Ferðin til Murchison Falls - fyrri hluti

 

stina_vi_bungolo.jpgFerðin til Murchison Falls var stórkostleg í alla staði.  Sprengdi væntingarskalann svo um munaði.  Reyndar lentum við í smá basli í upphafi þar sem treyst var á GPS tæknina, en þjóðvegurinn á leiðarenda var nýr og ekki kominn inn á stafræna kortið.  Það kostaði einhverja króka enda er merkingum verulega ábótavant í Úganda og oft erfitt að spyrja til vegar.

En inn í þjóðgarðinn rötuðum við og eftir smá ógöngur fundum við Nile Safari Logde og áður en við náðum að stíga út úr bílnum birtist þjónustustúlka sem kynnti sig og bauð okkur velkomin.  Áður en við komum upp orði var þjónn mættur með blauta klúta svo við gætum þurrkað af okkur ferðarykið og þarna var komin forsmekkurinn af því sem koma skyldi í þjónustulund á þessum frábæra gististað. 

Staðurinn lætur lítið yfirsér við fyrstu sýn og virðist vera röð af allstórum strákofum en þegar betur er gáð koma í ljós röð af gistiskálum sem minna óneitanlega á gamlar safarí bíómyndir.  Manni bókstaflega verkjaði undan þjónustunni, svo góð var hún, með þjón við hvert fótmál sem tóku á móti okkur, buðu okkur velkomin og kynntu sig og þjónustu sína.  Vertinn bauð okkur upp á hádegisverð, en við komum um hádegisbil eftir rúma fimm tíma ferðalag, og rétti okkur síðan matseðil kvöldsins og bauð okkur að velja það sem okkur hugnaðist.  Annar kynnti sig sem húsþjón okkar og sagðist þurfa lykilinn þegar við færum í kvöldverð til að hafa allt klárt fyrir nóttina.  Rafmagnið yrði tekið af kl. tíu og því aðeins um olíuluktir og og kerti eftir þann tíma.  Næsti þjónn bar ábyrgð á að hafa vatn í sturtunni, sem var 20 lítra blikkfata hengd fyrir utan skálann og varin með steinhleðslu í kríng.  Við báðum um kalda sturtu kl. 18:00 og nákvæmlega á mínútunni heyrðum við bjástrað við dolluna og vatni hellt á hana.

gunni_vi_veitinga-strakofann.jpgSólarlagið þennan föstudagseftirmiðdag var ótrúlega fallegt og rauðleit birtan varpaði ævintýrablæ á allt umhverfið þar sem kvöldsólin speglaðist í Níl.  Handan fljótsins mátti sjá hjörð af vatnahestum reka trýnið upp úr vatnsborðinu og fílahjörð þrammaði um skógi vaxnar gresjurnar. 

Það var þó ekki fyrr en eftir kvöldmatinn og við sátum á svölum á skálans sem við vorum algerlega bergnumin yfir umhverfinu.  Frumskógarhljóðin voru ótrúleg og allt virtist svo nálagt okkur, enda við stödd í miðjum frumskógi. Myrkrið var skollið á og fljótlega slökktum við á kertaljósinu og létum takmarkaða birtu stjarnana duga.  Við sáum apaketti sveifla sér í trjágreinunum og hljóðið í vatnahestunum var eins og þeir væru innan seilingar.  Þeir rumdu og maður heyrði frussið þegar þeir blésu frá sér loftinu við komuna upp á yfirborðið.  Heyra mátti í alls kyns skordýrum og vantaði bara öskur í svöngu ljóni.  Þetta var ólýsanleg upplifun og nálægð frumskógarins yfirþyrmandi.

Skálinn var reyndar þak með flugnaneti allan hringinn og því lék blærinn um rúmið sem stóð á miðju gólfinu.  Við hlustuðum á froska kallast á þar sem karlinn var neðar í ánni en kerlingin ofar.  Hann með djúpt kvakið og hún með hærri tón.  Þau kölluðust sífellt á og maður heyrði hvernig bilið á milli þeirra minnkaði og um það leiti sem svefninn tók völdin komu hljóðin úr sömu átt, beint undir svölunum hjá okkur.  Þau höfðu fundið hvort annað.stina_safari.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ívar Pálsson

Gaman að þessu takk! Við sjáum strax eftir því að hafa bailað. En einhver varð að verða eftir hér og verja Ísland gegn ESB- aðildarumræðum!

Ívar Pálsson, 24.3.2009 kl. 15:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 283901

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband