Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Kafli 5 - Endurfundir

Endurfundir

ApalloniaDaginn eftir árásina birtust félagar okkar Daddi og Nonni, sem við höfðum ekki heyrt né séð síðan á rauðu ljósi í Mílanó.  Það voru miklir fagnaðarfundir og frá mörgu að segja.  Sögur þeirra félaga eru efni í kafla útaf fyrir sig en nauðsynlegt er að sækja þær í uppsprettu sagnarbrunnsins, þeirra sjálfra.  Reyndar höfum við hlegið að þessum sögum í gegnum átatugi en rétt er að hafa þetta eftir þeim sjálfum.

Kvöldið sem þeir félagar birtust var heilmikil kynning hjá forráðamönnum samyrkjubúsins um nýskeða atburði og öryggismál sjálfboðaliðanna (voluntears),  Erlendir starfsmenn ganga undir því starfsheiti enda launin á kibbutz nánast engin.  Sjálfboðaliðarnir voru allra þjóða kvikindi,ungt fólk í ævintýraleit sem kom til að njóta dvalarinnar þar sem séð er fyrir helstu þörfum og leggja á sig hóflega vinnu í staðin.  Á fundinum var farið í gegnum hertar öryggisreglur og áttum við að setja upp vaktir á nóttinni til að verja gettóið, en hverfi sjálfboðaliðanna gekk undir því nafni.

Það rann upp fyrir okkur ljós á þessum fundi að margir á honum voru undir áhrifum illgresis sem ekki verður nefnt hér á nafn.  Salla rólegir og algerlega afslappaðir þrátt fyrir undangengna ógnaratburði og alvarleika umræðu fundarins.  Þar skárum við okkur úr fjöldanum ásamt mörgum öðrum að sjálfsögðu. 

Ein markverðasta saga þeirra félaga sem ég tek mér hér leyfi  til að segja frá var rómatísk nótt sem Daddi átti upp á dekki á skemmtiferðaskipinu Apallonia sem þeir félagar komu með frá Aþenu til Haifa í Ísrael.  Þetta var frönsk gyðja, ástrík með mikinn eldmóð, og hún varð umsvifalaust ástfanginn af þessum mikla víking frá Íslandi.  Hjalti sem alls ekki var í neinum trúlofunarhugleiðingum minntist ekki orði á hver áfangastaður hans væri í Ísrael og taldi víst að kveðjustund að morgni væri það síðasta sem hann sæi af hinni frönsku þokkagyðju.  Reyndar var hann svolítið ánægður með sig og taldi ævintýri við öldurgjálfur Miðjarðarhafsins undir tunglskini í næturkyrrð, væri ekkert annað en notaleg minning.

skipiðÞokkagyðjan franska

Síðdegis daginn eftir vorum við fjögur að leika okkur með frisbí disk og skutluðum honum á milli okkar.  Allt í einu hnippir Nonni í mig og bendir á dyraskörina á kofa rétt hjá okkur þar sem tvær stúlkur sitja, og hvíslar að mér að þarna sé sú franska komin.  Við ákváðum að gera svolítið at í Dadda og byrjum að kasta diskinum eins nálægt stúlkunum sem sátu þarna og fylgdust af athygli með leik okkar.  Allt í einu var þetta svo fyndið að við Nonni byrjum að hlægja.  Hláturinn stigmagnaðist samhliða því sem frisbídiskurinn fór nær og nær skotmarkinu.  Hjalti vildi endilega vita hvað væri svona fyndið og spurði okkur ítrekað hvers vegna við værum að hlæja.  ,,Leyfði mér að hlæja með strákar.  Hvað er svona fyndið?"  Ekki bætti þetta úr og við bókstaflega engdust um af hlátri en allt í einu hittum við með diskinn á milli fóta þokkagyðjunnar.  Hjalti hljóp og greip diskinn en þegar hann leit upp var ekki nema tvær tommur á milli andlita þeirra.

Hjalti varð alveg brjálaður og hljóp eftir okkur Nonna, sem áttu fótum okkar fjör að launa.  Hann var naut sterkur og ekki fyrir okkur að komast í hendurnar á honum reiðum.  Það var óskaplega erfitt að hlaupa með hláturinn kraumandi niður í sér en hræðslan varð yfirsterkari og við komumst undan meðan reiðin svall í æðum Hjalta.

Þokkagyðjan hafði einhvernvegin fundið út hvert för draumaprinsins var heitið og var búin að finna hann.  Hún varð góð vinkona okkar þó ekki næði hún ástum Hjalta.  Seinna kom hún til Íslands og heimsótti okkur og vann hjá Þórði Júl í saltfisk sumarið 1975.  Hún er ein vænsta manneskja sem ég hef kynnst um ævina og síðast frétti ég af henni giftri bakara í Austurrísku Ölpunum.

Írarnir

ÍralandÞarna voru tveir vinir frá Írlandi, Paul og John.  Þeir voru að sjálfsögðu ekkert fyrir illgresis og tókst með okkur góður vinskapur.  Eins og frönsku stöllurnar enduðu þeir á Ísafirði þar sem þeir unnu í tæpt ár í saltfiski hjá Þórði Júl.  Ég hef hitt þá nokkrum sinnum síðan en langt er um liðið síðan síðast.

Þeir voru kaþólikkar frá Dublin.  Ekkert sérlega trúaðir en vildu hafa vaðið fyrir neðan sig varðandi guð álmáttugan.  Á Írlandi fóru þeir á hverjum sunnudegi í kirkju, svona ef hann væri nú raunverulega til.  Hinsvegar væri lítið á sig lagt ef þeir kæmust að því eftir þetta líf að ekkert tæki við, en annars biði Himnaríki eftir þeim.

Þeir voru miklir business menn og fundu fljótlega út góða fjáröflunarleið.  Á hverju föstudagskvöldi, daginn fyrir sabath, sem er sunnudagur gyðinga, var heilmikið um að vera í klúbbhúsi sjálfboðaliðana.  Mikið um gleðskap og fjör þar sem spiluð var lífleg tónlist, enda staðurinn vel sóttur þessi kvöld.  Þeir keyptu bjór í verslun samyrkjubúsins, sem var mjög ódýr, og seldu svo á þreföldu verði í klúbbhúsinu.  Bjórinn seldist eins og heitar lummur og peningarnir streymdu inn í Íranna.

Gyðingarnir voru fljótir að koma auga á þetta og vildu nú fá að komast í viðskiptin.  Einn föstudag var Írunum tilkynnt að héðan í frá myndi stjórn samyrkjubúsins sjá um söluna.  Jafnframt yrðu seldar súkkulaðikökur, sem fara sérlega vel með áður nefndu illgresi.

En það þurfti starfsmenn og var undirritaður einn af þeim sem varð fyrir valinu.  Fljótlega eftir að barinn opnaði var sú stefna tekin að veita frítt af guðaveigunum.  Mikil eftirspurn var og ánægja viðskiptavinanna var mikil.  Allt gekk út á met tíma og voru birgðir ,,uppseldar" löngu fyrir miðnætti.  Þetta var í fyrsta og síðasta skipti sem kibbutzinn tók að sér barinn á sjálfboðaliðsklúbbnum á Shamir.


Haust á norðurhveli

Gunni í golfiÞað er farið að hausta hér í Colombo og komið myrkur rúmlega sex að kveldi.  Tæpir tveir mánuðir í vetrarsólstöðu þegar sólinn nær 22.5° suður fyrir miðbaug.  Ég var seinn fyrir úr vinnunni í dag og skokkaði því á þakinu þar sem útséð með að ná dagskímu í Viktoríugarði.  Ég hlustaði á ,,Hell race out" með Eagles í þetta sinn.  Einhverra hluta vegna koma vinir mínir Margrét Gunnars og Jón Sigurpáls upp í hugann þegar ég heyri þessa tónlist.

Það var komið þreifandi myrkur rúmlega hálf sjö þegar markmiði hlaupsins var náð.  Aðeins vestan við norður sást Venusvagninn greinilega og Pólstjarnan að sjálfsögðu í hánorðri.  Ég sá ekki betur en Venus væri á leiðinni í norðri einnig. 

Það hefur orðið smá bið á sögustundinni en það kemur til af betra ritskoðunarkerfi.  Það var aldrei meiningin að meiða með þessum sögum sem gerðust fyrir rúmum þrjátíu árum og betra að hafa vaðið fyrir neðan sig í þeim efnum.

Einnig verður minni tími í sögur þar sem ég er byrjaður á meistararitgerðinni minni.  Kominn með leiðbeinanda og hugsanlega samstarfsaðila sem eru innlendir og erlendir aðilar sem áhuga hafa á efnistökum.  Ég ætla að taka fyrir virðiskeðju sjávarútvegs á Sri Lanka.  Mjög áhugaverð stúdía og gæti komið að góðu gagni í framtíðinni.  Ritgerðin verður skrifuð á ensku enda hugsuð fyrir alþjóðlegan markað. 

Jafnframt er það golfið þessa stundina.  Samkvæmt leiðsögn andlegs leiðtoga míns í golfinu, Jóa Torfa, fer ég tvisvar í viku til kennara og spila síðan á laugardögum. 


Slæmt heimsmet Íslendinga

Þetta heimsmet Íslendinga er aðeins af hinu slæma.  Þetta er vont fyrir skattgreiðendur, afleitt fyrir neytendur og vont fyrir bændur.  Bændur á Íslandi, margir hverjir, lepja dauðann úr skel þar sem markaðsbúskapur fær ekki að njóta sín.  Þetta er einhver misskilin rómatík að nauðsynlegt sé fyrir okkur að framleiða flest alla landbúnaðarafurðir sjálfir.  Miklu nær væri að nota mannafla í arðbærari störf og flytja inn frá fátækum löndum, t.d. Afríkuríkjum, sem sárlega þurfa á viðskiptunum að halda.
mbl.is Hæstu landbúnaðarstyrkirnir á Íslandi að mati OECD
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kafli 4 - Í kjöfari árasarinnar

SkriðdrekiÍsraelski herinn

Þegar við Stína komum upp úr sprengjubyrginu var Ísraelski herinn mættur á svæðið með skriðdreka og hvaðeina.  Þetta var heimsfrétt og því öllum gefið tækifæri á að láta fjölskyldu sína vita af sér .  Mæðrum okkar Stínu var sent símskeyti sem stóð ,,erum á lífi. Gunni og Stína"  Þær vissu ekki einu sinni að við værum  á þessu samyrkjubúi sem var komið af illu heilli í heimsfréttirnar.

Seinna um daginn þegar við skoðuðum verksmerki mátti sjá alls kyns líkamsleifar í sundlauginni.  Við fundum fót með rauðum sokk þar rétt hjá og eigum reyndar mynd af honum.  Fyrir framan mötuneytið var búið að leggja jakka þeirra þriggja hryðjuverkamanna sem voru skotnir.  Með blóðugum kúlnagötum frama á þeim.  Það er óhætt að segja að þetta hafi verið mikil reynsla fyrir íslenska táninga sem þekktu ekki stríð eða manndráp af eigin raun.

SprengjuárásAllt breyttist á þessu samyrkjubúi eftir þennan atburð.  Þó hann væri staðsettur undir Gólanhæðum og gömlu landamærin við Sýrland í kílómeters fjarlægð var þetta öðru vísi og ólíkt hefðbundnum hernaðaraðgerðum.  Þarna var vígvélum beint að börnum, konum og almennum borgurum en ekki hermönnum.

Nokkrum árum áður var undirritaður á þessum sama kibbutz sem staðsettur er aðeins kílómetra frá gömlu landamærunum, frá því fyrir sex daga stríð, Sýrlands.  Einnig er til tölulega stutt norður að landamærum Líbanons.  Við ákváðum einn dag ég og vinur minn Jón Pétursson að fá okkur göngutúr að gömlu landamærunum og kíkja á aðstæður.  Augljóst var hvar þau höfðu verið enda skotbyrgi og gamlar gaddavírsgirðingar þarna.  Eftir smá grams fundum við stóran járnkassa sem var lóðaður aftur.  Víð tókum hann með heim á búið þar sem okkur tókst að opna kassann með stórum kuta.  Hann reyndist fullur af skothylkjum í AK16, kalashnikova riffil.  Við reyndum umsvifalaust að koma þessu í verð en fengum heldur betur að kenna á því.  Meðal annars var okkur bent á að við hefðum gengið yfir jarðsprengjusvæði sem engum dytti í hug að fara yfir.  Töluvert hafði verið um að nautgripir sem gengið höfðu um svæðið hefðu misst fætur við að stíga á jarðsprengju.  Íslendingar eru oft lítið með á nótunum þegar kemur að hernaði og vígvélum sem eingöngur eru smíðuð til að drepa fólk.

F 16 herþoturUm kvöldið var mikið sjónarspil á Shamir.  Ísraelar hefndu ávallt grimmilega fyrir árásir á borgara sína og var engin undantekning í þetta sinn.  Rétt fyrir ljósaskiptin flugu fimm herþotur lágflug yfir Kibbutzinum og sveimuðu síðan hringi í höfði  okkar.  Allt í einu tóku þær stefnu norður til Líbanon, sem er skammt undan, og nokkru seinna sáum við blossa og seinna heyrðum við sprengjudrunur.  Síðan komu þær til baka og endurtóku síðan leikinn.  Þegar myrkrið skall á var eins og sólarupprás væri í norðri.  Slíkur var bjarminn eftir sprengjuárásir herþotnanna.  Ekki veit ég hvað þeir sprengdu eða hverjir urðu fyrir því, enda vorum við bara áhorfendur af öllu saman.


Kafli 3 - Á kibbutz undir Gólanhæðum

ÍsraelÁ samyrkjubúinu Shamir

Rútuferðin norður eftir Ísrael var ævintýri út af fyrir sig.  Hávaðinn, rykið, hristingurinn og helreið eftir mjóum og oft glæfralegum vegum var rosalegt.  Um borð í rútunni vor menn og málleysingjar.  Arabar, Betúar, Gyðingar, Íslendingar ásamt hundum og hænsnfuglum.  Ferðin tók um tíu tíma og komið undir kvöld þegar áfangastað var náð þann 12. Júní 1974.

Við fengum strax vinnu og eins og venja er á maður fyrsta daginn frí.  Við fengum kofa til að sofa í og ákveðið að byrja nýjan dag í sundlaug samyrkjubúsins, sem er glæsileg 25 m keppnislaug.  Það lá því vel á okkur þegar við gengum áleiðis í sundið í morgunsárið.  Á leiðinni er gengið fram hjá mötuneyti staðarins og allt í einu gerði hungrið vart við sig.  Ég stakk upp á að breyta planinu og byrja í morgumat og fara síðan í sund.  Stína er þannig að hún vill halda sig við áætlanir og þolir illa að hringla með hlutina.  Hún vildi því ekki breyta og halda sig við að byrja í lauginni.  Við þrefum um þetta á vegamótunum og sennilega hafa þrjár konur gengið fram hjá okkur á meðan á þessu stóð.

Skæruliðaárás

ShamirEn ég hafði betur og við fórum í morgunmat.  Matsalur samyrkjubúsins er stór og tekur á annað hundrað manns í sæti og var þétt skipaður þegar við komum.  Við voru rétt sest þegar við heyrðum mikil öskur og kallað var ,, meghablím, meghablím".  Allt í einu sjáum við að karlmennirnir hlaupa út og mikil skelfing hafði gripið um sig.  Ég spurði fólkið á næsta borði hvað væri um að vera og heyrðist þau segja að ferðamenn væru komnir „ tourists" á Kibbutzinn.  Allt í einu voru allir komnir undir borð og það rann upp fyrir okkur að þetta væru ekki tourists heldur terrorists.  

Það er erfitt að muna atburðarás þrjátíu ár aftur í tímann en við eigum blaðaúrklippur úr Jerusalem Post frá atburðunum.  En eins og við munum þetta þá heyrðust sprengingar og skothríð fyrir utan.  Einhverjar konur tóku völdin í mötuneytinu og hlaupið var með allan hópinn út bakdyramegin og niður í sprengjubyrgi þarna rétt hjá.  Allir voru komnir með alvæpni þegar þetta var og ég man skothríðina sem drundi við meðan við hlupum hálfbogin í byrgið.

Við sátum lengi þarna niðri og við hliðina á mér var Nýsjálendingur sem hét Jonathan.  Eftir u.þ.b. klukkutíma var komið til að sækja hann.  Ég gleymi aldrei skelfingunni sem lýsti sér úr svip hans þegar hann elti hermanninn út.  Kærastan hans hafði fallið fyrir byssukúlu hermdarverkamans.

Þær þrjár konur sem ég minntist á hér að framan, kærasta Jonathans var ein af þeim, hafa að öllum líkindum gengið fram hjá okkur Stínu meðan við þráttuðum um skipulag morgunsins.  Þær unnu í býflugnabúinu sem lá við hliðina á sundlauginni og voru á leið þangað úr morgumat.  Það eru allar líkur á því að við Stína hefðum gengið nokkrum skrefum á undan þeim ef við hefðum haldið óbreyttri áætlun.  Það þarf ekki að spyrja að leikslokum ef úr því hefði orðið.

Mount HermonSkæruliðarnir voru fimm og komu fyrst inn á búið við barnaskólann.  Þar hittu þeir fyrir sex ára gutta sem þeir spurðu hvar leikskólinn og mötuneytið væru.  Hugmyndin virðist hafa veið að taka börnin í gíslingu og skjóta með sprengjuvörpu inn í matsalinn meðan hann var fullur af fólki í morgunverð.  Stráksi lék á þá og náði að hlaupa undan þeim og gat látið vita.  Það voru hrópin sem við heyrðum í matsalnum.  Þeir gengu síðan sem leið lá framhjá býflugnabúinu þar sem þeir hittu konurnar þrjár og skutu þær til bana.  Skömmu seinna voru fyrstu Ísraelarnir komnir á vetfang með vélbyssur og tóku á móti þeim.  Einn skæruliðinn sprengdi sig í loft undir jeppa sem stóð við býflugnabúið og annar inn í því.  Hinir þrír voru drepnir með byssukúlum.  Hinir voru feldir með byssukúlum og fyrrverandi stríðshetja Ísraela gekk þar fremstur í flokki.  Hann hafði farið fyrir herdeild í Yom Kibbur stríðinu þegar Mount Hebron var tekið.  Eiginkona hans var ein af konunum þremur sem myrtar voru í árásinni.


Kafli 2 - Júgoslavia, Grikkland og Ísrael

JúgóslavíaJúgóslavía

Næst var ekið í gegnum Slóveníu og það til Króatíu.  Á þessum tíma var lítið um ferðamenn á þessum slóðum, en helst að þjóðverjar væru í sólarlandaferðum á Adríahafsströnd Króatíu.  Síðan ókum við til Bosníu og þar lentum við í smá vandræðum.

Ég hef alltaf verið handsterkur og hafði lent í keppni í sjómanni á einhverri knæpunni.  Mér hafði gengið vel og vakti athygli heimamanna.  Ég var með ljóst hár niður á herðar, klæddur eins og hippi og var engin fyrirmynd þessu fólki sem bjó við kommúnisma Júgóslavíu þessara ára.  Hippar áttu ekki upp á pallborðið í hugmyndafræði sósíalismans.  En allt í einu stendur þrekinn náungi fyrir framan mig, sest á móti mér og býður upp sjómann.  Ég var eins og smjör í höndunum á honum og átti enga möguleika, slíkir voru aflsmunir hans.  En á eftir tókust með okkur samræður og sátum við að spjalli lengi fram eftir degi. 

Seinna um kvöldið fórum við Stína á diskótek þar sem ég var allt í einu umkringdur af óárennilegum náungum, sem reyndust vera sígaunar.  Þeir voru sex eða sjö og byrjuðu að hrinda mér til og frá og mér leist illa á aðstæður.  Skyndilega flugu þeir eins og hráviðri út um allan sal og foringi þeirra var komin í krumlurnar á félaga mínum frá því fyrr um daginn.  Hann fylgdi okkur út í bíl og ráðlagði okkur að passa okkur vel því svona náungar svífast einskis og útgangurinn á mér kallaði allt það versta fram í þeim.

Næst var stefnan tekin í gegnum Svartfjallaland og þaðan til Makedóníu.  Það var margt að varast upp í fjöllum og oft reynt að hafa út úr okkur peninga.  Eitt sinn hjálpaði trukkabílstjóri til þegar átti að féfletta okkur en varnarleysi okkar var töluvert á þessum slóðum.

AþenaGrikkland

Við nálguðumst landamæri Grikklands og sáum endalausa bílaröð við eftirlitsstöðina.   Þetta var eitt af hliðum járntjaldsins þar sem lágu saman landamæri kommúnistaríkis og fasistaríkis.  Í Grikklandi var herforingjastjórn við völd sem hélt þjóðinni í heljargreipum á þessum tíma.  Við sáum hvar sætin voru rifin úr bílunum og allt lauslegt tekið úr þeim.  Fólk lenti í þriðju gráðu yfirheyrslum til að fá leyfi til að fara yfir landamærin.  Þá kom sér vel að vera með Íslensk vegabréf.  Okkar bíll var tekin framyfir alla röðina og okkur hleypt yfir til Grikklands.  

Við ókum til Aþenu þar sem eyddum nokkrum dögum í að skoða markverðustu staði.  Fasistaríkið Grikkland var svolítið ógnvekjandi.  Menn hvísluðu að okkur þegar kom að spjalli um pólitík þar sem engin var óhultur fyrir öryggislögreglunni.  Hinsvegar þrifust engir venjulegir glæpir í þessu einræðisríki og maður var öruggur um sig að nóttu sem degi.

Við seldum bílinn og keyptum okkur flugmiða til Ísrael með El Al.  Varúðarráðstafanir á flugvellinum voru ótrúlega strangar fyrir flugtak.  Mikið hafði verið um hryðjuverk og var Ísraelska flugfélagið sérstaklega á varðbergi, enda skotmark óyndismanna.

Ísrael

JerusalemVið stoppuðum ekkert í Tel Aviv en drifum okkur til Jerúsalem.  Ég hafði komið þangað áður en þetta var fyrsta heimsókn Stínu þangað.  Jerúsalem er ógleymanleg borg með sinni stórkostlegu sögu og tengingum við gyðinga, kristna og íslamska trú.  Við skoðuðum meðal annars gröf Krists, gátmúrinn og Dome of the Rock.  Gamla borgin er einstök þar sem engir bílar eru en asnar voru algeng faratæki á þessum árum. 

Eftir tvo daga í Jerúsalem tókum rútu norður í land þar sem ferðinni  var heitið á Kibbutz Shamir, þar sem ég hafði dvalið sumarlangt tveimur árum áður.  Við ætluðum að fá vinnu þar og dvelja nokkra mánuði áður en haldið yrði heim til Íslands aftur.


Kafli 1 - Mótorhjólagengið

LoftleiðirMótorhjólagengið

Við Nonni Gríms vorum nítján ára þegar ákveðið var að kaupa mótorhjól og aka um Evrópu.  Þetta var árið 1974 og ekki margir Íslendingar sem höfðu staðið í slíkum stórræðum.  Unnusta mín, Kristín og bróðir minn Hjalti ætluðu með ferðina sem hófst í maí.  Farmiðarnir til London voru keyptir hjá Gunnari Jóns í Brunabót sem var með umboð fyrir Loftleiðir á þeim tíma.

Í Reykjavík var ákveðið að fara út að borða á Hótel Loftleiðum, sem var í fyrsta skiptið á ævinni sem við komum á fínan veitingastað.  Ég man að við pöntuðum rauðvínsflösku með steikinni, sem var frumraun okkar sem heimsborgarar og matgæðingar.  Þegar þjónninn kom með flöskuna til að sýna okkur hana og athuga hvort tegundin væri rétt var hún hrifsuðu úr höndum hans og byrjað að hella í glösin.

Frá byrjun var þetta ósköp erfitt.  Ég kominn með kærustu og strákarnir alls ekkert hrifnir af kvenmanni í hópnum.  Þannig varð ég svolítið útundan sem skiljanlegt var en allt gekk þetta vel og flogið út með Rolls Royce, eins og skrúfuþotur Loftleiða voru kallaðar.  London var skemmtileg en ekki fundum við réttu mótorhjólin þar í borg og ákveðið að halda til Þýskalands.

Við tókum járnbrautalestina og fyrsti áfangi var Brighton.  Við dvöldum þar eina nótt og síðan haldið á til Dover þar sem við tókum hovercraft til Calais í Frakklandi.  Þaðan var haldið á með lest til Brussel þar sem við sváfum á járnbrautarstöðinni um nóttina.  Eftir erfiða nótt og hart höfðalag var tekin lest til Munchen í Bæjaralandi.  Þar var farðið í að leita að mótorhjólum til að leggja Evrópu að fótum okkar.

Á bílum um Evrópu

HovercraftHjólin reyndust dýrari en við höfðum búist við og því fórum við að skoða bíla.  Niðurstaðan varð sú að við Stína keyptum Renult rennireið og strákarnir stóran svartan Bens.  Það var ekki eftir neinu að bíða og við brunuðum af stað í austur.  Fyrst var ekið yfir alpana og þaðan til Ítalíu.  Jón og Hjalti á unda og við Stína þurftum að hafa okkur öll við til að halda í við þá og tína þeim ekki.  Farsíminn var fundin upp rúmum tuttugu árum seinna og því ekki hægt að slá á þráðinn ef við misstum af stóra svarta Bensanum.

Við renndum seinni part dags inn í stórborgina Milano þar sem umferðin var alveg rosaleg.  Við sáum til strákanna í Bensanum að umræðurnar voru fjörugar.  Handasveiflu útum allan bíl og keyrt á útopnu eftir breiðstrætum borgarinnar.  Allt í einu bruna þeir yfir á gulu ljósi og komið rautt þegar við Stína komum að því.  Við sáu hvar Bensinn hvarf inni ítalska umferðaþvögu og þeir voru týndir og tröllum gefnir.  Ég verð að viðurkenna að mun auðveldara var að aka eftir þetta og geta einbeitt sér að akstrinum og þurfa ekki að halda í við strákana.

Ein á báti

VeniciaVið stefndum norður fyrir Adríahafið og eitt fáránlegasta atvik ævinnar hentu okkur Stínu á þeirri leið.  Við komum í borg sem heitir Venicia.  Við ætluðum aldrei að finna bílastæði en það tókst fyrir rest og síðan fórum við að skoða okkur um.  Sennilega höfum við verið á vappi á Péturstorginu, sem var hið besta mál nema að við höfðum ekki hugmynd um hvar við vorum.  Við sáum á plakati mánuði seinna að Venicia væri Feneyjar og við hefðum verið þar á þess að vita það.


Kafli 7 - Komið til Ísafjarðar

Ísland er landið.....

Við Almenninga vestariÞegar komið var fyrir Langanes gerði hann  suð austan stinning kalda og með fullri beitningu náðum við höfn á Húsavík.  Þar kölluðum við embættismann um borð til klarera fyrir tolli.  Það kom í ljós nokkrum árum seinna að það gleymdist að tolla bátinn sjálfan, en við vorum að sjálfssögðu að flytja hann inn.  En nú var það bara sígarettur og áfengi sem var skoðað og gekk það allt saman vel fyrir sig.  Eftir skamma dvöl á Húsvík var haldið vestur með norðurströndinni í góðum byr og sauð á súðum á Bonny yfir Húnaflóann og vestur fyrir Hornbjarg .  Vind var farið að lægja þegar komið var að Kögur og hæg gola þegar Fljótavíkin blasti við.  Sagan um Sygnakleif rifjast upp en hún er ófæra undir Körgri.

Nú erum við komin að Sagnahleif sem áður hét Sygnakleif en þar handan við braut Vébjörn sygnakappi skip sitt en komst ásamt áhöfn sinni yfir ófæruna og í Fljótið þar sem Atli þræll gætti bús fyrir húsbónda sinn Geirmund Heljaskinn.  Tók Atli við áhöfninni allan veturinn og bað þau engu launa vistina því ekki mundi Geirmund mat vanta.  Þegar Geirmundur og Atli fundust spurði Geirmundur,  "hví hann var svo djarfur, að taka slíka menn upp á kost hans"   "Því ,,svaraði Atli að það mundi uppi meðan Ísland væri byggt, hversu mikils háttar sá maður muni verið hafa, að einn hans þræll þorði að gera slíkt að honum forspurðum"  Geirmundur svaraði honum, að fyrir tiltæki þetta skyldi hann þiggja frelsi og bú það, er hann varðveitti.

Í FljótavíkÉg vissi af pabba á Atlastöðum ásamt fleiri ættingjum og vinum og því ákveðið að kíkja aðeins við.  Þetta var eldsnemma morguns og við komumst með harmkvælum í land þar sem léttabáturinn var hálf ónýtur og erfiðar aðstæður í Fljótavík til að lenda.  Báturinn sökk á leiðinni í land en við vorum þrír í þessari svaðilför, ég, Nonni og Siggi.  Gestir á Atlastöðum urðu undrandi þegar við vöktum þá upp en tóku vel á móti okkur.  Helltu upp á kaffi og við sögðu m sögur af ævintýri okkar í klukkutíma áður en haldið var á stað um borð til klára heimferðina.  Karlarnir skutluðu okkur um borð í Bonny og eftir siglingu fyrir Straumnes og Rit tók við siglingin yfir Ísafjarðardjúp og komið var til Ísafjarðar upp úr hádegi. 

Sagt var frá komu Bonnýar í Vestfiska Fréttablaðinu og Vísi, en þar var blaðamaður Einar K. Guðfinnsson sem fylgdist með nágrönnum sínum frá Ísafirði í ævintýrum þeirra á siglingu um ólgandi sjó við sæfeykta strönd.


Kafli 6 - Færeyjar - Ísland

GlasgowGlasgow

Framundan var Glasgow en ákveðið var að sigla alla leið upp Clyde ána og heimsækja höfuðborg Skotlands.  Stína og Bárður ætluðu í land og fara fljúgandi heim, en við bættust Steingrímur fisksali í Grímsbæ og Sigurður Ásgeirsson sem ætluðu að sigla með okkur Nonna og Grími yfir hafið heim til Íslands.

Við komum að minni árinnar að kvöldi til og þá reyndi vel á ungan skipstjóra að lesa úr öllu ljósblikkinu og beita siglingarreglum við að mæta skipum sem sigldu hjá á miklum hraða.  Síðan var haldið upp ána sem liggur í austur alla leið upp til Glasgow.  Í morgunsárið létum við Bárði eftir stýrið og tókum skýrt fram að halda sig fjarri vesturbakka fljótsins.  Siglingaleiðin, sem rækilega var merkt með baujum , var austanmegin en grynningar að vestan. Restin af áhöfninni  stóð í kringum borðið niður í káetu og Grímur búinn að leggja nokkrar sardínur á brauð þegar báturinn strandar með miklum látum.  Við þeyttumst allir fram í stefni en Grímur hélt enn á brauðsneiðinni með síldinni þrátt fyrir þvöguna frammí lúkar.  Einhverra hluta vegna hafði Bárður stýrimaður sveigt í vestur og farið beint upp á sandrif.  Sem betur fór tókst okkur að ná bátum á flot og halda ferðinni áfram.

Það var margt brallað í Glasgowborg og ferðin heim var vandlega skipulögð.  Við Grímur höfðum legið yfir langbylgjustöðinni sem var biluðu.  Við vinirnir sátum heilan dag yfir stöðinni og  Grímur reif hana  í sundur, stykki fyrir stykki.  Í upphafi hafði ég rekist á lausan þráð á hátalaranum en Gimmi var nú ekkert að hlusta á hvað ég hefði fram að færa í viðgerðinni.  Hann var reyndar mjög utanvið sig að eðlisfari og sökkti sér af ákafa niður í verkefnin hverju sinni og tók þá lítið eftir því sem gerðist í kringum hann. 

Ein góð saga er til af Grími þegar hann hafði keypt sér undurhlýjar Hagkaupsnærbuxur, með síðum skálmum og þykkar eins og nautshúð.  Einn morgun á köldum vetrardegi þegar norðan garrinn gnauðaði úti fyrir og skafrenningurinn minnti á norðlæga breiddargráðu Ísafjarðar. Grímur hafði sofið í nýju nærbuxunum og Jóhanna kona hans vakti hann með morgunmat, áður en haldið var út i Hnífsdal,  í radarinn til að leiðbeina flugvélinni að sunnan flugið inn Djúpið.  Minn maður var tilbúinn til að takast á við kuldann fyrir utan og klæddi sig í hasti.  Á leiðinni út reyndi Jóhanna að benda honum á að hann hefði gleymt að fara í buxur, og hann væri á nærbuxunum.  Búinn að klæða sig í peysu, úlpu og hafði troðið á sig hlýrri Rússahúfunni braust hann út í kuldann og klofaði skaflana út  í Willis jeppann.  Eftir að bíllinn hafði tekið við sér og farið gang varð honum litið niður á fætur sér uppgötvar að hann er á nærbuxunum.  Ekki þorði hann inn aftur heldur lá á flautunni þar til Jóhanna kom hlaupandi út með buxur á hann, sem hann baksaði við að troða sér í undir stýri á jeppanum.  Ekki kom til greina að láta nágrannana sjá sig hlaupa inn á nærbuxunum.

En talstöðin í Bonny fór í frumeindir og lá eins og hrúga á borðinu, vírar, lampar, skrúfur, þéttar og hvað þetta heitir nú allt saman.  Allt í einu rekur hann upp óp þegar hann sér bilunina í stöðinni.  Það var laus vír í hátalaranum og lítið mál að laga það með lóðbolta.  Síðan raðaði hann stöðinni saman sem reyndist okkur vel við samskipti og staðsetningar á leiðinni heim.

Sigld yfir Altansála

FæreyjarVið vorum því fimm félagar sem lögðum af stað siglandi heim, undirritaður, Nonni, Grímur, Steingrímur og Siggi Ásgeirs.  Þegar við komum norður undir Hebrites eyjar skall á okkur þrumuveður.  Eldingarnar voru ógurlegar og ein þeirra fór í formastrið með þeim afleiðingum að VHS talstöðin brann yfir.  Við höfðum gömlu góðu langbylgjustöðina með okkur sem duga myndi til samskipta við umheiminn.  Við komum við í Stornoway til að taka toll fyrir heimkomuna enda um tollfrjáls kjör að ræða.  Stefnan var síðan sett á Færeyjar en ákveðið var að hafa viðkomu þar í tvo til þjá daga.

Ferðin til eyjanna var viðburðarsnauð en með ágætum byr og birtust þær okkur að morgni til á heiðskýrum degi  í júlí.  Stefnan var hárrétt og vel tókst til að lesa Consulinn til staðsetningar.  Við héldum leiðarreikning sem tókst ágætlega en hluti hans er að gera áætlanir um strauma, rek og önnur frávik sem áhrif geta haft á tekna stefnu.

KútterVið áttum góða daga Færeyjum en við þurftum eðlilega að láta innsigla tollinn okkar sem ætlaður var fyrir heimkomuna til Íslands.  Við héldum þó einhverju til að halda uppi andanum þessa daga í Þórshöfn og væsti ekki um okkur í faðmi frænda okkar Færeyinga.  Við hliðina á okkur lá hin Íslenska skútan sem þá var til, Sirrý úr Hafnarfirði, en eigendur hennar voru á leið til Skandinavíu.  Vel fór á með skipshöfnunum tveimur og oft glatt á hjalla um borð í bátunum á kvöldin.

Mér er einnig minnistætt að við hittum færeyska sjómenn sem voru á leið á Íslandsmið á kútter til veiða á handfæri.  1976 voru menn að fara í nokkurra vikna róður yfir Atlantshafið til að draga björg í bú.  Þeir ætluðu til veiða í lok júlí og reiknuðu með að koma heim aftur fyrir október lok.  Töldu tekjumögulega nokkuð góða enda færi lítill kostnaður í olíu, þar sem seglin voru notuð til hins ýtrasta.

Það kólnaði með hverjum deginum sem siglt var áleiðis í norður til Íslands.  Stefnan var sett á Borgarfjörð eystri og ákveðið að sigla norður fyrir Ísland til Ísafjarðar.  Besta veður var þó allan tímann og ágætur byr.  Það var óskaplega gaman að sjá Ísland birtast einn morguninn með bláma yfir austfirskum fjöllum.  Við renndum inn í höfnina á Breiðdalsvík til að taka vatn og vistir.

Grímur átti forláta Skota bifreið sem dugði honum vel í nokkur ár.  Oft var kalt að fara út í bílinn á vetrarmorgnum þegar norðan nepjan nagaði menn inn að beini.  Grímur ákvað á fá sér rafmangshitara í Skotann, sem stungin var í samband inni og hélt vélinni heitri alla nóttina.  Það var því notalegt að koma út í bílinn og kveikja á miðstöðinni sem umsvifalaust blés heitu lofti um allan Skotann og hélan hvarf af framrúðunni eins og dögg fyrir sól.  Þetta var nú aldeilis notalegt og Grímur startaði bílnum sem flaug í gang, enda vélin um 80°C.  Síðan ók hann af stað sem leið lá út í Hnífsdal til að taka Fokkerinn niður með radarnum.  Í eftirdragi var rafmangskapallinn og dósin sem hann hafði dregið út í gegnum gluggann á Engjaveg 32.  Hitarinn var aldrei notaður meira.


Kafli 5 - Siglt í norður

höfrungurBjargvætturinn

En nú þurfti að komast um borð með sjókortin í ónýtri plasttuðrunni.  Það var ákveðið að setja þau í bátinn og við myndum síðan synda með hann út í skútu.  Bárður yrði skilinn eftir og það yrði seinni tíma vandamál að sækja hann.  Þegar við vorum hálfnaðir um borð kemur skemmtibátur sem leigður var ferðamönnum, og greinilegt að áhöfnin var ekki reynslurík.  Við báðum þá að draga okkur í átt að Bonny en niðurstaðan varð sú að þeir sigldu yfir okkur.  Ég fór undir bátinn þeirra og lenti með annan fótinn í skrúfunni.  Sársaukinn var ógurlegur og ég fann að ég var að missa meðvitund í sjónum.  Jón var í hálfgerðu losti og syndi áleiðis að skútunni en gúmbátinn rak á haf út.  Ég svamlaði í yfirborðinu og reyndi að halda höfðinu ofansjávar og allt í einu finn ég fyrir einhverju stinnu undir mér.  Þarna var höfrungurinn mættur og hélt mér á floti. 

Maður um borð í bát sem lá í legufærum skammt frá Bonny og hafði séð hvað gerðist, stökk um borð í léttabátinn og réri lífróður í áttina að mér.  Hvalurinn hélt mér á floti allan tímann þar til mér var dröslað um borð í bátinn sem fór með mig aftur í land.  Ég var drifinn á sjúkrahús og reyndist vera töluvert meiddur á hælnum  eftir bátsskrúfuna.  Ég fékk góða umönnun og búið var um sárið.  

Á meðan á sjúkrahúsvist minni stóð hafði höfrungurinn synt eftir tuðrunni og ýtti henni að Bonny þar sem Jón tók við henni með sjókortunum góðu.

Gríms þáttur Jónssonar

Við fréttum að heiman að Grímur Jóns, faðir Nonna og Bárðar ásamt Stínu eiginkonu minni væru á leið til okkar og því ákveðið að bíða þeirra í St. Ives.  Við styttum okkur stundir í leik við höfrunginn  sem reyndist vera merktur frá Dover.  Jón sýndi eitt kvöldið listir sínar með honum með þúsundir ferðamanna á hafnarkæjanum sem áhorfendur.  Meðal annars rak hann höndina upp að öxlum ofan í kokið á honum, tók í vígtönnina og hristi til og frá.  Hann hélt í uggann á honum og lét hann synda með undir áköfum húrrahrópum aðdáendaskarans í landi.  Þarna var Jón vinur minn í essinu sínu og athyglin sem hann fékk var mikilvægari en hræðslan við hvalinn.

LestinFerðalag Stínu með Grími suður eftir Bretlandi frá Glasgow til Lands End var ævintýri út af fyrir sig.  Grímur þurfti að stökkva úr lestinni á hverri einustu lestarstöð til að kaupa sér pínulita snapsflösku.  Hann gat alls ekki birgt sig upp heldur voru þessi endalausu hlaup út þegar lestin stöðvaðist og síðan dauðans stress við að ná henni aftur áður en haldið var af stað.  Nokkur atvik standa upp úr í frásögnum Stínu af ferðinni eins og þegar Grímur opnaði bananana öfugt á við það sem venjulegt fólk gerir.  Upplitið á ferðafélögum í lestarvagninum ógleymanlegt.  Þeir gláptu á Grím eins og naut á nývirki og furðuðu sig á því að hann geymdi bjórinn  í glugganum þar sem sólin skein á hann.  Svo frussaðist bjórinn um allan vagn þegar hann opnaði hann.  Stínu fannst líka samferðamennirnir ótrúlega fljótir að týna tölunni og spurning hvort hegðun samferðarmansins hafði eitthvað með það að gera. 

Það er rétt að skjóta hér inn góðri sögu af Grími vini mínum, þegar hann fór í Landsbankann að sinna erindum sínum.  Á þeim tíma voru pennar dýrir og til að koma í veg fyrir að viðskiptavinir tækju þá ófrjálsri hendi, var hegnt tveggja kíló statív með keðju í þessar miklu áþreifanlegu eignir bankans.   Grímur hinsvegar lét sér ekki bregða að stinga einum í brjóstvasann á tvítjakkanum sínum og kom alla leið heim með hann dinglandi framan á sér.

Grímur var loftskeytamaður og hafði tekið með sér langbylgjutalstöð í ferðina til að hafa um borð í Bonny.  Í þá daga voru slíkar stöðvar meðal annars notaðar til að staðsetja sig á hafi úti, í gengum norskan búnað sem kallaður var Consul.  Grímur ætlaði að sigla með okkur heim en Stína og Bárður ætluðu með til Glasgow og fara þaðan fljúgandi heim.

Vörður BA
Grímur var loftskeytamaður á togaranum Verði frá Patreksfirði þegar hann fórst  í siglingu með karfa til Þýskalands.  Vörður var svokallaður sáputogari,en nafnið kom til af því að togarar voru smíðaðir fyrir Breta á millistríðsárunum í Þýskalandi og greitt fyrir þá með sápu.  Smíðasamningurinn var hluti af stríðskaðabótum þjóðverja til Breta. 

Slæmt veður var þegar þetta gerðist og lýsti Grímur því fyrir mér hvernig togarinn sló úr sér hnoðunum  (Vörður var hnoðaður sem var aðferð sem notuð var áður en rafsuða kom til sögunar til við gerð skipskrokka) í krappri dýfu í keyrslu á móti stórsjóum norður Atlantshafsins.  Þegar skipið rifnaði upp að framan og sjórinn streymdi inn, sprungu lestarlúgurnar upp og aflinn spýttist í loft upp.  Grímur sýndi mikla hetjudáð, þó hann væri ungur að árum, rúmlega tvítugur þegar þetta gerðist.  Sjórinn var kominn í mittis hæð í loftskeytaklefanum áður en hann yfirgaf hann, enda upptekin við að senda þrjú stutt, þrjú löng og þrjú stutt.  Yfirfært á bókstafi stendur það fyrir SOS sem var alþjóðlegt neyðarkall á tímum morsins. 

Fimm menn fórust í þessu sjóslysi og má segja að kraftaverk hafi bjargað restinni af áhöfninni, ásamt þrautsegju hins unga loftskeytamanns við að koma boðum til annarra skipa.  Það sótti ávallt á hann að horfa á eftir skipsfélögum í kalda gröf og sérstaklega að missa nánast einn úr greipum sínum, eftir að hafa komist upp á björgunarflekann.

Isle of ManNæsti viðkomustaður var Isle of Man þar sem margt minnir á ferðir víkinga á fyrri öldum.  Meðal annars orðin ,,Med logum skal land byggja" sem stendur stórum stöfum yfir skjaldamerki eyjarinnar á Íslensku.  Við stoppuðum þarna í tvo daga og áttum góðar stundir.  Meðal annars stóðum við fyrir mikilli síldarveislu í skútuhöfninni í Douglas þar sem tugum manna var boðið upp á grillaða síld og ölglas til að renna henni niður.

Einn sunnudagsmorgun á siglingunni norður vorum við Grímur saman á vakt.  það var logn og við keyrðum á vél.  Við sátum saman að spjalli vinirnir og vissum af litlum hafnarbæ framundan, sem ekki stóð til að koma við í.  Við ræddum um hversu notalegt væri að fá sér ölkrús á kránni og upplifa sunnudagsstemmingu í vinarlegum skoskum hafnarbæ.  Umræðan hélt á og Grímur sem sat við stýrið sveigði óafvitandi aðeins á stjórnborða þar til hafnarminnið blasti við framundan.  Það var nú ekkert óánægð skipshöfn sem við vöktum upp úr hádeginu með dagskipun um að fara á skoskan púbb og upplifa stemmingu bæjarbúa, sem flestir reyndust vera fiskimen.


Næsta síða »

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 283862

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband