,,Strand" ferðaskipið Fagranes

fagranes.jpgÍ júlímánuði 1994 fór Fagranesið í eina af sínum frægustu ferðum, með félaga úr Sjálfstæðisfélögunum á Ísafirði.  Þetta var hin árlega ferð Sjálfstæðismanna og ferðinni heitið í hringferð um Ísafjarðardjúp.  Höfundur fór ásamt eiginkonu sinni og með okkur var stórvinur okkar Grímur Jónsson.  Grímur hafði verið eitthvað seinn fyrir og munaði minnstu að hann væri skilinn eftir á bryggjukantinum.

Allt gekk eins og í sögu og lá leiðin inn Djúp þar sem siglt var framhjá Vigur og síðar fram hjá Ögri og sveigt hart í bak og stefnan tekin á Æðey.  Hífandi stemming var um borð og sungið við raust, enda nóg af söngolíu með í ferðinni.  Þegar komið var suður undir Æðey var stefnan sett á sundið milli lands og eyju.  Veðrið var eins og best var á kosið, logn og ládauður sjór og þokkalega hlýtt enda hásumar. 

Skipstóri Djúpbátsins var í sumarleyfi og óvanur afleysingarskipstjóri við stjórnvölin.  Eitthvað var hann óöruggur að sigla þessa leið, en hafði endalaus ráð frá farþegum sem fjölmenntu í brúnni þessa stundina.  Köll bárust úr öllum áttum um að stýra á stjór eða bak og vesalings skipstjórinn var alveg orðin ruglaður á hverjum hann ætti að taka mark á.  Það voru margir sérfræðingar með í för, ef til vill of margir.

Allt í einu hváðu við miklir skruðningar og skipið stöðvaðist og hallaði síðan á stjórnborða.  Fagranesið hafði strandað á klöpp stutt frá höfninni í Æðey.  Sjá mátti farþegna laupa til svo þeir héldu jafnvægi við skyndilega stöðvun, og tekið til þess að engin hafði svo mikið sem slett úr glasi við strandið.

_ey.jpgÍ fyrstu var reynt að ná skipinu á flot en ekkert gekk og lá það sem fastast á skerinu.   Viðbrögð áhafnar var ekki mjög æfð eða samhæfð en fljótlega tók Reynir Inga, þá framkvæmdastjóri Djúpbátsins, völdin.  Hann skipaði að láta fella skuthlerann og kallaði alla niður á bíladekk.  Konni Bjarna kom skondrandi upp úr vélarúminu, og virtist ekki hafa brugðið hið minnsta við strandið.  Slöngubátur var settur á flot og Reynir fyrirskipaði að skipbrotsmenn skyldu ferjaðir í land.  Allt gekk það að óskum en um hundrað farþegar voru með í þessari ferð. 

Nægur gleðigjafi var með í för og engum leiddist eftir að í land var komið.  Allavega fyrst um sinn en síðan fóru að renna tvær grímur á menn sem sáu sína sæng útbreidda og að dvölin í eyjunni gæti orðið langvinn.  Með í för var Halldór nokkur Jónsson með eiginkonu sinni.  Það vildi svo til að dóttir hennar var unnusta Halla Konn, sonur hrefnu Konna, ein þeir feðgar ráku um þessar mundir ferðaþjónustu eða sjótaxa um Ísafjarðardjúp og Hornstrandir.  Við hjónin töldum það nokkuð vænlegt að halda sig nálægt Halldóri, enda leið ekki á löngu þar til hann var kominn í samband við Halla Konn.  Mikið var að gera hjá honum við að skutla gestum á Ögurball sem stóð yfir þessa stundina, og lofaði hann að renna við og taka okkur með í Ögur.

ogur.jpgEn nú kom babb í bátinn þar sem við Stína fundum Grím vin okkar hvergi.  Hann hafði þó sannarlega komið í eyjuna úr skipinu, en hafði greinlega haldið heim á bæ til að fá sér einhverja hressingu.  Við létum það gott heita og skildum hann eftir og áður en við vissum stóðum við á bryggjunni í Ögri, þar sem ballið dunaði og  frá gamla samkomuhúsinu hljómaði fjörug tónlistin.  Það var Sigurjón á Hrafnabjörgum sem hélt upp í stuðinu á ballinu, sat við borð upp á sinu og þeytti skífum og dansgólfið iðaði af ærslafullum ballgestum.  Við komum rétt tímalega í rabbsbaragrautinn hennar Maríu í Ögri og nú vorum við tilbúin í hvað sem var.  Grímur gleymdur og öll athyglin snérist nú um ballið.  Í villtustu dönsunum var marserað út og kringum húsið og aftur inn, og þar var haldið á að dansa.  Óli Lyngmó var í forystu fyrir marseringunni og kokkurinn við kabyssuna dunaði í eyrum.

Skipbrotsmönnum hafði nú fjölgað á ballinu og höfðu með einhverjum hætti fengið sig ferjaða úr Æðey í Ögur.  Að minnsta kosti fimmtíu manns höfðu skilað sér á ballið og samkomuhúsið að rifna utan af fjöldanum.  Það kom fyrirskipun frá sjálfum sýslumanninum að ballinu skyldi haldið áfram þar til rúta kæmi til að sækja skipbrotsmenn.  Voðin væri vís ef þessir fjörkálfar færu á stjá og rjátluðu um Ögursveit um miðja nótt, í misjöfnu ásigkomulagi.  Betra væri að vita af þeim á balli, undir öruggri leiðsögn Sigurjóns í tónlistinni.  Sigurjón var hinn ánægðasti með þetta og nú var tekið til við að spila allt S.G. safnið, frá upphafi til enda.  Þegar rútan mætti um sexleytið um morguninn var fjörið enn á fullu og allir skemmtu sér konunglega.  En bóndinn á Hrafnbjörgum fékk nú loksins áunna hvíld, eftir að hafa þeytt skífurnar í níu tíma stanslaust.

_safjafjor_ur.jpgÞað var feikna fjör í rútunni á leiðinn heim til Ísafjarðar.  Halldór Jónsson getur verið með skemmtilegri mönnum, en hann tók að sér fararstjórn í bílnum.  Næstu tvo tímana sagði hann sögur í hátalarakerfið og farþegarnir veltust um af hlátri.  Þegar komið var til Ísafjarðar var sólin risin og geislar hennar spegluðust í rennisléttum pollinum.  Það var pollrólegur og glaðvær hópur sem var loksins kominn heim úr ,,strand" siglingu með Fagranesi. 

Fljótlega eftir að heim var komið var farið að grennslast fyrir um Grím vin okkar.  Hann var enn út í eyju, hafði lagt sig í hlöðunni á bænum og misst af landferðinni.  Það amaði ekkert að honum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Gunnarsson

Fín saga. Ánægður að heyra að ekkert kom fyrir Grím, þó svo að ég þekki hann ekki og hafi aldrei heyrt á hann minnst.

Gunnar Gunnarsson, 12.7.2009 kl. 17:46

2 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Þetta er fín saga. (hvað er þetta annars með sjálfstæðismenn og "strand" siglingar)

En hvernig reiddi Fagranesinu af - er það enn á strandstað?

Ólafur Eiríksson, 12.7.2009 kl. 22:26

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Gaman að þessu, takk!

Ívar Pálsson, 12.7.2009 kl. 23:57

4 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Grímur Jónsson er ísfirsk þjóðsagnapersóna og var mikill vinur minn.  Faggin náðist á flot daginn eftir óskemdur enda koppalogn um allan sjó.

Gunnar Þórðarson, 13.7.2009 kl. 07:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 283908

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband