka á málum. Í framhaldi af verðfallinu 1929 varð sjóðþurrð hjá bönkum sem olli mikilli skelfingu og fólk þyrptist í banka til að taka út peninga.  Þetta var fyrir þá tíð að seðlabankar tryggðu bönkum ávallt nægilegt fjármagn til að greiða út innistæður.

Þrátt fyrir að Keynes teldi sig tilheyra borgarastéttinni og aðhylltist auðhyggju (kapítalisma) taldi hann að frjálshyggjan hefði siglt í strand og aðferðir Íhaldsmanna dygðu ekki til að koma efnahagskerfinu upp á sporið að nýju.  Hann taldi sig reyndar vera að bjarga auðhyggjunni með hugmyndum sínum, en gagnrýni hans á ríkjandi stefnu, frjálshyggju og afskiptaleysi ,,laissez fair", var hörð og óvægin.

Hann trúði því að með aðgerðum sínum gætu stjórnvöld komið hjólum efnahagslífsins á stað aftur og benti sérstaklega á vangetu Íhaldsmanna til að leysa atvinnuleysi og gagnrýndi hugmyndir þeirra um að hagkerfið væri ávallt í jafnvægi á fullum afköstum, sem það taldi Keynes  að gæti alls ekki staðist.

Keynes hélt því fram að laun breyttust með öðrum hætti en vörur vegna hugmynda launþega um réttlæti og með samtakamætti og stéttaátökum kæmu þeir í veg fyrir launalækkun.  Hinsvegar með því að ríkið auki framkvæmdir og umsvif sín í hagkerfinu og bæti við peningamagni í umferð, valdi það verðbólgu sem lækki raunlaun og fyrirtæki sjái sér hag í að ráða fólk í vinnu.  Þannig að framleiðsla eykst með minkandi atvinnuleysi og einnig valdi þessi innspýting ríkisins inn í hagkerfið aukinni bjartsýni á framtíðina sem auki fjárfestingu og auki hagvöxt.  Sérstaklega eigi þetta við á krepputímum en afskiptaleysi stjórnvalda á slíkum óvissutímum sýni aðeins hversu máttvana klassísk hagfræði er til að takast á við slíkan vanda.  Það var meðal annars haft eftir honum að það gæti borgað sig fyrir ríkið að láta verkamenn moka skurði og síðan fylla þá upp aftur.

Segja má að í þessu kristallist ágreiningur Keynes við klassíska hagfræðinga, sem höfnuðu pólitísku inngripi í hagkerfið og vildu láta markaðinn leysa hagfræðileg mál.  Keynes aftur á móti vildi nota auðhyggjuna eftirspurnarmegin í hagkerfinu (gefa fyrirtækjum gott svigrúm) til að framleiða á sem hagkvæmasta hátt, en pólitík til að dreifa afrakstrinum framboðsmegin (ríkið auki hlutdeild sína í hagkerfinu) þar sem gæðunum er útdeilt. 

En Keynes vildi ganga lengra og lagði til ,,félagslega fjárfestingu" þar sem ríkið ætti að auka hlutdeild sína í hagkerfinu með beinum fjárfestingum í atvinnulífinu .  Hann taldi sig ekki vera að leggja til sósíalisma með þessu heldur væri þetta eina leiðin til að koma á jafnvægi fullrar atvinnu og hámarks framleiðslu, sem hann taldi frjálshyggjuna ófært um að gera. 

Bók Keynes um Almennu kenninguna hafði mikil áhrif í heimi hagfræðinnar og á hið pólitíska andrúmsloft.  Margt af því sem þar kemur fram hefur eflaust hljómað vel í eyrum stjórnmálamanna eins og réttlæting á peningaprentun, aukinni skattlagningu og áhrif stjórnmálamanna á framboðshlið hagkerfisins.  Einnig eru viðbrögð klassískra hagfræðinga, en hugmyndir þeirra höfðu verið ráðandi á vesturlöndum um langt skeið skiljanleg.  Bókin réðst harkalega að kenningum frjálshyggjumanna og dregur þá oft sundur og saman af háði enda textinn einharður og miskunnarlaus.

Margar þjóðir vesturlanda tóku upp hugmyndafræði Keynes til að leysa kreppu og í kjölfarið fylgdi mesta hagvaxtarskeið mannkynssögunnar.  Margir voru hinsvegar til að gagnrýna þessar kenningar og fór þar félagi og samtímamaður hans austurríkismaðurinn Fredrik Ágúst von Hayak einna fremstur í flokki.  Einnig deildi Milton Friedman prófessor við Chicago háskólann ákaft á kenningar Keynes, en hann hafði aðra skýringu á kreppunni miklu sem hann skýrði með mistökum seðlabanka Bandaríkjanna að tryggja ekki bönkum fé og skorti á peningum í umferð.  Á sama hátt varaði hann við lausbeislaðri peningamálastefnu og auknum ríkisafskiptum sem leiða myndu til verðbólgu og skuldasöfnunar ríkissjóðs.  Aðrir kennismiðir í anda Keynes höfðu fundið út að hægt væri að auka atvinnu (minnka atvinnuleysi) með því að auka verðbólgu aðeins og komin var töfraformúla til að auka hagvöxt og velsæld í heiminum.

Í lok sjötta áratugarins voru vesturlönd komin í þrot þar sem bæði verðbólga og atvinnuleysi fóru úr böndunum ásamt meiri viðskiptahalla en áður hafði þekkst.  Keynes lifði ekki þessa daga en margir hafa bent á að ósanngjarnt sé að gera kenningar hans að blóraböggli í því máli. Það varð þó til þess að íhaldsmenn náðu aftur vindi í segl sín og nýjir tímar tóku við með Thatcher og Reegan.  Í dag má segja að ríkjandi kenningar í hagfræði séu Ný- Keynesismi og Ný - klassísk.  Þó nefna megi Peningastefnu (Monetarisma) með Milton Friedman í fararbroddi.   

Gunnar Þórðarson og Indriði Indriðason 


[1] ,The balance of Payments of the United States",The Economic journal, Vol.LVI.júni 1946,bls 185-186. þýðing Haraldur Jóhannsson í Heimskreppa og Heimsviðskipti (1975)


Frelsið

Frelsisstyttan

Sjálfstæðismenn þurfa að verja frelsið.  Flokkurinn byggir á hugyndum um einstaklinginn og frelsi hans.  Í stefnuskrá flokksins segir m.a. "Svigrúm og athafnafrelsi fólks og fyrirtækja verður best tryggt með lágmarksafskiptum hins opinbera,,   Þetta er kjarni málsins.

Það eru sterk öfl sem vilja ganga hina leiðina.  Gegn frelsinu þar sem forsjárhyggjan ræður ríkjum og stjórmálamaðurinn telur sig vera betur til þess fallin að taka ákvarðanir en einstaklingurinn.  Að vísu hefur stjórn undir forystu sjálfstæðismanna gengið töluvert gegn þessu með breytingum á regluverki og einkavæðingu, og árangurinn lætur ekki á sér standa.

En miklu meira þarf til.  Við sjálfstæðismenn þurfum að skoða ræturnar og fyrir hvað við stöndum.  Átta okkur á því að ásamt öðrum vesturlandabúum og stórum hluta Asíuríkja, höfum við byggt upp velmegun sem aldrei fyrr hefur þekkst í sögum mannkyns.  Við höfum byggt þessa velmegun með auðhyggju (kapítalmisma), frjálshyggju (frelsi einstaklingsins) og afskiptaleysi stjórnmálamanna (laissez fair)

Þetta eru hugmyndir íhaldsmanna (þíðing úr Classical Economies) sem Sjálfstæðisflokkurinn er einmitt reystur á.

En hvað með það?  Hvað ber okkur að gera sem sjálfstæðismenn sem vilja frelsi með lágamarks afskiptum hins opinbera?

Við skulum byrja á að viðurkenna hverjir við erum og fyrir hvað við stöndum.  Berjast gegn hverskonar leitni stjórnmálamanna til að svifta okkur frelsi með forsjárhyggju.  Reysum við hugmyndir eins og auð- og frjálshyggja sem misvitrir stjórmálamenn, jafnvel úr okkar eigin röðum, hafa úthrópað. 

Málið er að ef sjálfstæðismenn berjast ekki gegn forsjárhyggjunni þá mun engin gera það.  Við eigum einnig að berjast fyrir því að einstaklingar beri sjálfir ábyrgð á sér.  Það eru ótrúlega sterk öfl sem vinna á hinn vegin í dag og nauðsynlegt að spyrna við fótum.  Það eiga sjálfstæðismenn að gera.  Látið ekki slá ryki í augu ykkar með fullyrðingum um innan íhaldsstefnunnar felist alger miskipting og þar sé ekki gert ráð fyrir öryggisnetum fyrir þá sem minna mega sín.

Sameinumst um að viðhalda frelsinu og höfnum forsjárhyggjunni.  Berjumst fyrir því sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir, óhikað og grímulaust.  Krefjumst þess að einstaklingar hafi frelsi til orðs og athafna og beri jafnframt ábyrgð á eigin lífi.


Trukkar í ESB

ESBÞað er alltaf jafn slæmt þegar menn hafa fundið sannleikann og eiga ekkert eftir nema að sýna fram á hann.  Slíkir menn lenda oft í ógöngum enda kynna þeir sér ekki málin áður en vaðið er af stað og láta gamminn geysa.

Bæjarstjórinn í Bolungarvík skrifar á heimasíðu sína grein undir nafninu ,,Bóklærð frjálshyggja úr tengslum við raunveruleikann"  Ekki skýrist nafnið af innihaldinu en efnið ber keim af vanþekkingu og væri kannski gott að kíkja svolítið í bækurnar.

Ekki má rugla saman átaki ESB í að leysa gríðarlegan umferðarvanda á vegum Evrópu og byggðamálum.  Með stækkandi Evrópusambandi í austur hafa nýir markaðir opnast og enn aukist umferðin þaðan til markaðsvæða í vestri.  Sérstaklega er vandinn mikill í kringum Alpana, norður Ítalíu og suður Bretlandi.  Á sama tíma hefur notkun einkabílsins stóraukist og er orðin nokkurskonar frelsistákn nútímamannsins.

Eitt mikilvægasta atriðið í þessu vandamáli er að láta þá borga sem valda kostnaði.  Svisslendingar tóku upp háa gjaldtöku á flutningabíla sem fara um þeirra vegi, rúmlega það sem þeir valda, og nota afganginn í eitt mesta samgöngumannvirki álfunnar sem eru lestargöng undir Alpana.  Þjóðverjar hafa tekið upp GPS tækni til að láta flutningabíla greiða mismunandi gjald eftir því hvar þeir eru og hversu miklum kostnaði þeir valda.  Vandamálið er að vita hver kostnaðurinn er og hvernig á að láta greiða fyrir hann.

Í Hvítbók, stefnumótun ESB í samgöngumálum, er talað um að stefna að gjaldtöku miðað við jaðarkostnað.  Þetta er hagfræðilegt skilgreiningaratriði og örugglega bara fyrir bóklærða frjálshyggju menn að meðtaka.  En hugmyndin á bak við jaðarkostnað er að hver greiði þann þjóðhagslega kostnað sem hann veldur.  Þetta hefur ekki virkað vel hingað til þar sem ekki hefur verið innheimtur kostnaður vegna mengunar, slysa og örtraðar.  Svokallaðs yrtir kostnaðar.

Ef hægt verður að finna aðferð til að meta ytri kostnað og síðan að innheimta hann munu flutningaleiðir og umferðarmannvirki hafa þær tekjur sem þjóðhagslegur kostnaður við rekstur þeirra er.  Slíkt er ekki uppi á teningnum í ESB miðað við þær rannsóknir sem hafa verið gerðar.  Umferð á vegum er ekki að greiða það sem henni ber en sjóflutningar að greiða rúmlega það sem þeim ber.  Slíkt réttlætir Marco Polo áætlunina sem er styrktaáætlun til að ná fram stefnu samkvæmt Hvítbók.

Ein af afleiðingum jaðarkostnaðar reglunnar er að kostnaður við akstur í þéttbýli mun hækka mikið en lækka í dreifbýli.  Bent er á röksemdum Framkvæmdastjórnar ESB að það geti nýst jaðarsvæðum vel og lækkað flutningkostnað þeirra.

Á Íslandi er gjaldtakan hærri og séu þessar rannsóknir staðfærðar á okkar aðstæður má ætla að umferð sé að greiða þann kostnað sem til fellur.

Hvítbók er stefnumótun ESB til ársins 2012 og þar eru sett tímamörk á aðildarríki í Evrópsku efnahagsvæði, sem Ísland er aðili að, að reglur um jaðarkostnað verði komnar á fyrir árslok 2008 og gjaldtaka taki mið af þjóðhagslegum kostnaði fyrir árið 2012. 

Það er einfaldlega þjóðhagslega hagkvæmt að þeir greiði sem valda en niðurgreiðslur á einni flutningagrein umfram aðra  dregur úr skilvirkni.  Ef flutningskostnaður með skipum er hagkvæmur mun hann verða notaður.  Sérstaklega eftir að nýjar reglur taka gildi.

Hróp og köll eins og Grímur notar er ekki gott innlegg í þessa umræðu og varla getur hann verið óssáttur við hlut síns bæjarfélags í samgöngu áætlun. 

Það er alltaf einfalt að kalla eftir ríkisstyrkjum og lenska þeirra sem lengst eru frá frjálshyggju.  Það mun ekki leysa vanda okkar Vestfirðinga en tækifærin liggja í bættum samgöngumannvirkjum og þeirri byltingu sem er að verða í vegamálum fjórðungsins.


Samgönguhagfræði

Samgöngur eru eitt af stóru málunum í pólitík landsmanna og mikið tekist á um þennan fyrirferðamikla málaflokk.  Það eina sem landsmenn eru t.d. sammála um í vegasamgöngum er að engin er ánægður með sinn hlut þegar kemur að uppbyggingu umferðarmannvirkja og telja sig hlunnfarna af stjórnvöldum.  Það er einna helst að íbúar á norðanverðum Vestfjörðum séu ánægðir, en þó alls ekki allir.  Ef marka má ummæli og skrif málsmetandi manna á svæðinu er alls ekki nóg gert fyrir þessi tæplega tvö prósent þjóðarinnar.  Öðrum landsmönnum vex í augum þessar miklu framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á næstu tveimur árum samkvæmt fyrirliggjandi samgönguáætlun, sem eru upp á rúmlega fjóra milljarða króna.

Þegar taka þarf ákvörðun um hvar eigi að fjárfesta í umferðamannvirkjum er tekið tillit til hagkvæmni, það er að segja hversu miklu hagræði væntanlegar framkvæmdi skila, og ekki síður réttlætis.  Auðvelt er að reikna út hagræði og nánast hægt með góðum forsendum að setja inn í Excel og reikna út niðurstöðu.  Venjulega myndu framkvæmdir þar sem flestir íbúar búa og mest umferðin er vera hagstæðastar.  Réttlæti er hinsvegar viðfangsefni pólitíkur og er miklu flóknari.  Réttlæti og sanngirni eru mjög háð gildismati og erfitt að höndla og útilokað að reikna út í töflureikni.

Það sama er uppi á teningnum þegar tekið er gjald fyrir notkun samgöngumannvirkja.  Skilvirkast er að láta alla notendur greiða gjald sem dugar fyrir þeim kostnaði sem þeir valda.  En hver er sá kostnaður og hvernig verður hann til?

Í dag er mikið talað um innri og ytri kostnað mannvirkja ásamt föstum og breytilegum.  Látum þá síðarnefndu sæta afgangi og skoðum aðeins þá fyrri, innri- og ytri kostnað.

Innri kostnaður er m.a. uppbygging og rekstur umferðamannvirkja.  Á síðasta ári nam sá kostnaður um 12 milljörðum króna.  Ytri kostnaður er hinsvegar óbeinn og er ekki tengdur því og fellur til óháð því hver notar vegina.  Þetta er kostnaður sem verður vegna loftslagsbreytinga (gróðurhúsalofttegundir), mengunar (staðbundin mengun), hljóðmengunar, slysa og vegna umferðateppu. 

Ef við skoðum þetta aðeins betur þá sjáum við að innri kostnaður verður mun meiri í dreifbýli þar sem færri bílar bera kostnað við fjárfestingu og viðhald.  Viðhald er nefnilega ekki bara af umferðinni heldur er verulegur hluti hennar vegna veðrunar, sem er óháð notkun.  Hinsvegar verður ytri kostnaður mun meiri í þéttbýli, því fyrir utan loftslagsbreytingar, sem eru óháðar staðsetningu, er kostnaður vegna mengunar, slysa og umferðateppu miklu hærri.

Í rauninni má segja að flutningabíll sem leggur af stað frá Reykjavík er að valda miklum ytri kostnaði í upphafi ferðar.  Hann veldur íbúum höfuðborgarinnar kostnaði í formi reyks og svifryks ásamt slysahættu og töfum vegna umferðarteppu.  Hinsvegar er innri kostnaður lágur enda mikil umferð að greiða niður fjárfestingar og viðhald mannvirkja.  Þegar bíllinn er kominn upp á Kjalarnes fer ytri kostnaður hríðlækkandi en sá innri stig hækkandi.  Við komuna í Djúpið þar sem innan við hundrað bílar aka daglega er ytri kostnaður mjög lágur.  Ekki er líklegt að bændur í Ísafjarðardjúpi pirri sig á reyk eða hávaða og í lítilli umferð er slysahætta yfirleitt minni og umferðarteppa engin.  Innri kostnaður hefur hinsvegar rokið upp úr öllu valdi.

Í umræðum um þessi mál er mikið talað um að láta þann borga sem notar en eins og að framan greinir er það ekki auðvelt mál að verðleggja með þeim hætti.  Í Evrópusambandinu er þegar farið að nota GPS tækni til að láta flutningabíla borga mismunandi verð eftir því hvar þeir eru og eins er farið að greiða sérstakt gjald fyrir akstur í stórborgum, t.d. Stokkhólmi og London.  Í Evrópusambandinu hafa rannsóknir sýnt að bílaumferð er ekki að greiða þann kostnað sem hún veldur, þ.e.a.s. samanlagt innri- og ytri kostnað.

Ef niðurstöður þessara rannsókna eru heimfærðar upp á Ísland virðist þó annað vera upp á teningnum.  Umferð hér á landi er að greiða um 25 milljarða á ári til ríkisins en  samfélagslegur kostnaður Íslendinga er nokkurn vegin sama upphæð.  Þetta kemur til af því að hér á landi eru bifreiðaeigendur að greiða mun hærri gjöld en nágrannar okkar í Evrópusambandinu.  Þessi gjöld eru í formi olíu- og bensíngjalds ásamt innflutnings- og bifreiðagjöldum.  Þar sem olíu- bensíngjald, sem er uppstaða af greiðslu fyrir notkun, er háð því hversu mikið er ekið virðist því vera um nokkuð skilvirka aðferð að ræða hér á landi.  Innheimtan er einnig réttlát þar sem þeir greiða sem nota.


Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 283910

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband