Grein í Fiskifréttum 30. apríl 2015

Kraftmikill sjávarútvegur

Sýningin í Brussel
Það var gaman að heimsækja Brusselsýninguna í síðustu viku og upplifa bjartsýni í íslenskum sjávarútvegi eftir áratuga stöðnun. Allt á fullri ferð og spennandi hlutir að gerast. Ef litið er til veiða og vinnslu, standa Íslendingar öðrum framar og helst að miða við laxeldi til að sjá eitthvað sem kemst með tærnar að hælum greinarinnar. Það var tími kominn til en sjávarútvegur mátti búa við alltof hátt gengi fram eftir síðasta áratug, sem hélt uppi innistæðulausum lífskjörum og launum landsmanna sem áttu sér engar forsendur. Síðan kom hrunið og í framhaldi af því ríkisstjórn sem var mjög andsnúin atvinnulífinu og sérstaklega sjávarútvegi. Öll framtíðarsýn hvarf og óvissa ríkti um hvort greinin yrði í raun þjóðnýtt þar sem stjórnvöld ætluðu sér að halda í alla spotta og draga sjávarútveg út úr markaðshagkerfinu.
Framtíðarsýn í sjávarútvegi
Þrátt fyrir að pólitísk óvissa sé enn fyrir hendi, hafa stjórnendur í greininni greinilega fengið trú á framtíðina og fjárfesta af miklu afli í skipum og búnaði. Vonandi styttist í að greinin fjárfesti að sama skapi í mannauði sem er ekki síður mikilvægur þáttur í góðri afkomu til framtíðar. Skaginn og 3X Technology kynntu ofurkælingu um borð í veiðiskipum sem valda mun straumhvörfum meðhöndlun á ferskum fiski fyrir verðmæta ferskfiskmarkaði okkar. Með ofurkælingu verða skipin umhverfisvænni þar sem hugtakið ísfisktogari mun heyra sögunni til og talað verður um ferskfisktogara í staðinn, þar sem enginn ís verður notaður um borð. Fiskurinn verður ofurkældur strax sem gerir ís óþarfan og tryggir gæði og líftíma vöru sem aldrei hefur sést fyrr. Mikill orkusparnaður fylgir ofurkælingu þar sem meðaltogari notar um 50 tonn af ís í hverri veiðiferð, sem bæði kostar orku að framleiða, og sigla með ásamt vinnu fyrir sjómenn að nota ísinn. Í flutningum á ferskfiskmarkaði verður óþarfi að nota ís sem sparar umtalsverða fjármuni og dregur verulega úr sótsporum í íslenskum sjávarútvegi.
Marel og Valka
Annað sem vakti mjög mikla athygli á Brusselsýningunni voru vatnsskurðarvélar frá Marel og Völku. Hér er ekki um neitt minna að ræða en byltingu í vinnslu á bolfiski á Íslandi. Það er ekki bara að vélin spari átta til tíu störf og auki þannig framleiðni; heldur er það möguleikinn sem felst í jöfnum úrskurði beina og nýtingar á flaki sem bætir hana um 2%. Þegar beinagarðurinn er farinn er flakið skorið niður af mikill nákvæmni í staðlaða bita sem henta nákvæmlega kröfuhröðustu kaupendum. Þegar búið er að skera burt verðmætasta bitann, hnakkastykkið, og taka burtu þunnildi verður eftir eftir afurð sem kölluð er bakflak; sem í raun er lítið flak sem hentar markaðinum afskaplega vel og fæst mun betra verð fyrir en sporð og miðstykki.
Þróun sjávarútvegs
Ljóst er að tími stærri vinnslustöðva er runninn upp. Erfitt verður fyrir litlar vinnslur að keppa við þær stærri og öflugri sem hafa burði til að fjárfesta í dýrum búnaði til að auka framleiðni. Þetta mun kalla á samþjöppun í greininni, sem vonandi verður ekki stöðvuð af misvitrum stjórnmálamönnum, því slík framleiðni er forsenda betri launa á Íslandi og lífskjara landsmanna. Það er kominn tími til að taka þann beiska kaleik af sjávarútveginum að draga vagn byggðastefnu á Íslandi. Að sjálfsögðu eru til aðrar leiðir til að aðstoða byggðir í vandræðum ,en að útdeila kvóta til að tapa á honum. Þar verður engin verðmætasköpun og er tap fyrir alla landsmenn.
Pólitíkin
Nú eru umræður um að breyta veiðileyfagjaldi á þann veg að það verði lagt á fyrirtæki eftir árangri þeirra í rekstri. Sem þýðir í raun og veru að verðlauna eigi skussann og refsa þeim sem betur stendur sig. Þetta er alröng hugsun og eina vitið að hafa gjaldið fast á hvert kíló af fiski. Allir greiða það sama og allir sitja við sama borð í samkeppni um nýtingarréttinn. Tökum alla rómantík út fyrir sviga og horfum á sjávarútveg sem öfluga atvinnugrein sem getur verið hornsteinn góðra lífskjara á Íslandi.
Gunnar Þórðarson viðskiptafræðingur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 8
  • Sl. sólarhring: 30
  • Sl. viku: 49
  • Frá upphafi: 283758

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband